Leita í fréttum mbl.is

Styrmir stumrar

yfir Sjálfstæðisflokknum að vanda í laugardagsblaðinu.

Ritstjórinn lætur sér fátt óviðkomandi sem varðar þennan ágæta stjórnmálaflokk. Styrmir hefur í gegn um tíðina  lagt fram mjög merkilegan skerf til stjórnmálaumræðu í landinu, skrifað margar bækur og haldið úti Evrópuvaktinni ásamt Birni Bjarnasyni,  öðrum ekki minni kappa á vettvangi stjórnmálaumræðunnar.

Mér finnst Styrmir stundum upplifa sjálfan sig sem einn af megingerendum á pólitískri vegferð þjóðarinnar. Má líka til nokkurs vegar færa þar sem Morgunblaðið hefur lengi verið meginvettvangur skoðanaskipta í stórnmálum. En ritstjórar sjá sjálfa sig kannski fullsterkt sterkt í því hlutverki að vísa veginn fram. Og þá í framhaldi að þeir séu afgerandi í því hlutverki að leggja línurnar í stefnu Sjálfstæðisflokksins hverju sinni. Einhverjir minnast skrifa Styrmis um söglegar sættir þegar hann sá fyrir sér samstjórn Sjáflstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins.

Nú er það Landsfundur Sjálfstæðisflokksins sem er framundan sem verður Styrmir að yrkisefni í Morgunblaðinu á laugardaginn. Hann er búinn að ákveða að Hanna Birna skuli vera varaformaður að búa sig undir framtíðarhlutverk sitt, Kristján Þór skuli vera 2. varaformaður og standa þétt að baki Bjarna Benediktssyni sem formanni.  Annað sé ávísun á tap flokksins.

Allt orkar tvímælis þá gert er. En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að í þeirri sókn sem flokksmenn telja að hann þurfi að vera og því eru óánægjuraddir háværar að eitthvað verði að gera. Skoðanakannanir sýna meira að segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé sá flokkur sem fólk vill síst sjá í næstu ríkisstjórn. Það er eðllegt að fólk spyrji sig hvað valdi. Er það fortíðin? Er það stefnan? Er það samkeppnin? Er það traustið?

Bjarni Benediktsson er með glæsilegri mönnum á velli. Hann hefur líka virðingu og traust vegna framgöngu sinnar og málflutnings. Hann hefur sýnt fram á góða hæfni í málsmeðferð, rökfesti og fylgni. Hvað er þá að?

Bjarni tók ákvörðun um það á sitt eindæmi að skila löglegum framlögum til flokksins til þrotabúa þeirra sem gáfu. Samfylkingin gerði ekkert í sambærilegri stöðu. Hann réði umdeildan mann sem framkvæmdastjóra flokksins á sitt eindæmi og nú er búið að veðsetja Valhöll. Hann samþykkti Icesave lll neð meirihluta þingflokks með ísköldu mati sem kallað var. Það er langt í frá að flokksmenn hafi sætt sig við þetta almennt.

Það er staðreynd að Bjarni tengist viðskiptamálum  fjölskyldu sinnar og honum hefur ekki tekist að sannfæra allan almenning um það að hann hafi ekki verið þar sér til persónulegs ávinnings. Hann er sakaður um að hafa selt bréf sín í Glitni í mars 2008 og forðast tjón einsog Baldur Guðlagsson var dæmdur fyrir að gera. Hann var stjórnarformaður í N1 á tímum sem leiddu síðar til milljarða afskrifta á það félag. Það kemst ekki í gegn að fjölskylda Bjarna tapaði líklega hlutfallslega mestu fé á þessu félagi og að Bjarni gekk ekki eigin erinda. Vafningsmálið heldur áfram að vera endurtekið af andstæðingum flokksins í síbylju. Bjarni hefur gert grein fyrir sínum afskiptum af þessum málum með opnum hætti oftar en tölu verður á komið.

Þrátt fyrir að enginn opinber aðili hafi gert athugasemdir við neitt hvað varðar aðkomu Bjarna þá harpa andstæðingarnir þessi gömlu mál endalaust. Allt þetta hefur áhrif á gengi Sjálfstæðisflokksins, Ég hefði kosið að sjá Bjarna að leggja þessi mál enn einu sinni af krafti fram fyrir  almenning til þess að reyna að opna augu einhverra sem kynnu að vilja sjá. Ég hefði talið  þýðingarmikið að umræða sé tekin um þessi mál nú fyrir Landsfundinn til þess að eyða ekki tíma í þessi mál þar lika. Aðkoma hins reynda blaðamanns og lögfræðings Styrmis Gunnarssonar  að slíkum umræðum myndi skipta máli í því sambandi og styðja við framsetta hugljómun hans um niðurstöðu Landsfundar varðandi forystumálin.

Þjóðarinnar vegna. Sjálfstæðisflokksins vegna. Og líka Bjarna vegna. Því ég trúi því með mörgum flokksmönnum að Bjarni hafi ekkert að fela, hafi engu leynt og hafi hreinan skjöld. Slíkan mann hef ég stutt. En það er ekki nóg ef kjósendur setja þetta fyrir sig.

Það er gott að Styrmir skuli stumra yfir Sjálfstæðisflokknum okkar með svo ljósmóðurlegum hætti. En í kosningum er spurt um hvernig eigi að sækja fylgi og atkvæði.

Yfir því mun Landsfundur Sjálfstæðisflokksins líklega  stumra með Styrmi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 3418408

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband