Leita í fréttum mbl.is

Fyrir flokkinn minn

er frábær grein Brynjars Níelssonar um Sjálfstæðisflokkinn. Þær eru ekki margar greinarnar sem eru skrifaðar til varnar fyrir þennan níræða flokk sem hefur staðið við skuldbindingar sínar frá stofndegi og aldrei breytt stafkrók í upprunalegri stefnuskrá. 

Alltaf hafa risið upp sérsinnar og heimtað brotthvarf frá sjálfstæðistefnunni. Nú síðast Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Pálsson með stofnun Viðreisnar sem hefur það eitt að markmiði að afsala fullveldi landsins og ganga erlendu tollabandalagi Evrópu á hönd. 

Tilefni greinar Brynjars eru úrtöluskrif Friðjóns R. Friðjónssonar sem ekki er alveg ljóst fyrir mér hvort er hrár eða soðinn í fylgismennsku sinni við sjálfstæðishugsjónina frá 1929.

Allavega sér Brynjar ástæðu til að að rifja upp eitt og annað Friðjóni til skýringar.

Brynjar skrifar:

"Hinn ágæti sjálfstæðismaður, Friðjón R. Friðjónsson, skrifar grein í Morgunblaðið á fimmtudaginn var þar sem hann lýsir nokkrum áhyggjum yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins í nútímanum.

Sjálfur hef ég nokkrar áhyggjur af stöðu flokksins en þó miklu meiri áhyggjur af stöðu annarra stjórnmálaflokka, sem óljóst er fyrir hvaða gildi standa og hafa enga stefnu nema vera skyldi hentistefnu í tilraunum sínum til að kallast nútímalegir.

Ég tek fyllilega undir með Friðjóni að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft í gegnum tíðina styrk til að standa í fæturna gegn lýðskrumi og upphlaupum.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sterkur og ráðandi afl í stjórnmálum hefur íslenskt samfélag tekið miklum stakkaskiptum, brotist úr örbirgð í öflugt og samkeppnishæft samfélag.

Það gerðist ekki af sjálfu sér heldur vegna þess að fólkið í landinu, úr öllum stéttum, hafði trú á stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Á þeirri vegferð voru öfl sem vildu róttækar og „nútímalegar“ breytingar á samfélaginu, bæði innan stjórnmálanna og samtaka launafólks.

Erfitt er að átta sig á hvað Friðjóni gengur til þegar hann gefur í skyn í greininni að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum á efnahagslífinu, sjávarútveginum, landbúnaðarkerfinu, orkumálum, stjórnarskránni og samfélaginu sjálfu og flokkinn muni daga uppi og verða að steintrölli með sama áframhaldi.

Hefði ekki komið mér á óvart að þessi grein hefði verið skrifuð í þingflokksherbergi Viðreisnar.

Friðjón notar alla sömu frasana sem þaðan koma án þess að segja nokkuð um hverju eigi að breyta og hvernig eða af hverju. En eitt er víst, að skrif hans endurspegla djúpstæða óánægju með forystu Sjálfstæðisflokksins.

Rifja má upp fyrir Friðjóni að efnahagslífið hefur tekið miklum breytingum á mínu æviskeiði, ekki síst á undanförnum átta árum sem ég hef setið á þingi.

Umskiptunum í sjávarútvegi og landbúnaði má líkja við byltingu. Þar hefur orðið mikil hagræðing, sem hefur byggst á útsjónarsemi, dugnaði og hugviti.

Skipulag sjávarútvegsins er fyrirmynd annarra þjóða enda hefur okkur Íslendingum tekist sem fáum öðrum þjóðum hefur auðnast; að reka ekki aðeins sjálfbæran sjávarútveg heldur einnig arðbæran. Sá tími er sem betur fer löngu að baki þegar sjávarútvegur var líkt og þurfalingur á framfæri ríkis og sveitarsjóða.

Ef Friðjón telur það gagnlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að kollvarpa fiskveiðistjórnunarkerfinu til að mæta kröfum „nútímans“ er hann á villigötum. Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki eru lykilatriði í okkar mikilvægustu atvinnugrein.

Ómögulegt er að átta sig á hvert Friðjón er að fara þegar hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum í orkumálum. Við værum yfirhöfuð ekkert að tala um raforkumál ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki til.

Hann hefur nánast staðið einn fyrir því að auðlindir séu nýttar til raforkuframleiðslu með skynsamlegum hætti og samhliða því að byggja upp öflugt og öruggt flutningskerfi raforku. Við værum ekki að tala um orkuskipti og græna framleiðslu ef ekki væri fyrir framsýni sjálfstæðismanna. Í því felst framtíðin, alveg óháð „nútímahyggju“ Friðjóns.

Svo má benda Friðjóni á að stjórnarskránni, þótt ung sé að árum, hefur verið breytt og þær veigamestu undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Stjórnarskrár eru hins vegar þess eðlis að óæskilegt er að þær taki tíðum breytingum og allra síst róttækum breytingum á stjórnskipan landsins af því að einhverjum kann að þykja það nútímalegt. Sjálfstæðisflokkurinn er óhræddur við breytingar, nú sem fyrr, enda aflvaki breytinga og þróunar.

Hann er hins vegar ekki flokkur breytinga breytinganna vegna. Hann vill varðveita góð gildi í mannlegu samfélagi og á sama tíma auka frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Það eru forsendur breytinga og þróunar hvers samfélags til að geta staðist harða samkeppni við aðra.

Sjálfsagt er enginn stjórnmálaflokkur eilífur. Stundum hverfa þeir af vettvangi vegna þess að stefnan og gildin sem flokkurinn stendur fyrir höfða ekki til almennings. Það á örugglega ekki við Sjálfstæðisflokkinn.

Hins vegar er það vel þekkt að flokka dagi uppi stundi þeir tækisfærismennsku og hentistefnu í stað þess fylgja stefnu sinni og tali fyrir þeim gildum sem flokkurinn stendur fyrir.

Það gætu orðið örlög Sjálfstæðisflokksins ef farið yrði að ráðum Friðjóns R. Friðjónssonar. Þá getum við velt fyrir okkur hverjir verða steintröll og hverjir ekki."

Þetta er sannleikurinn um sögu Sjálfstæðisflokksins hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Þjóðinni hefur vegnað vel þegar flokkurinn hefur haft áhrif en verr  þegar tekist hefur að villa um fyrir kjósendum með niðurrifsmálflutningi eins og Viðreisn stundar og birtist í skrifum manns eins og Friðjóns.

Sjálfstæðisstefnan frá 1929 er einföld í sniðum í tveimur hlutum.

Sá fyrri er að flokkurinn ætlar að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli atvinnufrelsis og einstaklingsfrelsis með hagmuni allra stétta fyrir augum.

Hinn seinni felst í nafni flokksins.

Það gefur auga leið að flokkurinn mun aldrei vilja selja sjálfstæði landsins í hendur yfirþjóðlegra afla eins og Viðreisn vill gera og fleiri flokkar.Hann stendur fyrir frelsi til orðs og æðis og samhjálp allra stétta að því markmiði.

Það er auðskilið hversvegna þessi hugsjón höfðar sögulega til svo margra fleiri en fylla skyndiflokka töfralausna sem ætið fara með himinskautum í skvaldri og slagorðaflaumi.

 

 

Brynjar á mínar þakkir fyrir skellegg skrif fyrir flokkinn minn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Orkupakkar ESB. Tharf eg ad segja meira. Oanaegja hins almenna flokksmanns beinist ad nuverandi forystu, ekki stefnu Sjalfstaedisflokksins.

Godar stundir, med kvedju ad sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.1.2021 kl. 20:53

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Halldór

Það er rétt að stefna flokksins hefur lítið breyst frá stofnun enda með þeim ágætum að litlu þarf þar að breyta. Hitt er annað mál að oftar en ekki hefur reynst erfitt að fá þá sem með völd fara í flokknum, að feta þá línu sem stefnan boðar.

Þorgerður Katrín, Þorsteinn Pálson og fleiri úr yfirstétt flokksins gátu ekki sætt sig við þessa stefnu og yfirgáfu hann. Stofnuðu nýjan stjórnmálaflokk. Það var gott hjá þeim, enda á maður ekki að binda sig á klafa sem maður er ósáttur við. Þessu réði einkum eitt málefni, hvort halda ætti uppi vörn fyrir sjálfstæði þjóðarinnar eða hvort "deila" ætti því með ríkjum ESB.

Því miður höfðu ekki allir innan flokksins, sem voru og eru á sömu línu og stofnendur Viðreisnar, kjark til að fylgja þeim burtu. Sennilega talið skjólið of gott. Þar má telja núverandi forustu flokksins, þó kannski sérstaklega formanninn. Einnig má telja Guðlaug Þór þar á meðal, ásamt fjölda annarra minna metinna manna innan flokksins, s.s. Friðjón R Friðjónsson. Allt þetta fólk er í sjálfu sér sammála stofnendum Viðreisnar um hvernig skal með sjálfstæði þjóðarinnar farið. Þetta hefur margoft opinberast. Risastór málefni sem varða sjálfstæði okkar, Icesave málið, Orkupakkamálið og fleiri, sem vega beinlínis að sjálfstæði Íslands, hafa verið afgreidd af þessu fólki á þann veg að það á mun betur heima innan Viðreisnar en Sjálfstæðisflokks.

Ég tek undir með nafna þínum, hér fyrir ofan, það er ekki stefna flokksins sem deilt er um, heldur hvernig staðið er vörð við þá stefnu. Í því liggur flótti kjósenda frá flokknum, þessum flokki sem bar höfuð og herðar yfir alla aðra stjórnmálaflokka landsins frá stofnun og allt fram á þessa öld. Búið er að fæla hina og þessa hagsmunhópa frá flokknum. Launþegar, aldraðir og fleiri hópar áttu sitt skjól innan flokksins. Það skjól hefur verið upprætt. Ekki vegna þess að stefna flokksins hafi breyst, heldur vegna þess að forusta flokksins heykist á að fylgja þeirri stefnu.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 31.1.2021 kl. 08:11

3 identicon

Brynjar Nielsson er maður, sem þekkir XD til 90 ára. Er Friðjón ekki maðurinn, sem "hamaðist" á TRUMP í viðtali við RUV í USA. Ég taldi hann vera demokrata?

Ég bið þess, að leiðtogar og þjóðernissinnaðir berjist fyrir ÍSLAND á Alþingi. Alþjóðasinnar og Glóbalistar gera ekkert fyrir fámenni okkar nema ógna okkar sjálfstæði og kaupa upp landið okkar, orkuna og laxveiðiár auk miljarða, sem við greiðum fyrir að fylgja gagnleysi þeirra. 

Við getum allt og kunnum allt með ómengaðar útflutnings-vörur, sem heimurinn þekkir.

Förum ekki eftir reglum ESBsinna og Evrópu. Þar er öngþveyti.

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 31.1.2021 kl. 11:50

4 Smámynd: Loncexter

Vel mælt Gísli.

Loncexter, 31.1.2021 kl. 14:12

5 identicon

Allt þetta hef ég ítrekað bent á:

Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Bjarna og ungfrúnna Sigurbjörnsdóttur og Reykdals og Gulla, er fyrir löngu orðinn að afar ESB sinnuðum flokki.

Það fólk, ásamt Friðjóni, hefur markvisst sinnt því moldvörpustarfi að ræna flokknum innan frá.

Meðan svo heldur fram, er sjálfstæðismönnum einungis tveir kostir færir, að losa sig við ESB forystulið flokksins, eða sprengja flokkinn og ganga til liðs við sveit Sigmundar Davíðs.

Svo einfalt er valið.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 31.1.2021 kl. 14:13

6 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Kæri Halldór ertu búinn að gleyma??? hvernig gaf Sjálfstæðisflokkurinn eftir undir núverandi stjórn í Icesave málinu??? þeir guggnuðu. Og það þurfti fyrrum Alþýðubandalagsmann, forseta vorn, til að taka í taumana og fela fólkinu í landinu valdið í því máli.

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn langt frá því sem hann var stofnaður til að vera og er ekkert sjálfstæði þar að finna nema hjá forustunni einni. Þetta segi ég með hryggð í hjarta því ég var gallharður Sjálfstæðismaður frá 16 ára aldri fram að því er BB og félagar sviku flokk og þjóð, en þá sagði ég mig úr flokknum og hef ekki séð ástæðu til að snúa aftur.

Tómas Ibsen Halldórsson, 31.1.2021 kl. 14:22

7 identicon

Eins og menn sem fylgjast vel með fréttum, þá hefur það nú komið fram að forysta flokksins fagnar mjög orðum Friðjóns, að hans eigin sögn.

Allir þekkja tengsl Friðjóns við Bjarna og aðra ESB sinna forystunnar.  Hann leggur forystunni línurnar um framsalsákvæði í stjórnarskrá, Orkupakkasamþykktir.  Allt er lýtur að niðurbroti grunngilda flokksins.  

Við sjálfstæðismenn fögnum hins vegar andsvörum Brynjars.  En forystan hefur aldrei metið Brynjar eins né neins.  Það skulu allir sjálfstæðismenn muna.  Og það hverjum er hyglað, en öðrum ekki.  

Ég vil taka undir grein Brynjars, pistil þinn Halldór og góðar athugasemdir gesta þinna.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 31.1.2021 kl. 19:42

8 identicon

ÍSLANDI gekk best fyrir 50-70 árum, þegar við tókum sjálfir ákvarðanir í stórmálum innan og utanlands. Við samþykktum veru hersins með skilyrðum og Keflavíkurflugvöllur var byggður með tækjum og tólum og kostaður af AMERIKU. Síðar gaf Amerika okkur flugvöllinn með tækjum og tólum. Hernámsandstæðingar fóru í mótmælagöngu einu sinni á ári og mótmæltu hernum og báru mótmælaskilti og drukku KókaKóla sér til hressingar. 

Hér voru engir hælisleitendur, en við gáfum þeim og sendum lýsi, skreyð, vatn og hugvit til þeirra heimalanda í Afriku og til austur Evrópu. Við vorum glaðir með gjafirnar, sem voru sendar 1-2svar á ári.

Þarna unnu gömlu flokkarnir af viti og flest gekk að óskum á "heimavelli".  Nú er öldin önnur og við þurfum fátt að vita vegna ákvarðanna ESB sinna í Evrópu, sem engu skila nema miljarða kostbaði og málaferlum???

Berjumst fyrir fullu sjálfstæði og hættum að selja Landið okkar til stórþjóða og erlendra auðkýfinga. Við getum allt sjálfir utan ESB og Alþjóðahyggju.

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 31.1.2021 kl. 22:02

9 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Sammála öllum hér að ofan.

Við þurfum nýja forystu og það strax.

Það þarf að koma þessum laumu ESB sinnum frá hið snarasta

áður en tjónið verður meira.

Sigurður Kristján Hjaltested, 1.2.2021 kl. 09:11

10 identicon

Ég er ánægður á toppi Kögunarhóls eins og þú kæri Halldór. Kögunarhóll er andstaðan við ESB. Kögunarhóll er í þjóðbraut við Ingólfsfjall á leið minni til Víkur í Mýrdal. Ég kenndi börnunum mínum allt um Kögunarhól og hvað nafnið þýddi.  

Kögunarhóll minnir mig á Þingvelli, sjálfstæði, "fullveldi" og Kristna siði frá árinu 1000.

Tölum frá toppi Kögunarhóls til Alþjóða og Glóbalista, án skuldbindinga, sem ekkert gagn gera fyrir fámenni okkar nema ógnir og peningasull við landakaup og málsóknir. Gerum allt sjálfir á okkar hraða undir okkar merkjum.

Kynjakvótinn er fullnýttur. ESB sinna út af þingi og embættismenn. Við viljum leiðtoga, konur eða karla til að sinna ÍSLANDI undir ÍSLANDSfána og okkar siðum.

Bravó til allra skrifenda um alvörumálin - Virkjanir ómengaða framleiðslu okkar og eigið sjálfstæði. 

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 1.2.2021 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband