Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Náttúrupassinn

er nokkuð sem ýmsir greindir vinir mínir og formfastir hafa skammað mig fyrir að hossa.

Mitt meginsjónarmið er, og ég er ekkert viss um að það passi við frumvarpið hennar Ragnheiðar Elínar í dag, er að náttúrupassinn verði aldrei prentaður heldur verði aðeins til sem rafræn skrá.

Menn geti keypt sig inn á hana fyrir 500 kall. Ef maður á ekkert erindi á verndarsvæðin þá kaupir maður ekki neitt. Helst ekkert eftirlit sé með því hvort menn hafi keypt passa eða ekki og alls ekki af hálfu lögreglu. Hinsvegar leggst gjaldið á alla útlendinga sem koma til landsins á skipum eða öðru.

Ef þú kemur á Geysissvæðið eða á Hakið við Almannagjá, þá er alveg klárt að 99 % af þeim sem þar spranga eru útlendingar utan leiðsögumenn. Það er algerlega fráleitt að fara að ganga um og spyrja fólk hvort það sé Íslendingar en ekki útlendingar og sé á skrá.Góðir Íslendingar sem þurfa oft að sjá Þingvelli og ganga um vellina geta keypt sig inn á skrána til að hafa góða samvisku. Ef ekki þá skítt með það.

Allar hugmyndir um að prenta svona passa til framvísunar eru galnar.Það á að leyfa Íslendingaum að kaupa sig inn á skrána eftir vali. Skítt með það þó einhverjir skoði Gullfoss án þess að kaupa. Það þarf að negla ferðaskrifstofurnar sem eru að selja inn á svæðin með því að þær innnheimti gjaldið af útlendingunum sem þær demba inn. EES getur ekki haft á móti því þó að þeir Íslendingar sem noti kaupi en þeir sem ekki nota kaupi ekki.

Það er sá Náttúrupassi sem ég felli mig við.


Evrudauðinn

verður Gunnari Rögnvaldssyni að yrkisefni á bloggi sínu. 

Ég ætla að gerast svo djarfur að vekja athygli á þessari grein þar sem mér finnst hún eiga erindi inn í umræðuna um evruna, sem er hvergi nærri útddauð á Íslandi heldur liggur bara niðri. Gunnar segir:(ég feitletra að vild)

Forza Italia flokkur Silvio Berlusconi virðist ætla að reyna að vinna að því að ítölsk mynt verði tekin upp á Ítalíu samhliða evru. Bíddu aðeins. Já, þú heyrðir rétt; samhliða evru, segja þeir

Reyndar eru allir stjórnmálaflokkar Ítalíu nema einn, nú andsnúnir aðild Ítalíu að myntbandalagi Evrópusambandsins. Allir andsnúnir evruaðild nema einn. Forza Italia vill reyna að endurheimta fullveldi landsins í peningamálum

Ítalía er að deyja evrudauða. Landið er að kafna, það er komið með krónískt Eurosclerosis (ESB-eyðni). Jarðarför Ítalíu nálgast. Og elítupólitískir kirkjugarðar Evrópusambandsins geta varla beðið eftir kistunni ofan í fjöldagröf sína

Mikið langar mig að kalla þetta myntbandalag fyrirmyntbrandaragúlag Evrópusambandsins. Það langar mig því hugdetta Forza Italia sýnir að stjórnmálamenn á Ítalíu höfðu enga hugmynd um hvað þeir voru að skrifa undir er þeir árituðu Maastrichtsáttmálann fyrir hönd ítölsku þjóðarinnar í desember 1991. Þar sem fullveldi landsins í peningamálum var óafturkræft varpað fyrir róða

Þeir höfðu ekki minnstu hugmynd um hvað þeir voru að gera í misnotuðu nafni þjóðarinnar. Sem og var gert í næstum öllum þeim löndum sem undirrituðu sáttmálann. Kjósendur komu næstum hvergi nærri þessu stórslysi stjórnmálastéttarinnar. Því þetta myntbandalag er eitt allsherjar elítuverk

Eitt land neitaði þó með þjóðaratkvæðagreiðslu að skrifa undir. Það var Danmörk. Þar með hefði Maastrichtlestin átt að stöðvast og falla dauð og ómerk, því sáttmálar kröfðust samhljóða samþykkis allra landa

En auðvitað neituðu Brusselelítur Evrópusambandsins að fara eftir því sem í sáttmálum Evrópusambandsins stendur og Danmörk var þvinguð til að kjósa aftur undir hótunum um útlegð og brottvísun frá því sem einu sinni hét Efnahagsbandalagið EB. Það var það sem danskir kjósendur ákváðu að ganga í á sínum tíma. Nú eru þeir hins vegar hafnaðir í orðnum klesstum elítu-hlut

Þýskaland mun ekki sleppa tökunum, nú þegar Aladdín rúgbrauðsandi þess er loksins sloppinn út úr lampanum og hefur lagt sig fast sem endurkoma móðunnar miklu yfir meginlandi Evrópu -- og stakkelsFrakklandi sem loksins hefur af nýsameinuðu Þýskalandi verið troðið ofan í flöskuna sína, tappinn hamraður í og líkið innsiglað

En þessu er ekki hægt að hlægja að, því hörmungar menginlands Evrópu eru orðnar svo hroðalegar að úti er um velmegun og frið þann sem Bandaríkin plöntuðu þar. Evrópa er ónýt. Evrópusambandið hefur eyðilagt hana."

Svo mörg eru þau orð hins vísa manns. Gunnar segir sem rétt er að engin þjóð sem ekki hefur sömu framleiðni og Þýskaland getur haft sömu mynt og það ríki.Það sama gildir um Bandaríkin og Kanada. Ef við stöndum þeim ekki snúning munum við ekki geta haft sömu mynt og þau. Allt tal manna um að við hefðum komist hjá misgenginu ef við hefðum haft evruna er einfaldlega rangt. Allt tal um að vextir á Íslandi eigi að vera jafnir og evruvextir er líka rangt. Að auki er logið til um margt og þagað um annað. Að fyrirtæki með lélega eiginfjárstöðu þurfi að greiða svona 15 % vexti eða fái bara ekki lán, í Þýskalandi hentar auðvitað ekki í lánskjaramálflutningi Samfylkingarinnar.

Þeir heyra  ekki sé bent til Spánar, Portúgals, Finnlands eða Grikklands og spurt hversvegna atvinnuleysi sé þar svona þungbært? Jafnvel Ísland sem er líklega með meiri framleiðni í mörgu en sum þessara landa, hefði ekki geta staðist með evru og núverandi kaupmátt. Það er blekking sem menn verða að vara sig á. Seðlabanki Evrópu hefði ekki örugglega skaffað okkur þær evrur sem við hefðum þurft í hruninu. En við hefðum þá líka ekki fundið upp Icesave skal viðurkennt.

Hver þjóð verðu að hafa þann gjaldmiðil sem leyfir henni að reka ríkissjóð sinn í jafnvægi. Bandaríkin eru þar ekki meðtalin að sjálfsögðu  því þeir eru myntútgáfa heimsins.

Evran er dauðinn hvað sem kratarnir segja annað.


Harkan SEX!

er hlaupin í Fréttablaðið á þessum mánudagsmorgni.

Þar fara þeir um völl frændi minn Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og Þröstur Ólafsson hagfræðingur.

Guðmundur er þar að skrifa varnargrein fyrir RÚV sem honum finnst að vera sótt. Þó ég geti tekið undir það að margt finnst mér ofsagt um RÚV af þeim sem að þvi sækja finnst mér nú Guðmundur reiða svo hátt til höggs að úr verði hálfgert Selsvararvíg. Guðmundur skrifar m.a. svo:

"Ríkisútvarpið býr við linnulausar og samfelldar árásir frá óbilgjörnum öfgasinnum sem keppast við að verða sundrungartákn íslensku þjóðarinnar; ala sífellt á úlfúð og hatri. Þetta eru menn sem eru á launum við að ganga erinda tiltekinna hagsmunaafla í samfélaginu, ýmist á þingi eða á tilteknum fjölmiðlum. Fremstur þar í flokki er Davíð Oddsson sem nú er orðinn hjú hjá LÍÚ.

Engu er líkara en að hann telji sig orðinn sérstakan saksóknara í ímynduðu sakamáli gegn þessari stofnun. Það er honum og áhangendum hans kappsmál að grafa undan því mikla trausti sem Ríkisútvarpið nýtur meðal landsmanna eins og skoðanakannanir hafa þráfaldlega leitt í ljós. Þrátt fyrir átta hundruð Reykjavíkurbréf í Morgunblaðinu, sem verða æ frekjulegri - og skringilegri - þá hafa þau skrif greinilega ekki orðið til annars en að auka traust og tiltrú almennings á Ríkisútvarpinu....

Flestir Sjálfstæðismenn átta sig á því að þjóðin vill hafa þessa stofnun, hvort sem við erum vinstri sinnuð eða hægri sinnuð. Hvar sem við stöndum. Því að þetta er okkar stofnun, sem þjónar almenningi en ekki sérhagsmunum, sinnir þjóðmenningu í víðasta skilningi en ekki stundarmarkaðsvörum, leitar sannleikans en gengur ekki erinda. Ríkisútvarpið er mikilsverður hluti af þeim innviðum íslensks samfélags sem viss öfl vilja veikja. Það ræktar samkennd okkar. Þar kliða raddir sem við myndum jafnvel ekkiheyra í annars. Þar heyrum við músík sem enginn sérstakur er að reyna að selja okkur en ástæða er til að halda á lofti. Þar býr þjóðarminnið og bætist við jafnt og þétt; það sem framleitt er núna í Ríkisútvarpinu verður einn góðan veðurdag að ómetanlegum menningarverðmætum.

Í útvarpinu kliða raddir tímans. Verðmæti stofnunarinnar er ekki bara í ómetanlegu segulbanda og myndasafni stofnunarinnar; það er líka í því óáþreifanlega, sögunni, hefðinni, þekkingunni - samfellunni. Ríkisútvarpið er sameign íslensku þjóðarinnar sem vill hafa öflugt almannaútvarp hér á landi þar sem fólk fær að starfa af fagmennsku og heilindum en þarf ekki að búa við stöðugar árásir frá frekjuhundum.

Árásirnar á Ríkisútvarpið jafngilda árásum á Árnastofnun eða Veðurstofuna. Þetta er eins og að vera andvígur Þjóðminjasafninu. Þetta er eins og að berjast fyrir því að Esjan verði lögð niður."

Þarna er hraustelga tekið til orða. Einkanlega í ljósi þess að Davíð Oddsson hefur nýlega rifjað upp störf sín við Ríkisútvarpið með ljúflegum og skemmtilegum hætti og kynni sín af þeim miklu útvarpsmönnum sem hann þar kynntist. 

Ég held að ástæða óánægju margra hægri manna með fréttaflutning RÚV sé einmitt vinstri slagsíðan sem vinstri menn eins og Guðmundur Andri finnst vera rétt en þeir sem finni að því séu bara frekjuhundar. Af hverju eru þær deilur svona algengar? Skyldi frændi minn ekki hafa gott af örlítilli innri íhugun ásamt dálitlum Morgunblaðslestri áður en hann fellir slíka sleggjudóma yfir ritstjóranum sem hann gerir, og sem varla er nú búinn að ná áttahundruð Reykjavíkurbréfum á starfstímanum. En góð þykja mér þau langflest og holl fyrir Guðmund væru þau oftlega til aflesturs. 

Það er RÚV ekki til framdráttar að ráðast á frjálsa fjölmiðla með þvílíku offorsi sem frændi gerir. Málefnalega hefur mörgum þótt fréttaval RÚV verið mun pólitískara en var á dögum Stefáns Jónssonar og Jóns Múla þó hvorugur þeirra hafi verið i Sjálfstæðisflokknum. Þá var Ríkisútvarpið mun nær þeirri stöðu sem Guðmundur Andri lýsir sem ekki er eining um að náðst hafi á síðari tíð.

En Guðmundur Andri hefur gott vald á íslensku máli og missir kannski þess vegna stjórn á pennanum eins og fleiri skyldmenni hans hefur hent í gegn um tíðina. 

Svo kemur sá gamli komminn og nýkratinn væntanlega Þröstur Ólafsson og reiðir hátt til höggs gegn öllum íslenskum þjóðernissinnum. Hann segir m.a.:

 "Ein meginkveikjan að þessum stríðum var sú sama, þótt blæbrigðin væru ólík. Öll áttu þau það sameiginlegt að kvikna og nærast af þjóðernishyggju, en hún byggir á þeirri tilfinningu að einhver ákveðinn hópur fólks sé útvalinn, sérstakur og æðri öðrum. Það er því örstutt skref á milli þess að ofmeta eigin þjóð og málstað hennar og að fyrirlíta aðrar þjóðir. Blindur þjóðrembingur og ranghugmyndir um völd, stöðu og getu, leiddu og leiða enn heilar þjóðir á villigötur, jafnvel í glötun. Engar samfélagskenningar eða "ismar" eru eins varasamar til pólitísks brúks, því þjóðernishyggjan grundvallast á tilfinningu, ekki rökhyggju. Auðvelt er að vinna henni fylgi. Einstaklingum, hópum eða þjóðum finnst þau vera sterkari og öruggari, ef þeim er sagt að þau skari fram úr öðrum. Erfitt getur því reynst að halda þjóðhyggjunni í skefjum, því auðvelt er að spila á þessar tilfinningar. Á tímum umróts, breytinga á lífskjörum og óvissu er skírskotun til þjóðlegs ágætis og yfirburða vel þegin. Þess vegna komust og komast þjóðrembumenn svo auðveldlega til valda. Því betur voru og eru líka til í öllum löndum stjórnmálamenn sem ekki leika á pólitískt tilfinningalíf fólks með þessum hætti. Aðdráttarafl þjóðernishyggjunnar og kjörþokki hennar er enn mikill. Einbeiting að eigin verðleikum gerir þjóðir þröngsýnar, sem einangrar og er ávísun á áhrifaleysi. Hugarheimur tilbúinna yfirburða verkar illa á aðrar þjóðir.

Allt frá dögum sjálfstæðisbaráttunnar hefur þjóðernishyggja verið sterk hérlendis. Framan af var hún aflvaki þjóðvakningar og orkugjafi. Á síðustu tímum hefur hún hins vegar þróast yfir í ágenga þjóðrembu sem byrgt hefur sýn. Í stað hófsemi kom oflæti. Úr hógværð varð hroki. Við lentum í gjörningaveðri þjóðernisskrumsins. Hér voru kveiktir eldar þjóðlegra afburða og arfborins ágætis. Því miður lifir enn í þeim glæðum. Íslenskir stjórnmálamenn ólu og ala enn á sérstæði og yfirburðum þjóðarinnar, þótt minnimáttarkenndin blasi við í áráttu okkar við að þykjast alls staðar vera "á heimsvísu". Oflæti, hroki og ofmetnaður urðu þjóðarlestir sem alræmdir voru í útlöndum. Við urðum, eins og Danir 1864, blindir á getu okkar, veikleika og vanmátt. Enn þykjumst við fullfærir einir, enda er pólitískur einstæðingsskapur okkar áberandi. Í þessu andrúmslofti oflætis og ruglaðrar dómgreindar gerðu íslenskir útrásarvíkingar strandhögg, rændu fjárhirslur evrópskra banka, stofnana og sparnaði einstaklinga. Árásir á fjármálakerfi eru nútíma stríð. Hér fór þetta svipað og hjá Dönum 1864. Sjálfsmörkin urðu dýrkeyptust. Litlar þjóðir geta vissulega valdið miklum usla ef brotaviljinn er einbeittur eða sem síst er betra, ef hyggjuleysið er algjört."

Það er eitt að vera hallur undir alþjóðahyggju kratismans, vilja afnám landaæra og óheftan innflytjendastraum. Það er annað að fordæma alla sem vilja fara með gát og varðveita þjóðlegan arf og gildi.Fara sér hægt og yfirvegað. Þröstur flýgur heldur hátt í alhæfingum sínum með því að líkja okkar útrásarvíkingum við evrópska aðalsstétt sem hélt að stríð væru eins og þau hefðu alltaf verið, byggð á einstökum orrustum eins og um íþróttakeppnir væri að ræða.Víkingar gerðu strandhögg en voru lítt í landvinningum.Nú þykjast þeir hvergi hafa nálægt komið.

Við Íslendingar höfum hreina viðskiptahagsmuni af því að vera þjóðernissinnar.Íslensk vegabréf eru mjög dýrmætur þjóðararfur og ber að fara með af ítrustu gát. Þessvegna er nauðsynlegt að ganga úr Schengen hið allra fyrsta og hættta að gleypa allt hrátt sem frá gömlu Evrópu kemur. Evrópusambandið er nefnilega beinn arftaki gamla kóngaveldisins og valdakerfi þess minnir meira á valdakerfi keisarahirðanna en nútímann. 

En harkan SEX er greinilega farin að færast í pólitík Fréttablaðsins.


Læknadeilan

er enn óleyst og allir bíða átekta.

Brjóta þeir niður möguleikann á launalegri þjóðarsátt sem okkur vantar mest núna? Með því að hóta að segja upp og fara þá hafa þeir hugsanlega unnið störukeppnina. Allir aðrir hópar bíða eftir því hvernig fer.Ef gengið verður að kröfum þeirra upp á tugi prósenta hækkun þá skreppur andinn úr flöskunni. 1971 er þá komið aftur.

Ég held að læknamálið sé í hörðum hnút sem endi með því að þeir margir segi upp og fari. Nema ef þjóðasátt sé um að þeir fái meira en aðrir. Allir fái 3.5 % nema læknar fái meira. Skattakerfið verði látið stöðva sjálftökuliðið með skatti á toppinn til þess að friða öfundarliðið sem er búið að koma miklum óróa á stað. En þetta gengur líklega ekki. Læknaprósentan fer á alla nema eitthvað annað komi til.

Af hverju eiga læknar að fá meiri hækkun en allir aðrir? Mér virðist enginn vita það nema kannski þeir sjálfir. Svo nú herðast verkfallsaðgerðir þeirra með tilheyrandi veseni og samúðarbylgju almennings og andúð á ríkisstjórninni. En það er mikið undir hjá ríkisstjórninni. Ef hún gefst upp fyrir læknum þá gefst hún upp við verkefni sitt sem er efnahagsstjórnin. Ef hér brjótast út stanslausar taxtahækkanir þá er voðinn vís. Einmitt nú þegar allt virðist stefna í rétta átt, verðbólgan að lækka, verðtryggingin núll, álið að hækka, vextirnir að lækka og olían að lækka, vörugjöldin að fara af og gengið kannski að hækka.

Hvernig væri að slaka á kröfum til viðurkenningar erlendra læknaprófa? Hér eru lærðir erlendir læknar í skúringum. Er hægt að fá eitthvað minna lærða lækna sem innflytjendur? Getum við haldið þessum heimsklassa læknum okkar á íslensku skítakaupi í samkeppninni? Sama hversu fegnir við vildum þá getum við ekki boðið það sama og hinir ríkustu.

Ég fór og lærði verkfræði í gamla daga. Minn bransi er núna opinn fyrir alþjóðlegri samkeppni. á markaðnum eru þvílík undirboð í gangi að tímakaupið við teikningar er komið niður í bílstjórakaup. Nema hjá þeim sem sitja fyrir teikningum hjá þeim opinberu. Kallaðir gæludýraflokkarnir af okkur hinum. Það er líka hægt að kaupa hönnun allstaðar frá. Allir verkfræðingar frá EES geta komið hingað og útrýmt mér. Það er bara ekkert að sækja hingað. Allir bankar mega koma og gera það sem þeim sýnist hér. Höftin vernda okkar banka. Aalborg Portland kom og kálaði Sementsverksmiðjunni hér. Áburðrinnflutningur og R-listinn kálaði Áburðarverksmijunni.Innflutningur frá Austurlöndum kálaði Sambandsiðnaðinum á Akureyri og Álafossi. 

Við komumst aldrei frá opinberri bráðamóttöku. Maður er stunginn í gegn um hjartað og við stöndum á öndinni af aðdæun og stolti yfir færni okkar lækna. Við erum virkilega stolt af læknunum okkar. En við getum bara ekki borgað þeim sannvirði ef heimurinn bíður eftir þeim.

Ég held stundum að engin leið sé út úr þessu nema aukin einkavæðing. Létta á ríkisspítölunum með einkaklíníkum eins og þegar eru margar komnar. En við losnum aldrei við stóru spítalana. Og hvað þá?

Verðum við ekki að finna leiðir til að læknar fái einhverskonar afkastahvetjndi skilmála til viðbótar við lelega taxtakaupið? Geri þeir fleiri aðgerðir en í fyrra og þar áður fái þeir góðan bónus? Yrði ekki meiri ró yfir slíku kerfi? 

Annars verður læknadeilan óleyst of lengi og við getum lent í ógöngum sem við sjáum ekki fyrir endann á.


Hvað eigið þið margar byssur?

í hernum okkar? Hvað á herinn okkar mörg vopn, tegundir og gerðir? Hvaða leynivopn á þjóðin? Hvaða módel, gerð og gerð? Hvar eru kjarnorkukafbátarnir okkar staddir? Eru þeir með bombur um borð? Hafið þið eyðilagt einhver vopn?

Skyldi nokkur þingkona á Bandaríkjaþingi eða í Bretlandi spyrja svona spurninga þegar um þjóðaröryggi gæti verið að tefla?

Maður er bara byssubrenndur. 


Við erum víst að borga Icesave

samkvæmt því sem Morgunblaðið upplýsir í dag á bls.34:

"Stærsti forgangskröfuhafi LBI er breski innistæðutryggingarsjóðurinn vegna Icesave-sparnaðarreikninganna. Áður en veitt var undanþága fyrir greiðslum til forgangskröfuhafa í fyrradag átti sjóðurinn eftir að fá greidda um 400 milljarða úr búinu. Að undanförnu hafa bresk stjórnvöld þrýst mjög á að undanþágur fyrir greiðslum til forgangskröfuhafa yrðu samþykktar sem fyrst. Seðlabanki Hollands, sem var áður næststærsti kröfuhafi búsins og átti eftir að fá greidda um 130 milljarða, seldi hins vegar sl. haust kröfur sínar til Deutsche Bank. Raunverulegir kaupendur voru sjóðir sem eru almennir kröfuhafar í bú LBI, Kaupþings og Glitnis. Forgangskröfuhafar hafa nú fengið greidda 1.115 milljarða, eða 85% af höfuðstóli krafna sinna."

Ýmsir mætir menn eru að halda því fram að Íslendingar séu ekki að borga Icesave þó að nú fari 400 milljarðar út úr Seðlabankanum í gjaldeyri.Af hverju er ég áfram í höftum?

Allt bixið með gamla Landsbankann og Nýja Landsbankann er svikamylla, stjórnarskrárbrot og lögbrot. Skipan slitastjórna án þess að fyrst væri skipaður skiptaráðandi í gjaldþrota búum gömlu bankanna er lögbrot og brot á íslenskum réttarvenjum eftir því sem ég fæ skilið lögin. Venjulegt íslenskt fyrirtæki sem á ekki fyrir skuldum á að biðja um gjaldþrot eftir íslenskum lögum. Yfir það er þá settur skiptastjóri sem greiðir út úr búinu í fyllingu tímans í hlutfalli og íslenskum krónum. Honum ber ekki að greiða í gjaldeyri þó fyrirtækið hafi hugsanlega skuldað gjaldeyri. Þetta er minn skilningur og enginn hefur getað komið með þau rök gegn þessu sem ég sjái að dugi. 

Glitnir átti að fara strax í gjaldþrot í fyrstu vikunni þegar bílavíxlarnir dugðu ekki og ljóst  var að Sjóður 9 og aðrir áttu ekki fyrir innistæðum. Kaupþing sömuleiðis þegar ljóst var hvernig komið var með þá og hvernig þeir fóru umsvifalaust með neyðarlánið.

Að mínu litla viti ætti Steingrímur J.Sigfússon svo skilyrðislaust að svara fyrir gerðir sínar fyrir Landsdómi hvernig hann stórskaðaði þjóðarbúið með síðari ráðstöfunum í banka og sparisjóðamálum. Allavega tel ég þar vera stærri sakir að jafna en hann ætlaði að hengja á Geir H. Haarde saklausan fyrir sama dómstóli. Aðfarir Steingríms þá gleymast engum sem á horfði.

Íslenska ríkið á Landsbankann nýja með húð og hári.Íslenska ríkið hefur lögsögu yfir þrotabúi gamla Landsbankann og alla lögsögu yfir skuldabréfinu þeirra á milli. Slitastjórnin starfar á ábyrgð íslenska fullvedisins.

Ég skora á mér fróðari menn að útskýra hversvegna 400 milljarðarnir af skuldsettum gjaldeyrisforða Íslands eru ekki að borga Icesave þvert á þjóðaratkvæðið.


Náttúrupassinn er í lagi

finnst mér núna eftir að vera búinn að lesa grein Ragnheiðar Elínar í Fréttó í dag.

Hann verður til sölu á netinu fyrir 500 kall.Þetta er rafrænn passi ig er ekki prentaður passi, aðeins rafræn skrá yfir Íslendinga. Ég helda að það sé engin þörf fyrir að hafa endurkomu útlendinga á skránni. Þeir bara borga aftur ef þeir koma aftur hvað sem EES segir. Þú kaupir náttúrupassa og ert á skránni.Þú kaupir ekki náttúrupassa og ert ekki á skránni. Þú ferð inn á vernduðu svæðin við Gullfoss og Geysi.  Það getur komið eftirlitsmaður og spurt þig hvort þú hafir keypt náttúrupassa. Þú getur logið og sagt já eða nei. Hann kannski spyr þig um nafn og þú gefur það upp hafir þú hreina samvisku. Annars bara leggurðu á flótta og þá veit maðurinn að þú ert svindlari. Það nægir honum alveg og þú ert punktur í tölfræði hans.  Hann er ekki lögregla þannig að þar endar málið. Ef þú ert heiðvirður maður og segir til nafns og þá tékkar hann þig af í skránni og óskar  þér góðrar skemmtunar. Kannski sleppurðu líka við hann og þá geturðu glaðst alveg rosalega yfir þúsund kallinum sem þú græddir fyrir þig og kellinguna með því að svindla þér inn á þinn stórmannlega hátt.

En þú sérð að 99 % af af öllum sem eru þarna sem eru 99 % útlendingar sem eru þarna með þér eru að borga til bóta á landinu sem þú sérð að stynur undan átroðningi þínum, sem kannski borgar ekki neitt, og þeirra. Kannski verður settur upp sjálfsali við þessi svæði ef þú vilt kaupa þér náttúrupassa til að vera heiðvirður maður þar sem þessi ferð þín er óvænt og þú ætlaðir ekkert að fara inn á svona svæði þetta árið.

Það er enginn að koma að spyrja þig um passa í berjamó eða á gangi á Sprengisandi, Hljómskálagarðinum eða svoleiðis. Það er bara verið að reyna að hætta að leyfa ferðaskrifstofugróðapungunum að demba í eigin gróðaskyni hundruð þúsunda erlendra fóta inn á viðkvæm svæði án þess að borga fyrir þann átroðning. Af hverju eiga þær að taka á móti erlendum skipum með þúsundum farþega og keyra þá í rútum fyrir góðan pening fyrir sig eingöngu  til að sýna þeim Gullfoss og Geysi án þess að þessi náttúruvætti fái neitt annað en traðkið?

Þó að þú viljir ekki borga 500 kallinn af því að þú ferð ekkert þangað þá er það fínt. Þú þarft ekkert að borga. En ef þú ferð samt þangað þó þú borgir ekki og komist upp með það og gleðjist yfir því, þá skiptir það ekki máli í heildardæminu. Vertu bara þú sjálfur og borgaðu annaðhvort fimmhundruð kallinn með glöðu geði til að leggja þitt af mörkum til landsins þíns, að því gefnu að ráðherran ætli ekki að stela peningunum í annað. En ef þú vil bara fara eftir þínu skítlega eðli sem tekur helst allt án þess að borga neitt, þá bara það. Landið hefur lifað af aðra eins plágu og þig.

Þetta er bara góð og skynsmleg leið. Og það vona ég að kamarsmálin verði það fyrsta sem maður sjái leysast með þessum peningum. Að standa með fimmhundruð útlendinga í spreng í halarófu út á götu í Hveragerði til að nota ókeypis klósett sem eru fyrir viðskiptavini Bónusar og smáverslanir í Kjarnanum þar er skandall og niðurlæging leiðsögumannsins. Maður í spreng kaupir ekki neitt meðan hann er í biðröðinni og fer svo beint út í bíl af því að tíminn fór í biðina.

Sami skandall við Gullfoss. Ekki hægt að stoppa á neðra plani af því að þar er ekki hægt að m..a. Önnur niðurlæging. Og segja ferðamönnum að vertinn á sjoppunni segi ekkert af gæsku sinni við því þó þeir pissi þar inni án þess að borga neitt, er bæði hallærislegt og neyðarlegt fyrir íslenskan leiðsögumann sem getur ekki skýrt af hverju kostar að pissa á Sigríðarstofu, ef hún er þá opin sem er bara stundum.

Svo á að setja strax reglugerð sem skyldar erlendar ferðaskrifstofur að hafa íslenskan leiðsögumann í hverri rútu. Og svo á að banna allan innflutning matvæla í rútum og bílum sem koma með Norrænu. Ætti að vera auðvelt að finna passandi paragraff í öllu nýþýdda EES regluverkinu til þess.

Það er kominn tími til að hætta að láta frekjuliðið frá Evrópu gera grín að okkur fyrir sveitamennskuna í ferðamálunum.

Áfram Elín,með náttúruna!  

Náttúrupassann á strax þar sem hann leysir málið.

 

 


Þá borgum við Icesave

með því að Landsbankinn greiðir 400 milljarða í gjaldeyri til forgangskröfuhafa Landsbankans með sérstöku leyfi Seðlabankastjóra?

Ekki skyldu þetta vera erlendar skuldir óreiðumannanna sem hann Davíð talaði um?

Af hverju vill Heiðar Már gera Glitni gjaldþrota? Kom það ekki til álita með Landsbankann til að borga ekki Icesave skuldirnar í gjaldeyri? 

 


Bjóðum Pútín neyðarlán

það er allt í steik hjá kallgreyinu.

Rússar voru hvað vinamslegaastir við okkur Íslendinga þegar verst stóð hjá okkur. Bara Færeyingar stóðu þá með okkur en allir Kratavinir Samfylkingarinnar sýndu á sér hnakkann að norrænni samvinnu meðtaldri.Og Kaninn brást.

Hvernig væri að rétta Rússum hjálparhönd. Getum við ekki lánað þeim eitthvað sölutregt, kannski síld eða eitthvað annað?

Mér finnst við alveg geta sýnt Pútín vináttuvott.


Skipað gæti ég

væri mér hlýtt sagði einhver í þúsund og einni nótt.

Þegar maður hugleiðir kjaradeilur lækna og svo annarra í framhaldi,þá fellur menni ketill í eld. Það er endalaust hægt að gráta yfir því að ungi taugalæknirinn ætlar úr landi ef hann fær ekki hærra kaup. Hvað kaup skyldi hann vilja? Í krónum í dag miðað við gengi á dollara dagsins?

Ef þessi læknir fengi svo og svo mörg prósent ofan á núverandi laun og verður kyrr, hvað ætlar þá flugumferðarstjóri að fá? Og ljósmóðirin sem hlýtur að vera komin langt á eftir.Já og svo Gylfi með sitt láglaunafólk í ASÍ? Er þetta ekki málið. Hlutfallið?

Læknirinn sagðsit ætla úr landi og ekki koma hér meir. Það er virkilega slæmt. Ég held að hann verði aldrei ánægður nema að hann verði sjálfstæður verktaki og fái að bjóða í útboðna þjónustu svona eins og skúringaþrælarnir.

Auðvitað veit hann að það er ekki hægt að semja við hann upp á hvað sem er án þess að leitað sé annarra leiða? Það er hægt að ráða hingað taugalækna sem tala ensku til að byrja með ef hann segir upp og fer. Þeir eru auðvitað ekki eins góðir en fáum við nokkuð annað ef hann fer? Ísland getur ekki keppt við önnur lönd í kaupgreiðslum. Það eru aðrar hliðar hérlendis sem vigta.

Auðvitað er enginn ómissandi í þessu þjóðfélagi hvorki ég(sic!) né aðrir. Maður kemur ávallt manns í stað, hvort sem hann heitir Hannes Hafstein, Stalín, Fiedel eða Maó.Nema í Lögreglunni, þar er verra að fá innflutt fólk. og svo auðvitað í kennarastéttinni.

Hvern fjárann er eiginlega hægt að gera í þessum kjaramálum? Helst þannig að allir myndu hagnast til lengri tíma litið eins og i  þjóðarsátt.

Ef við byðum þessum lækni 7 % hækkun á næstu áramótum og öllum öðrum sem eru á taxtalaunum 3.5 %. Og svo aftur  sam 1. júní. Þá hefur læknirinn fengið helmingi meira en aðrir eða 14 %. ASÍ 7 %. Auðvitað þýðir þetta verðbólgu og vaxtahækkun. En hvað skal gera.  Eru þetta nægileg rök fyrir því að svo eigi að vera? Hafa ljósmæður verðskuldað að vera metnar að hálfu við lækna? Una flugumferðarstjórar þessu?

Látum svo vera. En hvað með forstjórana sem fengu miklu hækkanrinar? Er það ekki ólíðandi? Er hægt að fá þá til að færa laun sín til fyrra horfs? Er það ekki forsenda þess að við sem minni eða engar hækkanir fengu eða fá getum sofið?

Líklega myndi hver Íslendingur skilja það, að fái allir  vinnandi menn taxtaleiðréttingar upp á 20 % þá hefur það afleiðingar.Þetta var gert þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar ákvað 1971 að öll laun í landinu skyldu hækka um 10 % og dagvinnuvikan skyldi styttast um 10 % líka. Ólafur taldi síðar, reynslunni ríkari, nauðsyn á að setja síðar með Jóhönnu Sig. lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Í og með þar sem sparnaður var horfinn í landinu. Í kjölfarið  kom verðtryggingin.

Nú eru stýrivextir með lægra móti og verðbólga nær engin. Það er heldur enginn blússandi gangur í atvinnulífinu. Nema á spítölunum er allt að drukkna í ókeypis verkefnum í ókeypis heilbrigðisþjónustu. Og það er skortur á öllu sem er ókeypis, öldrunarþjónustu eða dýrum lækningatækjum. Mig sundlar við tilhugsunina hvað skorturinn er mikill og hvað ég er getulaus til að gera eitthvað sem um munar.

Ef mér til dæmis væri fleygt fram af ætternisstapa  myndi þá ástandið ekki lagast? Ber mér og jafnöldrum eiginlega ekki skylda til að losa þjóðfélagið við okkur og fremja sjálfsmorð til þess að þeir yngri megi betur lifa? Við erum bara fyrirhöfn og kostnaður sem gott væri að losna við. Þá væri hægt að borga læknum betur og þeir sleppa við að lækna okkur.

Ef okkur dámar þetta ekki þá væri hugsanlega mannúðlegra að allir sjötugir yrðu dæmdir útlægir og skyldu utan vera þrjá vetur við sjötugsaldurinn eins og var til forna.Þá yrði skyndilega öfugur straumur hælisleitenda frá landinu. Það væri líka hugsanlega hægt að skapa aðstæður fyrir fólk til að fara í svona útlegð og spara. Nú, eða borga fólki eingreiðslu fyrir að hverfa alveg. (Tölfræði er tilfinningalaus.) 

En ríkisstjórnin hefur það hlutverk að skipa málum. Ekki ég.

Og enginn má sköpum renna."Þeir sem aldrei þekktu ráð, þeir eiga að bjarga hinum." Samningsfrelsi eða þjóðarsátt um bættan hag allra?

En skipað gæti ég væri mér hlýtt. Og ég held að mínar skipanir væru hugsanlega skárri fyrir alla en það sem framundan er í verðbólgubáli og verkföllum en að frjálsir samningar fái að ráða rétt einu sinni enn. 

Ég skipa víst ekki mikið fyrir úr þessu, vesæll, aldraður og óábyrgur bloggari  og þaðan af síður yrði mér hlýtt.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband