Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Icesave er óþarfi !

Mér er sagt að hér sé staddur sendiboði norsku ríkisstjórnarinnar til að reyna að koma vitinu fyrir Steingrím varðandi Icesave.

Norðmenn vilja ekki sjá Íslendinga fremja efnahagslegt sjálfsmorð eins og  þeir kommarnir Svavar og Steingrímur telja nauðsynlegt að gera. Norðmenn bjóða uppá aðrar lausnir sem geta skipt sköpum fyrir Íslendinga í neyðinni. Þeir eru að reyna að hafa vit fyrir Íslendingum en gengur víst ekki of vel með Steingrím.

Sjaldan lýgur almannarómur. Mættum við fá meira að heyra félagi Steingrímur ?

Það væri nú munur ef hægt er að gera annað en bara borga Icesave. 


Triple Inflation; -Inflation,-Stagflation,-Taxflation !.

Verðbólgu,- Inflation-, þekkja Íslendingar manna best. Við framleiðum hana þegar vel liggur á okkur. Byrjum kannski með því að Kennarasambandið eða Ljósmæðrafélagið ákveða að leiðrétta kjör sín. Til þess taka félögin málleysingja í gíslingu. Eftir tiltölulega skamman tíma gefst þjóðfélagið upp og reiðir fram aukið kaup. Þetta breiðist svo út og aðrir  opinberir starfsmenn taka sér sömu hækkun. Svo koma blessaðar láglaunastéttirnar síðast. Þegar þær hafa fengið leiðréttingar til jafns við hina þá hafa hinir fyrstnefndu dregist aftur úr. Ástandið lullar. 

Verðbólga á bilinu 5-10 % endurspeglar góðæri í landinu. Það er næg atvinna og allir eru að flýta sér að byggja og bæta. Innflutningur vinnuafls stóreykst. Stjórnmálamenn slá um sig með loforðum um bættan hag og ráðist er í stóriðjuframkvæmdir og virkjanir ofan á spennuna. Innflutningur vinnuafls stóreykst og spennan líka . Verðbólgan vex við þetta en innflutningur til stóriðju styrkir krónuna á móti.Nú er búið að undirbúa brotlendingu hagkerfisins. Allir hata atvinnurekendu sem eru bara svindlarar.

 Við 50% verðbólgu dregur úr framkvæmdum og er allir farnir að veina og heyja varnarbaráttu hver gegn öðrum. Við 135 % eru margir farnir að örvænta og landflótti byrjar.  Við höfum held ég ekki farið hærra hérlendis en miklu meira er þekkt annarsstaðar. Þá er kallað á þjóðarsátt því menn sjá að þetta gengur ekki lengur. En svo gleymist öll gömul reynsla og það er byrjað uppá nýtt.

Nýverið var samið um 6 % almenna launahækkun til þeirra sem enn hafa vinnu, opinbera starfsmenn og þá fáu sem eftir eru annarsstaðar. Þetta er auðvitað nákvæmlega sama og gengisfall við núverandi neikvæðan hagvöxt og verður afgreitt sem slíkt. Fólkið elskar atvinnurekendur sína og vinnustaði sem aldrei fyrr.

Kyrrstöðuverðbólga-Stagflation-, er líka eitthvað sem við Íslendingar þekkjum. Þá dregur úr útflutningstekjum, innflutningsverð hækkar til dæmis á olíu. Atvinnuleysi vex en verðlag hækkar. Allt stefnir niður á við og menn verða skyndilega yfirmáta hlynntir  vinnuveitanda sínum og fyrirtækjarekstri almennt. 

Skattverðbólga- Taxflation- er svo enn önnur tegund verðbólgu, sem nú er í aðsigi hjá Íslendingum og við höfum ekki kynnst áður.  En að þessu sinni kemur þessi verðbólga  ofan á hinar verðbólgurnar báðar.  

Við fáum  Triple-Inflation.  Nú valda  skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hækkun verðlags til viðbótar því sem áður var komið vegna hrunsins .  Einfaldur framreikningur vinstrimanna sýnir ávallt línulega tekjuaukningu við hækkun skatta. Þeir þekkja ekki einhvern Laffer eða trúa ekki á hans kúrfur.

Með því að hækka skatta á þjóðfélag, þar sem  meirihluti vinnandi fólks eru opinberir starfsmenn með einum eða öðrum hætti eins og forseti vor segir svo gjarnan, þá er fundin ágæt aðferð til að fóðra svangann hund.  Maður sníður bara af honum rófuna og réttir honum að éta.  

 

 Þetta er Taxflation. Í henni  hækkar verð á hundsrófum sem verða af skornum skammti.

Sviðið er nú sett fyrir kaldan vetur þar sem  ný séríslenzk  tegund  verðbólgu ríkir.

Triple-Inflation.: - Inflation,- Stagflation- -Taxflation-.


Af hverju pikka á Charlie Brown?

Hvað eru menn að agnúast útí viðskiptasnillinginn Hannes Smárason fyrir að hafa fengið sér 45.6 milljónir dollara að láni úr sjóðum FL-Group til að kaupa Sterling handa sjálfum sér?

Þetta er löglegt ! Jóhannes í Bónus og Jón Ásgeir voru sýknaðir af því að þetta væri ólögleg athæfi.  En þeir höfðu fengið sér lán úr almenningshlutafélaginu Baugi til að kaupa það og gera að einkafélagi  sjálfra sín. 

Þetta er löglegt samkvæmt fordæmi  dómskerfis íslenzka lýðveldisins undir forsæti hins óviðjafnanlega og  þotuglaða forseta vors.

Hættið að vera alltaf að pikka á hann Charlie Brown ! 

 


Gjörningaveðrið á Gunnar Birgisson.

Ég hef eiginlega haldið mig frá því að taka þátt í umræðunum um Gunnar Birgisson í Kópavogi og þær svívirðngar, sem á hann hafa verið bornar. Mér auðvitað svíður það að heyra svona talað um vin minn til áratuga, því ég veit í hjarta mínu að Gunnar er góður drengur og heiðarlegur.

Doktorinn er kannske klaufi stundum, of óþolinmóður  og fer stundum of hratt yfir til að minni intelektar geti fylgt honum. Slíkt veldur skiljanlega afbrýðissemi hjá sumu fólki, sem skynjar einhvern vanmátt sinn gagnvart menntun og meira atgervi til munns og handa. Enda maðurinn minnugur og töluglöggur með afbrigðum. Það væri gaman að sjá spurningakeppni milli allra bæjarfulltrúanna 10 á móti Gunnari einum um málefni Kópavogs. Ég held að þar mættu margir hafa sig alla við.

Venjulegir Íslendingar, sem stóðu  andspænis Gretti Ámundarsyni í gamla daga  fóru sér hægt í að segja hug  sinn til hans beint.   En öðru máli gegndi þegar þeir gátu skýlt sér bakvið öruggt skjól eða aðkeyptan fordæðuskap  sem þá var beitt.   Lyddur allra tíma hafa sömu skapgerðareinkenni. Það sannast svo um munar í þeirri ófrægingarherferð sem skipulögð hefur verið gegn dr. Gunnari og fjölskyldu hans. Mest af því að menn finna ekki nein alvöru málefni til að rífast um því bæjarmálin hafa gengið svo vel lengst af.

Við margt nenni ég ekki að elta ólar. Til dæmis um sorpskrif fræknu feðganna á DV. Annað getur manni sárnað þegar maður veit að álygarinn veit betur.

Þvílikar gersimar eru þessir menn, Ómar Stefánsson, Flosi Eiríksson og Jón Júlíusson.  Bera Gunnar  sökum þegar það er skjalfest að þeir standa saman að því að bjarga fjármunum LSK.  Allir saman taka þeir ákvörðun um að bjarga fjármunum lífeyrissjóðsins,  sem þeir bera alla  ábyrgð á sjálfir sem kjörnir fulltrúar Kópavogsbúa.

Þeir hlaupa síðan burt eins og hræddar geitur þegar löggan birtist og hefur rannsókn. Benda á Gunnar stjórnarformann og segja:  Hann blekkti okkur, við skildum ekkert hvað við vorum að gera. Eða með öðrum orðum : Við erum bara ekki nógu greindir til að skilja hvað við erum að gera eða höfum ákveðið að gera.  Eða með öðrum orðum; Við bara treystum á Gunnar til að redda þessu fyrir okkur sem við vorum búnir að samþykkja í október sl., að lána Kópavogi milljarð af sjóðnum.  Þetta gerðum við til að tryggja sjóðnum ávöxtun, sem var ófáanleg annarsstaðar. En við erum of miklir heiglar til að viðurkenna að við vitum að þetta er ekki alveg í samræmi við einhver paragröff. Við látum bara hengja Gunnar fyrir okkur. Hann bara segir af sér við þessar aðstæður.

Ekki við, því við verðum að fá okkar kaup eftir sem áður. Svo erum við svo heilagir að lögreglurannsókn snertir okkur ekkert, bara formanninn Gunnar. Við skiljum bara ekkert í því að við skulum vera settir af líka. 

Að vísu stendur Flosi Eiríksson þarna alveg undir mínum væntingum hvað almennt siðferðisþrek varðar. Svo lengi hef ég séð til þessa Mökkurkálfa kommanna.  En ég hélt að bandamaður okkar og samherji í meirihlutanum ,  Ómar Stefánsson,  væri stærri gerðar en þetta.  Víst er að svona myndu Sjálfstæðismenn ekki hafa komið fram gagnvart honum ef skákin  hefði staðið á hann. Og víst er að Sigurður Geirdal hefði aldrei hegðað sér með þessum hætti.  En það verður víst hver að fljúga sem hann er fjaðraður til.

Jón Júlíusson var hér lengi íþróttafulltrúi. Hann stökk úr því starfi með gullglampann í augunum til að taka við framkvæmdastjórn hjá einkafyrirtæki,  sem hann hafði samið við um uppbyggingu í bænum sem íþróttafulltrúi  Kópavogs og svo til viðbótar sem yfirmaður sjálfs sín sem bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.  En seta starfsmanna bæjarins í bæjarstjórn hefur mér alltaf fundist skringleg þversögn í besta falli.   

Skemmst er frá að segja að félag þetta fór lóðbeint á hausinn undir stjórn Jóns.  Þá voru góð ráð dýr hjá Jóni Júlíussyni. Stendur uppi atvinnulaus og líklega með námsskuldir,  sem hann gæti hafa stofnaði til í starfstíð sinni hjá Kópavogi.  En mér fannst Jón vera  oftlega fjarverandi við nám sitt þegar maður þurfti að ná í hann í vinnunni.  

Hvert ráð var á brugðið af Jóni Júlíussyni, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, fyrrum íþróttafulltrúa og háskólastúdenti ? 

Jú , farið á fund Gunnars Birgissonar og hann grátbeðinn um að ráða sig aftur í starf. Þá sá eina ferðina enn ég hversu miklu stærra hjarta Gunnar Birgisson hefur en ég.

Ómar Stefánsson;  Hvernig ætli þú sjálfur myndir þola  slíkt gjörningaveður sem  Gunnar hefur fengið  á sig ?  Þeir sem henda grjóti eiga ekki að búa í glerhúsum sjálfir. 

 

 


Minnismerki um Jörund !

Um marga minni menn en hann Jörund hundadagakonung hafa Íslendingar lagt sig fram um að reisa minnismerki. Einu sinni söfnuðum peningum hérlendis til að reisa Marteini Lúter minnismerki í Worms. Það sama ár svalt margt fólk til bana á þessu landi.

Ég átti þátt í því fyrir nokkrum árum að mynda hóp góðra manna til að reisa Thor Jensen minnismerki í Hallargarðinum. Það tókst og nú þarna til sýnis. Því miður eru á því efnis-og smíðagallar vegna ryðs í ryðfríu efni. En minnismerki er það samt og bæjarprýði. Thor Jensen og Þorbjörg eru dæmi um hverju fólk getur áorkað með því að byrja með tvær hendur tómar að lifa lífinu af ástríðu og skynsemi.

Ég væri alveg til í að kanna það hvort hægt væri að ná saman samskotahóp til að hrinda þessu í framkvæmd. Reykjavíkurborg fengist hugsanlega til að leggja til stað og stöpul undir minnismerkið hvernig sem það yrði svo að ofan. Það myndu samskotin greiða.Minnismerkið og því tengd starfsemi gæti orðið túristavæn starfsemi.

Jörundur var allt annarrar gerðar en Thor Jensen. En þó snauður væri hafði hann hugsjónir um að það væri hægt að bæta kjör  fjöldans og leiðbeina honum til betra lífs. Hann var bara ekki á réttum tíma með byltinguna þar sem Íslendingar voru þá  svo langt úr alfaraleið og þeim hugsjónastraumum  sem þá runnu um Evrópu. Magnús Stephensen eyddi mikilli orku í að berjast gegn draugatrú og myrkfælni almennings á þessum tíma. Hann er sömuleiðis einn af þeim Íslendingum sem má ekki í gleymsku falla.

Þannig gætum við heiðrað minningu hans Jörundar. Mannsins  sem reyndi að reisa okkur upp sem þjóð og sjálfsvirðingar en tókst ekki.  Við vorum honum bara ekki samboðin eða tilbúin. Hann reyndi en tókst ekki. Hann vildi þjóðinni vel en komst ekki upp með það. Hann er hinsvegar partur af sögunni. Og enn stendur húsið þar sem hann dansaði í.

Hvað skyldi hann Jörundur hafa sagt um Icesave og Evrópusambandið ? 


Braskað í BYR !

Sá fáheyrði atburður varð við fyrirtekt lögbannsgerðar gegn stjórnarsetu 3, manns B.-lista í BYR, að lögmenn LOGOS , fyrirtæki sem nýverið var þjófaleitað var hjá og úrskurðaði um stjórnarkosninguna á aðalfundinum, ,  lögðu fram kröfu um 10 milljarða tryggingu fyrir því að þriðji maður B-lista væri dæmdur út vegna ógilds umboðs sem hann var kjörinn útá.

A-listi, smárra stofnfjáreigenda  ber fram lögbannskröfuna til þess að reyna að ná fram rétti sínum. Því hann telur að gögn sýni svo ekki verði um villst, að honum beri þriðji stjórnarmaðurinn en ekki A-lista. En því eru lögmenn LOGOS, innifalinn Pétur Guðmundarson fundarstjóri, ekki sammála. 

Annars virðist þetta ekki endilega skipta neinu máli. Það virðast vera allt aðrir stjórnendur í BYR en einhver stjórn sem kjörin er á aðalfundi í apríl. Það er frétt í  RÚV í dag sem skýrir frá því að stjórnendur BYR, sem Ragnar Z. sparisjóðsstjóri talar fyrir, séu búnir að ráða sér útlendan sérfræðing til þess að stjórna innstreymi 10 milljarða frá ríkinu sem nýju stofnfé í sjóðinn .

Þarna eru á ferð einhverjir stjórnendur,  sem taka ákvarðanir sem ekki hefur verið minnst á í stjórninni sem var kjörin á aðalfundi þar sem 2 fulltrúar A.-lista sitja í minnihluta.  Þeir koma af fjöllum þegar þeir eru spurður útí þessi tíðindi. Eða er þetta bara allt bankaleynd,bankaleynd ?

Ég hélt að reyna hefði átt að fá ríkið til að lána stofnfjáreigendum BYR 10 milljarða gegn sömu kjörum  og SAGA Capital og VBS fengu . Langtímalán með lágum vöxtum.  Spara ríkinu það að leggja fram 10 milljarða í ormagryfju Exeter Holdings, B-listans og Ragnar Z. sem enginn myndi vita  hvað um verður. Afstýra því að nýr ríkisbanki yrði til. Nóg var nú fyrir.

 Sömu aðilarnir og létu BYR fjámagna sölu sína á eigin stofnfárbréfunum hafa greinilega  ennþá tögl og hagldir í BYR. Með óréttu þó telja lögbannsbeiðendur af A-lista. En sú ósvífni er nú metin á tíu milljarða af hálfu B.-listans.

Útbreiddur misskilningur

-----------------------------

Það er útbreiddur misskilningur almennings, að stofnfjáreigendur BYR hafi fengið gefins alla stofnfjáraukninguna með 11 milljarða arðgreiðslu og eigi því skilið að tapa henni. BYR megi þessvegna fara á hausinn.

Þetta er ekki rétt. Stofnfjáraðilar lögðu fram 30 milljarða nýtt stofnfé BYR.  Margir tóku lán fyrir því hjá Glitni með  loforði fyrir því að BYR myndi greiða út arð sem næmi 1/3 af aukningunni og þá skuld hvers og eins líka. Sjálf stofnfjárbréfin í aukningunni  væru að veði hjá Glitni til greiðslu eftirstöðva lánsins.  Fyrirheit voru um að lánið yrði nagað niður með frekari arðgreiðslum.  Ef það brygðist og menn gætu ekki greitt af lánunum,  þá töpuðu þeir bara bréfunum til Glitnis. Þetta héldu menn þá  þegar allt lék í lyndi í fjármálastórveldinu Íslandi.

En auðvitað fer þetta ekki svona. Glitnir fékk  arðgreiðsluna inná lánin, og þau gátu þar með lækkað um  þriðjung.  Það gekk eftir. En annað alls ekki. Bréfin eru núna því sem næst einskis virði eftir 30 milljarða bankaránið sem framið var undir vökulu auga Ragnars Z. og fyrri stjórnar BYR. BYR stendur tæpt eða er  kominn á hausinn ef hann fær ekki nýtt fjármagn.   Eftirstöðvar skuldarinnar í Glitni, nú Íslandsbanka Ríkisins,   eða 2/3 af upphaflegu skuldinni plús vextir. eru hinsvegar mjög raunverulegar. Og engin von þess að menn vilji leggja fram meira fé meðan ekki ríkir traust til stjórnarinnar í BYR. 

Eftirstöðvarnar  verða væntanlega innheimt af hörku nú í haust að frádregnu virði bréfanna, sem er sem næst ekkert.  Ef bréfin eru verðlaus þá sjá menn væntanlega sína sæng útbreidda.

 Einhverjir munu því upplifa kaldan vetur. Það verður þó ekki hjá Ragnari Z. sparisjóðsstjóra með þrjármilljónir og jeppa á mánuði. Það verður ekki hjá fyrri stjórn sem er búin að losa sig við sín bréf á stórgóðu verði. Yfirdrátturinn til Exeter Holdings verður bara greiddur með ónýtum bréfum í BYR. Allt er í fína  lagi hjá Jónunum, Birgi Ómari og hvað þeir nú heita allir þessir snillingar .  Það er bara ekki í lagi hjá litlu köllunum og kellingunum. Okkur er víst  mátulega i rass rekið fyrir að vera svona vitlausir. Já hann Murphy hafði sannarlega rétt fyrir sér um vitleysinga og peninga.  

Er þetta bara ekki flott ?  Allt í þessu fína ? Ekkert Fjármálaeftirlit vakandi. Enginn dómsyfirvöld til að leita til.  Ekkert nema bara að borga. Troða banana þversum í túlann á sér svo maður geti haldið brosinu fallegu fyrir lýðveldið okkar.

Svona braska fínir menn í BYR !


Af hverju ekki krómaðar mansjéttur ?

 

 Fréttir skýra frá miklum athugunum á starfsemi Sóvá-Almennra. Undir þessu félagi eiga margir aleiguna. Til þessa hefur afstaða fólks verið byggð á trausti á félaginu. Skyndilega er það traust á bak og burt.

Það er talað um að verið sé að redda tryggingahluta starfseminnar. Hún var í lagi meðan skattfrjálsu bótasjóðirnir voru sá bakhjarl sem menn gátu treyst á. Þessvegna tryggðum við hjá félaginu áratugum saman.  Nú eru bótasjóðirnir  allt í einu farnir. Það þarf að endurfjármagna vátryggingarnar !

Nú á fólki að finnast það allt í lagi  að þeir Daltonbræður hafi stolið bótasjóði félagsins og segjast hafa tapað honum í Hong Kong ? Sú saga gengur meira en staflaust hér í bænum að þeir hafi ekki alls ekki tapað peningunum þarna heldur einfaldlega stolið þeim undan í eigin fjárhirzlur.   Bókfært tap sem er ekkert tap heldur skattaundanskot.

Ég veit ekkert um þetta mál, ég er bara með eyru.  Það er sagt berum orðum að unnið sé að endurfjármögnun vátryggingarhluta félagsins. Það er sem sagt viðurkennt að hann sé ekki í lagi.  Af hverra völdum ? Af völdum Daltonbræðra.

Ég, litli maðurinn,  er  með allt mitt undir því að þetta félag veiti mér tryggingavernd þurfi ég á henni að halda. Það hefur verið logið að mér . Ég get ekki  treyst þessu félagi. Það hefur svikið mig í tryggðum af því að glæpamenn hafa ruplað og rænt það.   

Er ég bara að bulla ? Hvað á ég að halda ?

Svona hljóða þær hlutlausu fréttir sem  við viðskiptamenn félagsins eigum að byggja traust okkar á :

„Grunur leikur á að við fjárfestingar Sjóvár og Milestone hafi ekki verið farið að lögum um meðferð fjármuna tryggingafélaga. Málið er nú til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Það er bæði flókið og afar umfangsmikið. Einn angi málsins varðar fjárfestingar á nokkrum tugum dýrra íbúða í Hong Kong fyrir tveimur til þremur árum. Miðað við upphaflegt kaupverð er tapið á fjárfestingunni nokkrir milljarðar króna.

Fjárfestingarhlutinn, og þær skuldir sem tengjast fjárfestingunum, hafa verið skildar frá vátryggingastarfseminni. Skilanefnd Glitnis vinnur nú að endurfjármögnun vátryggingahluta Sjóvár og er þeirri vinnu að verða lokið.“

Sjóvá var dótturfélag Milestone, sem aftur var að mestu í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona. Þór Sigfússon var forstjóri tryggingafélagsins en hann lét nýlega af starfi.

Stefnan skilaði ekki árangri

Í viðtali við fréttastofu RÚV 16. maí síðastliðinn sagði Þór Sigfússon að stefna fyrrum eigenda hefði ekki skilað árangri. Honum var þá ekki kunnugt um hvortbúið væri að vísa málum tryggingafélagsins til saksóknara, en sama dag birti Morgunblaðið frétt um að Fjármálaeftirlitið hefði sent mál Sjóvá og Milestone til saksóknara.

„Okkur er ekki kunnugt um það. Okkur er heldur ekki kunnugt um það hvort búið sé að vísa einhvers konar undirbúningi þess til saksóknara.“

Þá var Þór spurður í framhaldinu, hvort ekki hefði verið búið að yfirheyra hann sem forstjóra Sjóvár, ef verið væri að rannsaka málefni félagsins:

„Sannarlega og það hefur ekki verið gert. Ég ræddi við eftirlitið [Fjármálaeftirlitið] í gær og þeir vilja ekki tjá sig um þetta og munu ekki tjá sig um nein einstök mál. Þannig að við verðum bara að bíða.“

Milestone var aðaleigandi Sjóvár til skamms tíma og hefur því verið haldið fram að Sjóvá hafi breyst á undanförnum árum úr vátryggingafélagi í fjárfestingarfélag. Þór var spurður um þetta:

„Við erum fyrst og fremst vátryggingafélag. Stefna fyrrverandi eiganda í fjárfestingum hefur verið kynnt og hún hefur auðvitað ekki skilað árangri og það er vandamálið. En vátryggingastarfsemin sem slík stendur traustum fótum.“

Í lokin var Þór spurður um stöðu Sjóvá og bótasjóða félagsins, en margir viðskiptavinir félagsins óttast að búið sé að veðsetja þá. Slíkt dregur úr möguleikum félagsins til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart þeim sem tryggja hjá félaginu:

„Með endurskipulagningu efnahagsreikningsins, sem lýkur í næstu viku þá er allri þeirri óvissu eytt og það er búið að lýsa því yfir af hálfu skilanefndar Glitnis að svo sé.“

RUV.is: Grunur er um auðgunarbrot

Mbl.is: Breyttist í fjárfestingarfélag

 

Í mínum augum eru þetta bara venjuleg svik og lygar.

Af hverju er ekki búið að klæða þessa menn í krómaðar mansjéttur að hætti ENRON furstanna og láta þá bíða í þar til gerðu húsnæði þess að rannsókn ljúki. Gæsluvarðhald er hugsað til þess að menn  séu ekki á fullri ferð að mögulega spilla sakargögnum sem þeir mest mega. Eiga þeir bræður nokkuð erindi út til Hong Kong við þessar aðstæður ?

Það var ekki farið svona að þegar Hafskip var tekið til skoðunar hér um árið . Ég þekki menn sem upplifðu réttlætið þá.

Hefur réttvísin eitthvað breyst síðan það var ?


Er hún Eva Káta ekki bara grínisti ?

Ég er eiginlega farinn að efast um hana Evu Kátu eða Joly.  Hún virðist hafa tíma til alls nema það sem við héldum að hún ætlaði að gera hér. Eftir að hún dúkkaði upp í Silfrinu hjá Agli og stökk eins og Pallas Aþena úr höfði Egils Seifs  inní hjörtu ráðvilltra stjórnvalda okkar, þá höfum við verið að bíða eftir að eitthvað gerðist.

Ekkert gerist nema það koma meldingar frá henni um að reka Valtý saksóknara af því að sonur hans vinnur í Existu. Má hún nokkuð vera að því að koma þessa tvo daga í mánuði sem hún ætlaði að koma hingað til að sækja milljónirnar sínar ?   Hún er  orðinn húsafyllisprófessor  uppí Skandinavíu milli þess sem hún situr á Evrópuþinginu.  

Stofnfjáreigendur í BYR voru prakkaðir til að leggja fram aukastofnfé í BYR uppá 30 milljarða. 10 milljarða fengu þeir til baka sem arð og rann sú upphæð sem innborgun á lánið í Glitni.  Skuldin fyrir restinni er  uppi í Íslandsbanka eða gamla Glitni, sem Jón Ásgeir átti þá.  Jón Ásgeir náði  30 milljörðum úr BYR og setti hann hérumbil á hausinní með  tapi uppá þá upphæð.

Bréf almennings eru núna verðlaus en stjórnin og stjórinn seldu sín bréf með stórgróða með svindli með MP-banka, Eseter Holdings og sjálftöku úr kassanum hjá BYR.  Bankaleynd, bankaleynd ! Og svo sitja þeir sem fastast í stjórninni útá svikið atkvæðaumboð.

Bréfin sem stofnfjáreigendur áttu eru að veði í bankanum Glitni sem Jón Ásgeir átti á þeim tíma. Þau verða núna  innheimt með því að Íslandsbanki hirðir þau fyrst á slikk eins og líklega var alltaf ráðgert. Svo verður hjólað í húseignir fólksins fyrir mismuninn.   Eina sem gekk ekki upp í dæminu hjá Jóni Ásgeir var að  hann missti Glitni í millitíðinni og líklega fer Byr á hausinn án þess að Jón fái nokkuð útúr honum. Bankaleynd, bankaleynd !  

Líklega vorum við stofnfjáreigendur bara hafðir að fíflum þegar við vorum heilluð af starfsmönnum BYRs og Glitnis til að kaupa þetta stofnfé með lánum frá Glitni og gróðavon. 

Murphy segir líka: It is immoral to allow suckers to keep their money. Og Murphy veit yfirleitt nokkuð hvað hann syngur. Líklega kann Jón Ásgeir  Murphys Golden Rule sem hljóðar svo: He who has the Gold makes the Rules.   

Þetta er kannski bara ímyndun ein hjá mér sem súrum og svekktum hálfvita. En maður hefur þá alltaf gaman að skrfa ævintýri á bloggið sitt eins og einskonar HosiAndersen.

Er hún Eva Káta  bara ekki að gera grín að okkur ? Er hún nokkuð svona sniðug eins og hún sagði okkur í gegnum miðilinn Egil ?  

 Jón Ásgeir og útrásarvíkingarnir voru þeir sem voru raunverulega sniðugir. Við og þjóðin vorum bara fíflin, þó að Davíð segist hafa vitað það allan tímann.

Allir okkar uppáhaldsglæpamenn ganga um prýðilega lausir og virðast hafa það fínt í útlöndum. Nægur tími til að raða pappírum eða hakka.  Fjármálaeftirlitið sefur sínum Þyrnirósarsvefni hvað svo sem stofnfjáraðilar í Byr æpa yfir þyrnigerðið um hjálp vegna stjórnarkjörsins. Sigurjón digri gerir grín  að okkur aulunum sem höfum trúað á gildi lífeyrissjóða. Já hann Murphy var ekki svo vitlaus.

Og líklega efast Eva Káta ekki um það  að reglur Murphys gilda allra best um Íslenska sparifjáreigendur. Og líklega ráðamenn líka.

 


Loksins lífsmark !

Ég reyndi mikið á mig til þess að ná athygli síðasta Landsfundar  Sjálfstæðisflokksins  míns á nauðsyn nýrra gjaldþrotalaga.  Þetta komst á dagskrá fundarins en ekki hef ég séð það á framkvæmdastigi.

Það er mér nokkuð áfall að verða að sjá þetta mál borið fram af VG og Borgaraflokknum án þess að minn flokkur komi þar nærri.

Fyrir þinginu liggur eftirfarandi mál:

 

09.
Þskj. 39  -  39. mál.





Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um samningsveð, nr. 75/1997.

Flm.: Lilja Mósesdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Björn Valur Gíslason,

 

Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir.


    

1. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign sem er ætluð til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Krafa lánveitanda á lántaka skal falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Með lántaka er átt við einstakling. Með lánveitanda er átt við einstakling, lögaðila eða aðra aðila sem veita fasteignaveðlán í atvinnuskyni.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin taka til fasteignaveðlána sem stofnað hefur verið til fyrir og eftir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er samið í samræmi við samþykkt síðasta landsfundar Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Er lagt til að fasteignaveðlán geti ekki orðið grundvöllur aðfarar í öðrum eignum lántaka en þeim sem veðréttindin taka til en í því felst frávik frá þeirri meginreglu íslensks kröfuréttar að skuldari ábyrgist efndir fjárkröfu með öllum sínum eignum. Jafnframt á lántaki að vera laus undan persónulegri ábyrgð á greiðslu lánsins ef veðið hrekkur ekki til greiðslu þess. Ekki skiptir máli hvort veðsali er lántaki eða þriðji maður.
    Lánveitendur geta verið viðskiptabankar, sparisjóðir, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og aðrir aðilar sem veita fasteignalán í atvinnuskyni, þ.m.t. byggingaraðilar. Með fasteignaveðláni er átt við veðlán sem veitt er með veði í fasteign sem ætluð er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Það skilyrði er sett að lántaki sé einstaklingur.
    Staða margra íslenskra heimila hefur versnað til muna í kjölfar bankahrunsins sem haft hefur í för með sér hækkun skulda, rýrnun eigna, minni tekjur og skertan lánsfjáraðgang. Fasteignaveðlán vega almennt þyngst í skuldum heimilanna. Við núverandi aðstæður er hætta á að kröfuhafar sækist eftir auknum tryggingum eða geri fjárnám í óveðsettum eignum sem ekki getur talist sanngjarnt þar sem mörg heimili hefðu efnt skuldbindingar sínar undir eðlilegri kringumstæðum. Minna má á að ýmis úrræði hafa verið lögfest sem veita skuldurum færi á að leysa úr greiðsluvanda sínum án þess að til gjaldþrotaskipta þurfi að koma.
    Frumvarpinu er ætlað að gilda um fasteignaveðlánasamninga sem þegar hafa verið gerðir og óháð því hvort lánastofnun lýtur eignarhaldi hins opinbera eða einkaaðila.
    Með hliðsjón af lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið sé í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrár þar sem stærstu lánastofnanirnar eru nú í eigu ríkisins auk þess sem lögin heimila Íbúðalánasjóði að yfirtaka skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.
    Í lánaframkvæmd Íbúðalánasjóðs er ekki aðhafst frekar við innheimtu kröfu sem glatað hefur veðtryggingu nema sjóðurinn telji að krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota á lánareglu, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 119/2003, um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Skuldarar fá þó ekki fyrirgreiðslu á nýju láni frá sjóðnum fyrr en kröfur sjóðsins á hendur þeim hafa verið greiddar eða þær afskrifaðar, sbr. 4. gr. Frumvarpið gerir eins og áður segir ráð fyrir að krafa lánveitanda sem glatað hefur veðtryggingunni við nauðungarsölu falli niður.
    Til lengri tíma litið á frumvarpið að stuðla að vandaðri lánastarfsemi og hvetja til þess að lánveitingar taki mið af greiðslugetu lántaka.

 

Ef minn flokkur Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki þetta þjóðþrifamál þá styður þessi flokkur ekki lengur mínar hugsjónir.

Ég vona að til þess þurfi ekki að koma.

Þarna er loksins lífsmark í þeirri viðleitni  því að gera eitthvað löngu tímabært í því helfrosti skilningsleysis og afturhalds staðnaðrar evrópuréttarhugsunar sem staðið hefur þessum nauðsynlegu þjóðfélagsumbótum fyrir þrifum. 

Loksins lífsmark !

 


Ný gjaldþrotalög strax !

Ég var ekki einn um það að horfa agndofa á hann Bjarna rífa húsið og jarða bílinn. Pollrólegur sagði hann okkur að konan og börnin væru farin af landi brott. Hann bjóst við að fara á eftir þeim þegar hann hefði staðið fyrir máli sínu og tekið út refsinguna.

Málsbætur hans voru fruntaleg framkoma bankaþjónanna við hann sem einstakling. Hann átti ekki að fá silkihanskameðferðina sem stóru bankaglæpamennirnir hafa unnvörpum fengið. Þarna var ekki séra Jón á ferðinni. Hann skyldi hengdur öðrum til eftirbreytni. 

Hvað biði hans hér  að óbreyttu ? Brennimerktur sem gjaldþrota einstaklingur geturðu ekkert hér á landi. Hann kaus að hefna sín á kerfinu og gjalda fyrir það.

Einn meginþáttur  í krafti bandarísks efnahagslífs eru gjaldþrotalög þeirra. Sá sem verður gjaldþrota er gerður upp og málið er búið. Samuel Goodyear varð víst sjösinnum gjaldþrota áður en dekkin lukkuðust hjá honum. Hér á landi hefði hann aldrei risið upp aftur eftir fyrsta fallíttið.

Í Bandaríkjunum skilarðu lyklinum að húsinu þínu til bankans þegar þú getur ekki borgað. Málið er búið. Hérna ertu eltur persónulega útfyrir gröf og dauða við sömu aðstæður. Þú sem einstaklingur ert veðandlagið sjálfur þegar þú færð lán með tryggingu í húseigninni,   seljist hún fyrir minna en skuldinni nemur á uppboðinu.

Hlutafélag fer á hausinn eins og þau sem stóru braskararnir notuðu í bankahlutabréfakaupunum og málið er  búið.  Hvítabirnan er áfram hvít.Einstaklingur á  Íslandi sleppur hinsvegar aldrei frá sínu gjaldþroti. Svartur er svartur áfram. Bjarni á sér ekki viðreisnar von.

Þetta er svínarí og verður að afleggja. Einstaklingur getur orðið gjaldþrota af ýmsum jafnvel óviljandi ástæðum .  Það verður að gera upp dæmið við hann og síðan búið mál. Nýr einstaklingur verður að fá að verða til og fá tækifæri til að verða að fullgildum þjóðfélagsþegni aftur.  Uppreisn æru eins og ýmisr hafa fengið.  

Hefur þjóðin efni á að hrekja þá úr landi sem hafa orðið gjaldþrota vegna þess að lánin urðu skyndilega miklu hærri en verðmætið sem þau voru tryggð í ? Þeir sem missa íbúðina sína fyrir þriðjung skuldarinnar verða hundeltir til enda veraldar. Fái þeir sér launavinnu er skatturinn kominn við aðra útborgun og hirðir allt. Lögfræðingar halda við kröfum í það endalausa. Þú verður að vinna svart eða ekki. Ég hef oft staðið frammi fyrir slíkum vandamálum góðra manna sem var verið að hrekja í eyðimerkurgöngu. Þetta var svo ómanneskjulegt hvað þessum mönnum var boðið uppá að maðu gleymir því aldrei.

Eiga ekki allir að fá annað tækifæri í  lífinu ? Þessu jánka flestir stjórnmálamenn en gera svo ekkert í því. Samkvæmt íslenskri gjaldþrotahefð er slíkt ekki mögulegt. Þú ert brennimerktur til lífstíðar og hundeltur. Bjarni sleppur aldrei.

Það er aldrei brýnna en núna að taka þessi mál upp núna og án þess að binda sig í einhverjar kratískar Evrópuhefðir. Fólk verður að fá að verða fólk aftur. Gjaldþrot er gjaldþrot og málinu er lokið. Uppfrá því á enginn neina kröfu á manninn vegna fortíðarinnar. Hún er uppgerð þarmeð.  Allir vita auðvitað að maðurinn efur áður orðið gjaldþrota. En þetta er maður með hreint borð og nýjar áætlanir eru aðeins frá nýjum tíma. 

Við höfum ekki efni á þessu vitlausa fyrirkomulagi lengur.

Ný gjaldþrotalög strax !


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband