Leita í fréttum mbl.is

Einbeittur brotavilji ?

Þetta stendur í Staksteinum Sunnudagsmoggans: 

"Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld, að hans skilningur hefði verið sá að ekki hefði verið nein ríkisábyrgð á Icesave-reikningum bankans. Ef þetta hefur alla tíð verið skilningur Sigurjóns, hlýtur markaðssetning og málflutningur bankans að hafa verið gegn betri vitund bankastjórans. Bankinn hélt því fram í bréfi, sem viðskiptavinum var sent í febrúar 2008, að innistæður þeirra væru tryggðar upp að 35.000 pundum, annars vegar af tryggingasjóði á Íslandi, hins vegar af brezka tryggingasjóðnum. »Ef svo ólíklega færi að gera þyrfti kröfu á bankann er ólíklegt að nokkur seinkun yrði á endurgreiðslu í samanburði við innistæðutryggingakerfi Bretlands,« segir þar. Á heimasíðu Icesave stóð skýrum stöfum: »Innistæður í Icesave eru tryggðar af Tryggingasjóði innistæðueigenda á Íslandi.« Og sömuleiðis: »Heildartryggingin sem báðir sjóðir veita þér er engu minni en þú nytir ef innistæðan þín væri eingöngu tryggð af brezka sjóðnum.«

Loks skrifaði Sigurjón Árnason sjálfur undir bréf sem sent var hollenzka seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu 23. september, þar sem fram kom að íslenzk stjórnvöld hefðu ítrekað skuldbindingar sínar samkvæmt tilskipun EES um innistæðutryggingarnar. Þetta væri »mikið framfaraspor og ætti að fara langleiðina með að létta á áhyggjum varðandi innstæðutryggingakerfið¨"

Þarf nokkurra vitna við ? Hvernig væri að kynna Hollendingum þessa afstöðu Sigurjóns ?

Mér finnst þeta sýna svo um munar að það var ekki íslenzka þjóðin sem stóð á bak við Icesave heldur menn úr einkageiranum með einbeittan brotavilja sem flögguðu vörumerkinu The National Bank of Iceland, sem þeir keyptu á slikk af bjánum í ríkisstjórn Íslands og létu þá meira segja borga sjálfa fyrir sig útlagðan kostnað! Icesave er bara samanlagður skaði þjóðarinnar af þeim afglöpum öllum.

Á ekki forsetinn að veita þessum Sigurjóni útflutningsverðlaun fyrir að hafa fundið upp Icesave ?

Það hefur enginn Íslendingur afrekað annað eins með einbeittum vilja..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Þetta er nú heila málið, Halldór. Þessir menn fóru vísvitandi inn á fjármálamarkað í Bretlandi og Hollandi til að afla bankanum fjár með vafasömum hætti og loforðum. Það má með talsverðum rétti halda því fram að þetta hafi í raun verið "efnahagsleg hryðjuverk". Það liggur því beinast við að þeir sem að þessari starfsemi stóðu, þ.e. stjórn og stjórnendur bankans eða bankanna, standi rekiniskil gerða sinna en ekki íslenska þjóðin. Það má kannski segja að núverandi fjármálaráðherra eigi erfitt með að benda Bretum og Hollendingum á þetta, því væntanlega yrði litið á það sem pólitískar ofskóknir af hans hálfu, þar sem stjórnendur bankans sem mest hafði sig í frammi eru taldir tilheyra öðrum stjórnmálaflokki en hans. En hafi menn framið brot sem kemur jafnilla niður á einni þjóð og þessir Icesave reikningar, þá á að gera skýra kröfu um að þeir svari til saka hvar í flokki sem þeir standa. Til að halda niðri ormaveiki í hundum er ekki nóg að hreinsa bara hundana hans Jóns því með því þá er allt eins líklegt að ormaveikin haldi áfram að hrjá hundana hans séra Jóns.....

Ómar Bjarki Smárason, 31.8.2009 kl. 09:37

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Voðalega á þessi Staksteinahöfundur eitthvað erfitt með að skilja hlutina. Er hér kannski komin ástæðan fyrir því, að blaðamenn hafa verið steinsofandi gagnvart þeirri andþjóðlegu kröfu ríkisstjórnarinnar, að VIÐ (!!!) eigum að borga Icesave-svínaríið? Í frábærum pistli á Vefþjóðviljanum eru blaðamenn og 'álitsgjafar' fjölmiðlanna kallaðir til ábyrgðar fyrir skort sinn á faglegum vinnubrögðum við að kryfja þetta mál og ræða um það hver sé lagalegur grundvöllur (eða öllu heldur grundvallarleysið) fyrir því að ætlast til að íslenzka ríkið borgi þessar innistæður einkabanka.

Staksteinahöfundur furðar sig á þeim skilningi Sigurjóns Þ. Árnasonar, "að ekki hefði verið nein ríkisábyrgð á Icesave-reikningum bankans," og bætir við: "Ef þetta hefur alla tíð verið skilningur Sigurjóns, hlýtur markaðssetning og málflutningur bankans að hafa verið gegn betri vitund bankastjórans. Bankinn hélt því fram í bréfi, sem viðskiptavinum var sent í febrúar 2008, að innistæður þeirra væru tryggðar upp að 35.000 pundum, annars vegar af tryggingasjóði á Íslandi, hins vegar af brezka tryggingasjóðnum."

En ég spyr: Hver er mótsögnin? Veit ekki Staksteinahöfundur, að tryggingaraðili þessara Icesave-reikninga var sjálfseignarstofnun á vegum bankanna (Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta)? Er þessi blaðamaður enn í þeim leik að láta eins og sá sjóður sé sama sem RÍKIÐ? Ekki var sú hugsun í þeirri tilskipun Evrópubandalagsins (94/19/EB, frá 30.

maí 1994) sem segir:

"... tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögmæt yfirvöld

þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð um stofnun

eða opinbera viðurkenningu eins eða fleiri kerfa sem ábyrgjast

innistæðurnar eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja skaðbætur

eða vernd innistæðueigenda í samræmi við skilmálana sem þessi

tilskipun skilgreinir."

Ef einhverjum er skylt að greiða í einhverju máli, þá er skyldan ekki vinnuveitanda hans eða ríkisins. Ef hann á ekki fyrir greiðslunni, þá er það bara þannig. Það sama á við um Tryggingarsjóðinn.

PS. Ég ætla rétt að vona það, Halldór, að þú hafir ekki verið að klappa fyrir Bjarna Benediktssyni þegar hann var að verja hlutleysi sitt gagnvart ríkisábyrgðar-lagasetningunni, í ræðu sinni í Valhöll á laugardag. Ég tók hann að verðleikum á beinið, til krufningar og gagnrýni, vegna þessa máls og vegna hinnar fáheyrðu áskorunar hans á forseta lýðveldisins á þessari vefslóð – ekki sízt í athugasemdunum þar!. Með áskorun sinni gerðist hann farandpredikari fyrir ábyrgð ríkisins og þjóðarinnar á því sem verður kannski þúsund milljarðar króna! Samt finnst honum ekki koma til greina, að þjóðin fái neitt um það að segja!

Megi Valhallarár hans verða sem fæst, nema hann biðji þjóðina afsökunar.

Jón Valur Jensson, 31.8.2009 kl. 12:05

3 Smámynd: Björn Birgisson

Það hafa svo margir logið svo mörgu í þessu Icesave máli að almenningur veit ekki sitt rjúkandi ráð. Úr þessu er líklega best að bíða eftir niðurstöðum rannsakenda og síðan dómstóla.

Björn Birgisson, 31.8.2009 kl. 13:08

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Birgir. Það versta er að þær niðurstöður sem þú og aðrir bíða nú eftir verða að minni spá ennþá óskiljanlegri en staðan í dag. Hugsaðu - hversu mikla vinnu er búið að leggja í að drepa öllum aðalatriðum þessa þjófnaðar á dreif. Og sú vinna hefur farið fram í öllum þeim nefndum og hópum sem skipaðir hafa verið í tíð þriggja síðustu ríkisstjórna. Enda er Eva Joly farin að hrista höfuðið.

Árni Gunnarsson, 31.8.2009 kl. 13:35

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Jón Valur,

Staksteinahöfundurinn dregur einmitt fram að Sigurjón Digri segir allt annað núna en þegar hann var að fremja Icesave.  Þá sagði hann fórnarlömbunum að þetta væri allt tryggt hjá breska ríkinu og Tryggingasjóði( sem hann átti að sjá um sjálfur ?) en gaf til kynna sterklega að hann væri á ábyrgð ríkisins og sagði það svo beinum orðum í bréfinu til Hollendinganna.

Sem sagt hann laug vístvitandi að fórnarlömbunum á sama tíma að hann rak gersamlega grundvallarlega óábyrga útlánastefnu í bankanum þar sem hann lánaði fáum mikið gegn engum tryggingum og tapaði þannig bankanum mínum ! 

 Maðurinn annaðhvort kann ekki undirstöður í bankafræðum eða hann fór vísvitandi gegn því sem hann áttiað vita. Hvort finnst þér betra?

Fyrri Ríkisstjórn gaf út yfirlýsingu um að allar innistæður væru tryggðar þegar allt var sem svartast .  Það kom í gegnum útvarpið til mín þegar  Pétur Blöndal sagði að forsætisráðherra hefði sagt að innistæður væru tryggðar. Og var þá að tala við Íslendinga sem héldu þennan dag að þeira væru búnir að tapa öllum innistæðum sínum í  íslenzku bönkunum, þar á meðal  Landsbankanum hjá Sigurjóni..

Þessar yfirlýsingar gerðu  okkur erfitt fyrir síðar. Kratar auðvitað kokgleyptu allt sem EB segir og réttu rass.... til þess að EB gæti sparkað í það. Og valdasjúklingurinn í VG samþykkti allt sem þeir sögðu honum svo hann gæti verið lengur við völd. Engin prinsíp fyrir Íslands hönd né eigin sjálfsvirðingu hefur sá flokkur.

Það sem þú segir um Bjarna Benediktsson er þér til lítils sóma. Ég var í Valhöll og klappaði fyrir Bjarna., sem stóð sig frábærlega í því að bjarga þjóðinni frá skelfingunni sem landráðaflokkarnir ætluðu að leiða yfir þjóðina með Icesave.

Icesave samningurinn sem Sjálfstæðismenn sömdu í staðinn fyrir ídjótasamninginn sem Seifur Gestsson kom með heim þar sem hann nennti ekki að hanga yfir málinu lengur, er allt annar samningur. Hann er samningur sem við getum staðið við án þess að sökkva í svartnætti.

Í honum eru greiðslur okkar aldrei meiri en 6 % af aukningu þjóðarframleiðslu. Ef hér er kreppa borgum við ekki neitt. Svo er síðasti krókurinn, sem ég held að Pétur Blöndal hafi fundið upp, að samningurinn tekur ekki gildi nema Bretar og Hollendingar samþykki alla fyrirvarana. Felli þeir fyrirvarana þá geta þier bara étið það sem úti frýs. Þá verður þú ánægður og kannski ég líka ánægðari en ég er í dag.

Ég vildi kanna að fara þá leið að segja F.....you við Breta og Hollendinga og sparka AGS út. En það er talið að samningar séu betri leið fyrir Ísland, sem er það sem Bjarni Benediktsson sagðist alltaf mundu setja í 1. sæti ofar allri pólitík. Fyrir því klöppuðu menn lengi í Valhöll.

Það er ekki búið að girða fyrir neitt í þessumnýju samningum að láta reyna á dómstólaleiðina hvort við eigum að borga eða ekki ef við treystum okkur í það.

Icesave samningurinn, sem Sjálfstæðismenn sömdu til að bjarga Íslandi úr klóm landráðaflokkanna Samfylkingar og VG, sem ætluðu að keyra hinn samninginn í gegn óséðan, er allt annar samningur og getur aldrei knésett Íslanedinga eins og hinn samningurinn gat gert.

En aðgöngumiði  Samfylkingar að ESB er keyptur "anyprice" , gersamlega án tillits til Íslands eða þjóðarinnar, það er kratastrófan sem vofir yfir þjóðinni meðan  þetta komma og kratalið er  við völd.

Jón Valur, þú ættir að hætta þessum einslitu mótmælum þínum  og fara að hugsa um hvernig við björgum landinu út úr þessum skelfingum. Það eru flestir kostir vondir í stöðunni en sá sem núna er uppi er sá skársti. Bjarni gat ekki greitt atkvæði á móti samningi sem hann og hans menn sömdu til bjarga landinu og lögðu nótt við dag með að gera.

 Verstu agnúarnir og þeir sem þú hefur óttast mest eru farnir út, það eru núna möguleikar að komast fyrr út úr kreppunni enáður sýndust,

Fylktu þér með mér að baki Bjarna Benediktssyni, hann er foringi okkar Sjálfstæðismanna, við verðum að ganga sem einn maður til að bjarga Íslandi. Þú ert í flokknum og verður þá að sýna einhverja flokkshollustu líka. Þú mættir ekki á fundinn sem þú auðvitað áttir að gera. Þú mætir þá næst.

Halldór Jónsson, 31.8.2009 kl. 14:26

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gerðu þig ekki hlægilegan, Halldór, með orðum þínum. Á ég nú að fara að hylla Bjarna unga Benediktsson, manninn sem skorar á forsetann að vísa þessu máli EKKI til þjóðarinnar?! Sérðu ekki, að sú leið ein síðasta vörnin gegn Icesave-svikasamningnum, sem aldrei átti að gera? Við áttum SAMKVÆMT LAGALEGRI STÖÐU OKKAR aldrei að borga Bretum og Hollendingum neitt. Höfnun þjóðarinnar myndi verða sterk skilaboð út í heim, og svo er bara að fylgja því eftir með öflugri kynningu. Má vel kosta tvo milljarða, getur þess vegna sparað okkur 1000 milljarða!

Segðu mér svo: Er það mönnum til sóma að klappa fyrir þessum dulbúna Icesave-manni þínum?

Og farðu svo ekki rangt með. Ég er ekki lengur í flokknum og hef tilkynnt það opinberlega. Var ennfremur að fá bréf frá Petreu í skrifstofunni í Valhöll, sem segir: "Við höfum móttekið póst þinn þar sem þú óskar eftir að vera tekinn af skrá. Við þökkum fyrir stuðning þinn í gegnum tíðina og vonumst til að eiga hann í framtíðinni. – Nafn þitt hefur verið tekið af skrá."

En flokkurinn fær minn stuðning ekki framar. Ef þér sýnist, geturðu nú farið að telja mig í fjandaflokki þínum, þótt ég beri raunar velvildarhug til þín. En með Bjarna unga í stafni er Sjálfstæðisflokkurinn með glataðan málstað.

Og er hann ekki líka farinn að gæla við Evrópubandalagið? Þvílíkt!

Jón Valur Jensson, 31.8.2009 kl. 15:14

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Jón Valur, 

Ég sé að þú ert einbeittur í þeinni formyrkvun að höfnun sé eina leiðin. Fyrir það fórnar þú fylgd þinni og félagsskap þeirra manna sem stóðu þér þó næst.

Það eru alltaf fleiri en ein leið. Þín leið gengur líklega ekki upp við þær aðstæður sem nú ríkja. Hugsanlega getum við sannað að þú hafir á réttu að standa fyrir rétti. En við verðum að vera á lífi þegar þara að kemur.

Bjarni er ekkert að gæla við ESB. Hann fer eftir landfundarályktun flokksins. Það er meira en varaformaðu og Ragnheiður Ríkarðs gerðu, enda úr kratafjölskyldum báðar.

Það getur vel verið að Bjarni hugsi báðar hliðar á Evrupeningnum. Ég hef farið sjálfur í hring oftar en einu sinni. EN Bjarni segir að þjóðin eigi að ráða. Kratarnir ætla að keyra okkur inn nauðuga viljuga. Það er munurinn. Ætlar þú að hjápa þeim til þess með því að yfirgefa þinn flokk fyrir þá ?

Halldór Jónsson, 31.8.2009 kl. 15:24

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kallaðu mig formyrkvaðan, Halldór, ef þú vilt, þú færð ekkert í staðinn.

Sjálfstæðismenn voru EKKI þeir, sem stóðu mér næst, mundu það. Lífsverndarsinnar og kristnir menn standa mér miklu nær. Þess má sjá greinileg merkin á Moggabloggi mínu, að mjög hafði reynt á þolinmæði mína gagnvart flokksapparatinu. Óbreyttir flokksmenn eru flestir ágætir en forystan hefur verið heyrnarlaus á mörg tilmæli um að hverfa af braut trúlausrar efnishyggju, siðvana hagvaxtarhyggju og meðvirkni með félagspólitískum tízkustefnum. Margsinnis hef ég gagnrýnt flokkinn vegna hinna ófæddu, sem fórnað hefur verið á altari undanlátssemi og meðvirkni, ef ekki beinlínis andkristinnar grunnafstöðu margra olnbogafrekra í flokknum. Menntaða fólkið hefur verið þar mun síðra hinum óbreyttu, þrgar að er gáð, enda sennilega stærilátara.

Ef söngur Bjarna um Evrópubandalagið, sá sem ég heyrði í stuttum viðtölum við hann í fréttum fjölmiðla í fyrradag, er sætur í eyrum þínum, þá er eitthvað að þínu áður svo ágæta tóneyra í pólitiskum efnum. Ég hef raunar tekið eftir þinni eigin óvissu í þessu máli, og þú dæmir hann eflaust út frá því.

Undarlega endar þessi 2. klausa þín; er þetta ástæða til að standa ekki á réttinum? Náði Jón Sigurðsson árangri með sínar réttarkröfur á einu eða fáeinum árum?

Nú er búið að brennimerkja Ísland sem SEKT í því máli, sem landið var SAKLAUST af. Bjarni tók óbeinan þátt í því – og er á virkan hátt að bregða fæti fyrir dómstólaleiðina þessa dagana með óviðeigandi áskorunum sínum á forseta landsins.

"EN Bjarni segir að þjóðin eigi að ráða," segirðu! Hann er einmitt að segja það nú um helgina, að þjóðin eigi EKKI að ráða sínu langstærsta fjárhagsmáli hingað til – ekki einu sinni að fá tækifæri til þess, af því að HANN vilji það ekki. Þvílíkt goð.

"Ætlar þú að hjápa þeim [evrókrötum] til þess [að keyra okkur nauðuga inn í Evrópubandalagið] með því að yfirgefa þinn flokk fyrir þá ?" spyr þú mig. Nei, að sjálfsögðu hjálpa ég ekki erkióvinum okkar til eins né neins í stjórnmáum okkar. Þetta er vita-vonlaust lið, forhertir þar sumir hverjir að svíkja land og þjóð og láta þar tilganginn helga meðalið. Ég finn mér hins vegar ANNAN pólitískan vettvang, og það munu margir aðrir sjálfstæðismenn gera, Halldór Jónsson. Vertu velkominn!

Jón Valur Jensson, 31.8.2009 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband