Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Er þetta í lagi ?

spurðu menn sig um Jónas frá Hriflu þegar mönnum blöskraði framganga hans á árum áður.En Jónas bar þá ægishjálm fyrir allt stjórnmálalíf í landinu og engu ráði var ráðið nema hann kæmi þar að. Það fór geðlæknir heim til hans til að athuga hvort maðurinn væri hugsanlega búinn að ofkeyra sig. Auðvitað var geðlæknirinn úrskurðaður pólitískur flugumaður og rekinn og Jónas hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist. En smátt og smátt einangraðist Jónas samt og menn fóru að sjá að maðurinn var varla einhamur í atferli sínu. Ekki vantaði þó sannfæringarkraftinn hjá Jónasi og trúna á eigið ágæti og allir sáu að hann lagði fram mikið starf. En stefna hans og hugmyndir voru bara ekki í lagi til lengri tíma litið.

Steingrímur J. Sigfússon var spurður um það í útvarpsþætti hvort hann ætlaði að hætta í stjórnmálum á einhverjum tíma. Hann sagði að það gæti hugsanlega komið að því. En ekki eins og á stæði, hans væri enn þörf til að leiða þjóðina út úr kreppunni. Helst virtist skoðun hans á sjálfum sér og mikilvægi sínu minna á söguna af Móses sem þurfti að leiða þjóð sína útúr eyðimörkinni.Því verki yrði hann að ljúka því það gætu það ekki aðrir.Er þetta ofmat á eigin ágæti eins og hjá Jónasi frá Hriflu?

Jón Valur Jensson skrifar um Icesave í Morgunblaðið á laugardaginn var. Þar bendir Jón á það,að 1. október s.l. hefðu 110 milljarðar verið fallnir á ríkissjóð Íslands í VÖXTUM einum, án afborgana, hefði verið staðið við Iceave I eða Svavarssamninginn sem Steingrímur var búinn að undirrita. Hvaðan hefðu sá peningur komið? Hvað var hægt að láta vera að greiða úr ríkissjóði umfram þær greiðslur úr ríkissjóði sem Steingrímur nú telur sér til tekna að hafa komið í veg fyrir og kallar hagræðingu? Svo sem niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, lokun sjúkradeilda og lækkun bóta?

Ætla fjölmiðlar að taka undir með Steingrími að hann sé búinn að vinna stórvirki í endurreisn landsins? Hér sé allt að lagast, hagvöxtur að hefjast og landið að rísa? Á sama tíma sem met-landflótti er brostinn á? Útflutningshraði fólksins okkar hefur aukist um 40 % þegar hagvöxturinn er hafinn? Nú fara 7 manns úr landi dag hvern í stað 5 áður.Og æ fleiri hyggja á brottflutning samkvæmt traustum fréttum RÚV ? Vaxandi fjöldi fólks sér að þetta er ekki í lagi. Ríkisstjórnin hangir saman á Evrópubandalagsumsókninni, skattlagningarhagfræðinni og stóriðjufælninni. Fjárfestingar í atvinnulífinu fara ekki á stað við þessar aðstæður.

Steingrímur segir líka á öðrum stað að nauðsynlegt sé að halda ákærunni á Geir Haarde fyrir Landsdómi til streitu. Steingrímur er einn af forgöngumönnunum fyrir því að Geir var ákærður. Samt er talið að Neyðarlögin sem Geir flutti fram en Steingrímur stóð ekki að, hafi bjargað þjóðinni frá verra. Hver verður hans eigin hlutur þegar upp verður staðið? Mun einhver nenna að draga hann til ábyrgðar fyrir bankabraskið og Sjóvármálið svo eitthvað sé nefnt ?

Er það í lagi að skattleggja lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar til að niðurgreiða vextakostnað almenning sem ríkisstjórnin ákveður sjálf að mestu leyti? Ríkisstjórnin stjórnar Seðlabankanum og réði Seðlabankastjórann. Hversvegna þarf ríkisstjórn að greiða niður vaxtastig sem hún stjórnar sjálf?

Einhver kynni að spyrja sig hvort þessi Steingrímur sé heppilegur til að leiða þjóðina áfram? Ég kem ekki auga á að svo sé. Hvað sem hann sjálfur segir um árangur sinn þá er hagvaxtarspá hans á hæpnum rökum reist og nýsamþykkt fjárlög hans með fæðingargalla þar sem útgjaldaliðir og tekjuliðir eru van- og ofáætlaðir. En hann virðist trúa blint á eigið ágæti og ekki afast eitt augnablik að hann viti einn alla hluti. Svona rétt eins eins og var með Jónas frá Hriflu.

Ríkisstjórnin virðist lifa í þeim heimi að þjóðin hafi yrfirþyrmandi áhuga á ráðherraköplum hennar og jafnvel stjórnarskrárbreytingum og inngöngu í ESB. Það er alls ekki svo að fólk beri afgerandi meira traust til Steingríms eða Jóhönnu en til dæmis Jóns Bjarnasonar? Fátt bendir í raun til þess að svo sé.

Eitt má telja nokkuð víst að þetta Alþingi sem heldur þessari ríkisstjórn á lífi með baktryggingu hinnar nýju stjórnmálastjörnu Guðmundar Steingrímssaonar er í minnkandi áliti meðal fólks. Það trúir ekki að að þingið muni koma sér saman um raunhæfar leiðir. Það sé ekki lengur traustsins vert? Ríkisstjórnin á líklega vísan stuðning Hreyfingarinnar ef í harðbakkann slær. Óvíst er hvort Hreyfingin á afturkvæmt á Alþingi í nýjum kosningum og að ógleymdum launaða listamanninum? Þetta fólk kærir sig ekki um kosningar og því situr þessi stjórn og situr.

Þessi staða er þjóðinni ekki til framdráttar og tefur fyrir að batinn komi. Er ekki fullreynt að úrræði Steingríms í efnahagslífinu sem eru skattar á skatta ofan eru ekki í lagi og leiða ekki til neins nema meiri þrenginga og meiri landflótta? Er það ekki nægur vitnisburður um ríkisstjórnina að fólkið greiðir atvkæði með fótunum?

Eða er stjórnarandstaðan svona hræðileg að þetta sé bara í lagi þessvegna? Hún bjóði ekki uppá neitt? Þessu virðast stjórnarsinnar trúa og hafa yfir oft á dag.

En geta menn haldið þessu fram eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar efnahagstillögur sínar og síðan lagt fram heildarstefnu eftir landsfund sinn? Hvað kostar það þjóðina að halda áfram á núverandi helvegi í tvö ár í viðbót í stað þess að gefa uppá nýtt? Fyrir eigin upphefð eru menn tilbúnir að fórna öllu öðru. Það er þetta sem verðfellir stjórnmálin í huga fólksins. Þegar við blasir að árangur er ekki að nást þá er bara hangið og hangið.

Þetta er ekki í lagi.

Er það kannski ekki í lagi að hugsa svona?


Einn skattur á dag

kemur skapinu í lag.

Þrjár krónur og fimmtíu ofan á bensínið sem einstæða móðirin þarf að kaupa á bílinn sinn til að  keyra barnið í leikskólann og sjálfa sig í vinnuna. Ekki gleymir norræna velferðarstjórnin sínum minnstu bræðrum.

Svo kemur gistináttagjaldið uppá 100 kall á svefnpokapláss og tjaldstæði eins og rúmið á 101 um áramót. Það sjá allir hversu göfugt jafnræði er í slíkum nefgistiskatti.

Enda sagði Indriði  að öll líifsins gæði beri að skattleggja. You aint seen nothing yet!

Einn skattur á dag kemur skapinu í lag.


Látum hann bara tala

sagði Harry S. Truman um mótframbjóðanda sinn General McArthur.

Í Silfri Egils var viðtal við Heiðu og Guðmund Steingríms. Egill spurði þau bæði fyrir hvað þau stæðu í pólitík. Heiða kvaðst ekki geta svarað því. Guðmundur útskýrði hversvegna hann væri ekki Samfylkingarmaður, hann fílaði sig ekki sem krata. Og hann þyrfti ekkert að vera í Framsókn eins og pabbi og afi. Annað fannst mér lítið kom frá þeim nema einhverjir almennir frasar sem þau sögðust þó bæði vera orðin leið á í íslenskri pólitík. Heiða vildi fá nýtt fólk í pólitík því hún væri orðin leið á sömu nöfnunum alltaf frá 1983. Hún vill í framboð og Guðmundur líka.

Endursýnum þennan þátt Egils seint og snemma. Þjóðin þarf að skilja pólitík.

Látum Besta Flokkinn, Heiðu og Guðmund bara tala.


Skattleggjum lífeyrissjóðina !

segir Steingrímur J. Sigfússon berum orðum í Sprengisandi á Bylgjunni í dag.Þá græða bæði sjóðirnir og eigendur þeirra og öll þjóðin líka!

Við ætluðum að taka fjármuni af lífeyrissjóðunum með góðu eða illu til að borga í vaxtabótakerfið. Nú er bara harða leiðin eftir því þeir vilja ekki borga með góðu. Það er eina leiðin að mati þessa manns, að skattleggja og innheimta. Skattleggja líka innheimtu-og vaxtagróða bankanna sem hann gaf vogunarsjóðunum. Hvaðan skyldi sá gróði koma? Man einhver eftir teikningunni hans Storm P þar sem kallinn skar rófuna af hundinum og gaf honum að éta?

Lífeyrissjóðirnir sem í upphafi áttu að vera til að borga lífeyri til þeirra sem í þá borga eru núna orðnir skattstofn í augum Steingríms.Í hvað eiga peningarnir að fara? Í vaxtabótakerfið segir Steingrímur.

Hverjir fá peningana sem vaxtabæturnar eru? Sjá það ekki allir? Hverjir eru stærstu ákvarðendur í vaxtakjörum almennings?

Í heild er þetta viðtal gagnlegt til að skyggnast inn í hugarheim Steingríms J. Sigfússonar. Hann trúir því í raun og veru að hann hafi bjargað þjóðinni með ríkisstjórnarsetu sinni. Maðurinn sem skrifaði undir Icesave I sem hefði kostað heil fjárlög bara í vexti. Herre Gud! Hann heldur í raun og veru að hann sé að bjarga þjóðinni og hann verði að vera áfram í pólitík til að leiða þjóð sína út úr eyðimörkinni eins og Móses! Hann geti ekki hætt vegna þess að hann sé ómissandi! Herre Gud!

Það sé sanngirni í því að sækja peninga í Lífeyrissjóðina með ofbeldi til að borga í vaxabótakerfið. Sanngirni gagnvart skuldlausum eigendum lífeyrisins. Sanngjarnt gagnvart opinberum starfsmönnum sem þiggja óskertan lífeyri frá skattgreiðendum beint eins og Steingrímur mun sjálfur gera í fyllingu tímans.

Hvað á þjóðin að þjást lengi enn af völdum þessa manns og ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur? Nú geta menn borið þessar aðgerðir saman við þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar í skuldamálum heimilanna. Látum nú forystumenn flokksins skýra þetta út fyrir fólkinu sem valkost við vitleysunni.

Íslands óhamingju verður allt að vopni sögðu menn einu sinni.

Þessi steingrímski skattur á lífeyrissjóðina er bara byrjunin ef maðurinn fær að leika lausum hala öllu lengur.


The Wild We(n)st(re) Show

Buffolo Bill náði miklum vinsældum í Bandaríkjunum á sínum tíma. Billi ferðaðist með the Wild West Show um víða vegu og er enn heimsfrægur fyrir. Bill þessi var alíslenskur maður sem hét Vilhjálmur úr Skagafirði að því að Kiljan segir. En hann varð frægur fyrir að drepa fleiri vísunda á dag en nokkur annar úti á gresjunm meðan rányrkjan stóð þar yfir.

Nú er kominn fram nýr Billi í póltíkinni. Hann heitir Guðmundur Steingrímsson og virðist ætla að toppa gamla Billa í vísundadrápi. Nema Guðmundur drepur af sér flokka og kjósendur þeirra á vinstri vængnum sem enn ganga á hugsjónagresjunum göfugu. Og up rísa nýir kjósendur eins og Einherjar í Valhöll þegar þeir hafa drepið af sér mótstöðumenn í gamni og skemmtilegheitum.

Guðmundur er búinn að skilja Samfylkinguna eftir flegna á blóðvellinum, og Framsóknarflokkinn að minnsta kosti haussviðinn sem hélt að hann ætti alla þessa góðu flokksætt trygga. Og nú ætlar Guðmundur að stíga inn í villta vinstrið með enn einn flokkinn okkur til bjargar. Þó að ekki hafi enn fundist nafn á sýningna er þegar búið að ráða í sýningarstjóraembættin en í þeim verða Guðmundur og Heiða Ríó-Helgadóttir. Stefnuskráin og nafnið á flokknum kemur svo síðar.

En allir sem eitthvað fylgjast með pólitík vita fyrir hvað Guðmundur stemdur eftir áralanga hugsjónabaráttur hans. Enda hefur hann verið óþreytndi að kynna kjósendum sinum hugsanir sínar á umliðnum árum í ótal blaðagreinum og fjölmiðlauppákomum auk þess sem hann leikur listavel á hljóðfæri. Heiða mun svo væntanlega sjá um það sem útaf stendur.

Vinstri menn almennt virðast ekki getað tollað lengi saman í aðeins tveimur hlutum, sem hétu Alþýðuflokkur og Alþýðubandalagið þegar Kommúnistaflokkurinn var búin nað myndbreytast næst síðast.
Eftir var að að stofna

Bandalag jafnaðarmanna
Samtök um kvennalista
Samtök um jafnrétti og félagshyggju
Þjóðvaka, hreyfingu fólksins
Hreyfinguna
Samfylkinguna
Vinstrihreyfinguna - grænt framboð
Þjóðvarnaflokkinn Frjálsa þjóð,
Samtök frjálslyndra og vinstri manna(hvernig sem menn geta séð samhengi þar á milli)

Allt er þetta auðvitað af því að jafnaðarmenn eru svo jafnir að þeir geta ekki staðið hlið við hlið frekar en svínin í sögu Orvells. Allt sameinast svo í því sem afi Guðmundar sagði og faðir hans gerði að sínum: "Allt er betra en Íhaldið".

Svo á að vera gaman í þessum nýja flokki, annars hættir hún Heiða. Hvað þarf að ganga á til að Guðmundur hætti er ekki gefið upp fyrirfram enda á það ávallt að koma á óvart svo það sé þá skemmtilegt eins og dæmin sanna.

Aðalatriðið að þetta á að vera skemmtilegt segir hún Heiða.


Flugvallarfrekja

birtist í frétt um bréf Jóns Baldvins Pálssonar  til Borgaryfirvalda:

"Jón Baldvin Pálsson, flugvallarstjóri Reykjavíkurflugvallar, segir í bréfi sem hann sendi umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar 20. september að tré í Öskjuhlíðinni hafi hækkað svo mikið að þau skapi hættu fyrir flugvélar í aðflugi og flugtaki frá austur-vesturbraut vallarins. Lækka þurfi eða fella þau tré sem skagi hátt upp í svokallaðan hindranaflöt."

Rétt er það að tréin hafa hækkað og munu hækka mikið enn.  Hinsvegar getur Jón þess ekki að það er ekki ILS á braut 31 sem er auðvitað til skammar ef nota á þessa braut í alvöru. Og hún er alltof nálægt Öskjuhlíðinni til þess að vera almennileg til lendingar og hefur alltaf verið.  Þó að Gísli Marteinn vilji ekki saga tréin vegna þess að Flugvöllurinn sé á útleið, þá er það ekki af gróðurkærleika. Þá hefði hann reynt að hindra Asparmorðingjanarrið í spjöllum sínum við Ráðhúsið. Flugvöllurinn er ekkert að fara. meirihluti landsmanna vill hafa hann þarna áfram. Gísli er í minnihluta. Þessvegna þarf að vernda Öskjuhlíðina fyrir bæði Jóni Baldvin og Gísla Marteini. Þetta er náttúruparadís sem á að vera heilagt vé.

Það sem þarf að gera er að setja Suðurgötuna í stokk undir flugbrautina og lengja hana til vesturs. Aðflugið er asnalegt svona lágt og bratt niður Öskjuhlíðina. Og setja auðvitað almennileg siglingatæki við hana.  Allt annað er bara klastur sem engu skilar.

Að láta sér detta í hug að saga tréin í Öskjuhlíð er Flugvallarfrekja af verstu sort. Skammastu þín Jón Baldvin fyrir svona skammsýnar og ruddalegar úrbótatillögur.


Van Rompuy holds Farage in contempt

er heiti á myndbandi á YouTube. Þar sjáum við hvaða mann hann Farage var að tala um.

Þessi maður var forsætisráðherra Belgíu og er því ekkert nóboddí. Á  þessu myndbandi talar hann á frönsku og þar kemur í ljós að þetta er enginn smákalli sem ræðumaður. Þó Farage hafi sagt hann hafa álíka þokka og gömul gólftuska og líkjast gömlum bankasgjaldkera, þá er nauðsynlegt að horfa á þennan kall líka. Það er ekki nóg að hann beri frönskuna svo vel fram að maður skilur heilmikið, þá talar hann allt að því jafngóða ensku og Nigel Farage sjálfur og þrumar líka af sannfæringarkrafti sem íslenskir stjórnmálamenn væru fullsæmdir af. 

Við verðum alltaf að heyra hina hliðina líka. Því verðum við að hlusta á Van Rompuy forseta  líka þó við séum hrifnir af Farage. En Nigel fékk stórsekt fyrir kjaftinn á sér á Evrópuþinginu um Van Rompuy og þótti kannski engum mikið, þetta var einum of gróft til að segja á þingi þó það væri vel sagt.


Nigel Farage

hrífur mig hreint út. Þetta ósvífna glæsimenni og ótrúlega mikli ræðumaður lætur engann ósnortinn. Hann er vissulega strigakjaftur en hann trúir því sem hann segir. Hann er einlægur þjóðernissinni og sem þingmaður á Evrópuþinginu stendur hann vörð um þjóðríkið og fólkið á móti kerfismennskunni og yfirþyrmandi völdum embættakurfanna í ESB, vanRompuey og Barrosso sem hann segir enga hafa kosið og enga geta sett af.Þessir menn hagi sér á gerræðislegan hátt við að keyra persónuleg hugðarefni sín í gegn á kostnað þjóðrikjanna. Og hann er með rök á bak við hverja upphrópun.

 

 

Ég naut þess að heyra hann taka hann Gordon Brown í gegn þarna á þinginu. Hann fletti ofan af þessum krata sem hefur ávallt sett hagsmuni ESB ofar breskum hagsmunum. Hann tók sem dæmi um heimsku Brown að hann seldi 400 tonn af gulli Breta á 265 follara únsuna við eitthvað tækifæri og tapaði þar fyrir hönd breska heimsveldisins 6 billjónum dollara á þessu eina asanastriki. Gordon Brown sat með fábjánaglott undir þrumuræðu Farage. Þessi lúði sem allir íslendingar eiga að minnast í bænum sínum fyrir hvernig hann fór með okkur sá erkiraftur.

 

 

Maður ber Farage í ræðustólnum ósjálfrátt saman við okkar heimaöldu þingmenn sem burðast við að lesa upp stílana sína á Aþingi Íslendinga. Það er helst að Steingrímur J. komist nálægt Farange að krafti og ofsa. Hinir tala eins og strengjabrúður flestir og auk þess illa læsir, stirðmæltir og vesælir sveitakurfar. Nema náttúrlega að Steingrímur er eins og hann er og á ekkert annað sameiginlegt með Farage en raddbeitinguna, handapatið og fylgnina. Steingrímur skilur hinsvegar áreiðanlega fæst af því sem Farange er að tala um svo við sleppum frekari samjöfnuði. En Farage er greinilega í pólitík af þvi hann hefur sannfæringu fyrir því sem hann er að tala um.

 

 

Hann er ekki strengjabrúða eða loddari heldur innblásinn maður með slifsi og flott í tauinu. berið hann saman við slifsislausu lúðana í Hreyfingunni eða Samfylkingunni til dæmis! Nigel Farage er ræðumaður sem menn sjá ekki daglega. Farið á www.youtube.com og leitið hann uppi. Það er þess virði. Svona menn vantar okkur í pólitíkina sem trúa því sem þeir eru að tala um og þora að segja það.

 

 

Nigel Farage er karl í krapinu.


AlltfyrirAlla

gæti verið nýtt nafn á nýstofnaðan stjórnmálaflokk. F lokkurinn ætlar sér eftirfarandi: "Við viljum vera opinn vettvangur eða farvegur fyrir vel meinandi einstaklinga til þess að hafa áhrif á samfélag sitt. Við viljum grænt hagkerfi sem skapar fullt af fólki atvinnu, góða skóla og heilbrigðiskerfi, arðbæra og sjálfbæra nýtingu auðlindanna okkar, stöðugt efnahagslíf, óttalausa samvinnu við aðrar þjóðir, víðsýni, lýðræði, frjálslyndi, frið og mannúð."

Einhverjar mér ókunnar mannvitsbrekkur hafa líklega samið þessa stefnuskrá eftir vandlegan undirbúning og óska nú eftir fólki til að koma höfundunum á þing eins og tíðakast hefur með nýjar fjöldahreyfingar. Fljótt á litið gæti þetta verið hugsjónalegur afleggjari frá grænu framboði með sjálfstæðislegu virkjanaívafi en með samfylkingarlegri aðild að Evrópusambandinu og norrænum náungakærleik að hætti Steingríms. Hann verður fjöldahreyfing fyrir fullt af fólki til að fara ný störf sem hann ætlar væntanlega að skaffa eins og Jóhanna hefur margoft séð fyrir sér að gera.

Er víst að flokksmenn verði allir sammála þessum hugsjónum? Eða verða einhverjir með sérþarfir? Eru þetta hugsanlega sameinaðar hugsjónir landsmanna í pólitík? Eitthvað fyrir alla, konur jafnt og kalla,...gæti orðið flokkssöngurinn. Þá verður ekki árans fjórflokkurinn lengur neitt til að óttast fyrir Pétur á Sögustöðinni. Næst geta menn kosið 8 flokka í það minnsta, fjórflokkinn og svo Hægriflokk Guðmundar Franklín, Hreyfinguna, Liju flokkinn og svo þennan nýja og Guðmund Steingrímsson,. Það verður nú aldeilis gaman að mynda stjórn til að afgreiða tillögur Stjórnlagaráðs sem Pétur á Sögu ber fyrir brjósti.

Gæti flokkurinn ekki bara heitið " AlltfyrirAlla" -flokkurinn og haft listabókstafina AfA ! Svo má bæta við einu h-i og þá nær flokkurinn líka vel til Múslíma.

AlltfyriAlla! Er það ekki málið?


Ingibjörg í Afgahnistan fellur fyrir borð

í vesturbænum í Reykjavík af flokkaflóru Samfylkingarinnar. Það er látið sem svo af forystumönnum að hún sé bara að segja sig úr einu flokksfélagi Samfylkingarinnar sem skipti ekki höfuðmáli. Þetta félag getur þá ekki verið flokkurinn sjálfur? Ekki einu sinni Jón Baldvin getur breytt því?

Í Sjálfstæðisflokknum eru menn einungis í gegn um Sjálfstæðisfélögin í heimabyggð sinni. Það er hugsanlega svo að Ingibjörg sé í Samfylkingunni þó að hún hafi gengið úr heimafélagi sínu í vesturbænum. Nema hún hafi stofnað hverfafélag í Kabúl og þannig sé hún gildur limur i þessum fjölskrúðuga flokki sem Samfylkingin er orðin þessa dagana.

Ingibjörg í Afgahnistan er þá líklega í Samfylkingunni eftir sem áður? Gætu 80 milljónir ekki að duga fyrir kröftugu klúbbstarfi í Kabúl?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 3418425

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband