Leita í fréttum mbl.is

Vanmetinn kostnaður

er af Borgarlínustokkagerð á Ártúnshöfða að mati Bjarka Jóhannessonar skipulagsfræðings sem fram kemur í grein hans í Morgunblaði dagsins:

"Lítið hefur verið fjallað um skipulagsstöðu borgarlínu sem er ekki góð og áhrif hennar óviss. Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sýnir ekki legu hennar, aðeins hluti hennar er sýndur í aðalskipulagi Reykjavíkur, í aðalskipulagi Kópavogs og Garðabæjar er hún aðeins sýnd eftir Hafnarfjarðarvegi og hvergi í aðalskipulagi Hafnarfjarðar eða Mosfellsbæjar. Afgangurinn er aðeins línur á blaði í skýrslum um borgarlínuna. Skipulag borgarlínu uppfyllir ekki kröfur til aðalskipulags að liggja fyrir í heild sinni sem áætlun þar sem fjölmargir samfélagsþættir eru lagðir til grundvallar. Aðalskipulag skal auglýsa, taka afstöðu til athugasemda og hvort gera skuli breytingar á því. Eftir staðfestingu Skipulagsstofnunar er það lögbindandi. Skipulag borgarlínu hefur ekki hlotið lögboðna meðferð sem heild.

Í umhverfismati svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulags Reykjavíkur er nokkuð fjallað um áhrif borgarlínu, en minna í aðalskipulagi Kópavogs og Garðabæjar. Nær eingöngu er fjallað um áhrif bílaumferðar á loftmengun, en samkvæmt lögum um umhverfismat skal meta áhrif skipulags í heild, m.a. á íbúa, heilbrigði, landslag, jarðveg, loftslag og efnisleg verðmæti. Í þessu felst náttúrulegt og byggt umhverfi, ásýnd, félagslegt umhverfi, fjárhagslegt og hagrænt umhverfi. Flest af þessu vantar í umhverfismat borgarlínu og hvergi er fjallað um heildaráhrif af henni.

Áhrif á loftslag

Í umhverfismatinu er talið að bílaumferð og loftmengun muni minnka. Loftmengun mun þó hvort eð er minnka með aukinni notkun rafbíla. Allir armar borgarlínu liggja að miðborginni og líklegt er að notkun hennar miðist mest við ferðir þangað til og frá vinnu og skóla kringum kl. 9 og 16. Skrifstofustörfum og þjónustu- og afgreiðslustörfum í miðborginni mun enn fækka með aukinni tölvuvæðingu og fjarvinnu og undirlag fyrir borgarlínuna minnka.

Umferðarkerfi eru þjónustukerfi sem flytja fólk til og frá vinnu, til innkaupa, þjónustu, náms og fleira. Borgarlínan hentar ekki vel fyrir allar þessar ferðir. Reynslan sýnir að fólk gengur almennt ekki lengra en 200 metra að biðstöðvum og finnst neikvætt að skipta um vagn. Það tekur því tæplega strætó til að komast í borgarlínuna. Auk þess er ekki auðvelt að fara milli strætisvagna og borgarlínu með innkaupapoka og börn í leiðinni og ekki verður allt leyst með verslun á netinu. Fyrirtæki flytja hráefni, vörur og fleira og borgarlína hentar ekki heldur fyrir þær ferðir. Í forsendum borgarlínu er reiknað með að 12% samgangna á höfuðborgarsvæðinu fari um hana. Það er ofmetið, langmestur hluti ferða með henni verður til og frá sjálfri miðborginni, sem er aðeins lítill hluti allra ferða á höfuðborgarsvæðinu. Samgönguskipulag á að miða að því að skapa rýmd í kerfinu, forðast þrengsli og umferðarteppur og bæta aðgengi. Borgarlína mun aftur á móti þrengja að götum og auka umferðarteppur með aukinni mengun. Það kemur ekki fram í umhverfismatinu. Óvíst er hvort umferð bíla muni minnka og áhrif borgarlínu á loftslag eru óviss.

Við umhverfismat á samgönguleiðum þarf einnig að skoða áhrif á þá sem ferðast eftir þeim. Með borgarlínunni á að setja Miklubraut í stokk eða jarðgöng á 1,5 km kafla. Þar eru meiri líkur á mengun, ökumenn og farþegar horfa aðeins á veggi og áhrifin yrðu þau sömu og að aka Hvalfjarðargöngin, sem engum finnst víst jákvæð upplifun.

Rask af framkvæmdum

Mikið rask verður þar sem byggð á að víkja. Í Ártúnshöfðanum þarf t.d. að kaupa og rífa iðnaðarhúsnæði sem margt er heilt og í fullri notkun. Af niðurrifi húsanna hlýst loftmengun og kolefnislosun, farga þarf byggingarefninu, sem er líklega mengað, hreinsa mengaðan jarðveg og farga. Skipta þarf um jarðveg í breyttu gatnakerfi og flytja allar lagnir með tilheyrandi kolefnislosun. Umhverfisáhrifin eru hér verulega neikvæð. Fjárhagslegur ávinningur af nýbyggingum lendir á höndum verktaka og fjárfesta og ólíklegt er að þeir fari í slík verkefni án verulegs hagnaðar. Íbúðarverðið verður tæplega í lægri kantinum og ekki er víst að tekjulítið fólk hafi efni á húsnæðinu. Félagsleg áhrif verða því hugsanlega neikvæð.

Niðurstaða

Skipulag borgarlínu í heild sinni er án lögbundinnar stöðu, það uppfyllir ekki skilyrði þess að kallast aðalskipulag og hefur ekki hlotið lögboðna meðferð. Það er sett fram í bútum í aðalskipulagi sveitarfélaganna án þess að allir hlutar þess séu sýndir í neinu þeirra og íbúum hefur aldrei gefist kostur á að tjá sig um það í heild sinni né afleiðingar þess. Notkun þess, arðsemi og áhrif þess að draga úr notkun einkabílsins virðast mjög ofmetin. Ekki hafa öll áhrif á samfélagið verið metin eða sýnt fram á jákvæð umhverfisáhrif og það þarf verulega auknar rannsóknir á heildaráhrifum borgarlínunnar. Skipulag má ekki setja fram í bútum með óljósum áhrifum, heldur þarf það að vera birt íbúum í heild sinni með fullunnu umhverfismati. Borgarlínuskipulagið uppfyllir það ekki og er því aðeins hálfklárað í núverandi mynd."

Afleiddur kostnaður vegna niðurrifs og breytinga á fyrirliggjandi mannvirkjum vegna draumóra um Borgarlínu er án ef mjög vanmetinn allstaðar eins og Bjarki bendir á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband