Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Ungur maður

Þórður Birgisson smábátasjómaður er líklega hvorki HIPP né COOL. Hann skrifar um sín kvótalausu útgerðarmál í Mogga. Píratakjósendur ættu eiginlega að lesa þessa þanka manns sem er staðráðinn í að bjarga sér.

Þórður skrifar:(Bloggari feitletrar)

"Stjórnmálaflokkar keppast allir sem einn í aðdraganda kosninga um atkvæði okkar landsmanna. Margir þeirra eru með á stefnuskrá sinni svokallaða uppboðsleið. Margir eru sammála, aðrir á móti en hvernig getur fólk og félög verið sammála eða á móti, það er enginn rökstuðningur og endanleg útfærsla á uppboðsleiðinni hjá neinu einasta framboði.

Þetta er ekkert öðruvísi en að ég færi á sjó að reyndi að fiska með trolli en hefði pokann opinn, jú, það festast kannski einhverjir fiskar í trollinu en flestir fara bara í gegn. Hvernig fer fyrir svoleiðis útgerð? Hún fer á hausinn.

Einhverjir hafa minnst á Færeyinga, það er þeirra aðferð og komið með dæmi um að 66 kr./kg hafi fengist fyrir kg af makríl. Frábært ef þeir eru til í það, en hér á landi var verið að borga 60-70 kr./kg upp úr sjó til útgerða, auk þess að borga veiðigjöld. Hvernig á það að geta gengið upp?

Talið um þessa uppboðsleið með einhverjum vitrænum hætti og hættið öllum þessu stóru fyrirsögnum sem þið vitið að þið getið ekki staðið við.

Flestir stjórnmálaflokkar hamra á að veiðigjöld hafi lækkað, jú krónulega séð hafa þau gert það, en sem hlutfall af verðmæti? Eru menn til í að ræða það? Nei, það hentar ekki þeirra málflutningi.

Sjávarútvegur er á þeim stað í bókinni að ef kostnaður í landi hækkar, t.d. laun, þurfa fiskverkendur að lækka fiskverð og að sama skapi þurfa þeir sem selja þjónustu að hækka hana.

Fiskverð hefur lækkað mjög mikið og eru veiðigjöld reiknuð út frá afurðarverði og því lækka þau milli ára, ef afurðarverð hefði nú hækkað væri staðan önnur og flest rök fyrir uppboðsleið stjórnmálaflokkana fallin.

Svo er ein stór spurning: Af hverju á sjávarútvegur einn atvinnugreina að borga auðlindagjöld?

Er það af því að nokkur fyrirtæki í sjávarútvegi skila miklum gróða sem er útblásinn af fjölmiðlum? Hvað um öll hin fyrirtækin sem eiga erfitt þessa dagana vegna lækkandi fiskverðs og hækkandi kostnaðar?

Sem dæmi eru rúmlega 900 smábátar á landinu, sumir eiga eitthvað af kvóta, margir ekkert, ekkert þeirra fyrirtækja sem að baki þeim stendur er að skila miklum hagnaði ef nokkrum.

Samt tala allir stjórnmálaflokkar út frá þessum fáu sem skila þessum mikla gróða. Það er bara ekki sanngjarnt gagnvart neinum að setja alla undir sama hatt í þessu málum. Sjávarútvegurinn er búinn að greiða 38 milljarða í auðlindagjöld á síðustu fjórum árum, hvað hafa hinar greinarnar borgað?

Ég er með kvótalausa útgerð og ætti eflaust að líta jákvætt á möguleika að fá ódýrari kvóta en ég þarf að leigja á í dag, en ég get ekki stutt neinn ef þessum flokkum á meðan trollið er galopið og engin endanleg lausn á því hvernig á að útfæra uppboðsleiðina.

Að vera með þetta svona galopið kallar bara á óbreytt ástand, maður veit þó hvernig núverandi kerfi er, ég veit ekkert hvernig öll hin kerfin eiga að líta út ef einhver af þessum flokkum nær sínu fram.

Því ætla ég að kasta fram þessum spurningum til framboðana.

Hvernig ætlið þið að útfæra og framkvæma ykkar hugmyndir um uppboðsleið?

Hvernig ætlið þið að tryggja það að allir sitji við sama borð og hafi sömu möguleika á að fá kvóta?

Finnst ykkur að sjávarútvegurinn eigi einn atvinnugreina að borga auðlindagjöld?

Og að lokum, finnst ykkur framkvæmd veiðigjalda eins og hún er í dag eðlileg, það er að greitt er fyrir það sem landað er en ekki fyrir úthlutað aflamark, sem þýðir að kvótalausir borga veiðigjöld fyrir þá sem fengu úthlutað?

Þessi ungi maður er ekki að föndra í leður eða lepja Latte á öldurhúsum í 101 á félagslegum grunni á Lánasjóði.

Sem betur fer eru til svona ungir Íslendingar ennþá.

 


Guðni góður

í Mogga í morgun. 

Glöggur að vanda skrifar hann svo:( Bloggari feitletrar að vild)

"Afrek og árangur í efnahagsmálunum eru sjaldnast sett á oddinn í stjórnmálaumræðunni, ekki heldur á heimilum og vinnustöðunum fyrir kosningar. En nú erum við að ganga til kosninga sem ættu bara að snúast um eitt: hvernig tekst til að bæta lífskjörin áfram næstu árin og hvaða ávinning hefur efnahagslífið fært þjóðinni. Eða ætlum við að taka kollsteypu vegna þess að stjórnmálamennirnir eru sundraðir og lenda í átökum og við tekur margflokka ríkisstjórn og klofningur?

Við þekkjum söguna og sundurlyndið svo ekki sé talað um verðbólguna og átökin þegar ríkisstjórn er skipuð mörgum flokkum og sitt sýnist hverjum. Það blandast engum hugur um að sú ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem verið hefur við stýrið síðustu þrjú árin er langt komin með að leiða þjóðina inn á græna velli tækifæranna.

Og að sögn færustu efnahagssérfræðinga, bæði innlendra og erlenda, eru ár hagsældar fram undan næstu 5-7 árin verði engar æfingar og kollsteypur ástundaðar af stjórnmálamönnunum.

Píratarnir bjóða okkur í óvissuferð

Nú bjóða Píratar okkur og öllum stjórnarandstöðuflokkunum í óvissuferð, að hér taki við á viðkvæmum tímum fimm flokka ríkisstjórn, en það væri nú nýtt að svo margir flokkar mynduðu ríkisstjórnina. Og svo virðist að báðir gamalgrónu flokkarnir á vinstri vængnum, þ.e. Samfylking og Vinstri græn, taki þessu frumkvæði Píratanna fagnandi.

Mikið lifandis skelfingar ósköp er ég farinn að sakna Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins. Við kjósendur verðum að spyrja: viljum við að þessi tilraun verði gerð? Við ráðum því með atkvæði okkar hvort Rauða rútan fær fararleyfi. Eitt er víst, að stærstu stefnumál þessara flokka allra snúast ekki um efnahagslegan stöðugleika heldur draumkenndar byltingar, bæði í atvinnulífinu og hvað t.d. landbúnað og sjávarútveg varðar.

Hvað segja bændur og fólkið í sjávarþorpunum um þá óvissu sem því er boðið upp á í umræðunni? Viðreisn blessuð varð til utan um áframhaldandi deilur um aðild að ESB og að reyna að koma krónunni fyrir kattarnef, þarna róa líka Samfylking og Píratarnir sem eiga sér sérstakan áhuga að auki að berjast gegn og breyta stjórnarskránni.

Í bakvarðarsveit athafnamannsins Benedikts Jóhannessonar og Viðreisnar fer „elíta“ lífeyrissjóðanna með Helga Magnússon og fleiri sem eiga sér draum um evru og inngöngu í ESB, sem fæstir telja nú raunhæft og margir fáránlega umræðu miðað við þróun evrunnar og stöðuna í Evrópusambandinu.

Árangurinn á kjörtímabilinu er öllum augljós

Rifjum nú upp stöðuna og styrkleikann í efnahagsstjórninni á kjörtímabilinu:

í fyrsta lagi er hagvöxtur hér meiri en í nokkru öðru vestrænu ríki, verðbólga er í sögulegu lágmarki, kaupmáttur hefur aukist verulega og með þeim hætti að á þessu ári hefur aukinn kaupmáttur bætt einum mánuði til viðbótar í launaumslagið.

Atvinnuleysið heyrir nánast sögunni til á ný og Íslendingar sem flúðu til útlanda í kreppunni eru komnir heim eða eru á leiðinni heim. Staða heimilanna er með þeim hætti eftir skuldaleiðréttinguna að þau eru betur stödd skuldalega en fyrir aldamót.

Losun fjármagnshafta var gerð með þeim hætti að ríkissjóður hefur ekki verið svo vel staddur í áratugi, hundruð milljarða komu í hlut ríkisins.

Svo vel tókst t.d. til í kjaramálum læknanna að sú umræða heyrist ekki lengur að þeir vilji ekki vinna hér og markvisst hefur heilbrigðiskerfið verið styrkt og nemur það nú 40 milljörðum á ári og vilji er og þörf að gera betur.

Brýnasta málið nú er að keyra raunvextina niður, þeir eru óraunhæfir, alltof háir og endurspegla ekki það sem gerst hefur í efnahagsmálunum. Gróði bankakerfisins segir okkur þá sögu að nú sé brýnt að lækka raunvextina verulega eins og Framsóknarflokkurinn boðaði í peningastefnunni nú á fundi þeirra Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra og Lilju Daggar Alfreðsdóttur utanríkisráðherra þar sem þau kynntu stærstu atriði og áherslur flokksins í kosningunum.

Við skulum öll setjast niður og hugsa hvaða flokkar eru nú líklegastir til að verja hag launþega og heimilanna verði þeir í ríkisstjórn næsta kjörtímabil. Kosningar snúast um lífskjör og staðfestu, þú velur og þú berð ábyrgð á framtíðinni með atkvæði þínu."

Mér hefur svarað það unga fólk sem hvað það sjái við framboð Pírata?

Þeir eru bara HIPP & COOL.

Spáið þið eitthvað í verðbólgu, gengi, verðlag? Nei, okkur varðar ekkert um það því það snertir okkur ekki neitt.

Þá bara höfum við það. Það þýðir ekkert fyrir Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn að spyrja af hverju unga fólkið kjósi þá ekki? Þeir eru bara gamaldags og lummó en ekki hipp og cool.

 

Evrópusambandið skiptir ekki máli því unga fólkinu er slétt sama um hvort við erum utan eða innan. Það hefur enga skoðun á svoleiðis aukaatriðum. 

Svo unga fólkið ræður för.Við verðum bara að sætta okkur við það. Birgitta er hipp og cool en ekki við gamlingjarnir.

Guðni er samt nógu góður fyrir okkur gamlingjana sem erum að spekúlera í smáatriðunum.


Lífeyrissjóðir greiði ríkinu

 

Sr. Halldór í Holti skrifar góða grein í Fréttablaðið um málefni lífeyrissjóðanna. Þar segir m.a.:

"... Árið 1969 var komið á 12% skylduframlagi af launum á greiðslu til lífeyrissjóða frá launþegum og atvinnurekendum.

Fram til 1988 var greiddur skattur til ríkis og sveitarfélaga af þessu framlagi. Það ár var lögum breytt í þá veru að iðgjaldið var undanþegið skatti, en greiðsla sem samsvaraði skatti af iðgjaldinu var innt af hendi til lífeyrissjóðanna.

Launþeginn skyldi því greiða skatt af útgreiðslu lífeyris frá lífeyrissjóði þegar hann fengi greiðsluna. Með þessari breytingu eru margir lífeyrisþegar í dag að greiða skatt í annað sinn af sama gjaldstofni, sem er ólöglegt.

Inneign lífeyrissjóða í dag er a.m.k. 3.500 milljarðar, þannig að ríkissjóður á í ógreiddum skatti hjá lífeyrissjóðunum að lágmarki 800 milljarða og sveitarfélög 130 milljarða. Útreikning má sjá á flokkurfolksins.is.

Um leið og þessir fjármunir væru innkallaðir, myndu lífeyrissjóðir greiða út hlut lífeyrisþega án skatts. Í framhaldi myndu launþegar og atvinnurekendur greiða skatt til ríkis og sveitarfélaga af framlagi sínu til lífeyrissjóða og myndi muna verulega um þá fjármuni til ríkisjóðs. Flokkur fólksins vill breyta þessu, spara rekstur á um 30 lífeyrissjóðum sem kostar í dag 10 milljarða á ári, með því að stofna einn deildaskiptan sjóð, tengdan almannatryggingum, sem tryggi lágmarks framfærslu og einnig hlutfallslegan eignarétt þeirra einstaklinga, sem í hann hafa greitt.

Þetta er ekki tillaga um ölmusu til að vinna hylli fjöldans með rangfærslu...", .".. Þetta er tillaga um fjármögnun til að rétta við öll stoðkerfi þjóðarinnar sem eru að hruni komin, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngurnar, löggæsluna og til að tryggja lágmarksframfærslu, hækkun á lægstu launum og afnema verðtryggingu á neytendalánum, þannig að ungt fólk geti eignast heimili."

Það er margt vitlausara en þetta sem heyrist frá þessum örflokkum  sem aldrei munu komast á þing fyrir blaðurskjóðunum í vinstri flokkunum sem hræra sömu delluna upp aftur og aftur án nokkurs tilgangs fyrir einn eða neinn. Oddný, Birgitta, Benedikt, Katrín og hvað þær heita allar þessar tilgangslausu slagorðaskjóður.

Ríkið á ekki að horfa upp á þessa lífeyrissjóðabubba sem enginn kaus gambla áfram með sitt fé.

Lífeyrissjóðir eiga að borga skattinn sem þeir skulda.

 

.


Steingrím fyrir Landsdóm

Svo skrifaði Hannes Hólmsteinn 1.5.2013:

"Kristján Vigfússon benti á mjög athyglisverðar staðreyndir í nýlegum pistli á Pressunni:

„Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi í byrjun október 2008 fimm hundruð milljónir evra eins og mikið hefur verið fjallað um. Sem tryggingu fyrir endurgreiðslu tók Seðlabankinn veð í öllum hlutabréfum í FIH sem var með eigið fé upp á tæplega 1.100 milljónir evra samkvæmt uppgjöri bankans 30. september 2008.

Á síðastliðnu ári var FIH seldur og fullyrt er að endurheimtur Seðlabankans verði einungis u.þ.b. 250 milljónir evra, þrátt fyrir að bankinn hafi eigið fé yfir 735 milljónir evra samkvæmt ársuppgjöri fyrir árið 2012 og gert sé ráð fyrir góðri afkomu FIH á þessu ári samkvæmt stjórnendum bankans.

Hvað réði því að Seðlabankinn samþykkti sölu á FIH á brunaútsölu og tapaði með sölunni 250 milljónum evra af gjaldeyrisforða þjóðarinnar?

Hvað réði því að Seðlabankinn ákvað að selja FIH og taka við sem andvirði sölunnar hlutabréfi í skartgripasala í stað reiðufjár?

Getur verið að danska ríkið hafi sett Seðlabanka Íslands afarkosti og þvingað fram sölu? Kaupendur bankans voru danskir lífeyrissjóðir sem virðast hafa þrefaldað virði eignar sinnar við kaupin. Íslenska þjóðin sem eigandi Seðlabanka Íslands á heimtingu á að fá að vita hver er ástæða þess að stjórnendur Seðlabankans ákváðu að selja FIH á brunaútsölu.

Það er ennfremur athyglisvert að setja þetta mál í samhengi við stöðu íslenska ríkisins gagnvart kröfuhöfum í þrotabú gömlu íslensku bankanna sem eru þvert á fyrri spár rík að eignum. Heildarverðmæti eigna Glitnis og Kaupþings samkvæmt nýjustu uppgjörum þeirra eru 1.795 milljarðar íslenskra króna.

Ef íslenska ríkið hagaði sér með sambærilegum hætti og dönsk stjórnvöld gerðu í FIH-málinu þá myndi það þýða að íslenska ríkið bæri úr býtum um 1.200 milljarða íslenskra króna en kröfuhafar um 600 milljarða. Þessi niðurstaða þýddi að íslenska ríkið gæti greitt upp skuldir ríkissjóðs, snjóhengjan væri úr sögunni og einfalt mál yrði að aflétta gjaldeyrishöftunum.“

Þetta er fjármálahneyksli, sem þarf að rannsaka og fá skýringar á. Nýleg sala FIH-bankans sýnir, að núverandi yfirmenn Seðlabankans virðast ekki vera færir um að gæta hagsmuna Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum (eins og þeir sýndu raunar með afskiptum sínum af Icesave-málinu og töku hins óþarfa láns með okurvöxtum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum)."

Hvað er verið að elta smákrimma fyrir skíterí með lögfræðingaher á kostnað ríkisins þegar Steingrímur J. Sigfússon virðist hafa misfarið svona hroðalega með almannafé eins og þessi lýsing segir?

Af hverju er Geir H. Haarde stefnt fyrir Landsdóm af því að hann gat ekki taklað um nein leyndarmál á ríkisstjórnafundum vegna lekabyttu sem þar var inni? Hann var sektaður um hundraðþúsund kall af Markúsi hæstaréttar til þess að hann gæti ekki áfrýjað neitt.

Svei og aftur svei sem þetta gerðu og að þessu stóðu. Einn af þeim ákærði Geir með sorg í hjarta og líklega með kródílstár á hvörmum.

En svona til jafnræðis þá finnst manni ástæða til að Steingrímur J. Sigfússon svari fyrir gerðir sínar fyrir Landsdómi úr því að Geir þurfti að gera það. 

 


Úllen dúllen doff!

kirkelani koff , eða einhvernveginn var þetta þegar verið var að taka slembiúrtak í leikjunum í den.

Ég var að hlusta á frambjóðendur frá einum sjö listum í SV koma með gáfulegar uppástungur hvernig þeir ætli að lækka vexti og byggja leiguíbúðir með lágri leigu fyrir almenning eða námsmenn, gefa öllum þrjár millur fyrir útborgun,  losna við verðtrygginguna, stofna myntráð, binda krónuna við mynt sem hún hefur verið að skjóta aftur fyrir sig í verðmæti, halda áfram aðildarviðræðum við Evrópubandalagið og ganga svo í það, útvega lán á evrópskum vöxtum og Guð veit hvað ekki.

Hvernig halda menn að hægt sé að koma saman ríkisstjórn útá svona snjallræði einstakra óskyldra manna? Smáflokkagerið er eiginlega gersamlega vonlaust fyrir margt fólk að aðgreina eða hlusta á. Hver lofaði þessu, hver lofaði hinu? Ruglast enginn við hlustunina?

Svo til hvers er verið að þessu? Skemmta okkur áheyrendum? Þyrfti ekki að hækka kröfurnar til þeirra flokka sem vilja bjóða fram. Landsfundir í framboðssal eru varla boðlegir.

Menn tala drjúgt um lán til húsnæðiskaupa á evrópskum vöxtum. En banna lántökur í erlendri mynt með lágum vöxtum? Sé gengið stöðugt þá er slíkt lán gott. Ef gengið fellur er komið 2008 aftur og lánið vont.

Enginn minnist á sparnað. Hvernig á að geyma peninga? Útlendingur getur keypt hér hús og komið með útlend lán með sér. Húsið hækkar i verði sé það í 101. Hann bara gerir það ekki. kannski eru vextir ekki eins lágir í útlöndum og margir segja. Mér var sagt að yfirdráttur í Deutsche kostaði svona 10-20 % vexti eftir ýmsu.

Árið 2007 gátu menn fengið l10 % lán til húsakaupa í erlendri mynt eða íslenskri. Flott hús með RangeRover í skúrnum. Allt að láni og ekkert út. Gott meðan það entist.

Nú er eiginlega eins konar "Gettu Betur" í gangi í pólitíkinni. Hver kemur með mestu snjallræðin? Kjósum hann en ekki hinn. Alveg án þess að spá í hvort eitthvað sé á bak við hugmyndasmiðinn, hvort hann sé líklegur til að efna eitthvað.Því í tiilvikum er hann búinn að útiloka þá sem honum þóknist ekki að starfa með eftir kosningar. 

Það verður skrautlegt að fylgjast með framvindunni eftir kosningarnar.

Úllen dúllen doff!


Kjarabætur eldri borgara

"Miklar úrbætur á kjörum ellilífeyrisþega eru framundan með breytingum á lögum um almannatryggingar.

Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, segir að þetta séu mestu kjarabætur sem eldri borgarar hafa fengið í áraraðir.

Allir njóti frítekjumarks óháð tekjum, bótaflokkar séu sameinaðir og króna á móti krónu skerðingin afnumin. Almannatryggingakerfi eldri borgara verði einfaldara, réttlátara og gagnsærra"

Svo segir í SES-blaðinu sem segir frá fundi Bjarna með eldri Sjálfstæðismönnum í vikunni sem leið.

Bjarni sýndi dæmi með útreikningi sem sýna raunverulegu áhrif lagabreytinga sem ríkisstjórnin fékk samþykkt sem lög á Alþingi fyrir þinglok. Auðvitað hafa komið fram raddir sem finna þessu allt til foráttu. En allt um það þá liggja þessi dæmi á borðinu.

dæmi1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dæmi2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dæmi -3

 

 

 

 

 

 

 

 

Eru þeir til sem eru svo talnafróðir að segja þetta staðlausa stafi?

Eftir þessum opinberu dæmum þá stendur svart á hvítu að kjör eldri borgara munu batna vegna aðgerða Sjálfstæðisflokksins.

Búast menn við að þetta fái að vera í friði eftir kosningar? Hvað var fyrsta verk Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra VG í vinstri stjórnarninni árið 2009?

Björgvin Guðmundsson myndi vera  með það á hreinu að minnsta kosti og líklega margir fleiri.

Hverjir meðal aldraðra vilja eiga náttstað undir exi Steingríms J. Sigfússonar og flokks hans Vinstri Grænna?

 


Kjósendur hugsa?

Er kjósendurnir fólkið í landinu sem fylgist með þjóðmálum eða eru kjósendurnir fólk sem eru að leita að einhverjum sem lofa því að færa þeim eitthvað betra en þeir hafa í dag? Trúa þeir öllu sem að þeim er rétt og klappa fyrir því?  Hafa þeir einhverja eða enga reynslu af kosningaloforðum?

Óli Björn segir eftirfarandi í Mbl.um þessa svokölluðu kosningabaráttu sem nú stendur sem hæst:

"..„Hvað ætlar þú að gera fyrir mig – fyrir okkur?“ gæti verið yfirskrift fjölmargra funda sem hagsmunasamtök af ýmsu tagi boða til með frambjóðendum stjórnmálaflokkanna. Í aðdraganda kosninga geta hagsmunasamtök varla látið tækifærið framhjá sér fara.

Boðið er til eins konar uppboðsmarkaðar kosningaloforða. Frambjóðendum er stillt upp við vegg.

Þeir sem lofa mestu fá lófaklapp og hvatningu.

Detti einhverjum frambjóðenda í hug að spara loforðin mætir honum fáskiptinn og jafnvel kuldalegur fundarsalur..."

Finnst engum þetta hálf-broslegt? Samt heldur lífið áfram eftir kosningar. Við lifðum af síðustu vinstri stjórn. Lifum við ekki næstu stjórn af líka?

"-„Ég myndi ekki nýta tækifærið til að lækka skatta,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurð um hvernig nýta má afgang af ríkisfjármálum á næstu árum.-"

 

"-Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, tók undir með Katrínu og bætti við mikilvægi þess að settur yrði á stóreignaskattur og sóttar væru beinar tekjur af auðlindum landsins.-"

"-Smári McCarthy, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, töluðu báðir fyrir auknum ríkisútgjöldum. Óttarr sagði jafnframt að skattalækkun væri kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð..-"

"-„Staðreyndin er sú að við þurfum kannski einhvers konar blöndu af auknum innviðafjárfestingum, lækkun skulda og skatta,“ sagði Óttarr.-"

"-„Skattar á Íslandi eru of háir á allan alþjóðlegan mælikvarða. Það verður að lækka skatta að nýju en við megum ekki ganga öfganna á milli, þ.e. lækka þá mikið í hægristjórnum og hækka þá mikið í vinstristjórnum. Við þurfum stöðugleika í skattkerfinu,“ sagði Þorsteinn.-"

 

"-Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, var ósammála Lilju og sagði mikilvægt að klára aðildarviðræður við ESB. „Ég vil að við spyrjum þjóðina hvort við eigum að halda viðræðunum áfram eða ekki,“ sagði Oddný en sjálf telur hún að innganga í Evrópusambandið og upptaka evrunnar sé stærsta kjaramálið fyrir heimilin í landinu.-"

"-Þorsteinn Víglundsson, frambjóðandi Viðreisnar, svaraði Bjarna og sagði málið snúast um þann samning sem fengist í viðræðum við ESB en hann leggur áherslu á tvöfalda kosningu. Annars vegar að kosið verði um aðildarviðræður og svo um þann samning sem liggur á borðinu eftir viðræður.-"

Hversu margir klappenda halda að þetta gangi endilega eftir bara ef fólk kýs þetta fólk svona í bríaríi?

Er ESB yfirleitt til viðræðu um aðild Íslands eða ekki? Vill þjóðin fara í ESB? Það er eins og það skipti engu máli?

Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera í stjórn síðasta kjörtímabil. Atvinnuleysi á Íslandi er rúm 2 % meðan það er 10 % í Evrópusambandinu og miklu meira í mörgum löndum og sér í lagi ungs fólks.

Bjarni Benediktsson segir við sama tækifæri  og ofangreindar tilvitnanir:

"-„Við ætlum að halda sköttum lágum og við munum lækka skatta eftir því sem aðstæður leyfa,“ sagði Bjarni og benti á að mótsögn væri fólgin í því hjá vinstriflokkunum að tala um að laða til landsins alþjóðlegar fjárfestingar og vel borgandi störf á sama tíma og þeir hefðu í hyggju að hækka skatta á þessa sömu aðila.-"

Hvað höfum við í dag? Stöðugt og lægra verðlag, lægri skatta, mikinn kaupmátt,of mikla atvinnu. Af hverju halda menn að allt breytist til batnaðar með því að fá eitthvað nýtt fólk í stjórnarráðið? Óskrifuð blöð? Nýja vendi sem sópa betur?

Birgitta, Óttarr, Þorsteinn, Smári,Oddný, eða Katrín Jakobs.

Hvað skyldu kjósendur annars vera að hugsa með sér?

 


Í Leirvogstungu

eru Íslendingar að byggja eins og þeir gerðu í gamla daga með lúkunum sínum sjálfir. Þar var hægt að fá lóðir á viðunandi verði af einhverjum ástæðum. 

Þar byggja fjölskyldur grunna, steypa sökkla, leggja skolp, fylla og steypa plötur. Ofan á byggja menn mest úr Loftorkueiningum eða Smellinn, enn aðrir staðsteypa eða byggja úr timbri þar sem þær geta unnið meira sjálfir.

Þarna er önnur hliðin á peningnum.

Hin hliðin er sú sem er í opinberu umræðunni. Þar situr fólk inn í Reykjavík og vælir um lóðaleysi og skort á óverðtryggðu lánsfé til að kaupa blokkaríbúðir af stórverktökum á 6-700.000 kr. / m2 eða þaðan af meira og lóðir kosta milljónir sem enginn á.

Dagur B. vælir um, skort á 5100 íbúðum en hann var áður búinn að lofa að byggja 3000 leiguíbúðir þó engin hafi risið. Hann hefur enn ekki gefið út á hvað hann ætlar að leigja fermetrann sem byggður er á framangreindum verðum.

Oddný býðst til að frelsa fólkið með því að skaffa því 3 milljónir í útborgun af ríkisfé til að kaupa íbúðir og flytja ur foreldrahúsum. Bara ef það kýs Samfylkinguna núna. Þetta er ókeypis af því að skattborgarar, ungir, aldnir, öryrkjar munu leggja peningana til. Þannig er kratisminn. Skattleggja og eyða. Einfaldara gerist það ekki.

Alls staðar er vælt og vælt yfir bara vandræðum. Dagur vælir, Oddný vælir, Katrín vælir, Birgitta vælir og Benedikt líka.

Alþjóðlegt kratavæl sem lýsir sér í því að horfa upp í ríkisrassinn og bíða eftir að eitthvað detti. Föndra í leður og stofna til listsýninga. Þvæla um jafnrétti og nauðsyn á meiri gæsku til að flytja inn fleiri hælisleitendur. Meiri ríkispeninga í þetta eða hitt. Fá styrki hjá ESB og meiri lán á lægri vöxtum.

Enginn talar um hvar sparandinn eigi að geyma peninginn sinn. Ekkert annað kemst að hjá þessu fóki sem stjórnar öllu pólitísku lífi þjóðarinnar en lán, lán og meiri lán. Lífeyrissjóðirnir fara til útlanda af því að enginn hérlendur getur lengur  borgað þeim 3.5 % og vexti ofan á það.

Farið upp í Leirvogstungu og rifjið upp gamla tíma, þið sem eruð yfir miðjum aldri, og segið svo unga fólkinu sögurnar frá því að þið voruð að basla og fluttuð inn á steininn í hurðarlaust í eldgamla daga.

 


Sjálfstæðisstefnan

 

"Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan sinn aldur verið sterkt og þróttmikið þjóðfélagsafl á Íslandi, þótt aðstaða hans til að koma fram hugmyndum sínum og stefnumálum hafi verið misjöfn.  Sterka stöðu flokksins með þjóðinni má að sjálfsögðu rekja til stefnu hans og hugsjóna flokksmanna fyrr eða síðar.  Vegna sjálfstæðisstefnunnar hafa fleiri Íslendingar dregist að Sjálfstæðisflokknum en nokkurri annarri stjórnmálahreyfingu á Íslandi.

Sameinast um sjálfstæðisstefnu

Sjálfstæðisflokkurinn verður til þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn eru sameinaðir  árið 1929. Þessir flokkar voru ekki gamlir og fastmótaðir og margt líkt með þeim.  Þó má segja að til hins nýja Sjálfstæðisflokks hafi annars vegar runnið öfl sem vildu koma ríkisfjármálum á traustan grunn, m.a. með varfærinni fjármálastjórn, sem ekki tæki úr hófi fram fyrir hendur hvers einstaklings. 

Engu að síður vildu þessir aðilar beita sér fyrir umbótum í þessu hrjóstruga landi og leysa landkosti þess úr læðingi með rafvæðingu sveita og ýmsum öðrum verklegum framförum.  Á hinn bóginn kom blóðgjöfin til þessa nýja flokks frá mönnum sem lögðu ekki síst áherslu á frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðernisvitund manna en ekki síður á frjálst framtak, frjálsa verslun og frelsi einstaklinganna.  Á stefnuskrá þeirra var jafnframt að tryggja afkomu þeirra, sem áttu undir högg að sækja í lífinu.  Auðvitað voru skilin ekki hrein og glögg milli þessara framsæknu afla sem þá  bundust böndum, en mismikill þungi var lagður á baráttumálin.  En víst er að þær hugsjónir sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk í sína vöggugjöf hafa dugað honum vel.  Þær speglast skýrt í hinni knöppu og kjarnyrtu stefnu flokksins, sem enn er oft vitnað til. 

Annars vegar var því lýst yfir, að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt, þegar skilyrði væru til þess skv. sambandslögunum. 

Hins vegar sagði, í stefnuyfirlýsingunni frá 1929, að flokkurinn ætlaði: „Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“

 

Sjálfstæðisstefnan og aðrar stjórnmálakenningar

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þeir flokkar, sem til voru í íslensku stjórnmálalífi á stofnári Sjálfstæðisflokksins, sóttu allir að meira eða minna leyti hugsjónir sínar og baráttumál til „móðurflokka“ eða stjórnmálakenninga erlendis.  Sjálfstæðisflokkurinn sker sig úr í þessu.  Tildrög hans og skírskotun til séríslenskra aðstæðna verða til þess, að hann fær óvenjulegan sess í íslensku flokkakerfi.  Hann vísar á bug þeim tilburðum sem aðrir flokkar hafa haft til þess að greina þjóðina í stéttir, sem ota megi hverri gegn annarri.  Félagshyggjuflokkarnir hafa jafnan haft uppi vígorð um hina eilífu stéttabaráttu, en svar Sjálfstæðisflokksins fékkst í kjörorðinu: „Stétt með stétt“.  Honum var ljóst, að fámennri þjóð gat ekki verið til góðs, að stéttirnar bárust á banaspjótum..

Auðvitað er sitthvað í stefnu flokksins eins og í afstöðu hans til dægurmála á  ýmsum tímum, sem átt hefur samnefnara í erlendum flokkum, og einstakar heimspeki- og stjórnmálakenningar hafa brugðið sínum blæ á stefnu hans.  En Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið gæfu til þess að skapa sér sinn eigin farveg og sérstöðu. Þess vegna finnst spegilmynd hans hvergi í nálægum löndum.  Flokkurinn gat því betur lagað sig að þeim breytingum, sem hið unga fullveldi og síðar lýðveldi tók.  Þurfti hann ekki að setja stefnu sína sífellt undir mælistiku alþjóðlegrar stjórnmálastefnu.  Má í þessu sambandi vitna til orða Birgis Kjaran hagfræðings, sem sagði: „Sjálfstæðisflokkurinn er hreinræktað íslenskt fyrirbæri, sprottinn úr íslenskum jarðvegi, skapaður af íslenskri hugsun, til orðinn vegna íslenskra nauðsynja og mótaður af íslenskum aðstæðum.“

Sjálfstæðisstefnan og nokkur lykilhugtök

Afstaða Sjálfstæðisflokksins til nokkurra lykilhugtaka þjóðmálabaráttunnar varpar ljósi á stefnu hans. Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðisflokkur.  Hann setur traust sitt og trú á sérhvern borgara lýðveldisins í þeirri vissu, að fái frumkvæði hans, framkvæmdaþróttur og kapp notið sín, miði skjótast áfram.  Stefna flokksins miðast við það, að menn fái notið ávaxta verka sinna og sjái tilgang í því að leggja sig alla fram. Þessi trú á manninn markar einnig ríkinu sinn bás.

Lýðræði

Mörgum finnst sjálfsagt æði þunnur þrettándi að halda því á lofti, að lýðræði sé í efstu röð boðorða eins stjórnmálaflokks.  Þeir spyrja, hvort ekki sé jafnnauðsynlegt að taka fram, að flokkurinn sé hlynntur dagsbirtunni.  Eða þykjast ekki allir stjórnmálaflokkar, sem því nafni ná  hér á landi, eiga jafnríkulegt tilkall til lýðræðishugsjónarinnar?  Það er von að spurt sé.  Því það er mála sannast, að skoði menn orðagjálfrið eitt og sér, þá ber ekki á öðru en að allir flokkar séu haldnir sannri lýðræðisást. 

En þar sem gjálfrinu lýkur, blasir annað við.  Stefna félagshyggjuflokkanna, sem svo kalla sig, felur í sér hvern leynistíginn af öðrum úr braut lýðfrelsis og lýðræðis þegar vel er að gáð.  Vissulega eru stígar þessir misbrattir og sumir æði krókóttir, en afleiðingar þess að fylgja þeim á enda eru ætíð hinar sömu.  Frelsi, frumkvæði og þróttur fjara út og þegar lengst er komið verður spennitreyjan hinn raunverulegi þjóðbúningur.  Afstaða Sjálfstæðisflokksins til einstakra álitaefna og ýmis baráttumál flokksins fyrr og síðar sýna, að lýðræði er honum meira en til skrauts og skrafs.  Nefna má mörg og mikil dæmi þessa..."

...."  Þau  átök hafa leitt í ljós, að þegar í harðbakka slær, er Sjálfstæðisflokkurinn eini flokkurinn, sem ekki er tilbúinn til að fórna þessum mikilvægu hagsmunum í pólitísku spili líðandi stundar...."

Í innanlandsmálum hefur flokkurinn sett kosningajafnrétti landsmanna á oddinn hvað eftir annað.  Þar  átti hann löngum undir högg þeirra að sækja, sem nutu valda í krafti misréttarins, nærðust á honum og létu ekki sinn hlut í neinu fyrr en þeir máttu.  Flokkurinn er fylgjandi valddreifingu í þjóðfélaginu og hefur fylgt því máli eftir.  En fyrst og síðast segir sjálfstæðisstefnan okkur, að efnahagslegt frelsi einstaklinganna sé ein höfuðforsenda lýðræðisins og reyndar í sömu andrá mannsæmandi lífs nútíma þjóðar.  Fram hjá því verður ekki litið, að það er pólitísk tvöfeldni að vinna að því öllum árum að auka hlut ríkisvaldsins á kostnað einstaklingsins og athafnafrelsis hans svo sem kostur er, en segjast á hinn bóginn vilja veg lýðfrelsis sem mestan. Öll rök og margvísleg reynsla hefur kennt mönnum, að færist efnahagslífið allt á eina hönd, hverfur lýðfrelsið von bráðar. 

...."Hvað þessi atriði snertir bera aðrir íslenskir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn kápuna á báðum öxlum, þótt leið þeirra til ánauðar miðstýringarinnar sé misjafnlega hraðskreið og opinskátt boðuð..."

..."  Sjálfstæðisstefnan var í upphafi reist á grundvelli einstaklingsfrelsisins.  Frá þeim grunni hefur stefnan aldrei vikið, þótt vissulega hafi á ýmsu gengið um framkvæmd hennar.  Svigrúm einstaklinganna og ekki síst atvinnufrelsi þeirra hefur verið í þungamiðju pólitískra átaka hér á landi, allt frá því að hinni eiginlegu sjálfstæðisbaráttu lauk."

 

..."Stundum er spurt hverra manna Sjálfstæðisflokkurinn sé.  Svarið fæst með vísun til orðanna „stétt með stétt“, sem lýsa betur en langt mál, hvert flokkurinn vill sækja fylgi sitt. 

Stefnuskrá  flokksins, verk hans og ekki síst það fylgi sem hann hefur notið sýna glöggt að Sjálfstæðisflokkurinn einn hefur í reynd breytt eftir þessu kjörorði.  Það er inntak sjálfstæðisstefnunnar, að í landinu sé ein þjóð, ekki aðeins í orði kveðnu, heldur í raun.  Hún hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta, þegar til lengri tíma er litið og framhjá dægurmálum líðandi stundar horft.

  Sjálfstæðisstefnan er umfram allt stefna markvissrar jákvæðrar þróunar til betri lífskjara og lífsfyllingar. Trúin á manninn er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar..."

Þessi greinargerð er tæmandi lýsing á hugsjónum Sjálfstæðisflokksins. Hann er alger andstæða við Kratismann sem vill stjórna með því að skattleggja og eyða úr opinberri lúku.Annað þekkja þeir ekki og trúa aukinheldur ekki á einstaklingsframtakið nema til skipulagðrar glæpastarfsemi.

Sjálfstæðisflokkruinn er ekki landssöluflokkur heldur stendur hann vörð um sjálfstæði þjóðarinnar en hafnar erlendum yfirráðum.

Vinstri flokkarnir allir, Björt Framtíð, Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstri Grænir, eru allir til viðræðu um að rýra og skilyrða fullveldi Íslands fyrir grautarskál og berjast núna hart fyrir því að semja stjórnarskrá sem heimilar slíkt framsal til Evrópusambandsins sbr. margradda yfirlýsingar þeirra um stjórnarskrármálið.

Sjálfstæðisstefnan er ein einföld, hrein og skýr.

 


Sagan sem ekki má gleymast

er skráð af Sigurði Oddssyni í Morgunblaðinu í dag. Sigurður segir:(Bloggari leyfir sér að feitletra að vild)

"Steingrímur. Í kosningum fékkstu skýr skilaboð um að þinn tími væri liðinn. Þrátt fyrir það skorti þig hvorki brigsl né ísmeygileg hnýfilyrði í garð ríkisstjórnar og nú ert þú aftur í framboði. Þú ættir að draga framboðið til baka.

Þú getur ekki gert formanninum það að dröslast með ykkur Björn Val í skottinu eina ferðina enn.

Loforð um að halda þjóðinni utan ESB sveikstu strax eftir kosningar. Til að liðka fyrir aðild að ESB sendir þú vin þinn að semja um Icesave. Sá kom með samning, þegar hann nennti ekki lengur að standa í samningaströgglinu. Þið kröfðust þess að þingmenn samþykktu samninginn án þess að sjá hann. Líkt og blindir kettlingar. Það gekk ekki og Jóhanna kallaði þitt fólk villiketti, sem ekki væri hægt að smala. Samningurinn var kolfelldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hefðuð þið átt að segja af ykkur strax.

Næstu kosningar fóru á sömu leið, en áfram sátuð þið samt. Rúin trausti í annað sinn. Stóradóm fenguð þið í alþingiskosningunum. Í viðbót við ESB, Icesave og veiðileyfi til hrægamma kunna eftirfarandi atriði að vera ástæða fallsins:

*Þið hleyptuð AGS inn og lögðuð blessun yfir hækkun stýrivaxta úr 12 í 18%. Kostnaðurinn lagðist á landsmenn. Margir misstu heimili sín og aldrei hafa jafn mörg fyrirtæki farið á hausinn. Snjóhengjubraskararnir fengu 18% vexti í gjaldeyri, sem streymdi úr landi þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.

* Seðlabanki Íslands (SÍ) braskaði með skráð gengi krónu. Skilyrði var fjárfesting á Íslandi fyrir krónurnar. Ekki var spurt hvaðan gjaldeyririnn kæmi eða hvernig hans var aflað.

Á þinni vakt var SÍ peninga- þvottastöð á sama plani og bankarnir í Tortóla. Fékk skatturinn lista yfir þá sem keyptu útsölukrónur af SÍ?

*Þið kærðuð ekki Breta fyrir að setja á okkur terroristalög af ótta við að fá ekki að vera memm í ESBklúbbnum.

Ekki þorðuð þið að tala máli þjóðarinnar þegar allar „vina- þjóðirnar“ réðust á okkur. Forsetinn sá að ekki gekk að hafa markið galopið með engan í marki. Hann fór í mark og í sóknina með þeim árangri að landinn þurfti ekki lengur að horfa á tærnar á sér í samræðum við útlendinga.

*Þið gáfuð hrægömmum veiðileyfi á almenning og fyrirtæki. Atvinnutæki voru hirt af verktökum fyrir slikk og seld úr landi fyrir gjaldeyri. Milliliðir hirtu gróðann. Fyrrverandi eigendur sátu eftir jafn skuldugir og áður. Mörgum hefði mátt bjarga með því að bjóða út grunn að nýjum spítala.

*Óskiljanlegt er að þið skylduð selja Kaupþing í Lúxemborg án þess að gramsa fyrst í því hvað bankinn hefði að geyma. Sagt var að fyrr myndi snjóa í helvíti áður en sæist hvað þar væri falið. Sérstakur þurfti svo að fara bónleiðina til að fá gögn úr bankanum, sem var mjatlað í hann.

*Þú felldir niður tugmilljarða skuldir hjá ýmsum fyrirtækjum, sem t.d. í sjávarútvegi seldu seinna kvóta úr byggðarlaginu. Kvóta sem var og er þjóðareign. Eitt loforða þinna var að skila honum til þjóðarinnar.

*Skjaldborgin um heimilin var skjaldborg um fjármagnseigendur. Með 20% leiðinni héldu lánardrottnar áfram að innheimta lán. Verðtryggingin sá um hækkun höfuðstóls.

Á nokkrum árum varð staðan enn verri.

* Svo var það Hitaveita Suðurnesja, Sjóvá, Sparisjóðurinn, Askja, Straumur-Burðarás, Byr, VBS, Saga & Askar Capital, Drómi og allt hitt.

*Í liði VG var góður hagfræðingur, Lilja Mósesdóttur. Lyklafrumvarp hennar hefði bjargað mörgum heimilum.

Jarðfræðiþekking þín vó þyngra en hagfræðikunnátta hennar og um að gera að losna við hana sem fyrst úr stjórninni.

* Jón Bjarnason stóð vörð um fullveldið og makrílkvótann, sem þið Össur vilduð semja um við ESB. Jón vildi setja samskonar kvóta á makrílinn og var á skötuselnum, en fékk ekki. Þú vildir losna við Jón úr ráðuneytinu. Það tókst sem betur fer ekki fyrr en í lokin.

*Þið læstuð niður skjöl í meira en 100 ár vegna persónuverndar, sem tók við af bankaleynd. Hvað er svo ljótt að skal falið 4-5 kynslóðum?

*Þið senduð reglulega tilkynningar um það hversu mikið ástand heimila og fyrirtækja hefði batnað undir ykkar stjórn. Hvernig gat annað gerst, þegar þeir verst settu höfðu misst íbúðir sínar og mörg þúsund fyrirtæki farið á hausinn?

Við það bættist landflótti fólks sem ekki átti sér viðreisnar von í landinu okkar góða. Er ekki ljóst að þeir sem lifðu af stóðu betur en hinir, sem þið gáfuð veiðileyfi á? Þú munt segja þetta tóma dellu miðað við hvað þið skiluðuð góðu búi þrátt fyrir rústirnar sem þú tókst við.

Ég spyr, hvernig hefði þetta endað hjá ykkur hefði almættið ekki blessað þjóðina með makríl og túristum? Hvað væri skuldin há hefði ykkur tekist að fá að greiða Icesave og deila makrílnum með ESB? Að lokum:

Er trúverðugt að svara því sem kemur fram í skýrslu Vigdísar með því að skýrslan sé klippiplagg og ekki-skýrsla full af stafsetningarvillum? Reyna svo að gera Vigdísi ótrúverðuga hjá alþýðu manna með í senn ísmeygilegum og illyrmislegum ásökunum rætnifullra rægitungna um gegndarlaust og einskis nýtt hjal um stafsetningarstagl.

Þykir mér sýnt að trúverðugleiki Vigdísar vaxi við að þú, Steingrímur, reynir að gera hana ótrúverðuga. "

Sigurður á þakkir skildar fyrir að skrifa þessa króniku. Hún má ekki gleymast múna þegar VG er að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum.

Steingrímur J. Sigfússon er hinn illi andi á bak við brosmildan formanninn.Hans saga má ekki gleymast.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband