Leita í fréttum mbl.is

Ég er hnugginn

að lesa greinar eftir fyrrum formann minn og leiðtoga í Sjálfstæðisflokknum Þorstein Pálsson þar sem hann boðar afnám fullveldis Íslands með inngöngu í hið deyjandi Evrópusamband.

Í dag skrifar hann enn einn pistilinn í hið deyjandi Fréttablað sem er að draga skipulega úr útgáfu sinni. Enda er blaðið að mínu viti mest lítt spennandi og stórskuldugt auglýsingablað.

En Þorsteinn skrifar í dag:

"Ísland er í hópi þeirra ríkja í Evrópu, sem Brexit hefur mest neikvæð áhrif á. Þau koma víða fram og styrkja hugmyndir um fulla aðild Íslands að Evrópusambandinu. Bretar og Evrópusambandið gera nú úrslitatilraun til að semja. Eigið mat breskra stjórnvalda bendir til þess að fari landið samningslaust út gæti hagvöxtur á næstu árum orðið allt að átta prósent minni en með aðild. Með hagstæðustu fríverslunarsamningum minnkuðu þessi neikvæðu áhrif niður í fimm prósent.

Þurfum að vinna upp meira af tapinu

Íslensk stjórnvöld hafa ekki birt mat af þessu tagi. Þó að neikvæð áhrif á Ísland verði ekki til jafns við þessar tölur verða þau umtalsverð. Það þýðir að fríverslunarsamningur Breta við EFTA-ríkin getur aðeins deyft neikvæð áhrif úrsagnarinnar en ekki eytt þeim. Með fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði aftur á móti unnt að vinna upp meira af tapinu. Það lýsir ekki hyggindum að loka augunum fyrir þeim möguleika nú þegar brýnt er að íslenskt atvinnulíf hlaupi hraðar.

Áhrif fiskveiðideilu Breta og ESB

Einstaka andstæðingar fullrar aðildar að Evrópusambandinu halda því fram að deilur þess við Breta um fiskveiðar eftir Brexit sýni að Ísland yrði að fórna fiskveiðiréttindum ef það lokaskref yrði stigið. Þessi staðhæfing er annaðhvort útúrsnúningur eða misskilningur.

Deila Breta og Evrópusambandsins snýst fyrst og fremst um skiptingu á sameiginlegum stofnum. Samkvæmt hafréttarsáttmálanum ber þeim að semja um skiptingu á þeim. Evrópusambandið vill miða við veiðireynslu eins og reglur þess gera ráð fyrir. En Bretar vilja aftur á móti semja miðað við dreifingu einstakra fiskistofna. Röksemdir beggja eiga sér stoð í hafréttarsáttmálanum.

Á Íslandsmiðum eru ekki sameiginlegir stofnar með Evrópusambandinu. Engin Evrópusambandslönd eiga veiðireynslu hér síðastliðin þrjátíu ár. Aðildarríkin geta því hvorki samkvæmt hafréttarsáttmálanum né reglum sambandsins gert kröfur um veiðar.

Með fullri aðild kæmu því engin evrópsk skip til veiða á Íslandsmiðum. Enga sérsamninga eða undantekningar þyrfti til að tryggja það.

Ísland og ESB sömu megin gagnvart Bretum

Um áramótin fær breska stjórnin það hlutverk, í stað Evrópusambandsins, að semja fyrir skoskar útgerðir um makrílveiðar. Fram til þessa hafa norskar og skoskar útgerðir staðið fastast gegn aðild Íslands að samningum um makríl. Íslenskar útgerðir hafa öðlast mikla veiðireynslu í makríl. Hún mun vega þungt í samningum við nýjan viðsemjanda. Evrópusambandið notar einnig veiðireynslurökin í viðræðum við Breta vegna danskra makrílútgerða.

Ef Ísland ætti fulla aðild að Evrópusambandinu myndi það sækja rétt íslenskra útgerða til makrílveiða gagnvart Bretum og Norðmönnum af fullum þunga allra aðildarríkjanna. Það myndi fremur styrkja okkur en veikja.

Full aðild betri en fríverslunarsamningar

Í bráðabirgða fríverslunarsamningi við Breta vegna Brexit er gert ráð fyrir svipuðum viðskiptum með landbúnaðarafurðir og áður. Með óbreyttum samningi við Evrópusambandið er þetta nokkur rýmkun og allt bendir til að lengra verði gengið í lokasamningi. Þetta sýnir að einangrun er ekki í boði.

En bændur hafa lýst áhyggjum. Þær eru skiljanlegar. Breytingar af þessu tagi kalla óhjákvæmilega á nýja hugsun í landbúnaðar- og byggðamálum af hálfu stjórnvalda. En á henni bólar ekki. Frjáls viðskipti eru gagnkvæm. Þau opna tækifæri ef rétt er á málum haldið. Kannski eru það þessir útflutningsmöguleikar, sem ríkisstjórnin átti við þegar hún talaði um stórkostleg tækifæri, sem fylgdu Brexit.

En trúlega yrði full aðild að Evrópusambandinu hagstæðari fyrir bændur. Til að mynda gætu hugsanlega opnast þar lambakjötsmarkaðir, sem breskir bændur óttast nú að séu þeim tapaðir, ef ekki semst. Jafnframt er stuðningur sambandsins við bændur mjög öflugur. Enginn slíkur ytri stuðningur fylgir samningum um fríverslun.

Alhliða byggðastefna Evrópusambandsins hefur einnig reynst mjög áhrifarík. Stuðningskerfi af því tagi finnast hins vegar ekki í fríverslunarsamningum."

Ekki veit ég hversu margir lesa þessi skrif Þorsteins. Þaðan af síður veit ég ekki hversu margir eru honum sammála.

En röksemdafærslur hans um velvilja ESB gagnvart íslenskum auðlindum og því að engir sameiginlegir fiskistofnar  tryggi okkur Íslandsmið, eru byggðar á hæpnum forsendum.Ennfremur fyrirheit hans um kosti þess fyrir íslenskan landbúnað að selja meira lambakjöt inn á Evrópu. 

Er Þorsteinn búinn að gleyma landhelgisstríðunum þar sem afli var beitt gegn Íslandi? Er þorstofninn í Atlantshafi ekki víðar en við Ísland? Síldin og loðnan? Hvalirnir?

Hann viðurkennir að ESB er tollabandalag gagnvart umheiminum og hann vill koma Íslandi í þá stöðu að njóta slíkrar verndar gegn umheiminum eins og til dæmis Bretlandi og Bandaríkjunum. Þvert á grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins hans fyrrverandi, sem lagði áherslu á verslunarfrelsi við allan stóra heiminn utan tollabandalags hinna 27 ríkja í ESB.

Ég verð hnugginn að lesa þennan stöðuga áróður fyrrum formanns míns og leiðtoga fyrir fullveldisafsali landsins okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég hef alltaf viljað trúa því að Þorsteinn Pálsson sé sæmilega skynsamur maður.  En eftir að hafa lesið grein hans í Fréttablaðinu í dag runnu á mig tvær grímur, varðandi skynsemina hjá honum.  Sérstaklega stoppaði ég við það þegar hann sagði að deila ESB og Breta um fiskveiðar væri gjörólík því hvernig ESB myndi "höndla" sjávarútvegsmál Íslands.  Deilan milli ESB og Breta snerist um "sameiginlega fiskistofna", en svo væri EKKI Ísland því Ísland og ESB ættu ENGA "sameiginlega fiskistofna" (hvernig er þá með loðnuna, makrílinn og fleira?).  Ég hef alltaf litið svo á að landhelgi (Efnahagslögsaga) væri landhelgi hvað sem liði einhverjum sameiginlegum fiskistofnum.  Í dag beið álit mitt á Þorsteini Pálssyni mikla hnekki......

Jóhann Elíasson, 29.10.2020 kl. 14:34

2 identicon

"Með fullri aðild kæmu því engin evrópsk skip til veiða á Íslandsmiðum." segir Þorsteinn. Af hverju slitnaðu þá viðræðurinar um inngöngu okkar þegar kom að kaflanum um fiskveiðar? Af hverju kemur það hvergi fram?

Örn Johnson (IP-tala skráð) 29.10.2020 kl. 16:53

3 Smámynd: Kristmann Magnússon

ESB já 

Kristmann Magnússon, 29.10.2020 kl. 20:19

4 identicon

Skrítin öll þessi fyrirbæri sem afturhaldsseggirnir hafa í áratugi sagt vera deyjandi en eru sterkari í dag en nokkurntíman áður.

Vagn (IP-tala skráð) 29.10.2020 kl. 21:27

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Hvort er Vagn að tala um Fréttablaðið eða ESB? Mér finnst ESB ekki vera að styrkjast mikið þessa dagana.

Já Mannsi Cand-ÍS, hvað heldurðu að Ísak hefði sagt við þessu hjá þér?

Örn, góður púnktur.

Jóhann, sammála um landhelgina. ESB virðist ekki vilja að Bretar ráði sinni landhwelgi.

Halldór Jónsson, 29.10.2020 kl. 21:52

6 identicon

Það ætti að gera opinbera embættismenn og ALÞINGISmenn "útlæga" frá störfum, sem boða "harmleik" Evrópu fyrir ÍSLAND.

Covid og lyf lækna að lokum veiruna frá Kína, en við sitjum áfram með stjórn og getuleysi Evrópu varðandi hælisleitendur og stríðsyfirlýsingar innflytjenda, sem nú vilja breyta Evrópu og Norðurlöndum. 300 þúsund ÍSLENDINGAR eiga að halda sér frá þessari óværu og KJÓSA á landsvísu um ESBaðildina? Þetta er auðvelt fyrir eyjuna ÍSLAND norður í höfum og 200 mílna landhelgina.

Þorsteinn tapaði fyrir DAVÍÐ, sem voru góð skipti fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

GÍSLI HOLGERSSON (IP-tala skráð) 29.10.2020 kl. 22:31

7 identicon

Þarna liggur hugsanlega skýringin af hverju sjálstæðisflokkurinn er orðin vinstri flokkur. Fyrrverandi formaður og varaformaður eru harðir vinstri menn. Það eru fleiri þungavigtarmenn innan SF eins og Björn Bjarna og Styrmir sem eru orðnir mjög smitaðir.

Vinstri stefnan lítur út eins og bráðsmitandi vírus og örugglega mun hættulegri en corona vírusinn.

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 31.10.2020 kl. 07:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 3418219

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband