Leita í fréttum mbl.is

Ekki má láta ISAL loka !

Elías Elíasson ritaði grein í Morgunblaðið fyrir skömmu.

Grein has er svofelld:

"Ef ÍSAL verður lokað, hvað þá ?"

 

"En hvar stöndum við, ef álverinu verður lokað ?

Þó [að] móðurfyrirtæki álversins ábyrgist að greiða stóran hluta orkunnar þrátt fyrir rof á starfsemi, þá er ekki gefinn hlutur, að lögfræðingar þess finni ekki leið út úr þeim vanda. Alla vega er varla eðlilegt, að þessi orka verði látin óseld og ónotuð fram til 2036 og Landsvirkjun haldi áfram að reisa nýjar virkjanir, þegar eftirspurn vex, en Rio Tinto haldi áfram að borga allan þann tíma. 

Það verða málaferli og óvissuástand, þar til sú deila leysist, og Landsvirkjun verður að leita nýrra viðskiptavina á meðan; ella veikist staða hennar í málinu.  Með öðrum orðum: orkan fer á markað, hugsanlega brunaútsölu." 

Þarna skýtur Bjarni Jónsson verkfræðingur inn athugasemd sem ég er mjög sammála:

"Þetta er afar mikilvæg ábending hjá Elíasi um atriði, sem Landsvirkjun virðist hafa flaskað á.  Hún getur ekki komið fram, eins og bergþursi, og skákað í því skjólinu, að þótt ISAL verði lokað, hafi hún nánast allt sitt á þurru, þ.e. greiðslur fyrir 85 % forgangsorkunnar samkvæmt núverandi orkusamningi.  Það væri rétt einn fingurbrjóturinn, framinn á þeim bæ, sem hefði mjög slæmar afleiðingar fyrir nærsamfélag Straumsvíkur og reyndar þjóðfélagið allt.  Jafnframt myndu réttarhöld, sem allt stefnir í nú, setja Ísland í óæskilegt ljós í augum fjárfesta, og þurfum við sízt á því að halda nú.  Stjórnvöld verða hér að koma vitinu fyrir stjórn Landsvirkjunar eða að skipta um stjórn. "

"Markaðshorfur með raforku eru allt aðrar nú en þegar samningar við ÍSAL voru undirritaðir 2011.  Af er sú kenning, að orkuverð muni ekki breytast, nema til hækkunar; meira að segja gefa spár nú til kynna, að orkuverð kunni að lækka, ef tækniþróun verður ör.  

Ljóst er orðið, að spár á fyrri hluta þessa áratugar um síhækkandi orkuverð byggðust á óskhyggju og oftrú á stefnuna í loftslagsmálum, en vaxandi vantrúar gætir nú á því, að þær baráttuaðferðir gegn hlýnun jarðar, sem þá var lagt upp með, skili árangri.  Áhættumatið bak við orkuviðskiptin er gjörbreytt." 

Enn gerir Bjarni athugasemd sem ég vil skrifa undir: 

"Forstjóra og stjórn Landsvirkjunar hefur dagað uppi.  Þeim varð á sú reginskissa að misskilja þróunina, að rangtúlka skammtímafyrirbæri sem langtíma þróun.  Vestræn þjóðfélög hafa enga burði til að keppa á mörkuðum heimsins búandi við raforkuverð, sem er úr takti við raunkostnað frumorkunnar og raforkuverð í öðrum heimsálfum.

Þetta þýðir, að hin "klassíska" íslenzka orkunýtingarstefna, sem mótuð var á Viðreisnarárunum (7. áratug 20. aldar), stenzt tímans tönn, en viðvaningar á orkumálasviði, sem yfirtóku Landsvirkjun og að einhverju leyti stjórnsýslu orkumálanna á tímum hinnar mistæku "vinstri stjórnar" 2009-2013,  gleyptu orkupakka ESB hráa og tóku upp einhvers konar spákaupmennsku með raforkuna, sem hefur reynzt atvinnulífi landsins og verðmætasköpun hin versta forsending.  Ný orkulöggjöf frá 2003 og síðan orkupakkar 2 og 3 hafa síður en svo reynzt landinu hjálplegir, enda eru þessir ESB-orkupakkar eins og örverpi í íslenzku umhverfi, hvort sem litið er á orkukerfið eða orkumarkaðinn." 

"Þegar endursamið var við ÍSAL snemma á áratugnum, spáðu sérfræðingar hækkandi orkuverði í Evrópu, sem þó var hátt. Á þessum tíma fór Landsvirkjun að mæla fyrir sæstreng og komst þar með í aðstöðu til að setja viðsemjendum úrslitakosti með hótunum.  Nú hefur dæmið snúizt við.  Orkuverð í Evrópu hefur lækkað, svo [að] sæstrengur er fjarlægur möguleiki, WOW lagði upp laupana, ferðaiðnaðurinn er í bakslagi og loðnan að bregðast í annað sinn.  Eftir samningshörku sína á liðnum áratug getur Landsvirkjun ekki búizt við öðru en hörku á móti, nú þegar dæmið er annað.  

Ekki er að efast um, að Rio Tinto leitar allra leiða til að losna undan verulegum hluta greiðsluskyldunnar með öllum ráðum.  Málaferli skapa óvissu, sem kann að hafa áhrif á lánshæfismat Landsvirkjunar og jafnvel orðspor Íslands, þegar þau komast í fréttir.  Þetta bætist ofan á vinnutap slíks fjölda manna, að um munar í hagkerfinu.  Sú staða, sem nú er uppi, hefur greinilega ekki verið ein sviðsmyndin í áhættumati Landsvirkjunar eða stefnumörkun." 

"Sú stefna, sem er ráðandi í orkupökkum ESB, að allar ákvarðanir fyrirtækja í raforkugeiranum skuli byggjast á markaðsverðum, er óheppileg fyrir Ísland.  Markaðsverð raforku fyrir stóriðju ræðst á alþjóðamörkuðum, og annar markaður hér er lítill og myndar varla orkuverð, sem mark er á takandi.

  Stefnumótun fyrirtækja tekur mið af reglum orkupakka ESB, en ekki þörfum þjóðfélagsins.  Fyrirtæki orkugeirans leitast helzt við að styrkja stöðu sína hvort [hvert á e.t.v. betur við-innsk. BJo] gagnvart öðru og gagnvart stjórnvöldum, fulltrúum eigenda sinna.  Þetta er ekki farsælt til lengdar, og stjórnvöld þurfa að vinna orkugeirann út úr þessari stöðu."

Getum við keypt hlut í álverinu sem hluta af björgunaraðgerðum sem yfir standa?

Getum við tekið ál sem greiðlu fyrir raforku og átt á þjóðarlager?

Er það nokkuð verra en að eiga hlutabréf í einhverjum Asíubanka eða þjóðarsjóði?

Það verður að afstýra því að álverinu í Straumsvík verði lokað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er hugsanlegt að ÍSLAND/LANDSVIRKJUN kaupi ÍSAL álverið?.

Baráttu menn á ALÞINGI gáfu bestu raforkuverð í upphafi til stórfyrirtækis erlendis. Þetta var AFREK á ALÞINGI.

Orkuverðin hækka innan Evrópu. Afrika er lág í verðum, en ekki treystandi?. ÍSLAND er BEST, TREYSTANDI og ÖRUGGT. Þetta snýst ekki um "orkuverðin á ÍSLANDI" heldur vandamál og skattamál margra álfyrirtækja undir sama hatti í mörgum löndum.

Ef allt bregst setjum við orkuna til gróðurhúsa í þúsundum fermetra á Suðurnesjum KEFAP og flytjum út með flugi til stórmarkaða erlendis. 

GÍSLI HOLGERSSON - ICELAND (IP-tala skráð) 18.4.2020 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 3418235

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband