Leita í fréttum mbl.is

Jón Ólafsson ritstjóri

alþingismaður, skáld,rithöfundur, bókavörður, kennari, var langafi minn og dó 1916, aðeins 66 ára að aldri.

Kristín Guðmundsdóttir Hólakots lék sér sem stelpa við Garðshorn þar sem Jón Ólafsson bjó síðast og hýsti þar Pál skáld sem hann kallaði ávallt albróður sinn þó hálfbræður væru.´Hún sagði við mig, "það var voðalegt skap í honum Jóni". Líklega verið skömmóttur við krakkana.

Jón var stór maður og þéttholda. Hákon dóttursonur hans sá hann stíga á vigt úti í Viðey og minnti að hann hefði verið eitt skippund. 

Jón var heilsuhraustur lengst af.1916 var hann eitthvað lasinn en gekk niður á pósthús að sækja korrespondensinn eins og það hét. Þar hitti hann kunningja sinn sem spurði hvernig honum liði.Jón svaraði:

Höndin skelfur,heyrnin þverr

helst þó sálar kraftur,

sjónin nokkuð ágæt er

og aldrei bilar kjaftur.

 

Daginn eftir var hann dauður úr slagi.

 

Hann hafði áður ort svo um sjálfan sig:

 

Hálfan fór ég hnöttinn kring

hingað kom þá aftur

og átti bara eitt þarflegt þing

og það var góður kjaftur.

 

Kjaftinn notaði hann meðal annars til að koma sér í kunningsskap við Grant Bandaríkjaforseta og fóru þeir á blindafyllerí saman en Grant var forkunnargóður drykkjumaður. Þeir drukku Hvítahúsið þurrt og fóru þá á búllugang. Þeir slöngruðu síðan að Hvítahúsinu aftur en þá vildi Grant ekki hætta en Jón var orðinn ófær. Grant var hinsvegar blankur en Jón átti silfurdollar í vasanaum sem hann lánaði Grant. Hann mun vera ógreiddur ennþá.

En Grant gerði Jón að lieutenant í US Navy og lánaði honum herskip til að sigla á til Alaska og kanna þar aðstæður til að flytja þangað alla Íslendinga sem þá losnuðu við helvítis Baunana sem Jón hataði á þessum tíma. Jón skrifaði svo merka skýrslu á ensku um förina sem varðveitt er í Library of Congress. Ekki varð af landnámi Íslendinga þar en Jón var lengi kallaður Alaska-Jón eftir þetta.

Jón var glæsimenni og átti börn með fleiri konum en eiginkonunni, stakk af frá henni Helgu fögru frá Karlsskála sem hann var kvæntur  með ástmey sinni til Ameríku og átti þar tvo syni sem nefndu sig Austmann, börðust báðir í fyrri heimstyrjöldinni og varð annar þeirra Kristján frægur augnlæknir sem var á heimsþingi þeirra í London 1936.Annar sonur Guðjón varð bóndi í Flóanum. Amma mín Sigríður var ekkert fyrir að tala um þessi systkini sín og ekkert samband held ég að hún hafi haft við Austmanns fólkið þó hún hafi þekkt líklega Guðjónsfólkið og.

Helga fagra frá Karlsskála var ekki á því að láta Jón sleppa svona. Hún var efnuð af pabba sínum honum Eiríki frá Karlsskála sem var stórríkur útgerðarbóndi. Hún fór með börn þeirra Jóns á eftir honum en þá bjó Jón í basli með hjákonunni og hafði nær ekki fé.Hún tók hann til sín en sendi hjákonunni peninga því ekki ætlaði hún að láta "börnin hans Jóns míns svelta".

Þau Jón bjuggu svo saman í Ameríku þar sem amma mín Sigríður ólst upp til 17 ára aldurs í Chicago og fóru þá til Íslands.Hún sagði að þá hefðu göturnar í Chicago verið drullusvað af mold og hestaskít en gangstéttir úr tré. Amma kvaðst aldrei hafa séð eins ömurlega sjón eins og að sigla inn til dimmunnar í Reykjavíku frá ljósunum í Chicago sem þó var nú ekki glæsileg allstaðar.En hún ílentist hér og kenndi ensku í Verslunarskólanum lengi og var uppnefnd "Sigga seina" þar sem hún var ekkert að flýta sér yfirleitt.En hún var gríðarlega öflugur karakter og bar langa vanheilsu elliáranna af mikilli reisn.

Ólafur elsti bróðir hennar varð eftir og lærði tannlækningar og sonur hans á eftir honum. Það er samband við það fólk héðan og koma afkomendur Ólafs m.a. hingað nú í júni í áttræðisafmæli Steinunnar konu minnar. 

Steinunn er fósturdóttir Jóns Pálssonar "Dýra" sem var á Selfossi. Hann var aðdáandi Jóns Ólafssonar og þegar bók Gilsar kom út voru þau að ræða bókina. Steinunn skammaðist út í þennan Jón sem sem hinn versta flagara og sagðist ekkert gefa fyrir svoddan karaktéra. En Steinunn mín sagði þá Dýri, þú verður að athuga það að þessar konur vildu eiga þessi börn með honum Jóni"

Þetta með skapið er líklega rétt hjá Kristínu. Alþingi vildi gera vel við Jón á efri árum hans, þó hann segði þrisvar sinnum af sér þingmennsku og í eitt sinn vegna þess að hann sagðist ekki geta verið undir sama þaki og þeir helvítis hálfvitar sem þar inni sætu. Þeir útveguðu honum því konungskjör sem þingmanni  sem tryggði honum sæmileg eftirlaun og lífeyri.

En Jón hafði verið bókavörður í Chicago í 8 ár og taldi sig vita talsvert um bókasöfn. Hann varð svo vondur þegar landlæknir var skipaður í bygginganefnd Landsbókasafnsins að hann sagði af sér konungskjörinu og þar með eftirlaununum og lifði heldur bláfátækur eftir það.

Jón varð víst ritstjóri fleiri blaða en nokkur annar Íslendingur, nema ef Geir Guðsteins fari að sigla upp áð honum. Hann samdi stafrófskver í 16000 eintaka upplagi í byrjun síðustu aldar sem allir Íslendingar lærðu á.Samdi kennslubók í þjóðhagfræði sem hann kenndi í Verslunarskólanum og Ársæll Valfells hefur endurútgefið.

Jón var skáld gott og samdi til dæmis Máninn hátt á himni skín, hrímfölur og grár.. og vissi því á undan Neil Armstrong hvernig umhorfs var á mánanum. Hann var orðhagur nýyrðasmiður, bjó til dæmis til orðið lindarpenni um Parker penna sem hann seldi þá.Orti auglýsingar í blaðið Reykjavík sem hann gaf út en Ámi umboðsmann eða Björn Jón gefa víst út núna.Maður athugaði ekki að taka nafnið fyrir sig.

Jón var illskeyttur í pólitískum deilum og eignaðist óvini. Sjálfur taldi hann að sér hefði oftar en einu sinni verið sýnt banatilræði útaf skrifum sínum.En hann var allra manna kurteisastur í framgöngu og dagfari en í "pennann má hann aldrei ná það heljarskinn" sagði einn frammámaður um hann.

En það sem var kveikjan að þessu er það að ég fór að hugsa um hvernig sumir menn komast áfram af því að hafa góðan kjaft.

Björgólfur Thor hlýtur að vera slíkur afburðakjaftur. Það hlýtur að þurfa talsvert til að geta nærri því sett Deutsche Bank á hausinn eins og fram kemur í bók Thors "From billions to bust-and back" það gerir líklega enginn venjulegur auli frekar en að kjafta út herskip hjá Bandaríkjaforseta.

Gils Guðmundsson samdi afburða góða ævisögu Jóns sem hann kallaði "Ævintýramaður" en þannig lýsti Jón Sjálfum sér og sínu lífi. Björgólfur Thor er einnig ævintýramaður sem menn hafa gott af að lesa um í áminnstri bók.

Auðvitað ætti ég sjálfsagt að vera megafúll út í þennan Björgólf Thor sem ég er víst í hópmálssókn gegn fyrir þátt hans í að setja Landsbankann á hausinn þar sem ég tapaði ellilífeyrinum rösklega á. En eftir að hafa lesið bókina þá get ég ekki verið vondur lengur Strákurinn er þvílíkur ævintýramaður að ég get ekki annað en dáðst að honum þó ég hafi aldrei hitt hann né séð.

Hinsvegar er íslenska ríkið líklega meiri þjófur en Björgólfarnir samanlagt þar sem þeir svikust um að fara að lögum og láta Landsbankann fara í gjaldþrotameðferð að lögum  og núna þegar hann borgar mestan hluta af kröfunum utan þær sem afglaparnir í slitastjórninni gáfu frá sér, þá fáum við eigendurnir ekki neitt af restverðmætinu. Sem er bara þjófnaður í mínum augum  og Chavez eða Maduro í Venezuela hefðu ekki gert betur að mínu áliti.En skítt með það og það verður að hafa það héðan af nema Bjarni Ben gefi manni einseyring með öllum öðrum landsmönnum sem áttu aldrei neina krónu í bankanum og við tapararnir fáum ekkert umfram að hafa lagt þennan banka fram með málverkunum og öllu.

Nú ætlar þessi Landsbanki sem ég og Björgólfarnir áttum saman  að fara að byggja monthús við Hörpu og á að verða "Samfélagsbanki" sem auðvitað endar lóðbeint á hausnum aftur einsog kratísk skilgreiningin gefur til kynna eftir að einhverjir ævintýramenn framtíðarinnar verða búnir að hreinsa hann út. 

   

 

.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einn besti pistill sem ég hef lesið.

Takk fyri Halldór.

Þú ert snilldarpenni.

M.b.kv.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 18.5.2017 kl. 22:50

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir oflofið Siggi vinur, gaman að þú skyldir hafa gaman af þessu skrifi sem ég datt í hér úiti í Floridu

Halldór Jónsson, 19.5.2017 kl. 01:45

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér bráðskemmtilegan pistilinn, Halldór. Vel ertu ættaður, að vera langafabarn Jóns Ólafssonar og náfrændi Páls, eins uppáhaldsskálds svo margra; og ertu svo af Karlsskálaættinni líka? Einhvers staðar var ég að lesa mjög fín ljóð eftir Jón um daginn.

Þvílíka hæfileika hefur Jón haft og séntilmennsku að koma sér svona áfram, jafnt hjá Bandaríkjaforseta sem dönsku hirðinni sem hann hafði þó reist hálfgerða níðstöng, ekki satt? - varð nánast útlægur eða landflótta vegna þess, en er svo seinna gerður að konungkjörnum þingmanni! - en skapið alveg óskaplegt, sbr. framhald þeirrar sögu hjá þér! Minnir mig á einn vaskan frænda minn, og megum við nú báðir, Halldór, skapmiklir menn, passa okkur!

Jón Valur Jensson, 19.5.2017 kl. 02:01

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Flott samantekt Halldór. Jón var mikill uppáhaldsmaður Afa og kennari hans en hér á ég handskrifaða bók sem Afi skrifaði eftir upplestur sem Jón hafði auðsjáanlega skipan nemendunum að skrifa.Afi atti ritið og ég núna um Alaska svo þar smitaðist ég svo þú sérð að Jón fór ekki til einskis í Alaska Leiðangurinn.Það er íslensk fjöldaskilda á Kodiak eyju líklega afkomandi eins leiðangursmansins en svo löngu seinna vorum við nokkrir úr fluginu aðalega flugvirkjar sem enn höfum samband.Ég hef alltaf haft þá trú að það hafi verið samin lög vegna væntanlega búsetu Íslendinga í Alaska en Government printing office myndi ekki hafa prentað þessi rit nema það hafi verið einhver samþykkt.      

Valdimar Samúelsson, 19.5.2017 kl. 10:25

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það má bæta við að Jón Ólafsson hafi verið einn af þessum djörfu Íslendingum sem voru æði fáir á þessum tíma.

Valdimar Samúelsson, 19.5.2017 kl. 11:03

6 Smámynd: Kristmann Magnússon

Já gamlí góði Halldór með frábæran pistil og nú veit maður loksins hvaðan hann hefur erft kjaftinn ! ! !

Kristmann Magnússon, 19.5.2017 kl. 12:21

7 identicon

 Það er gaman að ættfræðinni. Þetta var líka skemmtileg grein hjá þér. Móðurafi minn, Guðmundur Bjarnason, kaupfélagsstjóri og bóksali á Seyðisfirði, var heilmikill ættfræðingur, og ég á þéttskrifuð hefti eftir hann full af ættartölum. Í Íslendingabók sá ég, að hann og Jón Ólafsson, ritstjóri og alþingismaður, sem þú ert hér að skrifa um, voru fimmmenningar. Við erum því ættingjar eftir því. Afi minn talaði oft um fólkið á Karlsskála, og nefndi þar sérstaklega konu Jóhannesar Paturssonar, kóngsbónda í Kirkjubæ í Færeyjum, en hún var fædd í Karlsskála á Reyðarfirði. Ég fékk snemma að vita, að hún væri frænka mín. Víða liggja leiðir og þræðir, eins og sést á þessu. Afi minn talaði líka um þá bræður Pál skáld og Jón Ólafsson, svo að ég hef heyrt mikið á þá minnst. Móðurforeldrar mínir þekktu þá bræður báða. Amma mín var ekki síður ættfróð en afi minn, og talaði mikið um Pál skáld, og sagði hann frænda sinn. Hún var nú svo ættfróð, að hver sá, sem kom inn á bernskuheimili mitt, þar sem þau dvöldust síðustu árin sín, og var austfirskrar ættar, þá gat hún rakið ættina strax og fundið jafnvel tengsl milli þeirra afa og viðkomandi persónu. Ég smitaðist af þessum ættfræðiáhuga þeirra og -grúski, enda erfitt að alast upp með svona ættfræðingum, án þess að verða fyrir áhrifum af þeim. Mér skildist alltaf á móðurforeldrum mínum, að þetta hafi verið merkiskarlar, Jón og Páll, fékk líka að heyra það í sagnfræðinámi mínu bæði í MR og HÍ. Svona er Ísland lítið, þegar maður skoðar málin nánar.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 19.5.2017 kl. 12:45

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir öllsömul þessu hlýju orð. Það er gaman að svona margir hafa haft gaman að þessu, satt að segja var ég ekki viss um hvorrt ég ætti að setja þetta inn. En er hættur að efast við þessar jákvæðu undirtektir.

Já Mannsi, kannski erfist kjafturinn sem sjálfstætt gen. Hvaðan hefur þú þinn?

Valdimar, það væri gaman að vita meira um þessa íslæensku fjölskyldu sem þú nefnir. Þeir voru held ég þrír Íslendingarnir sem ferðuðust um Kodial vopnlausir eins og að Grizzlyar væru ekki til.

Það er vont að skrifa athugasemdir á þetta tölvuskrifli mitt því letrið er svo sma´tt að það er ekki hægt að lesa eða leiðrétta

Halldór Jónsson, 19.5.2017 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 68
  • Frá upphafi: 3421093

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 64
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband