Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Haldið þið að þjóðin sé fífl ?

Nú eyða þeir tímanum okkar niðri á Alþingi í  að þvarga um hvort eða hvernig við eigum að sækja um aðild að ESB. Þeir gera akkúrat ekkert í að fást við vandmálin nema að koma bensíninu í 200 kall, hækka skatta og fleiri píslir sem kommarnir  eru nótt og dag að finna upp til að leggja á þá sem enn draga andann á landinu. 

Eitthvað um 18000 atvinnulausir eru núna í landinu okkar.   Atvinnuleysistryggingasjóður er tómur eftir 5 mánuði eða fyrr ef bótaþegunum fjölgar. Er þetta lið með réttu ráði yfirleitt ? Hvað ætla þeir að gera í október ? Væri þeim ekki nær að ræða um það ?

Hvort ekki sé rétt að reka AGS úr landi sem snarast og hætta að að láta erlenda rukkara stjórna hér öllu. Reka þennan norska leigustrák frá McKenzie úr Seðlabankanum hið snarasta og setja einhvern mann með viti þangað.   Við eigum nóg af Íslendingum til þess. Auk þess fyrir lægra kaup.  Þessi strákur hefur akkúrat ekkert gert nema gæta hagsmuna AGS  sem eru andsnúnir öllu sem  Íslendinga skortir núna.  Það erum við sem ráðum okkar málum. Sjálfstæð þjóð sem kyssir ekki á þessa útlendu rassa alla saman.  Sópa upp dellunni   frá því að  við felldum bankana okkar sjálfir í fljótræði  og vitleysu.   Frömdum fjármálalegt harakiri í stað þess að handtaka glæpamennina.  

Skynjaði Bjarni Ben. ekki það sem ég skynjaði á landsfundinum ? Að  95 % af Sjálfstæðisflokknum er á móti því að ganga í ESB.  Þetta fólk vill ekkert við þetta bandalag tala. Og það vill heldur ekki ljúga að virðulegu bandalaginu með því að sækja um eins til þess eins að vita hvað er í boði. Það vill vera  ærlegt gagnvart viðsemjendunum sem það ber virðingu fyrir.  Við erum  heiðarlegt fólk sem lýgur ekki og blekkir annað fólk með fagurgala um eitthvað sem við vitum að meirihluti  þjóðarinnar vill ekki.   Og þar sem eru 1600 manns af öllu landinu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar er skoðun meirihluta þjóðarinnar ekki langt undan. 

Kratarnir og  sporgöngumenn  þeirra niðri á þingi mega fimbulfamba um aðildarumsókn eins og þeir vilja. En ég og flestir aðrir Sjálfstæðismenn sem ég þekki viljum ekki sjá þetta. Við munum  berjast gegn nýjum sambandslögum Íslands af öllu afli.  Það felst í nafni flokksins okkar að við viljum sjálfstætt Ísland. Við erum handviss um að sjálfstætt Ísland á óendanlega meiri möguleika en þyngslabandalag stórveldanna í Evrópu með sína blóðugu sögu.   Við erum  frjálsborið fólk með þvílíka yfirburði auðlinda yfir þessar þjóðir allar,  að það er best að halda sig fjarri því að gefa þeim Grímsey eins og þegar Einar Þveræingur áttaði sig þegar  Evrópuógnin kom fyrst hingað  fyrir margt löngu. 

Formaður Sjálfstæðisflokksins þarf ekkert á því að halda að vera í einhverjum vinsældaleik  þarna niður á Austurvelli .   Hann getur bara talað hreint út með sína sannfæringu.  Hann sagðist sjálfur vera sannfærður um að Íslendingum sé betur borgið utan bandalagsins.  Ég held að sandkassaleikur við Össur litla geri lítið formanni mínum og flokki til vegsauka. En auðvitað fylgi ég hans forystu og fer í viðræður  ef hann svo segir. En hann má alveg vita hvar ég stend.

Séra Þórir og Benedikt eru farnir úr flokknum vegna sannfæringar sinnar. Auðvitað virði ég það. Þetta eru yfirburðamenn að viti og vísi. En ég er líka sannfærður um að þeir komi  aftur þegar þeir sjá  að það er ekkert nema sjálfstæðisskerðing í boði í skiptum fyrir einhverja illskilgreinanlega  evruframtíð. Þegar og ef við uppfyllum Maastricht skilyrðin. 

Við höfum heldur ekki gert okkur grein fyrir hvaða afstöðu við höfum til hermálahugmynda bandalagsins. Það liggur á borðinu að bandalagið ætlar ekki að vera án hervalds.  Værum við orðnir aðilar, þætti mér  persónulega lítilmannlegt að ætla okkur að sitja hjá í einhverri sérstöðu þegar  Guð og kristin  siðferðislögmál  í vestari hluta  bandalagsins og   Allah og sharíalög í austurhlutanum en sameinuð í einhverju pólitísku réttlæti Evrópuráðsins í framtíðinni.

 Í alvöru !  Heldur einhver að Schumann hafi séð þennan trúmálanaglbít fyrir ? 

Mér finnst því allt liggja á borðinu hvað í boði er. Tilslakanir núna, eins og í fiskveiðimálum,  geta líka verið teknar aftur eins og hendi sé veifað. Og þá verður okkar rödd heldur mjóróma í stórum kór.  

Þjóðin mun í fyllingu tímans fella allt sem kratarnir eru núna  að reyna að ljúga inná okkur.   Þetta Evrópubandalag er í mínum augum aulabandalag sem verður aldrei annað en máttlaust tollabandalag gegn viðskiptafrelsi við afganginn af heiminum. Þetta bandalag gat ekkert gert í Bosníustríðinu í bakgarðinum heima hjá sér. Það var grenjað á Kanann rétt einu sinni sér til bjargar. Í  þriðja sinn síðan 1916. Evrópubandalagið er pólitískur vanskapningur með 27 þjóðfána sem koma sér ekki saman um neitt.  Þeir eru ekki og verða aldrei  Bandaríki Evrópu til jafns við  Bandaríki Norðurameríku. Sem eru ein þjóð með einn fána og eitt þing undir Guði þrátt fyrir allt.  

Er einhver  sem fékk einhverja Evrópuhugljómun við það að hlusta á Össur flytja sína Evróputölu á þinginu ? Skiptir einhverju máli að formenn Framsóknar og Íhaldsins séu að búa til einhver ný vers  til að  vera með í haltu mér slepptu mér leiknum gagnvart Evrópubandalaginu ? Mín vegna geta þeir alveg sleppt þessu. Ég og mínir líkar bifumst ekki í trú á sjálfstæði landsins og trausti  á Sjálfstæðisflokknum til að verja það. Hætti Sjálfstæðisflokkurinn að þora að segja sína skoðun  umbúðalaust  á Evrópubandalagsaðild Íslands  þá væri fyrst vá fyrir dyrum. 

Greiðum bara þjóðaratkvæði  um þetta Evrópusamband  hvenær sem er.  Ég er ókvíðinn

Þjóðin er ekki fífl ! 

 


Misvægi atkvæða í ESB.

Misvægi atkvæða hefur lengi viðgengist hjá okkur. Eitt sinn höfðu Vestfirðingar fjórfaldan atkvæðisrétt á við Kópvæging. Nú er þetta BARA 2.28 falt.

En  bráðum förum við í ESB og þá verður allt í lagi með lýðræðið. Eða hvað ?

Þar verður tekið fyllsta tillit til sérhagsmuna okkar og fiskveiðistefnunni var breytt í gær til þess að hún yrði aðgengileg fyrir okkur. Eureka æptu kratarnir. Þarna sjáið þið hversu gott bandalagið er  ! Aðeins Pétur gamli Blöndal  spurði i útvarpinu í morgun hvort ESB gæti ekki breytt stefnunni aftur úr því að það gat breytt henni núna ? Við eigum víst að fá 4 menn á Evrópuþingið. Það þýða greinilega mikil áhrif segja kratarnir. Spurning hvort þau dugi ?

Á síðu Gunnars Rögnvaldssonar eru þessar upplýsingar:

" Jú ég þarf einungis að ná til þingmanna þessara landa: Frakkland - Austurríki -Lettland - Finnland - Holland -Bretland - Portúgal- Ungverjaland - Svíþjóð - Tékkland - Slóvenía - Eistland - Pólland- Slóvakía - til að fá 54% atkvæða allra þingsæta. Ekki nóg með það, þá voru þingmenn þessara landa kosnir á þingið með einungis 60,6 milljón atkvæðum. En þessir 60,6 milljónir kjósenda eru 18,1% af öllum kjósendum til þingsins. Sem sagt: þingmenn sem eru kosnir af 18,1% af öllum kjósendum í Evrópusambandinu geta ráðið þar ríkjum með 54% meirihluta þingsæta."

Fellur þetta ekki ljómandi vel að atkvæðasmekk íslenzkra framsóknarmanna úr öllum stjórnmálaflokkum ? Jafnvægi í byggð landsins hét það víst einu sinni.


Bravó !

Þá hafa kjósendur bjargráðin sem þeir kusu yfir sig í fljótræðinu í vetur.

Í stað þess að reyna að vinna gegn atvinnuleysinu og nota sparaðar atvinnuleysisbætur til annarra útgjalda  eru hækkuð útgjöld láglaunafólksins. Hækkað benzínið,  sem einstæðar mæður nota til að keyra með börnin á leikskóla meðan þær þræla í láglaunastörfum. Hækkaðir skattar á láglaunafólkinu svo það verði að vinna enn meira. Hækkuð innflutningsgjöld á bílum láglaunafólksins til þess að draga úr óhófinu.    Hávextir til þess að vinna gegn þenslunni og  verðbólgunni, nánara samstarf við AGS um niðurskurð ríkisútgjalda og allsherjar   kaupmáttarskerðing  er framtíðin.  Sem sagt, vinstriklassík sem leiðir til enn meiri hagsældar og hamingju.

 Ég held að Sari þurfi kannski að kaupa sér nýjan pott og eldspýtur fyrir veturinn.

Barack Obama segir að batamerki séu nú sjáanleg í USA. Þetta skiptir öllu máli fyrir okkur og heiminn. Öll okkar líðan og heimsins sveiflast í takt við Bandaríkin. Ef þeim batnar, batnar okkur líka.

Leikritið um  refinn Rauðgrana og heilaga Einfeldni verður fleirum en Baldri Hermannssyni  að yrkisefni á næstunni. Vinstri stjórnin er loksins að vakna til lífsins.  Tímabundin breyting á fiskveiðistefnu ESB bjargar okkur inn í ESB. Framtíðin er björt Íslendingar. Upp með húmorinn.

Bravó !


Fundur um málefni sparisjóða !

Áríðandi fundur um málefni stofnfjáreigenda sparisjóða verður haldinn á Grand Hotel kl 20.00 á morgun, miðvikudaginn  27 maí 2009. Ráðgert er að stofna samtök til að verja hagsmuni stofnfjáreigenda gegn áformum ríkisins um yfirtöku sparisjóða. Ennfremur að gæta hagsmuna þeirra fjölmörgu  sem létu tilleiðast að kaupa stofnfé í BYR á lánum í Glitni sem nú er ríkisbankinn Íslandsbanki. Nú eru gjalddagar á bréfunum hinn 20 júní og þá óttast menn að gengið verði hart eftir greiðslum eftirstöðva og einstaklingar geti átt von a því að verða gerðir gjaldþrota í framhaldi af því. Engir kaupendur að bréfunum  finnast um þesar mundir og nú eru góð ráð dýr.

Mér var bent á aldraða konu í Sundlaugunum í morgun. Hún var sögð skulda 18 milljónir vegna þess að hún var yfirtöluð til að kaupa stofnfé fyrir börnin sín. Henni skildist að Það yrði henni útlátalaust og skrifaði undir. Nú verður hún kannski gjaldþrota og lendir hugsanlega á götunni.  Því stjórnin í BYR tapaði öllu stofnfénu í ótryggð útlán. Líklega til sjálfrar sín eða tengdra aðila. Ttók sér síðan sjálf peninga úr kassanum til þess að losa sín bréf út með brögðum á genginu 1.6 meðan við hin sitjum uppi með óseljanleg bréf og skuldir vegna kaupanna. 

Auk þess er ekki annað að sjá en að þeir hafi beitt  kosningasvikum til þess að tryggja sér meirihluta í stjórninni áfram á aðalfundinum 13.maí s.l. Bæði  Fjármálaeftirlitið og Lögreglan virðast kæra sig kollótta um greinargerðir vegna málsatvika. 

Það er því þýðingarmikið að stofnfjáreigendur sparisjóða, líka þeir sem eru búnir að tapa sínu í SPRON og hinir sem enn hanga, mæti á þennan fund til að reyna að verjast því að allt verði gert að engu. Það breytir litlu í margra augum þá að viðskiptaráðherra tali fjálglega um sparisjóðina um leið og hann boðar innkomu ríkisins í hóp stofnfjáreigenda. Sá sósíalismi mun aldrei ganga upp.

Annað hvort eða !


Hvað með eftirlaunakóngana ?

Heilög Jóhanna ætlaði að sjá til þess að enginn hefði meira kaup en hún sjálf. Ég persónulega uppfylli þau skilyrði prýðilega sem atvinnulaus ellibelgur með lélegan lífeyrissjóð. Missi öll ellilaunin ef ég á sparisjóðsbók eða er að vinna. 

Hefur hún nokkuð athugað hvort ekki séu einhverjir  eftirlaunaþegar ríkisins sem hafa snöggtum meira kaup en hún ?   Auðvitað flestir úr öðrum flokkum en hennar.  

Gildir þetta líka um skilanefndir bankanna og Evu Joly ? 

Eiga lífeyrisþegar ríkisstarfsmanna að falla undir þessa skilgreiningu Jóhönnu eða verða þeir stikkfrí ? Eftir hverju verður farið við þessar réttlætisorrustur heilagrar Jóhönnu af örkinni góðu frá ESB ?   

 


Let's face the music and dance !

Við Íslendingar verðum að horfast í augu við músíkina. Fella krónuna duglega og fleyta henni síðan strax og taka skellinn. Hann verður skammvinnur og lagast um leið og skítnum hefur verið skolað út. Við verðum neyða krónubréfin í burt og létta þrýstingnum af á sem sneggstan hátt.  Við verðum að fá frelsi og losna úr helgreipum kommúnismans áður en hann er búinn að kyrkja okkur öll.

Dollarinn fer í 300 kall fyrirvaralaust í einhvern tíma. Á meðan stoppum við bara, förum í sumarfrí innanlands og lokum sjoppunum. Hækkum verð á túristunum.   Svo koma aftur inn jöklabréf og erlendir peningar, bæði þjófanna og annarra,  í hávextina og gengið fer niður aftur. EES fær gildi á ný.  Útgerðin græðir einhver ósköp  og borgar kvótaskuldirnar.  Atvinnuleysið hverfur. Innflutningur stöðvast tímabundið og vöruskiptajöfnuðurinn nær óþekktum hæðum. Viðskiptafrelsið kemur svo aftur og markaðurinn sér um sig enn á ný. Svo koma nýir tímar og ný ráð.

Öll erlend lán Íslendinga innanlands verða fryst á meðan veðrið gengur yfir og verðtrygging sparifjár og lána  verður stoppuð um stund. Lengt í öllum lánum og afborganir færðar aftur fyrir.  Engin uppboð eða gjaldfellingar fara fram . Taxtahækkanir opinberrar þjónustu eru bannaðar. Launahækkanir líka.  Matargjafir skipulagðar.

Hrossalækning sem hrífur. Hættum þessu seigdrepandi limbó ráðleysisríkisstjórnar kommanna, þar sem ekkert gerist nema vont verður verra og hin dauða hönd kommúnismans læsir sig um þjóðlífið. Ríkisverslun eykst dag frá degi en öðrum fækkar.  

Let´s face the music and dance !

Eða er  ég algerlega orðinn crazy ?

 


Þjóðarsómi

Mikið getum við Íslendingar annars verið stoltir af okkur sem þjóð. Búnir að láta nokkra gangstera setja okkur á hausinn. Láta götustráka rústa löglegri stjórn landsins með grjótkasti og íkveikjum. Fara í kosningar og kjósa okkur nýtt fólk til forystu til að rétta okkur við. 18000 manns atvinnulaus og við tölum mest um umsóknaraðild að Evrópusambandinu í fyllingu tímans.

Hvað er svo annað að gerast? Margir segja akkúrat ekki neitt. 

Það er lítil reisn sjáanleg yfir aðgerðunum til þessa. Ríkistjórnin afrekaði það að reka alla 3 seðlabankastjórana okkar. Þar á meðal einn svo prófessjónal , að hann var  umsvifalaust ráðinn til norræns seðlabanka vegna hæfni sinnar.

Í stað þessara manna er ráðinn norskur  leigustrákur frá ráðgjafafyrirtækinu McKenzie, til þess að stjórna  seðlabankanum á Íslandi í útseldri tímavinnu. Hans fyrsta yfirlýsing er að hann ætli að  styrkja gengið, sem svo auðvitað  fellur dag frá degi. Annað skiptir  ekki máli fyrst að Davíð er fokinn.

Ríkisstjórnin getur ekki einu sinni náð samstöðu um hvaða vinstri mann íslenzkann eigi að ráða til þess að verða seðlabankastjóri.  Það verður ekki spurt um hagfræðilega hæfni frekar en fyrri daginn.  Bara pólitískan lit. Hefur eitthvað breyst frá meintri fyrri spillingu ? 

Finnst okkur við ekki rísa hátt sem þjóð ?  Getum við ekki fengið leigustrák frá þessu ráðgjafafyrirtæki til að vera til dæmis forseti Íslands ? Er ekki nauðsynlegt að  þjóðin standi einhuga að baki því embætti  á erfiðum tímum ?

Vonandi batnar allt þetta ef kratarnir  geta látið Alþingi samþykkja  að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Fáum evruna 2030 þegar við uppfyllum Maastricht skilyrðin samkvæmt skuldaniðurgreiðsluáætlun ríkisstjórnarinnar.

Ég dáist að stefnufestu Steingríms J. og vinstri grænna og þeirra kærleika  á sem við blasa á stjórnarheimilinu á örlagatímum.

Um að gera að allir séu sammála og séu ekki með múður segja ríkisstjórnarflokkarnir.

 Þegar býður þjóðarsómi, þá á Ísland eina sál !


Lesið Gunnar Rögnvaldsson !

Enn einu sinni vekur Gunnar Rögnvaldsson (tengill á síðunni )okkur Íslendinga til umhugsunar um hvert við stefnum með evrópubandalagsaðild.

Og þetta er ekkert sem er verið að spá og spekúlera með, þetta lýsir hagsögu Íslands borið saman við Evrópulöndin   í þrjátíu síðustu ár. Þetta undirstrikar rétt einu sinni hvernig íslenzkur hagvöxtur er í allt öðrum fasa heldur en í evrópulöndunum.

Við erum nefnilega engin evrópuþjóð, við erum miklu fremur vesturheimsfólk og okkar efnahagslíf er miklu líkara því sem þar gerist en í hinni yfirfullu og landluktu ríkjum evrópubandalagsins. Í vesturheimi býr líka önnur íslenzk þjóð sem er nærri jafnstór þeirri sem hér býr. Frændur okkar og vinir með taugar til okkar sem ekki verður sagt um Mr. Brown og annað hyski í því bandalagi. Þangað vestur eigum við að leita um efnahagssamstarf, NAFTA aðild osfrv. 

Línuritið ber saman atvinnuleysið á Íslandi og í evrópusæluríkjunum. Það sýnir svart á hvítu hversu gerólíkur íslenzkur hagvöxtur er þessum afturkreistiungum í hinni yfirfullu evrópu.

atvinnuleysi_1980-2010  

Gunnar segir ; 

" Til hamingju Ísland

Kæru Íslendingar. Nú fáið þið loksins tækiæri á að prófa hvernig það er að vera evruland í ca einn til þrjá mánuði á svona ca síðustu 30 árum. Myndin hér að ofan sýnir okkur atvinnuleysi á Íslandi og í evrulöndum frá 1980 til 2010. Þetta er svona samkvæmt tölum og gögnum frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum (IMF). Nú vitið þið bráðum hvernig þetta er. Það góða við stöðuna er þó það, að þið eruð sem betur fer ekki með sjálfa evruna. Þetta ástand mun því læknast aftur eftir nokkra mánuði. Ísland er nefnilega með sinn eigin gjaldmiðil sem hefur megnað að gera Íslendinga að einni ríkustu þjóð í Evrópu á mjög skömmum tíma. Þátt fyrir stór mistök við hagstjórn landsins

Þau lönd sem hafa ekki svona tryllitæki sjálf, eru háð náð og miskunn hinna peningalegu máttarvalda í Mið & Suður Evrópu. Þessi yfirvöld hafa alltaf reynt að koma á því sem Mið Evrópumenn kalla "stöðugleika". En þetta orð, stöðugleiki, er notað yfir þennan samfellda múr af massífu atvinnuleysi sem sést þarna á myndinni. Engin ríki þola svona atvinnuleysi og sóun. Þau verða alltaf fátækari og fátækari. Ofan í þessar tölur frá IMF kemur svo allt hið falda og leynda atvinnuleysi sem inniheldur allt það fólk sem hýst er í hinum mörgu og stóru kassageymslum ríkja ríkjanna. Þetta fólk verður litið sem ekkert vart við kreppuna núna. Hún er nefnilega alltaf hjá þeim. It just plain works!

Evran virkar

Nýja kreppan, sem hægt og rólega er að bíta sig fasta á evrusvæði núna, mun hafa þau áhrif að íbúar evrusvæðis munu fá sinn týnda japanska áratug (og sennilega tvo) af ALGERRI stöðnun. Nýjustu tölur um ekki-hagvöxt segja okkur nefnilega að meðalhagvöxtur á evrusvæðinu hafi verið um 0,6% á ári frá árinu 2000. Sem sagt 9 ár af engu. It just plain works! "

Hversvegna eigum við að elta þetta fólk. Taka upp herskyldu til að þóknast hinum samevrópsku hagsmunum ? Borga styrki til landbúnaðar í Rúmeníu ? Þjást með Kýpurgrikkjum vegna yfirgangs Tyrkja ? Taka við öllum glæpalíð í gegnum Schengen sem kemur inn um hriplek landamærin í austri ?

Við erum ekki með öllum mjalla Íslendingar ef við önum svona áfram undir herlúðrum kratanna.Hættum þessu evrukjaftæði og reynum að standa í lappirnar sjálf.

Sjálfstæðisflokknum er einum treystandi til að vera í fylkingarbrjósti fyrir sjálfstæðisbaráttu Íslands. Allir aðrir flokkar eru beggja handa járn og tvöfaldir eða þrefaldir í roðinu þegar að evrópubandalaginu kemur. Sjáið bara sinnaskipti Steingríms J. og VG apparatinu hans. Þvílík stefnufesta !

Þessi ríkisstjórnarræfill endist svona 12 mánuði , þá kemur Sjálfstæðisflokkurinn aftur sterkur inn til bjargar landi og þjóð !


Þökk fyrir Þorvaldur Gylfason.

Mig langar að þakka Þorvaldi Gylfasyni prófessor fyrir hans fallegu grein um Þórir Baldvinsson arkitekt í Baugstíðindum í dag. Það hlaut að vera að í penna hans Þorvaldar  leyndist einhver neisti frá föður hans dr. Gylfa Þ. Gíslasyni, sem var einn besti kennari sem ég hef nokkru sinni haft og góður vinur minn ævilangt.

Mér þótti þetta stórkostleg upplyfting frá evrópusteypunni sem prófessor Þorvaldur hrærir sínkt og heilagt og í svo miklum mæli að ég var farinn að halda að hann kynni bara ekkert annað. En það er öðru nær , þessi grein var frábær og tilfinningaþrungin. Pabbi hans hefði einmitt getað skrifað svona um látinn heiðursmann, sá góði maður sem hann var.

Til hamingju Þorvaldur með að líkjast þarna föður þínum. Ég vildi að ég ætti eftir að sjá þessa súlu með dansmeynni en það er nú fremur ólíklegt héðan af.


Sjálfstæðisflokkurinn séður utan og innanfrá.

Þeir láta oft mest af Ólafi kóngi sem hvorki hafa heyrt hann né séð. Svo var mælt eitt sinn.

Það er mikill fjöldi fólks í þessu landi, sem eru sérfræðingar í Sjálfstæðisflokknum, illu innræti hans og þeim föntum sem þar ráða ríkjum og kújónera alla flokksmenn til hlýðni við sig. Ég skelli stundum uppúr við að lesa spekina. 

Það er klifað á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé klofinn í afstöðunni til ESB. Það eru ekki einhver fjöldi ESB andstæðinga innan Sjálfstæðisflokksins sem sætir þar illri meðferð flokkseigendanna. Heldur er það bara flokkurinn sjálfur að miklum meirihluta til sem hefur svo mikla elsku til þessa lands okkar og sjálfstæðis þess, að hann vill ekki fela það hvorutveggja öðrum þjóðum til varðveislu.  Svo einfalt er það.

Sjálfstæðisflokkurinn trúir því upp til hópa, að Íslendingar séu manna hæfastir til að hafa forræði allra okkar mála. Og flokkurinn sjálfur hefur aldrei verið lengi fjarlægur þjóðarhjartanu, svo mikið er víst. Og krötunum er velkomið að fara í þjóðaratkvæði uppá það.

Flokkurinn var líka stofnaður til öflunar og varðveislu sjálfstæðis landsins og ólíklegur til þess á virðulegum aldri að kúvenda í þeirri afstöðu. 

Það eru hinsvegar uppi  mjög misjafnar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins um kvótakerfið og aðrar fiskveiðistjórnunaraðferðir. Ég hef sjálfur verið í bullandi minnihluta til þessa og ekki fengið neinu breytt. Því er sem er. En ég hef mínar skoðanir fyrir því.  Kvótinn hefur unnið mein og bót líka sem ég verð að viðurkenna.  Við höfum eignast heimsfyrirtæki í fiskvinnslu og útgerð. Sem auðvitað svo sitja yfir hvers manns diski og drepa flest niður í kringum sig, jafnvel  með lygum og svikum eins og yfirlýsingin um gulu Gugguna sýndi best. 

Þessi Sjálfstæðisflokkur verður áttræður á þriðjudaginn kemur. Mér skilst að það eigi að gefa kaffi og kleinur í valhöll í tilefni dagsins. Það verður gaman að sjá hvort nokkur þorir að koma.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei breytt einum stafkrók í þeirri stefnuskrá sem  lögð var fram  á stofndegi.  Hann hefur aldrei skipt um nafn og breytt sér í sameiningarflokk eða einhverja nýmóðins fylkingu né farið á einhverju bláu ljósi með öðrum flokkum landið. Hann er bara hann sjálfur.Fór um allt landið í vetur og ræddi ESB við hvern sem vildi það. Gerði Samfylkingin eitthvað mí þá veru ?

Hann er bara gamli Sjálfstæðisflokkurinn með kostum og göllum. Opinn fyrir þér og mér. Komi þeir sem koma vilja og fari þeir sem fara vilja. Berstu fyrir þeim skoðunum sem þú hefur innan flokksins og enginn frýr þér vits né áræðis.  En berðu líka virðingu fyrir öðrum skoðunum og hlauptu ekki fyrir borð um leið og blæs á móti. Flokkur er nefnilega aðeins fólkið sem er í honum.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einokaður af einhverjum klíkum eða flokkseigendum eins og andstæðingarnir klifa á vegna ókunnugleika eða í áróðursskyni .

Vissulega mælist oft öðrum betur á málþingi en manni sjálfum og þeir ná því meiri athygli. Auðvitað er maður sjálfur miklu klárari en meirihlutinn á bak við tjöldin.  En því miður vinna  oft heimskra manna ráð og gefast því verr sem fleiri koma saman..

 En þannig er bara lífið.


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband