Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Jafnir jafnaðarmenn

eru yfirleitt svo hnífjafnir að þeir eiga erfitt með að viðurkenna hvorn annan. Hvort sem er sem formann, varaformann, ritara, stofnendur?

Eru ekki raunir Árna Páls með Sigríði Ingibjörgu í fersku minni? Og svo bara núna annar jafnaðarmannaflokkur jafnvel í útrýmingarhættu?

Hannibal, Jóhanna, Alþýðuflokkurinn, Þjóðvaki, Bandalag Jafnaðarmanna lýsa sem leiftur um nótt í fortíðinni?

Er ekki vegferð íslenskra jafnaðarmanna saga óslitinnar jafnaðarmennsku þar sem jafnir mannkostir sitja jafnaðarlega í öndvegi og enginn ryðst yfir annan í metorðafíkn?

Nú er líka talað um vaktaskipti.


"Ekki benda á mig

segir varðstjórinn."

Ósanngjarnt að benda bara á Guðmund Steingrímsson segir Róbert Marshall þegar slakt gengi Bjartrar Framtíðar kemur upp. Er ekki rétt að viðurkenna það fúslega og leyfa Róberti að eiga sinn hlut í þessu? Og er ekki líka sjálfsagt að styðja Heiðu Helgadóttur sömuleiðis til fullrar hlutdeildar sé þess óskað? 

Síðan hafa fallið orð um að formenn skipti í sjálfu sér ekki eins miklu máli fyrir gengi flokka og menn létu. Er þetta ekki þörf ábending til þeirra formanna sem hafa tæpt fylgi á bak við sig og huggun harmi gegn?

Eru þarna ekki að losna nöfn sem nota má annarsstaðar?

Var því aldrei um Álftanes spáð, að ættjörðin gæti frelsast þar?


Verkalýðsbaráttan innanfrá

gægist hugsanlega fram í pistlum  Ragnars Þórs Ingólfssonar stjórnarmanns í V.R.

Mér sýnist Ragnar staðfesta það sem þessi bloggari hefur lengi haldið fram að lífeyrissjóðakerfið væri búið að tapa áttum og orðið að valdabaráttutæki sérhagsmuna um leið og að hefur fjarlægst eigendur  sína. Með hverju ári missa eigendur lífeyrissjóðanna yfirsýn yfir starfsem þeirra og sjóðirnir birtast flestum sem óbilgjarnir og harðsvíraðir lánveitendur til almennings. Tilgangurinn upphaflegi er farinn að verða óskýrari eins og fram kemur í pistli Ragnars:

 

" Skattar af vinnuframlagi eru sjaldséð sjón þar sem einungis hluti kemur fram á hefðbundnum launaseðli. Vel falin launatengd gjöld sjá sjaldnast dagsins ljós á launayfirlitum alþýðunnar, líklega vegna þess að okkur koma þau ekki við eins og svo margt annað er snýr að verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðunum.

Mér fannst tímabært að taka saman helstu tölur eftir að hafa hlustað á grátstaf forseta ASÍ um allt of háan virðisaukaskatt og ekkann í kollega hans hjá SA, í ljósi þess að þeir sjálfir eru nýbúnir að hækka framlög í starfsmenntunarsjóði aðila vinnumarkaðarins um 50% og samþykkja 30% iðgjalda hækkanir í botnlausa hýt íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

Staðgreiðsluskatts þrep  37,32%-40,22%-46,22%

Af fyrstu 241.475 kr. .................................... 37,32%

Af næstu 498.034 kr. ................................... 40,22%

Af fjárhæð umfram 739.509 kr.  ................. 46,22%

Lífeyrissjóður er 12% á almennum vinnumarkaði og hækkar í 15,5% á næstu árum.

Tryggingagjald 7,69%

Endurhæfingarsjóður 0,13%

Stéttarfélag 1% (meðaltal)

Sjúkrasjóður 1% (meðaltal)

Orlofssjóðir 0,25% (meðaltal)

Endurmenntunarsjóðir, starfsmenntunarsjóðir og aðrir sjóðir 0,7% (meðaltal)

Útvarpsgjald er 18.800 kr. á einstaklinga sem fæddir eru

1943 og síðar og eru með tekjur yfir 1.495.407 kr. á ári.

Undanþegin eru börn innan 16 ára aldurs.

Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra er 9.604 kr. á einstaklinga sem fæddir eru 1943 og síðar og eru með tekjur yfir

1.495.407 kr. á ári. Undanþegin eru börn innan 16 ára aldurs.

Varlega er áætlað að samtals 63% af vinnuframlagi fari í skatta með beinum og óbeinum hætti en sjálfsagt er þetta hlutfall miklu hærra eftir því sem dýpra er kafað.

Það sem eftir stendur fer í okur vexti og húsaleigu sem niðurgreitt er að hluta af ríki og sveitarfélögum í gegnum skattkerfið og almannatryggingakerfið.

Ekki er tekið tillit til persónuafsláttar í þessum tölum.

Ekki er tekið tillit til hvers kyns gjalda eins og komugjalda og annara gjalda heilbrigðisstofnanna, gjalda er tengjast skóla og dagvistun barna og sérgjalda og sérskatta á ýmsa vöruliði svo sem eldsneyti ofl.

Af allri nauðsynja vöru og þjónustu greiðum við svo virðisaukaskatt sem er skilgreindur í tveimur þrepum.  

Virðisaukaskattur 25,5%

Virðisaukaskattur 7%

Það er ekki að undra hversu lítið svigrúm heimilin hafa til að auka skattstofn ríkisisns eða veltu og svigrúm fyrirtækja til að hækka laun á almennum markaði þar sem neysla er sífellt að dragast saman vegna minnkandi kaupmáttar, mikillar verðbólgu og óbilandi sjóðsöfnunar árráttu aðila vinnumarkaðarins og ríkisins við endalausar gjaldtökur og jaðarskatta hækkanir.

Ofan á þetta bætist svo við gengdarlaus okurvaxta stefna stjórnvalda sem varin er verðtryggingu.

Sjálfsagt er hægt að týna meira til en hvað er til ráða?  

Ragnar Þór Ingólfsson 

 

Og ekki er nóg með þetta:

 

Ragnar skrifar enn:

 

" Margir sem ég þekki, þar á meðal ég sjálfur, bera ekki mikið úr bítum í komandi kjarasamningum,  í ofan álag sem ég um mín laun sjálfur óháð kjarasamningsbundnum hækkunum. Af hverju ætti ég að vilja verkfall?  Til hvers að vera í stéttarfélagi og þurfa að fara í verkfall fyrir lítið sem ekki neitt. Ætli sé ekki bara best að segja sig úr slíkum félagsskap?

Þetta heyri ég æ oftar í umræðunni, hef fengið fjölda spurninga frá fólki í þessari stöðu þar sem óánægju gætir. Ég hef líka heyrt að fólk segi sig úr stéttarfélögum til að sleppa við að fara í verkfall. Ég hef velt þessu töluvert fyrir mér og er hugsi yfir þessari stöðu og hugarfari samborgara minna.

Hvað er eftir þegar við getum ekki bakkað upp okkar minnstu bræður? Hvað er að í þessu samfélagi? Er spillingin og sjálftaka græðgis aflana orðin svo gróin í huga okkar að náungakærleikurinn, samheldnin og baráttuandinn er gjörsamlega farin og ekkert kemst fyrir nema afturendinn á sjálfum okkur?

Ef þú gengur fram á slys eða samborgara þinn í vandræðum, strunsar þú fram hjá eða réttir þú hjálparhönd? Flestir sem ég þekki myndu örugglega leggja viðkomandi lið. Ekki endilega af góðmennskunni einni saman heldur líka vegna þess að ef við lendum einhvern tíma í þeirri stöðu að þurfa  á hjálp að halda, þá viljum við að einhver hjálpi okkur án þess að viðkomandi hafi beinan hag af því sjálfur.

Það sem verkalýðshreyfingin er að berjast fyrir eru ekki bara einhver þunnildi handa þeim efnameiri heldur eru þetta afar hófsamar en mikilvægar kröfur sem munu móta samfélag okkar fyrir lífstíð. Kröfur sem gætu haft úrslitaáhrif um það hvort börn okkar og barnabörn geti lifað mannsæmandi lífi.

Hvers virði er það, fyrir heildina, að atvinnulífið greiði lágmarks laun sem duga fyrir framfærslu?  Í hvernig þjóðfélagi viljum við lifa og eru þetta kjör sem við myndum sjálf sætta okkur við?

Ég tók þátt í 1. maí hátíðarhöldum verkalýðshreyfingarinnar, eins og ég hef gert undanfarin ár, og gekk með félögum mínum í VR,  en þar hef ég átt sæti í stjórn félagsins síðan 2009. Það ár tók ég ákvörðun um að láta mig þessi mál varða og hef gert það síðan. Ég hef litlu náð að breyta og get ekki sagt að ég sé stoltur af verkalýðshreyfingunni, sem mér finnst hafa brugðist fólkinu algjörlega. Ekki síður en stjórnmálamenn.  Ég hef gengið svo langt að neita að bera fána félagsins og merki ASÍ.  Mér dettur ekki í hug að bera merki einhvers sem ég ber ekki virðingu fyrir og finnst í hjarta mínu hafi brugðist.

Ég mun þó ekki gefast upp. Ég vil bera fánann einhvern tímann og ég trúi því að við getum breytt þessu og komið einhverju góðu til leiðar. Hvenær það verður er undir okkur sjálfum komið því við verðum aldrei sterkari en fjöldin sem tekur þátt og lætur sig málin varða.  

Við verðum aldrei sterkari þjóð en okkar minnstu bræður og alveg eins og með bullandi óánægju mína með verkalýðshreyfinguna þá skammast ég mín stundum fyrir að vera Íslendingur, miðað við umræðuna undanfarið þar sem fólk telur sig yfir það hafið að taka höndum saman við að bæta kjör þeirra lægst settu, vegna þess að við fáum svo lítið út úr því sjálf. 

Auðlindir og ríkiseignir eru afhentar vildarvinum þeirra sem stjórna á meðan við sitjum heima í sjálfselsku okkar og borum í nefið.  Stjórnendur fyrirtækja sem eru í almannaeigu í gegnum lífeyriskerfið maka krókinn sem aldrei fyrr og kunnulegt ábyrgðar rop glymur undir hverri hækkun ásamt röklausu þvaðri um skaðsemi þess að geta lifað af dagvinnulaunum, launum sem ekki nokkur maður treystir sér til að lifa á. 

Hvað er að okkur?

Ég hef aldrei áður fundið fyrir þeirri tilfinningu að vera ekki stoltur af þjóð minni, fólkinu mínu, en nú hef sjaldan verið samborgurum mínum jafn reiður fyrir að gefast hreinlega upp.

Verkalýðshreyfingin hefur algerlega brugðist og hún gerir það enn á ný fyrir að beina málum í þennan farveg í stað þess að nota ítök okkar í atvinnulífinu. Setja fjármálakerfið og atvinnulífið í verkfall með því að hætta öllum fjárfestingum lífeyrissjóðanna, á meðan óvissa ríkir á vinnumarkaði. Fjárfestingum sem fjármálakerfið og aðrar afætur maka krókinn á. Af hverju skiptir verkalýðshreyfingin ekki um stjórnir í stærstu fyrirtækjunum og kemur þar fyrir fólki sem hefur metnað fyrir mannsæmandi lífskjörum og hófsömum hagnaði ofar græðgi. Af hverju rjúfum við ekki órjúfanlega sátt SAASÍ yfir eftirlaunasjóðum okkar og tökum stjórnina sjálf?

Þessi ömurlega staða láglaunahópa verður algerlega skrifuð á verkalýðshreyfinguna sjálfa.  Samstöðuleysið og láglaunastefna síðustu ára er helsti orsakavaldur þess. Þó hreyfingin hafi ekki mikinn trúverðugleika og skrapar botnin hvað traust varðar, eins og kannanir hafa sýnt, þá breytir það ekki bláköldum veruleika þeirra sem þurfa að lifa á lágmarkslaunum.

Ég hef orðið vitni af mörgum försunum í kringum samninga SA og ASÍ þar sem leikritaskáldin í brúnni búa til leikþætti í kringum þunnildin sem samið er um, með tilheyrandi drama sem endar í vöfflum þar sem allir eru vinir, eins og í bandarískri bíómynd.

Ég hef á tilfinningunni að staðan í kjaramálum nú sé í raun einn risastór farsi til að réttlæta tilverurétt ákveðinna afla sem kalla sig aðilar vinnumarkaðarins. Farsi þar sem skúrkar og hetjur verða til með endalausum málalenginum og yfirlýsingum sem ekkert bíta, en setja fólk í ákveðin lið. Áróður þar sem stéttum er stillt upp á móti stéttum.

Þó rökhugsandi fólk sjái í gegnum plottið þá er komin tími til að draga hausin úr sandinum. Ef ekki núna hvenær þá? Ég vil ekki trúa því að við fáum einhverja smánarlega þáttöku þegar við göngum til atkvæða um verkfallsboðun.  Ég leyfi mér að trúa því, að við sem teljum okkur eiga meira skilið en þeir lægst settu, tökum upp hanskann og stöndum eins þétt við bakið á félögum okkar og við mögulega getum. Við verðum hreinlega að gera það. Ákvörðun okkar mun móta samfélag okkar langt inní framtíðina. Hún mun hafa áhrif á börnin okkar og afkomendur þeirra.

Við getum ekki leyft okkur að hugsa um eigið rassgat í þessum efnum. Þetta er hreinlega lífsspursmál fyrir þá lægst settu.

Tökum höndum saman og berjumst fyrir betra og réttlátara samfélagi og hrífum hvern þann með sem er efins um málstaðinn. Látum ekki kjarkleysi annarra draga úr okkur kjarkinn.

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR "

Er ekki ástæða til að hugleiða þessi sjónarmið manns úr verkalýðshreyfingunni? Er fjármagnið, Auðvaldið eins og það hét hjá Karli Marx, ekki búið að valta yfir hinn venjulega mann?

Verkalýðsforystan hugsar um sjálfa sig í þrengstu merkingu fyrst áður en kemur að almenningi? Lífeyrissjóðirnir séu að verða valdatæki spilltra forystumanna launþega en ekki brjóstvörn almennings?

 Hugsanlega er hér hluti af skýringu á velgengni Pírataflokksins.Fólk er að gefast upp á kerfinu í heild sinni? Það trúir engum lengur?

Eru einhverjir á ferð yfirleitt í stjórnmálum eða verkalýðsbaráttunni sem eru að reyna að segja eitthvað annað en spila gatslitnar plötur um frelsi jafnrétti og bræðralag? Sem er bara andhverfa orðanna séð innanfrá.

 


Lítið að gera

í dagvinnunni ef marka má þessa frétt Morgunblaðsins:

"Starfs­menn Sýslu­manns­ins á höfuðborg­ar­svæðinu eru bún­ir að fara yfir flest mál sem lögð voru inn til þing­lýs­ing­ar meðan á verk­falli lög­fræðinga stóð og gott bet­ur.

Þuríður Árna­dótt­ir, sviðsstjóri og staðgeng­ill sýslu­manns, sagði að þegar verk­falli lög­fræðinga var frestað um miðjan júní hafi um 10-11 þúsund skjöl­um verið óþing­lýst hjá embætt­inu. Síðan þá hef­ur annað eins bæst við.

Skjöl­um er þing­lýst eft­ir þeirri dag­setn­ingu sem þau ber­ast. Skjöl sem lögð hafa verið inn til þing­lýs­ing­ar eft­ir að verk­fall­inu var frestað bíða því á meðan unnið er í eldri mál­um og þar til kem­ur að þeim í tímaröðinni. „Hal­inn“ stytt­ist þó með hverj­um degi sem líður, að því er fram kem­ur í Morg­un­blaðinu í dag."

Ég hef ekki heyrt að unnin  hafi verið brjáluð yfirvinna til að afreka þetta. Bara unnið svona með öðru? Hafi verið unnin yfirvinna þá er  svona verkfall kannski bísness fyrir verkfallsmenn. Hvað sem því líður þá eru taxtahækkanirnar farnar út í veður og vind. Verðbólgan er komin af stað og kynt af stjórnmálastéttinni sem jarmar um skort áhúsnæði, skort á starfsfólki, skort á peningum.

Hvernig væri að fara í almennt slódán að kæla vitleysuna? Það er kannski minna að gera en starfsmenn og verkalýðsfélög þeirra láta?


Donald Trump

er maður sem ég þekkti lítið nema af afspurn þar til í kvöld. 

Ég fór að hlusta á manninn og horfa á hann. Hann er að verða sjötugur og er innblásinn í ræðustólnum. Greinilega meinar það sem hann segir og segir það með að tala með öllum líkamanum. Mér datt í hug hvort maðurinn væri leikari en hann er það ekki. Hann er hinsvegar vanur þáttastjórnandi úr sjónvarpi. Hann kann að koma fram, hann getur talað og hann getur greinilega hugsað. Og hann er snjall. Hefur skrifað 17 bækur um viðskipti sem hafa selst vel. Ég myndi ekki afskrifa Donald Trump.

Tvöfaldur heiðursdoktor í Business Administration, B.Sc. í hagfræði sjálfur. Farið í gegnum margar gjaldþrotameðferðir og unnið til baka. Þrjú hjónabönd og fimmbörn, og afi fyrir þó nokkru. Eignir núna eru hugsanlega 10 billjónir dollara.

Það er eðlilegt að snobbelítan kalli þennan mann fífl og reyni að niðurlægja hann. Ég er viss um að hann er yfir meðallagi að greind og hæfileikum. Hann er kannski ekkert bjútí en hann er stæðilegur á velli og nokkuð réttholda. Með eigið hár.

Og hann hefur alveg ráð á að setja út á margt í stjórnskipuninni eins og heimskulegar spítalabyggingar þar sem hann hefur óhemju starfsreynslu í byggingabransanum að baki. Kannski ættum við að sýna honum teikningar af nýja Lansanum okkar?

Hann er ófeiminn til að segja skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Mér finnst óneitanlega heldur minna til Hillary koma eftir að fara að horfa á Donald Trump.


Landsfundur Sjálfstæðisflokksins

var haldinn síðast í febrúar 2013. Nú skal aftur halda landsfund í október komanda.

Það er ekki úr vegi að rifja upp hvað brann á sjálfstæðismönnum þá og bera saman við þau tíðindi sem efst eru á baugi núna.

Þá samþykkti Landsfundur eftirfarandi um húsnæðismál:

Séreignastefnan í húsnæðismálum er grunnstoð sjálfstæðisstefnunnar. Breyta þarf húsnæðisstefnunni þannig að fólki verði gert kleift að eignast  í stað þess að hvetja til skuldsetningar.

Taka þarf íbúðalán og leiguíbúðalán til gagngerrar endurskoðunar.

Auðvelda verður ungu fólki sín fyrstu kaup. Leiga verði valkostur á íbúðamarkaði.

Íbúðalánasjóð og leigufélag Íbúðalánsjóðs þarf að endurskoða frá grunni."

Þetta er nokkuð afdráttarlaus yfirlýsing um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til húsnæðismála fólks. Borið saman við leiguliðastefnu Dags B. Eggertssonar í Reykjavík geta línur vart verið skýrari.

Leiguhúsnæði á dýrustu lóð Íslandssögunnar verður seint sú lausn sem unga fólkið leitar að með hjólhest sem eina farartæki fjölskyldunnar.Hótel Mömmu"-lausnin eða félagslegt leiguhúsnæði er ekki það sem flokkurinn telur ákjósanlegast fyrir framtíð þessa lands."

Flokkurinn er hinsvegar líka að segja að veldi fjármögnunarfyrirtækjanna er orðið allt of mikið og íþyngjandi sem setur skuldsetningu sem eina úrræði ungs fólks í húsnæðismálum.

Nákvæmlega það sem þessi bloggari hefur verið að segja um ofurveldi stóru verktakanna á íbúðamarkaði í krafti lóðastefnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Rándýrar lóðir eru ekki á meðfæri alþýðu sem þarf að koma þaki yfir höfuð fjölskyldu sinnar.  

Þá liggur beinast við að spyrja hvað flokkurinn hefur framkvæmt til að vinna framgangi séreignarstefnunnar í húsnæðismálum frá síðasta landsfundi?

Ef fyrst er spurt um þetta á vettvangi sveitarstjórna á Höfuðborgarsvæðinu, þá er árangurinn harla lítill. Marktækur munur virðist heldur ekki vera frá því hvort flokkurinn er í stjórn eða ´minnihluta.

Á vettvangi ríkisins er svarið sama. Þar hefur ekkert miðað heldur ef frá er talin viðleitni Eyglóar Harðardóttur þar sem óafgreitt frumvarp hennar um húsnæðismál er, -mál sem engin sátt er um í sjónmáli. 

Nema að hér hafa orðið stjórnarskipti og allt umhverfið er orðið bjartara. Framkvæmdir hafa aukist en verðbólgumyndandi kjarasamningar hafa verið gerðir og dýrtíð er að hraðvaxa. Matarkarfa sem kostaði átta þúsund krónur í Bónus á síðasta ári er komin í ellefu þúsund núna.(Heimild: Hlerað samtal tveggja hagsýnna húsmæðra í Sundlaugunum í Laugardal fyrir viku)Ekki greiðir þetta fyrir lausn húsnæðismála svo mikið er víst nema atvinna hafi aukist verulega.

Vörugjöld hafa verið lækkuð sem hefur lækkað mörg heimilistæki í verði. Matarskattur hefur verið hækkaður en efsta þrep í virðisaukaskatti lækkað um nærri sex prósent, úr 25.5 í 24%. Tekjuskattur hefur verið lækkaður og fleira smálegt.

Þetta eru hænufet í rétta átt en meira þarf að koma til. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í október þarf að taka af skarið og setja fram knallharðar tillögur sem miða í þá hátt að greiða fyrir séreignarstefnunni í húsnæðismálum.

 

 


Afglæpavæðing

vændis er á dagskrá Amnesty International í Dublin í dag.

Það er svo, að ýmislegt sem menn banna með lögum, fer undir yfirborðið og lifir þar góðu lífi. Dæmi eru hin sprenghlægilegu afskipti íslenskra yfirvalda af síðunum deildu og Piratebay. Skyldu þau halda að bannið hafi haft áhrif á miðlun efnis? 

Þegar vændi var glæpavætt í Svíþjóð og hérlendis þá eru þar á bak við velmeinandi konur sem vita upp á hár að konur séu aldrei nema neyddar í vændi af reyfurum sem venji þær fyrst á dóp og brennivín til að gera þær auðsveipar. Þessar frómu konur virðast ekki vita að vændi er lögleg atvinnugrein víða um heim og mjög arðbær. Í þeim löndum er opinbert eftirlit með starfsfólki sem nýtur opinberrar verndar eins og aðrir þegnar.

Allt sem er arðbært dregur að sér hæfileikafólk eins og allir vita. Löglegi vændisiðnaðurinn veltir hrikalegum upphæðum og margt slungið viðskiptafólk hefur efnast gríðarlega. 

Vændi hefur verið nefnd elsta atvinnugrein mannkyns.Eiturlyfjaverslun er líka eldgömul atvinnugrein. Íslendingum finnst hún sjálfsögð tekjulind ríkisins þegar tóbak og brennivín á í hlut. Hass, vændi og fleira góðgæti er hinsvegar glæpavætt og því fer sem fer. Starfsemin leitar í undirheima þar sem miður heiðarlegt fólk er á ferli. Allt verður þar hættulegra þar sem verndar lögreglu nýtur ekki við.

Mér finnst gleðilegt að Amnesty International er að átta sig á því, að afglæpavæðing vændis mun gera meira fyrir fleiri heldur en sú velmeinandi sérviskustarfsemi sem við þekkjum á sviðinu. Íslendingum er rétt að fylgjast með framvindu afglæpavæðingar vændis og hugsanlega fleiri þátta úti í hinum stóra heimi sem er kannski eilítið öðruvísi en sumir halda og prédika sem sannindi. 

 


Það sem er að

í íslensku samfélagi nú til dags, að það er búið að setja fjármagnið í efstu sæti mannvirðinga. Fólk sem starfar við útdeilingu fjármagns þykir sér misboðið ef það fær ekki álag á kaupið sitt. Engu fjárráði skal ráðið nema verðtryggingarelítan í lífeyrissjóðunum komi þar að. Fyrirferð þessara skrifstofumanna í atvinnulífinu er orðin stórskaðleg. þeir stjórna meirihluta af öllu atvinnulífi Íslands, sitja í stjórnum og ráðum og maka sína króka gagnkvæmt og allir fyrir einn.

Hversvegna þetta er orðið svona  getur enginn útskýrt fyrir mér. Hefur verið auglýst eftir tilboðum í þessi störf þegar fólkið krefst bónusa? Getur verið að þeir menn séu til sem getu líklega unnið þau án þess að fá sérstaklega borgað fyrir að vinna vinnuna sína?

Af hverju er þessi takmarkalausa virðing borin fyrir peningum en helst engin fyrir mannlegri reisn? Og fátækt er ekki mannleg né ásættanleg reisn í því íslensku þjóðfélagi sem við meirihlutinn viljum byggja en ráðandi minnihlutinn vill laga að sínum sérþörfum fjölmenningarinnar.

Þjóðfélagið snýst allt um hagsmuni fjármagnsins og flóttamanna og hælisleitenda. Það eru hagsmunir banka lífeyrissjóða að verðtrygging sé á öllum fjárskuldbindingum, það eru hagsmunir lífeyrissjóða að iðgjöld til þeirra verði hækkuð í 15.5 %. Það eru hagsmunir banka að hafa óverðtryggða vexti svo háa að enginn með normaltekjur geti tekið lán sem einhverju skipta.

Það eru hagsmunir banka og stjórnmálaflokka að stórir verktakar einir fái lóðir svo þeir geti selt íbúðir á 600.000 kr/m2 án þess að nokkur samkeppni ríki á markaðnum. Það er þó ekki lögmál að ávöxtun fjár í lífeyrissjóði skuli vera minnst 3.5 % heldur misvitur eldgömul tilskipun. Það er ekkert sem bannar að lána manni einu sinni á 0% vöxtum með verðtryggingu til húsbyggingar.

Það eru ekki hagsmunir fólksins að byggingarreglugerðir setji íþyngjandi kröfur til bygginga sem stórhækka byggingakostnað. Það eru ekki hagsmunir fólksins að sveitarstjórnir gefi ekki leyfi til að byggja gámahús eða ódýr timburhús á lóðum sem eru seldar þannig að fyrsta útborgun komi 6 mánuðum eftir að húseigandinn er fluttur inn. Það eru ekki hagsmunir fólksins að byggð séu eingöngu fallbyssuheld steinsteypuvirki með öllu því besta fáanlega í stað ódýrs húsnæðis þar sem fólk getur búið út af fyrir sig. 

Þessir sjúkdómar er sérlega áberandi á höfuðborgarsvæðinu. Betra ástand er víða á landsbyggðinni hvað varðar lóðamál, sem leiða til lægri framkvæmdakostnaðar þegar allir geta fengið lóð við sitt hæfi. Hótel Mamma er ekki í sama eftirspurnarklassa þar og hér.

Ungt fólk stenst ekki greiðslumat íbúðalánasjóðs né banka við þessar aðstæður hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefðum við hin eldri heldur ekki gert á okkar tíð. Ungt fólk getur allt sem það vill með bjartsýninni ef ekki eru trénaðir embættismenn sífellt til staðar til að hindra það með úreltum paragröffum.

Nú er að koma inn á lífeyrismarkaðinn fólk sem missti allt sitt í hruninu eða þar áður. Á ekki neitt nema eitraða kennitölu sem fær hvergi vinnu og heilsuleysi og skert þrek til viðbótar.Ekki batnar ástandið við það. Of lífeyrisréttindi erfast ekki sem leiðir til enn verra ástands.

Svo er það unga fólkið okkar  sem stenst ekki greiðslumat og á ekkert heldur. Öllum virðist sama um þetta fólk nema prumphænsnum í leit að ódýru þingsæti. Skiljanlegt er að unga fólkið vilji ekki búa í svona vonleysisþjóðfélagi fyrir meðaljóninn þar sem engin framtíð er sjáanleg vegna óleysanlegra húsnæðismála og peninga-og verðtryggingartilbeiðslu.

Þau stjórnmálaöfl sem ætla að hunsa þessar grafalvarlegu staðreyndir skulu ekki verða hissa þó að gamlir fylgismenn þeirra nenni ekki lengur að kyssa á rass þeirra og leit á önnur mið.

Lífeyrissjóðir landsmanna hafa brugðist fólkinu að verulegu leyti. Lífeyrissjóðirnir eru víða komnir undir stjórn fjárplógsafla sem eru löngu hætt að bera hagsmuni eigendanna fyrir brjósti.

Tilgangslaust áframhald slita og skilanefnda í sjálftöku fjár án hirðis fer í taugarnar á fólki í stað einfalds gjaldþrots að lögum. Fíflagangur einnar slíkrar kostaði milljarð út um gluggann í töpuðu máli Glitnis í New York. Var einhver gerður ábyrgur fyrir því? Nei, skilanefndin situr enn og treður í gúlana.

Fiskiveiðistjórnarkerfið er varið af málaliðum sem segja það best í heimi. Fólkið er þessu ósammála, hversu margar greinar Hannes skrifar. Fólkið vill breytingar. Ef þær fást ekki með góðu þá verða þær sóttar með illu. En að það lafi meðan ég lifi hugsa sumir í pólitíkinni eins og Loðvík 15. Því væri nær að reyna að stýra breytingum skynsamlega en að berja bara hausnum við grjótið.

Einhverjir ráðamenn hafa ákveðið að fara í stríð við Rússa. Ekki af því að þeir hafi skemmt okkur með hernaði í Úkraínu. Nei, vegna þess að Þjóðverjar og Frakkar segja okkur að gera það í gegn um ESB. Sem sjálfir skrúfa ekki fyrir kaup sín á gasi frá Rússlandi á meðan þeim er sama um að makrílsalan og ferðamannaiðnaðurinn hjá Íslendingum fari í rúst. Ætlum við bara að þegja þetta í hel? Ættum við ekki frekar að, rísa upp og segja hingað og ekki lengra?

Þetta er meðal annars það sem er að í íslensku þjóðfélagi samtímans.

 

 


Aftaníossar ESB

erum við Íslendingar eina ferðina enn. Líklega kostar þessi túr í "teikinu" okkur 40 milljarða þetta árið þegar makríllinn okkar fer ekki til Rússíá. 

Miklir veraldar vesalingar eru þeir stjórnmálamenn íslenzkir sem stýra okkur inn i þessa vegferð. Eru þeir ekki með opin augun fyrir hvað er þjóðarhagur og hvað er ekki þjóðarhagur? Ég skil að alikratar eins og Össur og Árni Páll setji hagsmunagæslu ESB ofar íslenskum hagsmunum, ég veit ekki einu sinni hvort Jón Baldvin myndi telja sér samboðið að skrifa upp á vitleysuna með þeim?

Gunnar Bragi ætti að reyna að ná okkur út úr þessari vitleysu með því að heimsækja Pútín sjálfur og tala við hann eins og maður við mann af skynsemi. Alveg án þess að tala við fyrrnefnda krata eða þingkellingarnar í Bjartri Framtíð fyrst, og það áður en enn meiri flón verða kosnir á Alþingi Íslendinga eins og í stefnir skv. skoðanakönnunum að minnsta kosti, sem geta svo sem eins verið á sinn veg vegna kaldhæðni aðspurðra Íslendinga. Vonandi er það svo því annars eru horfur ekki bjartar.

Svo legg ég enn til að allt EES regluverkið verði skoðað upp á nýtt. Og stjórnvöld fari að hafa kjark til að skilja hismið frá kjörnunum eins og allar aðrar Evrópuþjóðir gera, sem túlka margt eftir því sem þeim passar sjálfum hverju sinni, samanber Danir, Ungverjar og Austurríkismenn.

Og svo Schengen bullið sem ekkert hefur fært okkur annað en tjón, erfiðleika og umstang. Allir venjulegir Íslendingar þurfa að hafa passa hvort eð er. Vegabréfasamband við Norðurlönd hefur aldrei verið neins virði hvort sem er.Og fleiri hælisleitendur eru ekki það sem okkur vantar mest. Við erum eyja eins og Stóra-Bretland og ættum að koma auga á þá staðreynd eins og þeir.

Íslenskir ráðamenn ættu að taka sig saman í andlitinu og fara að ganga uppréttir gagnvart ESB, EES og Schengen. Það er skömm að þessum undirlægju- og aftaníossa-hætti sem þeir stunda.


Umhverfismat

hinnar félagslegu Hellisheiðarvirkjunar segir víst að brennisteinsútblástur frá virkjuninni kunni að aukast tímabundið.

Ekki kann ég skil á því hvað er átt við með skilgreiningunni. Ég sé hinsvegar hvernig háspennumöstrin nálægt virkjuninni fara. Og þá þýðir nálægt vegalengdin til Hveragerðis.

Gömlu möstrin eru orðin kolryðguð. Það er auðvitað ekki neitt af völdum virkjunarinnar að raftæki í Reykjavík bila meira í Árbæ en vestar.

Engum virðist detta í hug að þetta geti verið óhollt fyrir lungu kjósenda Borgarstjórnarmeirihlutans. Hávaðinn og hættan frá Flugvellinum er líklega miklu alvarlegri. Fjölgun vindmylla er til dæmis svo alvarlegt mál, að skipulagsyfirvöld standa eiginlega ráðþrota. Mér hefur dottið í hug að sækja um vindmylluleyfi á Hellisheiði svona bara til þess að sjá hvernig yfirvöldin myndu bregðast við.

Ætli einkaaðilar yrðu ekki spurðir út í svona hluti eins og mengun ættu þeir virkjunina? Heimtað nýtt umhverfismat eða svoleiðis?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 3418381

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband