1 Tölu­verð reynsla hafði fengist af því að skima á landa­mærum og þótt við næðum flestum sýktra þá náðum við ekki öllum.

2 Það var líka ljóst að þótt það tækist að tak­marka út­breiðslu veirunnar frá flestum sem komust í gegn þá voru á því undan­tekningar.

3 Um hríð hafði verið sú regla að þeir sem höfðu bú­setu á Ís­landi urðu að fara í skimun við komuna til landsins og við­hafa síðan smit­gát í fimm daga og fara svo aftur í skimun. Þegar búið var að skima 8.000 manns sem höfðu við­haft smit­gát fundust tveir með mikið magn veiru og hefði hvor um sig getað byrjað nýja bylgju far­sóttarinnar hér­lendis.

Smit­gátin er illa skil­greind og að fenginni þessari reynslu var eðli­legast að krefjast sótt­kvíar í hennar stað.

4 And­stætt því sem þú gefur í skyn, Hörður, þá var fjöldi þeirra sem greindust á landa­mærum ekki að minnka heldur að aukast mikið um það leyti sem nú­verandi landa­mæra­reglu var komið á. Það var við því að búast vegna þess að fjöldi ný­greindra til­fella var að aukast í heima­löndum þeirra sem helst ferðast til Ís­lands.

5 Það er engin á­stæða til þess að ætla annað en að fjöldi þeirra sem sleppa sýktir fram hjá skimun á landa­mærum sé í réttu hlut­falli við þá sem þar greinast.

6 Reynslan af nú­verandi til­högun er sú að af 4.500 sem höfðu lokið seinni skimun voru þrír sýktir, sem er næstum þrisvar sinnum hærra hlut­fall en fannst í fyrstu 8.000 sem fóru í seinni skimun íbúa.

7 Sú reynsla sem er lýst í at­riðunum sex hér að ofan bendir sterk­lega til þess að án þess að við­hafa skimun–sótt­kví–skimun yrðum við að reikna með því að fá yfir okkur hverja bylgjuna á fætur annarri.

Með at­riði númer sjö lýkur lýsingu stað­reynda sem falla innan ramma þess sem ég kalla stað­bundna reynslu og hefst nú sá kapítuli þessa bréfs sem er sam­bland stað­reynda og skoðana. Ég er sam­mála þér, Hörður, að við stöndum frammi fyrir mjög al­var­legri efna­hags­kreppu en ég er ó­sam­mála því að hún eigi rætur sínar í sótt­varna­að­gerðum á landa­mærum. Hún á rætur sínar í veirunni ill­vígu sem hefur vegið að alls konar um allan heim og meðal annars efna­hags­lífi.

Ég er alls ekki viss um að ís­lenskt efna­hags­líf sé að fara verr út úr veirunni en efna­hags­líf landa sem hafa tekist á við hana af miklu meira kæru­leysi en við. Ég er heldur ekki viss um að ís­lensku efna­hags­lífi farnaðist betur með míg­lek landa­mæri, fjölda manns í sótt­kví og slíkar fjölda­tak­markanir að það væri erfitt að reka verslanir, frysti­hús, skóla, leik­hús og tón­leika­sali.

Ferða­þjónustan er merki­leg at­vinnu­grein og gjöful en við viljum hvorki né getum lifað af henni einni saman.

Hörður, það er ekki skyn­sam­legt að gera ráð fyrir því að far­aldurinn sé í mikilli rénun á sama tíma og nýjum til­fellum er að fjölga í mörgum löndum Evrópu, heildar­fjöldi nýrra til­fella í heiminum sólar­hringinn áður en þú birtir rit­stjórnar­greinina var 241 þúsund og í Banda­ríkjunum einum saman 44 þúsund. Og hún heldur á­fram að meiða og deyða þessi veira.

Hún er líka búin að sýna okkur að þótt hún virðist vera að hverfa er fullt eins lík­legt að hún sé bara að hvíla sig fyrir næstu árás.

SARS-CoV-2 veiran er ó­líkinda­tól. Hún er bara búin að vera í mann­heimum í átta mánuði og við vitum lítið um hana en erum að læra hratt.

Eitt af því sem við höfum lært er að það er mikil­vægt að vera stöðugt að afla gagna um veiruna í okkar sam­fé­lagi og láta gögnin hverju sinni hjálpa okkur að á­kveða hvað gera skal, í stað fyrir fram á­kveðinna hug­mynda um hvernig á­standið ætti að vera. Þess vegna var það í sjálfu sér ó­sköp eðli­legt að Sig­mundur Davíð kvartaði undan því í fyrir­spurna­tíma um daginn að það vantaði hjá ríkis­stjórninni á­ætlun um hvað skyldi gera næst, vegna þess að það var engin á­ætlun til, meitluð í stein, önnur en að láta gögnin tala og bregðast við þeim á hverjum tíma fyrir sig eins skyn­sam­lega og hægt væri. Þannig á það að vera en það þarf ekki bara þekkingu og vit heldur líka kjark til þess að skilja það.

Að lokum er þér svo sannar­lega fyrir­gefið fyrir að langa til þess að enda greinina þína á eftir­minni­legan hátt. Ég fell fyrir þessari freistingu næstum því alltaf þegar ég drep niður penna svo ég skil hana vel. En þetta er alltaf vand­með­farið vegna þess að ef of langt er seilst er hætta á því að hvellurinn eftir­sóknar­verði breytist í hjá­róma væl.

Loka­setningin í greininni þinni er eitt slíkt í mjög háum tóni. Þú gefur sterk­lega í skyn að ríkis­stjórnin hafi komið á nú­verandi fyrir­komu­lagi við landa­mærin af því að ég hafi hótað henni. Hverju átti ég að hóta henni? Að Ís­lensk erfða­greining myndi hætta að skima? Við vorum hætt að skima og á­kvörðunin hafði ekkert með skimunar­getu að gera heldur þá stað­reynd að ein skimun nægir ekki. Eða var það kannski að ég myndi hætta að gagn­rýna ríkis­stjórnina og fara að styðja hana?

Það er nefni­lega al­manna­rómur að það sé ekkert til verra fyrir góðan mál­stað en ég fari að styðja hann. Það er öllum ljóst að í þessari stað­hæfingu þinni ferðu ekki bara yfir línuna heldur hagar þér eins og línan sé ekki til.

Þú endaðir ekki úti í mýri sem er sá göfugi partur af lands­laginu sem verður gjarnan á­fanga­staður þeirra sem fara yfir línuna heldur lentirðu í ekkert-að­marka landinu þar sem vex lítið annað en ó­sannindi innan um rembing og þvælu."

Af hverju látum við ekki vísindamennina ráða ótruflaða næstu 2 vikur. Sjáum til hvað gerist? Ástandið versnar varla við að hætt að þrasa við Kára í tvær vikur?