Leita í fréttum mbl.is

1.000.008

höfðu komið á bloggið mitt frá því i apríl 2007 þegar ég kveiki upp um hálfátta í morgun. Ekki mikið miðað við Palla Vil sem státar af 4,6 milljónum heimsókna. Ætli margir taki honum fram?

En allavega er ég rogginn með mitt og vil þakka öllum sem hafa lagt leið sína á síðuna, sent mér sínar hugsanir og beint mér á betri brautir eða reynt það. Það er sagt að erfitt sé að kenna gömlum hundi að sitja. Og ég er allavega orðinn eldri en ég var í apríl 2007 þegar ég skrifaði fyrst á síðuna í fýlu út í Styrmir á Mogganum þar sem hann nennti ekki að vera að birta greinar eftir mig í blaðinu og gaf mér þennan sandkassa sem bloggið er fyrir þá sem rísla sér við skriftir í óhófi.

Fyrsta bloggið er nefnilega fýlusöngur til Moggans í tilefni af þessu:

"MARGT er breytt í þjóðfélaginu frá því að ég man fyrst eftir mér. Um margt er það endurlausn frá útbreiddu basli og fátækt fólks. Þá voru flestir í lægri tekjuhópum. Fleiri fannst manni þó vera ánægðir en í dag, enda var skorturinn sameign allra. Þeir sem voru taldir ríkir á Íslandi í mínu ungdæmi þættu það ekki í dag. Í kennarastéttinni voru fleiri karlar en konur, virðulegir menn sem gáfu manni á’ann ef með þurfti, sem þurfti reglulega. Konur unnu heima og leikskólar voru ekki til.

Ég var alinn upp við sterka þjóðernisvitund, bæði í skólanum og á götunni. Danir voru djöflar sem píndu alþýðuna, DDPA, og við höfðum mikla fordóma í þeirra garð. Þjóðverjar voru nasistar og frekjur. Bretar og Kanar keyptu fiskinn og voru vinir okkar. Við Íslendingar áttum hins vegar fornsögur og þjóðsögur með draugum og álfum umfram aðrar þjóðir. Biflíusögur voru kenndar í skólanum, hellt var upp í okkur volgu lýsi í kennslustundum hvort sem við vildum eða ekki og gerð á okkur berklapróf á sömu nótum. Vandræðabörn voru send í sveit, berklasjúklingar sendir nauðugir á hælin, rónar voru rónar og sódóar voru sódóar sem við forðuðumst.

Nú er eitthvað sem er kallað persónuvernd sem kemur í veg fyrir allt svona. Það má ekki kenna uppsláttarfagið biflíusögur lengur vegna múslímakrakka. Víðsýnin býður okkur að kenna á erlendum málum í skólunum. Við verðum að aðlaga okkur að innflytjendum, ekki öfugt.

Forsætisráðherra Ástralíu, John Howard, segir núna blákalt við innflytjendur: Við báðum ykkur ekki að koma. Ef þið viljið ekki semja ykkur að áströlskum guðsótta og góðum siðum, þá skuluð þið fara annað. Hér verður engin fjölmenning eða fjölgyðistrú heldur kristið ástralskt þingræðisríki og samveldi. Ein lög og eitt tungumál sem þið skuluð læra. Ef þið viljið búa í trúarríki við sjarjalög þá hafið þið frelsi til að fara héðan.

En í Morgunblaðinu mínu er það meiri frétt að ríkið ætli að fara að þýða biblíuna upp á nýtt. Vorum við þá alltaf með rangan texta? Það er hins vegar talið til slíkra ótíðinda í blaðinu, að stjórnmálamenn, sem vilja ræða stjórnun á straumi innflytjenda til landsins, eru bannsungnir, svipað og gert var í pápískunni. Blaðið mitt úrskurðar að við þá menn eigi og megi engir tala.

Vilji maður flytja hund til landsins er hann settur í einangrun úti í Hrísey til langtíma. Það má ekki flytja beljukyn til landsins sem mjólkar meira. Það má ekki flytja inn arabíska stóðhesta, eða setja sænskar geddur í Þingvallavatn. En það eru engin takmörk fyrir því hversu margir eða hvers konar útlendingar mega flytjast hingað.

Við gömlu rasistarnir úr Norðurmýrinni, sem lifðum í áþvinguðu fjölmenningarsamfélagi styrjaldaráranna, vorum heimagangar hjá Kananum, vorum með hor í nefinu og töluðum ensku fyrir átta ára aldur, erum orðnir þegnar í íslenzku fjölmenningarsamfélagi, sem einhverjir eru að skapa án þess að við værum spurðir. Vorum við þó með talsverða reynslu.

Nú skilst okkur að það megi ekki einu sinni leita að illlæknanlegum bráðaberklum lengur af því að þá myndum við stuða innflytjendurna. Og þaðanafsíður megum við spyrja að því hvort innflytjandi geti hafa verið axarmorðingi eða barnaníðingur á heimaslóð eða hafi HIV.

Okkur er sagt að ríkið verði bara að kenna þessu fólki íslenzku á okkar kostnað svo verði þeir jafngóðir Íslendingar og við gömlu bísarnir. Ekki er spurt hvort innflytjendurnir yfirhöfuð vilji læra íslenzku eða geti það. Hvort þeir eftir það muni lesa Sturlungu eða biblíuna nýþýdda hefur ekki frétzt. Heldur ekki hvort ríkið ætli að láta þýða Kóraninn á íslenzku svo að innfluttir geti lesið hann á nýja móðurmálinu. Komumst við hjá því til lengdar með tilliti til jafnræðisreglanna, sem nú eru í tízku?

Margir telja að við séum að fremja freklegt ofbeldi á innflytjendum með því að neyða þá til að læra íslenzku. Það talar enginn íslenzku við okkur þegar við förum til útlanda. Af hverju þarf útlendingur sem kemur hingað í vinnu að læra þetta hrognamál frekar en hann vill? Getur hann ekki bara lesið Kiljan á útlenzku ef hann vill og flestir innfæddir tala ensku.

Hvers vegna er sjálft Morgunblaðið að tala fyrir svona þvingunum á innflytjendum? Blaðið virðist styðja ótakmarkaðan innflutning erlends fólks um leið og það dýrkar íslenzka menningu, þjóðleg sérkenni, Halldór Kiljan, nýja nýsköpunarstjórn og biflíuna. Hvernig getur þetta blað dregið svo víðtækar ályktanir af máli íslenzkra stjórnmálamanna, að við þá eigi eða megi enginn tala? Hvorki menn né stjórnmálaflokkar vegna þess að skoðanir Morgunblaðsins eru aðrar í innflytjendamálum. Jafnvel kvótamálið virðist víkja. Vonandi veldur þessi einstrengingur ekki fækkun í áskrifendafjölda blaðsins.

Nú streyma innflytjendur til landsins sem aldrei fyrr. Af hverju megum við ekki stjórna neinu í sambandi við þetta síðara fjölmenningarstig okkar eða hafa skoðanir í innflytjendamálum án þess að þola bannsöng blaðsins míns?

Höfundur er verkfræðingur."

Mér hefur líklega lítið farið fram á þessum árum þar sem ég er enn að mest við sama heygarðshornið mitt. Hreint ekki með viðurteknar skoðanir á innflytjendamálum. Margar kosningar farið fram. Styrmir hættur og ég fitnað. En  Davíð er kominn á Moggann og ég búinn að sjá að mér að mestu með greinaskrif í blaðið.  O tempora, o mores.

En hefur eitthvað áunnist með þessu þrasi? Ég held bara akkúrat ekki neitt. Fólkið vill hafa þetta svona eða einhver sem ræður fólkinu og ég veit ekki hver er. Einhver Guðjón bak við tjöldin. Það er einhversstaðar búin til rétt skoðun á Schengen, EES,  fjölmenningu osfrv. sem enginn fær breytt. Hvorki með kosningum eða öðru sem á hefur gengið síðan 2007 seint í apríl. Maður breytir víst ekki þessu.

En kæru 1.000.008. takk fyrir skemmtunina hvað sem öðru líður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Magnússon

Halldór, ég er einn af þessum einnimilljónogátta, eða kannske margir, ég hef lesið þig svo oft. Sért þú í úrvalinu af bloggum, sem opnast hjá mér, þá les ég þig fyrst.

Haltu áfram að skrifa, eins lengi og þú hefur krafta til, við erum svo mörg, sem erum sammála þér.

Geir Magnússon, 13.6.2014 kl. 10:12

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Kæru vinir Geir og Jón Hjaltalín, ég hreinlega tárast af svona hlýju í minn garð vegna minna skrifa sem mér finnast ekki hreint ekki alltaf svo merkileg að einhver muni nenna að lesa eða veita þeim athygli. þetta kemur þá yfir mann eins og óvæntur foss að fá svona klapp á bakið.Takk fyrir.

En svo merkilegt sem það er þá er það oft einmitt það sem mér finnst sjálfum fremur ómerkilgt er það sem einmitt aðrir taka mest undir. Svo niðurstaðan er sú að láta allt vaða sem manni dettur í hug, ef einhverju er svarað með þögninni þá er það ekki ofarlega í hugum fólks. Og þá gerir maður bara eitthvað annað.

Halldór Jónsson, 13.6.2014 kl. 14:45

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Til hamingju með milljónina þína, Halldór. Pistlar þínir eru einatt áhugaverðir og vel skrifaðir og ég les þá alla, því að í þeim koma fram sjónarmið sem hollt er að íhuga, melta og meta.

Þeir eru eins og flestir aðrir pistlar á blogginu, hluti af ákveðinni "fjölmenningar"flóru hér á blog.is, sem gefa deginum lit, auðga rökræður, þekkingu og efla skilning og virðingu fyrir sjónarmiðum annarra.

Ómar Ragnarsson, 13.6.2014 kl. 16:37

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Ja hérna Ómar

þetta var fallega sagt og virkilega mikils virði fyrir mig. Þakka þér kærlega fyrir þessi orð.

Halldór Jónsson, 13.6.2014 kl. 18:57

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Þetta eru náttúrlega smámunir hjá mér miðað við stórveldið Ómar Ragnarsson með sínar nærri 6 milljónir.

Það er að vonum þar sem Ómar er sannkallaður þjóðardýrlingur og almannaeign. Ég óska þjóðinni allri til hamingju með að eiga þig að.

Halldór Jónsson, 13.6.2014 kl. 19:01

6 Smámynd: Elle_

Halldór, heillarík 1.000.008 +  Verð ég nokkuð að segja hvað ég les pistlana þína oft?  Þið voruð spes að ofan, ef ég get orðað það þannig.  Þjóðardýrðlingur, já, lætur mann hugsa um gömlu plötur Ómars, dó úr hlátri þegar maðurinn á skíðunum í fjallinu varð bara alveg kjur núna.  Það var nefnilega steinn.

Elle_, 14.6.2014 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 3418232

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband