Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

"Niður með Ísland !"

er sá boðskapur sem dembt er yfir landslýðinn af ríkisrásinni og stjórnvöldum.
Birt eru línurit sem sýna svart á hvítu hvað hér sé skelfilegt ástand. Sleppt er að birta línurit á næstu síðu sem sýna hið gagnstæða. Skoðið síðu Gunnars Rögnvaldssonar hér um.

"Kúba norðursins" var heitið sem "blómaskreytingin í ráðherrastólnum" valdi þjóðinni ef hún dirfðist að hafna Svavars-samningnum hans Steingríms J. um Icesave I.

"Útlagi úr samfélagi þjóðanna" ef við ekki borguðum.

Hvenær hafa nokkur hvatningarorð til þjóðarinnar heyrst frá ráðherrum í þessari ríkisstjórn? Ekki einu sinni í útvarpi frá Hrafnseyri við Dýrafjörð. Nei hér allt í voða nema við fáum beint lýðræði með nýrri stjórnarskrá og nógu mörgum flokksbrotum inn á þing. Þjóðin á enga möguleika með krónu í stað Evru innan ESB. Seljum raforkuna úr landi með sæstreng til ESB. Fiskimiðin eru best komin undir annarra stjórn. Getur þessi þjóð yfirleitt nokkurn einasta hlut sjálf? Hvenær kemur næsta stefnuskrá Steingríms J. og VG?

Þetta er ríkisstjórnarforystan sem við búum við.

Það er eins og hún krunki bara: " Niður með Ísland!"


Kaus ég hann?

Helga Magnússon sem er formaður í Lífeyrissjóði Verslunarmanna?

Hann skrifar lærða grein í Morgunblaðið um nauðsyn þess að Lífeyrissjóðurinn komi myndarlega að því að kaupa hlutafé í bönkunum. Ekki síður í þeim sem Steingrímur gaf til hrægammasjóðanna, Íslandsbanka og Aríon banka heldur en Landsbankans sem má alls ekki vera í ríkiseign nema að hluta.(sic?) Ástæðan er sú að lífeyrissjóði vantar tilfinnanlega fjárfestingarmöguleika?

Ég er hættur að muna hvað minn lífeyrir hefur veri skertur oft vegna feilspekúleringa lífeyrissjóðsins míns á undanförnum árum til dæmis í hlutabréfum í bönkum. Aldrei fékk ég að kjósa neinn sem því stýrði frekar en þennan Helga sem ég veit ekki haus né sporð á. Hvað skyldi hann hafa í kaup eða fríðindi fyrir að stjórna mínum lífeyrissjóði fyrir mig?

Sem þrautreyndur maður í hlutabréfum í bönkum er ég ekki sannfærður um ágæti þess að kaupa hlutabréf í bönkum sem snillingar á borð við Jón Ásgeir og Lárus Welding kunna að ná völdum í og stjórna. En auðvitað er miklu léttbærara að tapa annarra manna peningum en sínum eigin og því skil ég djörfung og víðsýni Helga Magnúsonar þegar kemur að bankahlutabréfum.

En ef lífeyrissjóðir eru að taka peninga af launþegum bara til þess að tapa þeim í verðbólgu þá er eitthvað annað að en "skortur á fjárfestingarmöguleikum". Það er kerfisvilla fyrir hendi sem þarf að leiðrétta launþeganna vegna. En auðvitað er það gamla spurningin um apann og oststykkið sem á við um Helga og lífeyrissjóðina.Kerfið er orðið sjálfnærandi og það er orðið atvinnugrein að lifa á því að éta annarra ost.

Lífeyrissjóðakerfið er löngu búið að sanna sig með að hafa verið ein allsherjar della frá upphafi. Það þjónar engum tilgangi öðrum en að hlaða völdum undir svona kalla eins og Helga Magnússon og aðra stjórnendur og færa eigendunum tapsáhættu. Allt féið hefði betur verið lagt í Seðlabankann á nafni hvers launþega. Þannig hefði það varðveist betur en hjá öllum þessum þorgeirum og helgum og án alls þessa gríðarlega kostnaðar tuga lífeyrissjóðastjórna.

Ég kaus ekki þennan Helga og mér líst illa á að hann komi nálægt því að krukka í Lífeyrissjóðinn minn til ávinninga fyrir fjármálageira, suðumenn og sjömílnahlaupara framtíðarinnar.


Fyrirheitna landið !

 

svissvextir      

 

 

 

 

 Þarna getum við Íslendingar séð inn í fyrirheitna landið."The promised Land" eins og þeir syngja um í blökkumannamessunum í USA  Frá júlí 2011 eru núll vextir í Sviss(Stal þessu línuriti frá Gunnari Rögnvaldssyni). Stórlækkun úr 0.25% sem voru áður!

Af hverju?

Það er svo mikil pressa af evrum frá evrópskum (skattsvikurum?) sem vill komast inn í Sviss og setjast þar að að þeir verða að hóta að prenta óendanlega mikið af nýjum frönkum ef evrulöndin reyna ekki að hafa hemil á sínu fólki. Þeir geta ekki haldið gengi frankans niðri með öðru móti. Of sterkur franki gæti eyðilagt efnahagslífið. Og Sviss vill ekki ganga í Evrópusambandið.

Hvað gerðum við í góðærinu? Hækkuðum við ekki stýrivexti ? Hægði það á aðstreymi gjaldeyris? Hvað gerðum við við gjaldeyrinn? Lánuðum hann út gengisbundið? Hvað gerum við núna?

Það er ekki auðvelt að leggja fyrir í Sviss. Heldur ekki hér. En frankinn er sterkur. Það var krónan líka fyrir skemmstu.

Krónan er einskonar spegill fyrir hegðun okkar sjálfra. Ef við erum vond við hana þá hörfar hún. Ef við virðum hana þá endurgeldur hún blíðuhótin. En hafa Íslendingar ekki alltaf  haldið  að nauðgun sé eitt form af ástartjáningu? Þeir eiga erfitt með  að bíða? 

Því fer sem fer og fyrirheitna landið hörfar jafnhratt og við hlaupum í átt til þess. 

 


Víggirtur friður

er það sem við blasir þegar veita á ESb friðarverðlaun Nóbels.

Vegna komu æðstu strumpa sambandsins til Osla þarf meiri víggirðingar ef nokkuð er heldur en þegar menn Hitlers komu þangað um árið. Algert flugbann yfir Osló svo þeir geti étið einu sinni með Stoltenberg áður en þeir hypja sig sem snarast heim til sín með aurinn.

Aumingja Nóbel. Þvílíkt bandalag, þvílíkur friður.


Æi jæja, Bárður minn

óttalega ertu klaufskur í greininni í Fréttó á laugardaginn.

Þó að menn séu biflíufróðir eins og þú þá eru til óheppilegir textar í þeirri góðu bók eins og við krakkarnir munum sem vorum að stelast í Esekíel í Den.

Þessi passus þinn er eiginlega ekki hentugur til þess að fá okkur "úrtölumennina" til fylgis við tillögur stjórnlagaráðs. Svo mörgum okkar,jafnvel ekki af félagsvettvangi Háskóla Islands, sem vitum hvað við höfum af Stjórnarskrá en vitum ekki endilega allt sem okkur vantar í þeim efnum, finnst plaggið ykkar barasta alls ekki búið.

Og við erum svo þrjósk að við viljum ekki láta keyra svona ofan í okkur. Þú ert ekki talsmaður nauðgana þykist ég vita svo mig undrar óbilgirni þessa "lattelepjandi" liðs eins og gárungarnir kalla suma talsmennina.

En svona skrifar þú meðal annars til þess að fá mig tl fylgis við þessar tillögur stjórnlagaráðs:

"2011, stjórnarskrá sem fær flotta dóma þeirra erlendu sérfræðinga sem búa yfir alvöru þekkingu og kunna að lesa hana í samhengi við aðrar stjórnarskrár heimsins. En hér heima á klakanum eru úrtölumenn, einkum af félagsvísinda- og lögfræðisviðum háskólanna, orðnir hásir við að öskra á fólk um að snúa við, fara til baka. Mér koma til huga orð Salómons konungs, þess vitra manns: "Eins og hundur sem snýr aftur til spýju sinnar, svo er heimskingi sem endurtekur fíflsku sína."

Ætlum við að að vera þær gungur að snúa við? Ætlar þú, þjóð mín, að snúa aftur til spýjunnar?"

Bárður minn, þó þú sért svona ánægður með þig þá virka svona skrif ekki til að sannfæra mig. Þú ert um margt ágætis prestur og frábær á stundum eins og þegar þú skýrðir Passísuálmana fyrir honum Ingva Hrafni. Það er nokkuð sem þyrfti að endurtaka. En pólitíkin þín eins og hún birtist í áminnstri grein er ekki til þess fallinn að auka fylgi við "Latte-plaggið". Og svo ættirðu held ég bara að koma aftur að spila tennis.

"Æi jæja æi jaæja ég er nú svoddan jólasveinn" syngur þjóðskáldið okkar hann Ómar Ragnarson. Mér finnst stundum að hann sé að syngja um mig þegar ég er sem tregastur.


Þeim hefur mistekist

að leysa vandamál þjóðarinnar.

Hvert einasta stórmál ríkisstjórnarinnar hefur farið í vaskinn og klúðrast. Nema óþörf skattlagningin á sjávarútveginn sem mátti ná fram á mun einfaldari hátt og beinni fyrir allan almenning. Svo eru fitl við sértækar skattahækkanir á ferðaþjónustu, bílaleigur og álagning sykurskatts. Og kaldhæðnin er auðvitað sú að vísitalan veldur 0,25 % hækkun á öllum verðtryggðum lánum heimilanna með neftóbakshækkuninni einni og sér auk margra prósenta sem á lánin leggjast vegna annarra gjaldahækkana.

Svo segir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem enginn veit auðvitað hver skrifar.

"Öllum er ljóst, nema kannski Jóhönnu Sigurðardóttur, að ríkisstjórnin er þegar runnin á rassinn í umsóknarmálinu. Öllum, nema Jóhönnu og hugsanlega Valgerði Bjarnadóttur, er líka orðið ljóst að enginn, hvorki þær né aðrir, nær að kollvarpa stjórnarskrá landsins, í bullandi ágreiningi og fyrir atbeina hugsanlegs naums meirihluta á Alþingi á síðustu vikum kjörtímabils. Og það án þess að efnisleg skoðun þingsins eigi sér stað, og gegn ráðleggingum allra þeirra sérfræðinga sem að málinu koma.....

....Sjálfsagt þykir einhverjum súrt að nánast hvert einasta »stórmál« ríkisstjórnarinnar hafi farið út um þúfur. En sá sami verður að treysta á að fréttastofa hennar geti túlkað ógöngurnar þannig að við það verði unað.

Hún gæti þannig bent á að það hafi þó tekist að gefa hákarlasjóðum heimsins tvo stærstu banka þjóðarinnar án heimildar og án þess að spyrja hana álits á því. Það er óneitanlega stórkarlalegt verk, þótt það verði seint kallað afrek¨.

Þarna er á mannamáli skýrt frá orsökum þess fimbulfambs sem þjóðin er leidd um af um þessar mundir. Það er verið að eyða tíma frá henni með deilum um ómerkileg mál eins og tillögur stjórnlagaráðs sem engin samstaða er um hvorki fræðilega né efnislega í stað þess að snúa sér að vandamálum bankanna og snjóhengjunnar, atvinnufjárfestinga og kreppu heimilanna. Það er horft uppá það að erlendir hákarlasjóðir eru að blóðmjólka íslensk heimili án þess að norræna velferðarstjórnin sem gaf þessum hrægammasjóðum bankana hreyfi hönd né fót.

Það er blaðrað um allt nema það sem aðkallandi er. Og það á Alþingi sem kvartar yfir augljósum skorti á því að almenningur sýni því virðingu?
Aðeins peningasjónarmið örfárra þingmanna heldur ríkisstjórninni á lífi

Ríkisstjórninni hefur mistekist og hún er til einskis gagns nema fyrir eiginhagsmunaplóga.


"Eftir að hafa farið vandlega yfir málið

með samninganefnd íslenska ríkisins sannfærðist ríkisstjórnin um að ekki væri hægt að ná betri samningum án þess að taka enn frekari áhættu með framhald endurreisnarstarfsins sem nú stendur yfir. Lengra yrði ekki komist án harkalegra árekstra við alþjóðasamfélagið eða mikilla tafa á endurreisnarstarfinu. Skiptir þar sköpum það 7 ára svigrúm sem gefið er til að nýta sem best eignir Landsbankans til að borga upp skuldina, áður en til ábyrgðar eða útgjalda íslenska ríkisins gæti komið."

-(Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í grein í Morgunblaðinu 9. júní 2009.)

Þetta var mat íslenska forsætisráðherrans á stöðu Icesave eftir glæsilegan samning Steingríms J. og félaga Svavars. Þjóðin og Forsetinn tóku þá í taumana og stöðvuðu þær fyrirætlanir sem hefðu líklega hneppt þjóðina í þrældóm til áratuga.

Ekki var hikað þá. Ef til vill líka vegna þess að alger ósigur hefði neytt Íslendinga til að afsala sér fullveldinu og ganga í Evrópusambandið í von um björgun. Féll vel að áætlunum Samfylkingarinnar til lengri tíma litið.

En þessi var dómgreindin þá. Jafnvel með "óháðan" háskólasérfræðing í ríkisstjórninni sem hótaði okkur með að við yrðum "Kúba norðursins" ef við ekki samþykktum.

Sama liðið situr nú niðri við Austurvöll og ætlar að keyra ofan í okkur nýja stjórnarskrá. Maður myndi ef til vill spyrja hvort það sé gert að jafn vandlega athuguðu máli og fyrra tilvikið?

Skiptir kannski ekki öllu máli þar sem um ómerkilegt innanlands stjórnarskrármál og afturkræft er að ræða í þessu tilviki.

En maður spyr sig? Er þessu fólki treystandi til nokkurs skapaðs hlutar í ljósi Icesave I? Hvar er "framhald endurreisnarstarfsins sem nú stendur yfir" statt í ljósi sögunnar síðan þá? Hversvegna fóru allar þessar þúsundir fólks úr landi eftir sem þetta allt var skeð? Er afnám haftanna í augsýn?

Eftir að hafa farið vandlega yfir málið treysti ég þessu fólki ekki til neins.


Requiem in aeternam

dona eis Domine.(Veittu þeim hina eilífu hvíld Drottinn)

Fyrir tilviljun komst ég á miðnæturtónleika í Langholtskirkju á þriðjudaginn var þar sem 80 manna Óperukórinn ásamt einum 20 hljóðfæraleikurum og okkar bestu einsöngvurum fluttu Requiem Mozarts undir stjórn Garðars Cortezar.

Ég er nú ekki mikið latínufróður. En Requiem er orð sem virðist geta táknað sálumessu fyrir hinum dauðu. Latínu textinn virðist vera bæn um eilífa hvíld frá píslum þessa heims og líklega annars heims líka. En ég næ ekki alveg landi með orðið sjálft.

Garðar flutti gott inngangserindi um Mozart og tilurð sálumessunnar og hvernig hann lauk henni fársjúkur og sorgmæddur og dó í beinu framhaldi þess að vinir hans fluttu hana í fyrsta sinn heima hjá honum.

Síðan var verkið flutt. Ég hafði ekki heyrt það áður en undraðist að vonum hvernig Mozart gat heyrt alla þessar raddir og hljóma inni í höfðinu á sér og komið þeim á pappír til þess að ég gæti notið þeirra. Og í stuttu máli eru þeir undursamlegir og heilablásandi(mind-blowing). Og listamennirnir allir unnu þrekvirki í þvílíkri samhæfingu sem flutningur svona verks er. Stórkostlegt, dásamlegt. Takk fyrir allt þið góða fólk að gera þetta og leyfa okkur að njóta.

Þegar ég fór að rýna í textann sem fylgdi með í skránni, þá sýnist manni að þetta sé trúarverk Mozarts svipaðs eðlis og Passíusálmar séra Hallgríms. Hvorutveggja ort í skugga Dauðans. En báðir þessir menn trúðu á Guð og Jesús og líklega bæði á himnaríki þeirra feðga og hugsanlega helvíti og þann vonda til viðbótar. Hugsun Mozarts virðist hugsanlega vera nær óttanum um refsingu annars heims heldur en hjá Hallgrími sem virðist setja traust sitt á sælli tíð. Enda var "lebenið" á Mozart ekki alltaf til fyrirmyndar að því að sagt er og kannski mórall í kallinum þessvegna.

Ég fór að velta því fyrir mér í framhaldi hvort trúarbrögð hafi kannski gert meira til að valda mönnunum þjáningu en gleði? Þessi stöðuga útmálun helvítis, sem enn stendur yfir, setti hroll að fleirum en gamla Páli. Menn þjáðust af dauðans angist alla ævi yfir því hvað tæki við hinum megin. Og svo er víst útbreitt ennþá. Sífelldar áhyggjur yfir því hvað við taki eftir dauðann?

Sagt er frá manni í Sturlungu sem fékk skriftir áður en hann skyldi höggvinn. Hann bar þvílíkar sakir á sig í skriftum að menn komu til Þórðar Sturlusonar, bróður Snorra, og sögðu að maðurinn væri ekki dræpur þess vegna. "Hengið þér hann þá fyrst" sagði Þórður og var það gert. Það virðist hafa verið einhver hermennskuheiður að því að vera höggvinn en smán að vera hengdur sem þjófur og er víst svo enn. Og Hermundur Hermundarson bað hneppa hári sínu svo eigi yrði blóðugt og sá í loft upp er Geirmundur þjófur hjá hann. Ég er varanlega móðgaður út í Einar Kárason að láta þennan töffara skæla alla nóttina í kirkjunni fyrir aftökuna í bók sinni Óvinafagnaður. Tel þetta til hreinna meiðyrða um Hermund sáluga sem víðar kemur við sögu sem algerlega kúl gæi eins og sagt er.

Þessir gömlu vígamenn okkar og þjóðhetjur allir voru mjög trúaðir og báðu mikið fyrir sér við manndrápin. Við syngjum hér sálm í kirkjunum eftir fjöldamorðingjann Kolbein Tumason sem brenndi fjölda saklausra menn inni með bestu lyst. Líklega hefur hann bænt sig vel á eftir þó að hann sé nú í rauninni ansi tilætlunarsamur við Drottinn í textanum ef út í það er farið...Ryð þú röðla gramur... o.s.frv.

Var það hugsanlega nauðsyn fyrir þá ríku að halda trúarbrögðum að þeim fátæku til að halda aftur af þeim í mögulegri viðleitni sinni til að jafna kjörin sín með því að stela? Ná af þeim verðmætum, landskuldum og tíund með hótunum um píslir annars heims? Sagði ekki Lenín að trúin væri ópíum fyrir fólkið?

Menn héldust á vegi dyggðarinnar af þrælsótta við hýðingar og bál hinu megin. Veit einhver hvort illmenni hafa fengið aðra meðferð í himnaríki en hinir dyggðugu? Hvort Þorbergur hafði rétt fyrir sér þegar hann snéri dæminu við fyrir Drottni allsherjar?

Á mörgum sjónvarpsrásum prédika Íslamistar um réttmæti þess að drepa alla vantrúaða í þeim löndum sem hafa skotið yfir þá skjólshúsi. Enginn afsláttur er gefinn fyrir slíkan vinskap þar, þeir vantrúuðu skulu deyja og lönd þeirra falla til Múhameðs. Í Ameríku prédika moldríkir biflíuboxararnir yfir lýðnum í sjónvarpi og raka saman fé af fátækum sem gefa látlaust meðan prédikarinn öskrar og steytir hnefana að áhorfendum.


Hérlendis hafa menn stofnað hugsjónafélög og hafið starfsemi til að græða skattalega sjálfir og fá upp í eigin rekstrarkostnað. Allt í nafni trúar og göfugra málefna en undirliggjandi er eigin gróðasjónarmið. En fæstir þora að finna að þessu þar sem að Drottinn á einhvern hlut að máli eða ómælt göfuglyndi.

Svona afvegaleiðist maður út úr göfugum hugsunum niður fyrir tærnar á sér.

En Requiem eftir Mozart er eitthvað sem enginn skyldi láta óhlustað fram hjá sér fara frekar en að reyna að lesa Passíusálmana með dýpri skilningi.

Ég þakka öllum flytjendum fyrir mig og mína.


Skilja stjórnvöld ekki hvað fram fer?

í landinu, Skilur forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir ekki tengslin á milli skattahækkana og verðbóta?

Guðlaugur Þór ber fram eina afmarkaða spurningu á Alþingi ( Tekið skal fram að Alþingi er opinber vettvangur þjóðarinnar og grafalvarleg löggjafarstofnun en ekki Spaugstofa svo menn taki eftir því) og segir að:

"Upplýst hefði verið á fundi efnahags- og viðskiptanefndar þingsins í morgun að eingöngu hækkun á tóbaksgjaldi samkvæmt fjárlagafrumvarpinu yrði til þess að hækka skuldir heimilanna um þrjár milljarða króna."

Hann segir svo:

"Mjög mikilvægt er að forsætisráðherra upplýsti þjóðina um það hver hækkun lána heimilanna yrði vegna hækkana ríkisstjórnarinnar samkvæmt frumvarpinu."

Jóhanna svarar þessu þannig:

"Það er verðbólgan sem skiptir máli í þessu og hún hefur ekki hækkað hér á síðari hluta ársins og það hefur ekki verið talin ástæða til þess að breyta verðbólguspánni frá því að fjárlögin komu fram og það er það sem hlýtur að skipta máli."

Hvað finnst mönnum um svona svar? Er þetta út í hött aða skil ég ekki svarið?

Guðlaugi finnst þetta greinilega of rýrt svar og áréttar að mjög mikilvægt sé að forsætisráðherra upplýsti þjóðina um það hver hækkun lána heimilanna yrði vegna hækkana ríkisstjórnarinnar samkvæmt frumvarpinu? Þá spurði hann ennfremur hvers vegna ekki væri reynt að miða hækkanirnar út frá hagsmunum heimilanna í landinu?

Jóhanna svarar aftur og nú kemur þetta:

"...að hún kippti sér lítið upp við það þó Guðlaugur réðist að sér úr ræðustól Alþingis. "Það er regla frekar en undantekning hjá háttvirtum þingmanni að gera það og hann er oft að leika sér hér í ræðustól og það er kannski það sem ég á við þegar ég er að tala um það."

Jóhanna beindi síðan orðum sínum að forseta Alþingis og spurði "hvort hann teldi að Guðlaugur hefði haft fyrir því að reikna út áhrif gjaldtöku þeirrar ríkisstjórnar sem hann hefði setið í á verðbólguna sem hefði verið töluverð?"

(Muna menn eftir Ingibjörgu Sólrúnu formanni Samfylkingarinnar sem sogaði inn loft um leið og hún sagði ef gagnrýni kom fram á hana og R-listanna: EEENNNNNNnnnn Sjálfstæðisflokkurinn!,- innskot bloggari)

Sagði hún "að þingmaðurinn ætti frekar að horfa til þess jákvæða sem finna mætti í fjárlögunum fyrir heimilin í landinu eins og til að mynda varðandi fæðingarorlof, vaxtabætur og barnabætur."

Guðlaugur brást skiljanlega öndverður við þeim ummælum Jóhönnu að hann væri með fyrirspurn sinni að leika sér með einstaka liði frumvarpsins.

Guðlaugur sagði ennfremur að ef það væri ein manneskja á Íslandi sem ekki gerði sér grein fyrir þeim vanda sem íslensk heimili stæðu frammi fyrir þá væri það forsætisráðherra sem hefði afhjúpað sig í umræðunni og ekki svarað þeirri spurningu hvaða áhrif fjárlagafrumvarpið hefði á lán heimilanna.

Ítrekaði hann fyrirspurn sína til Jóhönnu og bað hana að kalla málið ekki leiki.

Ekki komu fregnir af frekari svörum frá forsætisráðherra Íslands.

Getur verið að Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki tíma til að kynna sér samhengi hlutanna í efnahagsmálum? Steingrímur blandaði sér heldur ekki í umræðuna. Er eins ástatt hjá honum?

Veit hún? Skilur hún? Kann hún? Eða er hugurinn svona bundinn úti í Brussel?


Truntusól

má nefna þá sól sem skín frá ríkisstjórninni og stuðningsmönnum hennar á Alþingi. Hugsanlega eru þetta áhrif frá stíl sem forsætisráðherrannn hefur tamið sér í gegn um sinn langa þingferil. Margir samstarfsmenn lýsa aðferðafræði forsætisráðherrans einmitt á þann veg úr fyrri ríkisstjórnum, að hún heimti og krefjist þess með truntuskap að sólin skíni á sig fremur en að hún leiti að yfirleitt að mýkri leiðum.

Hún krefst þess að fjárlög verði samþykkt án umræðna. Hún krefst þess að ný stjórnarskrá verði lögfest hið snarasta án samráðs eða samstöðu við hálfa þjóðina. Hún krefst inngöngu í ESB. Hún krefst þess að einhver rammáætlun um virkjanir verði samþykkt þó vitað sé að hún nýtur ekki ekki frekar stuðnings þjóðarinnar en stjórnarskrármálið. Hún bara krefst.

Það gætir vaxandi óþols á flestum sviðum á stjórnarheimilinu líklega vegna þess "að framar ei frestur gefst né færi á að ráðstafa nokkru betur" vegna þess að kjörtímabilið er að enda og fæst hefur gengið eftir af því sem lagt var uppúr. Nema kannski niðurlagning hálstauja, almennrar kurteisi og háttvísi í umgengni á þinginu. Það er vandséð út á hvað þetta alþingi krefst virðingar almennings á sjálfu sér þegar truntuskapurinn hefur náð nýjum hæðum í helgigöngum þingmanna yfir framan sjónvarpsmyndavélarnar.

Fyrir litla manninn er það hinsvegar fagnaðarefni að það verður langt í það að flest af þessu þingliði komi þangað aftur. Vonandi kemur eitthvað dannaðra fólk til Alþingis að vori en nú vermir þar bekki og önnur vorsól en þessi truntusól skíni yfir landslýðinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband