Leita í fréttum mbl.is

Vilhjálmur Bjarnason

skrifar skarpa athugun á peningamálum Íslendinga í Morgunblað dagsins.

"Þjóðin stendur á öndinni nokkra morgna á ári og bíður eftir erkibiskupsboðskap um stýrivexti seðlabanka. Hvað ákveður peningastefnunefnd Seðlabankans í dag? Hagspekingar um allar koppagrundir veðja um niðurstöðu peningastefnunefndar. Fleiri en færri hafa meiri áhyggjur af fráviki sínu frá niðurstöðu peningastefnunefndar en þjóðarhag.

Þorpsidjótar eiga bestu ágiskanir.

Markmið seðlabanka

Markmið seðlabanka er að viðhalda stöðugu verðlagi og öryggi í fjármála- og greiðslukerfi. Til að viðhalda öryggi í greiðslukerfi er innlánsstofnunum ætlað að eiga laust fé til að mæta þörfum viðskiptavina sinna. Innlánstofnanir hafa ekki yfirdráttarheimildir hjá seðlabanka.

Að auki hefur seðlabanki það hlutverk að vera banki ríkissjóðs. Ríkissjóður hefur ekki yfirdráttarheimildir hjá seðlabanka. Seðlabanki varðveitir gjaldeyrisvarasjóð. Tilgangur með því að halda gjaldeyrisvarasjóð er að tryggja greiðsluskil á erlendum lánum ríkissjóðs. Seðlabanki heldur ekki gjaldeyrisvarasjóð til þrautavara fyrir önnur fjármálafyrirtæki, enda þótt fjármálafyrirtækjum sé ætlað að halda gjaldeyrisjöfnuði í efnahagsreikningi sínum. Af þessum ástæðum er ekki jöfnuður á gjaldeyriseignum og skuldum.

Við gengissig, þ.e. lækkun á gengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum, verða til tekjur hjá seðlabanka. Ógæfa þjóðar verður að tekjum hjá seðlabankanum. Þær tekjur eru í raun verðleiðrétting (e. inflation adjustment), sem kemur tekjum ekkert við, ekkert fremur en verðbætur á bankainnistæðum barna og eldri borgara.

Kostnaður

Til þess að halda fjármálakerfi gangandi þarf tekjur. Og að auki þarf ásættanlegan hagnað fjármálafyrirtækja. Tekjur fjármálafyrirtækja samanstanda af vaxtamun útlána og innlána auk tekna af þóknunum.

Við einfalda skoðun virðast útlán bera vexti sem eru ívið hærri en verðbólga. Þau eru því verðtryggð og bera einhverja raunvexti. Öðru máli gegnir um innlán. Þau bera neikvæða raunvexti. Jafnvel verðtryggðir innlánsreikningar bera oftast neikvæða raunvexti eftir að „fjármagnstekjuskattur“ (þ.e. fjáreignatekjuskattur) hefur verið dreginn frá. Innlán í fjármálafyrirtækjum eru um 2.500 milljarðar. Um 45% innlána eru í eigu heimila en að auki eru um 6% innlána í eigu lífeyrissjóða.

Innlán fyrirtækja eru fyrst og fremst ætluð til að standa undir daglegri fjárþörf, þ.e. ekki eiginlegt sparifé. Innlán lífeyrissjóða standa nokkurn veginn undir lausafjárkröfum sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja.

Þau innlán einstaklinga, sem nálgast raunvexti, eru svo skattlögð þar sem verðleiðréttingin, verðbætur, er skattlögð sem tekjur. Verðbætur eru ekki tekjur fremur en gengisbreytingar! Þeir stjórnmálaflokkar, sem telja sig berjast fyrir réttindum launafólks, vilja ganga lengst í skattlagningu á verðbótum. Fulltrúar þessara flokka mæla af einna minnstri þekkingu um eðli fjáreignatekna. Að samanlögðu virðist mér sem heimilin í landinu standi undir kostnaði við peningastefnu sem nú er framfylgt.

Hagsmunasamtök peningastefnu með gjafvöxtum

Það eru nokkrir sjálfskipaðir seðlabankastjórar að störfum í dag. Sumir eru verkalýðsrekendur, sem hafa hlotið kosningu með atkvæðum fárra félaga í verkalýðshreyfingunni. Þessir nýju verkalýðsrekendur hafa skoðanir á öllu og láta álit sitt í ljós við flest tækifæri.

„Hagsmunasamtök heimilanna“ telja sig vernda hagsmuni heimila með því að láta börn og eldri borgara borga fyrir áhugamál sín, rétt eins og bankarnir gera. Hagsmunir heimila eru sanngjarnir raunvextir. Því miður þarf einhver að greiða og það kunna að vera önnur heimili um sinn. Feitir auðhyggjumenn eiga ekki sparifé í bönkum. Þeir eru njótendur gjafvaxta í bankakerfinu. „Hagsmunasamtök heimilanna“ gæta hagsmuna þeirra.

Vakningarsamkomur

Samningafundir verkalýðs- og atvinnurekenda um kaup og kjör líkjast fremur vakningarsamkomum hjá frelsunarsöfnuði en samskiptum milli fólks í alvarlegri vinnu.

Það vill til að verkalýðsrekendum og atvinnurekendum er falin umsjón með eignum lífeyrissjóða, en lífeyrissjóðir hafa eina skyldu og hún er sú að greiða þeim sem hafa haft þá skyldu að greiða af launum sínum til að tryggja sér laun eftir að starfsaldri lýkur.

Réttindi í lífeyrissjóðum eru ekki til að semja um í kjarasamningum, nema ef til vill að semja um iðgjaldahlutföll til réttindaávinnslu.

Covid og Úkraína

Mestan hluta þess tíma, sem Covid-19 gekk um land, var verðbólga ekki úr hófi. Með Úkraínustríði virðist sem verðbólga verði úr hófi. Jafnvel svo að Seðlabanki spáir 8% verðbólgu, en það er tala, sem einhver segir sagða með varúð. 8% spá Seðlabanka um verðbólgu þýðir tveggja stafa verðbólgutölu. Og í framhaldi af því fylgir aukin skattlagning á sparifé.

Innflutt verðbólga af völdum hækkana á eldsneytisverði og af völdum hækkana af verði á hrávöru er nýlegt vandamál í hagstjórn. „Gulvestungar“ geta ekki barið slíkar verðhækkanir í rot. Stríðsverðbólga er nýtt vandamál hjá þeirri áhöfn sem nú stýrir Seðlabankanum. Nú reynir á tæki og tól bankans.

Það kann að vera að einstaklingar, sem ekki hafa eyðsluelement, eigi sín „safe haven“ í íslenskri steinsteypu. Þeir einstaklingar virðast stundum gleyma því að til eru verðbréfamarkaðir í öðrum löndum til að koma sér undan eignabólu á Íslandi.

Siðað fólk og skrælingjaháttur

Það er lenska meðal skrælingja og undirmálsfólks að búa til andstæðinga. Slíkir andstæðingar þurfa að þola ofsóknir og einelti. Alvarlegustu dæmin um slíkt einelti eru þjóðernishreinsanir. Þjóðernishreinsanir eru taldar sérlega hentugar þegar í hlut eiga efnaðir minnihlutahópar. Dæmi um slíkt er helför gegn Gyðingum. Það eru ýmis samtök, sem hafa greint sparifjáreigendur, ungt fólk og eldri borgara, til að vera sérstakt efnahagsvandamál og heppilegan andstæðing.

Fjárhagslegt frelsi einstaklinga er efnahagmarkmið. Verkalýðsrekendur og „Hagsmunasamtök heimilanna“ eru vondir greinendur á efnahagsvanda og virðast vinna að hagsmunum öndverðum hagsmunum skjólstæðinga sinna."

Það er fengur að  því að maður eins og Vilhjálmur skuli leggja á sig að skrifa svo upplýsandi um jafn víða misskilin málaflokk og fjármál Íslendinga. Ef fleiri vildu leggja sig eftir skilningi á samhengi hlutanna yrði ekki eins auðvelt fyrir gasprara með verkalýðsvöld að slá ryki í augu kjósenda og  byrgja þeim sýn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband