Leita í fréttum mbl.is

Selveiðar og ESB.

Það er oft skemmtilegt við Sundlaugaborðið á morgnana í Laugardal.

Þar eru krossgátusérfræðingar miklir, Jakobína skíðadrottning, Kristján bankastjóri, Ragnar Álskalli og fleiri minni spámenn. Þau eru bara í skrítnu gátunni hennar Ásdísar(?)Bergþórsdóttur í helgarblaði Moggans, þar sem skýringarnar eru miklu lengri en orðið sem leitað er að. Þau leggja stundum fyrir okkur hina eitt og eitt orð sem þau reyna að toga okkur til að finna með lélegum árangri, því þetta er aðeins fyrir innvígða. Í morgun vorum við Óli Valur aðmíráll, sem ekki erum í þeim hópi,  látnir glíma við setninguna "Hluti  úr sjávardýri veitir högg ". Það var löng þögn meðan við rembdumst við þetta, stungum uppá ugglaust, raflost og ég veit ekki hvað. Kristján, sem er þekktur að hjálpsemi við svona aðstæður,  lofaði að vera þögull en gat ekki á sér setið og sagði að smellur gæti nú varla verið högg.  Ragnar  kom þá með það innskot að það væru fleiri dýr í sjónum en fiskar  , svo sem hnísur, höfrungar, kolkrabbar eða selir. Þá kom lausnin til okkar Óla  sem var selbiti . Ég mótmælti og sagði  að selur væri ekki hluti úr sel.  Þá hóf upp rödd sína Óli aðmíráll og sagði frá því, að hættan við að losa urtuna úr netinu væri sú að hún biti í hönd veiðimannsins. Þá færi hálf höndin eða öll í einum bita selsins. Slíkur væri kjálkakraftur hennar að hún biti bátsþóftu í sundur.   Hún væri svo sterk að hún næði að koma upp úr sjónum til að anda með netin á sér. Kóparnir gætu þetta ekki og drukknuðu flestir í netinu. . Veiðimenn reyndu að frelsa urtuna  svo hún gæti gefið af sér fleiri  kópa. Við báðum Óla Val að segja okkur meira frá selveiðum. Hann sagðist hafa verið í Ófeigsfirði um 1970. Þar var hann á bát með selabónda við að leggja selanet. Þetta sumar í júli-ágúst  komu 18 heiðskírir dagar á Vestfjörðum og hitinn fór yfir 5 stig sem hann hafði aldrei gert árin áður.(þetta voru ár lítilla sólgosa eins og núna og enginn talaði um hlýnun jarðar).   Þegar lögð höfðu verið netin var farið að draga það fyrsta og þá var hitinn kominn í núll og farið að snjóa.  Óli var í andófinu og  hjálpaði svo til að losa urturnar úr netinu sem er erfitt verk og hættulegt  þegar búið var að innyrða kópana dauðu. Náist einn lifandi þá er hann skorinn á háls og látinn blæða og tekinn frá til matarins..  Króki er brugðið í netin um háls urtunnar og reynt að ná netunum þeim yfir hausinn á henni. Síðan þarf að meta hvort skera þurfi á möskva eða gerlegt sé smokra þeim yfir haus urtunnar.  Allan tíman er bithættan mikil. Síðan eru netin dregin hvert af öðru. Haglabyssan er til taks hlaðin í bátnum til að skjóta útselinn, sem er hálft  tonn og getur auðveldlega eyðilagt öll netin og þar með útgerðina ef hann slæddist þarna inn. Í helli inni í firði bíður gamall maður með stóran pott á hlóðum og soðnar rófur og kartöflur. Hann tekur hálsskorna kópinn og sýður í heilu lagi í 4 tíma. Síðan er sest að snæðingi og selkjötið veitt upp úr lýsisbrákarfylltum pottinum. Þegar menn eru svona örþreyttir þá er borðað af LYST segir Óli Valur með áherslu og bragðið er GOTT. Síðan velta menn útaf örþreyttir og sofa í þrjá tíma. Þá er haldið út á ný og unnið meðan dagsljós er. Eftir svona törn er farið heim á bæ og hvílst í tvo daga. Síðan aftur í lögnina. Þetta stóð í meira en viku og afraksturinn eru stórt hundrað kópaskinna.  (Allan tíman er sjálfsagt  flegið  þegar færi gefst get ég mér til ).  Eftir törnina er öllum skrokkunum hlaðið í hrauk. Síðan er byggður bálköstur úr rekavið við hlið kethrauksins.. Þegar logar vel í timbrinu fer lýsið að fljóta úr ketinu og það kviknar í öllu saman. Þessi brenna logar í viku og eftir verður aðeins lítil öskuhrúga. Heima er maður sem hefur bílslöngu á hné sér. Þar ofan á leggur hann selskinnið og skefur frá sér með flugbeittum bjúghníf af sérstakri gerð allt spik af skinninu. Refsingin við að skera  gat á skinnið var augljós fyrir daga bílslöngunnar. Hann er eina tvo tíma með skinnið þannig að þetta er mikil törn.  Síðan eru skinnin spýtt á öll tiltæk bæjarþil. Það er að þau eru  negld með tveggja og hálftommu með 5 sentimetra millibili allan úthring skinnsins.    Þar þorna þau mishratt eftir tíðarfari og verða grjóthörð. Þannig fara þau suður í sútarann og vertíðinni er þá lokið.  

Viðstaddir luku miklu lofsorði á þennan fyrirlestur Óla Vals. Undirritaðu ásetti sér að skrifa .þetta niður meðan þetta væri í minninu. Kannski hefur einhver gaman að lesa þetta til þess að setja sig inn í líf Vestfirðinga eins og það var og hefur sjálfsagt veriðí aldanna rás. 

Ég vona að Óli Valur fyrirgefi mér framhleypnina að birta þetta hér að honum forspurðum því hann væri manna vísastur til þess að banna birtinguna alfarið og tek ég engann séns á því.   Sömuleiðis með að uppnefna fólkið við borðið eins háttur manna er í Laugunum.

 

Nú er nefnilega okkar heittþráða Evrópubandalag búið að setja á bann við verslun með selaafurðir og fær þá Birgitte( Biggu) Bardot verðugan bandamann. Auðvitað eru engin rök látin fylgja þessum úrskurði bandalagsins. Það er nó að einhverjum kommisar eða Biggu   þyki augun falleg í selnum. Annað kemst ekki að.  

Ef Íslands óhamingja verður sú að glata frelsi sínu í annað sinn á áttahundruð árum, þá  geta Íslendingar séð fyrir sér hvernig verður að fást við svona tilskipanir í framtíðinni.  Með einu boðorði frá Brüssel  verður þessi aldagamla iðja Ófeigsfirðinga og lifibrauð Grænlendinga og Eskimóa í Kanada  fyrir bí.  

Vonandi geta þeir þá bara borðað kökur í Ófeigsfirði ef þá vantar brauð eins og drottningin María Antoinette er sögð hafa sagt  fyrir byltinguna. (sem ég held að kommarnir hljóti að hafa logið uppá þessa dáindis saklausu  konu sem þeir svo drápu með hennar saklausa manni honum Lúðvíki sextánda. Og víst er að byltingarmennirnir fóru úr öskunni í eldinn þegar Napóleon tók af þeim völdin og sendi þá í stríð ).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hressilegur pistill, Halldór! og fróðlegur.

Og alveg var þetta eftir þessu Kola- og klaufabandalagi þarna suður í Brussel. Þetta eru klígjugjarnir veslingar.

Jón Valur Jensson, 8.5.2009 kl. 21:14

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú ert alveg makalaus snillingur Halldór og ert greinilega til all vís. Og ef þú gætir fyllt bók með svona frásögnum þá væri að henni mikill fengur. Enu mætti gilda hvort hún seldist nærri meðallagi eða ekki því hún væri samt sem áður til staðar sem heimild um þá tíma þegar við áttum menn sem höfðu upplifað frásagnarverða reynslu og jafnframt áheyrendur sem höfðu lag á að koma öllu til skila.

Afsakaðu að ég varð að eyða nokkru máli í að segja álit mitt á þessu lifandi og átakalausa tungutaki þínu.

Árni Gunnarsson, 8.5.2009 kl. 22:32

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Þakka þér Jón Valur fyrir þín orð. Ég met mikils það sem frá þér kemur og við erum oftar en ekki sammála.

Ég á nú bara ekki orð til að þakka þér Árni fyrir þín orð í minn garð, sem mér finnst nú oflof  fyrir að endursegja sögu þessa langreynda og  einstaka manns Ólafs Vals skipherra. Hann segir svona slétt og fellt frá sinni upplifun, að það voru allir sem á hlýddu dolfallnir af lýsingum hans á þessu þjóðlífi sem þarna var að finna. Mér hefur þá líklega tekist að hafa skammlaust eftir honum, þar sem þetta var svo ferskt í minninu .

Halldór Jónsson, 8.5.2009 kl. 23:44

4 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Ólafur Valur er náttúrlega efni í nokkrar bækur.  Verst að hann skuli hafa fært sig úr Neslaug í Laugardalinn.  Gott hjá þér að koma þessu á framfæri, Halldór.  Og það er margt söguefnið af lífinu á Ströndum sem vert væri að halda til haga.  En ætli varðskipið hans Ólafs Vals hafi beðið á Ingólfsfirði þann tíma sem hann var við selveiðarnar...?  Bið að heilsa kalli.

Ómar Bjarki Smárason, 9.5.2009 kl. 17:54

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Ómar Bjarki, ég spurði kallinn um varðskipið. Hann glotti breitt og lyngdi augunum. Ég hef nú heyrt að hann hafi stundum skroppið í land að líta eftir á bæjunum og lagði þá kútternum vi festar á meðan. En þetta getur allt verið lygi auðvitað eða hann hefur verið að athuga veiðarfæri kallanna og möskvastærð grásleppunetanna.

Halldór Jónsson, 11.5.2009 kl. 20:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 68
  • Frá upphafi: 3418293

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 65
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband