Leita í fréttum mbl.is

Orkulegt sjálfsmorð?

sýnist manni stefna í að Alþingi ætli að fremja fyrir Íslands hönd.

Bjarni Jónsson verkfræðingur skrifar athyglisverða grein um hvert Alþingi stefnir í andvaraleysi sínu gagnvart kröfum EES.

Bjarni segir:

"Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið – EES var samþykktur á Alþingi 12. janúar 1993 og gekk í gildi á Íslandi í ársbyrjun 1994, tveimur árum seinna en í Noregi. Hérlendis risu á sínum tíma úfar um það, hvort samningurinn bryti í bága við Stjórnarskrána. Verjendur samningsins töldu fullveldisframsalið nægilega takmarkað til að rúmast innan hins leyfilega.

Reynslan hefur leitt í ljós, að mikið ójafnræði er með EFTA- og ESB-ríkjunum við framkvæmd samningsins, og neitunarvald EFTA-ríkjanna gagnvart viðbótum í samninginn hefur ekki virkað. Þetta verður bagalegra, eftir því sem valdasamþjöppun ESB vindur fram. Ísland hefur að mörgu leyti notið ávinnings af Innri markaðinum, en gallana mætti losna við með fríverzlunarsamningum við ESB og Breta.

Vel væri við hæfi í tilefni aldarfjórðungsafmælis EES-samningsins, að t.d. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands – HHÍ mundi leggja mat sitt á árlegan heildarkostnað hagkerfisins af aðildinni og árlegan heildarávinning miðað við að Ísland nyti að fullu sömu fríverzlunarréttinda við ESB og Kanadamenn sömdu nýlega um.

Tilgáta höfundar er sú, að þjóðhagslegur ávinningur af uppsögn EES-samningsins sé ótvíræður og vaxandi.

Orkusamband ESB

Grundvöllurinn að auknum samruna ESB-ríkjanna var lagður í stjórnarskránni, sem hlaut nafnið Lissabonsáttmálinn, eftir að Frakkar og Hollendingar felldu upphaflegu gerð hennar.

Í Lissabonsáttmálanum er t.d. forskrift um, að orkumál ríkjanna skuli verða á valdsviði ESB, og árið 2009 var framkvæmdastjórninni heimilað að setja á laggirnar stjórnvaldsstofnun með ríkar valdheimildir á orkumálasviði. Sameiginleg matvælastefna er við lýði innan EES síðan 2009, og EFTA-dómstóllinn hefur gert Alþingi afturreka með varnagla sinn gagnvart innfluttri ógn við lýðheilsu og búfjárheilsu hérlendis. Lögsaga Alþingis á Íslandi fór þar fyrir lítið, og þykir mörgum nóg um.

Annað dæmi um sambandsríkisþróun er bankasamband EES með sameiginlegu fjármálaeftirliti.

Þriðja dæmið er þó tilþrifamest. Það er nú í deiglunni í EFTA-löndunum. Þar er komið að Orkusambandi ESB með höfuðstöðvum í Ljubljana og kallast „Agency for the Cooperation of Energy Regulators“ – ACER, sem hóf starfsemi árið 2011.

Þar á hvert ESB-ríki einn fulltrúa með atkvæðisrétti, en EFTAríkin aðeins áheyrnarfulltrúa án atkvæðisréttar. Sameiginlega EESnefndin, með fulltrúum frá ESB og EFTA, samþykkti 5. maí 2017, að fella skyldi Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn, og þess vegna liggur hann nú á frumvarpsformi fyrir norska Stórþinginu og væntanlega á Alþingi til umfjöllunar á vorþingi 2018. Hvorugt þessara ríkja getur þó haft nokkurt gagn af þessari löggjöf, en aftur á móti geta þau orðið fyrir stórtjóni af hennar völdum.

Stofnaður verður raforkumarkaður í Noregi, og á Íslandi eftir lagningu sæstrengs, sem tengdir verða orkumarkaði ESB. ESB fær þannig aðgang að „grænni rafhlöðu“ Noregs og Íslands, og til þess eru refirnir skornir. Getur þá raforkukaupandi í hvaða EES-landi sem er boðið í þá raforku, sem til reiðu er. Í þessu kerfi tíðkast ekki langtímasamningar um orkuafhendingu, og endurnýjun þeirra verður óleyfileg. Orkusækinn iðnaður í Noregi og á Íslandi sér þannig sína sæng upp reidda, því að helzta samkeppnisforskot iðnaðar í þessum löndum er aðgangur að vistvænni raforku samkvæmt langtímasamningum.

Ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn, færist stjórnsýslu- og framkvæmdavald raforkuflutninga á Íslandi, og til og frá Íslandi, frá Iðnaðarráðuneytinu, Orkustofnun og Landsneti til ACER og útibús þess á Íslandi, sem verður stjórnsýslustofnun raforkuflutninga, óháð innlendum yfirvöldum og hagsmunaaðilum, og tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER/ESB með ESA sem millilið. Stjórnsýslukvörtunum verður að beina til ESA.

ACER getur t.d. tekið ákvörðun um lagningu aflsæstrengs til Íslands og tengingu hans við stofnkerfin í sitt hvorn enda. ACER ákveður kostnaðarskiptingu sæstrengsverkefnisins á milli hlutaðeigandi landa, ef þau ná ekki samkomulagi sín á milli.Lítið land getur þar þurft erfiðum bita að kyngja.

Útganga Breta

Ákvörðun Breta um að segja sig úr lögum við ESB er söguleg og mun hafa mikil áhrif um alla Evrópu. Efnahagskerfi ESB minnkar um allt að fjórðung í einu vetfangi, og tekjur þess minnka tilfinnanlega. Viðskiptakostum landa utan ESB fjölgar. Þessi staða er vatn á myllu EFTA-landanna, sem eiga nú þegar mikil viðskipti við Bretland. Fríverzlunarsamningur verður vafalaust gerður á milli ESB og Bretlands, og það væri undarlegt, ef EFTA-löndunum byðist ekki sams konar tvíhliða viðskiptasamningur. Gagnkvæm tollfrjáls viðskipti á milli Íslands, Noregs, ESB og Bretlands blasa við árið 2020, þótt EES verði aflagt.

Niðurstaða

Stefnumörkunin um æ nánari stjórnsýslulegan samruna ESBríkjanna hlaut að leiða til klofnings, eins og nú er orðin raunin, og getur hann hæglega magnazt.

Noregur og Ísland hafa haldið stjórn auðlindamála utan seilingar ESB, og hið sama verður að gilda um ráðstöfun orkunnar, þótt slíkt kosti tilvist EES.

Eru dagar EES taldir?"

Ætlar Alþingi að láta þetta gerast? Ætlara það að skjóta sér á bak við það enn einu sinni að þingmenn hafi ekki tíma til að lesa alla texta frá ESB áður en þeir greiða atkvæði?

Ætla Íslendingar að fremja orkulegt sjálfsmorð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband