Leita í fréttum mbl.is

Rangfærslur

er enn að finna hjá próf.dr.Þorvaldi Gylfasyni í Fréttablaðinu í dag.

Hann eyðir miklu púðri í að rakka niður stjórnarskrá Bandaríkjanna, sem sé ómöguleg af því hún sé skrifuð af þrælahöldurum og hafi aldrei átt að endast nema í 20 ár að hans smekk og Tómasar Jeffersonar.

Sem hann telur auðvitað sönnun þess að okkar stjórnarskrá sé úrelt og taka beri því upp stjórnarskrá Þorvaldar Gylfasonar og 101 liðsins frá Stjórnlagaþinginu.  Sem náði þó ekki nema fylgi fjórðungs þjóðaratkvæða landsmanna í ógiltum kosningum 20.10.2012.

Meirihluti landsmanna vildi hvorki sjá né heyra þá moðsuðu sem frá þessu stjórnalagaþingi Þorvaldar og kompanís lagði. Langloka upp á hundrað síður getur ekki vænst þess að vera tekin alvarlega í samanburði við stutta og gagnorða stjórnarskrá Bandaríkjanna, sem hefur dugað þeim núna í meira en tvær aldir. Og  raunar þá stuttorðu íslensku stjórnarskrá líka sem hefur dugað vel í 70 ár, alveg án aðkomu prófessors Þorvaldar.

 

Próf.dr.Þorvaldur eyðir miklu púðri í að afflytja Bandaríkin og draga fram að ákvæði stjórnarskráar þeirra séu meira og minna brotin. Forsetinn sé nokkuð ómarktækur af því að hann gæti verið kosinn með minni hluta atkvæða. Flestir hinna gömlu landsfeðra Bandaríkjanna hafi auk þess verið þrælahaldarar og því lítt trúverðugir til lýðræðisstarfa. Eða með orðum Þorvaldar:

"Eintómir karlar, eignamenn, lögfræðingar og þrælahaldarar: Hversu líklegt má telja, að stjórnarskrá, sem þeir sömdu fyrir næstum 230 árum, haldi gildi sínu í samfélagi nútímans?"

Ekki þykir mér líklegt að út myndu brjótast fagnaðarlæti yfir þessari ritsmíð næsta fjórða júlí væri hún kynnt Bandaríkjamönnum. En líklega væri ekki gaman að lifa í þessum heimi án Bandaríkjanna sem eru sú besta og traustasta brjóstvörn friðar og réttlætis í heiminum í öllum sínum ófullkomleika. 

Ekki sé ég fyrir mér að heimurinn muni batna mikið eftir að fá próf.dr.Þorvald og einvala 101-lið hans til að semja nýja stjórnarskrá fyrir Íslendinga um beint lýðræði og fleira góðgæti sem honum finnst sárlega vanta hérlendis. Sem þjóðin sjálf hinsvegar gaf algert frat í í þeim kosningum sem Þorvaldur til vitnar.

Og sýndi ekki þjóðin það sérstaklega með því að hafa engan áhuga á því beina lýðræðistækifæri sem henni bauðst við þetta tækifæri til að greiða atkvæði um þetta sögulega plagg Þorvaldar og Péturs á Sögu? En í huga þeirra prófessors Þorvaldar og Péturs er beina lýðræðið efni í endalausar útleggingar um eitthvað draumsýnar stjórnarfar fyrir Ísland með endalausum þjóðkosningum sem auðvitað taka Bandaríkjunum langt umfram að gæðum?

Ég sé hinsvegar fremur fyrir mér eitthvað sem minnir helst á skrílræðið frá dögum Forn-Grikkja og  Kleóns sútara fyrir margt löngu. Þokukenndir draumórar um eitthvað, sem mér finnast þeir varla skilja sjálfir til fulls, á að vísa veginn til fullkomins stjórnarfars fyrir Ísland, ef marka má málflutninginn. Fulltrúalýðræðið fæddist eftir að menn höfðu reynt þjóðstefnurnar til þrautar.

Rangfærslur og rógur prófessors doktors Þorvaldar Gylfasonar um Bandaríkin með sína stuttu sögu finnast mér leiðinlegur lestur og ósanngjarnar í garð mestu vinaþjóðar okkar og lítið gera til að velta fyrir sér vandamálum daglegs lífs Íslendinga um þessar mundir sem eru ærin. En doktorinn hefði sannarlega verk að vinna gæti hann greitt úr þeim fremur en að bekkjast við Bandaríkin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Bjarni

Það er forvitnilegt að lesa þennan pistil - því hvergi er hægt að sjá að þú færir nein sérstök rök fyrir því hvað það er sem er rangt við skrif Þorvaldar

Jón Bjarni, 9.4.2015 kl. 18:45

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sérkennilegt lýðræði að telja þá, sem ekki fóru á kjörstað, sem andstæðinga meirihluta þeirra sem kusu. 

Samkvæmt þessu hefur meirihluti kjósenda í Bandaríkjunum hvorki vilja heyra né sjá neinn af þeim forsetum, sem setið hafa í landinu og Íslendingar heldur ekki Ásgeir Ásgeirsson 1952, Vigdísi 1980 og Ólaf Ragnar 1996 og 2012. 

Og Íslendingar vildu hvorki heyra né sjá fullveldi 1918 samkvæmt þessum skilningi. 

Ómar Ragnarsson, 9.4.2015 kl. 21:01

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þér virðist renna blóðið til "skyldunnar", Ómar, að verja þetta ólögmæta "stjórnlagaráðs"-plagg. Veizt þó eins vel og aðrir, að farið var eftir tillögu uppivöðslumannsins Illuga Jökulssonar að sniðganga bara úrskurð Hæstaréttar Íslands um ógildingu stjórnlagaþings-kosningarinar (og þá þurftir þú að skila þínu kjörbréfi sem ógildu), en plottið það hjá Illuga -- plott sem þú tókst þátt í -- að fara ekki eftir lögunum um stjórnlagaþing, þótt þau væru enn í gildi, og sleppa því bara að endurtaka kosninguna, eins og skylt var skv. þeim lögum. Hræsnisfulla afsökunin var sú, að þið vilduð spara peninga!!! Á sama tíma létuð þið ykkur vel líka, að vinstri meirihluti Jóhönnu og Steingríms rétti ykkur loforð um lengri "ráðssetu" heldur en stjórnlagaþings-setan átti að verða, og þar með var verið að ausa í ykkur aukapeningum úr ríkissjóði, ólöglega, en til þess leikurinn gerður að stuðla að því að sem flest ykkar segðu já við því að taka þátt í þessu "stjórnlagaráði" sem var þó í raun ólögmætt. Og voru þetta ekki mútur, Ómar minn?!

Jón Valur Jensson, 9.4.2015 kl. 21:15

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bezt að vera ekkert aðhlífa þessum slæmu "ráðsmönnum" við sannleikanum. Hér er grein mín á DV-vefnum 28. nóv. 2010 um þetta mál:

Var athæfi stjórnarliða við skipan stjórnlagaráðs verjanlegt?

15:10 › 9. OKTÓBER 2012

 

 

Stór var þessi fyrirsögn í DV 1. október: MÚTUR MUNU EKKI LÍÐAST. Þar segir frá frumvarpi innanríkisráðherra í samræmi við samning Evrópuráðsins gegn spillingu og í takt við tilmæli GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu. Þar var því beint til Íslands "að tryggja að ákvæði almennra hegningarlaga um mútur og áhrifakaup næðu einnig til alþingismanna..."

Þetta var ágæt áminning til Íslendinga, sem senn ganga til kosninga um umbyltingu stjórnlaga okkar að óskum eða kröfum s.k. stjórnlagaráðs, sem í róttækni sinni fór langt fram úr yfirlýstum vilja þjóðfundarins 6. nóv. 2010 og bjó meira að segja til lúslétt heimildarákvæði um framsal fullveldis til erlends ríkjabandalags (111. gr. tillagananna). Öfugmælasamtökin "Já Ísland" hafa sérstaklega fagnað því ákvæði, sem heimilar einfalda skyndikosningu hvenær sem naumum meirihluta þingheims þókknast um innlimun Íslands í Evrópusambandið -- þ.e.a.s. nema meirihlutinn geri eins og ég hinn 20. næstkomandi: greiði atkvæði gegn þessari stjórnarskrártillögu í heild, því að það er eina leiðin til að losna við hina evrókratísku 111. grein!

En þegar gjörðir Alþingis 24. marz 2011 eru skoðaðar, virðist sérstök ástæða til að spyrja: Var tekin meðvituð ákvörðun um það meðal ráðandi afla í stjórnarflokkunum að beita e.k. "áhrifakaupum" til að koma s.k. stjórnlagaráði á koppinn -- ekki aðeins heimildarlaust og í fullu ósamræmi við úrskurð Hæstaréttar, heldur einnig þvert gegn grundvallar-verkaskiptingu meginþátta ríkisvaldsins skv. stjórnarskrá lýðveldisins og þar að auki þvert gegn lögunum um stjórnlagaþing (nr. 90 / 25. júní 2010)? Skoðum fyrst forsöguna.

Sköpun stjórnlagaráðs ólögmæt
Nefnd lög um stjórnlagaþing fólu í 15. gr. Hæstarétti Íslands að úrskurða um hugsanlegar kærur frá kjósendum vegna kosningarinnar o.fl. atriða, og það gerði hann 25. janúar 2011 í fullskipuðum rétti með samhljóða niðurstöðu um ógildingu kosningarinnar vegna annmarka (þ. á m. tveggja verulegra) á framkvæmd hennar.

Ennfremur vísuðu stjórnlagaþingslögin (ekki sízt í nefndri 15. gr.) til laga um kosningar til Alþingis nr. 24 / 16. maí 2000, en í samræmi við ákvæði 115. gr.  síðarnefndu laganna bar viðkomandi ráðuneyti að kveðja til nýrra kosninga í stað hinnar ógiltu kosningar til stjórnlagaþings. Það var hins vegar ekki gert, heldur vélað um það að fara að hvatningu Illuga Jökulssonar o.fl., sem hagsmuna áttu að gæta, um að fara einfaldlega "fram hjá" úrskurði Hæstaréttar.

Þetta var samt ekki jafn-einfalt og það virtist -- það var ekki aðeins "farið á svig við" hæstaréttarúrskurðinn, eins og próf. Róbert Spanó, forseti lagadeildar HÍ orðaði það í viðtali við Morgunblaðið 25.2. 2011, heldur var beinlínis brotið freklega gegn lögunum um stjórnlagaþing, og vel að merkja, takið eftir þessu: Þau lög voru í FULLU GILDI, þegar sá fáheyrði atburður átti sér stað á Alþingi 24. marz 2011, að 30 þingmenn greiddu atkvæði með því að bjóða hinum 25 kjörbréfasviptu frambjóðendum setu í "stjórnlagaráði" til að annast það verkefni, sem að gildandi lögum tilheyrði hinu fyrir fram ákveðna stjórnlagaþingi!

Frambjóðenda freistað
Vitað var, að efasemdir voru í margra hugum um þetta, enda var hér um margföld réttarbrot að ræða og fleiri en hér eru talin. En eins og til að bæla niður þær efasemdir kom allt í einu um þær mundir fram sú hugmynd að lengja setutíma "stjórnlagaráðs" upp í allt að tvöfalt miðað við þá tvo mánuði, sem stjórnlagaþingið átti að sitja. Launin áttu að verða fullt þingfararkaup alþingismanna (og hlunnindi), en sem sé boðið upp á fjóra mánuði, ekki tvo! Þetta losaði milljón í aukahlut hvers og eins hinna 25 og reyndist sem sé ekki koma í veg fyrir, að þeir tækju að sér "verkefnið" í umboði vinstri flokkanna og þriggja framsóknarmanna eða samtals 47,6% þingmanna! (heimild: http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=44294).

Að þessi fjögurra mánaða setutími hinna kjörbréfasviptu hafi verið siðlaust tilboð á þessum viðkvæma ákvörðunartíma hinna sömu 25 umboðslausu, getur naumast verið eitthvað sem mér einum flýgur í hug. Innanríkisráðherrann ætti að grandskoða sitt eigið mútufrumvarp með þetta í huga, en taka ber fram, að eins og Jón Bjarnason studdi hann ekki hina dæmalausu þingsályktun 24. marz 2011, þótt níu þingmenn VG hafi látið sig hafa það að greiða atkvæði með ólögmætinu.

Mætum svo öll á kjörstað 20. október til að segja hreint og skýrt NEI við þessu hneykslisplaggi.

Jón Valur Jensson.

Jón Valur Jensson, 9.4.2015 kl. 21:28

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Skrif Þorvaldar eru slíkt rugl að varla er hægt að velta því fyrir sér hvað hann er að fara.Í fyrri grein hans blandaði hann saman kjördæmaskipan á Íslandi og bandarísku stjórnarskránni.Eitthvað var Framsóknarflokkurinn í huga hans, og virtist hann hafa hann í huga,í sambandi við kosningu til öldungadeildar bandaríska þingsins.Þótt menn hafi ekki mikið ályt á Framsókn þá er sú hugsun að framsóknarmenn hafi komið að samningu bandarísku stjórnarskrárinnar varla normal.

Sigurgeir Jónsson, 9.4.2015 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband