Leita í fréttum mbl.is

Tveir kjarkmenn

, að öðrum auðvitað ólöstuðum, skrifa í Morgunblaðið í dag og vekja athygli mína.

Sá fyrri er Guðni Ágústsson. Það er hressandi gustur af Guðna. Hann er ófeiminn að segja skoðun sína án þess að vera dónalegur upphátt. Það er list að skrifa svona, í rauninni bálvondur og bitur í pólitík, en segja aðeins það sem þarf til að allir skilji.

Guðni er að skrifa um sviðið eftir forsetakosningarnar. Grípum niður aðeins:

" ...Enn berjast Össur og Jóhanna fyrir því að troða okkur inn í Evrópusambandið og hús evrunnar, sem brennur og er að eyðileggja gömul menningarríki. Og Jóhanna hefur því miður Steingrím J. Sigfússon í bandi og óskaplega lætur hann draga sig lengi á asnaeyrunum.

Hann er farinn að minna mig á annan stjórnmálaforingja sem dró flokk sinn á asnaeyrunum árum saman, flokk sem hafði sömu grundvallarstefnu og Vinstri grænir í ESB-málum......"

Því miður valtaði þessi umræddi maður yfir aðra skynsamari menn í þessum flokki. Spaugstofan hjálpaði hinsvegar landsmönnum til þess að sjá í gegnum þennan mann sem hvarf eftir það úr pólitík á opinbert framfæri. Þó ekki fyrr en hann hafði þjónað sjálfum sér og sinni fjölskyldu vel og lengi.

Enn segir Guðni:

"..Ólafur Ragnar Grímsson í stafni og horfir til hafs og er klár á að vísa Icesave í dóm þjóðarinnar í þriðja sinn. Þóra Arnórsdóttir komst aldrei í kosningabaráttunni frá því að vera fulltrúi Icesave-manna og ESB-sinna sem kaus að láta ríkisstjórnina í friði með öll sín ætlunarverk. Hún féll úr hreinum meirihluta niður í 33% fylgi af því að hún sjálf náði ekki að þvo hendur sínar og hafði í kringum sig óða samfylkingarmenn sem sköðuðu framboð hennar...."

Og enn þegar hann talar um ESB:

"....Forseti landsins hefur lýst því yfir að í þessu máli standi hann ekki til hlés eða verði nein »puntudúkka«. Við búum við það í fyrsta sinn að eiga forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ætlar í stórum málum með þau í gegn á hnefanum. Allir forsætisráðherrar urðu á undraskömmum tíma menn málamiðlunar og sátta, nú er þetta með allt öðrum hætti.

Allir flokkar nema kratarnir höfðu frelsi landsins að leiðarljósi alla síðustu öld og voru á móti yfirþjóðlegu valdi. Nú hefur það gerst að Samfylkingin var búin að vinna sína heimavinnu á Alþingi og gera þjóðaratkvæðagreiðslur með lögum frá 2010 aðeins ráðgefandi. Sem sé þjóðin á kannski ekki að eiga síðasta orðið í stærsta og afdrifaríkasta máli Íslandssögunnar á eftir Gamla sáttmála 1262..."

Það er illt til þess að vita að þessi maður hafi verið valtaður út úr pólitík. Svona menn með kýrskýra sýn( lærða beint í fjósinu NB)hefðum við getað notað í Sjálfstæðisflokknum. Guðni geldur þess að hafa farið í vitlausan flokk.

Hann virðist skynja þetta sjálfur þegar hann segir í upphafi greinarinnar:

"...Í þriðja lagi Icesave-andi sem er viljinn til að Íslendingar borgi skuldir einkabanka og óreiðumanna.

Vinstrimönnum hefur aldrei blöskrað að hengja skatta á sína verkamenn, það sjá allir nú...."

Annar kjarkmaður skrifar í Morgunblaðið um óskylda hluti. Björgvin Guðmundsson skrifar um afrek Jóhönnustjórnarinnar og fyrrum leiðtoga sinna sem hann tilbað um árabil hundflatur.

Grípum þar niður:

"....Þær ráðstafanir, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, gerði 1. júlí 2009 til skerðingar almannatryggingum, gengu þvert gegn þessu markmiði almannatrygginganna, sem Ólafur Thors lýsti við stofnsetningu trygginganna. Stór hópur aldraðra og öryrkja var þá sviptur grunnlífeyri.

Það var þá ákveðið að reikna greiðslur úr lífeyrissjóði með tekjum við útreikning grunnlífeyris. Alls urðu 5.210 ellilífeyrisþegar fyrir kjaraskerðingu við þá ráðstöfun."

Og svo kveðjan til leiðtogans ísköld :

"Ekki samrýmdist það markmiðinu um að láta almannatryggingarnar ná til allra án tillits til stéttar eða efnahags. Stór hópur ellilífeyrisþega, sem hafði greitt til almannatrygginga beint og óbeint alla sína starfsævi, var þá strikaður út úr almannatryggingum og hefur ekki fengið krónu þaðan síðan.."

Eftir bráðum 4 ár heilagrar Jóhönnu í ríkisstjórnarforystu er þetta niðurstaðan.

Vonbrigðin og biturðun leyna sér ekki:

"En það er ekki verið að hugsa um að afturkalla kjaraskerðinguna frá 2009 og láta þá aldraða og öryrkja, sem misstu grunnlífeyrinn, fá hann á ný.

Nei, þvert á móti er nú verið að hugsa um að afnema grunnlífeyrinn! Hins vegar er búið að afturkalla tímabundna kjaraskerðingu ráðherra, þingmanna og embættismanna. Þess var gætt, að það mundi ekki dragast.

Ekki má skerða kjör hæstlaunuðu embættismanna og stjórnmálamanna landsins of lengi. En aldraðir og öryrkjar mega bíða. Hvers konar stjórnarfar er það, sem stendur svona að málum. Ráðherrar fá leiðréttingu á sínum kjörum en aldraðir ekki...".

Það er eins með Björgvin og Guðna. Þeir sjá það loks á gamals aldri að þeir voru í vitlausum flokkum. Báðir vitna þeir til Sjálfstæðismanna því að þaðan kom allt það sem rétt reyndist. Það sjá þeir loks á gamals aldri.

Það er engin leið til þess að Björgvin Guðmundssson komist eitt eða neitt með hugsjónir sína innan Samfylkingarinnar. Það ætti honum að vera ljóst best sjálfum þegar hann segir um ellilífeyrisþega:

".... Nei, þeir hafa aðeins eitt úrræði: Kosningaréttinn. Aldraðir og öryrkjar verða nú að bindast samtökum og gera stjórnmálamönnum grein fyrir því, að þeir muni aðeins kjósa þá, sem eru reiðubúnir að leiðrétta kjör þeirra og sýna það í verki.

Alþingiskosningar fara fram innan eins árs. Það er enn tími til þess að ræða við fulltrúa stjórnmálaflokkanna og fá það á hreint hvort þeir eru reiðubúnir að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja. Í því efni duga engin loðin svör. Það verður að vera alveg á hreinu hvernig stjórnmálamenn vilja bæta kjör lífeyrisþega.

Stjórnarflokkarnir geta enn tekið sig á og bætt kjör lífeyrisþega, ef vilji er fyrir hendi. En geri þeir það ekki geta þeir ekki reiknað með atkvæðum aldraðra og öryrkja. ...."

Ég bendi þessum vösku mönnum á skipulagsreglur Sjálfstæðisflokksins. Þar er auðvelt að fá inngöngu til að berjast fyrir mönnum og málefnum. Þar verður ávallt munur að mannsliði.

Tveir kjarkmenn verða alltaf eftirsóttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Magnússon

Bj0rgvin hefur ekert breyzt. Hann var sannorður, einlægur og heiðarlegur í skóla og er það enn. Ekki allir,sem geta státað af því. megi hann lengi lifa.

Geir Magnússon, 5.7.2012 kl. 10:57

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Ekki efast ég um það andartak Geir.

Björgvin var alla tíð hugsjónamaður og er enn og trúði á jafnaðarstefnuna.

En það er þetta með jafnaðarmennskuna og hann Georg Orwell. Sum svínin tala alltaf um að öll dýririn  séu jöfn sen sum séu þó stundum jafnari en önnur.Og þá er venjulega komið að þeim sjálfum.

Ég held að Björgvini svíði það að sjá Jóhönnu svona komna. Hún veldur honum vonbrigðum.

En ég held að hún þyrfti ekki annað en að klappa honum á kollinn einu sinni og hann myndi fleygja sér endilöngum í forina fyrir hana og flokkinn. Það gerir hann áreiðanlega áður en hann tekur höndum saman við íhaldið.

Halldór Jónsson, 5.7.2012 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 3418288

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 63
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband