Leita í fréttum mbl.is

Ja hérna, Sjálfstæðismaður!

skrifar í Morgunblaðið af hugsjón. Maður skynjar loks Sjálfstæðisstefnuna hjá þingmanni eins og maður þekkti hana í gamla daga.

ÓLi Björn Kárason er sá maður. Hann skrifar í Morgunblaðið :

Ó, þetta er indælt (ný)-frjálslyndi

"Klisjur?

Já þær eru sífellt algengari í stjórnmálaumræðu samtímans.

Merkimiðapólitík?

Ekki verður annað séð en að þeim stjórnmálamönnum fjölgi fremur en fækki, sem telja það til árangurs fallið að nota merkimiða á sig sjálfa en ekki síður á pólitíska andstæðinga.

Í pólitík merkimiðanna eru margir dugmiklir við að skreyta sig með fallegum orðum. Það þykir sérlega gott að kenna sig við frjálslyndi og ekki er verra að koma því til skila að viðkomandi sé víðsýnn og umburðarlyndur. Um leið eru andstæðingarnir stimplaðir – merktir í bak og fyrir. Þeir eru þröngsýnir, afturhaldssamir, forstokkaðir fulltrúar gamalla tíma og úreltra sjónarmiða.

Klisjur og merkimiðar eru oft árangursrík aðferð og gefa stjórnmálamönnum tækifæri til að forðast efnislegar umræður um mikilvægt mál. Það er miklu auðveldara að afgreiða andstæðinga með einum eða tveimur merkimiðum, en að eiga rökræður.

Hugtök fá nýja merkingu

Þeir stjórnmálamenn sem dugmestir eru við að kenna sjálfa sig við frjálslyndi boða það sem þeir kalla „nýja pólitík“ – „stjórnmál framtíðarinnar“ til að takast á við áskoranir 21. aldarinnar. Í hugmyndaheimi þeirra fá hugtök og orð nýja merkingu.

Með nýrri merkingu hafa stjórnlyndar hugsjónir fengið skjól. Nútímalegt frjálslyndi byggist ekki á trúnni á einstaklinginn, getu hans og ábyrgð.

Stjórnlyndi breytist ekki þótt það sé klætt í nýjan búning. Góðhjartaðir stjórnmálamenn, undir fána hins nýfengna frjálslyndis, leggja verulega á sig að hafa vit fyrir samferðamönnum sínum. Í hugum þeirra er það lífsnauðsynlegt að „barnfóstran“ sé stöðugt á vaktinni svo almenningur fari sér ekki að voða. Lög um alla mannlega hegðun skal samþykkja.

Reglugerðir eru taldar forsendur þess að hægt sé að verja einstaklinginn gagnvart sjálfum sér. Öflugt eftirlit undir stjórn velviljaðra embættismanna á að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki fari eftir lögum og reglum. Hið nýfengna frjálslyndi kallar á að skattar séu lagðir á vöru og þjónustu í nafni umhyggju enda almenningur stjórn- og sinnulaus um eigin velferð og heilbrigði.

Stjórnlyndir eru ekki þeir einu sem skreyta sig í tíma og ótíma með frjálslyndi. Frjálslyndi samtímans felst einnig í því að grafa undan tiltrú almennings, atvinnulífsins og erlendra aðila á íslensku efnahagslífi og ekki síst krónunni.

Patentlausn flestra vandamála er að henda krónunni út í hafsauga og taka upp evruna – gjaldmiðil fyrirheitna landsins. Víðsýnin er staðfest í endurteknum tilraunum til að kollvarpa skipulagi sjávarútvegs, sem þó er skattlagður sérstaklega á sama tíma og flestar aðrar þjóðir – Noregur, Bandaríkin að ekki sé talað um lönd Evrópusambandsins – hafa sjávarútveg í sérstakri súrefnisvél ríkisstyrkja.

Umburðarlyndið elur á tortryggni í garð atvinnugreinar sem hefur staðist ríkisstyrkta samkeppni. Stöðugt þyngri álögur eru kappsmál nútímalegs stjórnmálamanns, enda vasar útgerðarmanna sagðir svo djúpir að hægt sé að fjármagna flest loforð.

Upphafning

Hið nýja umburðarlyndi sýnir ekki andstæðum skoðunum virðingu. Umburðarlyndi felst í sjálfsupphafningu og fordæmingu „rangra skoðana“.

Nýfrjálslyndi hefur litla þolinmæði gagnvart þeim sem hafa áhyggjur af því að með innleiðingu orkutilskipana á EES-svæðinu séu Íslendingar með beinum eða óbeinum hætti að missa forræði yfir orkuauðlindum.

Í stað þess að hlusta og skilja áhyggjurnar og svara þeim með rökum og staðreyndum, eru þær afgreiddar líkt og hver önnur vitleysa enda hinir áhyggjufullu örugglega forpokaðir einangrunarsinnar.

Nýfrjálslyndi á ekki samleið með hugmyndum um fullveldi þjóðar og sjálfsákvörðunarrétt. Slíkar skoðanir eru frá síðustu öld og gott betur. Eðli máls samkvæmt eiga þær ekki upp á pallborðið hjá stjórnmálamönnum 21. aldarinnar.

Stjórnmálamaður 21. aldarinnar er baráttumaður gegn krónunni, fyrir evrunni og þó fyrst og síðast fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Nýfrjálslyndi gefur lítið fyrir rétt lítillar þjóðar að eiga viðskipti við þjóðir heims á eigin forsendum.

Sjálfstæð utanríkisviðskiptastefna er eitur í æðum nýfrjálslyndra. Umburðarlyndi stjórnmálamanna sem kappkosta að kenna sig við 21. öldina tekur mið af því að meirihlutinn ráði svo lengi sem komist er að „réttri“ niðurstöðu. Málamiðlun er aðeins æskileg ef hún er á forsendum handhafa nýfrjálslyndis.

Aðrar sáttagjörðir ólíkra sjónarmiða eru aðeins sýndargjörningar í pólitískri refskák. Sættir eru rofnar ef það hentar og þjónar persónulegum pólitískum metnaði. Stjórnmálamaður 21. aldarinnar – nýfrjálslyndur, víðsýnn og umburðarlyndur – sér enga þversögn í því að beita uppnefnum og brigslyrðum.Nytsamleg vopn eru notuð, ekki síst gagnvart gömlum samherjum og stuðningsmönnum. Þeir eru hvort sem er íhaldssamir, – fulltrúar afturhalds og úreltra gilda. En nýfrjálslyndi er hagsýnt.

Þegar hentar er sótt í kistur fyrrverandi samherja. Þingmál eru afrituð og endurnýtt. Fyrst helsta stefnumálið um fyrirheitna landið fellur í grýttan jarðveg hjá meirihluta þjóðarinnar, koma málefnakistur þeirra sem sitja undir brigslyrðum að góðum notum.

Klisjuvæðing stjórnmálanna

Klisjur og einföld skiljanleg slagorð hafa líklega fylgt stjórnmálum frá upphafi – verið óaðskiljanlegur hluti af því að vekja athygli og vinna málstað fylgi.

Orðsnilld hefur alltaf verið góður vinur stjórnmálamannsins. En í gegnum frasana og slagorðin hafa kjósendur yfirleitt áttað sig á þeirri hugmyndafræði sem að baki liggur.

Stjórnmálamenn, sem segjast vera fulltrúar 21. aldarinnar, hafa hins vegar gert það að verkum að kjósendur eiga stöðugt erfiðara með að átta sig á því fyrir hvað frambjóðendur standa í raun. Búið er að henda hugmyndafræðinni eða umbreyta merkingu hugtaka til að gera hugmyndafræði, sem hefur selst illa, meira aðlagandi.

Barátta frjálslyndra manna fyrir réttarríkinu, þar sem allir eru jafnir fyrir lögum, er úrelt í hugum nýfrjálslyndra. Nútímalegt réttarríki skal fyrst og síðast byggja á að pólitískur rétttrúnaður nái fram að ganga. Því er hafnað að frelsi einstaklingsins og réttindi hans séu algild og óumbreytanleg. Allt er háð aðstæðum og tíðaranda.

Barátta gamaldags frjálslyndra manna fyrir tjáningarfrelsi, trúfrelsi og athafnafrelsi – fyrir frelsi einstaklinga frá afskiptum ríkisins – hefur verið sett út í horn. Sannfæring um að uppspretta valdsins sé hjá borgurum er álitin jafn furðuleg og hugmyndin um fullveldi þjóðar.

Nýfrjálslyndir eru margir sannfærðir um að uppsprettuna sé að finna í Brussel. Nýfrjálslyndi hefur reynst indælt fyrir marga og gefið þeim nýtt líf í pólitík.

Frjálslyndar skoðanir fyrri tíma eru sagðar púkalegar og eigi ekki erindi við samtímann, hvað þá framtíðina. „Þar sem öllum mönnum er náttúrulegt að vera frjálsir, jafnir hver öðrum og sjálfstæðir, má ekki svipta neinn mann þessum réttindum og setja hann undir lögsögu annars, án þess hann veiti til þess samþykki sitt,“ skrifaði John Locke í Ritgerð um ríkisvald (The Second Treatise of Government) árið 1689.

Hversu úreltar geta hugmyndir gamalla frjálslyndra manna orðið!? "

Það flögrar að manni að þarna hitti Óli Björn fyrir gamla Sjálfstæðismenn sem ekki hafa farið aftast í röð þeirra stjórnmálamanna sem þessi orð gætu átt við. Auðvitað falla fleiri þeirra sem hæst bylja undir skilgreiningu Óla Björns á Merkimiðapólitík og Klisjur og úr fleiri flokkum en Sjálfstæðisflokknum. En hér má hver hirða sitt að mínum dómi. 

Skyldi Óli Björn fá kvef 3.September og ekki geta mætt?  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilldarpistill Halldór, sér í lagi niðurlagsorðin sem vísa til þess hvort Óli Björn sé sannur, eða bara miklufremur froðusnakkari eins og allur þingflokkur "Sjálfstæðisflokksins" þegar kjósa skal um innleiðingu 3. orkupakka ESB í íslensk lög og brjóta um leið stjórnarskrá íslenska lýðveldisins:

Skyldi Óli Björn fá kvef 3. september og ekki geta mætt?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 10.7.2019 kl. 11:59

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sitthvað gott í þessu frá þeim fróða manni Óla Birni.

Fyndið samt, hvernig þú endar þetta, Halldór, -- með fullri virðingu fyrir Óla Birni,* en ég ætla rétt að vona, að hann mæti 3. sept. til að segja NEI við þriðja orkupakkanum!

* Enda greiddi hann atkvæði á móti fóstureyðinga-ólögunum, sbr. hér:  

Þingmenn með og móti lífinu ...

 

Jón Valur Jensson, 10.7.2019 kl. 14:11

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Gott að vera ekki mega sjálfstæður,svo sársaukalaust að finna til sín sem gamals þorpara. Þekkja marga þessara utanfósturs og geta samviskulaust minnt á tenginguna. Halldór minn ég skil þig inn aö beini og minni á að sá fagnar best sem að lokum sigrar. 

Helga Kristjánsdóttir, 10.7.2019 kl. 16:43

4 identicon

Bóndinn á Rein fóðrar skoðanir Óla Björns.

Óli Björn Kárason virðist snúa hinu pólitíska blinda auga sínu að sérþekkingu hins mikla reynslubolta bóndans á Rein. Haraldur Benidiktsson þekkir betur til þarfa bænda en flestir samflokksmenn hans. Væntanlega hefur ekki farið fram hjá bóndanum á Rein hversu traustir samningar við ESB eru varðandi innflutning á ófrostnu kjöti reyndust haldgóðir.

Hvað rekur þessa þingmenn til þess að vilja framselja auðlindir og þjóðfrelsi Íslands?
Ekki hafa fengist svör við því hver er ávinningur Íslands fólgin í að innleiða orkupakka 3. 
Eru sjálfstæðismenn að fremja landráð með blekkingar= tillögum bóndans?

Eðvarð L.Árnason (IP-tala skráð) 10.7.2019 kl. 21:39

5 identicon

Sæll Halldór mér finnst ansk. skýtt að ég skuli vera beittur ritskoðun á blogginu þínu

Kveðja Eðvarð

Eðvarð L.Árnason (IP-tala skráð) 11.7.2019 kl. 09:19

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Ekki sé nein merki ritskoðunar þó ég verði að skoða athugasemdirnar áður en þær birtast af sérstökum ástæðum utan míns áhrifasvæðis.

Halldór Jónsson, 11.7.2019 kl. 10:46

7 identicon

Óli Björn Kárason hefur lýst því yfir í málgagni Engeyjarflokksins að honum lítist vel á að gera sem Haraldur Benediktsson

(sem er að gera nákvæmlega eins og allur þingflokkur "Sjálfstæðisflokksins", í samræmdum og stöðluðum gæsagangi, ætlar að gera til dýrðar foringja sínum, að innleiða ESB tilskipunina um 3. orkupakkann)

og draga svo þá kanínu úr pípuhattinum að kannski fái þjóðin að kjósa um sæstreng, eða ekki. 

Óli Björn mun því ekki verða kvefaður 3. sept. heldur mun hann selja sig ESB alríkinu á hönd, rétt eins og allur þingflokkur hinna gaggandi hænsnfugla, hauslausra að leika gæsagang.   

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 11.7.2019 kl. 13:00

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Jæja, ekki spáirðu fallega fyrir okkar gamla flokki Símon Ðétur

Halldór Jónsson, 11.7.2019 kl. 22:16

9 identicon

Það eina sem þingflokkurinn þarf að gera er að virða landsfundar ályktun Sjálfstæðisflokksins.

Það ætlar þingflokkurinn hins vegar ekki að gera.

Þar með munu þau 14% sannra sjálfstæðismanna, sem styðja Davíð Oddsson, yfirgefa flokk ESB sinnaðra Engeyinga og fylgi þess flokks falla úr 22% (fylgi skv. nýjustu könnunum) mínus 14% (sannra sjálfstæðismanna)og enda í kringum 8%.  Það er fylgið sem Junior Bjarni og ESB þingflokkurinn getur vænst, svíki þeir í orkupakka málinu.  Kannski þeir nái einu til tveimur prósentum til viðbótar, og þá helst frá Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum.  Rassskellurinn verður alger!

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 12.7.2019 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband