Leita í fréttum mbl.is

Verðandi þingmaður

Villi Bjarna sem allir vita hver er og hver er ekki, skrifar afburða skemmtilega grein í Moggann í dag þar sem söguleg yfirferð yfir það sem okkur Íslendingum hefur áunnist á síðustu áratugum er tíundað.

Mér finnst Villi hinsvegar vera allof áfram um það að þakka EES allt þetta og mér finnst hann í raun vera alltof mikill Evrópusinni, sem getur kostað hann minn stuðning þar sem ég er frelsismaður en ekki tollbandalagsmaður.

Öllu EES dekri er ég óssammála um margt en viðurkenni það það sem hefur áunnist við að það samstarf komst á og dró frá mörgum gardínum hjá okkur.

En það er engin ástæða til að kasta þvi sem er í plús þó að við gleypum ekki allt hrátt sem þaðan kemur af nýjum tilskipunum. Orkupakkarnir  eru hluti af því. Ísland á að sjá tækifærin í öllum heiminum en ekki binda sig við gömlu Evrópu undir alræði Frakka og Þjóðverja. Þar getur skilið með okkur Villa.

En Villi skrifar í dag holla upprifjun á síðustu áratugum:

"Að skapa nýtt í atómstöð hugans.

Öll átök eru á milli tveggja grundvallaratriða, vígvöllurinn liggur eftir öllum löndum og álfum, öllum sjó, öllu lofti, en einkum þó gegnum miðja vitund okkar sjálfra. Þannig er heimurinn atómstöð.

Í umbroti atóma verða til ný frumefni en úrgangurinn endar í því að verða blý, sem til lítils er nýtt. Þessi atómstöð er ávallt að kljúfa upp staðnaðar einingar, sumar einingar hverfa í duftið en aðrar verða lifandi verksmiðjur sem framleiða lífsgæði.

Atómstöð mannsandans og stöðnun

Atómstöð mannsandans er miðstöð sköpunar og þróunar. Samtök sauðfjárbænda og Alþýðusamband Íslands virðast telja það hlutverk sitt að vernda blý og stöðnun. Sauðkindin verður ekki uppspretta framfara og bættra lífskjara.

Það koma undarlegar „ályktanir“ frá Alþýðusambandi Íslands, sem bera með sér sterkan vilja til að viðhalda óbreyttu ástandi í atvinnulífi.

Vangeta og snilldarandi

Í átökum milli grundvallaratriða eru átökin einkum milli vangetunnar og snilldarandans.

Vangetan hefur nokkurt úthald en að lokum lætur hún undan. Ástandið í AusturEvrópu eftirstríðsáranna er dæmigerð vangeta. Á milli Austur- og Vestur-Evrópu var járntjald.

Um járntjaldið var háð kalt stríð í vitund stjórnmálamanna. Ef til vill var það stríð fororð friðar. Járntjaldið féll vegna gjaldþrots, vegna þess að vangetan lét undan snilldarandanum.

Hagþróun

Hagvöxtur á Íslandi hefst með þilskipaútgerð, sem heldur áfram með vélvæðingu bátaflotans og togurum. Sennilega hefur sauðkindin aldrei verið samkeppnishæf við sjávarútveg.

Á mínum fyrstu árum á vinnumarkaði voru 25 togarar gerðir út frá Reykjavík. Nú eru þeir sex og lítið atvinnuleysi. Vill einhver bera saman lífskjör og lífsgæði núna og um 1960? Öll er þessi þróun vegna nýsköpunar. Þá var talað um dýrmætan gjaldeyri, af því gengi krónunnar var ranglega skráð með handafli.

Gjaldeyrir er ávallt jafn dýrmætur og heimagjaldmiðill ef gengi gjaldmiðla er ekki handstýrt. Framleiðsluhagkerfi Reykjavíkur varð þjónustuhagkerfi. Vangeta Bæjarútgerðarinnar í þrjú ár kostaði eitt Ráðhús í Reykjavík.

„Nýja hagkerfið“

Eitt sinn var lausnarorðið „nýja hagkerfið“. Það var ekkert nýtt í nýju hagkerfi. Aðeins er beitt nýjum aðferðum við framleiðslu.

Nýjar afurðir og ný þjónusta urðu eftirsóknarverðar. Frá 1990 hefur kaupmáttur launa aukist um 2,1% á ári og lífskjör batnað eftir því. Ekki varð það vegna aukinna aðfanga!(leturbreyt.bloggara)

1990 er merkilegt ár til viðmiðunar. Það er árið sem járntjaldið féll. Það er árið eftir að múrinn milli austurs og vesturs féll. Þá var Ísland á þröskuldi þess að gerast aðili að „Evrópsku efnahagssvæði“, EES, sem leitt hefur efnahagsþróun á Íslandi á liðnum þremur áratugum.

Hvar á Ísland möguleika?

Það er rangt að spyrja þessarar spurningar. Landið á ekki möguleikana.

Það er fólkið sem byggir landið sem á þá. Það eru tvö augljós heimilistæki sem eru merki framfara og nýjunga: Sjónvörp og tölvur. Sjónvörp kostuðu augun úr fólki fyrir nokkrum árum. Sjónvörp nútímans hefðu kostað húsverð fyrir 30 árum. Tölvur með afkastagetu fartölvu hefðu tekið undir sig heilt hús fyrir 50 árum.

Atvinnustefna íslenskra stjórnvalda fyrir 50 árum kallaðist byggðastefna eða skipulagshyggja. Hún fólst í skuttogaravæðingu og hraðfrystihúsaáætlun og eflingu á atvinnu fyrir ófaglærða og uppbyggingu framhaldsskóla víða um land. Hvað áttu framhaldsskólanemar eftir útskrift úr háskóla að gera í sinni gömlu heimabyggð?

Breyttur sjávarútvegur

Svo breyttust aðstæður í sjávarútvegi. Kaupendur sjávarafurða vildu ferskar sjávarafurðir. Vinnsla uppsjávarfisktegunda fer fram án þess að mannshöndin komi nærri.

Í gömlu frystihúsi í Neskaupstað unnu 200 manns. Í nýju frystihúsi í Neskaupstað vinna 75. Vélin sér beinið betur en mannsaugað og sker betur en mannshöndin. Afköstin eru sennilega fimmföld í því nýja.

Mestur hluti starfsmannanna í nýja frystihúsinu er sérhæft vélafólk og tölvufólk.

Aukinn sjávarafli mun ekki bæta lífskjör á Íslandi. Það kann að vera að lífefnaiðnaður á Íslandi bæti lífskjör. Það verður hugvitið sem bætir lífskjör.

Hlutverk stjórnvalda er að skapa starfsskilyrðin en hugkvæmni einstaklinga mun ráða för.

Heilbrigðismál, vandamál?

Heilbrigðismál eru ekki alltaf vandamál. Grunnþættir heilbrigðismála varða einstaklinginn sjálfan, lifnaðarhætti og forvarnir. En málin geta vandast. Þá kemur til sigurför skurðlækninga, sýkingavarna og ónæmisvarna.

Þegar Bismarck ákvað 70 ára lífeyrisaldur urðu fáir 70 ára. Síðan eru liðin 150 ár. Nú er meðalævilengd Íslendinga komin yfir 80 ár.

Mín kynslóð er sennilega sú fyrsta sem fékk fulla meðferð við háþrýstisjúkdómum. Mín kynslóð fékk strax að vita skaðsemi reykinga. Lækningarannsóknir eru til þess að auka lífsgæði. Þar eiga íslenskir vísindamenn góða möguleika á því að verða að gagni með nýsköpun. Heilbrigðismál verða sambland heilbrigðrar skynsemi og hátækni.

Það kann að vera að íslensk heilbrigðisþjónusta geti orðið útflutningsgrein. Þar eru möguleikar. Þá verða yfirvöld heilbrigðismála að hverfa frá þeirri hugsun að heilbrigðismál snúist um það sem í aðgerðarannsóknum er kallað biðraðavandamál. Biðraðir í mánuði og ár, þegar um heilsu og kvalir er að ræða, eru aldrei ásættanlegar.

Biðraðir í bönkum hættu að vera vandamál þegar útlánavextir urðu jákvæðir raunvextir í stað gjafvaxta. Þá jókst framboð lánsfjár og lán urðu lán en ekki „lánafyrirgreiðsla“ til hinna útvöldu.

Rannsóknir og nýsköpun

Nýsköpun verður aldrei morgunverk. Umhverfi nýsköpunar vex út úr umhverfi rannsókna. Það er álitamál hvort rannsóknum í þágu atvinnuvega, til grunnrannsókna sem kunna að leiða til nýsköpunar, hefur verið nægjanlega sinnt. Þolinmæði til árangurs er ekki mikil.

Íslenskt viðskiptalíf hefur fremur lagt stund á eftirprentun, stundum með örlitlum lagfæringum. Það er ekki nýsköpun.

Hvar eiga íslensk fyrirtæki möguleika? Hvar kunna íslensk fyrirtæki að ná samkeppnisforskoti? Dæmi eru um að sterkur heimamarkaður hafi lagt grunn að frekari vexti.

Þá er hægt að tala um rannsóknir í þróun og nýsköpun.

En eins og skáldið sagði: Fegurst auðlegð manns á Íslandi eru skýin sem dragast saman í flóka og leysast í sundur.

Sá tími er liðinn að aðeins sé hægt að hugsa um kaffi og kvæði."

Ég legg til  eftir þennan ágæta lestur að Villi reyni aðeins að draga frá gluggatjöldin varðandi Evrópudaðrið.Það eru bæði kostir og gallar við þetta allt saman og við verður að reyna að skilja hismið frá höfrunum.

Annars verð ég að benda honum á að það eru  að minnsta kosti 2 aðrir flokkar Evrópufólks sem sárvantar fólk með viti til að bjóða fram í kosningunum.

 

Punktum saliensis fyrir afturhaldið:

Nýjar afurðir og ný þjónusta urðu eftirsóknarverðar. Frá 1990 hefur kaupmáttur launa aukist um 2,1% á ári og lífskjör batnað eftir því. Ekki varð það vegna aukinna aðfanga!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verðandi þingmaður verður að vera þjóðernissinnaður og tala frá toppi Kögunarhóls til Alþjóðasinna og Glóbalista, sem engu skila til fámenni ÍSLENDINGA nema vandamálum og miljarða tilkostnaði. 

Gerum þetta allt sjálfir á eigin vegum án ESB-sinna.

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 29.1.2021 kl. 17:04

2 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

1990 birtist norskíslenska síldin aftur með góðri innspýtingu gjaldeyristekna. 2008 mætti Makrillinn akkurat til að bjarga gjaldeyrisöflun eftir hrunið.

Við værum á hausnum hefðu þessi aðföng ekki borist á land

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 29.1.2021 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband