Upp úr 1960 stóð heimurinn nánast á öndinni í svokallaðri Kúbudeilu. Helstu stórveldi heimsins þá, Bandaríkin og Sovétríkin, stóðu grá fyrir járnum með allan kjarnorkuvopnaforða sinn tilbúinn til notkunar. Fjölmiðlar um allan heim fluttu stöðugar fréttir af framvindu mála og hættan á kjarnorkustríði með tilheyrandi gjöreyðingu var daglega til umræðu. Ég og jafnaldrar mínir sem vorum þá á mörkum barns og unglings fylgdumst með þessari umræðu fullir af áhyggjum og ótta um framtíðina. Aðeins voru rúm 15 ár liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar með hroðalegum kjarnorkuárásum Bandaríkjanna á japanskar borgir. Algert kjarnorkustríð yrði líklega síðasta styrjöld mannkynsins. Að mínu áliti ríkti því á þessum tíma eitthvað sem kalla má neyðarástand í heiminum.
Hlýnun og stóryrði
Ástæða þess að ég rifja þennan tíma upp er sú að nú líður ekki sá dagur að ekki sé rætt um að hlýnun jarðar sé álíka ógn við mannkynið og kjarnorkustríð hefði orðið þegar kalda stríðið stóð sem hæst. Talað er um hækkun á hita jarðarinnar sem mestu ógn mannkynsins, hamfarahlýnun og stórfellda loftslagsvá og nú nýlega hefur neyðarástandi verið lýst yfir í nokkrum löndum, jafnvel í Evrópu vegna hennar. Hlýnun sem líklega er orðin um 1°C á síðustu 150 árum þar sem langtímameðalhiti jarðarinnar hefur hækkað um 0.1°C á hverjum 15 árum að jafnaði.
Í upphrópunum er talað um að við höfum aðeins fá ár til að koma í veg fyrir frekari hlýnun ef jarðlífið eigi ekki nánast að líða undir lok. Hef ég orðið var við vaxandi hræðslu og álíka tilfinningar hjá börnum og ungu fólki vegna þessarar yfirvofandi ógnar við tilvist okkar og menningu og ég hafði sjálfur fyrir nærri 60 árum. Fjölmiðlar, stjórnmálamenn og margir vísindamenn og embættismenn kyrja þennan hræðsluboðskap sem mér finnst engan veginn vera tilefni til að blása upp í þær hæðir sem gert er. Er engu líkara en að rétt einu sinni sé dómsdagur að renna upp!
Mesta ógnin
Í mínum huga er mesta ógn mannkynsins gríðarleg fjölgun þess og afleidd ofnýting stórs hluta auðlinda jarðarinnar, bæði á landi og í sjó. Árið 1900 voru um 1500 milljónir manna á jörðinni en nú er mannfjöldinn tæplega 8000 milljónir eða meira en fimm sinnum meiri. Meira og minna öll umhverfivandamál heimsins, þar með talin hlýnun jarðarinnar er afleiðing óheyrilegrar mannfjölgunar og krafna um bætt lífskjör. Loftmengun, jarðvegsmengun, jarðvegseyðing, plastmengun og skortur á vatni eru víða ógnir við lífverur bæði á landi og í sjó.
Allt þetta stendur í beinu samhengi við mannfjölda jarðarinnar. Talið er að meira en 60% af öllum auðlindum lands og sjávar séu annaðhvort ofnýttar eða fullnýttar og er ótrúlega litlum fjármunum eytt til þess að bæta þar úr. Vaxandi rányrkja sem m.a. má rekja til mannfjölgunar hefur einnig átt stóran þátt í að auka styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti. Það kom því nokkuð á óvart að í samkomulagi ríkja heims sem varð um loftslagsmál í París árið 2015 skyldi ekki vikið með afgerandi hætti að mannfjöldavandanum sem við er að glíma nú og um fyrirsjáanlega framtíð.
Hitabylgjur og manntjón
Mikið hefur verið gert úr alvarleika þeirra hitabylgna sem gengið hafa yfir Evrópu,N-Ameríku og fleiri svæði jarðarinnar á síðustu árum og þær settar í samhengi við hlýnun jarðar. Þessar hitabylgjur eru trúlega meiri en nokkru sinni hafa orðið síðan almennar hitamælingar hófust fyrir um 200 árum eða svo, sbr. fjölda hitameta í álfunni í sumar. Manntjón í þeim hefur verið blásið upp og fjölmiðlar hafa fundið út að a.m.k. 20 manns hafa látist úr hita í Evrópu á þessu sumri og annar eins fjöldi í N-Ameríku.
Til samanburðar má nefna að í kuldakasti á meginlandi Evrópu í febrúarmars 2018 er talið að allt að 100 manns hafi króknað úr kulda. Hitabylgjur þessa sumars eru þó hvergi nærri eins mannskæðar og sumarið 2003 þegar talið er að allt að 30.000 manns hafi látist úr hita eða þurrki. Auðvitað eru slíkir atburðir alvarlegir en enginn vafi er á að manntjónið er ekki síður tengt mannfjölda, lífskjörum og lífsstíl fólks sem og hækkandi lífaldri og því ekki eingöngu hækkun hita á jörðinni.
Lokaorð
Þótt ég styðji viðleitni okkar Íslendinga sem og annarra við að draga úr losun gróðurhúsa-lofttegunda finnst mér mun meiri ástæða til að gefa öðrum þáttum í mannlífi jarðarinnar meiri gaum en loftslagsvánni. Nokkrar staðreyndir, valdar nánast af handahófi, skulu nefndar sem mér finnst að fjölmiðlar, stjórnmálamenn og ungt fólk ættu að hafa meiri áhyggjur af, halda fleiri ráðstefnum um og setja í meiri fjármuni til að reyna að lagfæra, fremur en að berjast við losun á koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum:
- Um 70 milljónir manna eru á flótta í heiminum, meirihlutinn börn og unglingar.
- Um milljarður manna býr við vaxandi skort á neysluvatni vegna fólksfjölgunar og ofnotkunar vatns.
- Meira en milljarður kvenna á jörðinni býr við andlegt, líkamleg og/eða kynferðislegt ofbeldi og a.m.k. 50.000 konur eru drepnar árlega af mökum sínum.
- Um 30.000 manns deyr daglega af völdum reykinga og um 10.000 af völdum áfengis. Það er um 15 milljónir mannslífa á ári.
Hingað til hef ég ekki misst svefn eða haft áhyggjur af hækkun hita á jörðinni, enda tel ég ekki um neitt neyðarástand (bráðahættu) á því sviði að ræða. Ég reikna heldur ekki með að ég muni lifa það að innihald gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti jarðar muni minnka. En meðan mannkyninu fjölgar jafnmikið og raun ber vitni um og krafa um stöðugt meiri hagvöxt og betri lífskjör er uppi eru að mínu mati engar líkur til að okkur takist að minnka styrk koltvísýrings í andrúmslofti. Við þurfum því að hættumeta áhrif hlýnunar á yfirvegaðan hátt og án hræðsluáróðurs og laga okkur að þeim breytingum sem kunna að verða á lífskilyrðum manna og dýra í einstökum heimshlutum við frekari hlýnun."
Ég hef aldrei þessu vant engu við þetta að bæta. Magnús hefur sagt allt það sem ég vildi sagt hafa en bara betur en mér var unnt.
Allir vildu Lilju kveðið hafa og svo fer mér eftir að lesa pistil Magnúsar.
Athugasemdir
Ég er nú kominn hátt á níræðis aldur og hef alla ævi, síðan ég man eftir mér, mátt óttast ýmiss konar aðsteðjandi ógnir, svo sem heimsstyrjöld, kalt stríð og kjarnorkuógn, og nú síðast loftslagsvá. Þrátt fyrir það þá tel ég mig nú vera í sæmilegu andlegu ástandi.
Það steðja mörg vandmál að heimsbyggðinni, ekki síst fólksfjölgun. En það er sama hvert vandamálið er, það ber að taka á því eftir bestu getu, ekki loka augunum fyrir því.
Hörður Þormar, 6.10.2019 kl. 22:41
Hvernig á að taka á fólksfjölguninni Hörður minn?
Verður ekki að kaupa fólk til ófrjósemi þar sem það er ódýrast?
Halldór Jónsson, 7.10.2019 kl. 21:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.