Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn séður að utan

er viðfangsefni Gunnars Smára Egilssonar. Sá maður er nú löngu landsþekktur fyrir skoðanir og athafnir sem liggja ekki með alfaraslóðum þar sem einhverjar reglur ríkja. Þess vegna er gaman að kynna sér hvað fram fer í höfðum slíkra stórmenna. Að minnsta kosti er Gunnar ekki í neinum vafa þegar kemur að því hvað Sjálfstæðisflokkurinn sé eða hvernig hann sé rekinn.

Grípum niður í samsuðunni:

"Eitt það vitlausasta sem heyra má í umræðu dagsins á Íslandi er einskonar andsvar sjálfstæðismanna (og að einhverju leyti Framsóknarmanna einnig) við launakröfum verkafólks annars vegar og hins vegar undirskriftarsöfnun gegn frumvarpi um makrílkvóta. Þetta andsvar er sett fram í spurnartón og hljóðar einhvern veginn svona:

Er tímabært að ráðast að undirstöðum sjávarútvegsins akkúrat núna, einu atvinnugreinarinnar sem stendur þokkalega og sem hefur dregið vagninn frá Hruni og forðað okkur frá efnahagslegri stöðnun? Ættum við ekki að gleðjast yfir góðri stöðu sjávarútvegsins? Setur það ekki viðreisn efnahagslífsins í hættu ef við aukum álögur á þessa atvinnugrein eða hreyfum við lögum og reglugerðum sem hún byggir á? Eigum við ekki að láta það vera sem vel gengur?

 

...Þetta andsvar byggir á sama pólitíska ólæsinu og hefur einkennt Sjálfstæðisflokkinn undanfarinn áratug eða svo og sem hefur leitt niðurbrot hans. Flokkur, sem eitt sinn stærði sig af víðfeðmu og djúpstæðu tengslaneti um allt þjóðlífið, er orðinn einkennilega sambandslaus og einangraður. Flokknum virðist hafa mistekist að endurnýja sig og dagað uppi sem samtök eldri borgara sem stýrt er af hagsmunasamtökum fyrirtækjaeigenda. Innan hans máta hagsmunaaðilar sjónarmið sín við fólk sem tilheyrir í raun annarri veröld en við blasir í samfélaginu. Flokkurinn gengur út frá tryggð fólks við fyrirtæki og auðugt fólk, heldur að allir lesi Moggann og taki mark á honum og telur að enn sé hægt að höfðu til þess að við séum öll í sama bátnum og stafi aðeins hætta af skerjum, öldum og óveðri utan hans en engu innanborðs nema niðurrifsfólki sem andmælir því að öllum muni farnast best ef allir leggist nú á árarnar og leyfi þeim, sem hafi stýrt bátnum hingað til, að marka stefnuna og stýra fram hjá boðaföllum í örugga höfn. Tókst okkur ekki með þessu að brjótast frá fátækt til bjargálna? Höfum við ekki sýnt hvers megnug við erum? Og bla bla bla bla – endalaust....

.........Vandi Bjarna Benediktssonar er að hann er samdauna hagsmunum eignamanna og nær ekki að kveikja í gamla fólkinu í Valhöll, sem enn vill heyra stefnuna klædda í þjóðbúning. Bjarni segir það forgangsverkefni að lækka álögur á álver og rökstyður það ekki frekar vegna þess að það þarfnast ekki rökstuðnings yfir sunnudagssteikinni í Garðabæ.Bjarna hefur ekki tekist að vinna salinn í Valhöll né Reykjavíkurbréf Moggans en finnur heldur engan flöt á að vinna stefnu sinni fylgi í öðrum kreðsum. Hann stólar því einvörðungu á hagsmunasamtökin sem hvort eð er eiga Sjálfstæðisflokkinn. Og sér ekki (eða vill ekki sá eða kann ekki svar við) að Hrunið afhjúpaði fyrir lang stærstum hluta almennings að hagsmunir þess og fyrirtækjaeigenda fara ekki saman. Hafa aldrei gert það og munu aldrei gera það.

 

..........

.........Áhrif nýfrjálshyggju á stjórnmál Vesturlanda síðustu rúma þrjá ártugi leiddi til aukins ójafnaðar í flestum löndum og mest þar sem áhrifin þessarar stefnu urðu mest. Á Íslandi frestaði nýfrjálshyggjan uppgjöri við hálf fasískar þjóðernishugmyndir um stétt með stétt, sem höfðu haldið Íslandi frá þeirri sósíalísku samfélagsþróun sem átti sér stað á Norðurlöndunum og tryggði meginþorra almennings þar boðleg lífskjör, öryggi og vernd fyrir fyrirtækjunum. Boðskapur nýfrjálshyggjunnar um að samfélaginu bæri að styðja hinn auðuga en ekki hinn fátæka og móta reglur samfélagsins að hagsmunum hinna valdamiklu en ekki vernda hina valdalitlu, tók við af kröfu um húsbóndahollustu vistabandanna og um þjóðarhagsmuni ofar stéttarhagsmunum á eftirstríðsárunum. Uppgjöri almennings gegn aldalangri kúgun var frestað með loforði um að aukin velsæld hinna efnameiri myndi fyrir forsjón hulinnar handar markaðarins leita að lokum í vasa almennings. Hrunið afhjúpaði að þessu er þveröfugt farið. Eftir því sem meira er pukkað undir hina auguðu og valdamiklu því valdaminni og snauðari verður meginþorri fólks.

 

.........Þetta er nú öllum ljóst, svo notað sé orðfæri úr Reykjavíkurbréfum. Þegar venjulegt fólk horfir yfir þinglið Sjálfstæðisflokksins er því ljóst að það lið mun ekki gæta hagsmuna almennings. Þetta fólk mun nýta hvert tækifæri sem gefst til að styrkja vini sína og vandamenn og flytja eins mikil völd og áhrif og frekast er unnt til hinna auðugu og valdamiklu. Af þeim sökum nýtur flokkurinn nú aðeins helmings fylgis á við það sem var fyrir tuttugu árum.

Þeir sem eftir sitja er fólk sem hefur hagsmuni af því að viðhalda og auka ójöfnuð í samfélaginu, fólk sem telur sig geta komist í hóp þeirra sem græða á ójöfnuði og gamalt fólk sem hefur alla æfi trúað að best fari á að láta ríka kallinn ráða því sem hann vill ráða og telur að annað sé kommúnismi. Og að kommúnismi sé vondur og illur.

Þegar sjálfstæðismenn spyrja inn í slíkan hóp hvort fólk vilji virkilega ráðast að undirstöðum sjávarútvegsins svarar fólk með jedúddímíum og biður sjálfstæðismenn í guðanna bænum að forða sér frá slíku. Þess vegna verða þeir hálf kindarlegir þegar sama spurning fær allt annað svar út í samfélaginu. Meginþorri fólks telur nefnilega að það sé algjört grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag að ráðast að undirstöðum íslensk sjávarútvegs, sem eru einkum tvær: yfirráð örfárra yfir auðlindum sjávar og smánarlega lág laun.

 

....Það er ekki bara nauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag að hnekkja þessum undirstöðum heldur myndi það gera íslenskum sjávarútvegi gott eitt til. Hann er nefnilega bölvaður ræfill sama hvernig á hann er litið — nema náttúrlega ef eina viðmiðunin er hagnaður eigenda. Sá hagnaður byggir hins vegar einvörðungu á ókeypis aðgengi að auðlindum og skammarlega lágum launum. Íslenska sjávarútvegsstefnan byggir á að flytja arðinn af auðlindinni frá þjóðinni til útgerðarmanna og arðinn að vinnu verkafólksins frá verkafólkinu og fjölskyldum þeirra til útgerðarmanna. Annan tilgang hefur stefnan ekki.

Grunnlaun hjá fiskvinnslufólki á Íslandi er aðeins um helmingur þess sem þau eru í nágrannalöndum okkur, 40 prósent af launum fiskverkafólks í Noregi. Í raun ætti bara að nota einn mælikvarða á gæði sjávarútvegskerfa: Hversu háum launum standa þau undir. Íslenska kerfið kolfellur við slíkur samanburð. Eigendur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sanna það um hver mánaðarmót að þeir eru verstu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja sem þekkjast.

Þeir eru svo slæmir að í raun hafa Íslendingar að mestu yfirgefið þá. Þeir kæra sig ekki um að vinna jafn erfiða vinnu fyrir jafn lág laun. Þetta leiddi ekki til þess að eigendurnir hækkuðu launin heldur fluttu þeir inn vinnuafl frá löndum þar sem kjör verkafólks voru jafnvel enn verri en á Íslandi. Þannig hefur verið skipt út verkafólki í fiskvinnslu á Íslandi frá aldamótum. Þar vinnur fyrst og fremst aðflutt fólk fyrir laun sem aðrir hópar hafa flúið.

 

.....Fyrirtækin hafa því getað nýtt sér veika félagslega stöðu aðfluttra Íslendinga til að halda launum niðri og auka hagnað sinn. En slíkt varir ekki að eilífu. Eftir því sem fólk kemst betur inn í samfélagið því ólíklegra er það til að sætta sig við skammarlega lág laun. Til að mæta þessu hafa fyrirtækin stutt stjórnmálaflokka, einkum Framsókn en einnig Sjálfstæðisflokkinn, til að ala á andúð á útlendingum svo halda megi kjörum starfsmanna þeirra niðri. Eigendur fyrirtækjanna fluttu því fyrst skipulega inn ódýrt vinnuafl til að halda niðri kjörum en flytja nú inn útlendingafordóma til að tvístra samstöðu verkalýðs og veikja félagslega stöðu starfsmanna sinna.

Lág laun í fiskvinnslu eru því ekki aðeins brot gegn starfsmönnum, sem vinna fyrir þeim, heldur brjóta fyrirtækin niður borgaraleg réttindi og samfélagslegt öryggi í tilraunum sínar til að halda launakostnaði niðri. Á sama hátt veigra þau sér ekki við að kippa lífsviðurværinu undan þorpum og byggðalögum. Óöryggi starfsfólksins er þar af leiðandi ekki aðeins afleiðing kvótakerfisins heldur lika forsenda láglaunastefnunnar. Þetta bítur í hvors annars skott. Þegar samfélagið er mótað að þörfum og kröfum hinna auðugu snúast þeir á endanum gegn samfélaginu. Það er ekkert sem heldur aftur að þeim. Þeir tilheyra ekki lengur samfélagi hinna og líta ýmist á samborgara sína sem eign sína eða andstæðing. Þetta er augljóst af ummælum forkólfa hagsmunasamtaka fyrirtækjaeigenda og stjórnmálamanna sem þjóna þeim. Þeir tala eins og þeir þurfi ekki lengur að lifa í sátt við samfélag annarra manna, að það sé samfélagsins að beygja sig undir rök þeirra og skrítna heimssýn.

 

......Þótt óþarft sé að nefna aðra þætti en laun starfsfólksins þegar meta á gæði sjávarútvegsfyrirtækja eða opinbera sjávarútvegsstefnu má benda á að framlag norsk sjávarútvegs til landsframleiðslu í Noregi er mun meiri en framlag íslenskt sjávarútvegs til landsframleiðslu á Íslandi. Norðmenn veiða meira og þeir rækta líka miklu meira af fiski og skelfiski. Framlag norsk sjávarútvegs er líka meira í krónum talið ef við deilum því niður á tonn. Norskur sjávarútvegur býr því til meiri verðmæti úr hverju tonni fyrir norsk samfélag en íslensk sjávarútvegsfyrirtæki gera fyrir Ísland.

Hluti af skýringunni felst í því að norsk sjávarútvegsfyrirtæki hafa á umliðnum áratugum byggt upp stórfellt fiskeldi svo að nú kemur nærri 40 prósent af fiskinum úr eldi en aðeins rúmlega 60 prósent úr villtum stofnum. Og eldisfiskurinn er verðmætari svo hlutfallið er hærra ef miðað væri við markaðsvirði. Þessi uppbygging átti sér stað þegar dró úr veiði úr villtum stofnum. Þegar þorskstofninn braggaðist síðan í Barentshafi efldist norskur sjávarútvegur enn frekar. Hann stendur sterkum fótum í fiskeldi og býr að sterkum villtum stofnum.

 

......Samdráttur í veiðum á Íslandsmiðum hafði ekki þessi áhrif til uppbyggingar. Kvótakerfið styrkti eigið fé útgerða á tímum samdráttar í veiðum og mörg þeirra nýttu bætta eiginfjárstöðu til að fjárfesta utan sjávarútvegsins eða í öðrum löndum — skiljanlega ef til vill, þar sem afli dróst saman á Íslandsmiðum. Tekin voru lán út á kvóta og þau notuð til að kaupa upp fyrirtæki í Þýskalandi, Kanada, Chile og víðar. Sumt af þessum fjárfestingum hafa gengið upp en margar hafa reynst dragbítur og draga enn fé út úr íslenskum sjávarútvegi.

Það er því ekki rétt sem haldið er fram að eignarréttur útgerðarmanna yfir auðlindinni styrki sjávarútveginn, eins og trúarsetningar nýfrjálshyggjunnar ganga út á. Eignarétturinn hefur hann aðeins styrkt útgerðarmennina sjálfa. Það er síðan allur gangur á því hvort þeir nýttu þann styrk til að fjárfesta í greininni eða á Íslandi. Í raun er það undantekning fremur en regla. Eins og oft vill verða í verstöðum þá er arðinum af Íslandi eytt annars staðar; bæði þeim sem verður til af fallvötnunum og af fiskinum.

 

....Það er því engin furða þótt sjálfstæðismenn fái annað svar en þeir reiknuðu með þegar þeir spyrja í forundran hvort fólk vilji í alvörunni brjóta undirstöðurnar undan sjávarútvegsfyrirtækjunum. Það eru miklir hagsmunir almennings að gera einmitt það og mikill vilji til þess. Og vandséð hvaða mál ættu að vera meira aðkallandi.

Það eru miklir hagsmunir almennings að brjóta niður láglaunastefnuna á Íslandi og nýta svo auðlindir sjávar að þær gagnist samfélaginu öllu en ekki aðeins örfáum. Að auðlindirnar séu notaðar til að byggja upp gott samfélag en ekki til brjóta niður samtakamátt launamanna, skerða réttindi og draga niður lífsgæði á Íslandi.

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is"

 

það er innblásinn maður sem svona skrifar. Sannbrjálaður myndi einhver hugsanlega segja. Engu líkara en hann sé í akkorði við að níða Sjálfstæðisflokkinn niður og allt að fólk sem að honum stendur.

Rotinn flokkur harðsvíraðra glæpamanna og föðurlandssvikara er sú einkunn sem venjulegur flokkssauður fær hjá þessum fyrrum athafnamanni hvers fjármálaslóð liggur eins og skínandi stígur um mörg lönd. Sannfæringin er mikil og heiftin slík að Jón sálugi Vídalín hefði litlu getað hér við bætt.

En  það er öllum hollt að fá einhvern til að skamma sig og fletta sér í sundur á svo kraftmikinn hátt eins og Gunnar Smári gerir. Það er sannleiksvottur í mörgu sem hann tæpir á og vissulega er ritsnilldin áfburða góð. En kreddurnar, öfundin og kommúnisminn gefa ekki grið við þjóðfélagsrýni þessa manns og eigið misgengi hefur sett svip sinn á innrætið. Ekki myndi mikið ganga að skipa þennan mann í samninganefnd um launakjör í þessu landi.

Í sambandi við kvótakerfið er Sjálfstæðisflokkurinn að boða til ráðstefnu á mánudaginn í Valhöll um hvort hægt sé að sætta þjóðina við kerfið, sem Gunnar Smári telur eiginlega útilokað vegna glæpsamlegs eðlis áhangenda þess. Samt er nokkuð ljóst að hvorki Sjálfstæðismenn né aðrir eru sáttir.En hvort val á ræðumönnum á fundinum er til þess fallið að draga venjulega Sjálfstæðismenn að honum, skal ósagt látið.

Það sem er kjarni vandans er að fólki finnst kvótaeigendur ekki hafa greitt sanngjarnt verð fyrir hann. Það er sama hvort menn kalla álögur á sjávarútveginn auðlindarentu eða sérstakan tekjuskatt, undirstaðan er ei réttleg fundin hefði Björn Gunnlaugsson geta sagt strax. Menn verða að greiða markaðsverð fyrir allt sem þarf að kaupa. Ekki niðurgreitt verð eða pólitísk verð.

Ef á núna að úthluta makrílkvótanum hlutfallslega til þeirra sem fyrir eru, þá fer gullið tækifæri fram hjá í því að reyna að koma á uppboðskerfi veiðiheimilda. Slíkt kerfi er það eina sem fólk getur sætt sig við. Að hæstbjóðandi fái það sem í boði er. Aðeins þannig er réttlætinu fullnægt í hugum flestra. Það er áreiðanlega þáttur í þjóðfélagsheift Gunnars Smára, að honum svíður misrétti og mismunun, -alla vega í seinni tíð.

Makrílkvótinn er tilvalið fyrsta skref til nýs kerfis í ráðstöfun fiskveiðiheimilda, telji menn þá stýringu nauðsynlega.Sem ekki allir eru sammála um þó hugsanlega megi byggja á slíku kerfi um sinn. Mögulegt samspil banka, útgerðar og Hafró er þó langt í frá hafið yfir allan grun um hlutleysi en getur verið síðara sérmál.

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki heyrt ekki, séð ekki, né talað ekki um hvert fylgi flokksins er að fara. Þjóðin hefur ekki ráð á pólitískri upplausn sem nú við blasir þar sem fólk er beinlínis að refsa stjórnmálamönnum með því að kjósa hverskyns skrípi á þing eða í sveitarstjórnir eða hóta slíku. Flokkurinn verður að kafa til botns í óánægjunni og koma með lausn annað en það sem Gunnar Smári lýsir með hvað háðulegusta orðfæri sem um getur.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að huga að því hvernig hann kemur fólki fyrir sjónir utan frá.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 72
  • Frá upphafi: 3418433

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband