Leita í fréttum mbl.is

Við viljum Villa !

á þing. Vilhjálmur Bjarnason fyrrum lektor undirstrikar enn á ný víðsýni sína og víðtæka reynslu af lífinu og fjölbreyttri atvinnuþátttöku sinni skrifar í Mogga dagsins.

Mér finnst ekki úr vegi að taka þetta upp þar sem manni er sagt að æ færri lesi blöð sér til gagns og að hlutur Mogga sé ekki sá sami og var.Þeir fáu sérvitringar sem heimsækja þetta blogg reka kannski augun í þetta og þá er vel  þar sem Mogginn borgar kostnaðinn af bloggsíðunni.

En Villi segir:

 

"Sá er þetta ritar hefur fylgst með atvinnulífi í sem næst 60 ár. Einhverjum kann að þykja það mörg ár miðað við aldur. Svo bar til þá er ég var 9 ára gamall að ég var sendur í sveit í bæ. Þar voru himinn og fjöll öðruvísi en í Reykjavík. Frjálst framtak, sem ég sá í Reykjavík, var reykhús í Klömbrum á Klambratúni og síðar kartöflurækt í Kringlumýri, þar sem nú er Kringlan.

Nýr himinn og ný fjöll

Hinn nýi himinn og nýju fjöll voru austur á Djúpavogi við Berufjörð. Atvinnulíf byggðist á sjávarútvegi. Þar var Kaupfélag með frystihús og tvo báta, og fjórir bátar hjá frjálsu framtaki skipstjóra og fjölskyldum þeirra. Svo voru nokkrir, sem gerðu út vörubíla. Sumardvalirnar urðu þrjár og á síðasta sumrinu var söltuð síld, og reyndar sú fjórða á bæ á Berufjarðarströnd. Ári áður hafði ég saltað síld undir enn öðrum himni við önnur fjöll í Neskaupstað. Það var launuð vinna á Mánaplaninu og þar fékk ég greiddar 39 krónur fyrir eina tunnu saltaða. Söltunarstöðin Máni var frjálst framtak í návist Síldarvinnslunnar, sem ekki hafði byrjað sína stórútgerð. Daginn eftir fermingu mína, tveimur dögum fyrir fjórtán ára afmælisdaginn, hóf ég launaða vinnu hjá menningarfélagi hins frjálsa framtaks, Almenna bókafélaginu. Ég hef verið í launuðu starfi hjá smákapítalistum og ríkisstofnunum í full 55 ár.

Hverjir eru smákapítalistar?

Sennilega er ekkert hugtak jafn útjaskað og afflutt og kapítalismi, eða auðhyggja, ef reynt er að færa hugtakið á íslensku. Í bók eftir þýska fræðimanninn Max Weber fjallar hann um „Auðhyggju og siðfræði mótmælenda“. Meginboðskapur Max Weber fjallaði um iðjusemi og sparsemi mótmælenda, sérstaklega kalvínista. Með gildum rökum má heimfæra rök Max Weber um auðhyggju, iðjusemi og sparsemi til viðhorfa sósíalista í Neskaupstað, sem stofnuðu og ráku Síldarvinnsluna. Það má einnig heimfæra rök Max Weber til viðhorfa sr. Friðriks Friðrikssonar í starfsemi KFUM&K. Iðjusemi og sparsemi er forsenda auðhyggju og frjáls sparnaðar. Mammon kemur fyrst við sögu í græðgi og undirferli. Þá er fjandinn laus.

Viðhorf auðhyggumanna

Viðhorf atvinnurekenda á Akranesi og í Bolungarvík voru svipuð og viðhorf sósíalista í Neskaupstað. Það mátti engin vinnufús hönd vera án atvinnu. Á öllum þessum stöðum, hvort heldur Akranesi og Bolungarvík þar sem einstaklingar höfðu forystu í atvinnulífi, eða á Djúpavogi þar sem samvinnuhreyfingin hafði forystu í atvinnulífi, eða í Neskaupstað þar sem sósíalistar höfðu forystu í atvinnulífi, allir virðast undir áhrifum Max Weber, vitandi eða óafvitandi. Á öllum þessum stöðum voru einyrkjar og smáatvinnurekendur með atvinnurekstur, sem sinntu nauðsynlegri starfsemi fyrir samfélagið.

Reynslan frá Vestmannaeyjum

Umfangsmest reynsla mín af atvinnulífi er í starfi mínu í Útvegsbankanum í Vestmannaeyjum. Veganesti mitt til þess starfa frá bankastjóranum í Reykjavík, að því er ég taldi sósíalista; var „ekki rífa kjaft við kallana í Vestmannaeyjum því þar eru þeir miklir menn“. Í Vestmannaeyjum voru þrjú stór frystihús, átta loðnubátar og fjórir togarar, sem fjölgaði í sjö, og fjöldi minni báta. Eigendur nokkurra loðnubáta og minni bátanna voru skipstjórar, smáatvinnurekendur, sem létu sér annt um sinn atvinnurekstur og ekki síður sinn mannskap, og rétt eins og sr. Friðrik, höfðu umhyggju fyrir sínu fólki. Auk útgerðarmanna var fjöldi smáatvinnurekenda, sem ráku margs konar þjónustustarfsemi, til að veita bæjarbúum og atvinnulífi þjónustu. Mér hefur alltaf verið mjög hlýtt til þeirrar þjónustu, sem netagerðir veita útgerðarfyrirtækjum. Enginn veiðir fisk án veiðarfæra.

Breytingar í kjölfar breyttrar fiskveiðistjórnunar

Þegar stjórnvöld töldu rétt og eðlilegt að takmarka sókn í fiskistofna, var aflahlutdeild úthlutað til bráðabirgða á grundvelli veiðireynslu. Sú úthlutun á aflaheimildum átti aldrei að verða varanleg eða grundvöllur eignarheimildar. Samþjöppun er aldrei hægt að réttlæta með hagkvæmni einni saman. Það kann að draga úr hagkvæmni með eðlilegri gjaldtöku. Þá færist arður af auðlind til samfélagsins. Það er vissulega arður til samfélagsins að ekki þarf að fella gengi vegna aflabrests eða verðfalls. Það er alveg ljóst að löggjafinn hefur allar heimildir til að endurúthluta eða taka leigu af aflaheimildum á grundvelli löggjafar. Til þess þarf ekki heimild í stjórnarskrár.

Samþjöppun og fækkun smákapítalista

Á þeim 35 árum, sem liðin eru frá úthlutun aflaheimilda, hefur ein stétt horfið. Það eru smákapítalistarnir, nema ef til vill trillukarlarnir, sem stunda strandveiðar. Að því var aldrei stefnt. Hvergi er hið frjálsa framtak eins augljóst og í eðli og innræti trillukarlsins. Enda sagði einn samherji íslenskra trillukarla, sem jafnframt var bóndi en dæmdur og húðstrýktur fyrir snærisþjófnað, Jón Hreggviðsson bóndi á Rein, „mér er samahvort ég er sekur eða saklaus, ég vil aðeins hafa bátinn minn í friði“. Með bátnum og snærinu öðlaðist Jón Hreggviðsson sjálfstæði til að verða mikill maður. Mun það skaða íslenska fiskistofna ef trillukörlum er heimilt að stunda veiðar umhverfis Ísland? Vissulega er það fiskur af grunnsævi, en það má ná orminum úr holdinu. Margir háskólanemar hafa komist hjá námslánum með því að vera trillukarlar og trillukonur að sumri. Á Suðurnesjum hafa aflaheimildir flust í burtu. Með því hafa atvinnuhættir breyst. Suðurnes er þjónustusamfélag. Það er mikill fjöldi smákapítalista og einyrkja, sem veita flugtengdri starfsemi ferðaþjónustu sína þjónustu.

Breytingar í Reykjavík

Það er í raun allra eðlilegasti hlutur að atvinnuhættir breytast. Reykjavík hefur breyst úr framleiðslusamfélagi í þjónustusamfélag. Eitt sinn voru 25 togarar gerðir út frá Reykjavík. Þeir öfluðu fyrir fimm stór frystihús. Þau eru öll horfin. Framleiðniaukning í framleiðslusamfélagi krefst aðfanga úr þjónustusamfélagi. Atvinnuleysi hefur ekki aukist og lífskjör hafa ekki versnað við að reykhús hefur lokað á Klambratúni og kartöflurækt er horfin úr Kringlumýri.

Hefur Sjálfstæðisflokkurinn gleymt trillukörlum?

Það er álitamál hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefur gleymt sínu traustasta stuðningsfólki.

Frelsi og framtak í atvinnumálum er ekki aðeins fyrir útvalda.

En eins og skáldið sagði:

Og

margir

vinna mikið

og lengi að því

að mega loks vera

að því

að vera

(Andræði, Sigfús Bjartmarsson)"

 

Vilhjálmur Bjarnason fyrrum lektor við Háskóla Íslands var Alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í áravís. Hann tók þátt í prófkjöri flokksins og lenti í öruggu sæti.Fyrir aðför formanns flokksins að úrslitum prófkjörsins samkvæmt reglum flokksins og Kjördæmisráði fékk formaður því framgegnt að Vilii var lækkaður niður um sæti til að leiðrétta kynjahalla listans.Við sætinu tók Bryndís Haraldsdóttir úr Mosfellsbæ. Hún hefur auðvitað ekkert staðið sig illa sem glæsileg kona vel gerð til munns og handa.En hvort þessi aðferð formanns breytti einhverju um fylgi Sjálfstæðisflokksins á eftir að koma í ljós.

Vilhjálmur, eða Villi Bjarna eins og þjóðin kallar hann dregur enga dul á það að hann ætlar sér í framboð aftur. 68 ára fer hann að  nálgast lágmarksaldur sem menn þurfa til að bjóða sig fram í Forsetaembætti Bandaríkjanna.En það má víst ekki ræða hérlendis þar sem sem flestir eiga að vera á framfærslu og kjósa Samfylkingarflokkanna sem vilja gera allt fyrir alla. Og sérdeilis  Trump skyldi nú vinna verður jarmið háværara í Ingu Snæland sem vill útrýma fátækt hjá öllum sem höllum fæti standa.

Villi er ekki frá því að kosið verði í vor frekar en í haust þannig að hann er til alls vís. Eitt er víst að ég tel Villa eiga fullt erindi inn í þingmannahópinn og tel að það muni ekki lækka þá greindarvísitölu sem þar er að finna eftir að fylgjast talsvert með ræðum Pírata  á þeim ágæta stað í sjónvarpinu.

Hugmynd að slagorði fyrir kosningarnar:

Við viljum Villa!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 3418260

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband