Leita í fréttum mbl.is

Góður Jónas

Elíasson prófessor emertitus í Morgunblaðinu í dag.

Fróðalegt sögulegt yfir lit um sögu Úkraínu síðustu aldir.

Jónas skrifar:

" Allir Íslendingar vita að upphaf Rússlands sjálfs og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar var Garðaríki (e. Kievan Rus). Höfuðborg þess, Kænugarður, var miðstöð hins heilaga Rússlands (Svyatáya Rus), þar var byggð ein mesta kirkja rétttrúnaðarins, Dómkirkja heilagrar Soffíu, á 11. öld. Mongólarnir lögðu undir sig ríkið um 1100, en létu Muskovy (ríki stórhertogans af Moskvu) að mestu í friði, hertækni Mongóla hentaði ekki fyrir skógana þar. Þegar Mongólar hurfu á braut átti furstinn af Kænugarði lítinn her, svo Muskovy gat lagt undir sig Garðaríki smám saman, núverandi Úkraína er syðsti hluti þess. Þá varð Moskva valdamiðstöð rétttrúnaðarkirkjunnar og tók sér tignarheitið „þriðja Róm“, tign sem Kænugarður hefði annars fengið. Öll menning Úkraínu er miklu eldri en Rússlands, en landið var sett undir „vernd“ Rússakeisara á 17. öld og nú vill Pútín gera það aftur. Pútín hefur rétt hlut kirkjunnar mikið frá því sem var á dögum sósíalismans og um það eru skrifaðar heilu bækurnar hvernig rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur aukið sín pólitísku völd síðan Pútín komst til valda, næstum í þau völd sem hún hafði á keisaratímanum. Hvernig sem það nú er, þá er ekki vafi á að Pútín ætlast til að kirkjan standi með sér. En vegna þessarar arfleifðar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar hefur innrásin orðið til þess að öflugur hluti hennar hefur snúist gegn Pútín í fyrsta skipti í sögunni. Biskup Íslands ritar um þetta athyglisverða grein í Mbl. 5.3. ’22. Það er alveg öruggt, að ef Pútín nú sest um Kænugarð eins og Hitler 1941 mun rússneska rétttrúnaðarkirkjan snúast gegn Pútín af öllu afli, en hún hefur stutt hann fram að þessu. Þá mun margur rússneskur hermaðurinn sem sér Soffíukirkjuna ekki ráðast á hana með vopnum heldur falla á kné og biðjast fyrir. Stýrir Rússakeisarinn Pútín að eigin endalokum? Úkraína var helsti vígvöllur seinni heimsstyrjaldarinnar, bara umsátur Hitlers um Kænugarð í júlíoktóber 1941 kostaði hálfa milljón fallinna. Í hvað stefnir Pútín?

Leppríki Rússlands og vatnsuppspretta Krímskaga

Pútín vill gera Úkraínu að leppríki eins og Hvíta-Rússland og innrásin er tákn þess að hann hefur gefist upp á að ná því marki með friði. Biden forseti Bandaríkjanna og ESB eru reiðubúin til að láta þetta yfir sig ganga, en bæði Vesturlönd og Pútín misreiknuðu sig. Í fyrsta lagi er innlimun Pútíns á Krímskaga 2014 að breytast í martröð, eftir að Úkraínumenn lokuðu fyrir stóran skurð frá Dnjepr-fljótinu sem sá Krím fyrir eina vatninu sem þeir höfðu. Úkraínumenn byrjuðu að draga úr rennslinu strax 2015 og lokuðu alveg fyrir 2017. Skurðurinn liggur eftir endilöngum norðurhluta skagans svo nú er sá hluti Krím að breytast í algera eyðimörk. Rússar reyndu að láta líta svo út að þeir hefðu mætt þessum vanda, en á síðasta ári (2021) var ljóst að það hafði mistekist. Ræktað land á svæðinu hafði minnkað tífalt. Þá verður herinn að sjá fólki á Krím fyrir vatni og mat, sem verður hrikalega kostnaðarsamt. Í öðru lagi er hatrömm andstaða Úkraínumanna og frábær frammistaða forsetans Selenskís, sem leysti úr læðingi algjöran stuðning almennings í hinum frjálsa heimi.

Aðgerðir Pútíns styrkja NATO og eyða evrópskum sósíalisma

Þau ríki sem sem vildu sýna Rússum hlutleysi eða vináttu ganga nú í NATO. Ef Pútín óttaðist NATO áður ætti hann að vera alvarlega hræddur núna. Framferði Rússa skapar gríðarlegan pólitískan vanda fyrir evrópska vinstrimenn, gæti einfaldlega þýtt endalok vinstri sósíalisma í Evrópu. Aðalmál þeirra, hatrið á bandarískum kapítalisma, hefur leitt þá yfir í ósjálfrátt, og stundum ómeðvitað, Rússadekur og kröftuga andstöðu við NATO, en allt þetta er nú að gufa upp út í veður og vind. Evrópskir stjórnmálamenn munu ekki komast upp með Rússadekur og evrópskir vinstrimenn verða að snúast á sveif með NATO hvort sem þeim líkar betur eða verr. Lítil grein á forsíðu Fréttablaðsins 9.3. ’22 sýnir að þetta vandamál á ekki síður við um íslenska sósíalista. Pútín á eftir að fara verr með evrópska vinstrimenn en Stalín í Finnagaldrinum, uppreisnum í AusturÞýskalandi, Ungverjalandi og Póllandi. Stalín stal korni Úkraínu 1931-33 og þrjár milljónir dóu úr hungri. Þetta man Úkraína, svo á hvaða vegferð er Pútín?

Hættan fram undan

Stríðið í Úkraínu endar með sigri Rússa eins og stríðið gegn Hitler, enginn reiknar með öðru. Það er hvernig það endar sem er vandamálið; kemst einhver friður á við það? Búast má við að Úkraínumenn hafi ekki sagt sitt síðasta þótt Rússarnir nái því landi sem þeir sækjast eftir, hvort sem það er austurhlutinn eða landið allt. Í síðustu heimsstyrjöld börðust Úkraínumenn af mikilli hörku gegn Þjóðverjum og áfram gegn Rússum allt til 1953. Vesturlönd komast ekki upp með annað en að styðja þá baráttu, leynt ef ekki ljóst. Munu Rússar sætta sig við að skæruliðar í Úkraínu fái skjól, vistir og búnað í NATO-löndum og herji á Rússa bæði í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi? Nei, það mun Pútín ekki sætta sig við. Rússar fengu að leika þetta hlutverk í stríðunum í Kóreu og Víetnam, en Vesturlönd fá ekki að gera þetta núna, ekki á landamærum Rússlands. Þá fara Rússar út fyrir landamæri Úkraínu með hernaðinn, taka Moldavíu, einangra Eystrasaltslöndin með því að loka Suvlaki-hliðinu og það leiðir til afskipta NATO og heimsstyrjaldar. Hvað getur komið í veg fyrir þetta? Menn einfaldlega vona að valdadagar Pútíns verði ekki miklu lengri, sem er reyndar spurningin um hve lengi hann hefur stuðning hersins, eða hvort honum verður komið frá með þeim aðferðum sem hann hefur beitt á aðra. En ef það gerist ekki og Pútín verður áfram við völd, þá er gríðarleg stríðshætta fram undan."

Ein mesta orrusta 2. heimstyrjaldarinnar var skriðdreka dauðinn við Kursk sem er austur af Ukraínu 1943. Þar voru þúsundir skriðdreka eyðilagðir og hundruð þúsunda hermanna féllu.Þarna beið Hitler eiginlega sinn síðasta afgerandi ósigur. Hann gat ekki efnahagslega bætt sér töpin sem Rússar gátu hinsvegar gert.Þýzku iðnaðarvélinni var þorrinn máttur.

Það koma fram yfirgripsmiklar sögulegar upplýsingar frá kollega mínum prófessornum Jónasi Elíassyni og hafi hann þakkir fyrir.

Í viðtali við Egil Helgason setti Andrej Kurkov rithöfundur frá Úkraínu fram afdráttarlausar skoðanir á Pútín og friðarhorfum í Donbass og víðar.

Þessi góða grein Jónasar Elíassonar er fræðandi fyrir þá sem vilja skyggnast bak við atburðina í tengslum við söguspjöldin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 3418282

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 63
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband