Leita í fréttum mbl.is

Sitjum við eftir?

í heilbrigðisþjónustu miðað við Þýzkaland? Það verkur athygli hversu betur Þjóðverjar fara útúr veirufaraldrinum en Bretar.

Mér er sagt að það eigi orsök sína í því að fé fylgi sjúklingum  í Þýzkalandi en ekki spítölum.

Ég minnist þess frá Þýzkalandsárum mínum að þar var fullt af einkasjúkrahúsum. Klinik Ehelers, Klinik Baumann og svoleiðis nöfn koma í hugann.

Fótbrotinn Íslendingur var fluttur á einkasjúkrahús þar sem við félagarnir urðum að grafa hann upp daginn eftir slysið.

Hérlendis er stjórnarstefnan að koma sem flestum á ríkisspítala en sneiða hjá einkasjúkrahúsum eins og Klíníkinni í Ármúla. Þess í stað eru sjúklingar sem eru búnir að bíða mjög lengi eftir liðskiptum sendir til Svíþjóðar fremur en í Ármúla þó að kostnaður við það sé margfaldur.

Albert Þór Jónsson skrifar athyglisverða grein um þetta mál í Morgunblaðið í dag;

"Er hægt að ímynda sér að Ísland geti haft heilbrigðiskerfi sem geti skilað betri árangri með kostnaði sem er 75% lægri en í dag?

Þetta er raunveruleikinn í Singapúr, en lífslíkur eru 85 ár og margir læknar í Singapúr eru menntaðir í bestu læknaskólum Bandaríkjanna.

Singapúr leitar stöðugt eftir bestu og nýjustu læknismeðferðum og hátækni og hikar ekki við að fjárfesta í nýjustu tækjum og tækni til að ná sem bestum árangri. Liðskiptaaðgerðir eru til að mynda 72% ódýrari en sams konar aðgerðir í Bandaríkjunum og hjartalokuaðgerðir um 92% ódýrari.

Lyfjaverð er margfalt lægra í Singapúr vegna mikillar samkeppni. Heilbrigðisþjónusta getur verið ódýr og þannig aðgengileg fyrir alla á ásættanlegu verði. Samkeppni með öryggisneti virkar og Singapúr hefur náð frábærum árangri með aukinni samkeppni og einkaframtaki.

Íslenski heilbrigðisráðherrann ætti kannski að kynna sér árangur annarra landa sem tryggja hagsmuni skattgreiðenda og viðskiptavina heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisráðherra þarf að gera sér grein fyrir því að hann ráðstafar 30% af fjárlögum ríkissjóðs en heilbrigðisgeirann skortir reynslu og örvun sem samkeppni og einkamarkaður skila. Atlagan að Krabbameinsfélaginu, Heru líknarmeðferð og fleiri aðilum á einkamarkaði er fordæmalaus. Athafnafrelsi og lækkun skatta eykur samkeppnishæfni þjóðfélaga og hvatningu til góðra verka.

Rekstrarform á einkamarkaði eru nauðsynlegur valkostur

Á 21. öldinni er Ísland enn að ríkisvæða heilbrigðiskerfið, menntakerfið, fjármálakerfið og fjölmiðla þrátt fyrir að draumur kommúnistaríkjanna sé í flestum tilfellum orðinn að martröð fyrir löngu.

Í öðrum norrænum ríkjum hafa rekstrarform á einkamarkaði veitt opinberum rekstri verulegt aðhald til að efla samkeppni og auka samkeppnishæfni. Að öðrum kosti mun kostnaður aukast, framleiðni minnka og skattgreiðendur sitja uppi með afleiðingarnar.

Mikilvægt er að Íslendingar hafi val um hvort þeir notfæri sér heilbrigðisþjónustu í opinbera kerfinu eða á einkamarkaði. Samkeppni eykur framleiðni og leiðtogafærni og sparar ríkissjóði mikla fjármuni.

Liðskiptaaðgerðir í Svíþjóð, langir biðlistar og sjúklingar geymdir á bráðadeildum spítala eru dæmi um óreiðuna. Skortur á hjúkrunarheimilum, heimaþjónustu, forvörnum og heilbrigðri skynsemi hefur aukið verulega á vandann og raunveruleikinn er nú þegar orðinn að martröð fyrir marga landsmenn.

Aukin ríkisvæðing og miðstýring að hætti þeirra sem aðhyllast miðstýringu og sóun fjármuna hafa tekið yfir heilbrigðismálin á Íslandi og afleiðingarnar lenda á skattgreiðendum sem þurfa að borga brúsann.

Í íslenskri heilbrigðisþjónustu er margt framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólk en slök stjórnun, framtíðarsýn og stefnumörkun hefur breyst í martröð fyrir marga sem vilja nýta þjónustu íslenska heilbrigðiskerfisins.

Nú þegar þarf að lágmarka skaðann af ríkisvæðingu íslenska heilbrigðiskerfisins. Flestir landsmenn með heilbrigða skynsemi sjá að raunveruleiki hins venjulega Íslendings er að breytast í martröð þrátt fyrir að allt að 30% ríkisútgjalda fari til heilbrigðismála skv. fjárlagafrumvarpi og um 730 þús. kr. á mann árið 2020.

Mikilvægt er að auka samkeppni með rekstrarformi á einkamarkaði sem veitir aðhald og gerir þannig kröfu til opinbers rekstrar. Einnig þarf að gera ráð fyrir nýjum rekstrarformum þannig að biðlistar hverfi og þjónusta sé samanburðarhæf öðrum Norðurlandaríkjum.

Heilbrigðiskerfið virðist vera í heljargreipum ráðherra, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna og lítið virðist komast í framkvæmd.

Skynsamlegt væri að líta til uppbyggingar hjá vinaþjóðum okkar á Norðurlöndum á sínum heilbrigðiskerfum, sem eru með þeim fremstu í heimi.

Hrinda þarf atlögu heilbrigðisráðherra að íslensku heilbrigðiskerfi með breyttri stefnumörkun og framtíðarsýn sem tekur mið af viðskiptavinum þess, sem eru íslenskir skattgreiðendur."

Hér er kveðið skýrt að.

Af hverju gengur þetta svona fyrir sig ár eftir ár? Eru eingöngu gömul sovésk hagfræðiviðhorf ráðandi í ríkisstjórn Íslands? Hefur enginn ráðherra aðrar skoðanir en VG hefur um aukna ríkisvæðingu? Mætti ekki gera smávegis  tilraunir sem gætu mögulega stytt biðlistana eftir liðskiptum þó ekki væri annað?

Undirritaður hefur átt mikil við skipti við Landspítalann á undanförnum árum. Þar hefur hann fengið úrvals umönnun og mætt því besta viðmóti sem hann gæti hugsað sér.

Skyldi hugsunin vera sú að einhverjir aðrir þegnar landsins gætu fengið verra viðmót en undirritaður ef fleiri þjónustuaðilar kæmu að? Það er hugsanlegt.

En megum við alhæfa með þessum hætti og bera saman Karolínska og Ármúla?

Er mögulegt að við séum að sitja eftir í heilbrigðisþjónustu ef við horfum til Singapúr sem Albert Þór greinir frá?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 61
  • Frá upphafi: 3418280

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband