Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Bláköld alvara

Elliði Vignisson skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið í dag. Hann er að skrifa um fiskvinnsluna í Vestmannaeyjum sem er svo stórkostleg að maður getur eiginlega ekki ímyndað sér hana alla til fulls.

VSV og Ísfélag Vestmannaeyja hafa í heila öld starfað fyrir land og þjóð með þeim árangri að Ísland er statt þar sem það er statt í hópi fremstu ríkja heims.

En það er eiginlega niðurlagið á greininni sem vekur athygli mína. Þá er ég búinn að lesa í Fréttablaðinu einlæga ástarjátningu Oddnýjar G. Harðardóttur formanns Samfylkingarinnar til Evrópusambandsins og upptöku Evrunnar eftir að Íslendingum verður komið þangað inn. Þangað vill hún og vinnur að því öllum árum með hjálp frá öllum sem vilja það sama. Sem eru til dæmis flokkar VG, Viðreisnar  og Pírata sem geta náð völdum með henni eftir kosningar. 

Í ljósi þeirrar staðreyndar að fram til apríl 2017 er hægt að breyta Stjórnarskrá Íslands með bráðabirgðaákvæðum og auknum meirihluta á Alþingi,  sem gera inngönguna tæknilega mögulega þá verða niðurlagsorð Elliða að pólitískum brimbrjót.

"Tímanna tákn er að einu spurningarnar um sjávarútvegsmál sem spyrlar ljósvakamiðla hafa uppi í ermum fyrir frambjóðendur til Alþingis eru á þá leið hvort þeir lofi ekki upp á æru og trú að stórauka og herða skattheimtu gagnvart útgerðarfyrirtækjum og hirða helst af þeim aflaheimildir líka til að setja á ríkisuppboð!

Boðskapur af þessu tagi er hrollvekjandi og orðfæri boðbera hans á köflum beinlínis meiðandi í garð þeirra sem starfa í sjávarútvegi og vilja honum vel."

Það lítur beinlínis út fyrir það ef skoðanakannanir ganga eftir, að Evrópuflokkarnir geti náð auknum meirihluta á Alþingi eftir kosningar til að keyra breytingar á Stjórnarskránni í gegn og taka þau nauðsynlegu skref sem formaður samfylkingarinnar lýsir til að ganga  í Evrópusambandið og taka upp Evru.

Að vísu er í gegn um þjóðina að fara með atkvæðagreiðslu. En það hefur verið sýnt áður að það má möndla með slíkt á réttan hátt ef rétt er spurt.

Orð Elliða eru því tímabær viðvörun um hvað er verið að kjósa í kosningunum 29. október. Þær kosningar eru ekki endilega saklaus skoðanakönnu sem má endurtaka eftir hentugleikum heldur bláköld alvara.


Aðalatriðin um kjör aldraðra

er að finna í grein Vilhjálms Bjarnasonar alþingismanns Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu í dag. Þeim fjölmörgu sem ekki sjá Mogga vil ég fá auka leti með því að setja textann hér:

"Það eru margar þversagnir sem þarf að berjast við. Ein er sú að í bók er skráð að ekki sé til önnur kynferðisleg öfughneigð en einlífi. Aðra baráttu háði Jón sveitungi minn Ólafsson Grunnvíkingur. Hún var sú að leiðrétta villur sem aðrir framleiddu. Víst er að gnógt er af snillimælum sem hljóma vel og hafa mikla eftirspurn. Stundum er það svo að menn hrærast hvergi þó kraftmiklir lygarar taki með öllu sjónina frá heilli þjóð og ræni hana öllu skynsamlegu viti.

 

Aldraðir

Þannig er í þeirri baráttu sem nú stendur yfir í kosningum til Alþingis að upp úr virðist standa eitt mál; það er svar við spurningunni: Hvað ætlar þú að gera fyrir gamla fólkið? Það kann að hljóma illa að svara: Ég ætla ekki að gera neitt! Annað svar er það að auðvitað sé sjálfsagt og rétt að hækka eftirlaun hæstaréttardómara, þeir eru vissulega í hópi gamla fólksins. Auðvitað er þetta útúrsnúningur og skætingur en varla er annað hægt eins og spurt er. Á þessu hausti hefur reynst erfitt að nálgast þann hóp er í mestri nauð og er jafnvel órétti beittur. Sá óréttur stafar oftar en ekki af því að reynt er að ná fram „jöfnuði“. Sá er þetta ritar hefur horft á bótakerfi almannatrygginga og lífeyrissjóði í samhengi. Því til viðbóta er að sjálfsögðu frjáls sparnaður einstaklinga. Það er rétt að afgreiða frjálsa sparnaðinn út af borðinu í þessari grein með einfaldri athugasemd, því það er svo einfalt að frjáls sparnaður er skattlagður í raun vel yfir hæstu skattlagningu launatekna og stundum vel yfir 100% raunskattlagningu.

Í sem stystu máli er kerfi almannatrygginga byggt upp á þremur meginþáttum. 

*Grunnlífeyrir sem allir fá þegar ákveðnum aldri er náð kann að hækka ef töku grunnlífeyris er frestað. 

*Tekjutrygging er hugsuð til að hver og einn einstaklingur hafi framfærslu ef viðkomandi hefur engar aðrar tekjur. 

*Tekjutrygging skerðist við launatekjur, lífeyristekjur og fjáreignatekjur. 

*Við tekjutryggingu getur bæst heimilisuppbót og hugsanlega aðrir bótaflokkar.

 

Jöfnuður, réttlæti og óréttlæti

Ýmsum finnst það nokkurt óréttlæti að þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð standi jafnfætis þeim sem hafa greitt fullar greiðslur af lágum launum í lífeyrissjóð. Þetta heitir jöfnuður. Það er því nokkuð augljóst að hér takast á réttlæti og jöfnuður. Hvorugt er í boði nema menn telji að réttlæti og jöfnuður sé einn og sami hluturinn. Jöfnuðurinn þýðir í raun mikla raunskattlagningu.

Í hópi þeirra sem þurfa að þola hlutfallslega mestar skerðingar eru þeir sem hafa verið á lægstum launum. Þá er rétt að spyrja hverjir eru það sem eru verst settir?

Sá er þetta ritar telur að þeir sem eru verst settir séu eftirtaldir hópar.

* Öryrkjar, sem aldrei hafa haft nokkra möguleika til að afla sér tekna. Það er óþarfi að útskýra tilvist þess hóps fólks sem er meðal okkar minnstu bræðra og systra og okkur ber að veita sérstaka vernd.  Konur sem fóru seint út á vinnumarkað og hafa jafnvel unnið hlutastörf. Þær hafa ekki haft möguleika á að afla sér lífeyrisréttinda. 

*Konur sem hafa farið í gegnum hjónaskilað eða slit á sambúð, þar sem stærsta fjáreign heimilisins kom ekki til skipta. Með stærstu fjáreign heimilisins er átt við lífeyrisréttindi maka.

* Þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð því þeir hafa kerfisbundið komið sér undan því. Það kann að fara saman við skattsvik. 

*Vissulega er þetta ekki endanleg upptalning en er lýsandi. Samúð mín er öll með ofangreindum hópum nema ef til vill þeim síðasta en grái herinn virðist gleyma öllum nema þeim sem komið hafa sér undan því að greiða skatta og skyldur og í lífeyrissjóði.

Þegar hallar á ævikvöldið kann að taka við vist á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Vist á dvalarheimili kostar 4-5 milljónir á ári. Vist á hjúkrunarheimili kostar 9-10 millj- ónir á ári.

Rangfærsla

Það er ein rangfærsla sem gengur að tekjutrygging eigi að vera hluti af grunnlífeyri og óskert. Það var vissa þeirra er stóðu að stofnun lífeyrissjóða um 1970 að almannatryggingakerfið gæti aldrei staðið undir eftirlaunum þeirra stóru hópa sem fæddust um og eftir síðasta stríð. Því yrði að safna í sjóð í stað gegnumstreymiskerfis. Sjóðasöfnun hefur byggt upp þokkalega sterkt lífeyriskerfi en betur má ef duga skal. Því hefur löggjafinn í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins heimilað viðbótarlífeyrissparnað. Greiðslur úr þessum sjóðum skerða tekjutryggingu með líkum hætti og atvinnuleysisbætur fá þeir einir sem ekki eru í starfi.

Ef hugsun gráa hersins nær fram að ganga, það er óskert tekjutrygging, kann það að leiða til þess að tvö- falda þurfi greiðslu tryggingagjalda en þá er farið að nálgast tvöfalt lífeyriskerfi, það er gegnumstreymiskerfi og sjóðasöfnunarkerfi. Ekki er víst að jöfnuður aukist við það ellegar að ekki verði til nýir hópar sem verði þeir verst settu.

Hagsmunir

Hinir stóru hagsmunir eldri borgara eru ekki hvað ríkið borgar í lífeyri. Það er ávöxtun og umgengni um lífeyrissjóði. Að ekki sé talað um frjálsan sparnað. Hagsmunirnir ná yfir langan tíma en geta aldrei orðið stundarhagsmunir.

Það er enn mikið verk að vinna fyrir Jón heitinn Ólafsson að leiðrétta allar þær villur og rangfærslur sem reynt er að fleyta nú um stundir.

Hagsmunir unga fólksins eru öflugt atvinnulíf sem greiðir góð laun. Þau góðu laun eru undirstaða þess að hægt verði að greiða góð eftirlaun eftir farsælan starfsaldur.

Því er aldrei meiri þörf en nú að ræða aðalatriði í málinu en ekki aukaatriði og láta ræna sig öllu skynsamlegu viti."

Hér eru aðalatriði kerfisins dregin fram. Hversvegna er ekki rétt að greiða öllum tekjutryggingu er "Erroribus" sem vinstri menn hjálpa á fætur með blekkingum. Það myndi kosta tvöföldun tryggingagjaldsins sem er að sliga atvinnureksturinn.

Samfylkingin ætlar að skattleggja útgerðina um 200 milljarða á ári og borga þetta og fleira.Formaðurinn grætur það að hafa ekki hætt við að afnema auðlegðarskattinn þar sem hann hafi verið útbúinn með sólarlagsákvæði. Hún mun því styðja endurupptöku hans sem eins og kunnugt er lagðist mest á þá sem hlífa skyldi.

 

Sjálfstæðisflokkurinn fær núna aðeins fimmta hvert atkvæði samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar. Flokkar sem hafa sagt það og sumir sýnt það í verki að þeir geta tekið þátt í að koma Íslandi inn í hið brennandi hús Evrópusambandsins eru með nærri helming atkvæða.

Skoðum yfirboðin og loforðaflauminn. Skoðum svo hvernig aðstæður eru um þessar mundir í þjóðfélaginu. Mikil atvinna, miklar tekjur, sterkt gengi og lágt innflutningsvöruverð og lág verðbólga.

Hvar er þetta ónýta Ísland vegna ónýtrar stjórnarskrár? Þetta ónýta Ísland með verslunaráþjánina? Þetta ónýta Ísland sem er stórveldi í heimi íþróttanna? Þetta ónýta Ísland með mestu auðlindir jarðar? Þetta ónýta Ísland sem verður að fleygja sem fyrst á bál Evróputollasambandsins?

Það skiptir því greinilega engu máli um kjör aldraðra hvað þú kýst ef þú kýst ekki Sjálfstæðisflokkinn sem er búinn að gera það sem hann gat til áfangabóta.

Það skiptir í raun ekkert máli eftir kosningar ef þú kýst annað en Sjálfstæðisflokkinn því þá færðu 4-5 flokka ríkisstjórn með Össuri, Steingrími,Birgittu og Benedikt. Sú stjórn mun án efa ræða kjör aldraðra af mikilli einurð.


KISS, KISS !

 

KISS, KISS

(Keep it simple stupid segja Kanar stundum. KIS KIS segjum við líka stundum. Eða þegar okkur langar eitthvað. )

Ef þið kjósið ekki Sjálfstæðisflokkinn þá varðar mig ekkert um hvað þið kjósið.  

Þið eruð þá að kjósa yfir ykkur 4-6 flokka stjórn til vinstri. Annað skiptir mig ekki máli.

Þá verður Össur spámaður í eigin föðurlandi.  Fjögurra flokka stjórn líst honum betur á en þriggja flokka stjórn.Svo einfalt er það.

 

 

"Ég býð þér dús mín elskulega þjóð."

KISS, KISS.


Lúpínan ljúfa

þekur nú að lágmarki 314 ferkílómetra, samkvæmt kortlagningu Náttúrufræðistofnunar.

Líklega er um vanmat að ræða þannig að hún þeki nær 400 ferkílómetra.

Þessi þjóðargersemi Íslendinga hefur gert stórkostlegar breytingar á landgæðum allt frá því að hann Hákon Bjarnason skógræktarstjóri kom með nokkur fræ í vestisvasa sínum frá Alaska eftir stríðið.

"Alaskalúpína er skilgreind sem ágeng, framandi tegund hér á landi. Hún breiðist hratt út, er orðin mjög útbreidd og þekur víða stór svæði. Því þótti ástæða til að kortleggja útbreiðsluna sérstaklega. " Svo segir í Mogga.

Þetta er fráleit staðhæfing. Lúpínan er auðvita innflytjandi. En hún er löngu orðin Íslendingur og allar lúpinurnar eru fæddar hérlendis í marga ættlið. Hún er ekki ágeng nema við hrjóstrugt land og grjótklungur. Sjáið hana vaxa í sprengdri klöpp við Suðurlandsveg. Hún sækir ekki inn á berjalyngsmóa sem ég þekki austur á Bergstöðum þar sem ég fylgist með í mörg ár. Hún hörfar fyrir birki og grasi, það geta allir séð uppi við Rauðavatn.

Lúpínan ljúfa er ástmögur þjóðarinnar og sannkölluð þjóðargersemi.

 

 


Hverjum má treysta?

er fyrirsögn á leiðara Morgunblaðsins í dag. Höfundur veltir fyrir sér hver sé raunveruleg stefna VG í dag og hver sé forystumaður þess flokks.

Katrín Jakobsdóttir heillar kjósendur með fríðleika sínum og fallegum brosum sem skella á þeim eins og ljósmerki tifstjörnu. En er hún sú sem stjórnar?

Leiðarinn segir svo:

"Það er ósanngjarnt að kvarta yfir því að kjósendur eigi ekki kosti í kosningunum í lok mánaðarins. Framboð hafa sjaldan verið fleiri en nú er, fjölbreytni er nokkur og sumt jafnvel skondið, sem er gott í skammdeginu.

Nú síðast eru Vinstri græn tekin að auglýsa myndarlega hér og hvar og snýst temað um það hverjum megi helst treysta. Nú getur enginn með fulla rænu talið að spurning um hverjum megi helst treysta kalli nánast sjálfkrafa á svarið: Vinstri grænum!

Núverandi formaður nýtur þeirrar náðar að hafa þykkari stjórnmálalega teflonhúð en flestir aðrir. Með því að blása upp mynd af formanninum á auglýsingaborðum þá er því treyst að fortíð VG, undir forystu Steingríms J. Sigfússonar, gleymist nægjanlega lengi. En það eru margar hindranir á þeirri vegferð.

Það er ekki bara það að Steingrímur er enn á staðnum. Og það er ekki aðeins það að hann sé enn talinn af þeim sem fylgjast með ráða ekki bara því sem hann vill í VG heldur almennt ráða þar öllu. Því það er ekki nóg.

Því að jafnvel í því algleymi, sem íslensk stjórnmál hafa smám saman verið að turnast í, muna enn nægjanlega margir að Katrín Jakobsdóttir var eins og hinn síamstvíburinn í öllu svikaferli Steingríms Sigfússonar. Þótt af miklu væri að taka heyrðist aldrei múkk frá Katrínu á meðan hver þingbróðir hennar og systir af öðrum hrökkluðust úr þingflokknum og voru fyrir vikið hrakyrt sem villikettir. En eftir sat Katrín Jakobsdóttir malandi í kjöltu valdsins.

Þegar þau Steingrímur J. tóku heljarstökk afturábak í stærsta og helgasta máli VG, andstöðunni við aðild að ESB, var samhæfingin slík að engin slík hefur enn sést á ólympíuleikum í fimleikum.

Þegar næst kom að dýrkeyptasta svikabrallinu, tilraun til að þvinga þjóðina til að kyngja Icesave-samningunum, sungu þau tvíraddað þannig að enginn vissi hvor söng hvaða rödd.

Um sukkið um Sjóvá og sparisjóð suður með sjó var samstaða samlyndra stjórnmálamanna í VG þéttara en sést hefur.

Þegar ríkisstjórnin þeirra ákvað, eftir samhljóða dóm 6 hæstaréttadómara, að gera ekkert með niðurstöðu réttarins, þá hefði ekki glufa í meiningarmun á milli þeirra sést í rafeindasmásjá.

Og svo telja þau sér trú um það, að það muni leggjast vel í íslenska kjósendur að minna á þetta óskammfeilna brall með því að nota orðið traust sem stikkorðið fyrir innihald í kosningaherferðinni.

Það segir vissulega sína sögu en sú saga er ekki traustvekjandi.

Öðru nær"

Mér hafa flogið í hug gamlar minningar um Baldur og Konna. Konni sá um að segja brandarana þó hendi Baldurs væri inni í bakinu á honum. Konni var stjarnan þó hann sæti á hnjám Baldurs. Hvað er á bak við skyndilegu brosleiftrin frá yndisfríðu andliti Katrínar Jakobs? Er hún sá reynslubolti í stjórnmálum sem allir mega treysta?

Glyttir kannski einhversstaðar í rauðu úlfshárin sem færri treysta í ljósi reynslunnar?


Furðuleg auglýsing

kemur frá Samtökum Iðnaðarins i dag.

 

Samtök Iðnaðarins eru samtök atvinnurekenda í iðnaði  sem ég ruglast gjarnan á þegar rætt er um samtök atvinnurekenda. Þau eru undir góðu forsæti Guðrúnar Hafsteinsdóttur úr Hvergerði. 

Heildarsamtök atvinnulífsins, S.A.,  eru undir forsæti hins mikilhæfa forstjóra Flugleiða Björgólfs Jóhannssonar og bið ég velvirðingar á fyrri texta í þessu bloggi þar sem ég klúðra málinu. Ég var eitt sinn félagsmaður í Félagi Íslenskra Iðnrekenda sem var mikið og gott félag á sinni tíð. SI er líkast til afkomandi þess félags. Svona blekbullarar eins og ég vanda sig ekki alltaf nógu mikið í hita augnabliksins.

 

Í dag auglýsa Samtök Iðnaðarins, þar sem ég er pínulítill félagsmaður, í Mogga, auglýsingu sem mynd birtist af hér til hliðar.

Mér finnst þesi auglýsing dagsins orka tvímælis þegar gangverk stjórnmálanna er skoðað. Mér finnst hún byggja á því að gera lítið úr starfsemi stjórnmálaflokka en hampa fremur einstökum persónum. 

SI

Það er útbreiddur skilningur á stjórnmálum að halda það að einhverjir einstaklingar hingað og þangað að séu það sem leysir málefni þjóðarinnar.

Það eru mjög margir sem gera sér ekki ljóst að það eru stjórnmálaflokkarnir sem leysa mál þjóðarinnar. Samvinna og samstarf þeirra er forsenda þess að mál komist fram á Alþingi. Ekki einhverjar Ofur-Bjartar stjörnur á pólitískum himni heldur puðarar sem hakka í málunum þar til að lausnir finnast sem vinna má úr.

Sem félagsmaður í þessum ágætu samtökum finnst mér þessi auglýsing ekki þeim til framdráttar. Þau hljóta að geta gert betur en semja svona furðulega auglýsingu ,sem hefði að mínu viti átt að að auglýsa eftir stjórnmálaflokkum en ekki einhverjum frambjóðendum frá einhverjum framboðum.


Loksins?

ljós í myrkrinu?

"

Frumvarp til laga



um breyt­ingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum (frest­un rétt­aráhrifa).

Frá meiri hluta alls­herj­ar- og menntamála­nefnd­ar (UBK, VilÁ, JMS, WÞÞ, PJP).

 

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. mgr. 32. gr. frestar kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar í þeim tilvikum sem falla undir d-lið 1. mgr. 32. gr. Ákvæði þetta gildir til 1. janúar 2017.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Grein­ar­gerð.

    Í frumvarpinu er kveðið á um að til 1. janúar 2017 muni kæra í tilteknum málum umsækjenda um alþjóðlega vernd, þar sem Útlendingastofnun hefur ákveðið að viðkomandi skuli yfirgefa landið, ekki fresta réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Tekur ákvæðið til þeirra mála þar sem umsækjandi kemur frá ríki á lista yfir örugg upprunaríki, sbr. 3. mgr. 50. gr. d, og Útlendingastofnun metur umsóknina að öðru leyti bersýnilega tilhæfulausa.
    Tilgangur ákvæðisins er að létta því mikla álagi sem verið hefur á móttöku- og búsetu­úrræðum fyrir hælisleitendur með því að stytta dvalartíma í þeim málum þar sem lægra stjórnsýslustig hefur metið umsóknina bersýnilega tilhæfulausa og umsækjandi kemur frá ríki á lista yfir örugg upprunaríki. Ef fram fer sem horfir stefnir í að um 1000 manns sæki um hæli hér á landi á árinu og má því segja að ákveðið neyðarástand ríki í þessum málum. Gera má ráð fyrir að kostnaður á fjárlagalið hælisleitenda á þessu ári verði um 1,7 milljarðar kr. Af þeim umsóknum sem borist hafa er um helmingur frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki. Því er ljóst að kostnaður vegna umsókna frá þessum ríkjum er verulegur.
    Líkt og áður segir er því lagt til að umsækjandi fari úr landi svo fljótt sem verða má eftir að niðurstaða liggur fyrir á fyrsta stjórnsýslustigi. Það áréttast að með þessu er hvorki slegið af kröfum til réttlátrar málsmeðferðar á fyrsta stjórnsýslustigi né rétti umsækjanda til að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar."


Ríkisvæðing stjórnmálanna

er orsök fyrir því framboðsgeri sem rignir yfir þjóðina. Litlar ljótar klíkur er hvarvetna að koma saman framboðum til að reyna að komast í ríkispeningana sem geta streymt til slíkra framboða.

Ég held að stærstu mistök Sjálfstæðisflokksins hafi verið sú að ganga til samstarfs við litlu flokkana um að takmarka rétt stjórnmálaflokka og einstaklinga til að afla sér fjárstuðnings á almennum markaði. Hér áður fyrr voru flokkarnir komnir upp á flokksmenn og velviljuð öfl til fjáröflunar. Litlir sérvitringaflokkar áttu erfitt uppdráttar með sína fjármögnun.Því varð þessi margnefndi fjórflokkur til og reyndist vel  ef atkvæðavægið var ekki að trufla. Það er ekki pláss fyrir fleiri vitrænar skoðanir en þær sem innan þeirra rúmast. Sjálfstæðisflokkurinn yfirleitt stærstur með 30-40 % en hinir þrír að skipta afganginum.

Stjórnmálaflokkar eru í grunninn frjáls félagasamtök sem í raun aðeins þeir sem vilja ganga í þá eiga að kosta. Vera kann að einhverjir lágmarksstyrkir séu réttlætanlegir. En að menn séu að stofna til framboða beinlínis í peningaleit getur ekki verið hollt fyrir lýðræðið.

Hafi menn hugsjónir, þá verða þeir að berjast fyrir þeim.Og það gera menn ekki einir síns liðs. 

"Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman."

Maðurinn er félagsvera. Aðeins í félagsskap annarra sem sömu hugsjónir hafa getur hann komið einhverju til leiðar.

Ríkisvæðing stjórnmálanna hefur ekki orðið til góðs á Alþingi þar sem uppivöðsla örflokka og lukkuriddara er að gera það óstarfhæft löngum.


Litla Hryllingsbúðin

blasir við á Alþingi ef skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi flokkanna gengur eftir.

Ekki verður hægt að mynda nema fjölflokka ríkisstjórn til vinstri ef það þá tekst. Talsverð líkindi eru til þess að Forsetinn verði að skipa utanþingsstjórn þegar engin stjórn hefur séð dagsins ljós á þessu ári.

Menn sjái fyrir sér stjórnlausar endalausar ræður í efsta stigi lýsingarorða um allt og ekkert. Allt vont er síðustu ríkisstjórn að kenna. Nýr þingforseti kemur úr röðum nýrra þingmanna nema ef þeir kjósa Steingrím J. . BladidiBlaBla.

Næsta Alþingi reynslulítils fólks verður hugsanlega kallað litla Hryllingsbúðin.


Ég var stoltur

í kvöld að vera í Sjálfstæðisflokknum með þeim Vilhjálmi Árnasyni og Ísaki Erni Kristinssyni , frambjóðendum í Suðurkjördæmi á Hrafnaþingi Yngva Hrafns í kvöld.

Að hlusta á þessa ungu menn ræða æsingalaust um það sem fólkið er að leita svara við í dagsins önn er þvílík hvíld frá því að hlusta á svartagallsrausið og bullið í Þorvaldi Gylfsyni, Birgittu Jónsdóttur og Oddnýju Harðardóttur um vandmál sem brenna alls ekki á unga fólkinu okkar heldur allt önnur mál.

Stjórnarskráin hans Þorvaldar er ekki það sem þjakar unga fólkið sem betur fer. Það er ekki að leita að Náttröllum sem hefur dagað uppi. Það er að leita að lausnum sem duga í nærumhverfinu.

Og það er ekki það sem þjakar eldra  fólkið heldur. Það var gaman að hlusta á þessa menn lýsa því hvernig þeir ætla að berjast fyrir framgangi hugsjóna Péturs heitins Blöndal sem dreymdi um nýtt kerfi skynseminnar og réttlætisins upp úr viðjum vanans.

Ég öðlaðist nýja trú á  því að Sjálfstæðisflokkurinn geti komist í gegnum þokuna rauðu sem krateríið framleiðir með öllum vélabrögðum í gangi og náð til fólksins. 

Það er enn von fyrir íslenska þjóð að skynsemin verði ofan á í hugum fólksins sem á að ganga til kosninga eftir augnablik. Öllu máli skiptir að fólkið sjái í gegn um þokuna rauðu og sjái Ísland rísa úr henni með alla þþá möguleika sem opnir standa.

Ég var stoltur af þessum ungu mönnum og að fá að vera í sveit með þeim.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband