Leita í fréttum mbl.is

Blessaður, þetta fer einhvern veginn!

Sveinn B. Valfells er einn þeirra manna sem ég hugsa hvað oftast til þá ég stend á krossgötum. Hugsa mér hvað hann hefði gert við þetta tækifæri.

Það er  langt sé um liðið síðan hann kvaddi og ég er orðinn eldri heldur en hann varð, þá fannst mér allt í einu að ég mætti minnast Sveins vinar míns einu sinni enn. Mér kom skyndilega til hugar að sækja minningargrein mína um hann á tímarit .is  og læt hana fylgja hér með svona til að sýna honum síðbúinn virðingarvott. Þar eru fleiri greinar um hann ritaðar af meiri mönnum en mér,sem menn geta lesið sér til fróðleiks.

Greinin nín var svona:

"Sveinn B. Valfells varð bráðkvaddur í Reykjavík, aðfaranótt 6. febrúar sl., 78 ára að aldri. Hann var fæddur hinn 26. september 1902 að Grenjum á Mýrum, sonur hjónanna Bjarnþórs Bjarnasonar frá Knarrarnesi, Benediktssonar prests í Fagranesi, Björnssonar prests í Hítardal, Benediktssonar, og konu hans Sesselíu Soffíu Níelsdóttur, frá Helgastöðum í Reyðarfirði, Eyjólfssonar. Kona Níelsar Eyjólfssonar var Sigríður Sveinsdóttir, prófasts á Staðastað, Níelssonar, Sveinssonar, frá Kleifum í Gilsfirði. Kona Níelsar Sveinssonar var Sesselía Jónsdóttir að Barmi á Skarðsströnd, Guðmundssonar á Vöðlum. Hjónin á Grenjum eignuðust 7 börn, þau voru: Þórdís, f. 1886, Sigríður f. 1888, Hildur f. 1889, Marta María f. 1891, Jón Valfells f. 1892, Ásgeir f. 1899 og Sveinn. Eftir á lífí er nú aðeins Ásgeir, hinn Iandskunni listmálari. Sveinn B. Valfells var löngu þjóðkunnur maður og í hópi umsvifamestu athafnamanna landsins. Verður hér aðeins stiklað á stóru um hina löngu og viðburðaríku starfsævi hans.

 Sveinn vandist snemma öllum algengum sveitaverkum, smalaði kindum og sat yfir kvíaám með systkinum sínum, eins og tíðkaðist á íslenskum sveitabæjum uppúr aldamótunum. Faðir hans varð íshússtjóri í Borgamesi, er hann brá búi 1909, og vann Sveinn hjá honum þar. Daginn eftir ferminguna fór Sveinn til vinnu í verzlun Jóns Björnssonar, frá Bæ, í Borgarnesi. Meðfram þeim störfum stundaði hann nám í Verzlunarskóla íslands, þaðan sem hann lauk prófi 1921, efstur í sínum árgangi. Hugur Sveins stóð til að læra endurskoðun, en komst hvergi að til náms.

 Sveinn réðst þá til heildverzlunar Garðars Gíslasonar, sem þá var hvað stærsta fyrirtæki í sinni grein á landinu og starfaði bæði að út- og innflutningi. Var Sveinn fljótlega settur í hin mestu trúnaðarstörf hjá Garðari og annaðist fyrir hann mikil innkaup og sölu á meginlandi Evrópu og í Bretlandi. Dvaldist Sveinn af þessurn sökuni langdvölum erlendis á vetrum, t.d. var hann 8 jól í Hamborg á vegum Garðars næstu 11 árin. Einnig fór hann langar söluferðir fyrir Garðar á sumrin innanlands og kom þá á alla verzlunarstaði landsins og hitti alla kaupmenn. Kynntist hann á þessum árum þvílíkum aragrúa af fólki, að hreint ótrúlegt gat verið hversu þekking hans á mönnum og staðháttum var mikil. Varð ég oftar en einu sinni vitni að því, að ókunnugt fólk rak í rogastanz, þegar það hafði sagt nokkur deili á sér og Sveinn tók síðan við að fræða það um ættir þess sjálfs. Og ekki voru þessi tilvik einskorðuð við ísland og íslendinga, því svipuð atvik komu fyrir utanlands og erlendir menn áttu í hlut. Sveinn hafði þá kannski þekkt feður þeirra eða afa í Hamborg eða annars staðar. Stálminni og óþrjótandi, jákvæð fróðleiksfýsn voru áberandi þættir í fari Sveins alla þá tíð, sem ég hafði af honum kynni.

Þó hann væri af léttasta skeiði, þegar ég réðst til starfa á útvegi hans, varð ég aldrei var við það, að neinn þyrfti að leiðrétta misminni hjá honum. Bar hann sig þó stundum upp undan því, að ekki væri nú minnið eins gott og það hefði verið í gamla daga. 24.3. 1932 stofnaði Sveinn með fulltingi mágs síns, Friðriks Jónssonar, bróður hans, Sturlu kaupmanns, og fleiri manna fyrirtækið Vinnufatagerð íslands hf. Það fyrirtæki hefur starfað með miklum blóma alla tíð síðan og fært þjóðinni ýmsar nýjungar, sem í dag þykja sjálfsagðar, svo sem íslandsúlpur, vinnuvettlinga, ketilgalla og rauða tóbaksklúta, þessi aðalsmerki íslenzkra neftóbaksmanna. Varð Sveinn fljótlega aðaleigandi fyrirtækisins.

 Kom nú vöruþekking hans og reynsla frá Garðarsárunum betur að notum en endurskoðunarfræðin sem ekki fengust, og dugði til þess að lyfta fyrirtækinu yfir keppinautana. Hann ferðaðist um víða vegu, keypti inn efni og vélar og aflaði nýjunga af hagsýni og harðfylgi. Þannig skaut hann keppinautum sínum aftur fyrir sig, meðan jafnt var að tafli staðið. En það er hinsvegar hvað ljótastur kafli í íslenzkri viðskiptasögu seinni tíma, þegar pólitíkin var notuð til þess að hygla sumum en bana öðrum eins og varð t.d. um Gísla J. Johnsen í Eyjum, Sæmund í Hólminum, Stefán Th. og Wathne-bræður fyrir austan. Mátti Sveinn þola, að margur steinn væri í götu hans lagður af pólitískum stigamönnum þeirra tíma. Gerði þetta baráttuna enn erfiðari og jafnvel tvísýna stundum. En Sveinn lét ekki erfiðleikana buga sig, heldur brauzt áfram af alefli, sístarfandi og árvakur.

 Maður kom ekki heim án kvíaánna þótt þokan væri dimm. Hann dróst með tímanum inn í, eða stofnaði beint, tugi annarra fyrirtækja. Enda fóru menn fljótt að leita til hans með ráð, þegar þeir sjálfir ei fleiri kunnu. Er mér kunnugt um, að fyrir ráð hans og atbeina risu ýmis, nú þjóðkunn, fyrirtæki úr öskustó, sem ella hefði ekki orðið af lengri saga. Rek ég það ekki lengra, en fullyrði, að hundruðir manna og kvenna í íslenzku þjóðfélagi myndu í dag stunda aðra atvinnu, hefði hans atbeina ekki notið við. Hann lét félagsmál iðnrekenda til sín taka og var formaður samtaka þeirra um árabil. í gegnum þau störf, auk setu í Stóriðjunefnd, átti hann mikinn upphafsþátt í, að fenginn var áliðnaður inn í landið.

Hann var einn helzti hvatamaður að stofnun Iðnaðarbanka íslands hf. og formaður bankaráðs hans var hann á annan áratug. Bar hann hag samtakanna og málefni iðnaðarins og bankans mjög fyrir brjósti alla tíð. Hann var stofnfélagi í Rotaryklúbbi Austurbæjar. Áhugasamur veiðimaður á lax og silung og ferðaglaður í besta lagi. Hann hafði dálæti á trjágróðri og ræktun, eins og sjá má við sumarbústað hans í Grafningi, þar sem fjölskyldan dvaldist oftlega og fagnaði gestum. Síðasta vor gerði hann enn stórátak í plöntun þar og gekk sjálfur fremstur að verki, því hann var hraustur og heilsugóður fram á síðustu ár. Meðalmaður var hann á hæð, þéttvaxinn og svipmikill, en glaðlegur og jafnan stutt í brosið.

 Sveinn kvæntist 1932 Helgu Ágústsdóttur, H. Bjarnasonar prófessors og k.h. Sigríðar Jónsdóttur, ritstjóra Ólafssonar. Var Sveini mjög hlýtt til tengdaforeldra sinna og vitnaði oftlega í verk dr. Ágústs í mín eyru. Hjónaband þeirra Helgu var hið ágætasta meðan bæði lifðu, en Helga lést í nóvember 1974. Harmaði Sveinn hana mjög, þótt segði fátt, því kært var með þeim. Þeim varð 3 barna auðið: Dr. Ágúst, efna- og kjarnorkuverkfræðingur, kvæntur Matthildi ólafsdóttur frá Suður-Vík, eiga þau 3 börn, dr. Sigríður, málvísindamaður, ógift, og Sveinn, verkfræðingur og rekstrarhagfræðingur, kvæntur Svövu Jónsdóttur úr Reykjavík. Eiga þau 2 börn.

Þau Sveinn og Helga dvöldust með börnum sínum í Ameríku 1943—1946, er Sveinn tók að sér innkaupastjórastarf við sameiginlega innkaupaskrifstofu íslendinga í New York, sem stofnuð var þar vegna stríðsins. Stóð hugur Sveins til áframhaldandi veru þar í landi, því honum fannst líklega bandarískt þjóðfélag, með tækifærum sínum fyrir alla og markaðsstærð, henta sér betur en kotríkið ísland og sá landlægi klíkuháttur og viðskiptaþröngsýni, sem þar hefur lengst af ráðið ríkjum. En hugur Helgu stóð til heimalandsins og samvista við foreldra, ættingja og vini þar og yarð svó, að þau fluttust heim til íslands. Heimkomin reistu þau sér veglegt hús í Blönduhlíð 15 í Reykjavík, þar sem gott var að koma, þiggja hollráð og njóta rausnar og viðmóts húsráðenda. Stóð heimilið þar með rausn alla tíð síðan, til þessa dags, að nú eru bæði í brottu.

Miklir erfiðleikar voru í íslenzkum atvinnurekstri eftir stríðið, mikið fyrir vanhugsaðar efnahagsaðgerðir íslenzkra stjórnmálamanna, sem beittu pólitísku valdi í bönkum og nefndum, til þess að knésetja andstæðinga. Stóð svo fram til valdatöku viðreisnarstjórnarinnar, að nokkuð jafnrétti var tekið upp og verzlunarfrelsi innleitt í fyrsta sinn frá því í kreppunni miklu. Gerbreytti þetta þjóðfélaginu í einni svipan, svo að unglingum núna þykir ótrúlegt, að fyrir rúmum tveimur áratugum fengust ekki epli í búðum nema á jólunum. Nú hefur þetta frelsi ríkt svo lengi, að unga kynslóðin fer að hætta að skilja gildi þess og hvers konar haftapostulum vex ásmegin með þjóðinni, sem boða henni leiðina til ánauðar á ný. En það er önnur saga.

Þau verkefni, sem Sveinn hafði við að glíma í atvinnurekstri urðu allstórvaxin. Það, sem hann hafði umleikis, varð fyrirferðarmikið í hlutfalli við það, sem hann hleypti heimdraganum með fyrir 65 árum. En það var aðallega eins og hann lýsti því sjálfur, tvær hendur, eitt höfuð, og tveir sterkir smalafætur. Og sé minnst á fætur, þá get ég sagt frá því, að það var mér erfið fótaraun að ganga með honum heilu dagana milli fyrirtækja á Manhattan, sem hann var að heimsækja í viðskiptaerindum, svo skrefdrjúgur var hann þó kominn væri á áttræðisaldurinn. Og hvarvetna biðu hans vinir í varpa þarna í skýjakrjúfuniim. Suma hafði hann skipt við í yfir 30 ár og þeir fögnuðu honum á löngu færi, eins og menn gera til sveita hér. Og svona gekk þetta dag eftir dag. Hann var óþreytandi að reka erindi sín og annarra og maður sá glöggt hversu vel honum leið þarna í hringiðu viðskiptalífsins. Og þá var margt skrafað sér til ánægju og fróðleiks. Hvern mann geymdu höfuð hans og hjarta? Ekki er ég fær um að gefa tæmandi lýsingu á því.

Til þess þekkti ég of lítinn kafla úr æfi hans og sögu. En það sem ég sá var mikið undur. Ekki hefur einstakur maður annar lagt sig eins í líma við að kenna mér lífsfílósófí" eins og hann kallaði það. Stóð kennslan nær 20 ár fram að hádegi hans hinzta dags. I því síðasta samtali ráðgerðum við að vitja vesturstranda saman innan skamms. Hugði ég gott til fararinnar, því enn var margt ólært. En nú glymur klukkan skyndilega og kennsla er úti. Meistarinn farinn en próf væntanleg. Kvíði er í nemandanum við þessi tímamót og hefði hann margt betur viljað kunna, þó að hann finni að ýmislegt hefur skýrzt í hans daufa huga. Fyrir það verður hann ávallt þakklátur.

 Lærisveinar Sveins skipta tugum og hef ég enga heildaryfirsýn yfir fjölda þeirra né nöfn. Geri ég ráð fyrir, að misjafn hafi orðið þroski þeirra eins og gengur í skólum. En eitt veit ég fyrir víst. Enginn varö verri maður við kynni sín af Sveini B. Valfells. En miklu fleiri urðu betri.

Slíkur maður var hann, jákvæður, ráðhollur og umtalsfrómur um menn, jafnt þá, sem áttu það skilið, og hina. Hann var trölltryggur vinum sínum og óþreytandi að leysa vandræði manna og fyrirtækja, sem til hans leituðu. Hann var glaður maður, góður og hlýr, snotur vel og spekingur að viti. Kunni manna bezt að njóta góðra stunda. Geiglaus og djarfur, hvað sem að höndum bar, þó vissulega fengi hann að kynnast sorgum og mótlæti í lífinu.

En jafnaðargeð hans, rökhyggja og umburöarlyndi, sem hann taldi höfuðdyggðir manna, vísuðu honum veginn, sem hann gat leitt aðra eftir með sér. „Og blessaður vertu, þetta fer einhvernveginn," sagði hann stundum, ef einhver hafði áhyggjur af framtíðinni. Og svo er það í lífinu, áhyggjur leysa engan vanda. Avallt fannst mér birta þar sem hann kom og samræöur tókust góðar. Voru þá einatt fljót að gleymast staður og stund, þegar hann hélt athygli manna fanginni með skemmtisögum af mönnum og málefnum. En hann notaði slíkt gjarnan sem dæmisögur, til þess að beina hugsun viðmælenda til réttra lausna á vandamálum líðandi stundar. Er fáum gefin slík samræðulist.

 Saman fórum við víða vegu og gistum ókunn lönd. Það voru ógleymanlegar stundir og lærdómsríkar. Hann var sannur heimsborgari og hafði séð flesta lýði og lönd hér á jörð. Minnið og athyglisgáfuna notaði hann gjarna til þess að draga lærdóma af atferli manna til notkunar á nærtæk viðfangsefni. Snobb fyrir fínum stöðum og bruðl með ferðafé voru honum fjarri. Samt höfðum við sífellda veizlu og skemmtan með hagsýni, sem gerði hvern skilding að tveimur. Sói maður ekki, skortir mann ekki síðar. Hinsvegar gat hann verið svo djarfur með stórfé, þegar ákvörðun um fjárfestingu var tekin, að manni féll allur ketill í eld.

 Hvað lífsviðhorf snertir, held ég, að hann hafi álitið manninn eiga aðeins einn höfuðóvin, en það er sína eigin heimsku. Gegn heimskunni vildi hann berjast, aðeins heimskan væri bölvaldur manna og það sem stæði i vegi fyrir því, að flestum geti liðið betur á þessari jörð. Nú eru leiðarlok og lífi hans er lokið. Eftir er aðeins bergmál í hugum okkar, sem þekktum hann.

 Það er freistandi að spyrja sjálfan sig: Náði hann takmarki sínu á langri ævi? Ég er ekki viss um það. Þó okkur sýnist hann hafa náð langt á sviðum, sem flestir láta sér duga sem skilgreiningu á velgengni, held ég samt, að hann hafi haft hærri markmið. Ég hygg, að hann hefði kosið að fá að hafa meiri áhrif á mótun efnahagsstefnu fyrir þjóðina, og hversu búið skuli að atvinnurekstri í landinu, en honum auðnaðist. Hann hefði viljað leiða íslendingum fyrir sjónir, að mörg af þeirra mest brennandi vandamálum eru heimatilbúin, nóg væri af tækifærum og landgæðum, allt gæti verið auðveldara ef menn beittu skynseminni fremur en tilfinningunum.

Eg held, að honum hafi verið það vonbrigði, þó hann flíkaði lítt, að oft náði rödd hans ekki eyrum fjöldans né foringjanna. Og það voru litlar sárabætur, þegar stjórnmálamenn fóru síðarmeir að myndast við að framkvæma ýmsa hluti í efnahagsmálum, sem hann hafði haldið fram áratug á undan en þá fyrir daufum eyrum. Því oftar en hitt, varð framkvæmdin hálfkák, — of lítið of seint, og árangur eftir því. En nú er stundinni lokið og klukkan hefur glumið í hinzta sinni. Ég vil þakka Sveini B. Valfells, meistara, félaga og vini, fyrir samfylgdina. Seint mun snjóa yfir ö11 hans spor."

Ég veit ekki hversu núlifandi ungmenni geta sett sig inn í líf fátæks sveitadrengs í byrjun tuttugustu aldar. Hann varð að sitja yfir kvíaánum illa klæddur og skóaður. Hann sagði mér að stundum var hann svo bólginn á fótunum á morgnana að hann komst ekki í skóna fyrr en hann var búinn aðstanda í bæjarlæknum um stund til að bólgurnar drægjust saman. Sveitalífið var örbirgð og þar koma að faðir hans flosnaði upp og flutti á mölina í Borgarnesi.

Kröpp kjör bernskunar settu sitt mark á hans síðara líf. Hann ósjálfrátt passaði upp á að aðeins ein eldspýta væri notuð þegar við vorum að kveikja í vindlunum, nýtni og að fara vel með var honum inngróið þrátt fyrir að vera orðinn múltímilljóner. Lét okkur kaupa ódýrasta svartadauðann í nestið í fríhöfninni þó viskíð væri ódýrt að mér fannst.  

Hann setti ávallt skynsemina ofar öllu. Hann sagði einu sinni við mig þegar eitthvert æsingamál var á dagskrá,: Menn eiga ekki að hafa skap heldur skynsemi. 

Þannig var hann í öllu dagfari. Skipti ekki skapi heldur ræddi rólega og yfirvegað um málefnið á dagsksá. Og hló svo hjartanlega að öllu saman og sagði:

"O blessaður þetta fer einhvernveginn." 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Falleg og mögnuð minningargrein um mann, sem greinilega var magnaður.

 (Þú ert nú dulítið magnaður sjálfur nafni;-))

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 15.4.2020 kl. 01:38

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Frábær grein!

Þorsteinn Siglaugsson, 15.4.2020 kl. 09:23

3 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldar grein Halldór.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested, 15.4.2020 kl. 14:11

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þetta. Ég var hikandi við að birta þetta gamla skrif, var ekki viss um að ég væri að gera rétt og myndi hneyksla einhverja sem mína sjálfhverfu. En á ykkur tek ég fyllsta mark og þið styrkið mig mikið í því að þetta hafi verið betur gert en ógert.

Halldór Jónsson, 15.4.2020 kl. 14:14

5 identicon

Gamlingjarnir muna vel Svein B.Valfells, dugnað hans og afskipti í viðskiptum. Ég á eftir að lesa þessa fallegu grein aftur - hún minnir okkur á Landið okkar og getu Íslendinga. "kæla fæturnar í bæjarlæknum vegna bólgu í fótum til að komast í skóna sína" var ábending um breytta tíma.

GÍSLI HOLGERSSON - ICELAND (IP-tala skráð) 15.4.2020 kl. 15:42

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Já, það var enginn dans á rósum kotbúskapurinn á Íslandi fyrir vélaöldina. Allt drifið á vöðvaafli í heyskap sem öðru.Enda voru gamlir sveitamenn oft með með helmingi stærri hendur en nú er venjulegt og voru útslitnir menn yfirleitt um fimmtugt.

Halldór Jónsson, 16.4.2020 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 3418405

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband