Leita í fréttum mbl.is

Verk Sjálfstæðisflokksins

bjarnibeneru mörg og margvísleg yfir allt þjóðlífssviðið. En það eru fleiri formælendur flokksins en opinberir fylgjendur finnst mér oft á tíðum vera í hinni opinberu umræðu og því vilja raunveruleg verk falla í skuggann fyrir neikvæðum fréttum frá andstæðingaflokkunum.

Það er því gleðiefni þegar formaður Sjálfstæðisflokksins tekur til skrifta og setur fram staðreyndir í stuttu máli. Það er hinsvegar um svo yfirgripsmikil mál að ræða að hætt er við að margir móttaki ekki svona mikið magn upplýsinga í einu. 

Því vil ég bregða á það ráð að birta greinina í heild en feitletra áhersluatriði úr henni í þerri von að skerpa minnið hjá einhverjum. 

En Bjarni skrifar í dag:

"Frá því Sjálfstæðisflokkurinn tók að nýju sæti í ríkisstjórn árið 2013 höfum við unnið markvisst að bættum kjörum allra með því að nýta kraftmikið hagvaxtarskeið til að standa með tekjulágum. Þetta sýnir sagan.

Loforð

Í kosningabaráttunni vorið 2013 settum við málefni eldri borgara á oddinn, en þeir höfðu horft upp á kjör sín dragast aftur úr í samanburði við aðra árin á undan. Í forgangi var að afturkalla skerðingar í almannatryggingakerfinu sem kynntar voru til sögunnar í tíð Jóhönnustjórnarinnar. Auk þess þurfti að vinda ofan af nýjum ósanngjörnum sköttum sem einna helst komu niður á eldri borgurum með lágar tekjur en talsvert eigið fé bundið í húsnæði. Okkur fannst of margir með lágar eða meðaltekjur greiða fjármagnstekjuskatt og vildum afnema tekjutengingar ellilífeyris (grunnlífeyris), sem var í þá daga einn flokkur í tryggingakerfi aldraðra, og nam um 34 þúsund krónum á mánuði. Heilt yfir var það skýrt markmið okkar að stórbæta kjör eldri borgara.

Efndir

Strax og ríkisstjórn var mynduð hófumst við handa. Fyrsta verkið var að afturkalla skerðingar á grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna og afturkalla lækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna. Eignaskatturinn (auðlegðarskattur) féll niður í lok árs 2013. Hann hafði lagst sérstaklega þungt á tekjulága í skuldlausu húsnæði. Til að draga enn frekar úr skerðingum var frítekjumark vaxtatekna hækkað í 125 þúsund krónur í ársbyrjun 2014. Síðan þá höfum við hækkað frítekjumarkið verulega, síðast um nýliðin áramót. Það stendur nú í 300 þúsund krónum og fer þeim eldri borgurum því stöðugt fækkandi sem greiða fjármagnstekjuskatt að ráði. Við létum ekki þar við sitja. Nefnd undir forystu Péturs heitins Blöndal var árið 2013 falið að umbylta kerfinu, gera það sanngjarnara og bæta kjörin. Afraksturinn birtist í verulegum breytingum sem samþykktar voru árið 2016. Þá voru bótaflokkar sameinaðir, framfærsluviðmið hækkuð og króna-á-móti-krónu-skerðing fyrir eldri borgara afnumin. Árangurinn var einhver mesta kjarabót í áratugi.

Staðan í dag

Þessar áherslur hafa skipt sköpum fyrir bætt kjör eldri borgara. Það er einnig ánægjulegt að sjá að lífeyrissparnaður þeirra sem eru að ljúka starfsævinni fer sífellt hækkandi. Að baki þeirri þróun er áratuga vinna og fyrirhyggja sem loks er að skila sér með áberandi hætti. Þetta tvennt hefur haldist í hendur við langt hagvaxtarskeið sem við höfum saman nýtt til að styrkja stöðu launþega í landinu, ekki síst þeirra sem minnst hafa.

Tekjuskattslækkanir hafa leikið stórt hlutverk í þeirri jákvæðu þróun. Niðurstaðan er sú að kaupmáttur launa og bóta hefur aldrei í sögunni verið meiri. Skýr stefnumörkun með áherslu á umskipti í efnahagsmálum, ábyrg ríkisfjármál, stöðugleika og sókn á öllum sviðum markaði upphafið að samfelldu tímabili bættra lífskjara undanfarinn áratug.

Heildartekjur ellilífeyrisþega hafa hækkað um helming frá árinu 2015 og kaupmáttur aukist hlutfallslega mest hjá þeim tekjulægstu.

Eigna- og skuldastaða hópsins hefur styrkst og langflestir búa í eigin húsnæði. Mikill meirihluti eldri borgara greiðir minna en 10% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir.

Hjá eldri hjónum í eigin húsnæði sem höfðu 512 þúsund krónur í mánaðartekjur árið 2013 voru tekjurnar orðnar 700 þúsund á mánuði árið 2019. Þessa sögu má skoða á vefnum Tekjusagan.is. Þar er tekin saman þróun í tekjum og kjörum ólíkra hópa í gegnum árin byggt á gögnum Hagstofunnar og skattframtölum allt frá 1991 til 2019. Markmiðið er að gera stjórnvöldum kleift að meta áhrif breytinga á lífskjör einstakra hópa, en ekki síður að stuðla að upplýstri umræðu sem byggist á staðreyndum.

Verkefnið fram undan

Þrátt fyrir þróun síðustu ára er verkinu ekki lokið. Enn er hópur eldri borgara sem á takmörkuð réttindi í lífeyrissjóðum vegna lítillar atvinnuþátttöku og reiðir sig alfarið á ellilífeyri frá Tryggingastofnun.

Sá hópur taldi alls um 1.300 manns árið 2018 eða 3% þeirra sem voru 67 ára og eldri. Eitt margra stórra skrefa til að bæta kjör fólks var stigið með innleiðingu félagslegs viðbótarstuðnings í nóvember í fyrra. Við þurfum að tryggja að almannatryggingarnar haldi áfram að grípa fólk í viðkvæmri stöðu og vinna að bættum kjörum þess ár frá ári.

Ef horft er á stóru myndina voru íbúar 67 ára og eldri 45.250 í ársbyrjun 2020, 16% fleiri en árið 2015. Þrátt fyrir þessa miklu fólksfjölgun jukum við á sama tíma árleg útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna almannatrygginga á hvern ellilífeyrisþega úr 1,6 í 2,4 milljónir að meðaltali. Alls jukust árleg útgjöld ríkissjóðs í málefni aldraðra um 35 milljarða á tímabilinu.

Við verjum nú rúmlega 10% allra tekna ríkissjóðs til ellilífeyris almannatrygginga. Áskorunin fram undan er ekki síst að byggja áfram undir sömu lífskjarabætur eldri borgara, hóps sem eðli málsins samkvæmt fer sístækkandi. Á sama tíma þurfum við að gæta þess að kynslóðabilið fari ekki breikkandi og yngra fólk dragist aftur úr í lífskjörum. Ef vel á að takast til er mikilvægt að halda rétt á spilunum næstu árin.

Réttar áherslur

Fyrir bætt lífskjör skiptir sköpum að vel takist til við að endurheimta landsframleiðsluna sem tapast hefur vegna heimsfaraldursins.

Reynslan sýnir að leiðin út úr kreppu felst ekki í stefnu skerðinga og skattahækkana. Hún felst í því að trúa á einstaklinginn og skapa jarðveg þar sem fólk fær að blómstra á eigin forsendum. Þannig byggjum við undir nauðsynlega verðmætasköpun og hagsæld svo samfélagið geti tekið vel utan um þá sem á þurfa að halda. Með þessu tryggjum við ekki síst að lífskjör aldraðra þróist áfram með sama hætti og sagan sýnir. Að við öll getum notið betri lífskjara og lifað áhyggjulaus á efri árum.

Við skuldum þeim sem ólu okkur upp ekkert minna. Þeim sem lögðu grunninn að því frjálsa og sterka samfélagi sem við nú búum í. Við höfum sem sjálfstæð þjóð byggt upp samfélag sem stenst samanburð við hvaða land sem er í heiminum. Réttar áherslur varða leiðina til enn betra lífs fyrir okkur öll."

Það er hollt að hugleiða þessar staðreyndir sem formaðurinn telur hér upp.Sérstaklega þegar rangupplýsingar og upphrópanir vinstriflokkanna dembast  yfir fólk í fjölmiðlum að maður tali ekki um Pírataskvaldrið um ekki neitt nema ómerkilegheit sem engu máli skipta.

 Það er verkefni talsmanna flokksins að standa á móti áróðursflaumi og rangfærslum andstæðingaflokkanna og láta ekki berast af leið.Í því verkefni þurfa þeir allir að bæta í með sumrinu.

Það er aðkoma Sjálfstæðisflokksins að málum sem ávallt hafa skipt mestu máli fyrir þjóðina þegar á heildina er litið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 12
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 3418274

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband