Leita í fréttum mbl.is

Skörp greining

er sett fram í grein Viðars Guðjohnsen lyfjafræðings í Morgunblaðinu í dag.

Hann segir:

"Af og til birtast okkur borgarbúum fregnir af löngum skýrslum um borgarlínuna. Á dögunum kom út enn ein. Frumdragaskýrsla svokölluð. Þrjú hundruð blaðsíður af vel skreyttum draumórum þar sem léttklætt fólk á sólríkum dögum gegnir aðalhlutverki.

Hugmyndafræði jafnaðarmanna

Borgarlínan byggist á hugmyndafræði jafnaðarmanna um stórt bákn sem öllu ræður en lítinn borgara sem engu ræður en allt skal borga. Enn og aftur verður að hafa það hugfast að því sem einn fær, án þess að vinna fyrir, verður auðvitað einhver annar að vinna fyrir án þess að fá. Þetta er grundvallaratriði í stjórnmálum. Með borgarlínunni er verið að taka mikla áhættu með annarra manna fé.

Kameljónið fæðist

Í upphafi snerist borgarlínan um léttlestir; einhvers lags sporvagna líkt og fyrirfinnast í heitari og fjölmennari ríkjum Evrópu. Hinir nítjándu aldar sporvagnar eru auðvitað rómantískir út af fyrir sig og tilhugsunin um slíka sendir fólk til þeirra tíma þegar byggingarlist var enn list og menn hönnuðu borgir fyrir borgarana. Gallinn við þá hugmynd var auðvitað sá að hugmyndin var með öllu óraunhæf. Kostnaður, fámenni og möndulhalli jarðar fóru mjög fljótlega að þvælast fyrir. Eftir að menn sáu spegilmynd þess í furðuleikhúsinu hætti borgarlínan að snúast um sporvagna og fór að snúast um léttvagna. Hugtak það er eitt af þeim nýyrðum sem fylgt hafa tillögunni um borgarlínuna. Stundum eru léttvagnarnir nefndir hraðvagnar af því að þeir fá einir afnot af akreinum þar sem nú aka bílar og bílarnir munu auðvitað sitja fastari fyrir vikið.

Tálsýn fallegra fyrirheita

Af og til birtast fögur fyrirheit hjá fulltrúum borgaryfirvalda og lagt er af stað með mjög vafasama og dýra draumóra í farteskinu. Einu sinni átti að setja upp rafrænt kortakerfi í strætisvögnum. Hundrað milljónir fóru í bláa kortalesara sem settir voru í hvern einn og einasta vagn með annan eins þróunarkostnað. Kerfið átti að spara pening. Kerfið var aldrei tekið í notkun en kortalesararnir voru í vögnunum í mörg ár. Áminning um ráðamenn í óráði! Vert er að rifja upp heimsókn ungra lyfjafræðinema í Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hálfum öðrum áratug. Fengu nemarnir leiðsögn um nýjar höfuðstöðvar sem kostuðu um sex milljarða. Byggingin var með heimsins stærsta pendúl, flottasta mötuneyti Norðurlanda, landsins stærstu grænmetisþvottavél og auðvitað veitingar á pari. Risarækjur úr rækjueldi veitunnar voru bornar fram með lofsöng um rækjugróða sem aldrei varð. Nú situr þetta hús tómt vegna myglu. Sorpvinnsluævintýri Sorpu er enn óuppgert. Það kostaði yfir fimm milljarða. Almenningur borgar. Aftur að borgarlínunni. Þar leika ráðamenn sér í áhættuspili með tugi milljarða af skattfé á milli handanna. Á sama tíma er ekki hægt að sinna eðlilegu viðhaldi á skólabyggingum eða holóttum götum. Að hugsa sér!+

Raunveruleikinn

Í skýrslunni eru teiknaðar myndir af nefndum létt- eða hraðvögnum. Þótt nafnið gefi eitthvað nýtt til kynna eru þeir ekkert öðruvísi en tvöföldu „gormastrætóarnir“ sem óku tómir á milli Reykjavíkur og nærliggjandi sveitarfélaga fyrir ekki svo mörgum árum. Þetta er líka grundvallaratriði. Við búum á Íslandi. Það er óraunhæft að ætlast til þess að fjölskyldufólk, sem almennt þarf að mæta á réttum tíma í vinnuna, gangi fleiri hundruð metra til að húka í einhverju biðskýli í sudda og slyddu. Þetta mætti auðvitað teikna í einhverja skýrsluna. Veðurbarinn borgarbúa; húkandi með krakkaskarann í einhverju biðskýlinu, með rifna innkaupapoka því ekki má plastið lengur og jafnvel jólatréð, sem borgin er hætt að hirða, á leið upp í hina löngu biðröð Sorpu. Það er auðvitað ekki raunhæft að ætla miklar breytingar á ferðavenjum fólks þótt hægt sé að teikna fallegar myndir í skýrslum.

Afleiðingarnar

Til þess að skapa pláss fyrir borgarlínuna er fyrirhugað að þrengja götur, loka götum, setja upp mjög flókin gatnamót hér og þar og eftir atvikum banna vinstri beygjur. Suðurlandsbrautin verður þrengd. Einungis ein akbraut verður í hvora átt fyrir bíla. Þó verða tvær akbrautir fyrir reiðhjól í hvora átt eins undarlega og það hljómar. Umferðartafir í Reykjavík eru óviðunandi nú þegar. Tafirnar má í meginatriðum rekja til samlegðaráhrifa þéttingarstefnu borgaryfirvalda og vanrækslu á vegakerfinu. Á sama tíma og bílum fjölgar er bílastæðum og akreinum fækkað. Þetta gengur ekki upp. Þetta er nánast eins og að meðhöndla kransæðastíflu með reykingum og skyndibita. Okkur var sagt að með hinni sósíalísku fjölbýlisvæðingu væri hægt að ná fram styttri ferðatíma. Inn í þá jöfnu gleymdist að færa efnahagsforsendur og vilja fólks. Raunveruleikinn er nefnilega sá að efnahagur fólks er svo breytilegur að ekki er hægt að slá því föstu að íbúðaverð á einu svæði henti í raun þeim sem þar starfa. Einnig er það svo að fjölskyldur vilja andrými; börn þurfa svæði í nærumhverfi til þess að leika sér og verða hraust. Þar gildir lögmálið því nær því betra.

Niðurstaða

Borgarlínan byggist á dýrkeyptum draumórum. Draumóra ber að varast."

Ég hlustaði á viðtal við ágætan sjálfstæðismann Davíð Þorláksson á dögunum.Þar reyndi hann að verja málstað miðlægrar Borgarlínu og það sem henni myndi fylgja.Í raun fann ég til samúðar með Davíð við þessa iðju, svo ósannfærandi fannst mér röksemdafærsla hans vera

Að rökvísi getur þessi stíll Viðars Guðjohnsen minnt á fyrrum forystumann Sjálfstæðismanna sem svo sárlega er saknað á þessum dögum.Nú þegar kosningar nálgast munar um hvert sverðið.

Að vísu verður ekki kosið um sveitarstjórnarmál í haust en óhjákvæmilega er heimspekin að baki aldrei langt undan. Okkur sjálfstæðismenn skortir baráttumenn gegn félagshyggjunni og fullveldisfjandseminni sem nú ríður húsum. 

Viðar Guðjohnsen lyfjafræðingur virðist hafa neistann til skarprar greiningar sem þarf til að kveikja í hinu pólitíska tundri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ætli Dagur og bæjarstjórar nágranasveitarfélaganna hafi séð grein Viðars???

Ef fólk vaknar ekki upp við þessa grein, þá veit ég ekki hvað mun vekja það.  Mér hefur sýnst Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið töfraður til fylgis við þessi ósköp.

Ég tek undir með þér Halldór að Sjálfstæðisflokkinn skortir baráttumenn og forustu til að leiða þessa þjóð áfram. Flokkurinn er forustu- og hugsjónarlaus.

Tómas Ibsen Halldórsson, 14.4.2021 kl. 14:30

2 identicon

Sammála þér. Einhver best skrifaða grein í langan tíma um þetta mál. Það sem er ótrúlegast er að það skuli enginn rétta upp hönd og spyrja um rekstrarkostnaðinn. En það er eins og að nefna snöru í hengds manns húsi, allir vita að sá kostnaður er stjarnfræðilegur en það má ekki ræða um það.
Heldur dettur engum í hug að gera könnun og spyrja fólk hvort það muni eða geti hugsað sér að breyta ferðavenjum sínum og nota strætó eftir tilkomu borgarlínu. Líklega vegna þess að svarið er vitað fyrirfram, þ.e.a.s. að notendum mun ekki fjölga.

Nonni (IP-tala skráð) 14.4.2021 kl. 14:41

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Flokkurinn er forustu- og hugsjónarlaus.

Æ æ að heyra þetta. En því miður heyrist þetta alltof oft

Halldór Jónsson, 14.4.2021 kl. 17:58

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Tek undir með Nonna. Ein best skrifaða grein um

Borgarlínu óskapnaðinn. Því miður fyrir Sjálfstæðisflokkinn,

þá hefur þessi "populista stefna" sem hann tók, án

samþykkis flestra félagsmanna, gert hann að einhverju

rekaldi í íslenskri pólitík. Flokkur sem stóð fyrir

grundvallar atriðum í þágu þjóðar er nú orðin einhverskonar

tilraunar verkefni í því að móta stefnu sem ENGINN

sjálfstæðismaður aðhyllist og það allt undir forystu BB.

Sorglegt en satt, að ein aðal kjölfestan í íslenskri

pólitík, er að öllum líkindum að renna sitt skeið á enda.

"Populista pólitík" endar ávallt á einn veg.

Stendur stutt, og hverfur svo ásamt öllum öðrum

sem það stunda. 

Sigurður Kristján Hjaltested, 14.4.2021 kl. 17:59

5 identicon

Þetta er skoðun en ekki greining. Ekkert áþreifanlegt, engin gögn sem stuðst er við og ekkert sem rennir stoðum undir þessa skoðun.

Vagn (IP-tala skráð) 14.4.2021 kl. 20:06

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Engum líkur er Kerran í rökfræðinni 

Halldór Jónsson, 14.4.2021 kl. 22:10

7 identicon

Ég gæti skrifað flottan pistil, greiningu eins og þú mundir kalla það, um hvernig ég teldi að brú yfir Ölfusá ætti að vera. Hvaða efni ætti að nota, útlit, undirstöður, stoðir, gólf o.s.frv. Fullyrt hitt og þetta og alhæft. Og sagt hvernig tap á rækjueldi gerir aðrar hugmyndir síðri. Gallinn væri hinsvegar sá að ég veit ekkert um brúarsmíði, ekkert um burðarþol, vindálag, veðrun og viðhald. En get samt haft skoðun og viðrað hana eins og ég væri að tala af kunnáttu. Þess vegna tek ég frekar mark á umferðarverkfræðingum og borgarhönnuðum en lyfjafræðingum með pólitíska hagsmuni og stefnur þegar að umferðarmannvirkjum kemur.

Þegar þú lest eitthvað sem þú ert sammála þá þarft þú að passa að dæma það eftir því hvort þar sé eitthvað sem staðfestir að þín skoðun sé rétt en ekki að það sé bara enn ein skoðunin. Sama skoðun gerir pistilinn ekki góðan og og þið hafið ekki endilega rétt fyrir ykkur þó þið séuð sammála. Fjöldi trúaðra sannar ekki tilvist álfa.

Og þetta var mín skoðun en hvorki skýrsla né greinargerð.

Vagn (IP-tala skráð) 15.4.2021 kl. 03:37

8 Smámynd: Halldór Jónsson

"þess vegna tek ég frekar mark á umferðarverkfræðingum og borgarhönnuðum en lyfjafræðingum með pólitíska hagsmuni og stefnur þegar að umferðarmannvirkjum kemur."

Vonandi les Kerran greinar þeirra sem mesta reynsluna hafa um Borgarlínur.

Halldór Jónsson, 20.4.2021 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband