Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Línurnar eru óðum að skýrast.

 Viðskiptaráð ályktaði 3.apríl um gjaldeyrismálin. Útdráttur úr ályktuninni er svohljóðandi : 

"Staðan í gjaldeyrismálum þjóðarinnar er óviðunandi. Eftir þrot bankanna á síðasta ári og inngrip stjórnvalda á gjaldeyrismarkaði með setningu víðtækra hafta er íslenska krónan rúin trausti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þessi staðreynd takmarkar verulega umsvif íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi sem og almenna getu landsins til utanríkisviðskipta. Um þessar mundir stendur krónan einnig í vegi fyrir flæði erlends fjármagns inn í landið en við því má íslenska hagkerfið ekki til lengri tíma.

Haftakróna líkt og nú er við lýði getur vart verið hugsuð sem framtíðarlausn, enda sýnir nýleg endurskoðun á löggjöf um gjaldeyrisviðskipti hversu óskilvirkt stýritæki gjaldeyrishöft - og höft almennt - eru.

Engu að síður er ekki ljóst hvernig krónan verður losuð úr viðjum hafta án þess að því fylgi veruleg veiking á gengi hennar með tilheyrandi áföllum fyrir hagkerfið. Þegar horft er til lengri tíma eykur óbreytt fyrirkomulag í gjaldeyris- og peningamálum þjóðarinnar líkur á stöðnun og efnahagslegri einangrun Íslands. Þess vegna er vart hægt að líta framhjá því að upptaka annarrar myntar hér á landi, í fullri sátt og samráði við alþjóðasamfélagið, gæti orðið verulega til bóta fyrir innlendan efnahag, jafnt til skemmri og lengri tíma.

Í raun stendur valið ekki lengur á milli áframhaldandi sjálfstæðrar peningastefnu og upptöku annarrar myntar, heldur má færa gild rök fyrir því að valið standi einfaldlega á milli upptöku annarrar myntar eða framhaldi á núverandi stöðu.

Lausn á þessu vandamál er líklega mikilvægasta viðfangsefnið í dag, enda munu örlög heimila og atvinnulífs að miklu leyti ráðast af gengisþróun næstu missera. Þessir aðilar eiga heimtingu á því að stjórnmálaflokkar landsins skýri með markvissum og greinargóðum hætti hvernig þeir hyggjast taka á þessu stærsta hagsmunamáli samtímans.

Það felst mikill skortur á framsýni í þeim málflutningi að um sé að ræða seinni tíma vandamál og því þurfi ekki að kynna lausnir þegar í stað. Að sama skapi felst í því virðingarleysi gagnvart þeim fjölmörgu heimilum og fyrirtækjum sem eiga allt sitt undir þróun á gengi krónunnar á komandi misserum."

Skoðunina í heild má nálgast á vef Viðaskiptaráðs.

 Fjármál þjóðarinnar eru í lás og höftum hvað sem EES samningnum líður, sem Jón Baldvin montaði sig sem mest af um árið. Enda reyndist Samfylkingin ekki mikið hrifin að fá Jón gamla aftur til forystu þegar henni var svo boðið. 

 

Jöklabréfin halda okkur í herkví. Þar finnst engin lausn önnur en að borga og það getum við ekki.  Sama er með Icesave.  Steingrímur hafi lofaði okkur því að Svavar Gestsson væri að gera kraftaverk  á alþjóðasviðinu  en gengisfelldi svo loforðið skömmu seinna .  Svo við erum áfram í umsátri Evrópuþjóðanna og Evrópubandalagsins. Við getum ekki fengið nægilega mikinn gjaldeyri til þess að hreinsa út og byrja uppá nýtt. Sem við verðum samt að gera einhverntímann hvernig svo sem við förum að því eða hvenær eins og Viðskiptaráðið hefur áhyggjur af að geti orðið bið á.

 

 Ef krónunni væri fleytt í dag myndi gengi hennar falla stórkostlega um leið og gjaldeyrisyfirdrátturinn hjá AGS tæmdist úr landi.   Verðbólgan ryki upp og verðtrygging lánanna í takt við það.

 

En hið sama yrði uppá teningnum ef skipt væri um mynt eins og margir fleiri en Viðskiptaráðið hafa bent á.  Það myndi nefnilega ekki vera skipt á okkar skráða gengi heldur því alþjóðlega, sem er helmingi hærra.   Áhrifin yrðu því hin sömu og krónufleytingarinnar nema við gætum ekki prentað innanlands uppí gatið. Í raun og veru eru Íslendingar gjaldþrota og útrásarvíkingarnir farnir úr landi með þjóðarauðinn sem var.

Það bendir nú margt til þess að hveitibrauðsdagar vinstristjórnar okkar ástsæla  forseta, Jóhönnu og Steingríms J. sé að líða. Kjósendur  átti sig á því að það er nákvæmlega ekkert að gerast á vettvangi ríkisstjórnarinnar nema að sprengja reyksprengjur um stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing, sem engu breyta um þá alvarlegu stöðu sem nú er uppi þegar 18000 manns eru án atvinnu og fer fjölgandi. 

 

Þessu til stuðnings má benda á skoðanakönnun um fylgi flokkanna. Úrtakið var 2500 manns og svarhlutfall var 61 %.  Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig einu prósenti í fylgi og fer úr 24.4. % í 25.4 %. Samfylkingin tapar 0.6 % og Framsókn fer niður í 10.7 % fylgi. Svarhlutfall í könnuninni var aðeins 61 %.  Þessi þróun gengur tæplega til baka á þeim skamma tíma sem er til kosninga. Miklu fremur munu fylkingarnar síga saman og gera stjórnarmyndun eftir kosningar ekki eins vísa og margir telja nú.

 

Línurnar  í  pólitíkinni eru óðum að skýrast fyrir þessar kosningar. VG vilja leggja á 2 % eignaskatt og hátekjuskatt,  sem að vanda mun leggjast beint á miðlungstekjur. Auk þess stórhækka fjármagnstekjuskatt.  Samfylkingin vill neyða okkur til að sækja um aðild að ESB. En Sjálfstæðisflokkurinn er á móti ESB og vill ekki leggja á nýja skatta.   VG hafa ekki beygt sig fyrir Samfylkingunni hvað aðildarumsókn  varðar.  Öll nýju framboðin virðast dauðadæmd og koma engu til leiðar nema drepa atkvæði.  Sjálfstæðisflokkurinn og VG eru í sókn fyrir kosningarnar. 

 Línurnar eru óðum að skýrast.

 

Kreppan í aðsigi ?

Óveðursskýin hrannast upp á himninum. Nú eru atvinnulausir orðnir yfir 18 þúsund talsins og fjölgar stöðugt. Á Alþingi situr ráðlítið fólk og pexar um næsta léttvæg  mál til lausnar vandanum. Flausturslegar stjórnarskrárbreytingar, sem ríkisstjórnin ætlar að knýja í gegn gera akkúrat ekkert til lausnar vandanum.

Steingrímur J. undirbýr varanlegar skattahækkanirnar Indriða Þorlákssonar af miklum móð, sem hann ætlar að opinbera eftir kosningar. Hvað Jóhanna er að gera veit ég ekki nema að undirbúa stjórnlagaþing, sem enginn veit hverjir eiga að skipa eða hvað eigi að gera.  Þangað verða væntanlega valdir þóknanlegir fulltrúar til að undirbúa stofnun Alþýðulýðveldisins Íslands.

Ekkert, akkúrat ekkert , er verið að gera í þágu fólksins í landinu nema að prenta tvomilljarða af peningum  og útbýta til atvinnulausra í gær auk 15 milljarða  í Tónlistarhús.  3 ríkisbankar  stritast við að rukka inn vanskilaskuldir almennings og nú fer að líða að nauðungaruppboðum og gjaldþrotum heimilanna.  Ef á virkilega að hagræða í ríkisrekstri ætti Steingrímur að athuga með að sameina ríkisbankana  í einn og bæta þannig myndarlega á atvinnuleysisskrána í niðurskurðaskyni.    

Gjaldeyrishöft og spilling útgerðarmanna í framhaldi af þeim, er hinn daglegi veruleiki þjóðarinnar. Ríkisfyrirtækjum fjölgar dag frá degi og 2 % vextir til gælufyrirtækjanna eru helstu efnahagsráðstafanir ráðlausrar ríkisstjórnar Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem landsmenn eiga víst að endurkjósa eins og Sfinxinn útá þögnina eina.

Krónubréfin halda áfram að ógna tilveru þjóðarinnar.  Meðan þau bíða þarna er þjóðin og krónan í umsátri. Munum við verða að fara að dæmi Þjóðverja eftir gamla stríðið og setja krónuna á flot ? Borga Jöklabréfin með nýprentuðum 300 krónu dollurum ?  Lýsa yfir þjóðargjaldþroti og þarmeð greiðslufalli á erlendar skuldir eins og Icesave í nýrri Eigilstaðasamþykkt ?   Leggja krónuna svo niður og taka upp nýja mynt ?  Svakaleg tilhugsun ?  

 Hjalmar Schacht framkvæmdi peningaskipti eftir óðaverðbólguna í Þýzkalandi þegar hann tók upp Rentenmark á genginu 1:10 í veldinu 12 og setti það 1: 4 á móti dollar.  Rentumarkið var tryggt með allsherjarveði í öllum ríkiseignum Þýzkalands og landi.   Þetta varð sársaukafullt upphaf að endurreisn Þýzkalands eftir Weimarlýðveldið.  En hvað átti að gera ? Þetta  leiddi endurreisnar stvinnuveganna en auk þess til hervæðingar og þriðjaríkis Hitlers. Þar kom að  Hitler rak Hjálmar úr embætti ríkisbankastjóra og var hann því sýknaður af ábyrgð í Nürnberg 1947.  Þessi maður skrifaði 26 bækur og er án efa einn merkasti peningamaður allra tíma.

Þjóðarþjófarnir okkar leika lausum hala. Sem breytir engu því ekkert er af þeim að hafa. Þeir nefnilega töpuðu á öllu sem þeir komu nálægt því þeir voru viðskiptafífl en ekki séní eins og þeir þóttust vera.   Við borgum bara Evu Joly vel á meðan fyrir að rannsaka þá. En vitum svo líka að íslenzka dómskerfið er algerlega  ófært til að fást við flókin mál alþjóðlegra viðskiptajöfra með myndarlega lögfræðingahjörð eins og dæmin sanna. Það ræður víst bara við innbrot í sjoppur eins og Davíð sagði.

Ef við Íslendingar  komum ekki neinum framkvæmdum á stað í landinu þá heldur ástandið áfram að versna.  Engar framkvæmdir verða án fjármagns. Núverandi spennitreyja peningamála leysir ekki fjárhagsvanda þjóðarinnar, hversu margir Norðmenn sem eru fengnir að Seðlabankanum eða hversu miklir nýir skattar verða lagðir á almenning með blessun AGS.

Í sjónvarpinu í gær lýsti Atli Gíslason yfir því að samhliða bankahruninu á Íslandi hefði orðið lýðræðishrun.  Sjaldan er ég sammála þingmönnum VG.  En þegar óður skríllinn réðist á þinghúsið og stjórnarráðið og grýtti lögregluna, þá fannst mér lýðræðið og siðmenningin hrynja á Íslandi. Afskræmt heiftarandlit  rithöfundarins Hallgríms Helgasonar og framrúðunni hjá Geir Haarde gleymist manni seint.   Ég held að það hafi aðeins munað  hársbreidd að byltingin hefði tekist um þessar mundir.  Alþingi brotnaði saman og við tók sú upplausn sem við búum við í dag.

Eins og nú horfir getur alvarleg kreppa verið  í aðsigi.  Hungursneyð ættu Íslendingar lílega að geta forðast með fiskimiðum og auðlindum sínum.  En ekki get ég séð fyrir allra þær hörmungar sem við okkar geta blasað ef allt heldur áfram á sömu braut og nú stefnir.    Ekki kem ég auga á mann á borð við  Hjálmar Schacht til þess að vísa okkur veginn fram. Og víst sýnist mér er að hann er ekki að finna innan ríkisstjórnarinnar.  Því  er linun þjáninga þjóðarinnar  ekki í sjónmáli enn.  Hvað sem er   fimbulfambað um annað í aðdraganda óþarfra  skyndikosninganna framundan. 

Meðan við dundum okkur í pólitísku þrefi, þá skeður svo sem ekkert alvarlegt.  En við verðum hinsvegar að gera okkur ljóst Íslendingar að við eigum ekki þann viðbúnað sem þarf til að fást við alvarlega  atburði af svipuðum toga.   Því er ekki víst að næst finnist einhver leið útúr þeim vanda sem við verður að glíma, ef kreppan sígur að fyrir alvöru. 


Bíðið þið bara !

Glæsileg mynd í Fréttablaðinu af Indriða H., Steingrími J. og Nökkva, þar sem þeir tilkynntu um að bjargráðin myndu líta dagsins ljós eftir kosningar. En þá ætlar Steingrímur J. að mynda stjórn með Samsp..., afsakið Samfylkingunni, með eða án Framsóknar. Þá koma varanlegir skattar Indriða uppá yfirborðið og góðgætið í niðurskurði frá Steingrími.  

Þetta er glæsileg byrjun á kosningabaráttu VG. Kjósið okkur og þá munuð þið upplifa ykkar bláa undur eins og þeir kölluðu það í A.-Þýzkalandi. Þið verðið að kjósa okkur því Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki leggja á nýja skatta. Og hann vill heldur ekki ganga í ESB eins og Samfylkingin ætlar að sannfæra okkur um eftir kosningar.

Bíðið þið bara !


« Fyrri síða

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 3418448

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 71
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband