"Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan sinn aldur verið sterkt og þróttmikið þjóðfélagsafl á Íslandi, þótt aðstaða hans til að koma fram hugmyndum sínum og stefnumálum hafi verið misjöfn. Sterka stöðu flokksins með þjóðinni má að sjálfsögðu rekja til stefnu hans og hugsjóna flokksmanna fyrr eða síðar. Vegna sjálfstæðisstefnunnar hafa fleiri Íslendingar dregist að Sjálfstæðisflokknum en nokkurri annarri stjórnmálahreyfingu á Íslandi.
Sameinast um sjálfstæðisstefnu
Sjálfstæðisflokkurinn verður til þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn eru sameinaðir árið 1929. Þessir flokkar voru ekki gamlir og fastmótaðir og margt líkt með þeim. Þó má segja að til hins nýja Sjálfstæðisflokks hafi annars vegar runnið öfl sem vildu koma ríkisfjármálum á traustan grunn, m.a. með varfærinni fjármálastjórn, sem ekki tæki úr hófi fram fyrir hendur hvers einstaklings.
Engu að síður vildu þessir aðilar beita sér fyrir umbótum í þessu hrjóstruga landi og leysa landkosti þess úr læðingi með rafvæðingu sveita og ýmsum öðrum verklegum framförum. Á hinn bóginn kom blóðgjöfin til þessa nýja flokks frá mönnum sem lögðu ekki síst áherslu á frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðernisvitund manna en ekki síður á frjálst framtak, frjálsa verslun og frelsi einstaklinganna. Á stefnuskrá þeirra var jafnframt að tryggja afkomu þeirra, sem áttu undir högg að sækja í lífinu. Auðvitað voru skilin ekki hrein og glögg milli þessara framsæknu afla sem þá bundust böndum, en mismikill þungi var lagður á baráttumálin. En víst er að þær hugsjónir sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk í sína vöggugjöf hafa dugað honum vel. Þær speglast skýrt í hinni knöppu og kjarnyrtu stefnu flokksins, sem enn er oft vitnað til.
Annars vegar var því lýst yfir, að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt, þegar skilyrði væru til þess skv. sambandslögunum.
Hins vegar sagði, í stefnuyfirlýsingunni frá 1929, að flokkurinn ætlaði: Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Sjálfstæðisstefnan og aðrar stjórnmálakenningar
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þeir flokkar, sem til voru í íslensku stjórnmálalífi á stofnári Sjálfstæðisflokksins, sóttu allir að meira eða minna leyti hugsjónir sínar og baráttumál til móðurflokka eða stjórnmálakenninga erlendis. Sjálfstæðisflokkurinn sker sig úr í þessu. Tildrög hans og skírskotun til séríslenskra aðstæðna verða til þess, að hann fær óvenjulegan sess í íslensku flokkakerfi. Hann vísar á bug þeim tilburðum sem aðrir flokkar hafa haft til þess að greina þjóðina í stéttir, sem ota megi hverri gegn annarri. Félagshyggjuflokkarnir hafa jafnan haft uppi vígorð um hina eilífu stéttabaráttu, en svar Sjálfstæðisflokksins fékkst í kjörorðinu: Stétt með stétt. Honum var ljóst, að fámennri þjóð gat ekki verið til góðs, að stéttirnar bárust á banaspjótum..
Auðvitað er sitthvað í stefnu flokksins eins og í afstöðu hans til dægurmála á ýmsum tímum, sem átt hefur samnefnara í erlendum flokkum, og einstakar heimspeki- og stjórnmálakenningar hafa brugðið sínum blæ á stefnu hans. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið gæfu til þess að skapa sér sinn eigin farveg og sérstöðu. Þess vegna finnst spegilmynd hans hvergi í nálægum löndum. Flokkurinn gat því betur lagað sig að þeim breytingum, sem hið unga fullveldi og síðar lýðveldi tók. Þurfti hann ekki að setja stefnu sína sífellt undir mælistiku alþjóðlegrar stjórnmálastefnu. Má í þessu sambandi vitna til orða Birgis Kjaran hagfræðings, sem sagði: Sjálfstæðisflokkurinn er hreinræktað íslenskt fyrirbæri, sprottinn úr íslenskum jarðvegi, skapaður af íslenskri hugsun, til orðinn vegna íslenskra nauðsynja og mótaður af íslenskum aðstæðum.
Sjálfstæðisstefnan og nokkur lykilhugtök
Afstaða Sjálfstæðisflokksins til nokkurra lykilhugtaka þjóðmálabaráttunnar varpar ljósi á stefnu hans. Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðisflokkur. Hann setur traust sitt og trú á sérhvern borgara lýðveldisins í þeirri vissu, að fái frumkvæði hans, framkvæmdaþróttur og kapp notið sín, miði skjótast áfram. Stefna flokksins miðast við það, að menn fái notið ávaxta verka sinna og sjái tilgang í því að leggja sig alla fram. Þessi trú á manninn markar einnig ríkinu sinn bás.
Lýðræði
Mörgum finnst sjálfsagt æði þunnur þrettándi að halda því á lofti, að lýðræði sé í efstu röð boðorða eins stjórnmálaflokks. Þeir spyrja, hvort ekki sé jafnnauðsynlegt að taka fram, að flokkurinn sé hlynntur dagsbirtunni. Eða þykjast ekki allir stjórnmálaflokkar, sem því nafni ná hér á landi, eiga jafnríkulegt tilkall til lýðræðishugsjónarinnar? Það er von að spurt sé. Því það er mála sannast, að skoði menn orðagjálfrið eitt og sér, þá ber ekki á öðru en að allir flokkar séu haldnir sannri lýðræðisást.
En þar sem gjálfrinu lýkur, blasir annað við. Stefna félagshyggjuflokkanna, sem svo kalla sig, felur í sér hvern leynistíginn af öðrum úr braut lýðfrelsis og lýðræðis þegar vel er að gáð. Vissulega eru stígar þessir misbrattir og sumir æði krókóttir, en afleiðingar þess að fylgja þeim á enda eru ætíð hinar sömu. Frelsi, frumkvæði og þróttur fjara út og þegar lengst er komið verður spennitreyjan hinn raunverulegi þjóðbúningur. Afstaða Sjálfstæðisflokksins til einstakra álitaefna og ýmis baráttumál flokksins fyrr og síðar sýna, að lýðræði er honum meira en til skrauts og skrafs. Nefna má mörg og mikil dæmi þessa..."
...." Þau átök hafa leitt í ljós, að þegar í harðbakka slær, er Sjálfstæðisflokkurinn eini flokkurinn, sem ekki er tilbúinn til að fórna þessum mikilvægu hagsmunum í pólitísku spili líðandi stundar...."
Í innanlandsmálum hefur flokkurinn sett kosningajafnrétti landsmanna á oddinn hvað eftir annað. Þar átti hann löngum undir högg þeirra að sækja, sem nutu valda í krafti misréttarins, nærðust á honum og létu ekki sinn hlut í neinu fyrr en þeir máttu. Flokkurinn er fylgjandi valddreifingu í þjóðfélaginu og hefur fylgt því máli eftir. En fyrst og síðast segir sjálfstæðisstefnan okkur, að efnahagslegt frelsi einstaklinganna sé ein höfuðforsenda lýðræðisins og reyndar í sömu andrá mannsæmandi lífs nútíma þjóðar. Fram hjá því verður ekki litið, að það er pólitísk tvöfeldni að vinna að því öllum árum að auka hlut ríkisvaldsins á kostnað einstaklingsins og athafnafrelsis hans svo sem kostur er, en segjast á hinn bóginn vilja veg lýðfrelsis sem mestan. Öll rök og margvísleg reynsla hefur kennt mönnum, að færist efnahagslífið allt á eina hönd, hverfur lýðfrelsið von bráðar.
...."Hvað þessi atriði snertir bera aðrir íslenskir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn kápuna á báðum öxlum, þótt leið þeirra til ánauðar miðstýringarinnar sé misjafnlega hraðskreið og opinskátt boðuð..."
..." Sjálfstæðisstefnan var í upphafi reist á grundvelli einstaklingsfrelsisins. Frá þeim grunni hefur stefnan aldrei vikið, þótt vissulega hafi á ýmsu gengið um framkvæmd hennar. Svigrúm einstaklinganna og ekki síst atvinnufrelsi þeirra hefur verið í þungamiðju pólitískra átaka hér á landi, allt frá því að hinni eiginlegu sjálfstæðisbaráttu lauk."
..."Stundum er spurt hverra manna Sjálfstæðisflokkurinn sé. Svarið fæst með vísun til orðanna stétt með stétt, sem lýsa betur en langt mál, hvert flokkurinn vill sækja fylgi sitt.
Stefnuskrá flokksins, verk hans og ekki síst það fylgi sem hann hefur notið sýna glöggt að Sjálfstæðisflokkurinn einn hefur í reynd breytt eftir þessu kjörorði. Það er inntak sjálfstæðisstefnunnar, að í landinu sé ein þjóð, ekki aðeins í orði kveðnu, heldur í raun. Hún hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta, þegar til lengri tíma er litið og framhjá dægurmálum líðandi stundar horft.
Sjálfstæðisstefnan er umfram allt stefna markvissrar jákvæðrar þróunar til betri lífskjara og lífsfyllingar. Trúin á manninn er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar..."
Þessi greinargerð er tæmandi lýsing á hugsjónum Sjálfstæðisflokksins. Hann er alger andstæða við Kratismann sem vill stjórna með því að skattleggja og eyða úr opinberri lúku.Annað þekkja þeir ekki og trúa aukinheldur ekki á einstaklingsframtakið nema til skipulagðrar glæpastarfsemi.
Sjálfstæðisflokkruinn er ekki landssöluflokkur heldur stendur hann vörð um sjálfstæði þjóðarinnar en hafnar erlendum yfirráðum.
Vinstri flokkarnir allir, Björt Framtíð, Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstri Grænir, eru allir til viðræðu um að rýra og skilyrða fullveldi Íslands fyrir grautarskál og berjast núna hart fyrir því að semja stjórnarskrá sem heimilar slíkt framsal til Evrópusambandsins sbr. margradda yfirlýsingar þeirra um stjórnarskrármálið.
Sjálfstæðisstefnan er ein einföld, hrein og skýr.