Leita í fréttum mbl.is

Er eitthvað í gangi?

í stjórnmálum landsins?

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins er ekki uppfullt af hrósi á forystu Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn virðist ætla að keyra í gegn óvinsæl mál gersamlega án tillits til almennra flokksmanna.

Framsóknarflokkurinn sýnir þess merki að hann er ekki að fylgja þeirri harðlínustefnu hvað sem tautar og raular heldur viðrar aðrar skoðanir.Sigurður Ingi formaður gefur tvíbentar yfirlýsingar um hvað flokkurinn muni gera í ýmsum málum. 

"Það sem hefur verið kallað eftir af þjóðinni er að íslenskir stjórnmálamenn standi vörð um íslenskar orkuauðlindir og það fyrirkomulag sem hefur ríkt hér sem felst einna helst í því að orkufyrirtækin eru að langstærstum hluta í samfélagslegri eigu.

Það hefur einnig verið mjög skýrt ákall um að erlendir aðilar geti ekki gert stórinnkaup á íslensku landi. Þar er sýn okkar skýr.

Það er ekki í boði að stóreignamenn og braskarar geti vaðið um héruð og keypt upp jarðir og réttindi þeim tengd. Hvorki innlendir né erlendir, hvort sem þeir eru innan EES-svæðis eða utan. Að því er unnið hörðum höndum að styrkja lagaumhverfi í kringum jarðir,“ sagði hann.

Sigurður Ingi sagði áhyggjur vegna þriðja orkupakkans snúa frekar að íslenskri pólitík og EES-samningurinn og ESB komi þar hvergi nærri. Þá sagði hann Framsóknarflokkinn hafa unnið hörðum höndum að því að tryggja hagsmuni Íslands, m.a. með því að sækja yfirlýsingar frá ESB og sameiginlegu EES-nefndinni.

Eru allir skýrir á hvaða samstaða ríkir innan rískisstjórnarinnar í orkupakkamálinu?

V.G. virðist vera traustur samstarfsaðili  Sjálfstæðisflokksins í öllum málum ef ekki reiðubúið að ganga enn lengra í óvinsældum eins og í Þungunarrofsmálum og Evróputilskipanadýrkun.

Enda sagði Katrín Jakobsdóttir í 90 ára afmælisfagnaðnum að Bjarni Bendiktsson væri traustasti samstarfsmaður sem hún hefði nokkru sinni átt. Og skilji nú hver með sínu nefi.

 

En Reykjavíkurbréfið Morgunblaðsins í dag hljóðar svo:

"Það gerðist ekki mikið á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins og reyndar var engu líkara en að afmælið brysti óvænt á og það þrátt fyrir óvænta heiðursgesti, formann VG, formann Framsóknarflokksins, þá sömu sem vildu draga fyrrverandi formann flokksins, Geir H. Haarde, fyrir Landsdóm í þeim yfirlýsta tilgangi að koma honum á bak við lás og slá.

Af hverju fámenni?

Fyrsti heiðursgestur flokksins var nýbúinn að lýsa því yfir að hún vildi að sett yrðu lög sem heimiluðu konum að ákveða að farga ófæddu barni sínu allt þar til komið væri að fæðingu þess eftir 9 mánaða meðgöngu. Það er enginn vafi á því að væru almennir sjálfstæðismenn spurðir um þessa draumsýn formanns VG þætti yfirgnæfandi meirihluta þeirra þetta fjarstæðukennd afstaða ef ekki beinlínis óhugguleg.

Þá mun varaformaður Samfylkingar einnig hafa verið í hópi útvalinna heiðursgesta. Samfylkingarforystan kallar barn sem kona gengur með „frumuklasa“ allt að fæðingu eins og fram hefur komið. Varla er hægt að kenna vali á heiðursgestum í þessu afmæli um það hversu illa samkundan var sótt, þótt vorsólin blíða léti sitt ekki eftir liggja og einhverjir hoppukastalar til taks.

En af hverju þurfti að læðast með veggjum með þetta afmæli? Það er vissulega megn óánægja í flokknum og þá ekki síst meðal kjósenda hans og hugsanlegra kjósenda með óskiljanlega framgöngu flokksins í orkupakkamálinu, þar sem hiklaust er byggt á blekkingum, sem raunar eru fjarri því að vera lofsverðar. Það hefur birst í fjölda aðsendra greina í blaðinu, sem eru hófstilltar og málefnalegar:

Grein Jóns

Grein Jóns Hjaltasonar var óvænt, hárbeitt og hitti beint í mark. Jón talar í grein sinni beint til forystu Sjálfstæðisflokksins er hann segir: „Nú um stundir sýnist mér sem flokksforystunni þyki helst við hæfi að hnýta í þann formann sem verið hefur þjóðinni og flokknum drýgstur og bestur. Mér stendur stuggur af ykkur því ég hefi þungar áhyggjur af flokknum. Ég hef rætt við hundruð félagsmanna sem hugnast ekki ferðalag ykkar og hyggjast ekki slást í þá för. Ég stikla aðeins á stóru er ég nefni nokkur atriði sem eru núverandi forystu til vansa, svo vægt sé til orða tekið. Þið hafið nánast ekkert gert til að tálga niður þá ofurskatta sem Steingrímur lagði á þjóðina því „það varð hér hrun“. Þið hafið ekkert gert til að afnema hinn þrepaskipta tekjuskatt þeirra Steingríms og Jóhönnu þótt við hefðum áður verið með skattkerfi sem aðrar þjóðir öfunduðu okkur af. Þið dragið óendanlega lappirnar með að lækka tryggingagjaldið. Þið réðuð Má Guðmundsson sem seðlabankastjóra, ekki einu sinni heldur tvisvar. Þið svikust undan merkjum með því að samþykkja Icesave. Þið hafið þrátt fyrir langa stjórnarsetu heykst á að afturkalla ESB-umsóknina. Þið hyggist gegn vilja flokksins og meirihluta þjóðarinnar troða inn á okkur orkupökkum framtíðarinnar. Þið takið fullan þátt í stimpilpúðaafgreiðslu alþingis á öllu sem frá ESB kemur. Ekki er annað að sjá en ætlun ykkar sé að troða okkur þar inn bakdyramegin, þvert á vilja flokks og þjóðar. Þið gerið ekkert til að slá á þá gerræðislegu hugmynd að færa Reykjavíkurflugvöll. Þið gerið heldur ekkert til að hamla brautargengi hinnar fáránlegu Borgarlínu. Þið gerið ekkert til að koma böndum á borgina sem á örfáum árum hækkar fasteignagjöld um tæp 50% auk þess að vera með útsvarið uppi í rjáfri Þið styðjið nánast takmarkalausar fóstureyðingar og kallið það „að móta framtíðina“. Þið gerið ekkert til að koma böndum á fjársóun og fáránleika í heilbrigðisráðuneytinu. Þið gerið ekkert til að koma a.m.k. einhverju skikki á opingáttarflæði hælisleitenda. Þið köstuðuð fyrir róða eina ráðherranum sem sýnt hefur staðfestu, þor og dug. Þið hafið tekið ríkan þátt í að þenja út ríkisbáknið og hítina þá, þrátt fyrir allt önnur fyrirheit. Enginn flokkur annar hefur verið lengur og oftar við völd undanfarna áratugi. Það hefur ekki verið skortur á tækifærum til að efna eitthvað af loforðunum um að minnka fitulagið á bákninu. Þið takið fullan þátt í að reka kaupfélag í Leifsstöð þrátt fyrir gömlu góðu heitin um einkarekstur og einstaklingsframtak. Þið berið mesta ábyrgð allra flokka á RÚV en hafið hvorki kjark né döngun til að kveða niður þá ósvinnu sem þar ríður húsum. Þið eruð um þessar mundir með áætlun um að afnema millifæranleg skattþrep milli hjóna þótt fjölskyldan og velferð hennar hafi frá upphafi verið eitt grunnstefja flokksins. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri farsælla að þið færuð frá flokknum en að flokkurinn fari frá ykkur.“

Símtalið

Það hringdi pýðilegur áskrifandi, en það má segja um þá alla, daginn sem grein Jóns birtist. Hún bað um samtal við þann sem þetta ritar. „Hvað finnst þér um grein Jóns í morgun?“ „Meira máli skiptir hvað þér þykir,“ sagði ritstjórinn. „Mér finnst hún hrikaleg.“ „Og hvað þykir þér hrikalegast við hana?“ „Hún er svo sönn. Hrikalega sönn. Og það sem enn lakara var að ég sem fylgist ekkert mjög vel með gat í sjónhendingu bætt fjölda atriða við þennan lista.“

Miðað við samræmdar árásir sem leyna sér ekki og spunameistarar halda utan um og Jón nefnir í upphafi sinnar greinar er rétt að taka fram að ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekkert heyrt um stefnu eða rökstuðning þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Morgunblaðið er borgaralegt blað og þótt það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.

Allt lá fyrir

Hvað orkupakkamálið varðar gat enginn ætlað annað. Landsfundur flokksins hafði lagt línuna: "Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

 

Nú reyna menn með einkar aumu og satt best að segja algjörlega óboðlegu yfirklóri, langt fyrir neðan sína virðingu, að láta eins og almennt hjal, sem verið hefur í almennum yfirlýsingum fundarins og einskis getið við afgreiðslu þess hafi eytt fyrrnefndri ákvörðun með göldrum.

Þessir klaufalegu kollhnísar hófust þó ekki fyrr en á lokametrunum. En sjálfstæðismenn töldu ekki ástæðu til að óttast.

Landsfundarákvörðunin lá fyrir og sjálfur formaður flokksins hafði í áheyrn alþjóðar úr ræðustól Alþingis tekið af öll tvímæli vorið 2018 og aldrei gefið til kynna að hann myndi snúast í sams konar hring og hann gerði í Icesave forðum, svo flokksmenn undruðust og horfðu hryggir á.

Bjarni Benediktsson sagði: „Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? […] Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra? […]

Hérna erum við með kristaltært dæmi um það, raforkumál Íslands eru ekki innri-markaðsmál.“

Hver hottar á?

Ári síðar öllum að óvörum lagðist hann svo þvert á sín sjónarmið og Sjálfstæðisflokksins án þess að geta um hvað hefði hrakið hann frá afstöðu sem hafði verið óbreytt í heilt ár! Allan þann tíma hafði Morgunblaðið ástæðu til að vera í góðri trú. Ekki einn einasti þingmaður hefur gert sér ferð á ritstjórnarskrifstofur blaðsins þar sem þeim hefði verið tekið opnum örmum og fengið kaffi og kruðerí.

Góður þingmaður flokksins á Vesturlandi fór ásamt ráðherranum, sem einnig er þingmaður þar. Þar fóru fram málefnalegar umræður, en af nokkrum þunga. Enginn fundarmanna tók undir sjónarmið ráðherrans eða þingmannsins! Vonandi hafa þeir gert þingflokknum grein fyrir umræðunum.

Dinglað með dómstólana

En í Bretlandi hafði Boris Johnson fengið stefnu fyrir að hafa ekki sagt satt um tiltekið atriði í þjóðaratkvæðinu fyrir allmörgum árum. Áfrýjunardómstóll henti þeim málatilbúnaði út en sagði þó að jafnan væri reynt að hafa sanngjarnt svigrúm fyrir einstaklinga til að leita atbeina dómstóla.

Eftir þessa niðurstöðu var sagt að lukkan væri Johnson hliðholl. Það var skrítin kenning. Hefði Johnson verið dreginn fyrir dómara fyrir að vera ónákvæmur í pólitískum áróðri fyrir kosningar, eins og allir hinir, þá hlyti sú spurning að vakna: En hvað um embættismennina?

Allir vita hvernig Seðlabankinn hagaði sér í baráttunni um Icesave. Hann snerist jafnan og hatrammlega gegn almenningi. Og síðar kom á daginn að ekki var fótur fyrir hrakspám hans og hótunum.

Og hvað með alla launuðu fræðimennina í háskólunum sem hafa ríkulegri skyldur en frambjóðendur sem eru ekki með próf upp á að geta sagt satt um slík atriði. Tugum ef ekki hundruðum saman tóku þeir þátt í ósvífnum áróðri stjórnvalda. Ekki af því að þeir standa almennt með stjórnvöldum. Þetta var allt saman flokkslegur áróður manna sem var veifað af „hlutleysi og fræðimennsku“.

Hótanir forstjóra Landsvirkjunar um að ekki yrði hægt að virkja án samþykktar Icesave? Í ljós kom að það voru hrein ósannindi. Hvað gerði stjórn fyrirtækisins?

Hvað gerði ráðherrann sem er æðsta stjórnvald þess? Ekkert. Og allir vita hvers vegna.

Kanadíski seðlabankastjórinn í Englandsbanka hefði staðið illa ef stjórnmálamanninum Boris hefði verið þvælt fyrir dómstóla. Nú eru liðin mörg ár síðan hann fullyrti af sannfæringarkrafti að Bretar myndu skjálfa fátækir og aumir frá fyrsta degi, samþykktu þeir Brexit. Ekki reyndist glóra í því. Og BBC sem var lítið betra en „RÚV“ hér heima? Það hefur ekki mátt vera að því að biðjast afsökunar. Og „RÚV“ er svo upptekið við að ganga erinda samfylkingarflokkanna, Viðreisnar og fyrirmyndarinnar, að það getur ekki beðist afsökunar fyrr enn suðurheimskautið hefur bráðnað."

Og hver er nú fyrirsjáanleg framtíð ríkisstjórnarinnar ef atkvæðagreiðslan um O3 fer nú fram? 

Mun formaður Sjálfstæðisflokksins  boða til Landsfundar flokksins? 

Eða eru kosningar í vændum þar sem eitthvað er í gangi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi frábæri pistill segir allan sannleikann um það af hverju ég og óteljandi fleiri sjálfstæðismenn getum ekki, og munum ekki getað kosið hinn meinta "Sjálfstæðisflokk" 

nema þar verði algjörlega öllum þingmönnum flokksins hent út.  Og það endanlega.

Hvert grundvallaratriðið á fætur öðru hafa þeir brotið, svikið og fótum troðið og það ætti öllum að vera augljóst að það getur aldrei, og mun aldrei teljast geðslegt nokkrum að kjósa þá aftur sem allt hafa svívirt sem okkur sjálfstæðismönnum eru grundvallaratriði.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 8.6.2019 kl. 11:58

2 Smámynd: Björn Jónsson

Takk Halldór.

Björn Jónsson, 8.6.2019 kl. 13:59

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er stórkostlegt Reykjavíkurbréf og einkum upphaf þess og kaflinn frá Jóni Hjaltasyni og áram, jú allt, þótt minnisstæðast sé það fremsta og upptalning Jóns og sannanir fyrir flokks- og þjóðarsvikum forystunnar.

Meira en svo nóg fyrir morgunmat flestra!

Jón Valur Jensson, 9.6.2019 kl. 09:54

4 identicon

Ja, það er nú það. Það er von, að spurt sé. Öðru vísi mér áður brá varðandi þessa þrjá flokka. Ég hef verið að lesa bók Guðjóns Friðrikssonar um Alþýðuflokkinn, og það er merkilegt að lesa um þær deilur, sem komu upp, þegar innleiða átti EES-samninginn. Það varð til þess, að þaverandi vinstri stjórn sprakk, því að Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ragnar Grímsson voru ekki sannfærðir, og vildu báðir láta málið í þjóðaratkvæði, auk þess sem það yrði að breyta stjórnarskránni vegna valdaframsalsins, sem í þessum samningi fælist, eins og fram kemur á blaðsíðu 503 í bókinni, þar sem kemur líka fram, að Ólafur Ragnar vildi ekki kljúfa Alþýðublandalagið með því að samþykkja samninginn. Þess vegna voru dagar ríkisstjórnarinnar taldir, og Viðeyjarstjórnin tók við. Þegar samningurinn kom til atkvæða á Alþingi, þá stóð allur þingflokkur Alþýðubandalagsins á móti honum, þar á meðal Steingrímur Jóhann, sem nú situr í stól forseta Alþingis. Merkilegt, að hann verði svo einn af þeim, sem innleiðir orkupakka 3 hér. Talandi um Ólaf Ragnar, þá hefði verið betra, að hann hefði setið á Bessastöðum í dag, eins og hann var góður forseti og traustur þjóð sinni og stóð með henni í baráttunni um Icesave. Hann hefði líka staðið með þjóðinni í þessu máli hér. Það er hreinasta hörmung, hvernig ríkisstjórnarflokkarnir eru varðandi orkupakkana. Þegar jafnvel sá, sem hvað harðast barðist fyrir að koma okkur inn í ESB, Jón Baldvin Hannibalsson, er kominn í hóp andstæðinganna, þá held ég, að fólk megi nú fara að endurskoða afstöðu sína til ESB. Ég segi ekki annað. Ég er sammála Styrmi Gunnarssyni og því, sem hann hefur skrifað um þessi mál. Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins mega fara að vara sig. Það má segja um hina stjórnarflokkana líka. Þetta gengur ekki lengur.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.6.2019 kl. 10:09

5 identicon

"HVAÐ ER Í GANGI" spyrja gamlir og ungir Sjálfstæðismenn varðandi 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins.

HEIÐURSFÓLKIÐ, andstæðingar XD-Flokksins,er mætt til veislu og vegsamar samstarfið í ríkisstjórninni og að formaðurinn sé bestur í samstarfinu. Ég vona að það tengist EKKI inngöngu til ESB landa, sem EKKERT ráða við stjórnun "logandi" Evrópumála og fjölþjóða innflutnings fólks,sem hefur ekkert álit á okkar lífi og Kristilegum siðum.

ORKAN-OKKAR sameiginleg og auðæfi ÍSLANDS er eftirsótt af embættismönnunum í Brussel. Það verður "UPPGJÖR og STRÍÐ" í OKKAR heilaga landi, ef svo gerist,að þetta verði tekið án ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU-ÞJÓÐARATKVÆÐAKOSNINGU á ÍSLANDI.

Eru Alþingismenn æviráðnir?.Ráðherrar æviráðnir?. Það væri gaman að heyra SÖGUNA frá Styrmi Gunnarssyni fyrrverandi MBL ritstjóra, varðandi laun og reglur á gamla góða Alþingi     

GÍSLI HOLGERSSON - ICELAND (IP-tala skráð) 9.6.2019 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 3418219

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband