Leita í fréttum mbl.is

Kjósið bara kjútípæ?

Guðbjörg Snót skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðð í dag:)feitletranir eru bloggarans)

"Dagur fyrirferðarmikill í kosningabaráttunni. Ekki vegna þess að hann geri mikið í því, heldur virðist fólk vera svo heillað upp úr skónum af þessum dreng, að með ólíkindum er, og minnir helst á aðdáun á íþróttagörpum, poppgoðum og Hollywoodstjörnum. Það er engu líkara en Elvis Presley sé risinn upp úr gröf sinni, og það hér í Reykjavík! Svo mikil er aðdáunin.

 

Í Alþýðuflokknum sáluga, sem þó lifir að nafninu til, var algengt að reyna að þvinga hverjar kosningar til sveitarstjórna og Alþingis til að snúast um persónukjör frekar en baráttumál, einkum og sér í lagi, þegar menn fundu, að baráttumálin voru mjög umdeild og hætta á falli flokksins vegna þeirra. Þá var reynt að knýja fram persónubundnar kosningar, enda hefur það lengi verið baráttumál fyrst hjá Alþýðuflokknum og síðar núna Samfylkingunni að koma á persónukjöri í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, þótt það hafi oftar en ekki mistekist. Þeir ætla samt að reyna þetta núna með efsta manninum á lista sínum hérna í Reykjavík. Það er líka alveg makalaust hvað hann nýtur mikilla vinsælda, nánast fyrir ekki neitt. Hann þarf ekkert að segja, bara sýna sig, virðist vera, til þess að sumir verði eins og bítlaaðdáendurnir hér í gamla daga, sem féllu í yfirlið við það eitt að berja þá augum. Fyrr má nú vera aðdáunin, segi ég bara.

 

Þeir smáflokkar og flokksbrot, sem hafa boðið fram í kosningum á Íslandi, hafa yfirleitt ekki náð að skora í mark hjá kjósendum, þó að kandídatarnir væru ekki af verri endanum og þjóðþekktir einstaklingar jafnvel. Þó var það einn maður á síðustu öld sem hafði slíka persónutöfra og -fylgi, að undrum sætti, og gat alltaf halað inn atkvæði, jafnvel á landsvísu, og töluverðan mannskap í alþingiskosningum a.m.k., en það var Hannibal Valdimarsson, fyrrum forseti ASÍ. Hann stofnaði marga flokka á síðustu öld og var yfirleitt í kjöri vestur á fjörðum, þar sem hans aðalvígi var, en samt var það svo, að hann náði oftast nær að hala inn með sér nokkra þingmenn, þótt engum dytti í hug, að hann hefði mikið upp úr krafsinu, frekar en aðrir, sem buðu fram svona sér. Hannibal gat það, sem engum öðrum virtist kleift að gera, enda minnist ég þess, að foreldrar mínir furðuðu sig stundum mjög á þessu, en maðurinn virtist hafa einhverja slíka persónutöfra og útgeislun, sem gerði þetta mögulegt. Þótt Albert Guðmundsson ynni mikið og gott starf fyrir »litla manninn« svokallaða og hefði mikið persónufylgi og vissan sjarma, þá virtist hann ekki ná Hannibal að því leytinu til. Engum virðist fyrr eða síðar hafa tekist þetta, fyrr en Degi núna.

 

Um hvað eiga kosningar að snúast - menn eða málefni? Ég hélt nú, að allar kosningar ættu fyrst og síðast að snúast um málefni frekar en fólkið, sem er í framboði, en nei, nú er Samfylkingin að þvinga fram persónubundnar kosningar, þar sem persónur og leikendur eru í aðalhlutverkinu fyrst og fremst, málefnin skipta minna máli.

Ekki tala um flugvöllinn, þrengingu gatna, eignarnám einkalóða í nafni þéttingar byggðar, íbúalýðræði eða nein svoleiðis leiðindamál, sem skipta engu máli fyrir borgarbúa, og eru algert aukaatriði. Tölum heldur um þessa æðislega flottu frambjóðendur, sem eru á listunum, og skipta hundrað sinnum meira máli en málefnin. Tölum um sjarmatröllið hann Dag, sem tvær úr Tungunum hefðu sagt þetta um: »Gvöð, er hann ekki æðislega kjútý pæ, hann Dagur!« Og Elsa Lund hefði eflaust tekið undir og sagt: »Jú, hann er svo æðislega flottur gæi, algert rassgat! Kjósum hann.«

 

Nei, kjósendur góðir, reynið nú að vakna og snúa ykkur að málefnunum síðustu dagana fyrir kosningar frekar en persónum og leikendum. Kosningar eiga ekki að snúast allar um manneskjurnar, og það einn mann, sem þið svo kvartið og kveinið undan, að virði ekki íbúalýðræðið og vaði yfir eignarrétt fólks í nafni þéttingar byggðar og annað í þeim dúr að kosningum loknum. Eða skiptir það ykkur virkilega engu máli, fyrr en eftir kosningar þegar á á að herða og allt er um seinan?!

 

Það megið þið vita, að það mun enginn hafa samúð með ykkur, þegar þið farið að væla og kvarta yfir því, að á ykkur sé ekki hlustað og bænaskjölin frá ykkur ekki virt, þegar þið eruð búin að kjósa þennan æðislega sjarmör yfir ykkur sem næsta borgarstjóra! Kosningar eiga ekki að snúast um sjarma og persónutöfra, heldur málefni. Reynið að skilja það og virða, og hugsið ykkur betur um, áður en þið kjósið Dag og kompaní yfir okkur aftur, því að þó að þið viljið endilega hafa þessa ómögulegu stefnu þeirra varðandi borgina, þá er stór hópur hér í borginni, sem vill ekkert með hana hafa!

 

Vaknið þið, sem sofið, áður en það er um seinan! "

Guðbjörg Snót hefur þarna talsvert til síns máls. Vinsældir Dags B. eru langt um meiri en flokksins hans Samfylkingarinnar. Er einhver önnur skýring önnur en sú sem Guðbjörg nefnir til? Nema þá sú að hinir frambjóðendurnir séu svo hræðilegir að Dagur sé hátíð hjá þeim?

Elvis heitinn hefði auðveldlega getað orðið borgarstjóri í Reykjavík. Kannski hann einn hefði getað sigrað Dag  ?

Eru nokkur önnur kjútípæ í augsýn til að kjósa sem toppa hann Dag B. eins og komið er málum með reykvískum kjósendum ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldinn

Mikið eru þetta asnaleg skrif hjá ykkur báðum.  Það segir mikið um fólk hvernig það ber sig þegar það tapar í kosningu eða kappleik.  Þið fallið bæði á prófinu og það illa.

Baldinn, 27.5.2014 kl. 15:10

2 Smámynd: Sigurjon Einarsson

Þessi pistill þinn Halldór Jónsson er sennilega eitthvað mesta rugl sem ég hef lesið. Enn takk fyrir.

Sigurjon Einarsson, 27.5.2014 kl. 15:24

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrirbrigðið, sem þetta snýst um, hefur verið alþekkt í stjórnmálum frá örófi alda og heitir kjörþokki. Það er alrangt sem haldið er fram að Samfylkingin hafi teflt Degi eitthvað sérstaklega fram frekar en önnur framboð. Sé ekki betur en að meira að segja allra síðasti bæklingurinn þeirra tefli fram málefnum fyrst og fremst. Í pistlunum ykkar er reynt að tala niður til Dags og kalla hann "dreng", vantar bara að bæta við "drengstaula". Þetta missir alveg marks. Dagur á meira en áratugs reynslu að baki í borgarstjórn, hefur gegnt hlutverki borgarstjóra og verið oddviti Sf um margra ára skeið. Hann er þroskaður, hæfileikaríkur og reyndur stjórnmálamaður á besta aldri. Við erum ekki sammála um sum mál, eins og flugvallarmálið, en við berum virðingu fyrir skoðunum hvor annars og það er gott að þekkja Dag. Sf stóð ekki fyrir því á neitt óvenjulegan hátt að tefla Degi fram, - fólkið hefur sjálft gert það í skoðanakönnunum á þann hátt að gefa honum sem persónu meira en tvöfalt meira fylgi í stól borgarstjóra en framboðslistinn hans hefur. Það eru líklega fá dæmi um slíkt og í stað þess að tala niður til hans og kjósenda er réttara fyrir andstæðinga hans að líta í eigin barm og skoða, hvers vegna enginn annar kemst neitt nálægt honum í fylgi.   

Ómar Ragnarsson, 27.5.2014 kl. 17:14

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það eru komin 130 "like" á þessa undarlegu færslu þegar þetta er ritað. Sennilega eru þau flest frá stuðningsmönnum Dags sem gera sér ljóst að færslan er algert vindhögg og líklegri til að auka fylgi Dags frekar en hið gagnstæða.

Vert er að óska síðuhafa til hamingju með það. 

Axel Jóhann Hallgrímsson, 27.5.2014 kl. 21:16

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Ómar , ég kannast ekki við að ég tali niður til Dags þegar ég birti grein Guðbjargar Snótar. Hún skrifar sína skoðun. Dagur er líklega myndarlegasti frambjóðandinn með mestan kjörþokkann, það er enginn að deila um það. Það sem ég og aðrir eru að undrast er hvernig fólk tendrast af persónum en ekki málefnum.Dagur er á móti flugvellinum. Hann er með Aðalskipulaginu sem er á móti flugvellinum. Hann er því andstæðingur minn eins og allir sem þá afstöðu hafa og í hvaða flokki sem er.

Það eru margir að setja út á viðhald gatna og hindrun bílaumferðar. Ég er bílamaður og hjóla ekki. Ég get ekki fylgt slíkri stefnu.

Sjálfstæðisflokkurinn talar um íbúakosningu um framtíð flugvallarins. Mér finnst það út í hött þegar landsmenn hafa talað sem eiga völllinn síðan Bretar afhentu Ólafi Thors hann 1947 í heilu lagi. Bogaryfirvöld eiga ekkert með að kroppa í hann.

Ég hef aldrei fengið svona mörg like á færslu hjá mér. Ég tek það nú frekar sem samhug til Guðbjargar Snótar þar sem hún skrifar meginmálið en ég feitletra aðeins.

Ég sé ekki ástæðu til að svara Böldnum né Sigurjóni.

Halldór Jónsson, 27.5.2014 kl. 22:22

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Já og Ómar, þú fékkst nú áreiðanlega mörg atkvæði pólitískt vegna annarra hluta en málstaðinn, þú hefur þennan kjörþokka sem þjóðarástmegir hafa. Þú ert líklega einn af fáum sem gæti sigrað Ólaf Ragnar í Forsetakosnngum úr þvi að Elvis er ekki fáanlegur. Kannski að Bubbi og Bjöggi gætu komist að líka. Og svo auðvitað Dagur B. og Jón Gnarr.

Málið er að Íslendingar eru mjög fljótir að hefja venjulegt fólk í annað veldi í einhverri hrifningarvímu og draga svo allar ályktanir um framtíð ÍSlands útfrá því.

Halldór Jónsson, 27.5.2014 kl. 22:28

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það er sá stóri munur á Elvis og Degi B að Elvis var hæfileigaríkur einstaklingur og hafði sitt karma út á það. Dagur hefur eftir því sem ég kemst næst ekkert fram að færa nema kjörþokkan.

Það er algerlega með ólíkindum að maður eins og Dagur sem ég hef aldrei heyr segja neit annað en eitthvað samhengislaust raus sem augljósleg er bein til þeira sem ekki skilja málefnin sem um er rætt efnislega, sé líklegur borgarstjóri í Reykjavík. Sérstaklega þegar horft er til þessa Dasgur er eins lagt frá Jóni G og hægt er að hugsa sér.

Guðmundur Jónsson, 28.5.2014 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 127
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 77
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband