Leita í fréttum mbl.is

Villi Bjarna enn á ferð

og ritar þarfa grein í Morgunblaðið í dag. Hann ræðir þar gildi hófstillingar í orðavali og málflutningi, hvernig stór-og fúkyrði, jafnvel í fylleríi sögð, skemma yfirleitt meira fyrir þeim sem þau nota.  

En Vilhjálmur segir svo í grein sinni:

"„Mannssálin hneigist að hinu ótrúlega en efar hið trúlega.“ Það er hluti af lýðræðinu að skiptast á skoðunum. Í sal Alþingis fer fram lýðræðisleg umræða. Sú umræða er stundum nokkuð merkileg því þess eru dæmi að alþingismenn vandi málflutning sinn með því að afla staðreynda og upplýsinga um það mál sem er til umræðu, þannig að þeir sem á hlýða verða nokkurs vísari eftir umræðuna. Þess eru einnig dæmi að umræðan komist á lágkúrulegt plan, svo lágkúrulegt að það getur varla talist skítkast, miklu fremur mykjudreifing.

Uppeldi í stjórnmálum

Það var árið 1968 að stjórnmálalegt uppeldi mitt hófst. Áður hafði stjórnmálaáhugi mótast af tilfinningu barns. Þá var ég aðeins 16 ára gamall og hafði því ekki kosningarétt. Það ár fóru fram forsetakosningar. Annar frambjóðandinn var mikill vinur föður míns, skólabróðir og spilafélagi. Mér var stranglega bannað að tala illa um hinn frambjóðandann í þessum kosningum. Það var einn frambjóðandi og það var annar frambjóðandi. Það var ekki frambjóðandi gegn öðrum frambjóðanda. Faðir minn stóð með sínum frambjóðanda vegna verðleika hans. Það skyldi aldrei orði hallað á hinn frambjóðandann. Það var minn lærdómur. Ég hef reynt að halda þessa reglu, að fjalla um menn og málefni eftir verðleikum og málstað. Það kann að vera að einhverju sinni hafi misheppnað uppeldi komið í ljós. Málstaður og menn batna aldrei með svívirðingu og mykjudreifingu.

Lágkúra um landráð

Á lýðveldistímanum hafa vinstri menn brigslað öðrum um landsölu, landráð og hvers kyns svik. Dæmi um lágkúrulegt orðfæri má finna í umræðu um aðild Íslands að NATO árið 1949. Formaður Sósíalistaflokksins er í ræðustól og segir við forsætisráðherra, að því er virðist við frammíkall ráðherrans: „Þegi þú, þú hefur ekki orðið. Ég er alþingismaður Íslendinga, kosinn af 7.000 Reykvíkingum og tala hér í umboði þeirra, en þú ert uppbótarþingmannsræfill, sem sveikst þig inn á þing.“ Til upprifjunar skal þess minnst að til mótvægis NATO var stofnað Varsjárbandalag árið 1955. Nú hafa allar aðildarþjóðir þess, utan ein, gengið til liðs við NATO og þær þjóðir telja að frelsi sínu sé best borgið í skjóli NATO og með aðild að Evrópusambandinu. Varsjárbandalagið var leyst upp árið 1991. Þá hafði sovéskur her ráðist inn í tvö aðildarríki á þeim tíma sem Varsjárbandalagið starfaði. Sami formaður Sósíalistaflokksins sagði 10 árum síðar um ritstjóra Morgunblaðsins: „Það er ekki lengra frá Eykon til Eichmann en frá Göbbels til Gyðingamorða.“ Eichmann var þýskur stríðsglæpamaður sem sá um að setja Gyðinga í Ungverjalandi í útrýmingarbúðir. Þessi ummæli formannsins urðu tilefni til málaferla þar sem Eyjólfi Konráð Jónssyni (Eykon) voru dæmdar miskabætur. Nú hafa dómstólar mótað þá reglu, án aðkomu Alþingis, að „opinberar persónur“ þurfa að láta mykjudreifingu af þessu tagi yfir sig ganga. Ummæli af þessu tagi dæma sig að mestu sjálf og sá sem þau flytur dæmir sig úr leik í siðuðum samfélögum.

Orkupakkaumræða

Á liðnu ári fjallaði Alþingi um þingsályktun um orkumál í tengslum við aðild að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þar sem ég hef kjörbréf upp á að vera varaalþingismaður og hafandi setið í utanríkismálanefnd Alþingis leyfði ég mér að taka þátt í umræðu um þetta málefni utan Alþingis. Þá fékk ég yfir mig í tengslum við það sem ég hafði ritað: „Ruglukollur sem enginn vildi á þing þjóðarinnar.“ Sá er þetta ritaði hefur atvinnu af því að vera formaður Landssambands lögreglumanna, Snorri Magnússon. Þetta ritaði hann skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags. Það skal upplýst að árangur minn í prófkjöri gaf þingsæti en femínísk viðhorf formanns Sjálfstæðisflokksins færðu mig niður um sæti. Þá sá ritstjóri viðskiptablaðs Morgunblaðsins ástæðu til að segja um eina grein mína „langorð lygi“, án þess að nefna hvað væri orðum aukið og hvað væri lygi. Ef það sem ritað er í viðskiptablað Morgunblaðsins er jafn léttvægt og það sem þarna var ritað, þá er það allt marklaus skrif og að engu hafandi.

Forsetablæti

Það þykir enginn maður með mönnum nema að hafa það á ferilskrá að hafa verið í forsetaframboði. Flestir þeir, sem hyggja á framboð, boða breytta stjórnskipan að sínum duttlungum. Það á að hverfa frá þingræði að forsetaræði. Forseti ákveður ekki stjórnskipan. Breyting á stjórnskipan er ákveðin á Alþingi og samþykkt aftur á nýju þingi eftir kosningar. Ellegar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Embættisfærslur forseta eru ekki skapandi starf. Þær mótast af lögum og venjum, sem leiða má af lögum. Þegar forseti hagar sér að eigin duttlungum, þá er skammt í stjórnleysi. Í aðdraganda framboða er farið að bera á orðbragði sem sæmir ekki siðuðu fólki. Það kann að vera að umræðuhefð á samfélagsmiðlum hæfi aðeins óuppdregnum dónum. Margt sem þar er sagt hæfir ekki umræðu í forsetaframboði. Sumir vilja halda „orkupakka“-umræðu síðasta árs áfram í aðdraganda forsetakosninga á þessu ári. Vonandi verður það ekki raunin.

Annesjamenn

„Og mikil sálaruppörvun er það fyrir annesjamenn að hugsa til þeirra tíma þegar þjóðin var og hét og lifði í landinu. Nú er aldrei barist á Íslandi framar nema ef ærulausir ræflar og auðnuleysingjar abbast upp á saklaust fólk í drykkjuæði.“ Margt í umræðu á samfélagsmiðlum er ótrúlegt og virðist drykkjuæði um nætur. "

Í framhaldi af þessu las ég viðtal við Bjarna Benediktsson í Mannlífi. Bjarni hefur vaxið mikið á undanförnum árum sem stjórnmálamaður og er vandfundinn hans jafningi ef litið er yfir þingsali.

Ekki er vafi á að prúðmennska hans í framkomu og orðaval á mikinn þátt í þeim yfirburðum hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á einstökum athöfnum hans eða athafnaleysi.

Hann boðar áframhald framboðs síns til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á komandi landsfundi. Ekki er auðvelt að koma auga á neinn þann sem við hann er samkeppnisfær til þess embættis.

Kosningar nálgast nú óðfluga og ekki mun Sjálfstæðisflokknum af veita að tjalda sínu besta fram. Villi Bjarna er einn þeirra sem hyggjast fara fram fyrir flokkinn í kosningum til Alþingis sem ég tel góðan kost og styð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband