Leita í fréttum mbl.is

Fréttablaðið

er rit sem almennt höfðar ekki mikið til mín og yfirleitt les ég þar fátt sem tendrar mig upp. Það er helst að ég kemst oft í vont skap af að lesa Þorvald Gylfason skrifa um stjórnarskrármál Íslands og þær ótrúlegu steypur sem hann þar hrærir úr blöndu af hálfsannleika og rangupplýsingum.

Hörður Ægisson er ein undantekning á þessu blaði. Hann skrifar svo skynsamlega oft á tíðum að maður óskar þess að maður gæti gert svona sjálfur. Í dag skrifar hann um smáflokkinn Bjarta Framtíð við hliðina á grein eftir Björtu Ólafsdóttur. Það er mjög áhugavert að bera saman það sem Hörður skrifar og hvernig Björt þessi hugsar í upphafinni sjálfsdýrkun sinni enda er  hún nafna flokksins að því frátöldu að hún gæti sjálf orðið Björt Fortíð en ekki Framtíð 28.október n.k. þegar þjóðin kveður upp sinn dóm um ábyrgðina á því að vera kjörinn fulltrúi fólksins.

Gefum Herði orðið:

" Stjórnmálamenn starfa ekki í tómarúmi. Ákvarðanir sem þeir – og stjórnvöld – taka geta skipt sköpum fyrir væntingar fjárfesta, fyrirtækja og almennings gagnvart framtíð hagkerfisins. Í síðustu viku var ein slík afdrifarík ákvörðun tekin, fullkomlega að óþörfu, með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Óþarfi er að fjölyrða um aðdraganda stjórnarslitanna. Björt framtíð, flokkur sem hefur mælst með um þriggja prósenta fylgi, kaus að sprengja stjórnina og um leið valda ómældu tjóni og óvissuástandi á sem flestum sviðum samfélagsins næstu mánuði.

Útskýringar um meinta leyndarhyggju og trúnaðarbrest eru með svo miklum ólíkindum að það tekur nánast engu tali. Umboðsmaður Alþingis er sama sinnis og telur ekkert tilefni til að aðhafast í málinu. Stjórnarslitin eru hins vegar orðinn hlutur, fyrir tilstilli óðagots Bjartrar framtíðar, og fram undan eru fjórðu kosningarnar á átta árum. Aðeins í Grikklandi hafa verið fleiri kosningar í Evrópu eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna. Pólitískur óstöðugleiki fer að verða viðvarandi ástand hérlendis.

Slíkur stimpill mun til lengri tíma hafa neikvæð áhrif á lánshæfismat Íslands og erlenda fjárfestingu. Skammtímaáhrifin hafa hins vegar brotist út af fullum þunga á undanförnum dögum. Hlutabréfaverð hefur verið nánast í frjálsu falli, ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf snarhækkað og gengi krónunnar hefur gefið eftir. Ekkert af þessu þarf að koma á óvart. Pólitísk óvissa er eitur í beinum fjárfesta og fyrirtækja.

Við bætast áhyggjur af því að komandi þingkosningar skili ekki skýrum pólitískum niðurstöðum, sem væri grundvöllur til myndunar traustrar ríkisstjórnar, heldur að við taki margra mánaða stjórnarkreppa. Við slíkar aðstæður munu stórar fjárfestingar sitja á hakanum og fjárfestar, innlendir sem og erlendir, gætu kosið með fótunum og flutt fé sitt úr landi.

Fjármagnshöftin, sem voru afnumin nánast að fullu fyrr á árinu, höfðu áður verndað stjórnvöld fyrir slæmum ákvörðunum. Þær aðstæður eru hins vegar sem betur fer ekki lengur fyrir hendi. Ásamt því að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði þá voru stærstu verkefni fráfarandi ríkisstjórnar að endurskoða peningastefnuna og hefja löngu tímabært söluferli á bönkunum. Þau mál hafa líkast til færst aftur á byrjunarreit.

Verkefnisstjórn sem áformaði að skila tillögum undir lok árs um endurmat á forsendum peninga- og gjaldmiðlastefnu Íslands starfar núna án nokkurs pólitísks umboðs. Þá er ljóst að ekkert verður af fyrirhuguðu útboði og skráningu Arion banka á árinu en sú skráning hefði varðað veginn fyrir stjórnvöld við sölu á hinum bönkunum og markað fyrsta skrefið í því að koma á eðlilegu eignarhaldi á bankakerfinu.

Fáir stjórnmálamenn hafa skilning á mikilvægi þess að það gerist sem fyrst. Staðan er þessi. Þrátt fyrir mikinn efnahagsuppgang þá hefur Seðlabankinn engu að síður verið að lækka vexti enda hafa verðbólguvæntingar haldist undir markmiði bankans um langt skeið. Slíkar aðstæður í hagsögu Íslands eru fordæmalausar. Þetta kann núna að breytast. Frekari vaxtalækkanir á næstunni, eins og útlit var fyrir, virðast vera úr sögunni.Fjárfestar gera nú ráð fyrir mun meiri verðbólgu og hættan er því frekar sú að Seðlabankinn sjái ástæðu til þess að breyta um kúrs og hækka vexti.

Allt þetta og meira til er í boði Bjartrar framtíðar. Vonandi hafa kjósendur það í huga áður en þeir veita slíkum smáflokkum brautargengi í enn einum kosningunum – líklega þeim tilgangslausustu í lýðveldissögunni."

Ég nenni ekki að tilfæra öll skrif Bjartrar Ólafsdóttur en læt þessa klausu nægja:

"... Þannig öxluðum við ábyrgð á ný átta mánuðum síðar og sögðum okkur frá ríkisstjórnarsamstarfinu. Það þarf staðfestu og hugrekki til að ganga frá góðum verkefnum sem við hefðum helst af öllu viljað halda áfram með. Gott siðferði þarf hins vegar að vera ofar öllu – þess vegna stendur Björt framtíð á styrkum stoðum. Okkar kjarni er styrkari en 100 ára gömul stjórnmálastofnun getur státað af."

Þetta er í fullkomnu samræmi við hvernig ámóta fulltrúar smáflokksins Pírata  þau  Jón Þór Ólafsson og Þórunn Sunna Ævarsdóttir sátu klumsa eftir að Umboðsmaður Alþingis sagði ekkert athugavert við embættisfærslur Bjarna og Sigríðar. Þau börðu hausnum við steininn og sögðu víst  hlýtur að hafa verið framinn glæpur, við verðum bara að leita að honum betur. Björt sklur hvorki upp né niður í afleiðingum gerða sinna eins og Hörður Ægisson bendir á. Ábyrgðarleysi í kosningum dregur dilk á eftir sér svo um munar.

En hver er ástæðan fyrir þessu brambolti öllu?

Á baksíðu Fréttablaðsins skrifar Þórarinn Þórarinsson athyglisverðan pistil. Það er býsna margt sannleikskornið þar að finna. Þessi bloggari fær yfir sig holskeflur af bulli frá svo vitlausu  og illgjörnu fólki  að hann hreinlega verkjar stundum í höfuðið og hefur áhyggjur af daglegri líðan þessa fólks. En Þórarinn segir svo:

"Upplýsingaöldin var ferskt tímabil í sögu mannkyns, þegar þrúgandi trú á yfirnáttúruleg öfl og alls konar dellu vék fyrir skynsemi, rökhyggju og vísindalegum vinnubrögðum. Þekkingin varð að almannaeign og fólk fór blessunarlega að efast um allan andskotann.

Það er af sem áður var og einhver óþolandi þversögn fólgin í því að á ofurupplýsingaöld, með takmarkalausum og auðveldum aðgangi að þekkingu og upplýsingum, skuli fáfræði, tær heimska, della og kjaftæði vaða uppi sem aldrei fyrr. Kannski á alvöru þekkingarleit bara ekki að vera svona auðveld? Darwin skoðaði ekki Galapagoseyjar á Google Earth áður en hann skrifaði Uppruna tegundanna og Freud horfði ekki á Psycho á Netflix áður en hann setti fram hugmyndir sínar um Ödipusarduldina.

Þetta andskotans internet er vítisvél í höndum vitsuga með illt eitt í huga. Nú kokgleypir múgurinn falsfréttir, lygar, kjaftasögur og alls kyns óra eins og hann lét fóðra sig, kúga og blekkja með heilagri ritningu á miðöldum. Fávísir bjánar úti í bæ, almannatenglar, stjórnmálafólk, illa innrættir spunakarlar, pólitískur rétttrúnaðarskríll og alls kyns annað hyski mokar núna kúadellu, áróðri, lygum og kjaftasögum út á netið og stundar um leið gengisfellingu og afbökun orða og markvissa brenglun á merkingu hugtaka.

Við erum stödd í miðri martröð Orwells. Í þessu andrúmi er ekki hægt að rökræða eða komast að vitrænni niðurstöðu um nokkurn skapaðan hlut, Lýðræðið sjálft er undir í þessum hráskinnaleik enda er það merkingarlaust í blekkingarheimi þar sem ekkert er sem sýnist. Er okkur yfirleitt óhætt að kjósa í lok október? "

Svona orð skýra því miður margt í okkar samtíma. Ábyrgðarlausar fullyrðingar og gífuryrði setja æ meira svip sinn á alla opinbera umræðu.Slagorðavaðall einkennir stjórnmálaumræðuna eins og tugga örflokkanna  um Bjarna og Sigríði og þátt þeirra í stjórnarslitum Bjartrar Framtíðar. Vonandi taka kjósendur eitthvað mið af því þegar skynsamlega er skrifað í Fréttablaðið- sem er ekki of oft.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þorvaldur Gylfason er asni, og ruglaður. Eitthvað annað en Þorsteinn bróðir hans sem var einstakur maður.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.9.2017 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 3418240

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband