Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Bankaleynd

verður Óla Birni Kárasyni að yrkisefni á T24. Hann krefst þess að allir þingmenn Sjálfstæðismanna leggi fram frávísunartillögu við tillögu forsætisráðherra um upplýsingaöflun vegna skuldaleiðréttinga heimilanna.

Sem kunnugt er þá náði Óli Björn ekki kosningu til þings. Sem er um margt skaði því Óli Björn er með réttsýnustu mönnum og góður íhaldsmaður eins og þeir gerast bestir.  En dugar að vera svo fastur í hugmyndafræði að slíta nún stjórnarsamstarfi vegna einstaks máls ? Ég trúi því ekki að Óli Björn skilji að ríkisstjórnarmeirihlutinn verður að halda saman.

Auðvitað er marg rétt af því sem Óli Björn segir og margt á ekki að viðgangast í lýðræðisríki. Í Þýskalandi eru til dæmis 3 leyndarmál virt. Ríkisleyndarmál, bréfaleyndarmál og bankaleyndarmál.

Ekkert af þessu er virkt á Íslandi. Öllu er kjaftað og öllu lekið sem hægt er að stela og birta í DV til dæmis. Pósti er stolið og birtur á slúðurfjölmiðlum og sumir blaðamenn hreykja sér af upplýsingastuldi og neita að gefa upp heimildarmenn. Hver er afstaða Óla Björns sem blaðamanns til slíkra einkamála?

Svo er það skrípaorðið bankaleynd. Veit Óli Björn ekki að kommarnir eru löngu búnir að afnema hana? Skattstofurnar eru beintengdar inn í bankana og hafa upplýsingar um hverja krónu sem þar er í eigu einstaklinganna. Hvaða bankaleynd er þá verið að tala um? Jú, hverjir fá afskrifað og hverjir fá  lán. Það er þar sem helst er spillinguna að finna en ekki hvað menn eigi á bankabókinni.

Óli Björn ætti að útskýra hverig þetta getur samrýmst hans hugsjónum ef ekki má sannreyna í þessu sérstaka tilviki sem fyrir dyrum stendur, að menn eigi skilið skuldaleiðréttingu. Auðvitað er þetta allt hið skelfilegasta mál að svona skuli komið fyrir þjóðinni að við þurfum að standa í þessu. Enginn vildi taka undir þá leið, að leiðrétta skuldirnar með einföldum flutningi vísitölunnar afturábak fyrir alla frá 2007-2008 og höfuðstólslækkun í hlutfalli við það með annað óbreytt. Þeir sem eru farnir á hausinn og búnir að missa allt yrðu að fá aðra úrlausn og nýjir skuldarar fengju auðvitað ekkert. Svo vildi ég líka nota gjaldeyrishöftin til að bæta kjör almennings í stað taxtahækkana. Færa handstýrt gengið niður og lækka verðlag í stað þess að hækka það.  En enginn vildi heyra það heldur. 

Auðvitað ætti hér að ríkja bankaleynd, bréfaleynd og ríkisleynd. En Ísland er sú tegund af lýðræði að þetta er ekki hægt. Við getum því bara haft neðanjarðarhagkerfi, einkavinavæðingu  og hverskonar svindl og pukur en ekki neitt heiðarlegt eða uppi á borðinu þó að Óli Björn vilji hafa slíkt í hávegum. Allt okkar kerfi er orðið svo sjúkt og rotið að það er ekki í augsýn. Og veruleg siðferðisbót er ekki í augsýn að mínu viti.

Og líklega er það svo um alla veröld að Stóri Bróðir er allstaðar meira nálægur en var. Sjáið bara hvernig Svissarar melda þýska skattsvikara, þýskar skattstofur kaupa stolnar upplýsingar af glæpamönnum  og Danir borga verðlaun fyrir að menn kæri nágrannann. 

Ég vona að menn slíti ekki stjórnarsamstarfinu strax því mér finnst margt ógert þó við séum ekki að gera mál úr einhverri bankaleynd sem er í rauninni ekki til á Íslandi.  

 


Stand á Goddastöðum


eða frekar Bessastöðum  má nú segja eftir síðustu tíðindi af Forstetahjónunum þar.

Dorrit kemur sér undan auðlegðarskatti Steingríms J. með því að flytja lögheimilið til Bretlands í desember s.l. , eins og fleiri Íslendingar komast upp með. Sem er lögbrot skv. 7.gr. í þessu tilviki meðan Ólafur á lögheimili á Íslandi. 

Þetta eru Forsetahjónin en ekki einhverjir útrásarvíkingar.  Eru þá ekki tvær þungamiðjur í þessu máli og báðar grímuklæddar eins og Palli sagði?
 
Hvað er til ráða? 

a. Dorrit flytur heim aftur og við gleymum þessu. (Það geri ég hiklaust þar sem ég er svo yfirmáta mikill aðdáandi hennar.)

b. Við breytum lögunum fyrir hana.

c. Ólafur flytur lögheimili sitt til London en er áfram Forseti með búsetu þar.

d. Ólafur segir af sér, til dæmis á  17. júní? 
 
 
Er eitthvað annað hægt?
 
Er ekki bara komið aldeilis stand á Goddastöðum eins og sagt var? 

Hvernig skal höndla?

þau vandamál sem við blasa vegna vogunarsjóðanna sem hersitja gjaldeyrisforða Íslendinga og halda okkur í haftaskrúfstykkinu?

Margir hafa skoðanir á þessu. Robert Wessmann og hans félagar hafa komið með einarðar tillögur sem mér finnast skynsamlegar. Ennfremur vekur Guðmundur Franklín Jónsson athygli mína nú síðast í kvöld á ÍNN þó illa væri hægt að einbeita sér vegna óupplýsts hávaðans í Ingva Hrafni. Hann á etta so sannarlega og má etta og blaðrar út í eitt í stað þess að spyrja gestina.

Guðmundur greinir vandann á kýrskýran hátt, sem mér finnst ég skilja. Hann segir að við verðum að fá nöfnin á borðið áður en við förum að tala við þessa kröfuhafa. Leynast íslenskir Quislingar meðal þeirra sem eru reiðubúnir að leggja í stríð við ættjörð sína fyrir gróðavonir? 

Það sem ég ekki skil í útlistun Guðmundar er það, hvort við getum bara sisona labbað út og náð í erlendar gjaldeyriseignir bankanna og komið með þær heim í Seðlabankann? Guðmundur skýrði þetta ekki. En við munum Gordon Brown, sem setti á okkkur hryðjuverkalögin. Hvað er ekki mögulegt? 

Ég hef lengi talið að ein leiðin hefði verið  að setja gömlu bankana í gjaldþrot, reka skilanefndirnar og skipa skiptastjóra sem borgar aðeins út í krónum. En við hefðum þá að hafa klófest gjaldeyrinn áður er það ekki? Annars yrði hann bara hirtur.Hugsanlega er þetta allt orðið of seint og hrægammarnir búnir að tryggja sig með því að loka á gjaldeyrinn sem þrotabúin eiga, 2000 milljarða eða svo. Ef þetta er í lás  er errum við Íslendingar læstir inni í svartholi gjaldeyrishafta með Mávi Guðmundssyni um langa framtíð.

Apropos, eigum við að sitja uppi með Máv í Seðlabankanum? Mann Jóhönnu og Steingríms? Eða er hann svona svaka klár og hættur að vera Troskyisti að annar eins finnist ekki?

Mér finnst  alveg mega velta fyrir okkur þeim leiðum sem Guðmundur Franklín er að nefna. Hann er búinn að nefna góða hluti varðandi skuldamálin sem geta hjálpað.

Það er óhætt að hlusta á góðar tillögur um það  hvernig höndla skal hrottana sem höfuðsitja þjóðina.

Ef það er þá hægt að höndla málið?


Sýnishorn af prófessor

í Háskóla Íslands er Stefán Ólafsson.

Hann skrifar svo:

"Nú er búið að skýra frjálshyggjumanninn Alan Greenspan “Mesta fífl í sögu bandarískra efnahagsmála”.

Greenspan var seðlabankastjóri Bandaríkjanna frá 1987 til 2006 og ber ábyrgð á afreglun og minnkandi eftirliti og aðhaldi gagnvart fjármálageiranum. Þetta gerði hann vegna ofurtrúar á sjálfstýringarmátt markaðarins.

Nú sjá menn að Alan Greenspan var meiri hugmyndafræðingur en hagfræðingur. Róttæk frjálshyggja leiddi hann afvega og hann leiddi samfélagið út í djúpt skuldafen, brask og fjármálakreppu.

Því fylgdi verulega aukinn ójöfnuður, enda er frjálshyggjustefnan einkum í þágu auðmanna og braskara.

Greenspan er á lista tímaritsins Time yfir þá 25 einstaklinga sem bera mesta ábyrgð á fjármálakreppunni. Þar er líka Davíð Oddsson, fv. seðlabankastjóri og forsætisráðherra Íslands.

Davíð var auðvitað í sama hlutverki og Greenspan, sem hugmyndafræðingur frjálshyggju. Raunar gekk hlutverk Daviðs á Íslandi lengra en hlutverk Greenspans í Bandaríkjunum, því Davíð var bæði pólitískur leiðtogi og æðsti embættismaður fjármálakerfisins, sem hrundi til grunna á hans vakt.

Hér voru líka gerð mun stærri mistök en í Bandaríkjunum, enda bæði bólan og hrunið hér miklu stærra og afdrifaríkara fyrir land og þjóð.

Þeir félagar William Black og Egill Helgason gætu því með sömu rökum og gilda um Alan Greenspan útnefnt Davíð Oddsson sem “mesta fífl í sögu íslenskra efnahagsmála”.

Þeir ættu líka að setja helsta ráðgjafa og vin Davíðs á listann, frjálshyggjuskáldið og vúdú-hagfræðinginn Hannes Hólmstein.

Efnislegu rökin fyrir slíkri nafnbót þeirra félaga eru klárlega til staðar."

Menn hafa misjafnlega sterkar skoðanir á því að Stefán þessi sé æskilegur prófessor við Háskólann yfirleitt og hversu hollur leiðbeinandi hann sé í fræðigrein sinni. Menn hafa efasemdir um að hann geti haldið öfgum sínum í stjórnmálum frá fræðunum sem hann kennir. Auk þess hefur hann að sögn makað krókinn ótæpilega í hverskyns aukavinnu fyrir síðustu ríkisstjórn sem þá kemur niður á kennslutímanum. En af einhverjum ástæðum hefur umfang þessarar aukastarfsemi Stefáns ekki ratað upp á yfirborðið.

Margt má segja um Davíð Oddsson. En að segja hann "mesta fífl í sögu íslenskra efnahagsmála" finnst mér ósanngjarnt af Stefáni gagnvart bæði honum sjálfum og lærimeistara hans Steingrími J. Sigfússyni, sem lagði sig svo fram í störfum sínum að enginn annar hefur unnið annað eins. Niðurstaða kosninganna lýsir svo væntanlega misskilningi og upplýsingaskorti kjósendanna. 

Stefán Ólafsson er prýðisgott sýnishorn af íslenskum prófessor eins og þeir gerast víst nú til dags við Háskóla Íslands. Þar var nú öðruvísi útlits í tíða afa míns Ágústar H. Bjarnason, sem var titlaður "alþýðufræðarinn" vegna þess sem hann lagði á sig til að útbreiða almenna þekkingu. Sýnsihornioð Stefán Ólafsson fær líklega seint slíkan titil.


Ætljum við að virkja eða ekki?

við Urriðafoss.

Sá gagnmerki maður Ólafur í Forsæti er ekki á því og telur sveitunga sína 90 % á móti. Spyr beinskeyttra spurninga og ekki allar þægilegar fyrir varnaraðila.

En á nú að  leggjast í þras og gera ekkert eins og við gerðum síðustu 4 ár? Er ekki búið að tala eins og Ólafur Ketilsson hefði orðað það? Annars er mér svo sem sama þó að byrjað verði á stækkun Búrfells ef það verður strax meðan Ólafur, bændurnir og Orri verða sjattlaðir.

En það eru miklu fleiri sem eiga hlut að Urriðafossi en bændurnir þarna í kring og laxveiðimenn. Ætlum Íslendingar við að virkja eða ekki? 


Þrætubókarlist

datt mér í hug þegar ég kíkti á umræður á Alþingi. Þar boðaði menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson lagabreytingu um kjör alþingis á öllum fulltrúum í Útvarpsráð. Hver stjórnarandstæðingurin eftir annan kom upp til að þrátta um þetta atriði sem er frágengið mál. Þetta kölluðu þeir málþóf sjálfir þegar þeir voru og hétu.

Illugi kom hvað eftir annað í ræðustól til að útskýra sitt mál. Ég veit ekki hvort hann var að reyna að sannfæra þessa menn eða hvað annað er að baki.  Þeir létu sig auðvitað hvergi, héldu áfram að staglast en svo  þetta verður afgreitt á þann hátt sem Illugi boðar. 

Til hvers var öllum þessum tíma og mannauði eytt í þetta mál?  Einföld breyting sem stjórnarliðar ætla að framkvæma. Hvað á svona málþóf að þýða? Af hverju fengu þessir menn ekki bara að tala að vild og Illugi gat svo hugsanlega svarað einu sinni þegar allar spurningar væru komnar fram. En að þráspyrja og þrástagast á þessu máli finnst mér til lítils. Illugi flutti sitt mál auðvitað einarðlega en til hvers er verið að þessari sýningu?

Menn vilja breyta Útvarpsráði vegna reynslunnar af hinni fyrri skipan sem gafst þannig að RÚV á undir högg að sækja hjá borgaralegri  hugsun í landinu.

Af hverju mega stjórnvöld ekki breyta því ef þau vilja og geta án þess að eyða stórfé í innantómt þras sem kostar stórfé ?

Af hverju þessi þrætubók um svona lítið mál? 

 


Fullveldið

verður Óskari Jóhannssyni kaupmanni að umræðuefni í Mbl.dagsins. Óskar er 9 árum eldri en ég og man því tilfinningar fólks 1944 betur en ég þar sem hann var 16 ára gamall.

Óskar veltir fyrir sér heimild núlifandi Íslendinga til að versla með fullveldi þjóðarinnar. Hann segir:

"Ég undirritaður var 16 ára gamall á Þingvöllum 17. júní 1944, þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Einnig var ég á þessari ógleymanlegu mynd sem tekin var á Lækjartorgi daginn eftir, þegar fullveldinu var fagnað af mesta fjölmenni sem komið hefur saman á torginu.

 

99,5% allra íslenskra kjósenda treystu sínum mætustu mönnum best til að gæta þess sem fyrri kynslóðir þráðu svo heitt og börðust fyrir í aldir, og nú var nýfengið og fagnað af einlægni: Frelsi til að ráða sínum eigin málum, með heill og hamingju íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.

 

Við þjóðaratkvæðagreiðslu um að losna undan yfirráðum Danmerkur, og stofna frjálst og fullvalda lýðræði, var kosningaþátttaka 98,6%.

 

Það var heimsmet, sem engin þjóð mun nokkurn tíma geta slegið.

 

Ísland, ásamt öllum þess gögnum og gæðum, er óumdeilanleg eign íslensku þjóðarinnar. 

 

Enginn, og allra síst það fólk sem þjóðin hefur falið tímabundið að gæta fullveldis og frelsis hennar, hefur vald til að svipta komandi kynslóðir minnstu ögn af fullveldi þjóðarinnar yfir landinu og gæðum þess. Aldrei mun afsal sjálfstæðis Íslands verða fyrirgefið, né aftur fengið.

 

Sem sjálfstæð þjóð, með vinsamleg samskipti á jafnréttisgrundvelli við allar þjóðir, eiga afkomendur okkar fullan og ótakmarkaðan rétt til afnota af landsins gögnum og gæðum...."

Ég hef aldrei getað skilið hvaðan fámennum hópi Kratastrumpa eins og Össuri Skarphéðinssyni sem dæmigerðu eintaki og fleiri ámóta besserwisserum úr öðrum flokkum og hagsmunasamtökum getur komið sú viska að þeir geti verslað með fullveldið? Þeir viti hvað þjóðinni sé fyrir bestu?

Sömuleiðis hef ég aldrei skilið að innflutningur flóttamanna, veitingu ríkisborgararéttar í stórum stíl til hælisleitenda , geti farið fram af fámennum hópi embættismanna eða allskyns sérvitringa. Mér finnst að veiting ríkisborgararéttar sé mál þjóðarinnar svipað og innganga í Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík og víst fleiri slíkra Gilda er háð samþykki  félagsmanna. Af hverju er ekki þjóðin spurð við kosningar hvort hún vilji eftirtalda innflytjendur sem ríkisborgara sem þar yrðu kynntir til sögunnar með mynd og upplýsingum?

Ríkisborgararéttur er fullveldismál sem heyrir undir þjóðina eins og Óskar leggur áherslu á að geti ekki verið einkamál fárra manna.

 


Ferðaiðnaðurinn er að kollsigla sig

með ofsölu á sýningarferðum til staða sem þola ekki álagið.

Í gær varð ég vitni að því hvernig Gullfoss-móttakan var sprengd með yfirálagi af hálfu ferðasalanna. . Þar var samtímis stefnt svo mörgum rútum á neðri pallinn að þar var öngþveiti og þær komust ekki að hver fyrir annarri auk þess sem ger af einkabílum þvældist þarna innan um . Ein skynsöm rúta setti í bakkgír  og bakkaði allan afleggjarann til baka og keyrði upp á efra plan þar sem ástandið var ögn skárra. Maður sá margfalda röð útlendinga berjast um á hæl og hnakka í stiganum milli palla þar sem fólk komst hvorki afturábak né áfram í slagveðursrigningu.

 Engin klósettaðstaða er á neðra pallinum heldur og það er aðeins fyrir léttleikafólk að klífa allar tröppurnar. Það eitt er fáránlegt sveitamennska.Þar þarf að koma klósetteining strax.  Og svo á að selja dýrt inn á öll klósett eins og á Þingvöllum.

Það var fjör á gestaklósettunum uppi á veitingastaðnum þó þau ættu að vera aðeins fyrir veitingagestina.Mikil umferð var í búðinni þó verslunin virtist mér ekki mikil enda er mest peningalítið láglaunafólk í þessum rútum úr skipunum, sem lítið skilur eftir sig nema traðkið. Klósetteining fyrir almenning þarf að vera fyrir utan búðina.

Eru ekki takmörk fyrir því hvað þessir ferðamálafrömuðir sem gera út þessa túra úr skipunum geta dembt mörgum í einu á þessa tvo aðalstaði, Gullfoss og Geysi? Hvar á að fá peninga til að bæta aðstöðuna?  Hvað myndi gerast við Gullfoss ef slys yrði? Enginn viðbúnaður er nálægur eða á staðnum til slíks.

Viðskiptajöfrar eiga ekki að fá að nýta þessar þjóðarauðlindir í eigin þágu án þess að skaffa peninga fyrir álagið. Það verður að selja inn á þessi svæði  eki seinna en strax og reka þau með skynsemi. Útlendingurinn verður auðvitað að borga fyrir að skoða þetta. Annars verður þetta bara niðurtröðkuð þjóðarskömm. Þetta er sprungið og það þýðir ekkert að tala um sífellt aukinn túrisma ef það á að láta þetta allt reka á reiðanum.

Ég myndi hugleiða að setja slár og miðavélar eins og í Traðarkoti  á veginn við Gullfoss. Svo borga menn í miðavélina eftir tímalengd. Allir. Framhjáhlaup upp á Kjöl og fyrir fótgangandi og hestamenn má vera til hliðar.  

Svipaðan útbúnað þarf á Geysissvæðið.  Menn fara ekki inn eða út án þess að borga. Fólkið er stórhrifið af Strokki og hann selur svæðið.

Það þýðir ekki að tala um síaukinn ferðamannaiðnað ef við ætlum að kollsigla ferðamannastaðina. 

 

 


Währungsreform?

er boðskapur Kjartans Arnar Kjartanssonar, "varafomanns Hægri grænna",  í Mbl. í dag.

Skrif Kjartans  hafa lengi vakið athygli mína vegna þess að þau eru yfirveguð og oftar en ekki skynsamleg þau þau falli stundum fyrir utan alfaraleið. Samt er ýmislegt af tillögum Hægri Grænna hugsanlega að ná inn eins og milligöngusjóður Seðlabankans í sambandi við stökkbreyttu lánin.

Währungsreform, eða gjaldmiðilsskipti,  hafa nokkrum sinnum verið gerð í Þýskalandi. Á Íslandi hefur þetta verið gert einu sinni í sambandi við eignakönnunina sem margir fóru illa út úr og keyptu sumir ævilangt brennivín sem einu útleiðina. Þetta væri óheppilegt og þarf að forðast. En það er margt til í því sem Kjartan segir:

"  Með því að taka hér upp nýjan íslenskan lögeyri þarf að skipta gömlu krónunum yfir í þann nýja og þá verða t.a.m. aflandskrónueigendur að koma með þær heim ellegar týna þeim. Verandi sjálfstæð þjóð með eigið löggjafarvald þá má setja ýmis lög m.a. um takmarkanir á því hverjir fá hinn nýja lögeyri og þannig einmitt undanskilja jöklakrónueigendur og auðvitað þrotabú gömlu bankanna, en nýfallinn dómur í Icesave-málinu kveður einmitt á um að greiða á kröfuhöfum bankanna í íslenskum krónum. Þannig verður hægt að festa þá viðkomandi sem við viljum í gömlu krónunum og gera þeim að geyma þær á sérstökum innlánsreikningum sem beri háa innláns- eða geymsluvexti svipað og Sviss hefur gert í öðrum tilfellum. 

 

Væntanlega mun það ekki verða vinsælt og þá er komin alvöru samningsstaða, þ.e. að við getum sett skilmálana svo til einhliða. Til þess að þessir aðilar losni út og við þá út úr hagkerfinu mætti þá t.d. bjóða þeim að skipta yfir í nýju myntina eða þá að fá mjög langt skuldabréf í Bandaríkjadölum á lágum vöxtum hvoru tveggja á svipuðu gengi og vogunarsjóðirnir keyptu hrækröfurnar á eða með t.d. 95% niðurfellingu vegna hrægammanna og þá hugsanlega 90% fyrir jöklakrónueigendur ef menn vilja af einhverjum ástæðum meðhöndla þá öðruvísi, en allir eru þeir áhættufjárfestar sem að þarf ekki að vorkenna enda hafa þeir þegar makað krókinn vel á bökum okkar.

Jafnframt ætti að gera þrotabúunum að koma með allan gjaldeyri sinn heim og skipta honum yfir í krónur...."

 Svo fer í verra hjá Kjartani sem virðist gleyma hvar Íslendingar eru staddir í félagsþroska. Við erum ekki Þjóðverjar og höfum ekki þann aga til að bera sem sú þjóð hefur lært af biturri reynslu.Við erum nokkurskonar villimenn sem berjumst hver við annan fyrir eigin hag án nokkurs tillits til náungans. Það er enn ekki sú stund upprunnin að Íslendingar geti búið við fastan gjaldmiðil ef við horfum raunsætt á okkur sjálf.Því þótt dollarinn sé í stöðugri rýrnun þá er ólíku saman að jafna.

" Með  því að fasttengja hinn nýja lögeyri, sem við skulum hér nefna ríkisdal, við mest notaða gjaldmiðil veraldar, Bandaríkjadal eða dal á móti dal, þá eru fastgengisstefna og gengisstöðugleiki komin á í einu vetfangi án þess að þurfa að kaupa gjaldeyri annars ríkis með öðrum gjaldeyri eða að ganga í ESB..."

Svo nálgast Kjartan hugmyndir Framsóknarflokksin og Frosta Sigurjónssonar: 

"Stjórn peningamála verður þá ennþá hjá okkur og með mjög aukinni bindiskyldu á viðskiptabankana þá mun Seðlabankinn í fyrsta sinn í sögunni hafa full yfirráð yfir peningamagni í umferð og þau tæki sem hann þarf til þess að glíma við verðbólguna og skapa svigrúm fyrir lága vexti. Þannig yrði um mikinn hvalreka að ræða fyrir þjóðina ásamt með gjaldeyri þrotabúanna sbr. að ofan..."

 

..."Ný ríkisstjórn er skipuð tveimur frjálslyndustu og raunsæjustu flokknum landsins á núverandi Alþingi og er með góðan þingmeirihluta á bak við sig. Hagsýnissjónarmið og verkhyggja verða vonandi hennar leiðarljós en ekki ismar eða þröngsæiskenningar og að þras og þráhyggjan sé að baki. Þetta eru allt aðgerðir, sem verða að gerast. Þeim má koma á á mjög stuttum tíma og frelsa þar með og endurlífga hagkerfið landi og þjóð til heilla.

Megi stjórninni farnast vel í þessum mjög mikilvæga leiðangri." segir Kjartan að lokum.

 Spurningin sem vaknar er er sú hvort þetta sé leið sem Íslendingar geti farið við þessar aðstæður? Ríkisdalsleiðin sem skildi á milli aflandskrónanna og þrotabúa gömlu bankanna, skilanefndannna og spillingarinnar þeim tengdum,gerði leiðréttingu húsnæðislána líklega auðveldari.Mér finnst draumórakennt að einhver fastgengisstefna geti komið hér til, nema þá að reynt yrði að halda genginu stöðugu að minnsta kostu tímabundið.

Mér finnst ástæða til að hugleiða tillögur Hægri grænna eins og þær birtast í skrifum Kjartans Arnar. Ef til vill er stundin runnin upp fyrir íslenskt "Währungsreform". 

 

 

 


Ömurlegt

er að sjá að apparatið Persónuvernd, sem ég hef aldri fengið að hafa neitt um að segja frá því að ég man eftir mér, stöðva Kára og erfðagreiningu í því að bjarga mannslífum.Ekki einu heldur mörgum.

Og fréttamatið er álíka einkennilegt. Okkur finnst merkilegra að sjá þekktan illvirkja með brjósklos  borinn í dómssal með venjulega lopapeysu um hausinn?

Ég skil þetta ekki þó ég sé búinn að lesa  svokallaða röksemdafærslu apparatsins. Mér finnst hún einfaldlega jafn fáránleg og kveðskapur Æra-Tobba.  

Er ekkert hægt að gera?. Hver á þetta apparat og hver setur það upp með fólki sem varla nokkur einu sinni þekkir af afspurn? Hvað þá hefur kosið?

Konurnar eiga bara frekar að deyja. Það er ömurleg niðurstaða. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband