Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Hvað kallast þetta ?

Vigdís Hauksdóttir skrifar merka grein í Mbl. í dag. Hún vekur athygli á þeim skaða  sem Svandís Svavardóttir er að vinna á hagsmunum þjóðarinnar með því að afsala henni losunarheimildum á hálfri milljón tonna af CO2. Vigdís segir meðal annars:

"Þær losunarheimildir sem Íslendingar hafa yfir að ráða samkvæmt íslenska ákvæðinu eru okkur afar dýrmætar. Hef ég nefnt 15 milljarða - en líklega er sú upphæð stórlega vanmetin miðað við stöðu krónunnar í dag. Umhverfisráðherra hefur neitað þessari staðreynd og markað stefnu fyrir þjóðina alla - að sækjast ekki eftir endurnýjun íslenska ákvæðisins. Það er skylda ríkisstjórnarinnar að berjast fyrir réttindum Íslands á alþjóðavettvangi og fá íslenska ákvæðið viðurkennt sem almennar loftslagsheimildir sem við gætum stundað viðskipti með, átt eða geymt. Fella á allt flug undir tilskipunina 2012 gangi plön eftir og hugmyndir eru uppi um að byggja hér á landi upp iðnað sem losar gróðurhúsaloftegundir sem falla undir tilskipunina.

Íslensku þjóðinni var fenginn lykill að alheimsauðlind í Marrakesh - slík tækifæri fást sjaldan. Umhverfisráðherra hefur nú hafnað rétti okkar til þessarar auðlindar. Þröngsýni umhverfisráðherra er algjör."

Suðurnesjamenn voru með hnefann á lofti í gær vegna framferðis Svandísar gagnvart SV línu.

Hvað skyldi svona háttsemi kallast ef einhver úr Sjálfstæðisflokknum ætti í hlut ?


Samkeppniseftirlit ?

Forstjóri Samkeppniseftirlits fór mikinn í Sjónvarpinu í kvöld. Sagðist eiginlega efast um að samkeppni ríkti á matvörumarkaði. Gylfa ráðherra  tókst í löngu viðtali að segja akkúrat ekkert um það hvort yfirleitt væri samkeppni á Íslandi þegar einstakir aðilar eru með 60 % markaðshlutdeild eða meira. Enda Samfylkingin kostuð af þessum sömu aðilum.

 

Jón Gerald Sullenberger lýsti því hvernig Bónusveldið kúgar allt í kringum sig þannig að enginn þorir að bjóða Jóni neitt né vinna fyrir hann kæliborð. Þeir tveir sem talað var við af ráðamönnum færðu áhorfendum heim sanninn um það hversu gersamlega máttlaust allt ríkiskerfið er enn gagnvart hákörlum viðskiptalífsins.

 

Í USA væri löngu búið að skipta Högum upp. Hér er japlað og fuðað. Alveg sama þó Sullenberger lýsi sömu staðreynd og verslanirnar í uppsveitunum lýsa, að hann fær lægra verð útúr Bónusi en hann getur fengið hjá framleiðendunum. Slík eru heljartök fantanna.  Alveg eins og var hjá KEA á Akureyri einu sinni.

 

Í raun og veru,  þá er það skemmtilegt hvernig Jóhannesi í Bónus hefur tekist að búa til þá mynd af sér í þjóðarsálinni, að hann sé velgjörðamaður almennings , einskonar bangsaafi allra landsmanna, ekkert nema gæðin og gjafmildin. Og víst er þetta vænsti kall sem hefur byggt upp ótrúlegt viðskiptaveldi úr nánast engu,.sem enginn fær séð yfir, hvorki samkeppnis-né skattyfirvöld. Ég tek ofan fyrir slíkum manni.

 

Ég hef hinsvegar lengi velt fyrir mér starfsháttum Bónusar. Ekki held ég samt að allt sé sem sýnist. Verzlunin rekur einkalögreglu á merktum bílum. Þeir ryðjast inní fyrirtæki annarra og skanna verð í hillum án leyfis né samráðs við eigendur. Allt undir þeim formerkjum að þeir séu sífellt að gæta þess að aðrir selji ekki ódýrara en þeir. Og allir trúa þessu af því Jói er svo góður. Hann á líka fjölmiðlaveldi, sem sér um ímyndina ef eitthvað ber uppá og gefur stórt úr pokasjóði sínum, sem neytendur borga.

 

En svo eru aðrir sem segja að lögreglan hans gegni því hlutverki að gæta þess að allir selji dýrar en það verð sem Bónus er búinn að setja hjá sér sem hæfilegt gangverð Þeir setja svo  Hagkaups- og 10-11- verðin þar fyrir ofan.  Lögreglusveitirnar gæti þess að birgjar selji engum ódýrt og fyrirtækið er sagt beita refsiaðgerðum gegn þeim sem dansa útúr línunni. Þannig haldi Bónuslögreglan upp vöruverði í landinu með því að ákvarða lágmarksverðið. Þannig sé  Bónus ábyrgur að stórum hluta fyrir því háa vöruverði sem allir sjá að ríkir í landinu miðað við útlönd. Afganginn sjái íslenzka ríkið um með landbúnaðinum og ofurtollastefnu sinni.

 

Og nú í kvöld staðfestir Sullenberger að þetta sé allt saman svona eins og menn hafa lengi haldið fram. Til viðbótar þora iðnaðarmenn ekki einu sinni að vinna fyrir Jón til þess að styggja ekki Bónus.

 

Þegar ég var í samkeppnisbransanum þá fékk maður ekki að vita hvað keppinauturinn bauð. Það leyndarmál varðveitti kúnninn, sem svaraði með því að versla annarsstaðar byði maður ekki nógu lágt. Og verðið auðvitað lækkaði og lækkaði, sérlega  þegar framboðið var meira en eftirspurnin.

 

Í Bandaríkjunum var ég umsvifalaust handtekinn þegar ég tók mynd af vöruhillu í Albertsson. Þeir vildu vita frá hverjum ég væri . Ég þurfti að basla við að skýra út að myndin væri aðeins til minningar um búðina góðu  þegar ég kæmi heim til Íslands, þar sem engin verzlun hefði viðlíka verð. Þeir sögðu mér skilmerkilega,  að skipulagðar verðnjósnir samkeppnisaðila væru alls ekki liðnar í Bandaríkjunum. Hér tíðkast slíkt fyrir opnum tjöldum og fólk trúir því í blindni að þetta sé í þess eigin þágu. O, sancta simplicita  !

 

Sumir telja að þessi starfsemi Bónusar sé ekkert annað en samkeppnishindrandi njósnastarfsemi  af fyrstu gráðu og brot á friðhelgi eignarréttarins.    Ef þeim væri raunverulega alvara með að selja vöru á lægra verði en samkeppnisaðilinn, þá yrðu þeir að finna út sjálfir hverju þeir treysta sér til.  Kúnninn yrði að finna út úr því hvort þetta væri það verð sem hann vildi taka. 

  

Víða er  hægt nú þegar  að breyta öllum hillumerkingum og kassaverðunum í Bónus  í einu frá skrifstofunni og verður bráðum svo allsstaðar. Verðkönnun verður hægt að stýra á innan við mínútu.Í dag trúa fáir því, að einhver samkeppni ríki á markaði þegar Baugsófreskjan afturgengin  er orðin svo yfirþyrmandi voldug og allsráðandi í samfélaginu.Hagar eru löngu orðnir að Stórabróður þjóðfélagsins og hver skyldi nú stjórna þeim ennþá?.

  

Mörgum finnst því nauðsyn bera til að stöðva framferði Bónus-lögreglunnar og viðskiptaþvingandi starfshætti fyrirtækisins. Það væri  allavega eitt skref í átt til þess að koma aftur á virkri samkeppni á neytendamarkaði. En hana eyðilagði Samkeppnisstofnun þegar hún leyfði samruna Hagkaups og Bónusar. Þessi stofnun er því ekki til nokkurs gagns fyrir almenning. Hagar borguðu bara 300 milljónir(sama upphæð og tengdir aðilar  buðu Davíð Oddssyni fyrir að hætta að rífa kjaft) með brosi á vör. Allt sótt til baka í vasa neytendanna að sjálfsögðu eins og gjafmildin á pokasjóðnum. 

 

Það er alveg sama hvað fólk er að röfla yfir verðsamráði ríkisbankanna eða framferði orkufyrirtækjanna sem hafa snarhækkað heildarverðið í ESB-leik sínum, eða atkvæðasvindli á aðalfundi BYR, eftirlitsstofnanir heyra ekkert, sjá ekkert og segja ekkert nema ef það passar ráðherrum. 

 

Á meðan trúi ég ekki á að Samkeppniseftirlitið, Gylfi Magnússon ráðherra, eða Fjármálaeftirlitið geri nokkurn skapaðan hlut fyrir íslenzka neytendur. Þetta er bara kjaftæði

 


Kool hjá Kollu !

Kolbrún Bergþórsdóttir Samfylkingarkona og Evrópusinni skrifar í Mogga í dag. Hún kveður uppúr í einum grænum  með þreytu og svekkelsi Kratanna yfir taglhnýtingi flokksins hennar  Vinstri grænum. Jafnframt er henni greinilega nóg boðið framferði krataforystunnar.

Kolbrún segir m.a.

"Fróðlegt væri að vita hver af forvígismönnum Samfylkingarinnar fékk þá fáránlegu hugmynd skömmu eftir bankahrunið að hægt væri að vinna með Vinstri-grænum í ríkisstjórn. Einnig væri áhugavert að vita af hverju það tókst svo vel að telja öðrum áhrifamönnum Samfylkingar trú um að þetta samkrull væri einmitt það sem þjóðin þyrfti á að halda. " ...

"Samfylkingin þoldi ekki endalaust pottaglamrið fyrir utan Alþingishúsið og öll ógeðfelldu öskrin og ópin. Samfylkingin reis ekki undir álaginu, neitaði að axla ábyrgð og hljóp fagnandi í fangið á mesta pólitíska afturhaldi nútíma stjórnmálasögu, sem er Vinstri hreyfingin - grænt framboð. ,,,"

"Það var æpandi lýður á Austurvelli sem samanstóð að mestum hluta af kjósendum Vinstri-grænna"....

"Vinstri-græn eru í eðli sínu stjórnarandstöðuflokkur. Þeim líður afskaplega notalega í stjórnarandstöðu þar sem önnur hver setning sem þau láta út úr sér er: Samviska mín leyfir mér ekki að ... "

"vegna þess að því fylgir sú óþægilega staða að verða að taka óvinsælar ákvarðanir."

Var ekki Ögmundur að segja af sér ?

Í kvöld kom svo yfirlýsing Steingríms J. að innan ríkisstjórnarinnar ríkti hin mesta eindrægni og ekki slitnaði slefan milli sín og Jóhönnu.

Þingmenn Samfylkingarinnar eru allir mállausir og heyrnarlausir, jafnvel Össur steinheldur sér saman og áttu menn nú öðru að venjast. Ekki heyist tíst í neinum þeirra um neitt sem máli skiptir, enginn hefur skoðun á aðgerðum Svandísar um útrýmingu stóriðju-og virkjanaáforma landamanna til næsta áratugar. Hafi menn velkst í vafa með hentistefnu og hvikulleik Krataflokksins þá geta þeir sömu klórað sér í höfðinu. Hvað stefnu er eiginleg fylgt af núverandi ríkisstjórn?

Kolbrún klykkir út með þessu :

"Saga Vinstri-grænna í ríkisstjórn er dapurleg og verður, þjóðarinnar vegna, vonandi ekki löng. Það er komið nóg. "

Óbilandi kærleikur á stjórnarheimilinu segir Steingrímur.

Ögmundur þegir eins og ugla á grein.

 

Er þetta bara "kool" hjá Kollu eða er fætur einhverra farnir að kólna í Samfylkingunni ?

 


Dýr fjölskylda !

Faðirinn, Svavar Gestsson, var sendur að semja um Icesave. Hann vildi spara dagpeningana og nennti ekki að sitja lengur yfir þessu stagli. Skrifaði undir blankótékk fyrir hönd mín og annarra að borga hvað sem væri með vöxtum til Breta og Hollendinga. Flokksforinginn, Steingrímur J. fagnaði glæsilegri niðurstöðu í samningum sem hann hálfu ári fyrr vildi ekkert hafa með með að gera. Stefnufesta Steingríms í þessu máli og ESB málinu vekur líka óskipta aðdáun allra sem á horfa. 

Dóttirin, Svandís Svavarsdóttir, er alveg klár á því að engin orka sé í boði handa frekari stóriðju. Því slær hún Suðurlínu af til þess að engin orka berist til netþjónabúa í Keflavík eða álvers í Helguvík. Hún  afsalar sér íslenzka ákvæðinu um losunarkvóta, sem er talinn jafnvirði 15 MILLJARÐA Á ÁRI og setur okkur í KAUPENDAHÓP slíkra kvóta.  Þrátt fyrir það að af 80 Terawattstundum virkjanlegrar orku á Íslandi hafi aðeins 18 verið virkjuð, þá er þetta nóg fyrir hana til að sparka Alcoa á dyr því hér sé enga orku að hafa. Hún er líka klár á því fyrir hönd Orkuveitu Reykjavíkur, að hún hafi ekkert við frekari lán til orkuöflunar að gera. Hún sé nægilega skuldsett fyrir. þvílík mannvitsbrekka er hún Svandís Svavarsdóttir.

"Grát ástkæra fósturmold" sagði einu sinni hryggur maður í sínu heimalandi.

Getur maður horft þurrum augum á slíka meðferð á landinu sínu og þjóðar í fjötrum?

Hvaða verð erum við tilbúin að borga fyrir eina dýra fjölskyldu og hversu lengi ?

Ein dýr fjölskylda ræður för heillar þjóðar fram af bjargbrúninni ! 


Traust !.

Á Íslandi ríkir ekki traust meðal manna. Hver tortryggir annan. Líklega mun meira á stjórnmálasviðinu en viðskiptasviðinu. Maður hittir ennþá sanna Íslendinga, sem eiga viðskipti með handabandi og það stendur. Ég er ekki viss um að þetta sé mikið tíðkað meðal nýbúa ennþá, enda eru þeir nákvæmari með vaskaviðskipti og svoleiðis.  

Það er skortur á trausti meðal manna, sem er orsakavaldur kreppunnar. Það er enginn hörgull á gæðum jarðar, það er enginn hörgull á peningum, það er enginn hörgull á framleiðslugetu, það er enginn hörgull vináttu milli manna, ást milli karla og kvenna. Það er bara hörgull á því að við treystum stjórnmálamönnum. Þeir eru nefnilega búnir að reynast vera lygarar. Þeir lugu að okkur um að þeir væru svo klárir að við gætum treyst leiðsögn þeirra. Svo var ekki. Og þeir ljúga enn hver um annan þveran. Folk á enn eftir að greina á milli lygalaupa og ærlegra.

Satt og logið sitt er hvað

sönnu er besta að trúa.

En hvernig á að þekkja það,

þegar flestir ljúga.

Ég veit ekki hvort þetta er ekki eftir langafa minn  Jón Ólafsson ritstjóra. En kannski veit það einhver betur.

Kreppan leysist daginn sem menn fara að treysta hvorir öðrum.  Ekki fyrr. Þegar þú ferð að skipta um gír, hleypa umburðarlyndinu inn og víkja hatrinu til hliðar, þá lætur kreppan undan síga.

Peningakerfið, gjaldeyrishöftin, tortryggnin, verðbólga, gengisfellingar, allt voru þetta staðreyndir sem ég þurfti að glíma við lengstan minn aldur í viðskiptum. 

Þegar við frændurnir Sveinn og ég  stjórnuðum Steypustöðinni gömlu stóðu menn í röðum eftir því að fá að skipta á krónunum sínum og ótryggðum kvittunum frá okkur fyrir steypuinneign til næsta árs. Sem sagt kvittanir frá okkur voru betri en peningaseðlar með undirskrift Jóhannesar  Nordal og fleiri stórstirna bankaheimsins.  

Ég held nú að  fólk myndi ekki treysta Steingrími J. fyrir sparifé sínu í sama mæli og okkur frændum var treyst þá. Hver vill skipta á peningaseðli og inneignarnótu hjá íslensku fyrirtæki, jafnvel ríkisfyrirtæki,  í dag ? Eða loforði stjórnmálamanns ?O tempora ,O mores!

Ég held að það væri betur að ríkinu væri stjórnað  eins og Steypustöðinni var stjórnað á þeim miklu umbrotatímum sem þá ríktu. En þá voru stjórnvöld heldur ekki nærri eins vitlaus og þau eru núna, þó þau hafi verið kolvitlaus að flestra dómi þá.

Kreppan mun leysast þegar traust milli manna fer að sjá dagsins ljós aftur.

Rotschild varð að fyrsta bankanum af því að menn treystu honum til að geyma gullið sitt. Enginn fær gull til geymslu sem ekki er treyst. Íslenzlu bankaglæpamennirnir sködduððu hið heilaga bankatraust. Þeir sköðuðu hin dýrustu gildi mannlegs heiðurs.Þeir stálu eyri ekkjunnar án þess að depla auga. Þess vegna verða þeir að verða útlægir áður en við getum byggt upp aftur.

Dagur traustsins er ekki enn upp runninn í heiminum. En hann kemur.


Þorvaldur enn á ferð.

Enn drýpur úr Auðhumlu Baugs og Þorvaldar Gylfasonar. “Landið leikur á reiðiskjálfi” hjá Þorvaldi vegna spillingar Sjálfstæðisflokksins frá stofnunar hans. Vikulegir pistlar Þorvaldar í Fréttablaðinu um þetta sama mál eru orðnir jafnvissir og rigningin. “Ísland er sjálftökusamfélag. Forréttindahópum hefur með fulltingi stjórnmálamanna haldizt uppi að skara eld að eigin köku með því að skammta sjálfum sér hlunnindi og fé á kostnað almennings.”

Man enginn eftir bitlingum Kratanna hér á árum áður? Hvernig börn ráherra ferðuðust um heiminn á grænum diplómatapössum? Veislum og áfengiskaupum á kostnað ríkisins ? Hvernig Krötum var raðað á allar lausar ríkisjötur í samkvæmt þriðjungaskiptareglunni?

Nei, þetta var partur af hefðbundnum helmingaskiptum” segir Þorvaldur eins og Kratar hafi hvergi að komið.

“Hver skyldi hafa reist sér sumarbústað í þjóðgarðinum á Þingvöllum næst Valhöll, sem nú er nýbrunnin? Það var formaður Þingvallanefndar, nema hvað, þá þingmaður Sjálfstæðisflokksins..

Já já, það voru margir hneykslaðir á ráðstöfunum Þingvallanefndar á sínum tíma. Hvernig var hún nú samsett ? Voru ekki Kratar í henni ? Hvað fengu þeir í sinn hlut ?

 Til eru skrifaðar heimildir á stangli um gamalt bankamisferli, til dæmis ritgerð í Skírni eftir Sigurð Nordal prófessor 1924 og nokkru yngri bréfaskipti bræðranna Bjarna og Péturs Benediktssona, sem ég hef rifjað upp á þessum stað og víðar, en misferlið var aldrei dregið fram í dagsljósið.”  Já Sjálfstæðisflokkurinn og allt sem honum tengist er í forgrunninum hjá Þorvaldi og kostunaraðilanum Baugi eins og fyrri daginn. Og nú skal ríkisvæða róg um lygi.Þorvaldur er hróðugur yfir  nokkurskonar "Stofnunar Gróu á Leiti "við Háskóla Íslands:  

“Í fyrsta lagi er nú starfrækt í Háskóla Íslands Miðstöð munnlegrar sögu, sem Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, veitir stjórnarforustu. Til miðstöðvarinnar geta menn beint upplýsingum, sem þeir telja geta komið að gagni við að skrá sögu landsins rétt. Gefi nógu margir glöggir menn sig fram, hlýtur miðstöðin að veita upplýsingum þeirra í frjóan farveg.”...“Þjóðminjasafnið þyrfti að láta semja og senda út slíka spurningalista um gömlu spillinguna: forréttindi, frænddrægni, fyrirgreiðslu, klíkuskap, mútur, nápot og annað hefðhelgað svindl, sem fólk ýmist þekkir sjálft af eigin raun eða man eftir öðrum leiðum.”

 

Ætli það sé Sagnabrunnur Samfylkingarinnar sem ætlunin er að fylla með gömlum sögum um spillinguna?  Ekki ónýtt að geta átt gagnagrunn til að skrifa niður Sjálfstæðisflokkinn með því að finna sögur um einstaka flokksmenn hans.

  

Þorvaldur Gylfason er haldinn þeirri útbreiddu firru að Sjálfstæðisflokkurinn  sé ábyrgur fyrir einstökum flokksmönnum. Það hvarflar aldrei að honum hvert slíkur þankagangur leiðir ef Alþýðuflokkurinn til dæmis ætti í hlut. En prófessor ætti að geta greint betur hismið frá kjarnanum en sauðsvartur almúginn.

 

En ekki er Þorvaldi alls varnað:

“Ísland er sjálftökusamfélag. Forréttindahópum hefur með fulltingi stjórnmálamanna haldizt uppi að skara eld að eigin köku með því að skammta sjálfum sér hlunnindi og fé á kostnað almennings. Ókeypis úthlutun aflaheimilda til útvegsmanna samkvæmt lögum, sem þeir sömdu sjálfir og Alþingi samþykkti, er augljóst og afdrifaríkt dæmi. Illa útfærð einkavæðing bankanna fyrir fáeinum árum”

Hvort sem veldur að Baugur hefur aldrei verið í útgerð og kom ekki að bönkunum fyrr en á síðari stigum, að Þorvaldur skrifar þetta eða ekki, þá er þetta eitthvað sem ætti að hverfa á Íslandi framtíðarinnar. .

Það eru hinsvegar málefni framtíðar sem skipta máli í stjórnmálum. Ekki fortíðarstýring. Þetta gengur mörgum erfiðlega að skilja. Þorvaldur ætti að eyða meiri tíma í það en að rifja upp Gróusögur um einstaka Sjálfstæðismenn, lífs og kliðna.

 

Rasskellti ráðherrann!

Ekki var hann beysinn hann Steingrímur J. heimkominn af fundinum í Tyrkeríinu hjá "His Masters Voice" AGS. Greinilega hafði ráðherrann verið kyrfilega rasskelltur þar og sagt að snáfa heim og samþykkja Icesave áður en þeir myndi tala við Íslendinga aftur.

Nú situr ráðherrann á fundi með græningjunum sínum og reynir að láta Ögmund kyssa á AGS-vöndinn til þess að Steingrímur geti verið ráðherra obbolítið lengur.

Aumingja rasskellti og ráðalausi ráðherrann! Þá lá við að ég vorkenndi honum.


Þjóðarklisjur.

Getur ekki verið að við Íslendingar séum búnir að festa okkur í allskyns stórasannleikjum án þess að hugsa um hvort þeirra sé þörf?

EES er svo mikið töfraorð að það er eins sjálfsagt og eftirsóknarvert eins og himnaríki, þó enginn viti nákvæmlega hvernig þangað er farið? Þetta er eitthvað ginnheilagt sem enginn má draga í efa að hafi gert okkur eitthvað gott ?   

Eitt af markmiðum ríkisstjórnar okkar, fyrir utan að hækka skatta, er að byggja upp norrænt velferðarkerfi. Ekki veit ég hvernig slíkt kerfi er í laginu. Ég hef heyrt  að í Danmörku séu veitt verðlaun fyrir að benda á möguleg skattsvik nágrannans. Láta vita ef hann kaupir sér nýjar mublur eða fer oft til útlanda. Vantar þetta ekki hér ? Og til þessarar uppbyggingar norræns velferðarkerfis þarf ógrynni lánsfjár, sem verður að koma frá AGS, og kemur ekki nema við borgum það allt til Icesave.

Catch 22 !

Þarf þetta kerfi ef það hefur ekki verið hérna undanfarna áratugi ? Af hverju núna ?

Stjórnlagaþing? Það bráðvantar segir Jóhanna. En hefur mig vantað þetta eitthvað sérstaklega ? Ég hef ekki fundið það á mér.

Steingrímur J. segir okkur að borgum við ekki ICESAVE, þá sé  allt til andskotans. En hvernig? Hvað gerist ? Vill einhver segja okkur það ? Hvað er gert ef Íslendingar segjast ekkert geta borgað um þessar mundir? Af hverju verð ég að standa í einhverju ástarsambandi við Breta og Hollendinga ? Get ég ekki bara sneitt hjá þeim meðan þeir kólna niður?

Ef við förum ekki í ESB þá einöngrumst við alþjóðlega? Eru ekki meira en hundrað lönd utan þess ? Hvernig komast þau af ?

Ef við göngum úr Schengen þá þurfum við passa til að fara í flugvél til Evrópu. En er ekki alltaf spurt um passa í Keflavík ? Lettneskir glæpamenn þurfa hinsvegar ekki passa til að komast hingað inn.

Við verðum að hafa forsetaembætti til þess að við getum haft sameiningartákn eins og Ólaf Ragnar Grímsson ? En til hvers raunverulega? Hvað gerir þetta embætti fyrir vesælan mig ?  Get ég verið án þess ? Ég verð líka að vera án forseta allan tímann sem Ólafur er í útlöndum, sem eru allt að 200 dagar á ári.

Ég hélt einu sinni að ég yrði að lesa Moggann á hverjum degi. En svo er ég samt lifandi- eða held að ég sé það. Ég veit ekki nema ég verði að lesa hann eftir að Davíð varð þar ritstjóri Ð Nema ég komist af án þess ?

Hvernig á maður að gera nýtt gildismat fyrir sjálfan sig ?

Verður maður að hafa yfir einhverjar þjóðarklisjur til að geta farið á fætur á morgnana?


Nú byrjar Bergmann.

Nú ryðst Evrópufræðingurinn Eiríkur Bergmann fram á völlinn og byrjar að hóta Íslendingum ef þeir ekki samþykki Icesave. Þá sé EES samningurinn í hættu.

Hvernig færi að við færum að gera upp hvað við höfum grætt á EES.

1.Hefði bankahrunið orðið án EES?

2.Væri hér allt vaðandi í erlendum glæpamönnum án EES ?

3.Hefði þjóðfélagið sporðsreists af uppgangi þotuliðsins án EES ?

4.Hefðu krónubréfin komið án EES ?

5.Hefði útrásin orðið án ES ?

Hver er þá nettógróðinn af Eiríki Bergmann, Jóni Baldvin og EES ? Hefði fiskurinn ekki selst og stóriðjan og virkjanirnar verið byggðar  þó að það hefði ekki komið til ?

Er ástæða til að láta Bergmann hræða okkur með órökstuddum upphrópunum ?


Bjarni góður!

Ég var ánægður með minn formann í eldhúsdagsumræðunum í kvöld. Bjarni Benediktsson flutti skilmerkilega ræðu af sannfæringarkrafti og þrótti. Það fer ekki á milli mála að þar fer forystumaður sem veit hvað hann er að tala um. Og þjóðin er sammála honum, það má glöggt sjá af allri umræðunni í öllum hornum þjólífsins. Nema í því sem opinberlega eru leifarnar af ríkisstjórnarherbúðunum.

Jóhanna var ósköp umkomulaus þar sem hún stautaði sig í gegnum stílinn sinn, vitandi að herinn hennar er flúinn. Ekki var boðskapurinn uppörvandi, meiri skattar, meiri píslir AGS, meira Icesave, meira Evrópubandalag. Henni er auðvitað vorkunn að standa þarna og tala um stefnu ríkisstjórnar sem er orðin þátíð. Það er ekki nein samstaða í stjórninni þar sem ljóst er að allmargir þingmenn VG ætla ekki að kyngja hverju sem er og láta handjárna sig við siglutré ríkisstjórnar SteinHönnu og sökkva með skipinu.

Hvað er í stöðunni ?

Á þingi sitja 12xVG, 15xD, 9xB og 4xfríliðar fyrir utan 23xS. Jafnvel þó að Sari gengi til liðs við D og B til að verja minnihlutastjórn Ögmundar og 3xVG þá gengur það ekki upp, til þess þyrfti alla hreyfinguna og þann óháða líka. Aðrar kombínasjónir er búið að prófa. Það er því stjórnarkreppa.

Svarið er þá kosningar ekki seinna en strax. Miðað við þá gjaldeyriseyðslu sem fyrir höndum er við umsóknina að ESB, þá er innlendur kostnaður við kosningar hverfandi. Það þarf því ekki að koma með kostnaðarrök á móti kosningum.

Ný ríkisstjórn myndi áreiðanlega láta verða sitt fyrsta verk að draga umsóknina um EB aðild til baka, fresta  Icesave málum, en endurnýja viljayfirlýsingu um álver á Bakka, stækkun í Straumsvík og Helguvík. Gera eitthvað meira en bara tala um framkvæmdir og erlent fjármagn inn í landið. Gera eitthvað í bankamálunum og greiðsluvanda heimilanna. Hækka ekki skattana eins og SteinHanna boðar.

Það er lífsnauðsynlegt að reyna að gangsetja atvinnulífið. Bjarni Benediktsson bendir á leiðir sem eru mun líklegri til að verða léttbærari fyrir almenning en útópískar skattahugmyndir Steingríms og hugmyndasmiðsins Indriða, sem leiða beint til þess að drepa allt atvinnulíf niður í landinu, sökkva því í skuldir og skatta og fara endanlega með tiltrú viðskiptaheimsins á því, að hægt sé að fjárfesta á Íslandi til lengri tíma litið. 

Áfram Bjarni ! Fólkið heyrir til þín og Sjálfstæðisflokksins!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband