"Á uppgangstíma efnahagslífsins óx háskólakerfið með sama ógnarhraða og mörg önnur svið samfélagsins. Samkeppni varð boðorð dagsins og háskólarnir hófu að keppa hver við aðra um nemendur. Samkeppnin átti í orði kveðnu að auka gæði og fjölbreytni í háskólastarfi. En jafnvel þótt slíku sé haldið fram í hátíðarræðum hygg ég að flestir sem hafa starfað við háskólakennslu á Íslandi lengur en áratug viti mætavel að námskröfur hafa stöðugt minnkað eftir því sem kló samkeppninnar hefur gripið þéttar. Þetta á jafnt við í öllum skólunum, ríkisskólum sem öðrum, enda tilkomið af kerfislægri skekkju og varð meðal annars til með því reikningslíkani sem skiptir opinberu fé á milli háskóla landsins.
Kerfið bókstaflega hvetur skólana til að kenna í risastórum hópum og fjöldaframleiða prófskírteini burt séð frá gæðum menntunarinnar. Smám saman þrýstir samkeppnin öllu í sama farveginn. Við þessari þróun þarf að sporna. Þess vegna er sú umræða sem nú fer fram um hagræðingu í háskólakerfinu einkar tímabær og mikilvægt að vel takist til. Þrátt fyrir mismunandi rekstrarform er hérlent háskólastarf að mestu fjármagnað af opinberu fé og snertir því allt samfélagið "
Síðan spyr Eiríkur :
"En hvert er hlutverk háskóla? Er það einvörðungu að undirbúa nemendur undir tiltekin störf? ...."
Frá mínum bæjardyrum séð þá er þetta frumtilgangur Háskóla. Menn eru að ná sér í eitthvað sem þeir geti étið seinna. Eiríkur er í rauninni ekki ósammála þessu að öllu leyti. Ég sé Háskóla sem suðupott nýrra hugmynda og í gegnum þá renna hinir bestu og björtustu og þar verður víxlfrjóvgun hugmynda nemendanna og reynslu kennaranna, Þetta finnst mér að vera hin duldi ávinningur háskólastarfsemi fyrir þjóðfélagið,sem er ekki svo auðvelt að mæla í krónum og aurum en er samt bakbein alls efnahagslífsins til lengri tíma.
En ég hef hinsvegar lengi haft illan grun um það, að á Íslandi það séu grunnskólarnir sem eigi þátt í hnignun, útþynningu og ofvexti háskólanna. Mér finnst til dæmis að reiknikennslu í grunnskólum hafi stórkostlega hnignað á síðustu árum. Þegar mengjadellan reið yfir og sænskar sálfræðikenningar svifu yfir vötnunum í stað eyrnafíkna og almenns aga í skólunum, hugsanlega vegna brottfalls karlkyns kennara, og nemendum var ekki lengur skylt að kunna margföldunartöfluna, þá fór allt að snúast á verri veg. Grunnskólunum hnignaði. Hvaða erindi á 17 ára unglingur, sem getur ekki margfaldað eða deilt á blaði í háskóla ? Unglingur sem hefur komist upp með óábyrga hegðun í skólanum til lengri tíma? En kerfið hleypir honum þannig útbúnum áfram í námslán og þjóðhagslega lítilsverðs náms í kjaftafræðum á háskólastigi.
Eiríkur segir enn:
"Fámennið er auðvitað takmarkandi, í samanburði við önnur lönd ber Ísland tæpast einn háskóla í merkingunni Universitas. Dramb um að íslenskir háskólar verði meðal þeirra bestu í heimi þjónar því engu öðru en uppblásinni þjóðrembu og er ekkert nær sannleikanum en þegar við héldum að íslenskir bankamenn væru öðrum fremri. Verkefnið nú er að búa til gott háskólakerfi sem styður við heilbrigt samfélag og hjálpar nemendum við að takast á við sjálfa sig, lífið og tilveruna....."
Bravó Eiríkur !
Svo auglýsir Eiríkur sjálfan sig og sín baráttumál um að ganga í ESB:
"Háskólinn á Bifröst hefur þá sérstöðu að kenna fámennum hópum og byggja á fjölbreyttum verkefnum."
Í ljósi þess hversu mörgum Eiríkur Bergmann hefur náð að snúa frá Evrópusambandinu með áróðri sínum í gegnum tíðina, þá geri ég ekki athugasemdir við þetta.
En Eiríki er ekki alls varnað !