Leita í fréttum mbl.is

Skotgrafir en ekki Viðreisn

Þorgerðar Katrínar formanns Viðreisnarflokksins svo nefnda,( alias Samfylking B),  birtist í ritsmíð hennar í Morgunblaðinu í dag þar sem hún segir ríkisstjórnina hafa yfirgefið krónuna:

"Í lok síðasta árs ákvað ríkisstjórnin að yfirgefa krónuna og færa sig yfir í evrur til þess að fjármagna halla ríkissjóðs. Þessi kúvending hefur hins vegar ekkert verið rædd á Alþingi. Þegar kórónuveirukreppan skall á lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún ætlaði að byggja á stuðningi Seðlabankans og fjármagna halla ríkissjóðs á lágum vöxtum og án gengisáhættu í íslenskum krónum. Viðreisn studdi þá ábyrgu ákvörðun.

Afleiðingar nýrrar lántökustefnu

Þeir sem vilja halda í krónuna sem gjaldmiðil hafa helst bent á að við sérstakar aðstæður geti verið gott að grípa til peningaprentunar. Og vera þannig án gengisáhættu innan eigin gjaldmiðils. Það ætlaði ríkisstjórnin að gera, en áður en til þess kom ákvað hún að snúa við blaðinu og taka lán í evrum með hóflegri ávöxtunarkröfu en augljósri gengisáhættu. Þrátt fyrir að sporin ættu að hræða. Engu að síður tekur ríkisstjórnin lán í erlendum gjaldmiðlum meðan tekjur eru í íslenskum krónum. Og vonar hið besta. Þetta er risaákvörðun sem ríkisstjórnin hefur ekki gert Alþingi grein fyrir. Á dögunum freistaði ég þess að eiga orðastað við forsætisráðherra um ástæður þess að ríkisstjórnin ákvað að yfirgefa krónuna við fjármögnun á hallanum og fá fram mat á því hvaða afleiðingar það gæti haft. Fyrir heimili, fyrirtæki og velferðina.

Þjóðleg og ópólitísk afstaða

Forsætisráðherra hafði tvennt fram að færa: Annars vegar sagði hún að fyrirspurn mín sýndi að ég væri í pólitík. Þar hitti hún vissulega naglann á höfuðið. Þótt ég telji það alla jafna ekki undrunarefni að þingmenn séu í pólitík. En það má gagnálykta út frá þessari athugasemd. Þannig virðist forsætisráðherra, sem forðast umræðu um stefnubreytingu í jafn stóru máli, ekki vera að gegna pólitísku hlutverki sínu. Þegar svo miklir hagsmunir eru í húfi fyrir almannahag lýsir ópólitísk afstaða ekki mikilli pólitískri ábyrgð. Hins vegar sagði forsætisráðherra að ég væri að tala krónuna niður og gaf um leið í skyn að slíkt athæfi væri óþjóðlegt.

Að tala krónuna niður

Skoðum þessa staðhæfingu aðeins:

1. Þegar ríkisstjórn hverfur frá því að taka lán í krónum og ákveður að taka lán í evrum er hún sjálf að lýsa því yfir að það sé ekki hægt að nota gjaldmiðilinn okkar. Það vantraust er ekki ópólitískt en kann að vera raunsætt. Verðgildi krónunnar verður hins vegar ekki haldið uppi á sjálfbæran hátt með erlendum lánum ríkissjóðs.

2. Stundum er sagt að áhrifamesti seðlabankastjóri í heimi geti talað dollarann upp eða niður. Flestir efast þó um að orð hans eða hennar dugi ein og sér. En geti formaður í stjórnarandstöðuflokki talað krónuna niður ber það vott um annað tveggja; einstaklega mikil pólitísk áhrif eða afar veikan gjaldmiðil.

3. Fyrir tveimur árum ákvað ríkisstjórnin að gjöld vegna fiskeldis í sjó skyldu vera ákveðinn hundraðshluti af kílóverði í evrum. Ríkisstjórn, sem notar erlendan gjaldmiðil í íslenskri löggjöf, er ekki að tala krónuna niður með lagaboði. Hún er einfaldlega raunsæ á veikleika krónunnar og fjarri því að vera óþjóðleg.

4. Forsætisráðherra sat í ríkisstjórn, sem samþykkti í júlí 2012 að Ísland stefndi að upptöku evru. Samþykktin um það samningsmarkmið var send öllum ríkisstjórnum aðildarríkja Evrópusambandsins. Ekki er vitað til þess að hún hafi formlega verið afturkölluð. En vissulega er þjóðlegt að þeir sletti skyri sem eiga það.

Atvinnulífið kallar á ábyrgð

Stefnubreyting ríkisstjórnarinnar er alvarlegra og stærra mál en svo að það sé ekki rætt málefnalega á Alþingi. Gengisáhættan er gríðarleg. Bara á síðasta ári jukust skuldir ríkissjóðs um 45 milljarða vegna gengisbreytinga. Að svara með innantómum útúrsnúningum er ekki boðlegt.

Það er alla jafna ólíkt forsætisráðherra að ræða mál á Alþingi með þeim hætti. Þessi undantekning gæti bent til þess að stefnubreytingin hafi ekki verið rædd í þaula eða hugsuð til enda. Samtök atvinnulífsins vara við óábyrgri afstöðu til lánamála ríkisins. Lántökurnar hafa þó fyrst og fremst farið til að hjálpa skjólstæðingum þeirra. Þær voru óhjákvæmilegar. En það er rétt hjá Samtökum atvinnulífsins að öllu máli skiptir hvernig á er haldið.

Rússnesk rúlletta

Skuldirnar geta ekki orðið sjálfbærar nema vextirnir og gengisáhættan verði lægri en nafnvöxtur þjóðarframleiðslunnar. Annars þarf niðurskurð eða skattahækkanir. Það þarf að segja hreint út.

Hvarvetna er litið svo á að ríkisstjórnir verði að fjármagna halla vegna kreppunnar í eigin gjaldmiðli. Gengisáhættan af svo stórtækum erlendum lánum er almennt talin of mikil til að vera ábyrg. Hún getur virkað eins og rússnesk rúlletta. Vel má vera að ríkisstjórnin telji sig yfir það hafna að svara stjórnarandstöðunni á Alþingi.

En ætlar hún að láta vera að skýra út fyrir Samtökum atvinnulífsins, sem nú kalla á ábyrgð í ríkisfjármálum, hvers vegna áhættusamari lántaka var valin en upphaflega var ráðgert? Hvað með verkalýðshreyfinguna? Mun hún kalla eftir útskýringu á hvers vegna stjórnvöld fara í þessa áhættutöku með velferðarkerfið að veði fyrir erlendum lánum? Eða verða það á endanum heimilin í landinu sem borga brúsann, ef illa fer?"

Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að sjá að Þorgerður stefnir að  vinstri stjórn eftir  kosningar. Fagurgalinn til vinstri leynir sér ekki.

En megin miskilningur Þorgerðar er hinsvegar sá að það ríkir gjaldmiðlafrelsi á Íslandi. Okkar fyrirtæki geta valið um þá mynt sem þau reka sig eftir. Marel,Icelandair osfrv.Almenningur getur sparað í hvaða mynt sem er.

Vill Þorgerður hverfa aftur til tíma gjaldeyriseftirlitsins og ófrelsis leyfiveitinganna? Það yrði slys ef þessi flokkur hennar kæmi til valda til að snúa hjóli tímans afturábak eins og hún greinilega skilur heiminn núna.

Páll Vilhjálmsson hefur þetta um greinina að segja:

"

Tilefnið er að ríkisstjórnin tók lán í erlendri mynt. En það hafa allar ríkisstjórnir gert frá árdögum íslensku krónunnar. Einhver þarf að segja formanninum að íslenska krónan er ekki alþjóðleg mynt, ekki frekar en að íslenska sé alþjóðlegt tungumál. Þegar við erum í útlöndum tölum við mál sem líklegt er að viðmælendur skilji. En með því er ekki sagt að við ,,yfirgefum íslenskuna."

Eins og jafnan þegar fólk fer út í móa í málflutningi byggir Þorgerður Katrín á fölskum forsendum. Hún skrifar: 

Þeir sem vilja halda í krónuna sem gjaldmiðil hafa helst bent á að við sérstakar aðstæður geti verið gott að grípa til peningaprentunar.

Öh, nei það er ekki málflutningur krónuvina að prenta peninga án innistæðu. Krónan er hagnýtt verkfæri í þjóðarbúskap okkar. Þegar vel árar hækkar hún og eykur kaupmátt á útlendri vöru og þjónustu en í hallæri gefur hún eftir og jafnar byrðarnar. Krónan rís og hnígur í takt við íslenskar aðstæður. Alþjóðlegar myntir, t.d. dollar og evra, taka ekki mið af efnahagskerfinu á Fróni.

Ef krónan væri einstaklingur yrði jöfnuður aðall hennar. Formaður Viðreisnar er ójafnaðarmaður. Um Þorgerði Katrínu má segja að hún er óvinur krónunnar, - nema þegar hún þarf að fá afskrifuð lán í krónum. Þá verður hún allt í einu besti vinurinn. Slíka vini þarf þjóðin ekki á að halda."

Það er vitað að Þorgerður Katrín þjáist af minnimáttarkennd fyrir Íslands hönd og treystir okkur ekki til að fara með eigið fullveldi. Hún vill afsala okkur þeim rétti í hendur tollbandalags 27 ríkja gegn afgangnum af heiminum. Hún er hrædd við verslunar-og samningsfrelsi.

Hún er bara hreint efnahagslegt afturhald sem Íslendingar þurfa ekki á að halda að kjósa yfir sig.

Skotgrafir en ekki viðreisn. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Krónur eru prentaðar hvern einasta virkan dag.

Það gerist í hvert sinn sem banki veitir útlán.

Vont væri það ef fólk kæmist til valda yfir efnahagsmálum þjóðarinnar sem skorti skilning á þessu.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.2.2021 kl. 15:23

2 identicon

Tvíbura flokkarnir, Viðreisn og Samfylking, vinna gegn ÍSLANDI að viðbættum einstaklingum úr öðrum flokkum innan Alþingis. Þeir eru ESB sinnaðir og vilja ákaft ganga til liðs við getuleysið í Evrópu og hættulega Evru og "Bitcoin".

Það er stutt í "átök" innan skuldabandalags 27 ESB landa, sem virðast Landamæralaus. Stjórnlaus Kristin Evrópa á afat bágt.

Við vonumst til að kjósendur átti sig á þessu stjórnleysi vinstrimanna. 

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 22.2.2021 kl. 16:21

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Bj0örn Bjarnason flettir ofan af hentistefnu Viðreisnar.Flokkurinn efast um eigin stefnu og virðist vera tilbúinn í hvaða afslætti sem er:

"Af grein formanns Viðreisnar má ráða að það hafi runnið á hana tvær grímur vegna gagnrýni sem hún og flokkur hennar fær fyrir að setja evruna helst á oddinn.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á Facebook-síðu sinni mánudaginn 22. febrúar 2021:

„Traust til Seðlabankans mælist nú 62% og hefur tekið stökk frá því í fyrra þegar 45% landsmanna sögðust treysta bankanum. Og heljastökk frá árinu 2019 þegar það mældist 31%. Allt samkvæmt könnunum Gallup.

Ég sem seðlabankastjóri er bæði auðmjúkur og glaður við þessar fregnir. Þetta er árangur sem allt starfsfólk Seðlabankans á saman. Þessu trausti fylgir einnig mikil ábyrgð – að við getum staðist þær væntingar sem til okkar eru gerðar.

Þau tímamót urðu í upphafi árs 2020 að ný lög tóku gildi með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins – og svo tveimur mánuðum síðar skall veirufaraldurinn á. Þannig að ég lít á þessa mælingu sem viðurkenningu á störfum hins nýja banka á þessum erfiða tíma.

Seðlabankinn er útgefandi og varðmaður íslensku krónunnar. Þessi mæling er því vitnisburður um nýtt traust á gjaldmiðlinum okkar - okkar allra landsmanna. (Feitletrun mín.)

Ég er bjartsýnn að eðlisfari – og er handviss um að við komust bratt út úr Covid-kreppunni. Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga - sæta langa sumardaga“

ImpagesSama dag og seðlabankastjóri skrifaði þetta birtist grein í Morgunblaðinu eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, sem hún skrifaði fyrir nokkrum dögum. Þar býsnast hún enn einu sinni yfir íslensku krónunni. Nú vill flokksformaðurinn draga ríkisstjórnina í dilk með sér. Stjórnin vegi að krónunni með því að taka erlent lán í evrum! Þá segir Þorgerður Katrín sér til afsökunar:

„Stundum er sagt að áhrifamesti seðlabankastjóri í heimi geti talað dollarann upp eða niður. Flestir efast þó um að orð hans eða hennar dugi ein og sér. En geti formaður í stjórnarandstöðuflokki talað krónuna niður ber það vott um annað tveggja; einstaklega mikil pólitísk áhrif eða afar veikan gjaldmiðil.“

Af grein formanns Viðreisnar má ráða að það hafi runnið á hana tvær grímur vegna gagnrýni sem hún og flokkur hennar fær fyrir að setja það mál helst á oddinn að vilja kasta krónunni og innleiða evru. Rétt er að minna á að Viðreisn segir ekki unnt að taka upp evru án þess að ganga í ESB. Krónu-kosningamál flokksins er því eitthvað sem ef til vill yrði raunhæft eftir 10 til 15 ár yrði ESB-aðild samþykkt nú sem er borin von. Hve lengi evran verður við lýði er óljóst. Kosningamálið er því dæmigert gervimál eins og svo margt annað hjá Viðreisn.

Við vitum hvað við höfum með krónuna í höndunum og feitletruðu orðin í FB-færslu Ásgeirs Jónssonar segja allt sem segja þarf um það efni á líðandi stundu.

Til þessa hefur Viðreisn veðjað á evruna (án þess að nefna ESB-aðild) til að skapa sér sérstöðu meðal stjórnmálaflokkanna. Grein Þorgerðar Katrínar í gær bendir til að hún átti sig á haldleysi eigin málflutnings. Aukið traust í garð seðlabankans og þar með krónunnar að mati seðlabankastjóra verður kannski til þess að Viðreisn neyðist endanlega til þess að sleppa evru-haldreipi sínu, vilji flokkurinn njóta trausts. Hvað er eftir fyrir flokkinn þegar hann missir evru-glæpinn?

Halldór Jónsson, 23.2.2021 kl. 09:59

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Mér sýnist Björn Bjarnason greina vanda Viðreisnar og Þorgerðar Katrínar af mikilli skarpskyggni að vanda.

Halldór Jónsson, 23.2.2021 kl. 10:01

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gísli Holgersson.

Hvað hefur bitcoin með þetta að gera?

Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2021 kl. 13:21

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Að gíra upp peninga í viðskiptabankakerfinu er ekki það sama og prenta þá. Þannig að viðskiptabankar prenta ekki peninga. Þeir gíra þá aðeins upp.

Það eru skörp skil á milli sjálfs peningakerfisins og fjármálakerfisins.

Peningakerfið getur alltaf lokað á aðgengi fjármálakerfisins að peningum og þvingað uppgírun þess niður, eða aukið hana.

Það er ekki að prenta peninga ef þeir fara ekki út í fjármálakerfið. Það gera þeir til dæmis ekki í magnbundum inngripum (q.easing) 

Peningakerfið og fjármálakerfið eru tvö aðskilin fyrirbæri og það sést best á bókhaldauðkennum beggja og innstungum þeirra inn í og út úr báðum kerfum.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 23.2.2021 kl. 14:01

7 identicon

Kæri Guðmundur. Bitcoin er viðhengi Viðreisnar ásamt ákalli til inngöngu í ESB fárið í Evrópu.

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 23.2.2021 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 3420146

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband