Leita í fréttum mbl.is

Skynsemi

er að finna í grein prófessors dr. Björns Rúnars Lúðvíkssonar í Morgunblaðinu í dag. Hann er að ræða fjárhagsvandræði Landspítalans.

Ég lagðist á gjörgæslu á Florida Hospital í 5 daga. Þjónustan var óaðfinnanleg og allt í toppi. Reikningurinn var 3 milljónir dagurinn.

Ég lagðist svo á gjörgæsluna á Landspítalanum í nær 3 vikur og lífi mínu var bjargað þar eins og í Florida. Reikningarnir eru bara smávegis.Þjónustan og tæknin var ekki síðri og áreiðanlega er kostnaðurinn ekki minni en í Florida.

Hveernig getur það verið að einhverjir embættismenn í ráðuneytunum viti það fyrirfram hvað kostar að reka Landspítalann á næsta ári? Hvað koma margir útlendingar til landsins sem lenda þar inni? Hvað vita þeir um það hvenær ég veikist?

Eina sem pólitíkusarnir gera er að þeir láta þessa embættismenn siga sér til að skamma þá sem eru að framkvæma þjónustuna frá degi til dags.Þessir aðilar hafa ekki hundsvit á neinu sem fram fer á spítalanum.

Ég er ekki á móti því að reynt sé að hagræða. En að þessir aðilar skuli krefjast þess að forstjórinn skuli eiga að knékrjúpa fyrir þessu liði og játa það á sig grátandi og niðurlægður að allt sem hann gerði síðustu ár í skipulagningu sé bull og vitleysa og hann skuli nú hætta því bruðli sem því fylgdi að hafa yfirlækna og svo framvegis og þá verði allt í keyinu? B.S.

Ef að kostnaðurinn á Florida sem er látinn standa undir sér(þeir byrjuðu ekki að tala við mig fyrr en þeir voru búnir að strauja kortið mitt um milljón eða svo)þá ætti að vera auðvelt að margfalda sjúkrahúsdagana á landspítala með 3 milljónum og vita hvað kemur út.

Dr. Björn Rúnar og aðrir sérfræðingar geta væntanlega gert það fyrir okkur. Síðan má spyrja hina útvöldu embættismenn í ráðuneytunum hver sé ástæðan fyrir mismuninum ef einhver verður? Hvaðan komi þeim öll þeirra vizka?

En dr.Björn Rúnar setur fram margt forvitnilegt fram í grein sinni.

Ég get til  dæmis haldið því fram með reikniformúlum Björns að ég sé orðinn mörg hundruð þúsunda dollar virði eftir að það er búið  að framlengja mitt auma líf um mörg ár. En enginn veit betur en ég að útkoman yrði stórkostlegt ofmat þar sem ég er ekki að skila þjóðfélaginu neinu sem nemur og væri því trúlega betur dauður hvað þess hagsmuni varðar.

En ég er enn hér aðeins vegna Landspítalans og læknanna þar.Ég gæti aldrei greitt þann reikning ef hann væri á Florid-skala.

 

Dr.Björn Rúnar skrifar:

"Þorsteinn Víglundsson fer mikinn í nýlegri grein til Fréttablaðsins. Þar heldur hann því fram að framlegð heilbrigðiskerfisins og sérstaklega Landspítalans hafi dregist stórlega saman á undanförnum árum.

Þar sem þingmaðurinn virðist ekki vera nægilega vel upplýstur um hlutverk og stöðu þjóðarsjúkrahússins þá tel ég mikilvægt að benda á nokkrar mikilvægar staðreyndir í ljósi villandi staðhæfinga hans.

Á því tímabili, sem þingmaðurinn tiltekur, hafa gengið í gildi kjarabætur og launaleiðréttingar sem forstöðumönnum heilbrigðisstofnanna hefur gengið erfiðlega að standa undir þar sem óhjákvæmilega auknum útgjöldum vegna þessara samninga hefur ekki verið mætt með sambærilegu fjármagni til reksturs viðkomandi stofnana.

Einnig verður að minna þingmanninn á að tækjakostur þessara stofnanna var fyrir löngu orðinn úreltur, auk þess sem húseignir þessara stofnana voru annaðhvort ónýtar eða stórskemmdar vegna langtíma skorts á fjármagni til eðlilegs viðhalds og rekstrar lífsnauðsynlegs tækjabúnaðar.

Af þessu leiddi að stór hluti þess fjármagns sem þingmaðurinn tiltekur hefur farið í löngu tímabærar viðgerðir og endurnýjun tækjabúnaðar þessara stofnana og sérstaklega Landspítalann, þar sem þeim fasa er hvergi nærri lokið.

Því miður hafa langflestir Íslendingar þurft á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda. Þeim er því flestum vel kunnugt um mikilvægi þess, auk þeirrar framlegðar sem það veitir bæði með beinum og óbeinum hætti inn í íslenskt hagkerfi á hverjum tíma.

Það er gömul mýta að heilbrigðiskerfið sé rekið með halla, staðreyndin er sú að á hverju ári er hægt að reikna út þann gríðarlega arð sem þessi hornsteinn velmegunar og farsældar þjóðarinnar veitir beint inn í hagkerfið. Langflest verk, þ.m.t. viðtalsmeðferðir, lyfjameðferðir, skurðaðgerðir og almennar lýðheilsubætandi aðgerðir, hafa verið ítarlega kostnaðargreind og nær undantekningalaust eru þau rekin með verulegum fjárhagslegum ábata bæði fyrir þann einstakling sem þjónustuna fær og hagkerfið í heild sinni.

Þar er þá undanskilinn hinn félagslegi og samfélagslegi ábati sem bætt heilsa og heilbrigði þjóðar veitir hverju sinni.

Einn af þeim almennu mælikvörðum sem flest alþjóðleg viðmið notast við er s.k. QALY. Þar er gengið út frá að hvert eitt ár sem einstaklingur lifir við eðlilega heilsu án nokkurra inngripa sé 1,0 QALY. Útreikningur á kostnaði hvers árs sem einstaklingurinn nær að lifa þar sem bæði er tekið til lífsgæða og lífslengdar hefur síðan áhrif á útreiknaða útkomu hvers læknisfræðilegs inngrips (þ.e. kostnaður hvers árs).

Þannig hafa orðið til heilsuhagfræðileg viðmið þar sem gengið er út frá því að öll QALY innan þeirra viðmiða skili samfélaginu verulegum fjárhagslegum og félagslegum ábata.

Almennt er gengið út frá því í Bandaríkjunum að meðferðir með kostnaðarhagkvæmni (costeffectiveness) innan USD 50- 100.000 fyrir hvert áunnið QALY skili slíkum markmiðum.

WHO hefur sambærileg skilmerki en þar er miðað við verga landsframleiðslu (GDP) þar sem inngrip sem kosta minna en 3xGDP af höfðatölu séu arðsöm og þau sem séu minna an GDP m.v. höfðatölu verulega arðsöm.

Fjölmargar úttektir hafa verið gerðar á gæðum og afköstum íslensks heilbrigðiskerfis sem undantekningalaust hafa sýnt að þrátt fyrir að heildarframlög til málaflokksins séu eitt það lægsta hlutfall af vergri landsframleiðslu á alþjóðlegum vettvangi sem þekkist þá eru gæði og afköst með því besta sem til þekkist.

Það kom ótvírætt fram í skýrslu McKinsey 2016, sem einnig kom fram í ítarlegri rannsókn um sama mál sem birt var í hinu virta læknatímariti The Lancet 2018. Þar var heilbrigðisvísitala (HAQ index) 195 landa reiknuð út frá gæðum og aðgengi m.t.t. ótímabærra dauðsfalla þeirra sem eru 75 ára og yngri. Þar skipaði Ísland sér í efsta sæti, meðan lönd eins og Danmörk (17. sæti) og Bandaríkin (29. sæti) voru töluvert neðar á listanum.

Það er enn mikið verk að vinna til að bæta enn frekar aðgengi og gæði þeirrar þjónustu sem Landspítalanum er ætlað að sinna. Þar má örugglega gera betur á ýmsum sviðum, sérstaklega er varðar stjórnskipulag og rekstrarfyrirkomulag Landspítalans. Um það eigum við að sameinast, en ekki stunda niðurrifsstarfsemi um það sem vel er unnið þrátt fyrir kröpp kjör.

Þannig hefur undirritaður ítrekað bent á bága stöðu vísinda og kennslu innan þjóðarsjúkrahússins, en þrátt fyrir nokkur jákvæð teikn á lofti er þar enn töluvert verk að vinna eins og áður hefur verið bent á.

Prófessoraráð Landspítalans hefur áður lýst yfir vilja sínum og áhuga á því að aðstoða við áframhaldandi uppbyggingu íslensks heilbrigðiskerfis, almenningi til heilla. Það boð á einnig við alla þingmenn, sem og Þorstein Víglundsson, þó að ekki væri til annars en til aðstoðar við nauðsynlega upplýsingaöflun í þeirra mikilvæga starfi. "

Það togast á pólitísk markmið sem fram koma í einni af fremur fátíðum skynsamlegum greinum sem ég hef séð eftir helgu Völu Helgadóttur í sama blaðinu.

"Ég á mér draum um samfélag þar sem þau sterku styðja þau veikari. Þar sem við stöndum saman undir grunnþjónustu þannig að þau efnameiri borgi fleiri krónur í samfélagssjóðinn. Þar sem sjúklingar þurfa ekki að greiða fyrir þjónustu sína umfram það sem þau greiða með sköttum sínum.

Draum um að sjúklingar þurfi ekki á neinum tímapunkti að hugsa sem svo að þau hafi ekki efni á því að leita lækninga vegna kostnaðarþátttöku. Einhverjir kunna nú að segja að þetta séu engar fjárhæðir, hámarksgreiðsla fyrir læknisþjónustu er rúmlega 26 þúsund krónur á mánuði en verður þó aldrei hærri en tæpar 74 þúsund krónur á tólf mánaða tímabili.

En sá sem enga innkomu hefur vegna veikinda sinna, sá sem veikist skyndilega og þarf áfram að standa skil á öllum sínum reikningum heima fyrir, láglaunafólk sem um hver mánaðamót velur hvaða reikning á að greiða svo börnin verði ekki vannærð um miðjan mánuðinn sem og námsmenn eiga ekki þessa fjármuni. Munum að þetta er fyrir utan það sem þarf að greiða vegna lyfjanotkunar.

Hámarksgreiðsla einstaklings vegna nauðsynlegra lyfja er 62 þúsund krónur á 12 mánaða tímabili. Lífeyrishafar fá einhvern afslátt en munum það að fyrir þann sem ekkert hefur á milli handanna er þetta heilmikill peningur og algjörlega óboðlegt að þurfa að hafa stórkostlegar fjárhagsáhyggjur ofan á alvarleg veikindi. Tökum raunveruleg dæmi:

Ung kona greindist á dögunum öðru sinni með alvarlegt krabbamein. Fjölskyldan inniber fjölda barna sem þarf að sjá fyrir frá degi til dags. Hin unga kona, sem nú hefur lokið töku alls veikindaréttar, hefur frá því í byrjun júlí þurft að greiða á annað hundrað þúsund krónur í heilbrigðisþjónustu og lyf. Á annað hundrað þúsund á tæplega tveimur mánuðum!

Hún þarf því að biðla til vina og kunningja um fjárhagsstuðning, svo henni sé þetta gerlegt. Önnur ung kona, námsmaður í framhaldsskóla, greindist með langvinnan sjúkdóm í byrjun árs. Frá þeim tíma hefur hún greitt rúmar 100 þúsund krónur í lyf, greiningar og vottorð.

Þessir fjármunir koma ekki úr digrum sjóðum hennar né á hún nokkurn kost á aukavinnu eða námslánum. Fjölskyldan þarf nú að finna út úr því hvar draga skal saman seglin til að hafa efni á að fá réttar greiningar og lækningar.

Mér finnst gott að greiða til samneyslunnar svo þeir sem á þurfa að halda séu ekki settir í þau spor að hafa stórkostlegar fjárhagsáhyggjur ofan á alvarleg veikindi.

Ég á mér þann draum að einn dag komi til valda flokkar sem byggjast á jöfnuði og velferð, sem hugsa um það að deila gæðum og létta byrðum af þeim sem eiga erfiðara um vik. Við eigum að sjá sóma okkar í því að koma á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu svo við getum raunverulega staðið undir nafni sem norrænt velferðarríki."

Ég persónulega á mér ekki þann draum að flokkur hennar Helgu Völu komist til valda á Íslandi miðað við reynsluna á efndum draumanna í síðustu samstjórn þess flokks með kommunm. En flokkur hennar er samt að verða stærsti flokkur þjóðarinnar eftir að minn gamli flokkur virðist ákveða að gefa eftir sæti sitt á íslenskum stjórnmálakvarða.

En ég held að það sé jákvætt að reyna að ræða fyrirkomulag og kostnað heilbrigðismála af skynsemi og þeim pólitísku markmiðum sem samkomulag allra flokka virðist vera um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir borgi sem nota, eins og bloggsíðueigandi hefur haldið á lofti. Hvers vegna ætti heilsubolti eins og ég að vera að borga fyrir einhverja aumingja sem hafa eyðilagt heilsu sína með kæruleysi og ólifnaði? Er ekki nóg að ég borgi vegi undir afétandi landsbyggðarlýðinn? 

Vagn (IP-tala skráð) 22.8.2019 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 3418331

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 65
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband