Leita í fréttum mbl.is

Verkföll eru úrelt

tæki til að knýja fram samninga. Það er auðreiknað að mánaðarverkfall sem leiðir af sér 10% taxtahækkun leiðir af sér að það  tekur 10 mánuði að vinna upp tapið fyrir launþegann. Mánuðurinn fyrir launagreiðandann er að eilífu tapaður. Öll líkindi eru til þess að verðbólgan hafi étið upp ávinninginn innan skamms tíma. Það sannar saga okkar að minnsta kosti áþreifanlega. 4000 % taxtahækkanir sem voru knúnar fram  með verkföllum mikinn part hafa leitt til lækkaðs kaupmáttar.

Ég rakst á athyglisverða grein um þetta mál eftir Guðmund Sigurðsson.   Henn segir:

"Eitt öflugasta vopn launþegahreyfingarinnar hefur í gegnum tíðina verið að beita verkföllum ef ekki þykir nægilega vel boðið við samningaborðið. Þetta hefur oftast skilað þeim árangri fyrir rest að um semst eða stjórnvöld hafa gripið inn í og deilan hefur verið leyst með lagasetningu, úrskurði eða gerðardómi. 

Verkfallsvopnið er þvingunaraðgerð sem miðast við að þrýsta á samningsvilja gagnaðila. Þegar tveir aðilar semja í launadeilu er það sjaldan þannig að báðir aðilar gangi sáttir frá borði, báðir aðilar þurfa yfirleitt að gefa eftir til að niðurstaða náist fram. Ef menn enda í þeirri stöðu við samningaborðið að of mikið ber í milli endar deilan í dag í verkfalli. Oft bitnar slíkt verkfall á þriðja aðila, sbr. verkföll á sjúkrahúsum, starfsmanna flugfélaga, kennara eða sjómanna. Fjöldinn allur af aðilum sem ekki eru í umræddri launadeilu, bæði fyrirtæki og einstaklingar, þurfa að glíma við afleiðingar hennar.

 

Nauðsynlegt er að launþegar hafi úrræði til að þrýsta á kjarabætur, á sama máta má slík launadeila ekki hafa þannig afleiðingar að umrætt fyrirtæki/stofnun beri of mikinn skaða af, svo ég tali nú ekki um þriðja aðila eða samfélagið í heild. Þetta er samt því miður oft afleiðing verkfalla í okkar samfélagi í dag. 

Það sem vantar oft inn í þessa jöfnu er hvati fyrir báða aðila til að finna lausn og semja. Ég vil leggja til þá breytingu að verkfallsréttur í þeirri mynd sem við þekkjum hann verði afnuminn og eftirfarandi aðferð verði beitt í kjaradeilum framvegis:

1.

Þegar styttist í að kjarasamningur renni út hefja samningsaðilar viðræður og reyna að ná lendingu sín á milli (eins og áður).

2.

Þegar samningur rennur út (eða X mánuðum þar á eftir) þá hækkar launagreiðsla launagreiðenda og greiðsla til launþega lækkar. Þetta ástand myndi vara þar til samningar nást. Það mætti einnig hugsa sér að greiðslur yrðu stighækkandi eða stiglækkandi miðað við skilgreind tímamörk ef ekki tekst að semja.

 3.

Þessar viðbótargreiðslur renna hvorki í vasa launagreiðenda né launþega heldur fara í hlutlausan sjóð. Sem dæmi gæti það fjármagn sem kemur í þennan sjóð farið til að efla nýsköpun, styðja góðgerðarmálefni eða íþróttahreyfinguna svo eitthvað sé nefnt. Fjármagnið ætti samt ekki að fara í liði sem annars hefðu verið á fjárlögum og ríkið þannig sparað sér útgjöld. Vonandi yrðu framlög í þennan sjóð óveruleg

4.

Umræddum sjóði mætti ekki vera stjórnað af ríkissjóði þar sem hann hefur töluverða hagsmuni í málinu og yrði líklega stærsti greiðandi í hann.

 5.

Engin vinnustöðvun myndi eiga sér stað.

 6.

Verkalýðshreyfingin myndi hætta að safna í verkfallssjóði og þannig gætu útborguð laun hækkað til launþega sem því nemur. Hætt yrði að greiða úr verkfallssjóðum enda yrðu ekki verkföll, inneign í verkfallssjóðum mætti endurgreiða til launþega.

 7.

Þessi hækkun á greiðslum launagreiðenda og lækkun á greiðslum til launþega þyrfti að vera nægilega há til hafa áhrif á báða aðila en samt ekki það lág að hún skipti litlu máli. Ég myndi telja að hlutfallsbreytingin ætti að vera á bilinu 15-25%. Hver hlutfallsbreytingin á að vera getur verið mismunandi eftir kröfugerðinni og efnahagsástandinu hverju sinni.

 8.

Dæmi: Launagreiðandi er tilbúinn til að greiða 5% hærri laun, launþegi vill fá 12% hækkun. Samningsaðilar ná ekki saman og deilan endar í hnút. Þá myndi launagreiðandi þurfa að greiða 20% álag og launþegi taka á sig lækkun upp á 20% samkvæmt þessari aðferð.

 Það sem ávinnst með þessari aðferð er að báðir aðilar hafa hvata til að semja og að sama skapi eru afleiðingar fyrir báða aðila ef ekki um semst. Enginn þriðji aðili myndi þurfa að þola afleiðingar verkfalls. Greiðslur sem myndu greiðast í slíkan sjóð myndu koma samfélaginu til góða. Þessi breyting myndi tryggja hraðari úrlausn vinnudeilna og tap samfélagsins af vinnudeilum yrði lægra. 

Auðvitað er þetta ákveðin einföldun á vinnudeilum því þær snúast ekki einungis um sjálfan launaliðinn en ég vil kasta fram þessari hugmynd til sérfræðinga landsins í vinnudeilum og Alþingis til frekari útfærslu. "

Er ekki tímabært að reyna að hugsa eitthvað nýtt í þessum svonefndu kjarasamningum? Blasir ekki við að verkföll hljóta að vera úrelt úr því að þau leysast yfirleitt á endanum? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 127
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 77
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband