Leita í fréttum mbl.is

Nato og Norðurslóðir

verða Birni Bjarnasyni að yrkisefni í Morgunblaðinu í dag.

Björn segir svo:("Góða fólkið les víst ekki Moggann)

Nú um helgina verður efnt til umræðna um málefni norðurslóða í þriðja sinn hér í Reykjavík undir merkjum Arctic Circle. Á vefsíðu má lesa dagskrána og er hún 52 blaðsíður. Gefur það eitt til kynna hve umfangsmikill þessi vettvangur er. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Alice Rogoff, útgefandi Alaska Dispatch, eru frumkvöðlarnir að baki Hringborði norðurslóða.

 

Dagskráin sýnir hugmyndaauðgi við val á umræðuefnum. Hringborðið laðar að sér mikinn fjölda sérfróðra manna sem þykir að því fengur að bera saman bækur sínar. Þegar litið er á mælendaskrána ber nafn François Hollandes Frakklandsforseta hæst.

 

Frönsk stjórnvöld búa sig undir COP21-loftslagsráðstefnuna í París í desember. Hana má rekja til fyrstu ráðstefnunnar um umhverfi og þróun sem Sameinuðu þjóðirnar héldu í Rio de Janero árið 1992. Var ráðstefnan einn fjölmennasti fundur alþjóðasamfélagsins til þess tíma. Þar komu menn sér meðal annars saman um rammasamning um loftslagsbreytingar sem gekk í gildi 21. mars 1994, nú eru 195 ríki aðilar hans.

 

Loftslagssamningurinn hefur ekki lagagildi og framkvæmd hans er þyrnum stráð svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Undir forystu Hollandes hafa Frakkar sett sér það markmið að gerður verði alþjóðasamningur um loftslagsmál sem feli í sér lagalega skuldbindingu fyrir ríki til að hlýnun jarðar verði innan við 2°C. Umræður um málið höfða til margra hvað sem von um árangur líður. Talið er að tæplega 50.000 manns sæki Parísarfundinn.

 

Er ekki að efa að Frakklandsforseti muni í Hörpu ræða markmið sín í loftslagsmálum og nota niðurstöður rannsókna í Norður-Íshafi máli sínu til stuðnings. Hlýnun jarðar þykir hafa birst glöggt á þeim slóðum. Nú spáir þó hinn reyndi veðurfræðingur Páll Bergþórsson að 30 ára kuldaskeið sé að hefjast á norðurslóðum. »Tími getur [...] verið kominn til náttúrulegrar kælingar vítahringsins í áratugi, jafnvel svo að vegi á móti jarðarhlýnun,« sagði Páll hér í blaðinu 30. júní 2015.

 

NATO og ESB

 

Auk loftslagsmála verða öryggismál á norðurslóðum til umræðu í nokkrum málstofum á Arctic Circle nú um helgina.

 

NATO-þingið svonefnda, það er þingmannasamtök NATO-ríkjanna 28 auk 20 samstarfs- og áheyrnarfulltrúa, kom saman í Stavanger í Noregi um síðustu helgi. Þar var einnig rætt um öryggi á norðurslóðum.

 

Í skýrslu til þingsins var vakið máls á hinni undarlegu staðreynd að NATO hefur ekki mótað sér neina norðurslóðastefnu. Aðildarríkin hafa einfaldlega ekki komið sér saman um á hvern hátt skuli tekið á norðurslóðamálum innan vébanda bandalagsins. Í NATO hefur hvert ríki neitunarvald, leitin að lægsta samnefnara getur verið löng og ströng.

 

Talsmenn aðgerðarleysis bandalagsins í þessum heimshluta telja að breytt stefna þess kynni að leiða til hervæðingar í samskiptum norðurskautsríkja. Þá sé óeðlilegt að ríki sem hvorki séu í Norðurskautsráðinu né eigi land að Norður-Íshafi blandi sér í málefni annarra, einkum þegar ekki sé um hernaðarleg úrlausnarefni að ræða. Loks sé til þess að líta að allt að 95% auðlinda í Norður-Íshafi megi finna og nýta innan viðurkenndra yfirráðasvæða strandríkja sem minnki líkur á spennu í samskiptum þeirra.

 

Gegn þessum sjónarmiðum er bent á að það sé skylda NATO, sameiginlegs varnarbandalags, að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi alls yfirráðasvæðis aðildarríkjanna, þar á meðal í Norður-Íshafi. Versnandi sambúð við Rússa og hervæðing þeirra í Norður-Íshafi og á norðurströnd sinni krefjist gagnaðgerða.

 

Í þingmannaskýrslunni segir óljóst hvort NATO-aðildarríkin 28 vilji endurskoða afstöðuna til norðurslóða á vettvangi bandalagsins. Jafnframt er bent á ýmsar leiðir sem fara megi í því efni án þess að litið verði á þær sem hernaðarlega ögrun við Rússa eða aðra.

 

Í skýrslunni er ekki tíundað að andstaða Kanadastjórnar sé helsta ástæðan fyrir því að NATO forðast Norður-Íshafið. Hún vill í lengstu lög komast hjá afskiptum ríkja utan Norðurskautsráðsins af fullveldisrétti sínum, síst af öllu vill hún afskipti embættismanna Evrópusambandsins.

 

Evrópusambandið hefur hvað eftir annað frá árinu 2008 gert árangurslausa tilraun til að fá fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Tilmælum ESB hefur verið hafnað 2009, 2013 og 2015. Kanadamenn lögðust gegn ESB vegna ágreinings um selveiðar - hann hefur nú verið leystur. Andstaða er við ESB vegna hugmynda þess um að takmarka fullveldisrétt norðurskautsríkjanna með alþjóðasamningi að fyrirmynd frá suðurskautinu. Nú ber þessar hugmyndir þó ekki eins hátt og áður. Rússar leggjast gegn ESB innan Norðurskautsráðsins og viðskiptaþvinganir ESB hafa ekki orðið til að minnka andstöðu þeirra.

 

Stefna Íslands

 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hún muni vinna að því að Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum og virkur þátttakandi í vestnorrænu starfi. Hið síðara hefur ræst. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er í forystu vestnorræna þingmannasamstarfsins og lætur verulega að kveða eins og sést af dagskrá Arctic Circle. Enn er óljóst hvernig ríkisstjórnin ætlar að gera Ísland að »leiðandi afli á norðurslóðum«.

 

Á síðasta kjörtímabili samþykkti alþingi svo víðtæka norðurslóðastefnu að erfitt er að greina á milli aðal- og aukaatriða. Í framkvæmd er hins vegar nauðsynlegt að forgangsraða. Á það skortir.

 

Íslensk norðurslóðastefna er í raun ekki utanríkismál heldur ný vídd á flestum sviðum stjórnmálanna. Við mat á hernaðarlegum þáttum standa stjórnvöld verst að vígi, einkum ef NATO lætur sig ekki málið varða. Á öryggismálum verður því að taka á tvíhliða hátt í samvinnu við nágrannaríkin með áherslu á borgaralegt hlutverk Íslendinga við leit og björgun auk þess að búa í haginn fyrir alþjóðleg viðbrögð verði stórslys á hafinu."

Það er síðasta málsgrein Bjarnar sem ég vil staðnæmast við.

Kolbeinsey

Nyrsti punktur Íslands er Kolbeinsey. Við höfum verið að bauka við það í gegn um árin að steypa hana til styrkingar frá þeim örlögum að molna í hafið. Nú er manni sagt að hún skipti ekki lengur eins miklu máli vegna landhelginnar okkar vegna einhverra miðlínusamninga. Hún er því óafturkæft á leið í hafið.

Síðast á næstliðna kjörtímabilinu kom Steingrímur Erlingsson útgerðarmaður með þá hugmynd að fá gamlan olíuborpall sem þá var til sölu fyrir slikk og tjóðra hann við Kolbeinsey. Þarna gæti risið íslensk varðstöð með þyrlum sem gæti náð langt til Norðurslóða. Hugmyndin var kynnt fyrir nokkrum þingmönnum en komst aldrei lengra en í kaffibollana.

Nú saknar sjálfur Björn Bjarnason nærveru Nato á Norðurslóðum. Spurning er hvort þessi hugmynd gæti gagnast Nató og Íslandi ef hún næði einhverjum eyrum á Norðurslóðaráðstefnunni sem halda á í Hörpu þar sem ESB og Hollande Frakklandsforseti verða.

Það er fremur auðvelt að sjá fyrir sér hvílík lyftistöng fastur punktur við Kolbeinsey gæti orðið fyrir alla starfsemi a Norðurslóðum, hvort sem loftslag hlýnar eða kólnar. Hugsanlega gætu þessar hugmyndir borist til Forseta vors sem lætur sig Norðurslóðir nokkru varða.

Ef til vill gæti fleiri en Íslendingar séð sér hag í að styrkja uppbyggingu á Kolbeinsey.Einnig gæti Nató gert  nærveru sína sýnilegri á Norðurslóðum með því að koma að þessu verkefni með Íslendingum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það þarf helst að vera einhver spurning í loftinu tengt þessum málum ef að umræðan á að skila árangri.

Jón Þórhallsson, 16.10.2015 kl. 09:33

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll frændi

Dr. Patrick Moore umhverfisfræðingur, einn stofnenda Greenpeace, hélt í fyrradag magnaða ræðu sem flestir ættu að lesa.

Hann var mjög virkur aktívisti á yngri árum, meðal annars á skipinu Rainbow Warrior.

Svo áttaði hann sig á að hann og félagar hans væru á villigötum og snéri við blaðinu...

Mögnuð ræða hlaðin skynsemi.  Sjá hér:  http://www.thegwpf.com/28155/

 

(Álag á vefsíðuna hefur verið töluvert svo hún gæti verið lengi að opnast).

 

 

Ágúst H Bjarnason, 16.10.2015 kl. 10:04

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ef illa gengur að opna vefsíðuna vegna álags, þá er ræðuna einnig að finna hér.

Ágúst H Bjarnason, 16.10.2015 kl. 10:09

4 Smámynd: Halldór Jónsson

 Stórkostlegur fyrirlestur hjá dr. Moore

Allt sem aður var sagt og er í tísku er bara ómerkt.

Halldór Jónsson, 16.10.2015 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband