-hjarðhegðun og skammtímahyggja.
Var fyrirsögn á athyglisverðu erindi sem Róbert Guðfinnsson hélt á Akureyri á föstudaginn.
Á þessum árum gerðum við ótrúlega lítil verðmæti úr því sem við vorum að veiða, sagði Róbert.
Sjávarútvegurinn snerist mikið um að veiða sem mest, en menn gleymdu að tala um hvað yrði um hráefnið eftir að það kom í land. Íslendingar veiddu svo mikið að fiskistofnanir voru keyrðir niður.
Við sem vorum þátttakendur í sjávarútvegi munum þegar magnið skipti öllu máli, sagði Róbert og sagði mjög mikla peninga hafa tapast á því hve mikið var veitt. Hér voru sífelldar gengisfellingar vegna þess að sjávarútvegurinn var alltaf á hausnum þó að það veiddist svona mikið!
Það var af því við bjuggum til allt of lítil verðmæti úr því sem við veiddum.
Þegar kvótakerfið var búið að takmarka veiðarnar fóru menn að hugsa um hvern einasta fisk; hvernig væri hægt að búa til mest úr aflanum sem veiddist.
Hann segist stoltur af því að hafa tekið þátt í breytingum á íslenskum sjávarútvegi.
Við fórum að auglýsa okkur um allan heim á forsendum náttúrunnar.
Róbert kallaði fjármagn skrýtið fyrirbæri. Hjarðhegðunin væri alls staðar eins. Peningar eltu peninga og óþolinmæði að fá fjárfestinguna borgaða til baka væri mikil.
Á meðan við sjáum annars staðar, í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, að menn eru að fá 1, 2, 3% ávöxtun á peningana, höldum við að hér geti ávöxtunin verið uppi í skýjunum. Þetta er misskilningur. Við erum í alþjóðlegri samkeppni og verðum að hugsa raunhæft og af skynsemi. Og það verður að hugsa til langs tíma.
Hann bendir á að líklega megi segja að í ferðaþjónustu hagi Íslendingar sér nú eins og í sjávarútvegi áður en kvótakerfið kom til sögunnar. Við vöðum áfram. Veiðum og veiðum og veiðum. Ef útgerðarmenn myndu hegða sér eins og ferðaþjónustan í dag væru nánast allir togararnir við suðurströndina og skröpuðu þar botninn.
Róbert sagði enga tilviljun að flestir ferðamenn segðust koma til Íslands til að skoða náttúruna en náttúra Íslands er ekki bara gullni hringurinn, Suðurland og Esjan.
Aðalmálið sé sem sagt ekki hve margir ferðamenn komi til landsins, heldur að landið allt sé nýtt og að sem mest fáist út úr hverjum og einum.
Þið trúið því ekki hvað fer í taugarnar á mér þegar menn rífast um það hvor flytur fleiri farþega, Icelandair eða WOW! Þetta minnir á skipstjórana á bryggjunni í gamla daga þegar talað var um hver hefði veitt mest.
Þarna kemur Róbert inn þá kerfisvillu sem er á fjármálamarkaði. Honum stjórna lífeyrissjóðir landsmanna sem byggja allir á tveimur kerfisvillum.
Sú fyrri er að í árdaga voru lífeyrissjóðunum sett sú regla að þeir skyldu skila 3.5 % raunávöxtun. Þetta hefur keyrt upp vaxtastigið í landinu svo að óbærilegt er og gersamlega úr takti við markaðsaðstæður í heiminum um leið og lántökur eru bannaðar í erlendri mynt, væntanlega til að vernda heimska Íslendinga fyrir eigin verðbólgu-og verkfallaheimsku sem þeir trúa á sem stórasannleika.
Önnur var að í stjórnir lífeyrisjóða voru aðeins settir pólitískir dillettantar sem höfðu litla þekkingu á fjármálum öðru vísi en að taka næg veð og eins háa vexti og hægt er, auk eigin vegtyllna og vina. Afleiðingin er sú að lífeyrissjóðir er blindir á samfélagsleg verkefni eins og byggingu hjúkrunarheimila fyrir sjóðsfélaga sína.
Þessir sjóðir ætla nú brátt að taka til sín meira en 15 % af allri launaveltu í landinu. Þeir eru áður búnir að sýna fjármálaspeki sína með stórkostlegum töpum í útlöndum sem innanlands án þess að nokkur geri athugasemdir við nema gamlingjarnir sem fengu bara lækkun lífeyrissins í staðinn.
Hjarðhegðun fjármagnsins sem Róbert lýsir er svo bein afleiðing á lágu þekkingarstigi lífeyrissjóðafurstanna og hræðslu við að ná ekki hámarksávöxtun. Peningarnir fara skiljanlega bara þangað sem boðnir eru hæstu vextir. Og þegar hver ryðst um annan þveran þá verður samfélagsvandinn útundan eins og Helgi Vilhjálmsson í GÓU hefur talað um fyrir daufum eyrum.
Heimska og hjarðhegðun íslenska fjármagnsins er borðliggjandi staðreynd eins og Róbert Guðfinnsson bendir á.