Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Helgi í Góu og Hægri Grænir

eiga nú samleið. Margt sem Helgi segir er beinskeytt og maður hlustar þegar hann talar.

Grípum niður: 

".....Ég hef gagnrýnt stjórnendur sjóðanna um margra ára skeið og sjálfur gekk ég í lífeyrissjóð árið 1964. Það er ótrúlegt að stjórnendur hafi sumir hverjir þrjár milljónir í laun á mánuði og aki um á lúxusjeppum.

 

...Í auglýsingunum hef ég spurt hvort hugmynd mínar um að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í búsetuúrræðum fyrir aldraða hefðu hugsanlega verið betri fjárfesting, en að gambla í spilavíti hlutabréfamarkaðarins...... heldur ættu eingöngu að hámarka arðsemi og taka áhættu. Nú það væri arðsamasta fjárfestingin eftir allt saman.

......Í annarri auglýsingu bendi ég á að tekjurnar í Gildi, annars af tveimur stærstu lífeyrissjóðum landsins, voru um 21 milljarður en útgreiddur lífeyrir var hins vegar aðeins 7,8 milljarðar. Tveir þriðju af tekjunum urðu því eftir í sjóðnum. Hrein eign Gildis var þá um 241 milljarður. Sú upphæð ein og án vaxta myndi duga til útgreiðslu lífeyris í 30 ár og 11 mánuði....

 

.....Greidd iðgjöld í Lífeyrissjóð verzlunarmanna, annars af tveimur stærstu lífeyrissjóðum landsins um árið, voru tæpir 16 milljarðar. Alls voru tekjurnar um 34 milljarðar en útgreiddur lífeyrir var aðeins rúmir 6,8 milljarðar króna. Aðeins um fimmtungur var greiddur út.

..............Ég hef kynnt mér stefnuskrá Hægri grænna, flokks fólksins, og get ég ekki séð annað en að þarna sé kominn stjórnmálaflokkur sem ætlar sér að taka á lífeyrissjóðunum og gera eitthvað fyrir gamla fólkið. Ég er hrifinn af eftirfarandi 10 atriðum hjá þeim:

 

1) Kjaraskerðing aldraða sem tók gildi 1. júlí 2009 verði afturkölluð.

 

2) Lífeyrir aldraðra verði hækkaður um 20% vegna kjaraskerðingar aldraðra.

 

3) Afnema skerðingu tryggingarbóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.

 

4) Skattleysismörk verði hækkuð og ekkjuskattinn burt.

 

5) Stöðva allar hugmyndir um að selja Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna.

 

6) Lífeyrissjóðir fjárfesti og fjölgi búsetuúrræðum fyrir eldri borgara.

 

7) Hækka lífeyri aldraðra svo hann dugi fyrir framfærslukostnaði.

 

8) Erfanleg lífeyrisréttindi eins og í Frjálsa lífeyrissjóðnum.

 

9) Sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum verða að fá atkvæðisrétt um stjórn á sínum eigin sjóðum.

 

10) Lífeyrisgreiðslur í almenna lífeyrissjóðakerfinu eru eign lífeyrisgreiðandans og ættu maki hans og börn að fá allan lífeyrinn greiddan við fráfall.

 

Staðreyndin er að verkafólk og ellilífeyrisþegar fá ekki nóg út úr lífeyrissjóðunum sem eiga þó nóg af peningum. Íslenskur verkalýður verður að setja hnefann í borðið! Hvaða þýðingu hefur það að safna í digra sjóði meðan eldri borgarar þessa lands svelta? Setum X við G og kjósum Hægri græna í vor, þeir eru með lausnirnar. "

Ja hérna, ef maður staldrar ekki við eins og oft áður þegar maður heyrir í Helga.

Hvað býður minn Sjálfstæðisflokkur sem jafnast á við þetta? Ég kannast við áætlun hans um 5.). Hann ætlar að selja.  Skyldi hann ætla að gera eitthvað annað í hinum  níu atriðunum sem eftir standa? 

Kemur það ekki í ljós á Landsfundi?  Verður hann Helgi okkur gamlingjunum þar fyrirmynd?

Helgi í Góu er víst orðinn Hægri Grænn.

 

 


Aumingja fólkið

á spítölunum. Vaxandi langlífi okkar gamlingjanna er drepa það. Það getur bara ekki afborið okkur nema það fái kaup til jafns við aðra ríkisstarfsmenn sem hafa sambærilega langt háskólanám að baki eins og verkfræðingar til dæmis. Það segir upp og ætlar erlendis. Til Noregs þar sem er borgað alminnilega.

Hvað eigum við að gera? Er líknardráp í boði fyrir okkur gamlingjana?

Maður sat með tárum að horfa á hina engilfríðu Elsu B. lýsa þeim hörmungum sem umönnunarstéttunum eru boðnar. Sem maður hefur oft séð að eru frekar englar í mannsmynd en dauðlegar verur.

Svo var mér sagt að vandinn væri stundum leystur í kerfinu með því að ráða fólk inná pínulítið starfshlutfall, sem leiðir til þess að mest öll vinnan fera fram á rúllandi yfirvinnuvöktum. Ég mætti hætta að gráta svona mikið. En ég vorkenni þeim

Samt ætla þau öll að fara frá okkur. Og nú læknirarnir líka! Almáttugur, hvað þá? Hvar er prentvélin sem þeir ætla að prenta evrurnar á þegar við erum komin í ESB ?

Aumingja við. Aumingja fólkið. 


Bankasnilldin

grassérar ef marka má að rekstrarkostnaður bankanna hækkar úr 60 milljörðum í yfir 70. Ástæðan hækkuð laun. Beiðnum um skýringar er svarað út og suður. Allt ykkar vegna segja þeir. Við erum að endurreikna lánin ykkar.

Það hafa verið færð að því rök að íslenska bankakerfi sé til muna yfirmannað miðað við Bandaríkin. Jafnvel pí-sinnum fleira fólk sé hér í bankakerfinu miðað við hverja 1000 íbúa.  En það þýðir ekkert að spyrja. Þetta bara er svona.

Okkar bankasnilld er bara svo miklu meiri en Bandaríkjanna. 

 


Hinir vammlausu

í velferðarstjórninni eru skyndilega flæktir í vondar grunsemdir um að hafa haft afskipti af réttvísinni í pólitískum tilgangi.

Hreyfingin tengdist af einhverjum ástæðum fundi á dularfullri tölvu sem mögulega tengdist innviðum stjórnkerfisins. Margir töldu að nauðsynlegt hefði verið að rannsaka hvað þarna var á ferðinni. Wikileaks bar einnig á góma. FBI byrjar rannsókn og samstarf með öllu því afli sem á bak við er. Þá kemur hinn vammlausi innanríkisráðherra til sögunnar og stöðvar rannsóknina og rekur FBI úr landi. Alger þögn er um málið. Hreyfingin verndar ríkisstjórnina falli.

RÚV finnur skýrslu sem tengir Davíð og Halldór við fangaflutninga CIA. Þáttur  þeirra í að gera Ísland þátttakanda innrásarinnar í Írak ratar enn á ný í fjölmiðla og stigmagnast dag frá degi.  Katrín Júlíusdóttir samþykkir með semingi að Halldór Ásgrímsson fái að starfa áfram sem fulltrúi Íslands í feitu embætti erlendis. 

 Eru hinir vammlausu þá ekki eins vammlausir og við héldum? 


Er fólk fífl?

eins og einn af framvörðum í viðskiptalifi Íslendinga fullyrti eitt sinn og er það forsenda þjóðlífsumræðunnar?

Í prófkjöri VG á Norvesturlandi varð Lilja Rafney efst með 65 atkvæði eftir að 54 atkvæði höfðu  verið dæmd ógild eða um 40 % af heild. Þessi kona hefur setið á þingi lengi og vakið á sér athygli sem sérstök mannvitsbrekka í hverju málinu af öðru. Formaðurinn í flokki hennar var kjörinn til forystu með 199 atkvæðum skömmu áður og hafa minni þúfur stundum velt meira hlassi.

Í kosningum fljúga flokkar þessa fólks inn á þing sem fultrúar og taka til við landstjórnina á fullu. Ekkert spurt um neitt almennt vit.  Það á bara að sýna því fulla virðingu þegar það er komið á þing  og gefa því frið til að stjórna. Þetta er réttkjörið fólk. Það skiptir ekki máli hvað það sagði fyrir  kosningar, aðstæður breytast og allt það. Það er greinargerðin sem skiptir öllu.

Þetta er það sem kallað er  lýðræði. Það á sér rætur mjög langt aftur. Loftur Altice skrifar fróðlega grein  um spartversku stjórnskipuniina í Mbl. í dag. Þar kemur til dæmis  fram að ákvæði íslensku stjórnarskráinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins eiga sé mörghundruð ára sögu og nær líka enn lengra aftur.  Er það furða þó að fólk setji spurningarmerki við það þegar einhver samkunda fólks sem kallast stjórnlagaráð heldur að það geti samið svo miklu betra plagg til að vera stjórnarskrá í að hjáverkum að mestu máli skipti að menn skilji greinargerðina með frumvarpinu áður en þeir samþykki það óbreytt? Hafa menn nýlega séð greinargerð Móse með boðorðunum tíu?

Því miður bendir margt til þess að að sá skarpskyggni maður sem vitnað var til í upphafi hafi stundum nokkuð til síns máls. Margt af því sem fólki er boðið upp á til að samþykkja af þeim sem hæst láta, sérdeilis af vinstri vængnum, er varla hægt að skilja með öðrum formerkjum.

Því miður erum við öll einhvers fífl.

 

 


Eru kjaramálin óleysanleg

í þessu landi ?

Við erum með ríkisrekið heilbrigðiskerfi sem við viljum bara nota en ekki borga. Við erum búin að setja upp háskólasjúkrahús til að kenna læknum og hjúkrunarfólki sem við getum ekki keypt þjónustu af. Það fer því til hugsanlega úr landi. Við eigum framboð af sjúklingum sem vilja fá lækningu eða umönnun. En við höfum ekki peninga til að borga fyrir það sem þeir þarfnast þó að við ætlum að byggja miklu stærra þak yfir þá. 

Höfum við ekki íslenskar krónur sem við getum prentað fyrir þá? Bara fyrir þá  af því að við erum svo góð? Er það ekki auðvelt?

Höfum við sem þjóð reist okkur hurðarás um öxl?  Höfum við ráð á að reka hér norrænt velferðarþjóðfélag? Hélt ekki Steingrímur því fram? Virðist það hafa tekist nú í enda kjörtímabilsins?

Hver og hverog vill reyna? Eru ekki kosningar bráðum?

Lærum við aldrei neitt? Hvað með skynsemi, þjóðarsátt og gengismál? Samning um 0 % kaup-og taxtahækkanir og X % gengishækkun krónunnar? Hver felldi krónuna 2008?  Lifum við nokkuð í markaðshagkerfi um þessar mundir? Hvar eru nú forystumenn á borð við Einar Odd og Guðmund Jaka? Hvað segir Árni Páll ef Jóhanna eða Steingrímur segja ekki neitt?

Eða eru kjaramálin í heilbrigðisgeiranum  bara óleysanleg? 

 

 

 

 


Af hverju veiddum við ekki síldina?

frekar en að láta hana drepast feita og fallega í Kolgrafarfirði og rotna þar?

Hvað klikkaði?

Hafró og reiknimeistarar hennar? Reikna þeir allt annað betur en þessa stofnstærð? Til dæmis ýsu-og þorskstofninn? Eða þá grásleppuna?

Af hverju veiddum við ekki þessa síld heldur? 

 


Málaferli Mávs

gegn Seðlabanka vegna vanefnda Jóhönnu á ráðningarsamningi eru til umræðu á Alþingi. Ásmundur Daði spyr ráðherra:

"  


    1.     Hver var kostnaður Seðlabanka Íslands af málaferlum seðlabankastjóra gegn bankanum? 


    Kostnaður til þessa dags nemur samtals 4.060.825 kr. samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands.

    2.     Mun seðlabankastjóri greiða bankanum þann kostnað? 


    Báðir málsaðilar, þ.e. seðlabankastjóri og Seðlabanki Íslands, gerðu kröfu um að hinn greiddi málskostnað vegna dómsins sem kveðinn var upp af Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október 2012. 
    Í dómsorði var kveðið á um að málskostnaður félli niður. Það þýðir að málsaðilar bera hvor um sig þann kostnað sem þeir hafa stofnað til sjálfir, svo sem lögmannskostnað.
    Seðlabankastjóri áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, sem hefur tekið málið til meðferðar, og því liggur ekki fyrir á þessari stundu hvort þessi niðurstaða er endanleg. .."

 

 Nú kemur önnur umferð fyrir Hæstarétti sem verður ekki billegri.

Hefði ekki verið betra að borga Mávi þetta beint og standa við loforðin ?   Nei, það er ekki í stíl við stríðsstíl forsætisráðherrans. Það verður nú eiithvað annað þegar friðarins maður kemur til í Samfylkingunni.

Árni Páll upplýsir að hann geti lagt til að reka Jóhönnu úr ráðherraembætti. Það yrði aldeilis gaman fyrir okkur Jón Bjarnason að sjá borðunum einu sinni snúið.

En líklega ætlar Árni ekki að taka á sig óvinsældir Jóhönnu  svona kortéri fyrir kosningar. Það er nóg að erfa málferli Mávs.

 


Á að lögleiða vændi?

er spurning sem Danir velta fyrir sér þessa dagana. Eiga vændiskonur að mynda verkalýðsfélög osfrv. með réttindum og skyldum?

Eðli málsins samkvæmt finnst manni vændi vera fremur verktakastarfsemi en launavinna. Verktakar bera sjálfir ábyrgð á sér og sínum málum. Þeir stunda hættuleg viðskipti og leggja allt sitt undir. Það gera vændiskonur líka. Þeirra atvinna getur verið mjög hættuleg af mörgum ástæðum. Algengur miskilningur er hjá fólki að melludólgar séu ávallt blóðsugur sem geri sér mat úr eymd annarrar mannsekju. Líklegra er þó að þeir séu öryggisverðir og að vændiskona verði að hafa neyðarhnapp til að geta fengið hjálp við ofbeldi þar sem viðskiptavinir geta verið af ýmsum toga og leynt á sér.

Á  Íslandi  og ef ekki líka í Svíþjóð er vændisstarfsemi stjórnað af siðprúðum konum sem vilja hafa vit fyrir öðrum. Þar er vændi og kaup á því refsiverð háttsemi. Samt starfar fjöldi vændiskvenna í hverju byggðarlagi á Íslandi eins og allir geta kynnt sér á netinu. Sjálfsagt er svipað ástand víða annarssataðr. Starfsemin er neðanjarðar og spyrja má hvort það sé betra eða verra.

Vændi er stundum kallað elsta atvinnugrein heimsins. Það verður líklega alltaf til staðar. Á það ekki að vera virðingarverð atvinnugrein eins og aðrar og heiðarlegt starfsfólk að njóta sömu virðingar  og aðrir þegnar sem ekki skaða aðra? Eiturlyfjafíkn sem orsök vændis er auðvitað skelfileg staðreynd og kemur óorði á heiðarlegt fólk. Á slíkt  að stjórna allri umræðu fremur en að rónar eigi að stjórna áfengismálum heillar þjóðar? Eru ekki til úrræði við öllu sem leggja bót við böl?  Er rétt að láta fordóma stjórna vitrænni umræðu um óumflýjanlega starfsemi eins og vændi?

Af hverju ekki að ræða lagalega stöðu vændis fordómalaust og yfirvegað? 

 

  


Krónan er ónýt?

segir Árni Páll í Silfrinu í dag. Vitnar í samstöðu með formanni ungra Sjáflstæðismanna á fundi í Valhöll.

Það eru mjög margir sem segja í mín eyru að krónan sé ónýt og við skulum kasta henni og taka upp aðra mynt. Fyrir hrunið 2008  höfðum við frelsi til að hafa hvaða mynt sem við vildum í viðskiptum manna á milli. Þetta vill þetta fólk yfirleitt ekki ræða.  Það er búið að dæma þetta allt af segir það. Án þess að skoða hvernig Hæstiréttur hefur kveðið upp dóma í báðar áttir. Orðalag skuldabréfa skiptir þar öllu. Engin allsherjar lausn hefur fengist. Aðeins verðtrygging krónunnar  er vandamálið segja snákaolíukaupmennirnir. Burt með verðtrygginguna og svo krónuna á eftir því. Er þetta ekki björt framtíð?

Það sem ég velti fyrir mér í allri þessari síbylju og spyr þá skiptiglöðu: Á hvaða gengi vilt þú skipta þínu fé og launum yfir í nýjan gjaldmiðil? Haftadollarinn kostar núna segjum 130 kall. Það er það verð sem Már Guðmundsson ákveður að hann kosti. Þetta gengi ræður til dæmis bensínverðinu hjá okkur og innfluttu matvælaverði. En heldur þú að þú fáir það gengi í skiptunum miklu?

Yfir okkur vofir snjóhengja. Það er fullt af krónum sem heimta að breytast í dollara og yfirgefa Sögueyjuna fyrir fullt og allt. Ef við segjum laagóó þá hverfa allir dollarar sem Már hefur í kassanum sem hann hefur fengið að láni mest allt, og krónur koma í staðinn. Enginn dollari verður eftir. Bara fjallháaar skuldir ríkisins. Gengið 130 stóðst þá ekki til lengdar. Við vitum að það er rétt. Höftin eru til þess að reyna að halda í einhvern stöðugleika og finna einhverjar leiðir. Sem hafa ekki fundist,

Ef við segjum að við tökum upp dollara á morgun og allt breytist yfir í dollara á nýju gengi, hvert verður það? Sættir þú þig við að milljónin þín í bankanum sem er núna segjum 7700 dollarar ef þú færð að skipta henni, hún verði aðeins 3300 dollarar á morgun því  gengið verði 330 krónur fyrir dollarann þá. Bensínið hækkar í einn dollar lítrinn, áfengið, bílar og allur innflutningur hækkar um 250 %. En kaupið þitt hefur ekki hækkað.

Ef þú sem opinber starfsmaður eða ljósmóðir gerir skrúfu og  þrefaldar kaupið þitt með því, þá getur ríkið ekki prentað dollara handa þér til þess að gjalda þér líku líkt.(Sem myndi mega kalla: Lausung  við lygi.) Og engir dollarar verða til til að borga eitt né neitt, hvorki bensín né annað.

Svo hvað er Árni Páll að segja þegar hann segir að vegna ónýtu krónunnar sitjum við eftir með lúsarlaunin okkar meðan krónan fellur og fellur. Við verðum að segja okkur tl sveitar hjá ESB og borga með fullveldinu, fiskimiðunum og öllu því sem hér er að finna. Og formaður ungra Sjálfstæðismanna er á sama máli segir Árni. ESB hlýtur að koma okkur til bjargar og borga snjóhengjuna fyrir okkur með evrum

Hvað skeður eftir þessa atburði? Hver borgar hjúkrunarfræðingunum? Hver borgar lögreglunni til verja Alþingishúsið? Skiptir það einhverju máli ? 

Krónan er eins og annað aðeins þess virði sem einhver vill borga fyrir hana. Viltu vinna þér inn eina krónu?

Ef þú vilt það ekki þá það. Þá ertu krónulaus. Standandi fyrir framan matarbúðina gæti læðst að þér grunur að hún hafi ekki verið jafnónýt eins og þér var sagt í kosningunum.

Segjum svo að snjóhengjan fari öll úr landi á 330 krónu genginu og erlendu vogunarsjóðirnir sem eiga Íslandsbanka og Aríon hirði allt sitt og fari á því gengi. Hvað er þá eftir? Enginn dollari til neinsstaðar. Sígarettupeningar eins og var hjá Þjóðverjum eftir stríð? Aðeins vöruskipti eru möguleg. Hvernig á að fá mat? Hver þarf banka?

Treysti ég Árna Páli til að framkvæma peningaskiptin? Kýs ég hann þessvegna?

Eða er hann og Samfylkingin jafn ónýt og þau segja krónuna vera? 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 3418408

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband