Leita í fréttum mbl.is

Frábært afmæli

var haldið í Valhöll um hádegið í dag.

Skipulagið var stórkostlegt og öllum til sóma. Mér þótti sérlega vænt um orð Katrínar Jakobsdóttur um það að Bjarni Beneiktssson  væri einhver besti samstarfsmaður sem hún hefði eignast.

Einhvernveginn er ég grunaður um græsku í flokksmálum, líklega vegna efasemda um O3. Einn gamall flokksbróðir spurði mig beint út:  Þú hér? Ég svaraði að höfuðbólið hefði ekki breytst þó menn hefðu sumir mismundandi skoðanir á búskaparháttum núverandi ábúenda.

Svo greip ég niður í Fréttablaðið  og rekst þar á grein efir formanninn okkar Bjarna Benediktsson.

Hann staðfestir þar með þá skoðun sem ég hef lengi haft að verði henn örlítið meiri tíma í trúboð fyrir sjálfstæðisstefnunni þá væri fylgi annarra flokka í verulegri hættu frá því sem nú er.

En Bjarni segir svo í Fréttablaðinu í dag:

"Hinn 25. maí 1929 ákváðu þingmenn Frjálslynda f lokksins og Íhaldsflokksins að sameina krafta sína í nýjum flokki: Sjálfstæðisflokknum.

Stefnumál hans skyldu annars vegar vera fullt sjálfstæði landsins, og hins vegar að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.(leturbreyting mín)

Fyrra stefnumálið gekk eftir 15 árum síðar og það síðara hefur verið kjarni stefnu Sjálfstæðisflokksins í 90 ár. Með því að standa trúr við grunnstefin sem slegin voru fyrir 90 árum hefur flokkurinn verið brimbrjótur í sókn fámennrar þjóðar úr fátækt til velmegunar.

Oft hefur gefið á bátinn. Aukið einstaklings- og atvinnufrelsi fékkst ekki án átaka. Að koma þjóð úr höftum var barátta. Að berjast gegn afturhaldsöflum kallar á pólitískan kjark.

Forystufólk Sjálfstæðisflokksins hefur skilið hve mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að hræðast ekki opin og gagnkvæm samskipti við aðrar þjóðir – skilið betur en aðrir hve mikilvægt það er að nýta fullveldið til að eiga alþjóðlegt samstarf, hvort heldur er í öryggis- og varnarmálum, í frjálsum viðskiptum, eða á sviði lista og menningar.

Sjálfstæðisflokkurinn hræðist ekki fullveldið heldur vill nýta það til heilla fyrir land og þjóð. Tilvera flokksins byggist á því að rækta sambandið við almenning og eiga við hann erindi. Til þess þarf að slípa og móta hugmyndir í takt við nýja tíma og áskoranir – skapa sýn til framtíðar. Það getur aldrei verið sjálfstætt markmið fyrir stjórnmálaflokk að lifa af í umróti samtímans.

Stjórnmálaflokkur sem hefur engan annan tilgang verður aldrei hreyfiafl breytinga – verður aldrei kjölfesta sem öll samfélög þurfa á að halda. Stjórnmálaflokkur sem er á flótta undan samtíðinni, hræðist breytingar, forðast nýja hugsun og hleypur undan áskorunum framtíðarinnar, mun visna upp. Slíkur stjórnmálaf lokkur hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið. Þvert á móti.

Alþjóðlega sinnaður framfaraflokkur

Markmiðið í upphafi var að Íslendingar yrðu þjóð meðal þjóða. Alþjóðaviðskipti og alþjóðleg samvinna hefur verið og verður einn af hornsteinum sjálfstæðisstefnunnar. Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn rutt brautina fyrir það alþjóðasamstarf sem skipt hefur þjóðina hvað mestu.

Ólafur Thors var forsætis- og utanríkisráðherra þegar Ísland sótti um aðild að Sameinuðu þjóðunum, Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra þegar Ísland gekk í NATO og forsætisráðherra þegar við gerðumst aðilar að EFTA. Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var gerður.

Afstaða okkar sjálfstæðismanna til alþjóðlegrar samvinnu hefur alltaf verið skýr og einörð. Við höfum staðið vörð um fullveldið og nýtt þá möguleika sem sjálfstæðið gefur okkur í alþjóðlegu samstarfi.

Frelsi og stöðugleiki

Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að miklum meirihluta þeirra ríkisstjórna sem myndaðar hafa verið frá stofnun hans. Þannig hefur hann tekið þátt í að skapa skilyrði fyrir samfélag sem á ótrúlega skömmum tíma fór frá því að vera eitt það fátækasta í Evrópu til þess að vera með þeim auðugustu.

Rótgróin trú sjálfstæðismanna á að sterkt atvinnulíf væri allra hagur hefur leikið lykilhlutverk á þeirri framfarabraut. Að aðeins þannig sé unnt að standa undir fyrirheitum um að gefa öllum tækifæri til menntunar, aðgang að heilbrigðiskerfi óháð efnahag og sterkt öryggisnet almannatrygginga fyrir þá sem þurfa á því að halda.

Saga Sjálfstæðisflokksins er samofin atvinnusögu Íslands. Frelsisskrefin hafa verið mörg, sum lítil og önnur stór. Frá því flokkurinn tók aftur sæti við ríkisstjórnarborðið, árið 2013, hefur endurreisn efnahagsmálanna og afnám fjármagnshafta verið í forgangi, samhliða átaki í velferðarmálum.

Ríkissjóður hefur verið rekinn með verulegum afgangi undanfarin ár og skuldir greiddar niður.Ábyrg ríkisfjármál eru undirstaða stöðugleika og veita þjóðarbúinu viðnámsþrótt þegar dregur úr vexti, eins og nýjar hagspár boða.

Með samstilltum aðgerðum hefur skuldastaða heimilanna gjörbreyst – skuldir lækkað og eigið fé aukist. Skattar hafa verið lækkaðir og tollar og vörugjöld afnumin af flestum vöruflokkum. Launafólk hefur meira á milli handanna.

Fram á við er mest um vert að tryggja stöðugleika, frið á vinnumarkaði, súrefni fyrir atvinnulífið og samkeppnishæfni landsins, sem ekki snýst einungis um fyrirtæki heldur líka að fólk velji áfram að búa hér og starfa.

Hugsjón okkar er í eðli sínu einföld, byggð á frelsi einstaklingsins og mannhelgi hans. Við erum þess fullviss að þjóðfélagi verði „ekki stjórnað með oflæti eða orðaskaki,” eins og Bjarni Benediktsson, (eldri) minnti á í áramótagrein í Morgunblaðinu 1965:

„Oft er sagt, og vissulega með réttu, að veðurfar, gróður og fiskigöngur séu ekki að þakka ríkisstjórn.Gamalkunnugt er, að jafnt rignir á réttláta sem rangláta. En ríkisstjórn ræður því, hvernig hún bregst við atburðunum.

Treystir hún eingöngu á forsjá sína og bannar þegnunum að bjarga sér eftir því, sem þeirra eigin vit og þroski segir til um? Eða treystir hún fyrst og fremst á frumkvæði, manndóm og dug borgaranna og telur skyldu sína að greiða fyrir framkvæmdum þeirra, en leggur ekki á þær hömlur og hindranir?“

Breytt pólitískt landslag

Hið pólitíska landslag hefur breyst mikið á 90 árum, en sennilega hafa breytingarnar orðið hvað mestar á undanförnum áratug. Ný framboð koma og fara líkt og dægurflugur. Flokkar eru stofnaðir um eitt mál eða sérhagsmuni ákveðins hóps. Í slíku umróti skiptir miklu að þeir flokkar sem eiga djúpar rætur í sögu þjóðar og breiðan hóp fylgismanna standi í fæturna, en feykist ekki undan í örvæntingarfullri leit að vinsældum.

Sjálfstæðisflokkurinn er ein stærsta fjöldahreyfing landsins. Á landsfundum koma saman fulltrúar allra sjálfstæðisfélaganna, takast á um málefnin, oft duglega, og komast að niðurstöðu sem f lestir geta sætt sig við. Þetta hefur verið aðalsmerki okkar sjálfstæðismanna, að geta tekist á um stefnumálin. Styrkurinn felst í því að virða niðurstöðu meirihlutans og standa þétt saman í baráttunni.

Við, kjörnir fulltrúar flokksins, sækjum mikinn kraft og stuðning í almenna f lokksmenn sem hafa ítrekað sýnt að þegar á þarf að halda stendur þeim enginn á sporði. Það er markmið okkar sjálfstæðismanna að þótt flokkurinn eldist gangi hann stöðugt í endurnýjun lífdaga.

Við treystum ungu fólki til trúnaðarstarfa og teljum mikilvægt að fulltrúar f lokksins endurspegli breitt bakland og fjölbreytileika. Þannig höfum við lagt áherslu á að jafna hlut karla og kvenna í trúnaðarstöðum. Árangurinn á sveitarstjórnarstiginu er sérstaklega ánægjulegur, en alls sitja 57 konur í sveitarstjórnum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, eða um helmingur allra fulltrúa okkar.

Innblástur til góðra verka

Þrátt fyrir nýjar leiðir til samskipta og þá ótrúlegu möguleika sem tæknin býður upp á, er það bjargföst skoðun mín að ekkert komi í staðinn fyrir að geta sest niður með fólki og rætt málin, augliti til auglits. Til þess að geta átt slík samtöl um allt land ákvað þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að fara í hringferð á afmælisárinu.

Við lögðum upp í febrúar og á tveimur mánuðum komum við á yfir fimmtíu staði, hlustuðum á og töluðum við þúsundir einstaklinga um allt land. Þarna fundum við hvað brennur á fólki og tókum með okkur ýmis erindi til baka.

Samgöngur, aðgengi að þjónustu, umhverfismál og atvinnumál voru alls staðar til umræðu og ekki síst ósk fólks um að fá að nýta hindranalaust það frumkvæði og kraft sem býr í því – hvort sem sá kraftur brýst fram í súkkulaðigerð á Vestfjörðum, sögusafni á Norðurlandi, hótelrekstri á Suðurlandi eða á læknastofu í Reykjavík. Þessi ferð hefur orðið okkur innblástur til góðra verka og verður endurtekin hið fyrsta.

Fjölskylduhátíð við Valhöll

Í dag býður Sjálfstæðisflokkurinn til fjölskylduhátíðar milli klukkan 11 og 13 við Valhöll í Reykjavík. Þetta er fyrsti liður af mörgum í afmælisdagskránni sem mun setja svip sinn á þetta ár, en sjálfstæðisfélög um land allt standa einnig fyrir ýmsum viðburðum í dag. Upplýsingar um þá má finna á vef flokksins, xd.is. "

Það verðu erfitt fyrir dægurfluguflokkanna að standast slíkum málflutningi snúning svo að bragð verði að.Þeir munu eiga í vandræðum þegar að næstu kosningabaráttu kemur ef Bjarni Benediktsson beitir sínum orðsins brandi að þeirra innihaldi og er studdur af því orðspori sem af honum fer fyrir heiðarleika og sanngirni og forystumenn samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins sáu ástæðu til að undirstrika í ræðum sínum á afmælishátíðinni í dag.

Hætt er við að þá verði einhverjir sjálfskipaðir keisarar næsta málefnalega fáklæddir þegar allt kemur til alls og börnin fara að spyrja að því sem við  blasir.

En 90 ára afmæli flokksins var frábært og allt skipulag var til til mikils sóma.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslendingar urðu íslenskir ríkisborgarar 1. desember 1918, enda varð Ísland þá sjálfstætt ríki. cool

Og í athugasemdum dönsku og íslensku nefndarmannanna um Sambandslagasamninginn segir meðal annars:

"Um 6. gr. Sjálfstæði landanna hefur í för með sér sjálfstæðan ríkisborgararétt."

Móðurafi minn fæddist hér á Íslandi sem danskur ríkisborgari árið 1899, fimm árum áður en Ísland fékk heimastjórn og varð þá að sjálfsögðu ekki íslenskur ríkisborgari en það varð hann 1. desember 1918 þegar Ísland varð sjálfstætt ríki.

Og dætur hans fæddust sem íslenskir ríkisborgarar á fjórða áratugnum. cool

Þorsteinn Briem, 25.5.2019 kl. 21:04

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland hefur ekki verið hluti af danska ríkinu frá 1. desember 1918. cool

Í athugasemdum dönsku nefndarmannanna um Sambandslagasamninginn 1918 segir meðal annars:

"Ísland myndi samkvæmt þessu verða frjálst og sjálfstætt land [...] og þannig eins og Danmörk sérstakt ríki með fullræði yfir öllum málum sínum [...]".

1. desember 1918 fékk Ísland forræði utanríkismála sinna.

Stefnan í utanríkismálum Íslands var ákveðin af ríkisstjórn Íslands en framkvæmd af dönsku utanríkisþjónustunni í umboði Íslendinga.

Og utanríkismálin heyrðu undir forsætisráðherra Íslands.

Í ágúst 1919 skipuðu Danir fyrsta erlenda sendiherrann á Íslandi, J.E. Bøggild, sem var af íslenskum ættum.

Í ágúst 1920 var fyrsta sendiráð Íslands opnað í Kaupmannahöfn og Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands, var skipaður fyrsti sendiherra Íslands.

Sambandslagasamningurinn 1918:


"7. gr. Danmörk fer með utanríkismál Íslands í umboði þess. [...]"

Og Íslendingar hafa verið íslenskir ríkisborgarar frá 1. desember 1918.

"
Um 6. gr. Sjálfstæði landanna hefur í för með sér sjálfstæðan ríkisborgararétt."

Færeyingar og Grænlendingar
eru hins vegar danskir ríkisborgarar, en ekki færeyskir og grænlenskir ríkisborgarar, enda eru Færeyjar og Grænland enn hluti af konungsríkinu Danmörku og eiga þingmenn á danska þinginu, Folketinget, en það hafa Íslendingar að sjálfsögðu ekki átt frá 1. desember 1918. cool

Þorsteinn Briem, 25.5.2019 kl. 21:10

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eina raunverulega breytingin sem varð samkvæmt stjórnarskránni 1944 var að þá varð forseti þjóðhöfðingi Íslands í stað konungs. cool

"75. gr. ... Nú samþykkir Alþingi breytingu á sambandslögum Íslands og Danmerkur og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna á landinu til samþykktar eða synjunar og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg."

"Þó er óheimilt að gera með þessum hætti nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær sem beinlínis leiðir af sambandsslitunum við Danmörku ..."

Stjórnarskrá Konungsríkisins Íslands með síðari breytingum

Þorsteinn Briem, 25.5.2019 kl. 21:15

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stjórnarskrá Konungsríkisins Íslands árið 1920:

"1. gr. Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn."

Ísland
varð fullvalda og sjálfstætt ríki 1. desember 1918 og Danmörk og Ísland voru frá þeim tíma tvö aðskilin og jafnrétthá ríki, enda þótt þau hefðu sama þjóðhöfðingja. cool

Færeyjar og Grænland
eru hins vegar í danska ríkinu og því engan veginn hægt að tala um "ríkjasamband" Færeyja, Grænlands og Danmerkur, enda þótt Færeyjar og Grænland hafi fengið heimastjórn.

Eins og Ísland var á árunum 1918-1944 er Ástralía sjálfstætt konungsríki, þar sem Elísabet Bretadrottning er þjóðhöfðingi beggja ríkjanna.

Í ríkjum með þingbundinni konungsstjórn er forsætisráðherra höfuð framkvæmdavaldsins og leiðtogi löggjafarvaldsins en þjóðhöfðinginn beitir einungis táknrænu valdi sínu með samþykki ríkisstjórnarinnar. cool

Danmörk, Svíþjóð og Noregur eru öll með þingbundna konungsstjórn.

Í Bretlandi er einnig þingbundin konungsstjórn og Elísabet II. Bretadrottning er nú þjóðhöfðingi Bretlands og fimmtán annarra ríkja í Breska samveldinu, þar sem hún tilnefnir landstjóra sem hefur táknrænt gildi.

Þessi ríki eru því einnig með þingbundna konungsstjórn, til að mynda Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland.

Þorsteinn Briem, 25.5.2019 kl. 21:31

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar frá 1874 og aðdragandi að setningu hennar:"

"Sérstök mótstaða var hér á landi við atvinnufrelsið enda var það talið höggva að undirstöðum hins fábreytta íslenska bændasamfélags þar sem gildandi voru strangar reglur um vistarbönd og vistarskyldu vinnufólks og lausamennska var litin hornauga.

Fyrir setningu stjórnarskrárinnar 1874 hafnaði Alþingi þannig öllum tillögum dönsku stjórnarinnar um afnám hafta á atvinnufrelsinu."

"Að ýmsu leyti gengu tillögur dönsku stjórnarinnar lengra en þær kröfur sem Íslendingar sjálfir gerðu." cool

"Hér á landi var við lýði fábreytt og íhaldssamt bændasamfélag sem tók hugmyndum um ýmis frelsisréttindi borgaranna fremur fálega.

"Þannig voru Danastjórn og fulltrúar hennar í raun þau öfl á Alþingi sem voru helstu boðberar aukins frjálslyndis og ýmissa frelsisréttinda á Íslandi á síðari hluta 19. aldar." cool

(Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Stjórnskipunarréttur og mannréttindi, útg. 2008, bls. 27-30.)

Þorsteinn Briem, 25.5.2019 kl. 21:33

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland var því orðið sjálfstætt ríki löngu áður en Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður. cool

Og vald íslenska ríkisins var framselt til Brussel með aðild ríkisins að Evrópska efnahagssvæðinu fyrir aldarfjórðungi. cool

Og enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar Ísland fékk aðild að Evrópska efnahagssvæðinu 1. janúar 1994 og Schengen-samstarfinu 25. mars 2001. cool

Þorsteinn Briem, 25.5.2019 kl. 21:44

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Til hamingju með 90 ára afmæli flokks þíns, Halldór minn. Vonandi getur hann haldið upp á fleiri afmæli, en til þess þarf að skipta öllum þingmönnum út. Verði þeir boðnir fram í næstu kosningum er útséð um örlög þessa 90 ára stjórnmálaflokks.

Það segir sína sögu þegar formaður þess flokks sem lengst er til vinstri á litrófi íslenskrar pólitíkur telur formann þess flokks sem lengst er til hægri "vera einhvern besta samstarfsmann sem hún hefur eignast". Þar sést hver ræður!

Það er annars leitt að sjá að steini briem hafi yfirtekið athugasemdakerfi þitt. Minnstu munaði að ég léti vera að óska þér til hamingju með daginn, vegna þess.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 26.5.2019 kl. 04:36

8 identicon

Sæll Halldór.

Mátti til með að skjóta þessu á þig
þó utan efnis sé nema ef vera skyldi
í þeim skilningi að aðeins það besta
teljist nokkurn veginn í lagi.
Má vera að þú hafir þegar séð þetta.
Setjum við ekki Nike á þetta?

https://blog.dv.is/arkitektur/tillaga-ad-breytingu-a-notre-dame/

Húsari. (IP-tala skráð) 26.5.2019 kl. 09:38

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Æ, Halldór!

Allt skipulag til mikils sóma?

Glapti þetta svo augu þín og allra viðstaddra, að enginn þorði að minnast á orkusvikapakkann, hvað þá svik formannsins í Icesave-málinu og jafnvel ESB-umsóknar-málinu (sjá Styrmi)??!!

Jón Valur Jensson, 26.5.2019 kl. 10:15

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Höfuðbólið er samt við sig hvað sem einstaka athöfnum ábúendanna lítður Jón minn Valur.Ef framtíðin leggur sæstrengi þá ráðum við hvorugir þeirri ferð og þjóðartekjur af orku geta mögulega stóraukist.Það þýðir ekki að segja endalaust við galileo að jörðin snúist ekki.

Takk fyrir húsari, þetta eru glæsilegar hugmyndir og ég held að kirjan verði enn glæsilegri en nokkru sinni.

Halldór Jónsson, 26.5.2019 kl. 10:22

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Já Gunnar Heiðarsson,

margir góðfuglar verða víst að þola það að Gaukurinn verpi í hreiður þerra því hann kemur engu frá sér öðru vísi. Ég hef verið að vona að heilbrigðiskerfið taki til sinna ráða en það var komið nokkuð gott hlé frá síðustu innrás. Annars hef ég stundum lúmst gaman af sumu og ekki er allt alvitlaust  sem upp kemur. Verst ef að það fælir þig frá því að gera vart við þig því ég met þín skrif alltaf mikils. 

Halldór Jónsson, 26.5.2019 kl. 10:26

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott skipulag er ekki næg meðmæli með flokki leiddum út á villubraut frá landsfundum sínum og jafnvel frá ársgömlum, góðum yfirlýsingum formanns síns. Nógu flott var skipulagið hjá Speer og Hitler á ÓL í Berlín 1936, en ekkert segir það um gæði flokksstefnu þeirra.

Bjarni Ben. er enginn nazisti, en orkupakkastefna forystunnar gengur gegn þjóðaröryggi og engin bót fólgin í vel skipulagðri afmælisveizlu!

Svo lýsi ég hér með eftir Símoni Pétri frá Hákoti!

Jón Valur Jensson, 26.5.2019 kl. 15:02

13 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Gaman að heyra að þú saknir skrifa minna Halldór.

Ástæða þöggunar minnar síðustu vikur hefur sínar skýringar, hef verið að hjálpa syni mínum við sauðburð og jarðabætur frá því í byrjun maí og ekki haft tíma né aðgang að tölvu. Því er ég að rembast við að nota mína þumalfingur til að setja einstaka athugasemd í gegnum símann, en lyklaborð hans er einstaklega lítið og illa gengur. A.m.k. hef ég ekki treyst mér til að rita blogg með þeim hætti, þó löngunin hafi vissulega verið til staðar.

En þetta stendur til bóta, mun væntanlega fá einhvern tíma fyrir framan tölvu aftur innan skamms tíma. Þá mun bullið frá mér aftur vella í stríðum straumi, sumum til ánægju en flestum sjálfsagt nokk sama.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 26.5.2019 kl. 19:54

14 Smámynd: Halldór Jónsson

Gott að heyra Gunnar Heiðarsson. Allar plágur ganga yfir.

Hvað með að fá sér laptop? Það tapast áeiðanlega margar hugmyndir sem koma -og fara ef tafir verða á skriftum. En góðar kveðjur í suðburðinn í sveitinni, settu myndir á næsta blogg.

Halldór Jónsson, 27.5.2019 kl. 12:44

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við þurfum á mönnum eins og þér að halda, Halldór, að verja þjóðina fyrir villuráfandi stjórnvöldum -- ekki að segja já og amen við þeim vegna glasaglaums og flottheita á tyllidögum. 

Ólíkt er álit ykkar Sigmundar Davíðs á atvinnuuppbyggingunni á Austfjörðum, hann vill að Fjarðaál fái áfram raforku á góðum kjörum, en þér virðist sama þótt orkan fari úr landi til að byggja upp iðnað þar og atvinnu. Verkamenn eru mjög vel launaðir í Fjarðaáli, til hagsbóta fyrir sveitarfélögin þar, og hin mörgu störf þar hafa verið mikil örvun fyrir verzlun og þjónustu og annað atvinnulíf á svæðinu.

Að selja rafmagnið "hrátt" úr landi er eins og selja fiskinn héðan óunninn. Aðrar þjóðir myndu njóta, ekki við nema sem hráefnissalar. Raforka okkar á að byggja upp atvinnu og mannlíf á Íslandi, ekki í útlöndum!

"Ef framtíðin leggur sæstrengi þá ráðum við hvorugir þeirri ferð," segirðu, en ég er sammála Styrmi Gunnarssyni, sem ég hitti á förnum vegi nú eftir hádegið, að ef við samþykkjum orkupakkann, þá sé stórskaðlegt að fá hingað sæstreng.

Jón Valur Jensson, 27.5.2019 kl. 15:36

16 Smámynd: Halldór Jónsson

Já Jón Valur, , ég er ekki hrifinn af orkupakkanuim og finnst hann bara bjóða upp á að við förum inn á evrópska samkepnnismarkaðinn. Raforkuverðið mun þá hækka segi ég.En þjóðin fær kannski meira i tekjur í heildina séð.

Sérstaða Íslands  hvað varðar staðsetningu úrvinnslu orkunnar verður ekki söm eftir það.  Þessvegna var ég á móti þessu og er. En ég ræð ekki við það ef ESB liðinu í Viðrien, Samfylkingunni, Pírötum og svo núna í  þingliði Sjálfstæðisflokksins gengur á aðra átt. Enginn má við margnum.

Que sera sera. 

Halldór Jónsson, 27.5.2019 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband