Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Takk Davíð !

fyrir að hafa verið svo staðfastur í þínum málflutningi fyrir því að Íslendingum beri ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna.

Þjóðin og þú áttuð enn einu sinni samleið.

Takk Davíð !


Aðalatriðin við NEI !

sem vinnast eru:

1. Skuldin, hver sem hún verður eða ef hún er þá nokkur, verður greidd í
íslenskum krónum en ekki í sterlingspundum eins og nú er í samningnum.

2. Lögsagan flyst frá breskum dómstólum til Íslands

3. Við fáum langt frí frá öllum greiðslum. Frestur er ávallt á illu bestur.

4. Tíminn vinnur með okkur eins og hann hefur gert. Þau ár sem geta liðið eru
okkar til að ná vopnum vorum.

5. Íslenska Þjóðin mun finna sjálfa sig aftur. Öðlast nýtt sjálfstraust með
bættum hag og verða upplitsdjörf á ný.

6. Íslendingar munu skilja að þeir eru engir eftirbátar annarra
þjóða.

7. Íslendingar eru ekki játaðir sökudólgar. Þeir fóru að öllum lögum.

8. Íslendingar eiga gjöfulasta land í heimi. Icesave klafinn rýrir ekki
nýtingarmöguleika okkar.

9. Íslendingar sýna heiminum djörfung og dug. Heimurinn hlær við horskri
þjóð.

10.Íslendingar eru umkringdir vinum og vandamönnum sem virða staðfestu okkar!

Þessvegna segjum vð NEI !


Flokkshollusta eldri Sjálfstæðismanna

er sögð skýringin á miklu JÁ-fylgi meðal eldra fólks. Það séu eldri Sjálfstæðismenn sem vilji ekki ganga gegn forystu flokksins síns og segja NEI við Icesave á morgun. Láti það ganga fyrir öðrum skoðunum sínum á því máli.

Mér finnst þetta líkleg skýring. Flokksvitund er mikil meðal þessa hóps og er sú kjölfesta sem flokkurinn hefur lengi byggt á.

En hefur þetta fólk athugað að Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir eggja sitt fólk lögeggjan til að segja JÁ ? Finnst eldri Sjálfstæðismönnum ekkert einkennilegt að vera allt í einu að fylgja sama kalli og Vinstri Grænir ? Einhverskonar þjóðernisflokkur umhverfissinna ? Flokkur með kommúnisk element innanborðs ? Eins ólíkur Sjálfstæðisflokknum og verða má ?

Hvernær náði þetta fólk saman við okkur eldri Sjálfstæðismenn um sömu hugsjón ? Hvernig gat sú fyrirætlan að greiða skuldir óreiðumanna, jafnvel  með æluna í hálsinum,  frekar en draga málið á langinn með betri niðurstöðu í huga, orðið að okkar sameiginlegu stefnu ?

Ég sendi eldri Sjálfstæðismönnum kveðjur og bið þá að hugsa málið einu sinni enn áður en þeir skuldbinda þjóðina með þessum hætti.


Virkjun eða vextir?

er spurningin á morgun.

Búðarhálsvirkjun kostar 26.5 milljarða.

Verði Icesave samþykkt í þjóðaratkvæðinu 9.apríl á Steingrímur að borga svipaða upphæð í vexti nú í apríl úr ríkissjóði.

Hvort er betra að borga virkjunina strax og bíða með þessa greiðslu vegna Icesave eða borga vextina strax ?

Skyldi Breska heimsveldið vera algerlega á kúpunni ef það fær ekki sendingu frá Steingrími? Flóðgarðarnir í Hollandi að bresta ef VG sendir ekki kítti ? ESB verði með æluna í hálsinum ef Tryggvi huggi það ekki ?

Liggur okkur ekki svo mikið á virkjuninni að við getum frestað þessum vöxtum ?


Er til Icesave skuld?

spyr gamall vinur minn Pétur í Morgunblaðinu:

"Er til Icesave-skuld?
Svar: Ég veit það ekki.

Ef skuldin er til, hvað er hún há?
Svar: Ég veit það ekki.

Ef skuldin er til, hver er þá skuldarinn?
Svar: Ég veit það ekki.

Ef skuldin er til, hver stofnaði til hennar?
Svar: Eigendur Landsbankans.

Ef skuldin er til, hver er þá ábyrgur fyrir henni?
Svar: Íslenskur almenningur.

Af hverju?
Svar: Ég veit það ekki.

Hverjir eru gjalddagar á þessari skuld, sem enginn veit hvort er til né hvað hún er há?
Svar: Jú, það á að greiða þessa miljarða þennan dag og hina milljarðana hinn daginn...."

Er þetta ekki kjarni málsins ?

Um hvað er verið að tala ? Er til einhver Icesave skuld mín eða þín?


Fjáraustur i Áfram

hópinn frá bönkunum hlýtur að vekja klígju hjá fleirum en Tryggva Þór. Er það ekki viðeigendi að Landsbankinn, einmitt Landsbankinn, skuli fjármagna áróðurinn fyrir að þjóðin taki óskoraða ábyrgð á afrekum Landsbankans á erlendri grund, betur þekkt sem Icesave ? Hvorir skildu hlæja hæst núna, Sigurjón digri, Halldór eða Björgólfarnir?

Einhvernveginn leggst það þannig í mig, að eitthvað af 4 milljörðunum sem ESB kom með hingað í haust til að að liðka fyrir aðild Íslands, séu að detta inní þessa baráttu. Fjárausturinn fyrir JÁ er svo gríðarlegur að manni verður orðfall. Hér eru ekki á ferð neinir íslenskir blánkismenn.

Er það virkilega svo að almenningur láti móta skoðanir sínar af glamúrbréfum og slagorðavaðli í anda gamla Göbbelsar, sem sagði að lygi maður nógu oft sömu lyginni breyttist hún í sannleika? Ég vil ekki trúa því hvað sem Capacent segir mjótt á mununum. Enda hef ég á mér gætur þegar það fyrirtæki gerir kannanir af ýmsum ástæðum, sem margir þekkja.Aðrar kannanir hafa bent til vaxandi stuðningi við NEI og meiri en nú kemur fram hjá Capacent. En hugsanlega eru áhrif áróðursins farin að koma fram.

Auglýsingar Advise hópsins hafa verið skýrar og hnitmðaðar. Vonandi sjá menn þær líka og lesa þó færri séu og minna áberandi.

Fjáraustur í íslenskum kosningum af erlendu fé munum við sjá í auknum mæli þegar málefni ESB-aðildar komast meira á dagskrá. Ef til vill er þessi fjáraustur í Áfram hópinn aðins framvörður nýrra tíma í íslenskum stjórnmálum, þegar árangur er aðeins mældur í fjármagni.


Afl vort og æra

sem þjóðar hefur beðið hnekki við fall Landsbankans og Icesave.

Þetta sagði góð og grandvör kona við mig í Laugunum í morgun. Hún sagðist ætla að greiða atkvæði með JÁ í þeim tilgangi að reyna að endurheimta þessa æru og sýna umheiminum að á Íslandi væri til heiðarlegt fólk sem  greiddi skuldir sínar.

Þetta er auðvitað mjög virðingarverð afstaða. Sé það heiður þjóðarinnar sem er í veði ef við  borgum  ekki skuldir samlanda okkar sem þeir sviku út í öðrum löndum,  verðum við þá ekki mjög að gæta oklkar hverjir fá að fara til útlanda?  Nýlega var íslensk kona dæmd fyrir mikil fjársvik í Bandaríkjunum ásamt manni sínum. Eigum við sem þjóð þá að greiða milljónamæringnum sem hún sveik, bætur? Berum við sem þjóð ábyrgð á hegðun allra Íslendinga á erlendri grund? Hvar eigum við að draga mörkin. Afli voru og æru getur orðið svo ofboðið að það dugi ekki til eins og við Icesave.

Ég vildi leiða þessari góðu konu fyrir sjónir, að við myndum væntanlega greiða innistæðutryggingar eftir sem áður þó við segðum NEI við frumvarpinu um að heimila Steingrími J. að skrifa undir fyrirliggjandi samningsdrög, sem er aðeins það sem þjóðaratkvæðið snýst um á laugardaginn.

 Frumvarpið væri um ríkisábyrgð á að greiða innistæðutrygginguna, játa breskri lögsögu við öll deilumál, og greiða ennfremur 500 milljarða sem breskir greiddu sínu fólki þannig að það er skaðlaust af Icesave. Ennfremur bindingu allra fjárhæða við sterlingspund og greiða svo vexti eins og af innistæðum væri.

Ég vildi segja að okkur bæri ekki að greiða nema innistæðutryggingar í ítrustu tilvikum og myndum væntanlega gera það úr þrotabúi Landsbankans með hárri greiðslu frá okkur sjálfum í formi skuldabréfs vegna kaupa NBI á innistæðum þess gamla.  Til viðbótar munu Bretar væntanlega geta náð til sín erlendum eignum sem nema yfir 90 % allra krafna þótt við segjum NEI við samningnum.

 Það sem breyttist við NEI væri að fjárhæðin yrði eftir það ávallt í íslenskum krónum og lögsagan yrði íslensk. Við veittum heldur enga ríkisábyrgð sem gæti orðið okkur örlagarík við verstu aðstæður, ef neyðarlögin stæðust ekki.

Elkki vildi konan hlusta á þetta og strunsaði burt og var all-reið við mig.

Er það er svo að við kaupum æru okkar til baka og virðingu allara þjóða með því að borga möglunarlaust? Reynum ekki að ná hagstæðústu niðurstöðu eða lina sviðann? Hugsum ekki um hagsmuni ókominna kynslóða sem þessi góða kona ber ábyrgð á?

 Er það ekki full langt gengið að reyna ekki að lágmarka tjónið án þess að æran bíði þann hnekki sem konunni finnst vera óbærileg ?

  

  

 

 


Óskastund

fannst mér vera þegar ég las leiðarann í Morgunblaðinu í dag. Þar segir m.a.og er vitnað í grein húsmóðurinnar Óskar Bergþórsdóttur :

»Úr háskólunum kom lofsöngurinn um snillingana, aðilar vinnumarkaðarins klöppuðu hrifnir með, samtök atvinnurekenda sömuleiðis, heill stjórnmálaflokkur varð að hálfgerðu dótturfélagi auðhrings. Þjóðþekktir rithöfundar og listamenn dásömuðu útrásarhöfðingjana. Allir sameinuðust þeir svo um að níða þá stjórnmálamenn sem voru grunaðir um að vera ekki á bandi útrásarvíkinganna.

Nú er útrásarspilaborgin hrunin og venjulegt fólk hefur fengið skellinn af ævintýrum garpanna. Og þá vill svo til sami kór og áður lofsöng útrásarmenn kemur nú aftur og hefur upp raust sína. Nú vill hann að almenningur, við þessir almennu skattgreiðendur, börn okkar og ófædd börn, taki á sig skuldir víkinganna. Samtök atvinnulífsins, háskólamennirnir, stjórnmálamennirnir sem studdu útrásarvíkingana, rithöfundarnir sem mærðu útrásarvíkingana, allir eru mættir aftur. Fjölmiðlarnir liggja ekki á liði sínu. Meira að segja lögmennirnir þeirra eru margir hverjir komnir á kreik.

Nú vilja allir þessir marktæku aðilar að þjóðin borgi Icesave-brúsann, rétt eins og þeir sömu vildu í fyrra að þjóðin kyngdi Icesave nr. II. Og enn beita þeir sömu röksemdafærslunni, auknar skuldir eru góðar. Nú á það að styrkja stöðu Íslands að taka á sig óviðkomandi skuldir. Nú á lánshæfið einmitt að batna, ef við bara leggjum tuga eða hundraða milljarða skuldir á okkur til viðbótar við það sem við raunverulega skuldum. Því skuldsettari því betri. Nú yrðum við sko aftur þjóð meðal þjóða, eins og þegar við fórum um á einkaþotum, keyptum verslanir og gáfum út fríblöð.

Hausinn er síðan bitinn af áróðursskömminni með runu fyrrverandi ráðherra sem sitja makindalega með ríkistryggðu eftirlaunin sín, með allt sitt á þurru, segjandi almenningi að taka nú á sig þessar skuldir.

Útrásarmennirnir náðu ýmsum svona dílum. Þeir juku skuldirnar ár frá ári og sjaldnast bættust nein raunveruleg verðmæti við. Loks fór allt á hausinn nema helst þeir sjálfir. Og rétt eins og á útrásarárunum situr venjulegt fólk og hristir höfuðið yfir snilldinni úr spekingunum sem vilja að venjulega fólkið opni enn og aftur veskið. En nú er eitt breytt frá útrásarárunum, nú höfum við þann möguleika sem við höfðum ekki þá. Nú getum við sagt nei. Og það gerum við á laugardaginn - hvort sem elítunni, sem iðulega þykist vita betur, líkar það betur eða verr.«

Fyrir þá sem ekki lesa Morgunblaðið vek ég athygli á þessum tilfærða pistli hennar Óskar Bergþórsdóttur og vona að það verði til gagns.

Þess meira sem maður hugsar um Icesave þess meira verður maður bit yfir þeim galskap að ætla að samþykkja gjaldeyriskröfur Bret og Hollendinga vegna deilunnar við þá um Icesave. Það eru engin rök fyrir því að við verðum sóttir til saka annarsstaðar en fyrir íslenskum dómstólum. Nema auðvitað að okkar stjórnvöld samþykktu annað og nógu eru þau vitlaus til þess að maður þori aðútiloka þann möguleika.

Það er alveg ólíðandi með öllu, að forystumenn eins og Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson skuli komast upp með það að hóta þjóðinni með samtakamætti samtaka sinna til óhæfuverka ef hún beygi sig ekki í duftið og samþykki samninginn. Allir kjarasamningar séu í voða og allt kolsvart. Verkföll blasi við og annað það sem þessir kallar geta fært okkur af allskyns óhamingju.

Málflutningur JÁ manna verður hinsvegar kostulegri og minna sannfærandi með hverjum deginum. Myndir af gömlum ráðherrum, sem margir eru aðeins martröð í hugum fólks, heilla vonandi fáa til fylgis. Hótanir er það helsta sem á fólki dynur og maður finnur glöggt hversu þær bíta á grandvörum sálum sem vilja síðast af öllu troða illsakir við nokkurn mann, hvað þá heilar þjóðir. En við þetta fólk getum við aðeins sagt:

Óskastund okkar er sú þegar við stöndum vörð um sjálfstæði landsins okkar og framtíð þjóðarinnar og látum ekki ofbeldishótanir hrekja okkur af leið. Við vitum að við erum saklaus sem þjóð. Við erum ekki ábyrg fyrir því sem gerðist.


Enn ein ríkisreddingin

þegar N1 er gert út af bönkunum í stað þess að setja það í gjaldþrot og loka því. Er ekki sama með Landsbankann nýja ? Er einhver þörf á starfsemi hans í yfirhlöðnu bankakerfi?

Er ekki verið að gera út BYR og Sparisjóð Keflavíkur, Steypustöðina og BMVallá, Húsasmiðjuna,Pennan og margt fleira út á ríkispeninga? Til hvers er verið að halda úti fyrirtækjum á almannakostnað þegar nóg er af öðrum sem geta tekið vð viðskiptunum ? Til hvers var verið að rétta Sjóvá við með ríkispeningum ? Er þetta austurþýska leiðin til að halda uppi atvinnu ?

Kapítalisminn krefst þess að fyrirtæki fái að fara á hausinn og ný fyrirtæki fái að taka við. Annars virkar ekki kerfið. Kvótakerfið, sem á auðvitað ekkert skylt við markaðshagkerfi, er líka látið halda úti óþörfum fyrirtækjum sem skekkja alla samkeppni í gegnum allt of stórt bankakerfið. Veit einhver hversu mikið útgerðarmenn eru svo búnir að selja af fiskveiðiauðlindinni til útlendinga á bak við tjöldin? Hverjir raunverulega eiga miðin ? Hversvegna ekki er hægt að breyta neinu í sjávarútvegi?

Ríkisstjórnin byggir á hreinni austurþýskri hagfræði og hagar efnahagsstefnu sinni eftir því. Enn ein ríkisreddingin sannar það svo ekki verður um villst.


Gengisáhættan hverfur við NEI

við Icesave skulum við gera okkur grein fyrir.Samningurinn er í pundum og við stöndum frammi fyrir stóru gengisfalli þegar gjaldeyrishöftin fara. Ef EFTA segir að við höfum brotið gegn tryggingunum þá verður aðeins dæmt etir íslenskum lögum í íslenskum krónum. Við ráðam henni sjálfir en ekki Bretar eða Hollendingar. Icesave samningurinn er alltof mikil áhætta því hann er allur í gjaldeyri. Þeir sækja hinsvegar ríkisábyrgðina svona grimmt af því að þeir eru á sama tíma að reyna að eyðileggja neyðarlögin og þarmeð allt uppgjör bankanna til þessa og ná í allt sparifé landsmanna í leiðinni.

Að samþykkja Icesave í núverandi mynd er galskapur og fjárhættuspil. NEI hefur alla kosti í för með sér.Gengisáhættan hverfur við NEI !


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband