Leita í fréttum mbl.is

Frábær grein

hjá Mörtu Guðjónsdóttur í Morgunblaðinu í dag um hvílk firring ríkir í Borgarstjórn Reykjavíkur gagnvart flugmálum Íslendinga. Þar dettur skipulagsfræðingum Borgarinnar í hug að strika yfir tugmilljarða starfsemi eins og ekkert væri og eru þeir studdir til verksins af meirihlutanum og þeim borgarfulltrúum Sjálfstæðismanna sem berja höfðinu við steininn og vilja fluggvöllinn burt hvað sem það kostar.

Fyrir þá sem ekki lesa Morgunblaðið er grein Mörtu hér:

"Um áratuga skeið hafa Íslendingar sinnt flugleiðsögn á Norður-Atlantshafi. Sú þjónusta verður stöðugt umsvifameiri en íslenska flugstjórnarsvæðið er 5,4 milljónir ferkílómetra að stærð og eitt það stærsta í heimi. Á síðasta ári fóru 108 þúsund flugvélar um svæðið. Gjaldeyristekjur af þjónustunni nema nú rúmum þremur milljörðum króna á ári og hundrað manns hafa vel launaða atvinnu af henni hér á landi.

 

Þessi störf og þessar tekjur eru nú í alvarlegu uppnámi vegna þeirrar ósveigjanlegu stefnu borgaryfirvalda að leggja niður Reykjavíkurflugvöll á næstu árum og reisa blokkabyggð í Vatnsmýrinni.

 

ISAVIA, sem sér um fyrrnefnda flugleiðsögu, getur ekki sinnt henni í náinni framtíð, nema stofnunin hafi tök á því að bæta við starfsemina tölvubúnaði og tækjum vegna sívaxandi flugumferðar og fyllri öryggiskrafna.

 

ISAVIA eða Graema Massie?

 

Alþjóðaflugmálastofnunin hefur nú farið fram á aukinn tækjabúnað fyrir þjónustuna, en þeirri kröfu verður ekki sinnt nema ráðist verði fyrst í stækkun á því húnsæði ISAVIA sem hýsir starfsemina við Reykjavíkurflugvöll. Þar standa borgaryfirvöld hins vegar í veginum því slík stækkun myndi raska fyrirhuguðu skipulagi í Vatnsmýrinni, samkvæmt hugmyndum skosku arkitektanna, Graeme Massie Architects. Þær skipulagshugmyndir Skotanna hafa þó enn ekki verið samþykktar sem hluti deili- eða aðalskipulags.

 

Flutningur ekki inni í myndinni

 

Rétt er að hafa í huga að ekki er hægt að flytja starfsemi ISAVIA úr núverandi húsnæði nema með ærnum tilkostnaði. Aldrei má gera hlé á, né raska á annan hátt þjónustunni, sem er sífelld og stöðug allan sólarhringinn, alla daga ársins. Flutningur á starfseminni, þó ekki væri nema yfir í næsta hús, myndi hafa í för með sér tvöfaldan tækja- og tölvubúnað sem þyrfti að starfrækja samtímis, mánuðum saman. Kostnaður við slíkar ráðstafanir er áætlaður um 15 milljarðar króna. Alþjóðaflugmálastofnunin mun að öllum líkindum ekki leggja í slíkan kostnað, nema færa þá jafnframt þjónustuna úr landi, til Skotlands eða Kanada, enda hefur slíkt þráfaldlega komið til tals að undanförnu.

 

Borgaryfirvöld hafa í hótunum

 

Stækkunin á húsnæði ISAVIA hefur fyrir löngu verið teiknuð, en skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar hafa nú hundsað beiðni um byggingarleyfi í meira en eitt og hálft ár, þrátt fyrir margítrekaða málaleitan ISAVIA. Ef byggingarleyfið fæst ekki nú innan örfárra vikna er fyrirsjánlegt að Alþjóðaflugmálastofnunin flytji starfsemina úr landi. Þetta hefur borgaryfirvöldum verið fullkunnugt um.

 

Þegar arkitektinn að stækkuninni og forráðamenn ISAVIA gerðu skipulagsyfirvöldum það ljóst að frestur ISAVIA til að stækka við sig og auka tækjabúnaðinn væri að renna út ákvað skipulagsráð borgarinnar loksins að setja stækkunina í auglýsingu, nú í sumar. Af því tilefni sáu fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans í skipulagsráði ástæðu til að bóka, að slík auglýsing af hálfu ráðsins yrði háð því skilyrði að ríki og flugmálayfirvöld staðfestu, að NA-SV-braut Reykjavíkurflugvallar yrði lögð af innan þriggja ára.

 

Með þessari bókun er haft í eftirfarandi hótunum: Ef þið ekki samþykkið að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður mun samfélagið verða af hundrað vel launuðum störfum og þriggja milljarða gjaldeyristekjum á ári.

 

Lifandi borg - LEGO-kubbar?

 

Reykjavíkurborg er ekki LEGO-kubbar. Hún er rammi um gróskumikið mannlíf lifandi einstaklinga. Skipulag hennar á ekki að snúast um upphafna og fagurfræðilega sérvisku borgaryfirvalda. Það á samkvæmt eðli sínu að snúast um samvinnu, samhæfingu og tillitssemi gagnvart margbreytileika mannlífsins - gagnvart ólíkum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum, og gagnvart mismunandi þörfum, hagsmunum og hugmyndum.

 

Þetta er borgaryfirvöldum ekki ljóst, sem standa nú í hatrömmu stríði við samfélag sitt. "

Setjið svo nöfn Gísla Marteins, Þorbjargar Helgu og Áslaugar Friðriksdóttur með borgaryfirvöldum og þá sjá menn fljótt að Marta Guðjónsdóttir á ekki heima í 10. sæti lista Sjálfstæðismanna heldur mun ofar.

Ég heiti á reykvíska Sjálfstæðismenn að minnast Mörtu Guðjónsdóttur þegar kemur að prófkjöri. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Gott innlegg í flugvallarmálið í Vatnsmýrinni.

Eitt má þó Jón Gnarr eiga. Hann viðurkenndi það í upphafi að hafa hvorki reynslu né kunnáttu til þess að flytja flugvöll (ef mig ekki misminnir). Vonandi tekur hann af skarið og kemur vitinu fyrir sína samstarfsmenn, nú eða þá að Reykvíkingar taki sig saman og losi okkur undan núverandi meirihluta og sjái auk þess til þess að hreinsað verði til á þeim listum sem í framboði verða í kosningunum í vor þannig að þeirri fáránlegu umræðu um flugvallarmálin sem í gangi hafa verið linni svo hægt verði að hefja uppbyggingu á starfsemi tengdri Vatnsmýrarflugvelli Reykvíkingum og landsmönnum öllum til hagsbóta. Ekki veitir nú af!

Ómar Bjarki Smárason, 9.9.2013 kl. 10:34

2 Smámynd: Örn Johnson

Ómar Bjarki, ekki taka þátt í hugtakaruglingi eins og t.d RUV gerir. Þeir nota sögnina "að færa" um niðurlagningu flugvallarins, sumir segja "að flytja" Þetta er rangnefni og er reyndar mjög áróðurskennt. Ætli nokkur hafi kynnt sér hvað niðurrif allra mannvirkja þar kosti? Afleiðingar þess á störf hundruða manna? Til þess eins að byggja blokkir. Miklu ódýrara og einfaldara væri að koma þeim fyrir á uppfyllingum í sjó út í átt að Akurey. Svo er hægt að gera það eftir því sem eftirspurn kallar á en ekki að fara í drastíska aðgerð eins og að leggja af n-s brautina sem hefði gífurleg áhrif frá fyrsta degi en tæki svo mörg ár að byggja þar blokkir.

Örn Johnson, 9.9.2013 kl. 13:07

3 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Halldór.

Bestu þakkir fyrir að koma þessari ágætu grein Mörtu Guðjónsdóttur á framfæri til efnaminni sjálfstæðismanna.

Það skyldi þó aldrei vera svo, að Marta sé sú einasta eina af framboðslista Sjálfstæðisflokksins, sem styður HEILSHUGAR áframhaldandi flugvallarrekstur í Vatnsmýrinni?

Jónatan Karlsson, 9.9.2013 kl. 17:47

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk Ómar Bjarki

Einmitt þurfa Reykvíkingar að vanda sig og kjósa hið skynibornasta fólk til áhrifa. Marta er bara í lagi eins og maður kallar það.

Reykvíkingar hafa sannað það í Effersey að landfyllingar til að búa til byggingaland eru raungæfur kostur. Af hverju þá kemst enginn annar blettur en Vatnsmýrin að í höfðum þessa fólks.

Jónatan, ég hef hlustað á Júlíus Vífil lýsa yfir stuðningi við völlinn í Vatnsmýri. Júlíus er mjög skýr náungi og hefur glögga yfirsýn yfir það sem hinir hafa ekki. Hann gerir sér grein fyrir því að í íbúðir í Vatnsmýri sem munu kosta svona 700.000 kr/m2 ef draga má lærdóma af þéttingu byggðar annarsstaðar, munu ekki draga að sér barnafólk sem fer þá annað. Án barna þarf Borgin ekki að byggja leikskóla til dæmis. Það er sparnaður út af fyrir sig. Það er ekkert einbýlishús ráðgert í Borginni næsta áratug. Þeir ríku fara þá annað.

Hvert annað? Til Kópavogs til dæmis. En þar fjölgar íbúum meðan fækkar í Reykjavík. Gísla Marteini hlýtur að líka það.

Halldór Jónsson, 9.9.2013 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 3418315

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 71
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband