Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2021

Aldrei þessu vant

finnst mér koma eitthvað bitastætt frá Birni Leví Gunnarssyni þegar hann ber saman núverandi stjórnarskrá og tillögur þess stjórnlagaráðs sem mér hefur fundist vera óþarfa malalengingar.

Niðurstöður af vísindalegri athugun Björns Levís hafa ekki orðið til breyta því áliti grundvallarlega.

En niðurstaða Björns er svona:

 

"Samanburður á Stjórnarskrá Íslands og frumvarpi stjórnlagaráðs

Ný stjórnarskrá hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Sumir mæla með nýrri stjórnarskrá og aðrir vilja litlar eða jafnvel engar breytingar. Umræðan er eðlileg, breytingar geta verið flóknar og erfiðar. Hvað þá breytingar á einhverju eins mikilvægu og sjálfri stjórnarskránni. Ég hef heyrt ýmis rök í eina eða aðra átt fyrir því að það eigi eða eigi ekki að breyta stjórnarskránni. Rökin eru allt frá því að breytingar muni valda óvissu til þess að það sé óvissa að halda núverandi stjórnarskrá.

Nú eru stjórnarskrár uppfærðar tiltölulega reglulega í flestum löndum heimsins. Líftími stjórnarskráa í vestrænum lýðræðislöndum er um 76 ár. Stjórnarskrá Íslands er nú orðin 72 ára og sumir segja að hún hafi verið komin til ára sinna frá fyrsta degi. Samfélagið breytist og því verður samfélagssáttmálinn óhjákvæmilega að breytast með. Kannski ekki í heilu lagi eins og sumir stinga upp á en það þarf óhjákvæmilega að breyta og bæta með tíð og tíma.

Í kosningum um frumvarp stjórnlagaráðs þann 20. október 2012 greiddu tveir þriðju þeirra sem kusu með því að frumvarp stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Ekki breyttri stjórnarskrá, nýrri stjórnarskrá. Ég hef einnig heyrt alls konar kvartanir um þessa kosningu. Það er sett út á kirkjuspurninguna. Eða fólk vissi ekki hvað það var að kjósa um. Eða farið í orðaskilgreiningar á „grundvallar“. Eða kvartað undan kosningaþátttöku. Ég segi það oft að gamni með tillliti til kosningaþátttöku að ef núverandi 40% þröskuldur hefði verið í kosningunum sem leiddu til fullveldi Íslands 1. desember árið 1918 þá hefði kosningin fallið á mætingu og Ísland hefði ekki orðið fullvalda þann dag.

Mér finnst umræðan um nýja stjórnarskrá og rökin gegn því að hún verði tekin upp vera mjög ómarkviss. Í þannig aðstæðum fer ég að telja. Ég skrifaði því lítið forrit sem skiptir texta stjórnarskrárinnar og frumvarpi stjórnlagaráðs niður í setningar. Til dæmis verður „10. gr. Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.“ að setningunum:

„Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum.“ „Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit.“ „Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.“

Ég ber svo saman hverja setningu í stjórnarskránni og leita í gegnum allar setningar í frumvarpi stjórnlagaráðs að þeim setningum sem eru líkastar og vel úr þeim lista setningu sem er annað hvort nákvæmlega eins eða mjög svipuð. Til dæmis þá passar setningin í dæminu að ofan „Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum“ við setninguna „Forseti Íslands undirritar eiðstaf að stjórnarskránni þegar hann tekur við störfum.“ í nýju stjórnarskránni. Textinn er ekki nákvæmlega sá sami en markmið setningarinnar er það sama.

Í texta Stjórnarskrár Íslands eru 203 setningar. Í frumvarpi stjórnlagaráðs eru hins vegar 378 setningar. Nýja stjórnarskráin er því mun lengri en núverandi stjórnarskrá og spurningin sem ég vildi svara með því að bera saman allar setningar stjórnarskrárinnar og frumvarps stjórnlagaráðs er hversu mikið af núverandi stjórnarskrá er í nýju stjórnarskránni?

Að minnsta kosti 160 setningar úr stjórnarskránni er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs og þá eru það 43 setningar sem hverfa. Þær setningar eru (grein og setning):

GreinSetning
8Forseti Alþingis stýrir fundum þeirra.
8Ef ágreiningur er þeirra í milli, ræður meiri hluti.
10Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit.
10Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.
11Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.
11Svo er og um þá, er störfum hans gegna.
11Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.
12Forseti lýðveldisins hefur aðsetur í Reykjavík eða nágrenni.
14Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra.
14Landsdómur dæmir þau mál.
16Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
16Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
17Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.
18Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
19Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.
20Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það.
20Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.
20Með lögum má undanskilja ákveðna embættismannaflokka auk embættismanna þeirra, sem taldir eru í 61. gr.
21Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.
23Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþingis tiltekinn tíma, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári.
23Alþingi getur þó veitt forseta samþykki til afbrigða frá þessum ákvæðum.
23Hafi Alþingi verið frestað getur forseti lýðveldisins eigi að síður kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til.
28Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum.
28Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána.
28Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný.
28Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi.
28Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.
29Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til.
29Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.
30Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.
31Fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi skal að öðru leyti ákveðinn í lögum, sbr. þó 5. mgr.
31Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.
32Alþingi starfar í einni málstofu.
37Þegar sérstaklega er ástatt, getur forseti lýðveldisins skipað fyrir um, að Alþingi skuli koma saman á öðrum stað á Íslandi.
39Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.
51Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins, að þeir séu jafnframt alþingismenn.
56Þyki Alþingi ekki ástæða til að gera aðra ályktun um eitthvert mál getur það vísað því til ráðherra.
57Þó getur forseti eða svo margir þingmenn, sem til er tekið í þingsköpum, krafist, að öllum utanþingsmönnum sé vísað burt, og sker þá þingfundur úr, hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum.
62Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
64Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.
64Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.
64Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns.
64Breyta má þessu með lögum.
66Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki.
72Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.
74Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir.
74Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur.
74Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.
79Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi.
79Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju.

Einhverjar af þessum setningum breytast í meðferð stjórnlagaráðs. Til að mynda í 51. grein um atkvæðisrétt ráðherra, að þeir hafi bara atkvæðisrétt ef þeir eru einnig alþingismenn. Þá er það algerlega slegið af í frumvarpi stjórnlagaráðs. Ráðherrar geti ekki setið sem þingmenn á sama tíma og þeir eru ráðherrar og hafa þannig ekki atkvæðisrétt. Einhverjar af þessum greinum sem eftir eru eiga því hliðstæðu, eða kannski andstæðu, í frumvarpi stjórnlagaráðs og því eru í raun fleiri en 160 greinar úr stjórnarskránni sem halda sér í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Nýjar greinar eru samkvæmt þessari talningu 228. Það eru 10 fleiri en útreikningur myndi láta mann halda en ástæðan fyrir því er að sumar greinar frumvarps stjórnlagaráðs eiga við fleiri en eina setningu stjórnarskrárinnar. Eftir standa þá 228 setningar í frumvarpi stjórnlagaráðs sem passa ekki við neina setningu í stjórnarskránni.

Reikningsdæmið lítur þá einhvern vegin svona út: Frumvarp stjórnlagaráðs = (núverandi stjórnarskrá – 43 setningar) + 228 nýjar setningar, þar sem þær setningar úr núverandi stjórnarskrá eru nákvæmlega eins eða mjög lítið breyttar. Að mínu mati ætti umræðan að snúast um þessar 43 setningar sem hverfa og þessar 228 setningar sem bætast við. Það er augljóst að núverandi stjórnarskrá heldur sér að mestu leyti (næstum 79% af efni hennar lifir áfram) og í raun er bara verið að bæta við.

Viðbætur er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs í nær öllum greinum nema 1, 2, 6, 11, 19, 20, 27, 28, 29, 30, 38, 41, 44, 45, 46, 47, 48, 53, 55, 59, 71, 76, 77, 80, 82, 83, 84, 98 og 103. Allar aðrar greinar innihalda setningar sem eru viðbót við núverandi stjórnarskrá. Listinn af viðbótum er langur en ég ætla samt að setja hann hérna á sama sniði og listann að ofan:

GreinSetning
3Íslenskt landsvæði er eitt og óskipt.
3Mörk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin með lögum.
4Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang.
5Stjórnvöldum ber að tryggja að allir fái notið þeirra réttinda og þess frelsis sem í þessari stjórnarskrá felast.
5Allir skulu virða stjórnarskrá þessa í hvívetna, sem og þau lög, skyldur og réttindi sem af henni leiða.
7Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.
8Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn.
8Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.
9Yfirvöldum ber ætíð að vernda borgarana gegn mannréttindabrotum, hvort heldur sem brotin eru af völdum handhafa ríkisvalds eða annarra.
10Öllum skal tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.
12Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem það varðar.
12Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.
13Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.
14Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu.
14Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.
15Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.
15Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif.
15Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.
15Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af.
15Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.
15Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana.
15Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.
15Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.
16Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.
16Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum.
16Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.
17Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.
18Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi.
21Öllum skal tryggður réttur til að safnast saman án sérstaks leyfis, svo sem til fundahalda og mótmæla.
21Réttur þessi skal ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.
22Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.
23Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.
23Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.
24Öllum þeim, sem skólaskylda nær til, skal standa til boða menntun án endurgjalds.
24Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýninni hugsun og vitund um mannréttindi, lýðræðisleg réttindi og skyldur.
25Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma.
26Með lögum skal kveða á um rétt flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar.
31Herskyldu má aldrei í lög leiða.
32Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.
33Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu.
33Öllum ber að virða hana og vernda.
33Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru.
33Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar.
33Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.
33Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.
33Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.
34Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.
34Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
34Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda.
34Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
34Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.
34Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra.
34Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.
34Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
35Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á.
35Stjórnvöld og aðrir skulu upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun.
35Með lögum skal tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru, svo og heimild til að leita til hlutlausra úrskurðaraðila.
35Við töku ákvarðana um náttúru Íslands og umhverfi skulu stjórnvöld byggja á meginreglum umhverfisréttar.
36Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda í útrýmingarhættu.
37Alþingi fer með löggjafarvald og fjárstjórnarvald ríkisins og hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu svo sem nánar er mælt fyrir um í stjórnarskrá þessari og öðrum lögum.
39Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.
39Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi.
39Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja.
39Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka.
39Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja.
39Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt.
39Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmislista eða landslista sömu samtaka.
39Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.
39Slíkar breytingar má ekki gera ef minna en sex mánuðir eru til kosninga, og gildistaka þeirra skal frestast ef boðað er til kosninga innan sex mánaða frá staðfestingu þeirra.
40Kjörtímabil er fjögur ár.
42Varamaður tekur þá sæti hans á þingi.
43Alþingi kýs landskjörstjórn til þess að úrskurða um gildi forsetakosningar, kosninga til Alþingis svo og þjóðaratkvæðagreiðslna.
43Um störf landskjörstjórnar fer eftir nánari fyrirmælum í lögum.
43Úrskurðum landskjörstjórnar má skjóta til dómstóla.
49Alþingismanni er heimilt að afsala sér friðhelgi.
50Alþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna.
50Um hæfi þingmanna skal mælt fyrir í lögum.
50Vanhæfi þingmanns hefur ekki áhrif á gildi settra laga.
50Í lögum skal kveðið á um skyldu alþingismanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.
51Í lögum skal kveðið á um starfsemi stjórnmálasamtaka, svo og um fjármál frambjóðenda í því skyni að halda kostnaði í hófi, tryggja gegnsæi og takmarka auglýsingar í kosningabaráttu.
51Upplýsingar um framlög yfir ákveðinni lágmarksupphæð skulu birtar jafnóðum samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.
52Sitji forseti ekki út kjörtímabil skal sami háttur hafður á við kosningu nýs forseta.
52Forseti stýrir störfum Alþingis.
52Hann ber ábyrgð á rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess.
52Með forseta starfa varaforsetar sem eru staðgenglar hans og mynda ásamt honum forsætisnefnd.
52Um kosningu þeirra skal mælt fyrir í lögum.
52Forseti Alþingis lætur af almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt.
52Varamaður hans tekur sæti á þingi á meðan hann gegnir embættinu.
54Alþingi kýs fastanefndir til að fjalla um þingmál.
54Um störf þingnefnda skal mælt fyrir í lögum.
56Þingnefnd getur ákveðið að fundur hennar sé opinn almenningi.
57Frumvörp alþingismanna og ríkisstjórnar eru tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi.
57Sama á við um þingmál að tillögu kjósenda.
57Mat á áhrifum lagasetningar skal fylgja frumvörpum samkvæmt nánari ákvæðum í lögum.
57Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.
58Þingsályktunartillögur ríkisstjórnar eru teknar til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þær eru ræddar á Alþingi.
58Tillögu til þingsályktunar má ekki samþykkja fyrr en eftir tvær umræður á Alþingi.
58Tillögur til þingsályktana sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok löggjafarþings.
58Tillögur um þingrof eða vantraust á ráðherra eru ræddar og afgreiddar við eina umræðu.
58Að öðru leyti skal kveðið á um meðferð þingmála í lögum.
60Skal sú ákvörðun vera rökstudd og tilkynnt forseta Alþingis.
60Atkvæðagreiðsla fer þó ekki fram felli Alþingi lögin úr gildi innan fimm daga frá synjun forseta.
60Um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu skal að öðru leyti mælt fyrir í lögum.
61Lögum og stjórnvaldsfyrirmælum má aldrei beita með íþyngjandi hætti fyrr en eftir birtingu þeirra.
62Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.
62Þingnefnd eða 1/5 hluti alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins.
62Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.
62Um störf Lögréttu skal mælt fyrir í lögum.
63Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kannar hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráðherra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telur efni til.
63Nefndinni er skylt að hefja slíka könnun að kröfu þriðjungs þingmanna.
64Nánari reglur um hlutverk, rannsóknarheimildir og skipan rannsóknarnefnda skulu settar með lögum.
65Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt.
65Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna.
65Lögin falla úr gildi, ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu.
65Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.
65Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.
66Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.
66Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi.
66Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps.
66Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram.
66Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.
66Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.
67Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag.
67Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.
67Þess skal gætt að frumvarp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá.
67Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.
67Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.
68Skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.
69Að fengnu samþykki fjárlaganefndar Alþingis getur fjármálaráðherra þó innt greiðslu af hendi án slíkrar heimildar, til að mæta greiðsluskyldu ríkisins vegna ófyrirséðra atvika eða ef almannahagsmunir krefjast þess.
69Leita skal heimildar fyrir slíkum greiðslum í fjáraukalögum.
70Fjárlaganefnd Alþingis getur krafið stofnanir ríkisins, ríkisfyrirtæki og þá aðra, sem fá framlög úr ríkissjóði, um upplýsingar sem tengjast ráðstöfun þess fjár.
72Stjórnvöldum er óheimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila.
72Með lögum má þó kveða á um slíka ríkisábyrgð vegna almannahagsmuna.
72Ekki má selja eða láta með öðru móti af hendi fasteignir ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt heimild í lögum.
72Um ráðstöfun annarra eigna ríkisins fer að lögum.
73Forseti Íslands rýfur Alþingi að ályktun þess.
74Alþingi kýs ríkisendurskoðanda til fimm ára.
74Hann skal vera sjálfstæður í störfum sínum.
75Alþingi kýs umboðsmann Alþingis til fimm ára.
75Hann skal vera sjálfstæður í störfum sínum.
75Hann gætir að rétti borgaranna og hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.
75Hann gætir þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.
75Ákveði ráðherra eða annað stjórnvald að hlíta ekki sérstökum tilmælum umboðsmanns skal tilkynna forseta Alþingis um ákvörðunina.
75Um starfsemi umboðsmanns og hlutverk hans skal nánar mælt fyrir í lögum, þar á meðal um þingmeðferð fyrrgreindrar tilkynningar ráðherra eða annars stjórnvalds.
78Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð.
79Forseti skal ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil.
81Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja og opinberra stofnana þótt ólaunuð séu.
85Ráðherra getur hann þó ekki leyst undan refsingu, sem dómstólar hafa dæmt vegna ráðherraábyrgðar, nema með samþykki Alþingis.
86Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds hver á sínu sviði.
86Þeir bera hver fyrir sig ábyrgð á málefnum ráðuneyta og stjórnsýslu sem undir þá heyrir.
86Geti ráðherra ekki fjallað um mál vegna vanhæfis, fjarveru eða annarra ástæðna felur forsætisráðherra það öðrum ráðherra.
86Enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur en átta ár.
87Ráðherrar sitja í ríkisstjórn.
87Forsætisráðherra boðar til ríkisstjórnarfunda, stýrir þeim og hefur yfirumsjón með störfum ráðherra.
87Ríkisstjórn tekur ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum.
87Meirihluti ráðherra þarf að vera á fundi þegar slíkar ákvarðanir eru teknar.
88Ráðherra er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf á meðan hann gegnir embætti.
88Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja og opinberra stofnana þótt ólaunuð séu.
88Í lögum skal kveðið á um skyldu ráðherra til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.
89Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.
89Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.
90Alþingi kýs forsætisráðherra.
90Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra.
90Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillöguna.
90Að öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti.
90Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands.
90Sá er flest atkvæði hlýtur er rétt kjörinn forsætisráðherra.
90Hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga.
90Forseti veitir forsætisráðherra lausn frá embætti eftir alþingiskosningar, ef vantraust er samþykkt á hann á Alþingi, eða ef ráðherrann óskar þess.
90Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.
90Ráðherrar undirrita eiðstaf að stjórnarskránni þegar þeir taka við embætti.
91Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra.
91Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.
91Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann.
91Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.
92Eftir að forsætisráðherra hefur verið veitt lausn ásamt ríkisstjórn sinni situr hún áfram sem starfsstjórn uns ný ríkisstjórn er skipuð.
92Sama gildir ef þing er rofið.
92Ráðherrar í starfsstjórn taka aðeins þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til rækslu starfa þeirra.
93Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum.
93Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi, nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi.
94Árlega leggur ríkisstjórn fyrir Alþingi skýrslu um störf sín og framkvæmd ályktana þingsins.
94Ráðherra getur gert grein fyrir málefni sem undir hann heyrir með skýrslu til Alþingis.
95Bóki ráðherra andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann þó ekki ábyrgð á henni.
95Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákveður, að undangenginni könnun, hvort hefja skuli rannsókn á meintum embættisbrotum ráðherra.
95Nefndin skipar saksóknara sem annast rannsóknina.
95Hann metur hvort niðurstaða rannsóknarinnar sé nægileg eða líkleg til sakfellingar og gefur þá út ákæru og sækir málið fyrir dómstólum.
95Nánar skal kveðið á um rannsókn og meðferð slíkra mála í lögum.
96Hæfni og málefnaleg sjónarmið skulu ráða við skipun í embætti.
96Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar.
96Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 hlutum atkvæða til að hún taki gildi.
96Ráðherra skipar í önnur æðstu embætti, eins og þau eru skilgreind í lögum, að fenginni tillögu sjálfstæðrar nefndar.
96Velji ráðherra ekki í slíkt embætti einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis með 2/3 hlutum atkvæða.
96Forseti Íslands skipar formann nefndarinnar.
96Um nánari skipan hennar og störf skal mælt fyrir í lögum.
97Í lögum má kveða á um tilteknar stofnanir ríkisins, sem gegna mikilvægu eftirliti eða afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru í lýðræðisþjóðfélagi, njóti sérstaks sjálfstæðis.
97Starfsemi slíkra stofnana verður ekki lögð niður, henni breytt að verulegu leyti eða fengin öðrum stofnunum, nema með lögum sem samþykkt eru með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi.
99Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum.
100Dómstólar skera endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og sök um refsiverða háttsemi og ákveða viðurlög við henni.
100Dómstólar skera úr um hvort lög samrýmist stjórnarskrá.
101Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur hann endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla.
101Þó má ákveða með lögum að sérstakur dómstóll leysi endanlega úr ágreiningi um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu verði skotið til annarra dómstóla.
102Dómarar eru þeir sem skipaðir hafa verið ótímabundið í embætti dómara eða settir til að gegna því um tiltekinn tíma.
102Til dómstarfa geta dómstólar ráðið eða kvatt aðra eftir því sem mælt er fyrir í lögum.
104Skipan ákæruvaldsins skal ákveðin með lögum.
104Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvaldsins.
104Hann skal í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.
104Ráðherra skipar ríkissaksóknara og veitir honum lausn.
104Ríkissaksóknari er sjálfstæður í störfum sínum og nýtur sömu verndar í starfi og dómarar.
105Sveitarfélög skulu hafa nægilega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum.
106Á hendi sveitarfélaga, eða samtaka í umboði þeirra, eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum.
107Sveitarfélögum er stjórnað af sveitarstjórnum sem starfa í umboði íbúa og eru kjörnar í almennum, leynilegum kosningum.
107Rétti íbúa sveitarfélags til þess að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess skal skipað með lögum.
108Samráð skal haft við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga.
109Utanríkisstefna og almennt fyrirsvar ríkisins á því sviði er á hendi ráðherra í umboði og undir eftirliti Alþingis.
109Ráðherrum er skylt að veita utanríkismálanefnd Alþingis upplýsingar um utanríkis- og varnarmál.
109Ráðherra skal hafa samráð við nefndina áður en ákvörðun er tekin um mikilvæg utanríkismál.
109Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skal háð samþykki Alþingis.
110Ráðherra gerir þjóðréttarsamninga fyrir hönd Íslands.
111Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.
111Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.
111Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.
111Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.
111Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.
112Öllum handhöfum ríkisvalds ber að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarétti og tryggja framkvæmd þeirra og virkni eftir því sem samræmist hlutverki þeirra að lögum og valdmörkum.
112Alþingi er heimilt að lögfesta alþjóðlega mannréttindasáttmála og umhverfissamninga og ganga þeir þá framar almennum lögum.
113Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytingar á stjórnarskrá skal það borið undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.
113Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.
113Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður.

Um þetta á umræðan að snúast. Þarna eru ýmsar greinar líka eins og „Ráðherra gerir þjóðréttarsamninga fyrir hönd Íslands“ í stað forseta áður. Ég hefði líklega átt að flokka þær greinar saman (sem fjölgar þá þeim greinum núverandi stjórnarskrár sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs) en þegar hér er komið við sögu læt ég það vera í bili.

Ef þú nærð að lesa þetta þá hrósa ég þér kæri lesandi og vona að þessi gögn geti hjálpað þér í umræðunni um stjórnarskrárbreytingar. Takið umræðuna og ég skora á hvern sem er að gagnrýna og rökstyðja hvers vegna hver setning í upptalningunni hér að ofan ætti ekki að bætast við Stjórnarskrá Íslands."

Stjórnlagaráð dregur tennurnar úr skolti Þorstein Pálssonar og annarra fullveldissala með því að banna að taka upp herskyldu á Íslandi. Það þýðir að umsóknina um Evrópusambandsaðild verður að skilyrða gagnvart fyrirhuguðum Evrópuher sem þetta lið ætlaði að smeygja um háls þjóðarinnar.Þessu ákvæði verður það að breyta sem fyrst ef það vill leggjst svo marflatt fyrir Brusselveldinu héreftir sem hingað til.

Björn Leví hefur unnið þarft verk með þessari athugun og samanburði efnisatriða.

Eftirleikurinn er auðveldari aldrei þessu vant.

 


Enn er kveðið úr haugnum

og sagt vera af sjónarhóli víðsýninnar.

Þorsteinn Pálsson reynir að vanda að klæða ESB í gervi víðsýni  og frjálslyndi í málgagni þess Fréttablaðinu þann 21. júlí s.l.

"Á sama tíma og ríkisstjórn Íslands lýsir þessum þröngu og afturhaldssömu viðhorfum keppast flestar ríkisstjórnir á Vesturlöndum við að lýsa því yfir að aukin alþjóðleg samvinna sé besta viðspyrnan fyrir atvinnulíf landanna til að vaxa út úr kreppunni. Stjórnlagafræðingar hafa litið svo á að óheimilt sé að deila valdi með öðrum þjóðum af því að það er ekki berum orðum leyft í stjórnarskrá. Þeir segja þó að í takmörkuðum mæli sé það í lagi. Þannig höfum við framselt vald til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að taka bindandi ákvarðanir fyrir Ísland."

Þorsteinn reynir að kenna ESB til víðsýni og alþjóðasamstarfs á borð við S.þ.  Algerleg fáránlegur samanburður að bera saman þröngt hagsmunabandalag fárra ríkja við alþjóðasamstarf um heimsmál svo gersamlega máttlaust bandalag sem ESB er til annars en að ræða prósentur.

"...Skemmst er frá því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir að forsætisráðherra fengi að efna þessi áform. Ísland eitt Norðurlanda Málið snerist ekki um inngöngu í Evrópusambandið."

Þorsteinn reynir að nugga Sjálfstæðisflokknum upp úr að vera á móti breytingum á stjórnarskrá.

Hvernig geta menn krafist breytinga á stjórnarskrá þegar engin brúkleg tillaga liggur fyrir?  Tillaga  Þorvaldar Gylfasonar og ámóta flautþyrla úr Stjórnlaganefnd getur hvergi talist nothæft plagg ,slík hundrað blaðsíðna hrákasmíði um aukatriði sem það er og því algerlega ónothæft sem umræðugrunnur að alvöru stjórnarskrá.

" ...Sniðganga Á sínum tíma stóðu harðar deilur um það hvort EES-samningurinn stæðist stjórnarskrá....Enginn samningur hefur aukið athafnafrelsi fyrirtækja og einstaklinga í jafn ríkum mæli eins og EES-samningurinn. Það á líka við um menntir, vísindi og skapandi greinar. Þetta víðtæka athafnafrelsi á svo mörgum sviðum er ein helsta undirstaða verðmætasköpunar og velferðar í samfélaginu. Með samningum af þessu tagi eru kjörnir fulltrúar að nýta fullveldið til þess að tryggja landsmönnum, einstaklingum, félögum þeirra og fyrirtækjum meira athafnafrelsi inn á stærra markaðs- og menningarsvæði en lögsaga okkar nær til. Það er verið að færa út kvíar fullveldisins í þágu fólksins."

Hér birtist hið blinda trúboð á allt sem viðkemur ESB og ESB.

Þorsteinn Pálsson var í hópi þeirra stjórnmálamanna landsins sem harðast gengu fram í að binda það í reglugerðir og bönn.

Linun varð óhjákvæmileg með upptöku EES sem varð því nokkur frelsun frá hans eigin afturhaldi sem var lengi búið að þjaka þjóðina.

"..Miðflokkurinn virðist líta svo á að Ísland eigi að draga sig út úr fjölþjóðasamstarfi, sem ekki samrýmist þrengstu túlkun á óbreyttri stjórnarskrá. Innan Sjálfstæðisflokksins hefur þessum sjónarmiðum vaxið ásmegin og þau fengið aukið vægi á framboðslistum..."

Hver tillaga um endurskoðun á EES er túlkuð sem óþjóðhollusta. Engin gagnrýni er leyfð. Sjálfstæðisflokkurinn skal rægður við hvert fótmál.

Svo kemur trúarjátningin sjálf:

"... Full aðild að Evrópusambandinu myndi svo þýða meira athafnafrelsi og öflugri viðspyrnu í verðmætasköpun, menningu og listum. Til dæmis opnuðust tækifæri til frekari vinnslu sjávarafurða. Slík skref til ríkara athafnafrelsis einstaklinga verða þó ekki að veruleika nema þjóðin vilji það sjálf og taki um það ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu...."

Tveggja stoða kerfið hefur ekki einu sinni tryggt Íslendingum fullt tollafrelsi fyrir sjávarafurðir til jafns við Norðmenn. Við vitum hinsvegar að það þýðir ekkert að kvarta.

Þorsteinn er auðvitað fúll yfir að vera áhrifalaus að telja í stjórnmálum fyrir utan þessar trúboðsritgerðir í málgagninu og klykkir því út á hefðbundinn hátt:

"Afstaða ríkisstjórnarinnar er að hvorki megi eyða óvissu um ríkjandi samning um aðild að innri markaði Evrópusambandsins né að leyfa þjóðinni sjálfri að ákveða hvort hún vill ganga skrefi lengra í að auka athafnafrelsi borgaranna.

Aðeins breyttur þingmeirihluti getur breytt þessu. "

Sem betur fer breytast skoðanir þjóðarinnar á inngöngu í þetta tollabandalag 27 ríkja gegn hinum hundrað ríkjum heimsins eða svo, upptöku EVRU og herskyldu í Evrópuhernum lítið þótt  draugsröddin drynji reglulega úr haugnum. 

 


Er hægt að geyma fisk í sjónum?

og veiða hann þegar hann hefur stækkað?

Íslendingar hafa lifað eftir þessu sem staðreynd allt frá upphafi kvótakerfisins í nær 4 áratugi.

Þetta hefur okkur verið sagt að sé vísindaleg aðferð sem skili aukinni arðsemi fiskveiðiauðlindarinnar.

En hefur þetta reynst rétt?

Útkomna þorskveiða á þessu tímabili bendir ekki til þessa. Þvert á móti virðist þorskveiði hafa minnkað og fiskur smættast. 

Jón Kristjánsson hefur lengi haldið því fram að þessi stefna, sem Hafró stjórnar, sé röng. Hann hefur um árabil rannsakað stofnstærðir silungs í ám og vötnum. Niðurstaða hans er sú að stór hrygningarstofn sé ekki endilega ávísun á mikið magn af fiski. Fiskurinn aféti og undanéti sig og einstaklingar nái ekki þroska.

Jón skrifar í Bændablaðið svofellda grein um þetta grundvallarmál í Bændablaðið 8.júlí 2021:

"Nýlega ráðlagði Hafró 13% lækkun þorskkvótans en að þeirra mati hefur þorskstofninn minnkað um 22% ára, ekki verði veitt meira en 222.373 tonn af þorski á fiskveiðiárinu 2021/2022. Sögðu að stofninn hefði verið vanmetinn undanfarin ár og nú þyrfti að bregðast við því. Stofnunin sagði að ef „sveiflujöfnun í aflareglu“ hefði ekki komið til hefði ráðgjöfin lækkað um 27%. Það er því útlit fyrir meiri lækkun næsta ár. Árátta Hafró að vera sífellt að endurmeta stofninn aftur í tímann er stórfurðuleg. Skil ekki að þetta skuli leyfilegt. Þessu má líkja við að birgðastjóri í vöruskemmu uppgötvi að birgðirnar hafa minnkað síðan í fyrra. Þá heldur hann því fram að hann hafi vanmetið þær árið áður þegar raunin var einfaldlega sú að það hafði verið brotist inn og stolið úr skemmunni.

Þrátt fyrir mikla gagnrýni á undanförnum árum tekur Hafró ekki tillit til vistfræðilegra breytinga eins og breytilegs fæðuframboðs, brotthvarfs makríls, mismunandi stærðar loðnustofns, afráns, sjálfáts og fleiri þátta, sem hafa áhrif á stofnþróun þorsks og annarra botnfiska, hvað þá að þeir taki tillit til aflabragða sem núna eru með eindæmum góð.

Þeir halda sig við reikniformúlur og nærri hálfrar aldar hugmyndafræði sem hafa valdið því að þorskafli er varla hálfdrættingur þess sem hann var áður en þeir tóku upp „vísindalega stjórnun fiskveiðanna.“

Ráðherra samþykkti nýlega þessar tillögur Hafró og rök hans vöktu mér óhug vegna þess að nú er svo komið að ráðherrann segist ekki geta farið á svig við Hafró vegna vottana frá erlendum aðilum sem hafa miklar þýðingar fyrir íslenskan sjávarútveg. Með öðrum orðum, þá ráðum við Íslendingar ekki lengur hvernig við nýtum okkar eigin fiskimið. Orðrétt var haft eftir ráðherranum: „...að það séu vonbrigði að þurfa að grípa til skerðinga, [...] „en ástæðan er meðal annars sú að tveir árgangur innan viðmiðunarstofnsins eru litlir. Við þær aðstæður kemur hins vegar ekki til greina að falla í þá freistni að láta skammtímasjónarmið ráða för og fara gegn hinni vísindalegu ráðgjöf með tilheyrandi óvissu um meðal annars vottanir sem hafa mikla þýðingu fyrir íslenskan sjávarútveg.“

Ég hef gagnrýnt aðferðir Hafró í gegn um árin og að þessu tilefni endurbirti ég hér 13 ára grein (Brimfaxi janúar 2008) þar sem farið er yfir árangur af fiskveiðistefnunni og kennisetningarnar að baki henni. Ekkert hefur breyst, stjórnmálamenn hlýða og fréttamenn eru hættir að spyrja spurninga.

Hernaðurinn gegn sjávarútveginum

Aðförin að sjávarútveginum heldur áfram, því enn berast neikvæðar niðurstöður frá Hafró um þorskstofninn. Niðurstöður haustralls voru kynntar í byrjun desember og reyndist vísitalan hafa minnkað um 20% frá í fyrra. „Þetta er svipað og við bjuggumst við,“ sögðu snillingarnir. Ekki hafa verið veidd nema tæp 200 þús tonn, svo vöxtur í stofninum er enginn. Hann nær ekki að framleiða nóg til að standa undir veiðinni við þessa litlu sókn, hvað þá að vaxa.

Ein skýringin er sú makalausa setning að „nú eru lélegir árgangar að bætast í veiðistofninn“! En hvað með hina árgangana sem voru þar í fyrra? Maður skyldi halda að þó lítið bættist við eitthvað ætti það samt að stækka.Vöxtur þess sem var til áður en lélegu árgangarnir bættust við er því minni en enginn. Svona röksemdir eru endaleysa.

Furðulegast af öllu er að ráðamenn skulu leyfa Hafró að halda þessari niðurrifsstarfssemi áfram endalaust. Nú sitja í ríkisstjórn 2 ráðherrar sem áður hafa lýst mikilli vantrú á ráðgjöf Hafró, en þeir hafa nú snúist um 180 gráður og beygja sig í duftið. Annar er ráðherra sjávarútvegs en hinn ráðherra byggðamála.

Þetta vekur upp spurningu um hvað valdi þessari hlýðni við "vísindin" og hver RAUNVERULEGA stjórni þessu. Það er ekki aðeins verið að valda tjóni á Íslandi heldur riðar sjávarútvegur til falls víðast í hinum vestræna heimi. það er verið að búa til hungursneyð með því að banna mönnum að sækja sjó.

Sagan

Það er búið að gera tilraun til að byggja upp eða stækka þorskstofninn með því að draga úr veiðum.

Tilraunin hefur staðið í 30 ár. Árangurinn er að afli á næsta fiskveiðiári verður aðeins fjórðungur af því sem hann var þegar tilraunin hófst. Í byrjun var lofað skjótum árangri, 400 - 500 þús tonna jafnstöðuafla úr stofninum.

Í stórum dráttum var farið eftir ráðgjöfinni, möskvi var stækkaður og það leiddi til mjög minnkaðs veiðiálags á smáfisk, sem var ætlunin. Sérstakar aðgerðir til verndar smáfiski, sem unnt var að fara í þegar Bretar yfirgáfu miðin 1976, reyndust mjög vel. Þannig var veiðistofn í byrjun tilraunar miðaður við 3 ára fisk og eldri en þegar frá leið breyttist þetta í að vera 4 ára og eldri. Þarna tókst vel til, afli fór vaxandi. Þrátt fyrir s.k. skrapdagakerfi sem tekið var upp til að hemja af þorskaflann, fór hann í 465 þús. tonn 1981.En galli varð á gjöf Njarðar því fljótlega dró úr vexti og afli féll um tæp 200 þús. tonn milli áranna 1981 og 1983.

 

Þegar þarna var komið hefðu menn átt að sjá að tilraunin hafði misheppnast og hugsa sinn gang. Mikil gagnrýni á þessum tíma fólst í að í stað þess að skera niður, ætti að auka veiðarnar til að koma á jafnvægi í fæðubúskapnum.

En sérfræðingarnir voru staðfastir, niður skyldi skera og ráðherrann stóð með þeim. Kvótakerfið sett á svo unnt væri að takmarka enn betur aflann því menn skýrðu aflabrestinn með ofveiði. Fyrstu árin var farið nokkuð fram úr ráðgjöf og afli fór aftur vaxandi, stofninn hafði minnkað og fæða aukist. Tveir mjög stórir árgangar fæddust upp úr þessu stofnhruni, árgangarnir 1983 og 84, tveir stærstu samliggjandi árgangar sem fram hafa komið í sögunni.

Merkilegt nokk fóru tillögur Hafró hækkandi þrátt fyrir að farið væri fram úr ráðgjöf á hverju ári. Árið 1987 var séð hvert stefndi. Flóar og firðir fyrir Norðurlandi fylltust af horuðum svöngum smáþorski sem m.a. hreinsaði rækjuna úr Skagafirði, Öxarfirði og Húnaflóa á einum vetri. Silunganet sem lögð voru í Fljótavík fylltust af þorski en enginn veiddist silungurinn. Horaður smáþorskur sem minnti helst á skiptilykla, var uppistaðan í togaraaflanum við Vestfirði, þrátt fyrir stækkaðan möskva í trolli.

Þessir árgangar, 83- og 84- entust illa í afla, komu ekki fram sem stórfiskur m.v. hve þeir mældust stórir sem ungviði. Skýring Hafró var að þeir hefðu verið veiddir gegndarlaust, stútað með ofveiði. Miklu sennilegri skýring er að þeir hafi drepist úr hungri. Sem dæmi um magnið má nefna að árgangur 1983 mældist 6 sinnum stærri en meðaltal árganga 19862003 sem 2 ára fiskur. Saman mældust 83- og 84- árgangarnir, þegar þeir voru 2 ára svipað stórir og þeir 11 árgangar samanlagðir sem eftir komu! (tafla 3.1.11. í Ástandsskýrslu 2007). Summan af þeim 3 ára var stærri en summa næstu sex árganga þar á eftir. En þeir hurfu út í myrkrið, brunnu upp í hungri sem stafaði af vanveiði.

Kenningarnar

Hafró hefur komið sér upp nokkrum kennisetningum fram og heldur í þær dauðahaldi. Þegar að er gáð standast þær hvorki nánari skoðun né heldur reynslu. Segja má að hugmyndafræði Hafró brjóti í bága við náttúrulögmál, almenna vistfræði og reynslu.

Skoðum kennisetningar þeirra nánar:

1. Hrygningarstofninn þarf að vera stór til þess að hann gefi af sér góða nýliðun

Sé stærð hrygningarstofns og nýliðun þorskstofnsins er sett upp í tímaröð kemur annað í ljós.

Þegar hrygningarstofninn vex þá minnkar nýliðun. Þegar hrygningarstofn fer minnkandi þá vex nýliðun.

Þetta er í hróplegu ósamræmi við það sem Hafró heldur fram. Þetta öfuga samband má skýra þannig að þegar hrygningarstofn er stór, er heildarstofn einnig stór og hvorki þörf, pláss né matur fyrir ungviði. Það hefur takmarkaða möguleika til uppvaxtar og er oft étið af stærri fiski. Þetta er hin sjálfvirka stjórnun stofnsins á sjálfum sér.

2. Mikilvægt er að friða smáfisk svo hann nái að stækka og fleiri verði stórir

Reynslan hefur leitt í ljós að þetta hefur ekki gengið eftir.

Friðun smáfisks veldur auknu beitarálagi á fæðudýr, þau eru étin upp áður en þau ná að gagnast stærri fiski. Stærri fiskur þarf því að velja um að svelta eða éta undan sér. Hvort tveggja virðist gerast. Árið 1998 var ástandið svona, horaður fiskur með lítið annað en eigin ungviði í maga. Enda minnkaði stofninn þá snögglega, þvert á væntingar því á þessum tíma taldi Hafró að uppbyggingin væri að skila sér og bætti í kvótana. Eftir að stofninn minnkaði var þetta skýrt með „ofmati“ í fyrri mælingum. Einkennilegt hjá heimsliði í ralli eins og þeir mátu sjálfa sig á þeim tíma.

Mikið var veitt hér af smáþorski allt fram að því að útlendingar fóru af miðunum og unnt var fara að „stjórna“ veiðunum. Dæmi um þetta er veiði Breta á sjöunda áratugnum en þá voru rúm 50% afla þeirra að fjölda til við eða undir núverandi viðmiðunarmörkum.

3. Fiskurinn þarf að fá frið til að hrygna

Stuðlað er að þessu með s.k. hrygningarstoppi, þ.e að veiða ekki á hrygningarslóð um hrygningartímann og til öryggis kringum allt land í einhverjar vikur.

Til er að svara að fiskur hrygnir hvort sem hann fær „frið“ eða ekki. Fiskur í slíkum hugleiðingum er yfirleitt ekki að hugsa um hvað gerist í kringum hann. Þeir sem hafa fengist við lax- eða silungsveiðar þekkja slíkt vel. Tíðkast hefur frá alda öðli að herja á hrygnandi fisk, m.a. vegna þess hve auðvelt er að ná honum þegar hann safnast saman til hrygningar og er lítt var um sig. Áður fyrr var djöflast á hrygningarfiski án þess að það hefði nokkur áhrif en nú er floti netabáta sem áður stunduðu þessar veiðar að nær engu orðinn.

Áður fyrr var á vertíðinni einni veitt tvöfalt það magn sem nú er leyfilegt að veiða allt árið. Ekki er að sjá að þessi aðgerð hafi nokkru skilað. Því meiri friðun, þeim mun lélegri árgangar, það er reglan. (þetta má auðveldlega skýra, þegar stofninn er stór er ekki þörf á ungviði.)

4. Með því að veiða minna mun stofninn stækka

Reiknimeistararnir á Hafró trúa því að veiðar séu sá þáttur sem mest áhrif hefur á stofninn, hann stækki og minnki í hlutfalli við það sem úr honum er veitt.

Til þess að þjóna þessu hafa þeir búið til „lögmál“ sem er að gera alla áhrifaþætti að fasta, setja náttúruleg afföll 20% á ári. Svo er leitast við að mæla afföllin og allt sem er umfram 20% er skrifað á veiðar. Þetta heitir nú á mannamáli að stinga höfðinu í sandinn og þykir ekki gæfulegt.Sannleikurinn er sá að náttúruleg afföll eru mun meiri en veiðarnar, enda sýna rannsóknir á hrefnu að hún étur tvöfalt meira úr þorskstofninum en Hafró gefur sér sem öll náttúruleg afföll. Þeir sögðu sjálfir frá útreikningum á áti hrefnunnar en settu það ekki í samhengi.

Merkilegt.

 

 

 

Þrátt fyrir svona upplýsingar um þversagnir í „vísindum“, ásamt þeirri bláköldu staðreynd að þorskafli hafi minnkað um 2/3 á tímabili tilraunarinnar gerist ekkert.Stjórnmálamenn virðast alveg hafa tapað glórunni því þeir mæla með auknum fjárveitingum til Hafró. Þarna liggur e.t.v. hundurinn grafinn; allt í fári, meiri rannsóknir, meiri peninga.

 

Stofnanir þurfa nefnilega að viðhalda sjálfum sér. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu, því líklegt er að mikil fiskgengd verði á vertíð í vetur – en engir mega veiða.

Jón Kristjánsson fiskifræðingur"

Á kenningar Jóns hefur ekki verið hlustað enda ganga þær þvert á kenningar Hafró um að stór hrygningarstofn sé ávísun á stóran stofn fiska. Jón segir að þessu sé öfugt farið og niðurstaðan um minnkun þorskstofnsins um 2/3 á tímabili kvótakerfisins viðist benda frekar í þá átt frekar en aðra. 

Í gegnum aldir hefur veiðum verið stýrt með sókn. Menn róa meðan það gefur afla en draga síðan úr sókninni ef ekkert veiðist. Þá nær stofninn sér og afli glæðist á ný.

Leikmanni finnst að tímabært sé að þeirri spurningu sé svarað hvort og hversvegna óbreytt aflamagnsstýring skuli viðhöfð eða hvort megi gera tilraun um kenningar Jóns Kristjánssonar.Hver væri áhættan við þær aðstæður sem ríkja á miðunum þó að til dæmis strandveiðar yrðu auknar tímabundið og varlega að öllu farið?

 

 

Er hugsanlega þrýstingur frá og ánægja með eigendum stærstu kvótanna að ekki skuli veitt meira en gert er til þess að halda uppi verði á kvótanum?  Hagsmunir fjármálakerfisiins. vegi þarna inn í?. 

Albert Einstein sagði að aðeins óskynsamur maður gerði sömu tilraunina tvisvar og byggist við annari niðurstöðu.Niðurstaða fjögurra áratuga tilraunar um að geyma fisk í sjónum til að leyfa honum að stækka áður en hann er veiddur hefur ekki skilað árangri.

Það er greinilega ekki hægt.

 

 


Er París einnar messu virði?

og Vestmannaeyjafyllerí?

Eigum við bara að snúa klukkunni til baka og gefa skít í Kínaveiruna?

Er hún bara ekki komin til að vera til að stöðva mannfjölgunina sem er komin í ógöngur? Verður maðurinn ekki að fara að hugsa sitt ráð í víðari skilningi?

Er París einnar messu virði spurði Hinrik prins á sínum tíma?


Erum við að tapa?

í stríðinu við veiruna?

Í breska þinginu rífast þeir hástöfum núna um þetta. Það virðist vera að aflétting sóttvarna þýði aukna útbreiðslu. En sóttvarnir virðast gera lítið annað en að fresta smitum. Og svo bætast hælisleitendavandamálin ofan á. 

Er ekki einboðið að aflétting sóttvarna þýðir fleiri smit og veikindi. Við erum ekki að ráða við að stöðva faraldurinn. Við þurfum 3. sprautuna hvað sem hræðsluprédikararnir segja.

Erum við að tapa?


Hvað virkar best í pólitík?

hundleiðinleg alvara  Helgu Völu eða grein Óla Björns á miðopnu Mogga í dag svo maður beri eitthvað saman?

Grein Óla Björns endar svona:

"...Þannig birtist Stalín ljóslifandi í draumi Pútíns. „Ég get gefið þér tvö ráð,“ segir Stalín. „Í fyrsta lagi skaltu koma öllum andstæðingum þínum fyrir kattarnef og í öðru lagi mála Kreml blátt.“ „Af hverju blátt?“ spyr Pútín hissa. „Ég vissi það. Þú hefur ekkert við fyrra ráðið að athuga,“ segir Stalín.

Í sovéskum ádeilusögum eru margar tilvísanir í hungursneyðir, Gúlag og hreinsanir.

Hver er munurinn á Indlandi og Sovétríkjunum? Á Indlandi sveltur einn maður fyrir þjóðina. Í Sovétríkjunum sveltur þjóðin fyrir einn mann.

(Gandhi fór í hungurverkfall árið 1932 til að berjast fyrir sjálfstæði Indlands, en á sama tíma herjaði hungursneyð í Sovétríkjum Stalíns sem talið er að hafi kostnað 6-8 milljónir manna lífið). Líkt og í öðrum ríkjum kommúnista er fjöldi sagna frá Póllandi um skort og biðraðir. Þannig voru a.m.k. fimm kílómetrar á milli matvörubúða til að biðraðir kæmust fyrir.

Eitt sinn var Jaruselski (síðasti leiðtogi alræðisstjórnar kommúnista í Póllandi) á ferð um Varsjá í limmósínu þegar hann sér langa biðröð fyrir framan matvörubúð. Hann skipar bílstjóranum að stoppa, skrúfar niður rúðuna og spyr hversu lengi fólkið hafi beðið í röðinni. „Sex klukkutíma,“ er kallað til baka. „Það er hræðilegt,“ segir kommúnistaleiðtoginn, „ég verð að gera eitthvað í þessu.“ Klukkutíma síðar kemur stór vörubíll að búðinni með þrjú hundruð stóla fyrir fólkið. Maður kemur inn í búð í Moskvu og spyr hvort ekki sé til nautakjöt. Afgreiðslumaðurinn hristir hausinn. „Nei, hér eigum við engan fisk. Búðin sem á ekkert kjöt er hins vegar hér beint á móti.“

„Ég vil leggja inn pöntun fyrir nýjum bíl,“ segir vongóður kaupandi í Moskvu. „Hvað þarf ég að bíða lengi?“ „Tíu ár,“ segir sölumaðurinn og bætir við brosandi, „upp á dag“. „Er það fyrir eða eftir hádegi?“ spyr kaupandinn. „Hvaða máli skiptir það,“ spyr sölumaðurinn. „Jú, ég á von á píparanum fyrir hádegi.“

Í Austur-Þýskalandi var hæðst að Walter Ulbricht leiðtoga kommúnista fyrir undirlægjuhátt við Kreml. Á sólríkum degi gekk Ulbricht út af skrifstofu sinni og spennti upp regnhlífina á móti sólinni. „Þú þarf ekki regnhlíf núna, sólin skín og veðrið yndislegt,“ sagði aðstoðarmaður leiðtogans. „Auðvitað þarf ég regnhlíf,“ svaraði Ulbricht höstugur, „það rignir í Moskvu.“

Háð og pólitískar skilgreiningar Óháð landamærum hefur satíra verið notuð við skilgreiningar á mismunandi hugmyndafræði. Sósíalismi: Þú átt tvær kýr. Ríkið tekur aðra þeirra og gefur nágranna þínum. Kommúnismi: Þú átt tvær kýr. Þú gefur báðar til ríkisins sem lætur þig fá dálítið af mjólk í staðinn. Fasismi: Þú átt tvær kýr. Þú gefur báðar til ríkisins sem selur þér síðan mjólk. Kapítalismi: Þú átt tvær kýr. Þú selur aðra en kaupir naut. Þjóðernissósíalismi (nasismi): Þú átt tvær kýr. Ríkið tekur báðar og leiðir þig fyrir aftökusveit. Þessar skilgreiningar eru frá stríðsárunum og eru líklega ættaðar frá Bandaríkjunum.

Síðar bættist við sérstök skilgreining á Rússlandi: Þú átt tvær kýr. Þú færð þér vodka og telur aftur!

Kapítalisti, kommúnisti og sósíalisti ákveða að hittast á kaffihúsi til að fara yfir þjóðmálin. Þeir tveir fyrstnefndu mæta á réttum tíma en sósíalistinn kemur klukkutíma of seint. „Fyrirgefið mér félagar, hversu seint ég mæti,“ segir sósíalistinn móður. „Ég þurfi að bíða í biðröð eftir pylsum.“ „Hvað er biðröð?“ spyr kapítalistinn undrandi. „Hvað er pylsa?“ spyr kommúnistinn.

Svo er það gamla konan sem sagðist ekki hafa áttað sig á því hversu kalt væri í veðri fyrr en hún sá sósíalista með hendur í eigin vösum. Skóladrengur skrifaði eftirfarandi í vikulegri ritgerð: „Kötturinn minn eignaðist sjö kettlinga. Þeir eru allir kommúnistar.“ Viku síðar skrifaði sá stutti í nýrri ritgerð: „Allir kettlingarnir eru orðnir kapítalistar.“ Þegar kennarinn las þessa staðhæfingu kallaði hann á drenginn og vildi fá að vita hvers vegna allt hefði breyst svo snögglega: „Í síðustu viku sagðir þú að allir kettlingarnir væru kommúnistar, en í þessari viku eru þeir allt í einu orðnir kapítalistar?“ Drengurinn kinkaði kolli: „Það er rétt. Þeir opnuðu augun í þessari viku.“

Draumaríkin

Um 1950, þegar flest lönd heimsins voru að jafna sig eftir hrylling seinni heimsstyrjaldarinnar, var Venesúela meðal ríkustu landanna. Landsframleiðsla á mann var sú fjórða mesta í heiminum. Árið 1982 var Venesúela enn auðugasta land Suður-Ameríku. Eftir að sósíalistar komust til valda 1998 hefur hallað undan fæti og draumaríkið komið að hruni. Gamall maður kemur inn í matvörubúð í Caracas, höfuðborg Venesúela. Eftir að hafa beðið þolinmóður í biðröð töluverða stund komst hann að búðarborðinu þar sem kaupmaðurinn stóð. „Ég þarf eina flösku af matarolíu, eina fernu af mjólk og kaffipakka,“ segir gamli maðurinn. Kaupmaðurinn hristir dapur höfuðið og segir afsakandi að því miður sé ekkert til af því sem beðið er um. Gamli maðurinn snýr vonsvikinn við og fer út úr búðinni. „Matarolía, mjólk, kaffi,“ segir næsti viðskipavinurinn hneykslaður. „Sá gamli er greinilega ruglaður.“ Kaupmaðurinn horfir hugsi á þann hneykslaða en segir síðan: „Já, kannski, en mikið hefur hann gott minni.“

Englendingur og Frakki eru á listasafni og standa fyrir framan málverk af Adam og Evu með epli í aldingarðinum. Sá enski hefur orð á því að Adam deili eplinu með Evu líkt og sé háttur enskra. Frakkinn bendir á hversu óþvinguð þau eru í nekt sinni líkt og þau séu frönsk. Flóttamaður frá Venesúela heyrir tal félaganna og segir: „Fyrirgefið að ég skuli trufla ykkur, caballeros, en Adam og Eva eru greinilega bæði frá mínu ástkæra föðurlandi. Þau eru án klæða, hafa lítið sem ekkert að borða og þeim er talin trú um að þau séu í Paradís.“

Leiðtogi annars draumaríkis vestrænna sósíalista, Fídel Kastró, fór beint að Gullna hliðinu eftir dauðann og smeygði sér inn. Lykla-Pétur var hins vegar á vaktinni og henti honum út. Kastró fór þá til helvítis þar sem skrattinn tók honum opnum örmum. Þegar kommúnistaleiðtoginn hafði orð á því að hann hefði gleymt farangrinum í himnaríki sagðist skrattinn redda því. Tveir púkar myndu ná í farangurinn. Púkarnir leggja strax af stað en þegar þeir koma að Gullna hliðinu er það harðlæst. Þeir ákveða því að klifra yfir hliðið. Tveir englar horfa á púkana komast yfir hliðið og annar þeirra segir: „Ja hérna, Kastró er ekki búinn að vera fimm mínútur í helvíti og við erum þegar byrjaðir að fá flóttamenn.“

Hvort finnst manni skemmtilegra að lesa?

Kemur hinn óbærilegi léttleiki tilverunnar eitthvað inn í hegðun manns í kjörklefanum? Já, ég held það. Helga Vala er sjaldan skemmtileg finnst mér en Óli Björn stundum,Þorsteinn Pálsson, Gunnar Smári eða Inga Sæland eiginlega aldrei.

Það virkar áreiðanlega eitthvað í pólitík.

 


Fagnaðartíðindi

sem fór ekki mikið fyrir í fréttum:

"AUSTURLAND

Vinna að hönnun Fjarðarheiðarganga, bæði jarðganga og aðkomuvega, er á áætlun og miðað er við að henni verði lokið vorið 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þar segir að áætlað sé að verkið verði boðið út síðsumars 2022 og að undirritun við verktaka gæti farið fram snemma árs 2023.

Gangagröftur gæti þá hafist um haustið 2023. Göngin verða yfir þrettán kílómetrar að lengd og mun framkvæmdin taka langan tíma, en áætlað er að verkinu verði að fullu lokið 2034.

Áætlaður heildarkostnaður við gerð Fjarðarheiðaganga mun nema um 35 milljörðum króna. â– "

Margt mætti fara hægar en þetta þjóðþrifaverk sem mun gerbreyta allri aðstöðu á Austjörðum. Það ætti að vera löngu byrjað eða búið, slíkur farartálmi sem þessi Fjarðarheiði er búin að vera.

Mér finnst að það ætti að bjóða fjármögnunina út í einkaframkvæmd, það hlyti að finnast grundvöllur fyrir slíku þegar hagnaðurinn af göngunum er reiknaður.

Af hverju þessi snigilsferð? Drífum í þessum fagnaðartíðindum strax.  

 


Þörf hugvekja

kemur frá Einari S. Hálfdánarsyni í Morgunblaðinu í dag. Þar vekur hann athygli á þeirri hættu sem stafar af fyrirhyggjuleysi þeirra sem vilja hafa og hafa landamæri Íslands galopin fyrir hvaða hlaupastrákum sem eru.

Það þarf ekki lengi að skyggnast um á götum til að sjá árangurinn af þessari stefnu eða stefnuleysi.Hvarvetna fjölgar plastpokafólki sem er greinilega ekki upprunnið hérlendis.Þetta fólk gerir stór innkaup í Bónus og greiðir af digrum rúllum af íslenskum bánkuseðlum hvaðan sem þær nú koma.

Sema Erla Serdar er framarlega í hópi þeirra sem gelta hátt hvenær sem einhver vill andæfa opnum landamærum og flytja réttlaust fólk aftur til síns heima í stað þess að leggjast á okkar viðurkenndu takmörkuðu  velferð.

Einar skrifar:

"Samfylking og Píratar krefjast opinna landamæra. „Mannvonskan sem hefur viðgengist gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd undanfarin ár sýnir að núverandi stjórnarflokkum er ekki treystandi til að leiða það verkefni.“ Mannvonskan sem þingmannsefnið vísar til er sú að fara að alþjóðlegum lögum og reglum.

Í huga þingmannsefnis Samfylkingar eru fullorðnir karlmenn á besta aldri þeir sem Ísland á að veita fjármunum til sem það hefur til ráðstöfunar. Ekki til barna og kvenna í nauðum sem mesta þörf hafa fyrir þróunaraðstoð. Hver er réttlætiskennd þessa unga þingmannsefnis? Sem betur fer hafa jafnaðarmenn í Evrópu séð ljósið; alls staðar nema á Íslandi.

Sema Erla Serdar er enda helsti leiðtogi Samfylkingarinnar í málefnum svokallaðra hælisleitenda. Hún nýtur aðstoðar fjölmiðla sem hika ekki við að sýna myndir sem virðast sýna fjölda manns þar sem fáeinar hræður eru samankomnar til að mótmæla. Hvað segja „siðareglur“ um slíkt?

Engir lýðræðislega sinnaðir flokkar í Evrópu aðhyllast lengur það sem jafnaðarmaðurinn og forsætisráðherra Svíþjóðar viðurkenndi sem barnalega stefnu. Nema Logi og félagar. – Í gamla daga voru „fræðslufundir“ fastir liðir hjá vinstrinu. Væri það ekki ráð?

Hættan er fyrir hendi

Kjósendur virðast átta sig á að stefna Samfylkingar er ekki gæfuleg eftir að sósíaldemókrötum var þar eftirminnilega úthýst. Erfiðara er að átta sig á Pírötum. Hver er stefnan? Í borginni er stefna Pírata sú ein að vera við völd og hatast við Sjálfstæðisflokkinn (sbr. málflutning Dóru Bjartar, hún á nefnilega ógert að lesa sínar siðareglur). Við sem komum að málum hjá Reykjavíkurborg þekkjum hættuna. Þegar braggaskýrslan kom út, sem orðið hefði banabiti hvers einasta annars stjórnvalds, þá komu RÚV, Stöð 2, Fbl. og Viðreisn meirihlutanum í skjól. Hættan er sú að Samfylking Semu Erlu muni fá sams konar skjól til að galopna landamærin fyrir þeim sem síst þurfa.

Borgaraleg og frjálslynd öfl

Raunverulegt athvarf borgaralegra og frjálslyndra afla er aðeins í Sjálfstæðisflokknum. Auðvitað er Sjálfstæðisflokkurinn ekki einn. Innan flestra annarra flokka er sannarlega öflugt og sanngjarnt fólk. En þannig er það nú einu sinni að aðeins sterkur Sjálfstæðisflokkur getur veitt Samfylkingu og Pírötum öflugt viðnám. Borgarstjórnin í Reykjavík segir allt sem segja þarf.

– Flokkar sem byggja allt sitt á röngum hagtölum um viðskipti við ESB og blekkingum um hag Íslands af evru þarfnast þess að verða upplýstir. Þá mun allt það góða fólk sem þangað var blekkt átta sig. Hinir sem voru í hefndarleiðangri eða unnu sér þar vegtyllur verða eftir.

Já, sem betur fer. Viðreisn þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum.  "

Það er tilgangslaust að kalla eftir ábyrgri afstöðu hjá þessum flokki sem kallar sig Viðreisn sem er ekkert nema flokkur sem ákallar afsal fullveldis landsins sem afrit af Samfylkingunni. En þessir flokkar eru bara eins máls flokkar um þá félegu niðurstöðu að gefast upp fyrir hönd þjóðarinnar að standa á eigin fótum.

Vilja ganga ESB á hönd og taka upp EVRU.Ganga í bandalag ríkja sem hafa allt annan hagfasa en Ísland sem flestum ætti að hafa skilist af sögu síðustu ára.

Það er ömurlegt að lesa niðurlag á grein eftir einhvern Geir Finsson sem er framámaður í Viðreisn sem endar svo greinarstúf í málgagni ESB á Íslandi, Fréttablaðinu,:

"Einn flokkur hefur mælst hæstur allra í kosningavitum þegar kemur að frjálslyndi og auk þess talað fyrir margvíslegum frelsismálum á yfirstandandi kjörtímabili. Sá flokkur er Viðreisn.

Miðað við skoðanakannanir skiptir hvert einasta atkvæði máli upp á það hvort Viðreisn takist að mynda meirihluta um frjálslyndi, framfarir og mannúð án forræðishyggju frekar en áframhaldandi stöðnun.

Í haust getur þú haft áhrif á það með atkvæði þínu"

Að kenna flokk sem hefur aðeins þá einu stefnu að ganga í tollabandalag með 19 Evruríkjum og hernaðarbandalag þeirra í væntanlegum Evrópuher, þar sem Íslendingar yrðu herskyldir með þeim, við frjálslyndi, er þvílíkt öfugmæli að það hálfa væri nóg.

Íslendingar eiga allt undir verslunarfrelsi við heiminn sem telur ein hundrað önnur ríki en þetta klíkusamfélag Frakka og Þjóðverja. ESB hefur svikið EES samninginn með því að viðhalda tollum á okkar varning en við æmtum ekki né skræmtum.Draugsrödd Þorsteins Pálssonar um inngönguna í ESB á hverjum fimmtudegi segir allt sem þarf um forneskju málstaðarins og skort á þjóðlegum metnaði.

Viðreisn? Samfylking? Sami grautur í sömu skál.

Að gera því skóna að Viðreisn sé ávísun á frjálslyndi er í raun öfugmæli ef ekki bara léleg skrítla.

Það er þörf hugvekja hjá Einari S. Hálfdánarsyni að vara við óhöppum sem af þessum  flokki Viðreisn og innflytjendaafritinu Samfylkingunni getur stafað.  


Hver stjórnar lendingum?

og fjölda farþegaflugvéla á Keflavík?

Megum við ekki takmarka fjölda þeirra við getu okkar til sóttvarna? 

Ráðum við ekki daglegum fjölda lendinga slíkra véla?


Óhugnanleg framtíð

ef kjósendur ætla að senda 9 misvitlausa flokka á Alþingi í haust.

Guð hjálpi þjóðinni ef Gunnar Smári og ámóta kónar komast til áhrifa í stjórnmálum.

Það er óhugnanleg framtíðarsýn.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 3418305

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 70
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband